Ritstjórar eða stjórnmálamenn - það er spurningin

Alltaf er betur og betur að koma í ljós að fyrrum ritstjórar Morgunblaðsins til fjölmargra ára, Styrmir og Matthías, voru að minnsta kosti í jöfnum mæli ritstjórar og pólitíkusar. Í stað þess að vera varðhundar almennings gagnvart stjórnmálamönnum (eins og fjölmiðlungar eiga gjarnan að vera) voru þeir ekki síður varðhundar valdsins og gerendur í stórum og smáum málum.

Hvað voru menn eins og Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson og Svavar Gestsson að gera á skrifstofum ritstjóranna og bera þar fram slúður og sleggjudóma sína? Ekki var það til að koma einhverju fréttnæmu á framfæri, því ekki var skrifað um það sem Matti nú segir frá. Eða hvað?

Dagbækur Matthíasar eru án efa forvitnileg lesning, en ekki sagnfræði. Sjálfsagt er þetta skemmtilegra en hans að mínu mati hrútleiðinlegu ljóð. En ef ég leggst í að lesa þetta, sem ég sjálfsagt verð að gera tilneyddur, þá les ég þetta ekki sem dagbók fjölmiðlamanns, heldur sem pólitískar bollaleggingar. Og tek innihaldinu með viðeigandi fyrirvara.


mbl.is Svavar dregur dagbækur í efa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála að þessu ber  að taka með töluverðum fyrirvara. Dagbók er jú ekkert annað en einkaskrif einstaklings og geta seint talist sterkar heimildir.

Kjartan (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 11:55

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ekki gleyma, að lengst af voru dagblöð á Íslandi flokkspólitísk.

"Morgunblaðið, Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið".

Ragnhildur Kolka, 19.8.2008 kl. 12:08

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Auðvitað er ég fyllilega meðvitaður um flokksmálgagnatímann, Ragnhildur. En 1998 voru mörg ár liðin frá því að Morgunblaðið kvaðst hafa sagt skilið við slíkt og væri ekki málpípa Sjálfstæðisflokksins (en þó sjálfstæðisstefnunnar í leiðurum og slíku).

p.s. ég sé pínulítið eftir því að hafa blandað hrútleiðinlegu ljóðunum inn í þetta. Sorrý. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.8.2008 kl. 12:40

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er fyrst og fremst ógeðfellt að lesa um þetta valdabrask og leynimakk. Að Matthías skuli vera að setja þetta á netið finnst mér lýsa bara tilfinningu hans fyrir eigin mikilvægi. Hann er að sýna að hann hafi verið i innsta hring að stjórna valdinu og ráðskast þar með líf fólks. Fattar ekkert hvað öðrum finnst það ógeðfellt. Svo var framhlið blaðsins allt öðru vísi. Ekkert er aumara en svona baktjaldamakk og þetta á ekki erindi til almennings og menn ættu bara að láta eins og þetta hefði ekki birst en ekki áta svona mikið með þetta.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.8.2008 kl. 12:43

5 identicon

Allar frásagnir manna á að taka með fyrirvara, þess vegna les ég helst aldrei endurminningabækur og saldan ævisögur, þá helst að viðkomandi hafi verið dauður í 400 ár.

Undantekningarnar eru Halldór eftir Hannes Hólmstein og ævisaga Guðna í Sunnu eftir einhvern ágætan sagnfræðing. Fyrri bókina til að átta mig á persónuleika Skáldsins og þá síðar vegna samtals við Guðna sem ég hlustaði á í Silfri Egils. Báðar bækurnar eru ómetanlegar heimildir um menn og tíma. 

Okkur greinir á um ljóðin.

ragnhildurkolka (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 13:04

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég læt vera að segja álit mitt á því hvað sé að marka Hannes sem heimild um persónuleika skáldsins.

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.8.2008 kl. 15:25

7 identicon

Þar hefur þú rangt fyrir þér, því það eru bréf Skáldsins sem segja alla söguna.

ragnhildurkolka (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 15:48

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sé ekki að ég hafi rangt fyrir mér. Sagði enda ekkert ("læt vera að segja álit mitt..."). Bréf skáldsins eru ekki Hannes sem heimild.

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.8.2008 kl. 16:44

9 identicon

Sigurður Þór hittir naglann á höfuðið eins og oft áður. Eins og raunar kom margoft kom fram í ritstjórnargreinum og Reykjavíkurbréfum ritstjóranna, þá töldu þeir sig komna í þá stöðu í þjóðfélaginu að geta sagt fyrir um hvað væri rétt og hvað rangt, þeir væru einhverskonar yfirdómsvald í öllum málum, hvað sem þau hétu. Dagbókarpistlar Matthíasar eru ekkert annað en fánýtt sjónarspil gamals manns sem vill láta minnast sín í sögunni sem þess einstaklings, sem í raun stjórnaði öllu bak við tjöldin. Ja, sveiattan.

Vomurinn (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 07:46

10 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Eru ekki sumir ritstjórar og blaðamenn enn fulltrúar pótískra afla? Hverjir tóku til dæmis þátt í því að aðstoða við að hanna atburðarrásina síðustu í ráðhúsinu?Og hverjir eru nú að þrýsta á að Alkóa og Alkan komist til enn meiri áhrifa á íslandi?Og hverjir hella ruglandi bulli yfir þjóðina daginn út og inn sem er líka pólitík -bara í dularbúningi?

María Kristjánsdóttir, 20.8.2008 kl. 07:52

11 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Engum vafa er undirorpið að ritstjóri/-stjórar Morgunblaðsins eru með valdameiri mönnum í íslensku samfélagi á hverjum tíma, beint og óbeint. Enda hafa Moggastjórar löngum verið umdeildir fyrir bragðið.

En hvers vegna hefur ekki allt orðið vitlaust í kjölfar forspár Þorsteins Pálssonar um meirihlutaskiptin í Ráðhúsinu? Vekur Fréttablaðið ekki sömu minnimáttarkomplexa hjá fólki og Mogginn gerir? Ákveðnir aðilar hefðu aldeilis farið á samskeytunum ef ritstjóri Moggans hefði sagt fyrir um þessar umbreytingar degi fyrr; "Alltaf eru Moggamenn að véla um líf okkar og tilveru! Arrgghh!!!"

Eða var ritstjóri Fréttablaðsins bara að giska? Er hann ekki jafn innmúraður og vel upplýstur og ritstjóri Moggans allajafna? (Skrifað með kaldhæðnitón - Þorsteinn Pálsson er jafnvel tengdur og hver sem er, og engin spurning að hann vissi hvað klukkan sló).

Jón Agnar Ólason, 20.8.2008 kl. 11:52

12 identicon

Ég efast um að ég hafi geð á að lesa meira en ég hef þegar gert. Ég er alveg sammála þér að hann hefði í sumum tilfellum haft ástæðu til þess að skrifa um þessa hluti á sínum tíma. En spurningin er hvaða erindi svona stefnulaust slúður á yfirleitt.

Ég get ekki varist þeirri hugsun að viss siðblinda valdi því að hann setur þetta fram núna. Þá segir það nú heilmikið um Matthías að hann skuli hafa átt þátt í meintum samtölum (að hans sögn).

Ég held ekki að þarna séu á ferðinni elliglöp eins og sumir vilja halda fram, heldur séum við bara að fá innsýn í hugarheim þessa gamla ritstjóra. Og hann er ekki fagur.

sandkassi (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 10:33

13 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Þessi skrif Matthíasar eru að mér virðist vera fyrsta opnunin á siðspillingu íslenskra stjórnvalda allt frá stofnun lýðræðisins 1944 en þá stálu Íhaldsmenn því.

Mál er að upp komist um vélbrögð stjórnvalda allt til okkar tíma 2008. Ég fagna öllum upplýsingum varðandi spillinguna hérna og skora á hvern og einn sem býr yfir upplýsingum, stórum og smáum að koma þeim á framfæri hérna á blogginu.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 22.8.2008 kl. 17:09

14 identicon

já....allur er varinn góður og tek ég ekki mikið mark á þessum texta Matthíasar. Þarna er allt fullt af munnmælum og slúðri. Sumt af þessu er ósmekklegt en annað hrein fantasía, nema þá að hann geti fengið frásagnir sínar staðfestar. Þangað til er hér skáldskapur á ferðinni.

Ég hef heyrt menn segja að skrif hans séu til komin af sektarkennd yfir því að beinlínis sitja á upplýsingum á sínum tíma. Eigi skal ég taka afstöðu til þeirrar kenningar. En þetta útspil hans er bara ekki til þess hannað að gera nein reikningsskil.

Ef að Matthías hefði hug á að leiðrétta mál sem voru í ólagi á sínum tíma. Jafnvel afbrot sem hann gefur í skyn á köflum. Þá ætti hann að fara með þau mál fyrir dómstóla, eða þegja ella, hann hefur allavega hlotið næga æfingu á því sviði að eigin sögn, svo mikið er víst.

sandkassi (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 02:29

15 Smámynd: Aron Ingi Ólason

Ég held að það sé því miður að dagblöð á íslandi séu ekki flokkspólitísk eins og áður var þar sem þá var hægt að hafa fyrirvara á því sem maður las og fólk þorði áð skjóta á báðaboga

Eftir farandi er hluti af kaldhæðinni færslu frá mér:

Á íslandi eru bestu fjölmiðlar í Heimi og er leitun ein af slíkum sannleika. Fjölmiðlarnir eru í eigu tveggja forríkra stórsamsteypa nema rúv en það á ríkið. Fjölmiðlar eiga margra hagsmuna að gæta og þar koma fremstir þeirra eigin. Allir fjölmiðlar íslendinga þrífast aðalega á auglýsingum sem einnig er ætlað til gróða. það hlýtur því hver heilvita maður að sjá að það er augljóslega til hagsmuna beggja aðila að auglýsingar séu birtar í auglýsinga vænu umhverfi. Fjölmiðlar þurfa einnig að reiða sig mikið á stjórnvöld og stór fyrirtæki til öflunar upplýsinga, Þeim reynist því oft frekar erfitt að gagngrína of mikið þá sem þeir reiða sig á að segja stöðugar fréttir og mæta reglulega til þeirra í viðtöl jafnvel þó að sá sé frekar nefstór. Hér á íslandi gerist oft í þágu almennings að stjórnmálamenn mæti ekki í viðtöl nema að þeim sé gefinn spurninga listi fyrirfram og í staðin fá fréttstofur hinsvegar að vita ýmsar lögleiðingar og annað slíkt á undan almenningi sem auðveldar fjölmiðlum auðvitað mikið störfin. Því passa fjölmiðlarnir vel upp á að segja Íslendingum ekki allan sannleikann um ísland því þeim gæti það líka sárnað. Um dagin stóð til dæmis í Mogganum að ísland væri Fjórtánda frjálsasta ríkið en slíkar fullyrðingar velta í raun algerlega á því hvernig frelsi er túlkað. Auðvitað er Ísland frjálsasta ríkið í heimi því ísland ein óspilltalandið sem fyrir fyns í heiminum. Auk þess birtast reglulega 100% marktækar kannanir með vafasömum úrtökum og auðvitað allt í þágu hinu frábæra kapítalismaríki.

Aron Ingi Ólason, 31.8.2008 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband