Draugarnir í heiðarselinu (lokahluti)

Leið nú nokkur stund og kom þá loksins Guðmundur Guðlaugsson og má nærri geta hversu fegin Kristín varð. Ekkert er um það vitað hvort sveitungar Kristínar lögðu trúnað á sögu hennar og sumir sjálfsagt afgreitt þetta sem illan draum eða ofsjónir.

Þegar ég komst í tæri við frásögn þessa kom mér fyrst í hug stolt yfir að hafa fundið þarna alvöru ættar-drauga. Á mig runnu tvær grímur við að lesa hversu snautlega þeir hrukku undan þegar píslin hún Kristín vísaði þeim út. Hefðu þeir að ósekju mátt brjóta eitt húsgagn eða tvö til að undirstrika yfirnáttúrlega nærveru sína. En þetta er aðeins grínaktugir þankar.  Hitt vekur meiri athygli mína að Guðmundur þessi Guðlaugsson er sagður hafa verið í náinni frændsemi við Neðranesfeðgana. Ekki kemur fram hvers konar frændsemi þar átti við, en hún sem sé sögð náin.  Hermundarstaðir voru 7-8 kílómetra frá Helgavatnsseli, sem var norðanmegin inni í Þverárdalnum langt til heiða. Þangað áttu yfirleitt engir aðrir en íbúarnir leið, nema þá fjárleitarmenn. Reyndar segist svo til að það sé aðeins sem næst hálfs annars tíma gangur lausum manni frá Hermundarstöðum að selinu, en á hinn bóginn var myrkur að skella á þegar Guðmundur hefur haldið af stað til Kristínar.

Ef menn vilja á annað borð trúa því að draugar séu til eða einhvers konar andar eða sálir á flakki, þá sýnist mér nærtækast að draga þá ályktun að Helgi og Ásmundur hafi ekkert erindi átt við Kristínu út af fyrir sig. Öllu eðlilegri skýringu væri að finna í náinni frændsemi þeirra við Guðmund. Það verður reyndar að taka það fram að ég hef ekki getað staðfest um hvers konar frændsemi var að ræða. En hvað um það, það kemur glögglega fram að Guðmundur var miklum mun seinni á ferð en til stóð og hefur hann ef til vill lent í einhverjum erfiðleikum í myrkrinu á leiðinni. Kannski voru feðgarnir frændur hans einfaldlega að fylgja honum þannig að hann kæmist heill á leiðarenda. Það er mér ekki fráhverft að tileinka mér þessa útgáfu, frekar en að þeir feðgar hafi fyrirvaralaust farið að hvekkja einmana kvenpísl upp á heiði, sem þeir áttu ekkert sökótt við!

Draugarnir í heiðarselinu (5. hluti af 6)

Þegar fram á vöku leið, án þess að Guðmundar yrði vart, þótti henni ekki lengur frestandi að fara í fjósið til þess að gefa kúnni og mjalta hana. En sem hún var að tygjast í fjósið, heyrðist henni bæjardyrahurðinni hrundið upp. Hvarflaði því þá fyrst að henni, að lokunni hefði verið illa rennt í kenginn, er Guðmundur gekk viðstöðulaust inn og varð henni í bili ekki til þess hugsað, hve öndvert það var góðum siðum, að hann kæmi þannig í bæinn eftir sólsetur, án þess að guða á glugga.

Þessu næst heyrðist henni gengið inn göngin nokkuð hvatskeytlega, og í næstu andrá, er borðstofuhurð hrundið upp. Birtast í gættinni tveir menn, sem hún þykist þegar kenna, og eigi góðir gestir í híbýlum heiðarbúanna. Voru þetta engir aðrir en hinir látnu Neða-Nes-feðgar, Helgi og Ásmundur sonur hans. Varð henni ærið hverft við þessa sýn, og litla stund mátti hún sig hvergi hræra. Var skelfing hennar slík, að henni lá við öngviti andspænis þessum óboðnu gestum. En brátt sigraði þó viljastyrkurinn.

Hún reis upp með yngsta barn sitt á handleggnum, gekk á móti komumönnum og kastaði á þá orðum. Ekki er í minnum, hvað henni varð á munni, enda hefur hún kannski ekki munað það glöggt eftir á. En brottu vísaði hún þeim heldur ómjúklega og skar ekki utan af. Við þetta hörfuðu gestirnir undan, en Kristín fylgdi þeim eftir fram göngin og allt að bæjardyrahurðinni, sem raunar var lokuð eins og hún vænti. Hurfu komumenn þar, en konan stóð eftir í myrkum göngunum. Setti þá að henni hræðslu svo megna, að hún varð að beita öllu, sem hún átti til, er hún sneri aftur til baðstofunnar, svo ofboð næði ekki tökum á henni."


Draugarnir í heiðarselinu (4. hluti af 6)

            Um það bil í 20 kílómetra fjarlægð í sjónlínu norðaustur frá Neðranesi var á þessum tíma heiðarbýlið Helgavatnssel í talsverðri einangrun upp á heiði. Þar bjuggu Jón Brandsson og kona hans Kristín Jónsdóttir. Hún var nokkru eldri en hann og ekki mikil fyrir mann að sjá, grönn vexti og gufuleg við fyrstu sín, en gekk ótrauð til verka og var seig þegar á reyndi. Þau fluttu í selið 1868, en þar hafði Jón áður búið með móður sinni.

Grípum aftur niður í frásögnina í Tímanum: "Jón átti erindi niður í sveitir að vetrarlagi og bjóst við að vera að heiman um nætur sakir. Var þá ekki fleira fólk í selinu en þau hjónin og börnin, og leitaði Jón á náðir Hermundarstaðafólks um liðveizlu eins og oft áður. Hafði svo talazt til, að Guðmundur Guðlaugsson (sonur bóndans á Hermundarstöðum - innskot FÞG), að menn ætla, skryppi frameftir til Kristínar og yrði hjá henni unz Jón kæmi heim. Benda líkur til þess, að þetta hafi verið veturinn 1876-1877, en þá var Guðmundur seytján ára gamall.            

Jón hóf ferð sína eins og hann hafði ráð fyrir gert, trúlega árla dags, og átti Guðmundur að komaupp að Helgavatnsseli, þegar á daginn liði. Kristín varð eftir með sonu sína þrjá, og mun hinn elzti, Brandur, þá hafa verið 10 ára, en Pétur, sem yngstur var, þriggja ára, ef rétt er til getið um árið. Sinnti hún verkum að venju, og leið svo fram dagurinn allt til rökkurs, að ekki bólaði á Guðmundi á Hermundarstöðum. Brátt færðist náttmyrkrið yfir heiðina. Skaut þá húsfreyja loku fyrir bæjardyrahurð, því að hún mun illa hafa kunnað einverunni eftir að kvöldsett var orðið.

Draugarnir í heiðarselinu (3. hluti af 6)

Árið 1967 birtist í Sunnudagsblaði Tímans frásögnin "Konan í heiðarselinu", sem byggði m.a. á ofangreindri heimild, sögn Guðjóns Jónssonar frá Hermundarstöðum og Árbók Ferðafélags Íslands 1953.  Hefst nú bein tilvitnun í hluta þeirrar Tímagreinargreinar, þótt það kosti nokkrar endurtekningar:

"... í Neðra-Nesi í Stafholtstungum hafði lengi búið bóndi, er hét Helgi Jónsson, sonur Jóns Jónssonar, sem um skeið bjó á Hofsstöðum, og Guðrúnar Helgadóttur frá Hafþórsstöðum í Norðurárdal. Hann var einn hinn efnaðasti bóndi í sveitinni, ráðsettur og gætinn, en nokkuð dulur og myrkur í skapi á köflum. Hann var leitarforingi Stafholtstungnamanna á afrétt og réttarstjóri löngum í Fiskivatnsrétt, vörpulegur maður og karlmenni hið mesta og svo vel íþróttum búinn, að hann var vart talinn eiga sinn jafningja um Borgarfjörð og þótt víðar væri leitað. Var mælt, að hann hefði stokkið yfir tíu álna breiða gröf alvotur, og í glímu stóðst honum enginn snúning.

 

                Helgi í Neðra-Nesi átti mörg börn með konu sinni, Katrínu Ásmundsdóttur, og voru þau uppkomin orðin upp úr 1860 (þetta er rangt - innskot FÞG). Hafði hann þá misst konu sína og hugðist festa ráð sitt að nýju. Nú gerðist það vorið 1866, er hann var á ferð sjóleiðis af Brákarpolli inn Borgarfjörð, að hann fékk aðsvif og féll útbyrðis. Náðist hann þó, en aðþrengdur mjög, og er mál manna, að hann yrði ekki samur eftir þetta. Hann gekk þó að eiga konuefni sitt í lok júlímánaðar um sumarið og var manna glaðastur í brúðkaupsveizlunni. En aðeins tólf dögum síðar hvarf hann. Hafði fólk tekið sér hádegisblund eins og þá var venja, en sjálfur gekk Helgi suður að Hvítá, kvaðst ætla að skoða slægjur og lézt myndi koma brátt aftur. Þegar fólkið vaknaði, var Helgi ókominn, og fór þá sonur hans einn, Ásmundur, að hyggja að honum. Gekk hann um stund með Hvítá, unz hann kom þar, sem Hörðuhólar heita. Sá hann þá orf föður síns í ánni, og var orfhællinn eða ljárinn fastur á steini. Þótti sýnt að Helgi hefði drukknað þarna, og kom upp sá kvittur, að hann hefði gengið í ána í þunglyndiskasti eða einhvers konar ráðleysu.

                 En ekki er ein báran stök. Rúmum tveim árum síðar, fám dögum fyrir jólin 1868, drukknaði Ásmundur, sonur Helga, efnismaður talinn og atgervi búinn, niður um ís á Þverá, og lék einnig orð á, að það hefði ekki með óvilja verið."

Draugarnir í heiðarselinu (2. hluti af 6)

Áður en greint er frá dauðdaga Helga Jónssonar er rétt að rifja upp lýsingu Helga Einarssonar dóttursonar hans á honum: "Var (Helgi) orðlagður um allt Suðurland á þeim tíma fyrir að vera bezti glímumaður og íþróttamaður, sem þá var uppi. Það er sagt um hann, að hann hafi stokkið yfir á eða læk við sjóinn, þegar hann kom þreyttur úr barningi og gat ekki lent heima hjá sér, en varð að ganga nokkuð langa leið. Hann stökk þetta allt í öllum skinnklæðum, eins og hann kom af sjónum, en enginn hefur treyst sér til að gera það síðan, ekki einu sinni lítið klæddur."

Í öðrum heimildum kemur einnig fram hversu mikill atgervismaður Helgi hefur verið. Þá er líka vert að hafa í huga að hann hafði kvænst konuefni sínu aðeins tæpum hálfum mánuði fyrir drukknun sína. Hann var orðinn vel efnaður á þeirra tíma og staðs mælikvarða. Neðranes var myndarbú, en bærinn stóð nokkurn veginn á sama stað og núverandi bær stendur, við Þverá, rétt um kílómetra frá þeim stað sem áin sameinast Hvítá.

Í "Annál 19. aldar", bls. 317-319 segir svo um málið: "9. ágúst gekk Helgi Jónsson, bóndi á Neðranesi í Stafholtstungum, suðurundir Hvítá. Þegar hann fór af stað, ætlaði fólkið að leggja sig fyrir um miðjan daginn, og sagði hann því, að hann ætlaði að skoða slægjur og koma brátt aftur og hélt hann á orfi sínu. Þegar fólkið vaknaði var Helgi eigi kominn, hugsaði það, að hann væri farinn að slá suður við ána og gekk sonur hans, Ásmundur, þegar þangað; hann sá þá föður sinn hvergi á engjunum, gekk hann þá fram með Hvítá upp fyrir Langholtsvað og þangað, er heita Hörðuhólar, þar er hylur í ánni og hringiða í hylnum, þar sá hann orf föður síns í ánni og hafði orfhællinn eða ljárinn fest sig við stein, en föður sinn sá hann hvergi. Töldu menn víst að hann hefði í þennan hyl farið, en hvernig það hefur atvikazt vita menn eigi. Um vorið var hann sjóveg á ferð af Brákarpolli, fékk hann þá aðsvif og féll í sjóinn, var hann mjög aðþrengdur, er hann náðist, og var haldið að hann hefði eigi orðið jafngóður síðan. Nú ætluðu menn að sama mundi hafa að borið, og hann annaðhvort hafa fallið í ána, þegar hann gekk með henni, eða að honum hefði komið einhver ráðleysa. Eigi vita menn að hann hafi sett nokkuð fyrir sig, enda voru heimilisaðstæður hans í öllu tilliti hinar æskilegustu og 28. júlí hafði hann kvænzt í síðara sinn og var þá glaður og kátur. Helgi var maður skynsamur og ráðsettur og stilltur vel, nokkuð dulur og þungbúinn í skapi, en gat þó verið glaður og skemmtinn. Hann var dugnaðarmaður og þrátt fyrir alla ómegð sína orðinn með efnuðustu bændum í Stafholtstungum. Hann var hár vexti, vel limaður og hinn gjörfulegasti. Hann var einhver hinn mesti atgjörfismaður og svo mikið karlmenni og svo glíminn og snar, að það er vafalaust, að hann hefir eigi átt sinn jafningja í Borgarfirði og ef til vill eigi á Suðurlandi. Eitt sinn hljóp hann alvotur eða gegndrepa, svo margir sáu, yfir gröf þá, er var fyrir vestan Keflavík, var það hlaup mælt og var það 10 álnir. Hann mun hafa verið um fimmtugt.

Í "Annál 19. aldar" er í þessu sambandi vísað til Þjóðólfs, 19. árgang, bls. 10. Hin nýja kona Helga hét Halldís Vigfúsdóttir. Hún var dóttir hjónanna á Hundastapa í Hjörtseyjarsókn, Vigfús Jónssonar og Steinunnar Ólafsdóttur. Í "sálnaregistrum" kemur fram að eftir drukknun Helga hafi heimilið smám saman leyst upp. Í árslok 1867 var Halldís 43 ára og kom Einar Kristjánsson inn á heimilið sem fyrirvinna, en Ásmundur er skráður sem húsmaður. Í árslok 1868 er Ásmundur dáinn, Halldís orðin húskona í Stafholti og stjúpbörn hennar komin hingað og þangað, utan hvað Guðrún varð kona Einars í Neðranesi.

(Næst 3. hluti)

Draugarnir í heiðarselinu (1. hluti af 6)

       Helgi Jónsson í Neðranesi drukknaði í Hvítá 9. ágúst 1866, þá aðeins 49 ára að aldri. Hann hafði þá verið ekkill í fjögur ár en var nýkvæntur og því á yfirborðinu ekki mikil ástæða til að trúa því að hann hafi drekkt sér eins og sögusagnir greina frá. Í kirkjubókum er talað um "ráðleysi" og í Borgfirskum æviskrám (BÆ) er beinlínis sagt að Helgi og sonur hans Ásmundur hafi drukknað "af sjálfsvöldum". En nánar um það síðar.       

Sem fyrr segir var fyrri kona Helga Katrín Ásmundsdóttir, Jörgensonar, Hanssonar Klingenberg. Helgi og Katrín áttu saman 17 börn á 19 árum, en lífsskilyrðin voru bágborin og 10 barnanna dóu ung, mörg fáeinna daga gömul. Það hlýtur að hafa reynt mjög á þolrifin að vera sífellt að jarðsetja nýborin börnin sín og líklegt má telja að barneignirnar og raunirnar hafi átt sinn þátt í því að Katrín dó aðeins tæplega 45 ára gömul. Þá var yngsta lifandi barnið hennar Margrét eins og hálfs árs gamalt, en tvíburi hennar Jóhannes hafði dáið 5 daga gamall. Helga beið þá það erfiða verkefni að tryggja framtíð þeirra sjö barna sem eftir lifðu, en þau voru á aldrinum eins og hálfs árs til tvítugs. Elstur var Ásmundur, sem síðar kemur meira við sögu.  

       Þegar Katrín dó frá börnum sínum var Jórunn formóðir okkar 8 ára. Strax í kjölfarið var henni komið fyrir í fóstur hjá Guðmundi Eggertssyni og Helgu Bjarnadóttur í Sólheimatungu og þar var hún enn 1870 orðin 16 ára. Hún var aðeins 12 ára þegar Helgi faðir hennar drukknaði. Börnin sjö höfðu þá misst báða foreldra sína og mörg systkini og enn gerðust hörmungar 1868, en þá drukknaði Ásmundur, elsti bróðirinn, sem þá var orðinn höfuð fjölskyldunnar. Hann var "talinn afbragð ungra manna að atgervi og hæfileikum" (sjá BÆ I um hann). Enn má bæta við hrakfarasöguna: Árið 1834 drukknaði í Hvítá Ásmundur Ásmundsson bróðir Katrínar, aðeins 21 árs gamall, þá fyrirvinna að Elínarhöfða.

(Næst 2. hluti. Áður birt í niðjatali mínu "Af alþýðufólki og afturgöngum)

Ég er ekki á flótta

Að gefnu tilefni vil ég taka það fram að ég er ekki á flótta.

Ástæðan fyrir því að ég hef ekki skrifað hér á Mogga-blogginu lengi er að ég er enn stórhneykslaður á því að ekkjan úr Eyjum og Óskarinn hennar hafi rýrt trúverðugleika Morgunblaðsins með aldeilis fráleitri ritstjóraráðningu.

Um sinn er ég að blogga á Eyjunni, hvað sem síðar verður.

Vonandi ná fagmenn Moggans að hemja... standa upp í hárinu á... segja sannleikann þótt... eh... finna nýja ritstjóranum skaðlausan farveg...

Það vantar mann í að fara vestur að tuska þessa Kana til, til dæmis.


mbl.is Íslensk kona á flótta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi Hóseasson hylltur

Ég tek hatt minn ofan fyrir Helga Hóseassyni og drýp höfði í sorg, því nú er fallin frá ein af hetjum Íslandssögunnar.

Helgi var að sönnu sérstakur og sérkennilegur og "venjulegt" fólk getur með ágætum rökum notað hugtakið "þráhyggja" yfir boðskap hans og án nokkurs vafa mætti færa rök fyrir því að önnur aðferðarfræði hefði getað dugað málstað hans betur en hann beitti í gegnum árin. En aðferðarfræði hans krafðist mikilla persónulegra fórna og allt skynsamt fólk hlýtur að sjá réttlætið í því sem hann krafðist í grunninn.

Hann vildi láta afturkalla skírn sína opinberlega. Hann vildi ekki láta þessa áþvinguðu trúarathöfn hanga yfir sér. Í landi raunverulegs trúfrelsis hefði verið fundin leið og lögum breytt til að gera þetta mögulegt. En jafnvel þótt ómögulegt væri að verða við þessari grunnkröfu hans þá breytir það ekki hinu að Helgi gegndi mikilvægu hlutverki í orðræðu og baráttu þeirra sem gagnrýna skipulögð og kredduföst trúarbrögð og svokallaða ríkistrú.

Ég kveð "Mótmælanda Íslands" með virktum. Ef Guð er til þá hlýtur hann að vera sanngjarn og festir nú Fálkaorðu á Helga. Mannfólkið hvet ég til að fylgja eftir uppástungunni um minnisvarða um Helga.

Uppfærsla:

Eftirfarandi er grein sem ég tók saman og birt var í Degi í febrúar árið 2000:

Sáttmálinn óhagganlegi

 

Í nær fjóra áratugi hefur trésmiðurinn Helgi Hóseason barist fyrir því að fá skírnarsáttmála sinn við "Himnafeðgana" ógildan og fá það staðfest með skráningu í þjóðskrá. Yfirvöld hafa ekki treyst sér til að verða við þessum kröfum eða að minnsta kosti ekki fundið leið til þess. Hér segir frá afgreiðslu dómstólanna í þessu sérstæða mannréttindamáli.

 

Baráttusaga Helga Hóseasonar er löng og flókin og hér aðeins stiklað á stóru. Nefna má þó að yfirvöld hér á landi létu alveg eiga sig að höfða mál gegn Helga, þótt tækifærin hafi ekki vantað eftir skyrausturinn á forseta landsins, biskup og þingmenn (1972), tvær atlögur að stjórnarráðinu með tjöru (1974) og ryðvarnarefni (1981), rúðubrot í þinghúsinu (1976) og fleira, svosem svokallað guðlast.

 

Um 1962 fór Helgi fyrir alvöru að berjast fyrir ónýtingu skírnarsáttmála síns, en viðræður og bónferðir til presta og biskups skiluðu engu; þeir sögðust ekki geta ógilt sáttmála sem væri milli einstaklings og guðs. Í desember 1964 ákvað Helgi að reyna dómstólaleiðina og stefndi biskupi Íslands. Málið var tekið fyrir af Magnúsi Thoroddsen yfirborgardómara, eftir að Sigurbjörn biskup hafði hunsað sáttafund.

 

Klárkar hlýði landslögum

 

Helgi gerði þær kröfur í málinu að "herra biskupinn hlutist til um, svo fljótt sem kostur er á, að sáttmála þeim, er gerður var við skírn mína og fermingu, verði rift, þannig að ljóst sé, að um fullkomna afturköllun sé að ræða á því heiti, sem ég var á sínum tíma látinn vinna við skírn mína og síðar fermingu, og um grun sé gert, að nafn mitt sé ekki tengt Jehóva lengur. Þar sem ég tel mig skipta þetta miklu máli, en mér hefur verið synjað um alla leiðréttingu, þetta varðandi, tel ég mig tilneyddan að fara þessa leið til að ná þeim rétti, sem ég tel mig ótvírætt eiga samkvæmt stjórnarskrá vorri".

 

Biskupinn hvorki mætti í dómsal né sendi einhvern fyrir sig. Magnús var ekki lengi að dæma: "Sakarefni þetta er þess eðlis, að það heyrir ekki undir lögsögu dómstóla. Ber því að vísa máli þessu frá dómi". Helgi áfrýjaði til Hæstaréttar, en þar var niðurstaðan hin sama í febrúar 1965 og kemur fram að biskupinn hafi hvorki sent greinargerð né haft uppi kröfur.

 

Í greinargerð með málinu til Hæstaréttar sagði Helgi: "Í Kirkjurétti er tekið fram, á skilmerkilegan hátt, að þegar Íslandslög og Himnalög stángast á, eigi klárkar að halla sér frá Himnafeðgum sem snöggvast og hlýða landslögum".

 

Helgi leitaði til Mannréttindadómstóls Evrópu og skírskotaði til 9. greinar Evrópusáttmálans um trúfrelsi, en menn þar töldu að engin mannréttindi hefðu verið brotin og vísuðu málinu frá.

 

Fölsun og stjórnarskrárbrot

 

Helgi ákvað að reyna aðra leið; hann stefndi Magnúsi Jónssyni ráðherra Hagstofu Íslands og gerði þær kröfur að Magnúsi yrði gert "að viðurkenna á formlegan hátt fyrir hönd ríkisvaldsins ónýtingu stefnanda á skírnarsáttmála með því að láta skrá hana í þjóðskrána".

 

Kröfur sínar rökstuddi Helgi m.a. með því að í fæðingarskýrslum Hagstofu Íslands væri bókað nafn stefnanda og skírnardagur. "Sé nú ekki einnig ritað í þessa persónuheimild stefnanda, að skírnin sé ónýtt, sé í fyrsta lagi um fölsun að ræða, í öðru lagi séu þá brotin á stefnanda ákvæði í stjórnarskrá og í þriðja lagi sé stefnandi settur skör lægra en aðrir, sem þar séu skráðir skírðir og óskírðir".

 

Ráðherran hafði hvorki fyrir því að mæta á sáttafund eða í dómssal, né senda fulltrúa eða plögg, þótt honum væri löglega stefnt. Auður Þorkelsdóttir borgardómari vísaði málinu frá dómi, en gerði ráðherra að greiða málskostnað og ómarkslaun í ljósi þess að hann hefði ekki mætt.

 

Hæstiréttur staðfesti niðurstöðuna í janúar 1968. Helgi reyndi enn Strassborgarleiðina, en aftur var erindi hans vísað frá. Helgi flutti öll mál sín sjálfur, enda þorði enginn lögmaður að taka svona mál að sér, nema hvað Pétur Þorsteinsson aðstoðaði Helga nokkuð í blábyrjun.

 

Einskonar "sáttatilraun"

 

Eitt er að ónýta skírnarsáttmála og annað að fá það skráð í þjóðskrá og ákvað Helgi nú að framkvæma sjálfur fyrri hlutann. Hann fór í guðþjónustu í Dómkirkjunni í október 1966, meðtók oblátu hjá séra Jóni Auðuns, en lét í lófa sér og tók við messuvínsstaupinu. Oblátan og vínið fóru í poka sem merktur var "SORP" og ávarpaði síðan kirkjugesti:

 

"Áheyrendur mínir! Þið eruð vottar þess að ég, Helgi Hóseason, Skipasundi 48, Reykjavík, kasta kjöti og blóði Jesú í þennan belg, sem er merktur sorp, til staðfestingar á því, að ég ónýti hér með skírnarsáttmála þann, sem gerður var fyrir mína hönd, reifabarns, og ég vélaður til að játa á mig 13 ára við þá Jehóva, Jesú og Heilagan anda, alla til heimilis á Himnum og nú hér stadda. Enn fremur vottið þið, að nafn mitt Helgi, er ekki tengt Himnafeðgum né Heilögum anda, ég er laus allra skuldbindinga við þá og mótmæli þeim mannhaturssjónarmiðum sem eru uppistaða þess endemis kristins dóms. Þökk fyrir!"

 

Þrotlaus barátta fyrir því að fá ónýtinguna skráða bar engan árangur. Lengst náði "tilhliðrun" yfirvalda þegar Klemens hagstofustjóri bauðst til að láta skrá í sérstakan reit: "Helgi Hóseason telur sig hafa ónýtt skírnarsáttmála sinn 16. október 1966". Skilyrði Klemensar var að Helgi myndi aldrei undir nokkrum kringumstæðum fá afrit eða ljósrit af skráningunni! Helgi hafnaði boðinu og krafðist þess að skráð yrði að Helgi hefði ónýtt sáttmálann, en ekki að hann "teldi" sig hafa gert það. "Sáttatilraunin" náði ekki lengra.

 

Biskup: Sáttmálinn ónýtur

 

Síðar meir fylgdu fjölbreytilegar aðgerðir Helga og eigi sjaldnar en 20-30 sinnum var hann handtekinn fyrir mótmæli. Aldrei var hann þó saksóttur.

 

Kannski komst hann næst markmiði sínu með ummælum Péturs Sigurgeirssonar biskups í HP árið 1982, þar sem Pétur lýsti því yfir að enginn gæti ónýtt skírnarsáttmála sinn nema sá sem er skírður. Pétur kvaðst álíta, að skírnarsáttmáli Helga væri ónýttur, en ekki yrðu gefnar neinar yfirlýsingar um það, þar sem það væri ekki mál kirkjunnar, heldur væri það mál Helga hvort hann gengi inn eða út. "Frá sjónarhóli kirkjunnar er ekki hægt að gera það á annan hátt en Helgi hefur gert".

 


Sunnudagshugleiðing: Um banka og heri

 Tómas Jefferson, sá mikilsvirti frumkvöðull í Bandaríkjunum og lýðræðissinni, sagði: "Banking establishments are more dangerous than standing armies."

Þetta er umhugsunarefni dagsins...

 


Hvaða atkvæði endurspeglar best stefnu hreyfingarinnar?

Það stefnir í samþykkt frumvarps um ríkisábyrgð á Icesave-samningnum með þaulræddum fyrirvörum. Nokkuð ljóst má nú heita að fyrir svo breyttu frumvarpi er meirihluti, hvernig svo sem þingmenn Borgarahreyfingarinnar greiða atkvæði. Vert er að velta því fyrir sér, hvort það er meira eða minna í anda stefnu og kosningaloforða Borgarahreyfingarinnar að greiða atkvæði með eða á móti fyrirvörunum og frumvarpinu. Er með góðu móti hægt að segja að það liggi fyrir?

Það sýnist mér ekki. Allir þeir fjórir þingmenn sem náðu kjöri til þings af listum Borgarahreyfingarinnar hafa að vonum gagnrýnt Icesave-samninginn harðlega. Þrír þeirra, þau sem mynda nú þinghóp hreyfingarinnar, munu að líkindum samþykkja fyrirvarana, en óvíst er með Þráinn Bertelsson, sem flutti mergjaða ræðu gegn Icesave-samningunum í gær. Þeirri spurningu hvort betra sé samkvæmt stefnu hreyfingarinnar að samþykkja eða fella ríkisábyrgðina treysti ég mér ekki til að svara.

Ég get hins vegar nefnt, að það er engan veginn reglan að allir þeir fjórir þingmenn sem kjörnir voru af listum hreyfingarinnar hafi greitt atkvæði á þinginu með samræmdum hætti. Eina tilvikið sem eitthvað hefur verið rætt í því sambandi er atkvæðagreiðslan um ESB-viðræður (og breytingatillöguna um tvöfalda atkvæðagreiðslu). Þór, Birgitta og Margrét greiddu þar atkvæði með öðrum hætti en Þráinn og óþarfi að rekja það nánar.

En skoðum nokkrar aðrar atkvæðagreiðslur þessara þingmanna:

Í atkvæðagreiðslu 11. ágúst um 114. mál. kjararáð o.fl. (ákvörðunarvald um launakjör forstöðumanna): Nei: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari. Fjarstaddur: Þráinn Bertelsson.

Í atkvæðagreiðslu 11. ágúst um 124. mál. Bankasýsla ríkisins: Nei: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir. Sat hjá: Þór Saari. Fjarstaddur: Þráinn Bertelsson.

Í atkvæðagreiðslu 11. ágúst um 89. mál. breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins (1. grein): : Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Sat hjá: Birgitta Jónsdóttir.

Í atkvæðagreiðslu 24. júlí um Bankasýslu ríkisins, 2.-10. grein: Nei: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Sátu hjá: Þór Saari, Þráinn Bertelsson.

Í atkvæðagreiðslu 24. júlí um Bankasýslu ríkisins, 1. grein: Nei: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Sat hjá: Þráinn Bertelsson.

 

Í atkvæðagreiðslu 24. júlí um Bankasýslu ríkisins, breytingatillögur 289 (1 og 2): : Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Sat hjá: Þór Saari, Nei: Þráinn Bertelsson.

 

Í atkvæðagreiðslu 24. júlí um 114. mál. kjararáð o.fl. (ákvörðunarvald um launakjör forstöðumanna), 1. grein: Nei, öll fjögur.

 

Í atkvæðagreiðslu 10. júlí um 1. mál. endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja (stofnun hlutafélags, heildarlög): : Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Sat hjá: Þráinn Bertelsson.

Í atkvæðagreiðslu 10. júlí um 85. mál. fjármálafyrirtæki (sparisjóðir): : Þór Saari, Sátu hjá: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þráinn Bertelsson.

Í atkvæðagreiðslu 29. júní um 118. mál. ráðstafanir í ríkisfjármálum (breyting ýmissa laga): Nei: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Valgeir Skagfjörð. Í leyfi: Þráinn Bertelsson.

Í atkvæðagreiðslu 26. júní um 118. mál. ráðstafanir í ríkisfjármálum (breyting ýmissa laga), bráðabirgðaákvæði II-VII: Sátu hjá: Öll fjögur (Valgeir fyrir Þór).

Í atkvæðagreiðslu 26. júní um 118. mál. ráðstafanir í ríkisfjármálum (breyting ýmissa laga), bráðabirgðaákvæði I: : Birgitta Jónsdóttir, Sátu hjá: Margrét Tryggvadóttir, Valgeir Skagfjörð, Þráinn Bertelsson.

Í atkvæðagreiðslu 18. júní um 34. mál. stjórn fiskveiða (strandveiðar): : Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari. Sat hjá: Þráinn Bertelsson.

Í atkvæðagreiðslu 29. maí um 33. mál. fjármálafyrirtæki (heimild til útgreiðslu úr þrotabúum gömlu bankanna): Nei: Birgitta Jónsdóttir, Þór Saari. Fjarstödd: Margrét Tryggvadóttir, Þráinn Bertelsson.

Í atkvæðagreiðslu 28. maí um 56. mál. olíugjald og kílómetragjald og gjald af áfengi og tóbaki o.fl. (hækkun gjalda): Nei: Öll fjögur.

 

Á þessari upptalningu sést að það hafa verið meiri líkur á því en minni að þingmennirnir fjórir greiði atkvæði með ólíkum hætti. Vildi fyrst og fremst nefna þetta þegar menn ræða hvaða þingmenn fylgja stefnu og kosningaloforðum hreyfingarinnar vel eða illa. Eins er rétt að spyrja á þessum tímapunkti: Hvernig eiga þingmenn að greiða atkvæði um ríkisábyrgðina og fyrirvarana við Icesave-samninginn til að uppfylla best stefnu og kosningaloforð Borgarahreyfingarinnar?


mbl.is 17 á mælendaskrá um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband