Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Skrifa Moggaritstjórar hugsanir Þórs Sigfússonar?

Hér er á ferðinni ein stórlega gölluð frétt hjá Mogganum, því miður. Með öðrum orðum er ekkert í fréttinni sjálfri sem réttlætir fyrirsögnina. Hvergi í fréttinni kemur nefnilega fram að fjölmiðlakóngurinn styðji framboð McCain og Palin. Ekki nema fyrir liggi að leiðarahöfundar New York Post endurspegli óhjákvæmilega afstöðu eiganda síns - sem á alls ekki að vera sjálfgefið.

Fyrirsögnin fullyrðir að Murdoch (sá hættulegi einokunarsinni) styðji McCain (þótt hann hafi stutt Obama gegn Clinton). Í fréttinni er hins vegar hvergi vitnað í slíka yfirlýsingu frá honum. Það er hins vegar vitnað í slíka yfirlýsingu í leiðara fyrrnefnds blaðs í eigu Murdoch.

Allir þeir, sem leggja áherslu á og vilja virða sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum sínum hljóta að gretta sig yfir þessum trakteringum. Skrifa leiðarahöfundar Moggans kannski eingöngu í samræmi við skoðanir eigenda sinna eða hafa þeir sjálfstæðar skoðanir sem stundum eru á skjön við skoðanir eigenda blaðsins? Ef Moggamenn skrifa bara í samræmi við vilja eigenda blaðsins þá er það nýtt fyrir mér. Get ég þá bókað að leiðarar Moggans séu í raun afstaða Forsíðu ehf, Útgáfufélagsins Valtýs hf og Björns Hallgrímssonar ehf, sem saman eiga yfir 60% í Mogganum? Endurspegla leiðarar Moggans í raun afstöðu Þórs Sigfússonar stjórnarformanns, Stefáns P. Eggertssonar varaformanns og kannski Kristins Björnssonar meðstjórnanda og fyrrum (?) olíumógúls?

Ekki það að ég efist um að milljarðamæringur og einokunarsinni eins og Murdoch styðji það framboð sem er hverju sinni lengst til hægri. Það bara segir ekkert um það í fréttinni. Fyrirsögnin væri réttari: "Leiðarahöfundar New York Post, sem er í eigu fjölmiðlakóngsins Murdoch, styðja McCain". Of löng fyrirsögn, ég veit það, en réttari.


mbl.is Murdoch styður framboð McCain og Palin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nefndir Alþingis opna sig fyrir almenningi

Þingmenn eru nú að ræða um stóriðju og virkjanir.Viðhengd frétt, um stuðning ríkisstjórnarinnar við álverið á Bakka, er einna merkilegust fyrir þær sakir að þar er hvergi minnst á Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra, "grænasta" ráðherra ríkisstjórnarinnar. Lesandinn verður þá að gera ráð fyrir að Þórunn sé líka stuðningsmaður álversins, sem getur svo sem vel verið, en kemur þá áreiðanlega ýmsum á óvart.

Ekki kemur fram hvort Þórunn hafi verið fjarstödd viðkomandi utandagskrárumræðu eða einfaldlega ekki tekið til máls. Vitað er að einstakir ráðherrar hafa mjög ólíkar áherslur í þessum efnum og er ég viss um að fleiri en ég spyrji: "En hvað með Þórunni"? Hugsanlega vill hún ekki tjá sig opinberlega um afstöðu sína til álversins til að gera sig ekki vanhæfa ef og þegar kemur til úrskurðarmála síðar, en slík sjónvarmið hafa hins vegar ekki stöðvað ráðherrann frá eindreginni afstöðu gegn öðrum verksmiðjuáformum, um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.

Annars ætlaði ég miklu heldur að tjá mig um merkilega frétt á bls. 12 í Mogganum (pappírsútgáfu) í dag, en hana fann ég ekki hér á mbl.is. "Starfið í þingnefndunum opnað" segir í fyrirsögn og fram kemur sú tímamótaákvörðun að opna eigi fundi fastanefnda þingsins fyrir fjölmiðlum og almenningi. Raunar bara suma fundina og eftir geðþótta nefndarmanna, en mikilvægt skref hefur verið stigið engu að síður. Þingnefndafundir hafa fram að þessu farið fram fyrir luktum dyrum (stundum með fjölmiðlamenn hangandi fyrir utan). Nú er komin upp sú velþegna stefna að "almenningur hafi aðgang að meðferð mála hvað nefndirnar varðar" (segir Sturla Böðvarsson forseti Alþingis). Ég fagna þessari opnun, en vænti þess að allir eða flestir nefndafundir verði opnir. 


mbl.is Stjórnin styður álver á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Fyrrum) ritstjóri í valdsmannslegum vanda

Guðjón FriðrikssonÞað er ekki gott að vera Matti Joh í dag. Þessi fyrrum Moggaritstjóri er að birta gamlar dagbækur sínar á Netinu og þær virðast uppfullar af misáreiðanlegu slúðri. Og sýna ekki fyrst og fremst daglegt amstur ritstjóra heldur plottfundi og samtöl valdsmanns í samfélaginu. Meðal annars upplýsir Matti að Geir Hallgrímsson heitinn fyrrum forsætisráðherra hafi viljað gera Styrmir Gunnarsson Moggaritstjóra að formanni Sjálfstæðisflokksins!

Aftur á móti fjallar viðhengd frétt um ömurlega útreið Matta vegna dagbókarskrifa hans um Guðjón Friðriksson, þar sem Matti virðist hafa tileinkað sér einhverja slúðurkenningu um að Guðjón hafi farið illa með nemanda sem skrifaði ritgerð um Matta og ljóðin hans. Frásögn Matta virðist vera uppspuni frá rótum og Matti trúað því of auðveldlega að Guðjón hafi verið að "dissa" hann og ljóðin hans. Viðkomandi (fyrrum) nemandi getur ekkert staðfest af því sem Matti skrifaði og Guðjón virðist hvergi hafa komið nærri málum. Guðjón var hafður fyrir rangri sök.

En Guðjón gerir ólíkt Matta ekki of mikið úr sjálfum sér og "sættist" við fyrrum ritstjórans með því að fá að skrifa athugasemd við dagbókarfærsluna, raunar eftir að Matti baðst afsökunar. Kannski er það besta lausnin, nú þegar fyrir liggur og fólk veit að dagbókarfærslunum þarf að taka með fyrirvara.

Eðlilega kemur til umræðu hvort Matti hafi með þessari og fleiri birtum dagbókarfærslum sínum gengið í berhögg við siðareglur blaðamanna. Það er hægt að færa gild rök fyrir því að svo sé. Hins vegar sýnist mér vandséður tilgangurinn með því að láta á það reyna frammi fyrir siðanefnd. Aftur á móti eru fengin ágæt skólabókardæmi í þessu og fleiri dagbókartilvikum Matta Joh um áreiðanleika, traust og trúnað.


mbl.is Matthías Johannessen: Málið er úr sögunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritstjórar eða stjórnmálamenn - það er spurningin

Alltaf er betur og betur að koma í ljós að fyrrum ritstjórar Morgunblaðsins til fjölmargra ára, Styrmir og Matthías, voru að minnsta kosti í jöfnum mæli ritstjórar og pólitíkusar. Í stað þess að vera varðhundar almennings gagnvart stjórnmálamönnum (eins og fjölmiðlungar eiga gjarnan að vera) voru þeir ekki síður varðhundar valdsins og gerendur í stórum og smáum málum.

Hvað voru menn eins og Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson og Svavar Gestsson að gera á skrifstofum ritstjóranna og bera þar fram slúður og sleggjudóma sína? Ekki var það til að koma einhverju fréttnæmu á framfæri, því ekki var skrifað um það sem Matti nú segir frá. Eða hvað?

Dagbækur Matthíasar eru án efa forvitnileg lesning, en ekki sagnfræði. Sjálfsagt er þetta skemmtilegra en hans að mínu mati hrútleiðinlegu ljóð. En ef ég leggst í að lesa þetta, sem ég sjálfsagt verð að gera tilneyddur, þá les ég þetta ekki sem dagbók fjölmiðlamanns, heldur sem pólitískar bollaleggingar. Og tek innihaldinu með viðeigandi fyrirvara.


mbl.is Svavar dregur dagbækur í efa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfleikur: Kastljós sýknað - spá mín rétt

 Það er gleðilegt fyrir tjáningarfrelsið og fyrir blaða- og fréttamennskuna sem fag að Kastljós hafi í dag verið sýknað í máli því sem ég kenni við Jónínu Bjartmarz. En ekki ætla ég þó að vera með of stórar ályktanir að sinni, því vafalaust fer málið fyrir Hæstarétt. Hvað spádóm minn um sýknu varðar er ég þó altént yfir í hálfleik.

