Borguð viðtöl eru ekki blaðamennska

 Fregnir þess efnis að Dögg Pálsdóttir varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi borgað ljósvakafjölmiðlum drjúgan pening fyrir "viðtal" eru vondar fregnir almennt og hættulegar fregnir séð frá sjónarhorni faglegrar fréttamennsku. Dögg hefur gefið upp að hún hafi borgað fyrir viðtal í INN 74.700 krónur og fyrir viðtal í Útvarpi Sögu 53.535 krónur.

 Nú er það að vísu svo, að útvarpsstöðin hennar Arnþrúðar Karlsdóttur og sjónvarpsstöðin hans Ingva Hrafns Jónssonar verða seint taldar faglegar fréttastöðvar út frá ströngum skilgreiningum. Hvað pólitíska umfjöllun varðar er ÍNN aðallega áróðursstöð fyrir öfgafroðufellingar Ingva Hrafns og jábræðra hans. En burt séð frá því verður til sú ímynd, sem varpast yfir á aðra fjölmiðla, að hægt sé að kaupa viðtöl. Slíkt er gegn ströngustu prinsippum blaða- og fréttamennsku sem vill standa undir nafni.

Hvað fylgdi með í kaupunum hjá Dögg? Er ákvæði í kaupsamningnum um að ekki megi spyrja óþægilegra spurninga? Fékk hún að velja spurningarnar og undirbúa svörin? Keypti hún jákvæð lýsingarorð frá fyrirspyrjandanum? 

Þessar fregnir undirstrika annars það sem annars blasir við. ÍNN og Saga eru ekki faglegir fréttamiðlar. Vonandi áttar fólk sig á því og yfirfærir þessar gjörðir ekki upp á faglega fjölmiðla.


mbl.is Prófkjörið kostaði 442 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spruningar vakna !

Hverjir "aðrir" keyptu - og hverjir aðrir hafa "keypt" gegnum tíðina?

Hvað ætti að sjáist í bókaldi útvarpsstöðvarinnar Sögu undanfarin ár?

Hafa menn "fundað" í Öskjuhlíðinni og komist í þætti eða fengið umfjöllun á fleiri stöðum en Sögu og stöðinni INN ?

Spond Tant (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 13:22

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég hefði ekki trúað þessu að óreyndu. Yngvi og Arnþrúður eru bæði gamlir samstarfsmenn mínir.

Mér er brugðið.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.3.2009 kl. 13:40

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég skil þig Ólína.

Nafnlaus ábending í tölvupósti - sem ég sel ekki dýrar en ég kaupi:

"Off the record, þá held ég að Bylgjan selji líka aðgang að mörgum þáttum hjá sér... svo sem eins og Íslandi í bítið".

Gott væri ef Bylgjan gæti komið hingað inn og hafnað þessu (eða staðfest!).

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.3.2009 kl. 13:44

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Þar sem ég er ein þeirra sem horfa á INN vil ég benda fólki á að þetta var alveg grímulaust hjá Ingva Hrafni, hann bauð fólki að koma og gera 30 mínútna auglýsingar fyrir x krónur og senda út sem þátt. Hitt veit ég ekki hvort að þeir sem koma og eru hans eigin viðmælendur borgi eða í öðrum þáttum á INN, nú væri gott að hann svaraði því líka.

Kristín Dýrfjörð, 15.3.2009 kl. 13:46

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Borgaðar auglýsingar eru eitt, en viðtöl allt annað. Ég veit að ÍNN hefur auglýst tíma á stöðinni til sölu. Hins vegar sá ég ekki umrædda dagskrárgerð með Dögg og verð því að tala með fyrirvara:

Var þetta viðtal? Hver var þá spyrillinn? Er einhver sem sá þetta sem getur svarað þessu fyrir mig? Ekki fyrir mitt litla líf nenni ég að gá hvort þetta sé á netinu einhvers staðar (er að fylgjast með Silfrinu/Joly)...

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.3.2009 kl. 13:49

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ingvi Hrafn hefur sent þetta frá sér:

 Frá Ingva Hrafni Jónssyni hefur borist eftirfarandi athugasemd vegna fréttar um sölu viðtala á sjónvarpsstöðinni ÍNN:

Útsendingartímar á ÍNN eru öllum falir á 60 þúsund hálftíminn fyrir utan virðisaukaskatt. Innifalið í verði klukkutíma upptaka í stúdíói og útsending á besta dagskrártíma.Viðkomandi ráða dagskrá, viðmælendum eða spyrlum og fá í eigin vasa allar tekjur af auglýsingum eða kostun sem þeir selja. ÍNN er þannig farvegur sjónvarpsefnis. Meðal slíkra þátta eru Leið til léttara lífs, Suðurnesjamagasín, maturinn og lífið. Skýjum ofar og fjölmargir aðilar eru í viðræðum við ÍNN um framleiðslu og útsendingu á fjölbreyttu efni, sem áhorfendur ÍNN fá að njóta í náinni framtíð. Öllum frambjóðendum í prófkjörum hefur staðið þessi þjónusta til boða og kom það ÍNN á óvart hve fáir notfærðu sér þennan valkost í ljósi þess hve ódýr hann er í samanburði við aðrar auglýsingar. ÍNN selur ekki viðtöl, ÍNN selur útsendingartíma.

Valdi Dögg sem sé einhvern jákvæðan "spyril"? Ef svo er verð ég að draga eitthvað í land, en vil þó fá þetta á hreint fyrst!

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.3.2009 kl. 13:56

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þú getur séð viðtalið á bloggsíðu Daggar Pálsdóttur.

Mér finnst gjarnan mega koma fram að Dögg er heiðarleg og segir frá þessu. Ólíkt öðrum sjálfstæðismönnum er hún með allt uppi á borðinu og tíundar kostnað sinn við prófkjörsbaráttuna.

Nú bíður maður eftir að aðrir prófkjörskandidatar geri slíkt hið sama.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.3.2009 kl. 14:19

8 identicon

Friðrik Þór

Þú getur hlustað á viðtalið við Dögg á slóðinni:

http://inntv.is/Horfaáþætti/Ýmsirþættir/Íprófkjöri09032009/tabid/765/Default.aspx

Eygló (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 14:21

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sem sagt spyrillinn var Bergljót Davíðsdóttir, skráður félagi í Blaðamannafélagi Íslands.

Þá er bara að spyrja Beggu: Hver borgaði fyrir þinn hlut í viðtalinu? ÍNN eða Dögg? Hvaða áhrif hafði það á val spurninga að um aðkeypt viðtal var að ræða? Þau áhrif að krítískar spurningar komu ekki til greina (ég heyrði engar slíkar í viðtalinu)? Fékkstu spurningarnar utan frá eða valdir þú þær sjálf? Fannst þér að þú værir að einhverju leyti heft í vinnubrögðum þínum og kannski ekki við hæfi að spyrja óþægilegra spurninga? Hvað finnst þér um stöðu þína í þessu viðtali út frá t.d. siðareglum Blaðamanna og almennum viðmiðunum um strangan aðskilnað auglýsingaefnis og ritstjórnarlegs efnis (sbr. Kínamúr)?

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.3.2009 kl. 14:47

10 identicon

Kannski hefur hún Dögg eitthvað misskilið vöruna sem ÍNN var að selja henni. Hún bað um viðtal en var ekki beðið um viðtal. Veit ekki til þess að þeir sem koma í umræðuþættina á ÍNN séu almennt rukkaðir fyrir viðvikið.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 15:14

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

En Sögu-viðtalið - veit einhver hver "tók" það

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.3.2009 kl. 16:53

12 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Eitt innskot vegna kaupa á viðtölum eða fréttum: Friðrik Þór og Ólína voru trúlega bæði komin í blaðamennsku milli ca. 1982 og 1985. Þau gætu rifjað upp fyrir yngra fólkinu hvernig menn fóru að í Síðumúlanum: birtu víðtöl við framkvæmdastjóra eða sölustjóra fyrirtækja og á móti keyptu fyrirtækin stórar auglýsingar í blöðunum. Þetta var svona tveir fyrir einn pakki!

Flosi Kristjánsson, 15.3.2009 kl. 20:22

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þetta er fjári góð og lúmsk athugasemd, Flosi. Þú ert að tala um tímabil þegar ég var almennur blaðamaður á Alþýðublaðinu. Ef ég man rétt þá voru Ámundi Ámundason og líkast til Guðlaugur Tryggvi Karlsson með einhver aukablöð/sérblöð, þar sem hugsanlega átti eitthvað svona sér stað, að forstjórar fengu viðtöl en fyrirtæki þeirra birtu auglýsingar í sama sérblaði.

Ég satt að segja man ekki til þess að hafa tekið slíkt viðtal, en get þó ekki alveg svarið fyrir það. Kannski er ég þá búinn að grafa slíka minningu. Manst þú betur, Flosi? Þetta var á mínum fyrstu árum sem blaðamaður og ég var á fátæku flokksmálgagni og hugsanlega hefur það gerst einu sinni eða tvisvar að fagleg prinsipp hafi orðið að víkja í tilraun til að fá útborgað - en ég man samt ekki hjálparlaust eftir slíkum viðtölum úr eigin ranni. Ég held aftur á móti að ströng fagmennska hafi örugglega tekið völdin frá og með 1986 að ég hóf störf hjá Helgarpóstinum gamla.

Ef þú manst eða veist betur Flosi láttu það endilega gossa.

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.3.2009 kl. 21:30

14 Smámynd: Guðbjörg Hildur Kolbeins

Ég missti af viðtölunum við Dögg - en það hefur lengi farið mjög fyrir brjóstið á mér þegar fólk sem skrifar viðtöl skv. pöntun er titlað blaðamenn. Í mínum huga eiga slík vinnubrögð ekkert skylt við blaðamennsku.

Guðbjörg Hildur Kolbeins, 15.3.2009 kl. 22:22

15 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Ætli flestir séu ekki búnir að gleyma því að á dögum Kidda Finnboga á Tímanum voru opnuviðtöl boðin til sölu - á kr. 200 þúsund, minnir mig, gamlar! En lengi tíðkaðist og gerir kannski enn að auglýsingamaður hringdi í blaðamann og spurði hvort hann vildi ekki fjalla um þetta eða hitt, þá fengist nefnilega auglýsing! Ég fékk svona hringingar en vona að ég þurfi ekki að birta svör mín hér. Get það samt ef einhver er í vafa. En það sem ég meina er að þetta hefur lengi verið til - en ég hef ekki heyrt af svona grímulausum tilfellum og hér voru til umræðu eftir Tímaviðtölin.

Þorgrímur Gestsson, 16.3.2009 kl. 23:37

16 Smámynd: Magnús Axelsson

Það er urmull af fréttum sem maður gæti best trúað að væru keyptar, illa dulbúnar auglýsingar. hérna er ein slík:

http://visir.is/article/20090317/LIFID01/296075394/-1

ég vona að næst þegar ég flyt inn hljómsveit þá verði fjallað um hana í fjölmiðlum sem "einstaka" og "snillinga".

það væri gaman að fá staðfest hvort þetta er tilfellið, eða hvernig stendur á því að sumu er gert svona hátt undir höfði. ekki kallast þetta í það minnsta hlutlaus fréttamennska.

Magnús Axelsson, 17.3.2009 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband