13.8.2009 | 12:32
Hvimleið og uppblásin átök
Mér sýnist deginum ljósara að ágreiningurinn milli ákveðinna persóna innan Borgarahreyfingarinnar sé ákaflega erfiður viðureignar og þá fyrst og fremst vegna þess hversu persónulegur hann hefur orðið. Það er ekki minnsti ágreiningur um stefnu og málefni, að því frátöldu að "fyrir margt löngu" þótti mörgum í hreyfingunni að þrír þingmenn hennar hefðu greitt atkvæði með röngum hætti - og um það mátti að sjálfsögðu deila.
Mér finnst hins vegar að yfirstandandi deilur séu uppblásnar og ótímabærar. Mér líður eins og að langhlaupari sé að detta nokkrum skrefum áður en hann kemst í mark. 137. löggjafarþinginu, sumarþinginu, er að ljúka og sömuleiðis stjórnartíma núverandi stjórnar hreyfingarinnar. Framundan er sumarhlé þingsins fram í október og eftir innan við mánuð verður haldinn aðalfundur (landsfundur) Borgarahreyfingarinnar, þar sem meðal annars verður kosin ný stjórn. Þess utan hefur félagsfundur (grasrótin) tekið þá afstöðu að senda á vettvang sáttanefnd til að miðla málum innan þinghópsins og milli þinghóps og stjórnar.
Það á að mínu viti að leyfa öllum núverandi þingmönnum hreyfingarinnar að vinna sín þingstörf í friði á þeim litla tíma sem eftir er af sumarþinginu og ekki síst taka þátt í að leysa þetta Icesave-mál, sem er þjóðinni mun mikilvægara mál en tímabundinn ágreiningur milli einstaklinga í einni stjórnmálahreyfingu. Um leið á stjórnin að einbeita sér að því að skipuleggja komandi aðalfund í nánu samstarfi við þá vinnuhópa sem á óeigingjarnan hátt hafa valist til að undirbúa stefnumál, skipulag og framtíðarvinnu hreyfingarinnar. En umfram allt á að treysta á sáttanefndina að vinna sín störf - bæði stjórn og þinghópur verða að vera þess minnug að félagsfundur - grasrótin - sendi þessa sáttanefnd á vettvang og það er enda skýr vilji félaganna að einstaklingarnir innan stjórnar og þinghóps láti af illdeilum og friðmælist, hið minnsta fram að því að innanflokksmálin geta komið til umræðu og lausnar á formlegum aðalfundi eftir innan við mánuð.
Allt tal um að skipta út þingmönnum er ótímabært og í rauninni óviðeigandi - af því að sumarþingi er að ljúka, aðalfundur framundan og sáttanefnd grasrótarinnar að störfum. Eftir innan við mánuð verður tekin við ný stjórn hreyfingarinnar og þá verða tekin í gildi ný og í reynd fyrstu lög og verklagsreglur hreyfingarinnar, svo sem varðandi þingmenn og störf þeirra. Og þá verður vinna sáttanefndar vonandi búin að skila árangri. Slíðrum sverðin í millitíðinni. Í mánuð.
![]() |
Einbeitum okkur að Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.8.2009 | 11:10
Um klofninga og ágreining
Lítum á staðreyndir. Hver og einn einasti stjórnmálaflokkur á Íslandi hefur upplifað djúpan ágreining og klofning. Án undantekninga. Þar sem 2-3 Íslendingar koma saman, þar verður ágreiningur og klofningur. Því hjartnæmari sem málstaðurinn er þeim mun líklegri er klofningur.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur klofnað. Framsóknarflokkurinn hefur klofnað. Alþýðuflokkurinn klofnaði. Alþýðubandalagið klofnaði. Samfylking, VG og Frjálslyndir. Flestallir "litlu" flokkarnir hafa klofnað út frá "stóru" flokkunum og hafa síðan klofnað. Flestöll félög lenda í ágreiningi og klofna. Þjóðin er klofin í stjórnmálum. Hún er klofin í trúmálum. Alls staðar er verið að rífast og skammast, menn að segja sig úr félögum og samtökum og stofna ný - sem klofna.
Aftur: Þar sem 2-3 Íslendingar koma saman, þar verður ágreiningur og klofningur.
Ágreiningurinn innan Borgarahreyfingarinnar, milli stjórnar og þinghóps og klofningurinn í tvo arma innan þinghópsins - kemur mér ekki á óvart. Borgarahreyfingin er lausbeisluð hreyfing um fáein kjarnamál, nýstofnuð hreyfing sem hvorki hefur komið sér upp hefðum né samþykktum lögum (verklagsreglum) sem virka. Hreyfingin samanstendur í raun af fólki með ærið ólík viðhorf til ýmissa mála sem ekki eru með beinum hætti í stefnuskrá hreyfingarinnar. Þarna kom saman fólk með ýmsar stjórnmálaskoðanir til tímabundins átaks gegn spilltu flokksræði og flokkakerfi, vegna hrunsins og illrar meðferðar á alþýðu þessa lands. Fólk sem annars hefur ýmsar skoðanir á t.d. Evrópumálum, kvótamálum, stóriðjumálum, trúmálum, NATO, flugvallamálum, hlutverki hins opinbera, einkavæðingarmálum o.s.frv. Margir í hreyfingunni eiga fátt sameiginlegt nema andófið vegna hrunsins, mótmælin gegn meðferðinni á þjóðinni og óskina um aukið lýðræði og betra Ísland.
En þótt ágreiningur og klofningur séu nánast óhjákvæmilegur fylgifiskar félaga og samtaka þá blasir það einnig við að í flestum tilvikum hafa viðkomandi hópar nógu mikinn félagslegan þroska til að takast á við vandann og leysa hann. Ágreiningurinn innan Borgarahreyfingarinnar nú er að stórum hluta til persónulegur ágreiningur milli manna í stjórn og þinghópi Borgarahreyfingarinnar. "Grasrótin" kom saman á félagsfundi í gærkvöldi og þar voru skoðanir vissulega skiptar um eitt og annað, en málin rædd að niðurstöðu - og menn héldu sáttir heim. Allnokkrar tillögur og ályktanir voru samþykktar; allar samhljóða, en ein felld. Fólkið "á gólfinu" gáfu bæði stjórninni og þinghópnum (báðum "örmum") gula spjaldið, samþykkti verklagsreglur fyrir þau og setti á laggirnar sáttanefnd til að ganga á milli og stilla til friðar. Ég ætla að vona að vel verði tekið á móti sáttanefndinni og verklagsreglunum. Að menn geti unnið saman á ný og síðan styrkt starf hreyfingarinnar frá og með aðalfundi 12.-13. september.
Annars verð ég að kenna nemendum mínum þetta um sögu Borgarahreyfingarinnar á næsta vormisseri: Borgarahreyfingin fæddist í febrúar 2009. Bauð sig fram og fékk 4 þingmenn í apríl 2009. Dó í ágúst 2009.
![]() |
Enginn þingmaður mætti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.7.2009 | 00:23
Moggabloggari #1
Eftir alls konar trakteríngar, stæla, tilraunir, stólpakjaft, ögranir, hreinskilni, krassandi fyrirsagnir, heitar umræður - you name it - tókst mér loks að ná langþráðu markmiði, að komast í fyrsta sætið á "vinsældarlista" Moggabloggsins. Hafði áður náð silfri og bronsi nokkrum sinnum.
Rétt að taka fram að ég hef ekki talað gegn eigin sannfæringu (eða blekkt í þeim skilningi), en stundum skrifað með örlitlum ýkjum og í krassandi stíl. Ég segi þetta lesendum ekki til vansa (hvað lestrarsmekk varðar); en þeir vilja gjarnan krassandi stíl og heitar umræður. Það er prýðilegt. Mér tókst líka að forðast klám, kynlíf, útlendar stórstjörnur og ofbeldi að mestu. Held ég hafi ekki nefnt Mækul Jakkson á nafn.
Kannski ég fari núna í smá sumarfrí...
50 vinsælustu bloggarnir síðastliðna 7 daga
1. | Friðrik Þór Guðmundsson | lillo.blog.is | 12.034 | 16.792 | 1.590 | 1.460 |
2. | Jenný Anna Baldursdóttir | jenfo.blog.is | 11.071 | 18.578 | 1.362 | 1.218 |
3. | Einar Sveinbjörnsson | esv.blog.is | 10.208 | 16.045 | 1.302 | 1.104 |
4. | Lára Hanna Einarsdóttir | larahanna.blog.is | 7.776 | 12.792 | 957 | 878 |
5. | Áslaug Ósk Hinriksdóttir | aslaugosk.blog.is | 7.680 | 11.995 | 900 | 831 |
6. | Hilmar Hafsteinsson | hilhaf.blog.is | 6.744 | 8.466 | 896 | 809 |
7. | Ómar Ragnarsson | omarragnarsson.blog.is | 6.690 | 10.539 | 869 | 791 |
8. | Páll Vilhjálmsson | pallvil.blog.is | 6.211 | 10.426 | 742 | 682 |
9. | Jón Valur Jensson | jonvalurjensson.blog.is | 5.971 | 10.217 | 743 | 676 |
10. | Arnar Guðmundsson | gumson.blog.is | 5.619 | 8.025 | 725 | 599 |
11. | Ólína Þorvarðardóttir | olinathorv.blog.is | 5.270 | 10.748 | 692 | 648 |
26.7.2009 | 11:50
Lystisnekkja Jóns Ásgeirs selst ekki...
Vinningshafinn í Lottóinu gæti vippað sér í að kaupa lystisnekkju Jóns Ásgeirs, "One O One" (101), sem lengi hefur verið skráð til sölu og hefur hríðlækkað í verði svo hundruðum milljóna króna varðar.
Reyndar er hægt að leigja lystsnekkjuna og átti vikuleiga "duggubátsins" víst að kosta allt að 34 milljónum krónum. Þá hefði Lottóvinningurinn dugað í hvað, eina og hálfa viku?
Lystisnekkjan hefur víst lækkað í sölu úr meira en 30 milljón Evrum, svo í 24 milljónir og nú síðast í rúmlega 19 milljónir Evra.
Úr cirka 5 milljörðum í 3.5 milljarðar - á genginu sem "snillingarnir" skömmtuðu okkur.
![]() |
Vann 46 milljónir í Lottó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.7.2009 | 11:33
Einkaþota Jóns Ásgeirs loksins seld
Nú þegar hundruð landsmanna eru vegna Hrunsins í boði útrásarvíkinganna að flytjast til útlanda (flýja land) er rétt að fram komi að þeir geta örugglega ekki fengið far með einkaþotu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi. Eftir að hafa verið lengi til sölu er kolsvarta einkaþotan (skráð á BG Aviaton ltd) loks seld.
Flugvélin (G-OJAJ) var formlega seld 20. júlí síðastliðinn og kaupandinn reyndist vera "GE CAPITAL EQUIPMENT" í Bretlandi, sem er einhver angi af General Electric risafyrirtækinu. Framleiðandi vélarinnar er Dassault og týpan "FALCON 2000EX".
Kannski margir Íslendingar sjái hana einmitt næst í Noregi, ef viðskipti GE-manna beinast þangað. Hún sést varla mikið oftar á Íslandi, með því að alþjóðlegir viðskiptamenn telja sig vafalítið hafafátt hingað að sækja næstu árin, nema undirokaða og niðurbarða þjóð í harðbýlu landi.
Og þó.... GE fyrirtæki þetta er kaupleigufyrirtæki og kannski heldur Jón Ásgeir áfram að vera notandinn. Hitt er ljóst að þegar Jón Ásgeir sagði opinberlega fyrir mörgum mánuðum að hann væri búinn að selja einkaþotuna þá sagði hann... ekki sannleikann.
![]() |
Hundruð flytjast til Noregs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.7.2009 | 13:23
Og þá hló þingheimur
Ég hyggst vitaskuld mæta á Austurvöll að mótmæla Icesave. En ég ætla líka að mótmæla því að grafalvarleg orð Birgittu Jónsdóttur þingkonu um einelti á Alþingi hafi uppskorið HLÁTUR þingheims. Mér finnst ferlega dapurt ef þingmenn telja það fyndið að leggja til að tekin verði upp eineltisáætlun á Alþingi.
"Óskaði Birgitta eftir því að tekin yrði upp svokölluð Olweus eineltisáætlun, sem þykir hafa gefið góða raun í grunnskólum, til þess að fást við málið. Uppskar Birgitta töluverðan hlátur þegar hún bar upp þessa tillögu sína". (http://www.visir.is/article/20090723/FRETTIR01/675525092/-1).
![]() |
Mótmæli gegn Icesave á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.7.2009 | 13:11
Bréf inn um lúgu Breiðavíkur
Ég er stjórnarmaður í Breiðavíkursamtökunum og tek að sjálfsögðu undir að viss atriði í nýju útspili (bréfi) forsætisráðuneytisins eru alls ekki jákvæð. Og fela jafnvel í sér afturför. En eins og Bárður formaður þá fagna ég líka (það stendur þarna í fréttinni) að unnið sé að málinu í sátt við Breiðavíkursamtökin, útspilinu er almennt fagnað og áfram munu viðræðurnar halda.
Staðreyndin er sú að viðræðurnar um bætur hafa skilað aðilum nokkuð áleiðis, þótt sumir vilji fara hraðar en aðrir og hugmyndir sumra um sanngjarnar bætur allt aðrar en hugmyndir annarra um hvað geti talist sanngjarnt í þessu efni. Klárlega - og það er mín skoðun - eru viðræðurnar að þoka málinu áfram hvað aðferðarfræði varðar; menn eru ekki að þjarka um upphæðir eins og er.
Og klárlega setti ráðuneytið í bréfið klásúlu sem leggst illa í fyrrum vistbörn á Breiðavík, þ.e. um mikla takmörkun á greiðslu bóta til erfingja látinna fyrrum vistbarna. Af um 150 fyrrum vistbörnum á Breiðavík 1954-1980 eru líklega 35-36 látin (sem er óhugnanlega hátt hlutfall hjá nú miðaldra fólki) og samkvæmt klásúlunni ættu aðeins erfingjar 2-3 þeirra að fá bætur (þ.e. vegna fyrrum vistbarna sem náðu að gefa Vistheimilanefnd skýrslu fyrir andlátið!). Þegar á þetta var bent í gær var ráðuneytið hins vegar fljótt að taka fram að viðkomandi orðalag yrði tekið til endurskoðunar.
Ég skil gremju formannsins mjög vel og eins er ég sammála honum um að það sé takmarkað skjól í því að bera efnahagsástandið fyrir sig. Þessar bætur eru "smámunir" miðað við ýmislegt sem er að taka til sín fjármuni úr ríkissjóði. Og það má alltaf semja um tilhögun greiðslu bótanna, t.d. dreifa afborgunum. Eru menn ekki að tala um bætt efnahagsástand strax eftir næsta ár? Og enn vil ég vitna í Gylfa Ægisson: Ef það eru ekki til peningar fyrir Breiðavíkurbörnin þá eru ekki til peningar fyrir Icesave.
Ég vil persónulega ekki túlka það sem viljaleysi hjá stjórnvöldum að bótamálið gangi ekki hraðar fyrir sig. Mál þessi hafa þó þokast áfram eftir að Jóhanna tók við í forsætisráðuneytinu í upphafi þessa árs. Og það er samkvæmt vilja Breiðavíkursamtakanna að ekki var stefnt að samkomulagi um frumvarp nú á sumarþingi, heldur stefnt á haustþing, enda ástæða til að þoka hugmyndum um bótarétt og upphæðir upp á við.
![]() |
Ný tillaga í Breiðavíkurmálinu skref aftur á bak |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.7.2009 | 12:03
Kúlutjald orðið að "byggð heimilislausra"!
Ægissíða, við Ánanaust, er "fín" gata. þar búa/bjuggu fólk eins og Halldór H. Jónsson og fleiri stjórnarformenn Íslands. Þar er ekki ætlunin að heimilislausir eigi sér skjól. Það er "lítil prýði" að þar rísi "byggð heimilislausra".
Það er rétt að fína fólkið við Ægissíðu fari að hugleiða hvert stefnir með stóran hluta þjóðarinnar. Húsnæðismissir, persónulegt gjaldþrot, atvinnuleysi, nauðungaruppboð, biðröð hjá Mæðrastyrksnefnd og fleira í þeim dúr.
Það er lítil prýði af slíku. Hvort heldur sem er, á Ægissíðu, Ánanaust eða annars staðar.
Uppfærsla:
Ég veit það NÚNA, mér til háðungar, að Ánanaust er ekki við Ægissíðu. So shoot me.
![]() |
Kom sér fyrir í kúlutjaldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.7.2009 | 11:44
Því meiri skoðun þeim mun minni vissa...
Því meir sem ég skoða þessi Icesave-samningsmál þeim mun óákveðnari verð ég um hvor kosturinn er verri; að samþykkja eða fella samninginn. Og þeim mun daprari og reiðari verð ég.
Þessa stundina hallast ég að því að það sé illskárra að samþykkja þetta farg og fá 7 ár til að reyna að hnika einhverju til. En kannski er það ekki einu sinni raunhæft og kannski verð ég kominn á aðra skoðun seinna í dag eða á morgun.
Þegar ég horfi á þingmann eins og Ögmund Jónasson velkjast um í vafa og kalla eftir þjóðarsátt þá eykst bara óvissa mín. Á honum er að heyra að hann muni segja JÁ frekar en að ríkisstjórnin falli. Getur þá ekki verið að samningurinn sé einmitt ekki það slæmur að hann varði stjórnarslitum? Ekki er betra að færa Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum völd á ný - svo slæmt getur ástandið og samningurinn ekki verið, er það? Fjandakornið ekki svo slæmt!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.7.2009 | 20:16
Hugur okkar er hjá þeim og fjölskyldum þeirra
Enn berast ekki fregnir af afrifum tvímenninganna sem lentu í flugslysinu fyrir norðan. Ég vona að það sé frekar merki um góð tíðindi en slæm. Að svo stöddu sé ég ástæðu til að rifja upp bloggfærslu mína frá 1. júní með von um að einstöku tímabili í flugsögu þjóðarinnar sé EKKI að ljúka.
Uppfærsla:
Því miður reyndust tíðindin ekki góð: "Annar mannanna sem lenti í flugslysinu í Vopnafirði í dag lést við brotlendinguna. Hinn var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Rannsóknardeild lögreglunnar á Eskifirði og flugslysanefnd fara með rannsókn málsins. Frekari upplýsingar er ekki að fá að svo stöddu." Við vottum aðstandendum hins látna samúð okkar. Við sendum aðstandendum þess sem lifir okkar innilegustu vonir um farsæla meðhöndlun og bata.
1.6.2009 | 13:35
Einstakt tímabil í flugsögu Íslands
Það er svo sem enginn að tala um það, en þarna blasir það við í skýrslum: Það hefur enginn dáið vegna flugslysa eða alvarlegra flugatvika á Íslandi eftir flugslysið í Skerjafirði í ágúst árið 2000. Enginn. Nú eru bráðum liðin 9 ár - en frá 1942 og fram að umræddu slysi höfðu aldrei liðið meira en 2-3 ár milli banaslysa í flugsögu landsins og iðulega áttu þau sér stað árlega eða oftar.
Ég skal ekki segja hverju um veldur. Flugstundum hefur ekki fækkað; gerðu það fyrst eftir 2000 en eru fyrir löngu komin upp í fyrri hæðir og ofar. Spila inn í hertar reglur og eftirlit eftir flugslysið í Skerjafirði, einkum vegna smærri loftfara? Ef svo er þá var það ekki vegna þess að menn eins og Þorgeir Pálsson vildu það, heldur vegna þeirrar umræðu og þess þrýstings sem upp kom.
9 ára hlé á banaslysum í flugumferð á Íslandi. Það er einstakt og vonandi heldur þetta banaslysahlé áfram. Hitt er annað mál að alvarleg atvik hafa haldið áfram að eiga sér stað, þótt enginn hafi dáið. Tala má um 2-3 slík tilvik árlega síðustu árin. Að líkindum má tala um þróun sem bendir til þess að tilslökun sé að eiga sér stað. Tilslökun sem raunar má EKKI eiga sér stað núna, þegar kreppa ríkir og flugaðilar grípa til sparnaðaraðgerða, hugsanlega um of í viðhaldi og innra eftirliti.
Mér finnst þetta banaslysalausa tímabil merkilegt og auðvitað er það einstakt í flugsögunni. Ætli fjölmiðlum finnist það ekki líka?
![]() |
Flugslysið rannsakað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)