 Ég fjallaði um þessa málshöfðun fyrir nokkru og spáði sýknu (hér). Undirréttardóminn má finna á þessari slóð. Hér á eftir fara valdir kaflar úr undirréttardóminum:

"Viðurkennt er að hlutverk fjölmiðla sé m.a. að veita stjórnvöldum aðhald og fjalla um mál ef grunur leikur á að misfarið sé með vald í þjóðfélaginu. Er enda óumdeilt að fjölmiðlar hafi verulegt svigrúm til umfjöllunar um menn og málefni líðandi stundar. Hæstiréttur hefur í dómum sínum staðfest (m.a. í dómum Hæstaréttar í málum nr. 278/2006 og nr. 541/2005 (nr. 278/2006 (,,Bubbi fallinn“), nr. 541/2005 (Jónína Benediktsdóttir gegn 365)), að málefni sem talin eru varða almenning og geta talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu, eigi rétt á fréttaumfjöllun í fjölmiðlum. Almennt er viðurkennt að þeir sem fara með áberandi og ábyrgðarmikil trúnaðarstörf í þjóðfélaginu, svo sem stjórnmálamenn, verði að þola vissa fjölmiðlaumfjöllun en þó með þeim takmörkunum að ekki verði gengið nær einkalífi þeirra en óhjákvæmilegt er í opinberri umræðu um málefni er almenning varða. Jónína Bjartmarz, móðir stefnanda Birnis, var ráðherra í ríkisstjórn Íslands er umfjöllunin átti sér stað".

"Ekkert er fram komið er bendir til þess að stefndu hafi ekki unnið úr þeim upplýsingum, er þau höfðu undir höndum, með vönduðum hætti. Þrátt fyrir að vissar upplýsingar um málið hafi ekki verið réttar í upphafi voru leiðréttingar gerðar á síðari stigum umfjöllunarinnar og þessar misfellur högguðu ekki fréttagildi málsins".... "Umfjöllun Kastljóss vegna umsóknar stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt var málefni sem átti erindi til almennings og hafði fréttagildi. Óhjákvæmilegt var í þágu úrvinnslu fréttaefnisins að fram kæmu upplýsingar um persónulega hagi stefnanda Luciu.  Að því er varðar myndbirtingu umsóknarinnar í Kastljósi hinn 30. apríl 2007 þá verður að telja eðlilegt í ljósi framvindu málsins og í kjölfar viðtals í Kastljósi við Jónínu Bjartmarz að fram kæmi á hvaða grundvelli umsókn Luciu um íslenskan ríkisborgararétt væri reist. Verður ekki talið að með myndbirtingu umsóknarinnar, eins og hún var sýnd í Kastljósi, og umfjöllun um hana, hafi verið gengið nær einkalífi stefnenda en þörf var á í opinberri umræðu um málefni sem varðaði almenning".

"Nægar ástæður voru fyrir hendi er réttlættu þessa umfjöllum um  efni sem tengdist meðferð og afgreiðslu allsherjarnefndar á veitingu ríkisborgararéttar. Verður fallist á með stefndu að umfjöllunin í garð stefnenda hafi ekki gengið lengra en nauðsyn bar til.  Er þá litið til þess að um var að ræða opinbera umræðu um málefni sem varðaði almenning.  Eru því engin skilyrði til þess að dæma stefndu til refsingar samkvæmt 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga".

"Stefndu, Páll Magnússon, Helgi Seljan Jóhannsson, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Sigmar Guðmundsson og Þórhallur Gunnarsson, skulu vera sýkn af kröfum stefnenda, Luciu Celeste Molina Sierra og Birnis Orra Péturssonar, í máli þessu".


mbl.is Starfsmenn Kastljóss sýknaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gettu betur - hver verður forstjóri Landspítalans?

CIMG1429Hér með efni ég til spádómskeppni og heiti 5.000 króna verðlaunum. Sá sigrar sem giskar rétt á hver verður ráðinn/skipaður nýr forstjóri Landspítalans Háskólasjúkrahúss (LSH).

Að sönnu ekki há verðlaunaupphæð, en ég er fremur tekjulítill sem stendur - og aðalvinningurinn er auðvitað að sigra. Ef fleiri en einn koma með rétt svar verður dregið úr réttum svörum. Þátttakendur eru og beðnir um rökstuðning fyrir spá sinni (má vera stuttur). Verður það læknir eða embættismaður? Verður það núverandi starfsmaður eða utanaðkomandi? Verður það kona eða karl? Verður það samflokksmaður heilbrigðisráðherra eða annars flokks/ópólitískur? Verður það einkavæðingarsinni eða hollvinur almannaþjónustunnar?

Koma svo! Þau sem sóttu um eru:

Anna Lilja Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Landspítala.

Anna Linda Bjarnadóttir, sjálfstætt starfandi lögmaður.

Björn Zoëga, starfandi forstjóri Landspítala.

Stefán E. Matthíasson, læknir, sjálfstætt starfandi sérfræðingur.

Eydís K. Sveinbjarnardóttir, sviðsstjóri Landspítala.

Guðmundur Björnsson, læknir, meðeigandi og stjórnarformaður Janus-endurhæfingar.

Helgi Þorkell Kristjánsson, aðstoðardeildarstjóri innkaupadeildar Icelandair Tech. Services.

Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Aker-háskólasjúkrahússins í Ósló.

Kristján Oddsson, yfirlæknir stjórnsýslusviðs landlæknisembættisins.

María Heimisdóttir, sviðsstjóri Landspítala.

Már Kristjánsson, sviðsstjóri lækninga-, slysa- og bráðasviðs Landspítala.

Ragnheiður Haraldsdóttir, sviðsstjóri í heilbrigðisráðuneytinu.

Sjöfn Kristjánsdóttir, læknir, sjálfstætt starfandi sérfræðingur.

Valgerður Bjarnadóttir, sviðsstjóri Landspítala.

 

Úrslit 29. ágúst 2008: Heilbrigðisráðherra hefur valið Huldu "Þá Norsku" Gunnlaugsdóttur til starfans. Hulda fékk af 23 gildum atkvæðum hér flest atkvæði eða 8. Ég er búinn að draga milli þeirra sem giskuðu rétt og upp úr hattinum kom nafn Ingvars Guðmundssonar. Honum er velkomið að rukka mig um vinninginn. Mér er hugstæðari vinningur eða tap spítalans og sjúklinganna, en það á eftir að koma í ljós!


mbl.is 14 sóttu um starf forstjóra LSH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna rokkar - hennar tími er kominn

Að fylgi Samfylkingarinnar aukist um 5% á sama tíma og fylgi Sjálfstæðisflokksins dragist saman um 6% eru stórmerkileg tíðindi. Að vísu kemur ekki fram hvenær könnun Fréttablaðsins var framkvæmd, en mér sýnist að það megi gefa sér að mesti áhrifavaldurinn hafi verið nýjustu aðgerðirnar með Jóhönnu Sigurðardóttur og íbúðalánin í forgrunni. Áður hefur komið fram að Jóhanna er langvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Jóhanna er því að gera það gott og augljóst að hvíslingar/orðrómur um að Samfylkingin hafi ætlað að skipta henni út í ráðherrauppstokkun á miðju kjörtímabili hlýtur að byggja á veikum grunni og sé þá alltént í endurskoðun. Það virðist beinlínis út í hött að kasta frá sér trekkjaranum Jóhönnu Sigurðardóttur.

Með Samfylkinguna í uppsveiflu og Sjálfstæðisflokkinn í niðursveiflu skilur maður ögn betur hróp Kristjáns Þórs Júlíussonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins um að menn "láti ekki rúlla yfir sig endalaust" (sjá færslu hér fyrr). Sjálfstæðisflokkurinn er eðlilega óvanur því að vera samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn sem tapar meðan hinn græðir. Reglan er að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins hrynji en ekki öfugt.

Að öðru. Það er sunnudagur og það er messutími. Las í gær með velþóknun frétt um aukið umfang borgaralegu samtakanna Siðmennt, sem framkvæmir nú æ fleiri "athafnir"; nafngiftir, giftingar, útfarir og kannski fleira. Það hlýtur að koma að því bráðum að Siðmennt auglýsi borgaralega messu (guðlausa guðþjónustu!). Ekki er ég trúleysingi og ekki félagi í Siðmennt, en fagna mjög að fólki bjóðist valkostir Siðmenntar um borgaralegar athafnir. Og ég er viss um að þessa dagana aukist fylgi lífsskoðanafélagsins Siðmenntar. Amen.


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar í könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Svarthöfði þá "Idol" trúleysingja?

 Svarthöfði vakti kátínu nærstaddra ferðamanna og sat fyrir...

Það uppátæki trúleysingjanna í Vantrú, að láta "Svarthöfða" (úr Star wars) marsera kolsvartan og illúðlegan á eftir skraut- og kjólklæddri skrúðgöngu þjóðkirkjupresta, var auðvitað fyrst og fremst bráðfyndið og meinlaust grín. Hinir geistlegu verða að geta tekið svona gríni, enda verða þeir að viðurkenna að þessi skrautkjólasýning er í nútímanum... segjum skopleg.

En spurningar vakna um leið hvort lesa megi eitthvað sérstakt og annað en grín út úr uppátæki trúleysingjanna. Hvert er svarið við spurningunni: Af hverju Svarthöfði? Af hverju þessi kolsvarti og grimmi fulltrúi illra afla Stjörnustríðanna?

Jú, jú, þarna vafra skrautklæddir prestar og biskupar um í kjólum, með skrítna kraga og annað pjatt og punt, þeir ganga um með mismunandi djúpan hátíðar- og helgislepjusvip og þar er aðallega verið að halda í heiðri gamlar hefðir - "kristna arfleifð". En ef frá eru taldir stöku geistlegir menn, sem hóta á stundum helvítisvist í brennisteinsfnyki, þá eru prestarnir og biskuparnir almennt og yfirleitt góðir menn og konur, sem vilja vel. Ekki einu sinni "Svartstakkarnir" í Þjóðkirkjunni geta í alvöru talist "harðir" og hótandi (sumir, kannski). Pjattið og puntið er vel meint þótt gamaldags og úr sér gengið sé. Á milli mismunandi yfirdrifinna embættisverka eru prestarnir og biskuparnir fyrst og fremst venjulegir og oftast vel yfir meðallagi góðir og hjálplegir borgarar.

En af hverju er Svarthöfði Stjörnustríðanna mótvægi trúleysingjanna í gríninu? Er ekki hætt við að þegar hláturinn þagnar þá standi Svarthöfði eftir sem ímynd eða "Idol" trúleysingjanna í Vantrú? Ótvíræður fulltrúi illra afla? Andskotans í neðra? Er ekki hætt við því að Svarthöfði verði "lógó" trúleysingja, svona óvart, í hugum margra?

Trúleysingjar segja stundum að trúaðir dýrki draug eða drauga-þrenningu reyndar. Þegar kirkjuþing kemur saman í haust eiga trúleysingjarnir frekar, í áróðursskyni, að senda draug á vettvang. Til dæmis hinn góða Casper. Þeir (ég er ekki á meðal þeirra) vilja væntanlega ekki að eftir standi, að þegar fólk hugsar um trúleysi þá komi hinn illi Svarthöfði upp í hugann, er það?


mbl.is Svarthöfði vakti lukku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálshyggjuvæðing heilbrigðismála brátt fullkomnuð

Margt ágætt má um Benedikt Jóhannesson segja og vissulega má gera umbætur i heilbrigðis og tryggingageirum landsins. En frjálshyggjuáherslan er orðin æpandi, að minnsta kosti í eyrum jafnaðarmanna.

Ákveðið hefur verið að Benedikt Jóhannesson, formaður stjórnar sjúkratryggingastofnunar sem tekur til starfa í haust, verði starfandi stjórnarformaður stofnunarinnar uns forstjóri hefur verið skipaður.

I ríkisstjórn með aðild Samfylkingarinnar eru forystumenn heilbrigðismála Guðlaugur Þór Þórðarson, Árni Mathiesen, Vilhjálmur Egilsson, Ásta Möller, Petur Blöndal og Benedikt Jóhannesson. Nu vantar bara að bæta Hannesi Hólmsteini í hópinn. Þá er frjálshyggjuvæðing þessarar almannaþjónustu fullkomnuð.


mbl.is Benedikt starfandi stjórnarformaður sjúkratryggingastofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjáningarfrelsið og trúarbrögðin

Þegar ég á sínum tíma varði birtingu Jótlandspóstsins á Múhammeðs-teiknimyndunum fékk ég sterk viðbrögð frá fólki sem taldi að ég væri á móti Múslimum og Íslam. Ég reyndi að útskýra mikilvægi tjáningarfrelsisins og trúfrelsisins og mikilvægi þess að stjórnvöld ritskoðuðu ekki frjálsa fjölmiðla, en það gekk bara svona og svona.

Kannski að samskonar boðskapur gangi betur í vandlætarana ef hann kemur frá dönskum heimspekingi? Ég vil altént gera orð Lars Grassme Binderup að mínum. meðal annars eftirfarandi:

"... Tjáningarfrelsið sé hins vegar svo mikilvægt að alls ekki megi setja því skorður til að hindra menn í að gagnrýna og jafnvel hæða trúarbrögð. Íbúar í lýðræðissamfélagi verði að sætta sig við að andstæðingar trúarbragða beiti oft harkalegum aðferðum, aldrei megi sætta sig við að hótað sé ofbeldi til að þagga niður í slíkum röddum. Auk þess ýti það undir tortryggni í garð minnihlutahópa ef þeim sé tryggð vernd gegn móðgunum gagnvart trú þeirra, fremur en t.d. kristnum. Hvaða hópur sem er geti þá í raun gengið á lagið, einnig guðleysingjar, og fullyrt að eitthvað í málflutningi annarra særi þá og þess vegna verði að setja honum skorður".


mbl.is Megum hæða trúarbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband