Færsluflokkur: Vísindi og fræði
24.5.2008 | 00:18
Syndir feðranna: Breiðavíkursamtökin opna blogg
Breiðavíkursamtökin hafa opnað nýja bloggsíðu: brv.blog.is. Samtökin hafa verið opnuð öllu áhugafólki um barnaverndarmál og þá ekki síst vistunarúrræði hins opinbera á öllum tímum. Í nýrri stjórn BRV eru nú tveir fyrrum vistheimiladrengir (formaður og varaformaður) og þrír stuðningsmenn málefnisins "að utan". Ég er einn þeirra.
Mikil vinna er framundan og meðal margra annarra er það verkefni að koma heimasíðu samtakanna (www.breidavikursamtokin.is) í notendavænna form. Fram að því höfum við sett Moggabloggsíðu í gang. Ég hvet til umræðu þar, enda er ég umsjónarmaður bloggsins! Virkjum bloggið til styrktar umræðu um vistunarúrræði barnaverndaryfirvalda og sveitarfélaga í fortíð og nútíð, um allt land.
Upphafsávarp Bárðar R. Jónssonar, formanns BRV, á bloggsíðu samtakanna:
Breiðavíkursamtökin - allt áhugafólk um barnavernd velkomið
Að rétt rúmlega ár sé liðið frá því Breiðavíkurmálin voru tekin fyrir í fjölmiðlum þykir mér ótrúlegt; mér finnst eins og þau hafi verið þar alla mína ævi eða allavega stærstan hluta hennar.
Það er ekkert undarlegt við það. Ég dvaldi á Breiðavík um tveggja ára skeið og þótt maður væri ekki að velta sér upp úr því mótar samt reynslan úr æsku lífið og Breiðavík vildi ég bara gleyma. Ég vissi alltaf að mikið óréttlæti hafði verið framið á okkur sem sendir höfðu verið til Breiðavíkur en taldi að þar sem heimurinn væri nú eins og hann er næðist aldrei fram neitt réttlæti í því efni. Kannski að þar verði breyting á.
Breiðavíkursamtökin voru svo stofnuð í framhaldi af umfjölluninni fjölmiðlunum. Þessi samtök Breiðavíkurdrengja voru ætluð öllum þeim sem höfðu dvalið á stofnunum, heimilum og einkaheimilum á vegum ríkisins og Barnaverndar. Það kom fljótt í ljós að þessi takmörkun þrengdi að félaginu og þótt það hafi gert mikið gagn með því að vera vettvangur til að hittast á hefur ekki gengið nógu vel að skilgreina viðfangsefnin og átta sig á því hvernig þessi hagsmunasamtök mjög svo ólíkra einstaklinga geta beitt sér í málum þeirra.
Á fyrsta aðalfundi Breiðavíkursamtakanna þann 17. maí, s.l. var því ráðist í að breyta lögum félagsins, opna þau fyrir öllum sem vilja leggja þessari baráttu lið og láta sig hag barna í fortíð og nútíð skipta máli. Eitt verkefni félags sem okkar er að gera sögu barnaverndar í íslensku samfélagi skil.
Annað verk sem liggur fyrir vinnst fyrst og fremst á pólitískum vettvangi en það snýst um væntanlegar bætur til þeirra sem dvöldu á þessum heimilum.
Breiðavíkurskýrslan markaði tímamót í íslenskri stjórnsýslu. Yfirvöld brugðust við henni með frumvarpi sem átti að taka fyrir á vorþingi en það virðist ljóst að því verður frestað fram á haustið; við hjá samtökunum erum sátt við það. Það þarf að vanda sig og það er ekki einfalt mál að greiða bætur til þessa hóps.
Á aðalfundinum var ég kosinn formaður samtakanna. Ég hafði ekki sóst sérstaklega eftir því embætti og eins og ég hef látið hafa eftir mér hefði mér verið sama þótt þessi mál hefðu aldrei komið upp á yfirborðið en mér rann blóðið til skyldunnar og þess vegna samþykkti ég að tala við Bergstein Björgúlfsson og Kristinn Hrafnsson þegar þeir unnu að myndinni Syndir feðranna, það var árið 2004/5. Margt hefur gerst eftir það.
Nú þreifar ný stjórn Breiðavíkursamtakanna sig áfram en með mér völdust í stjórn þeir Georg Viðar Björnsson, varaformaður og fráfarandi formaður, Friðrik Þór Guðmundsson, ritari, Þór Saari, gjaldkeri, og Ari Alexander Ergis Magnússon, stjórnarmaður og leikstjóri myndarinnar Syndir feðranna (ásamt Bergsteini). Ég vil bjóða þessa ágætu menn velkomna til starfa fyrir félagið og ég hlakka til samstarfsins við þá.
Bárður R. Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég tel mig geta talað um merkjanlega vísbendingu um trúarafstöðu gesta inn á bloggsíðu mína (hið minnsta þeirra áhugasömustu um trúmál yfirleitt). Helmingurinn lýsir sig vera kristinn, langflestir þeirra í Þjóðkirkjunni. Hlutfallslega fáir eru annarrar trúar en kristni en einhverrar hefðbundinnar/skipulagðrar trúar þó. Næstum þriðjungur lýsir yfir trúleysi sínu, efahyggjumenn eru 8% og þeir sem eru eitthvað allt annað en ofangreint mælast en eru fáir. Þessir þrír hópar ná til samans 44%.
Kristinn í Þjóðkirkjunni 41.2% (87 atkvæði)
Kristinn í Fríkirkjusöfnuði 3.8% ( 8 atkvæði)
Kristinn Kaþólsk(ur) 2.8% ( 6 atkvæði)
Kristinn í öðrum söfnuði 3.3% ( 7 atkvæði)
Ásatrúar 0.9% ( 2 atkvæði)
Múslimi 0.9% ( 2 atkvæði)
Búddatrúar 0.5% ( 1 atkvæði)
Önnur trú en ofangreint 2.4% ( 5 atkvæði)
Efahyggjumaður (Agnostic) 8.1% (17 atkvæði)
Trúlaus 30.8% (65 atkvæði)
Eitthvað allt annað 5.2% (11 atkvæði)
(211 hafa svarað)
Þetta er í sjálfu sér í ágætu samræmi við niðurstöður trúarlífsrannsóknar Guðfræðistofnunar, þar sem um helmingur taldi sig vera kristinn en um þriðjungur trúlausan.
Þessar upplýsingar eru fyrst og fremst gagnlegar fyrir mig. Mér finnst fínt að fá merkjanlega vísbendingu um að þeir sem lesa blogg mitt endurspegli samfélagið allt í grófum dráttum. Ég fékk svipaða vísbendingu í lesendakönnun um pólitíska afstöðu samkvæmt vinstri-hægri ásnum. Dæmi um gildi slíkra upplýsinga varð örugglega bloggvini Gunnari Th. Gunnarssyni eftirtektarvert. Hann ákvað að apa eftir könnun minni um pólitíska afstöðu í anda vinstri-hægri ásnum. Ég fékk 194 smellur, en hann hætti könnuninni með aðeins 80 smellur. Ég er til vinstri en hann er til hægri, en svo bar þó við, ef vísbendingarnar eru réttmætar, að við virðumst fá tiltölulega svipaða pólitíska breydd í gestum. Það finnast mér merkilegar vísbendingar. Hægrimenn eru að kíkja á hvað ég sé að skrifa og um hvað er talað hjá mér og vinstri menn eru að kíkja á hvað Gunnar er að segja og hvað er talað um hjá honum. Það er gott.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (47)
20.5.2008 | 02:14
Hverrar trúar ert þú - ef einhverrar?
Athugið: ENN OG AFTUR NÝ OG SPENNANDI KÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR! NÚ UM TRÚMÁL!!
Mér leikur forvitni á að vita hvernig þið lesendur bloggsíðu minnar skilgreinið ykkur í trúmálum. Því hvet ég lesendur síðunnar til að taka þátt í könnuninni hér til hliðar og tjá sig eftir nennu og öðrum atvikum í athugasemdadálkinn við þessa hér færslu.
Forvitnilegt væri fyrir einhvern annan að vita hvort samsetningin yrði svipuð með sömu kosti...
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
19.5.2008 | 11:31
Íslendingar eru Demókratar - vilja ekki Repúblíkana
Það þarf ekkert að velkjast í vafa um það; Íslendingar halda, hvað Bandarísk stjórnmál varðar, með Demókrataflokknum. Ef bara Íslendingar væru að kjósa fyrir vestan myndi Repúblíkanaflokkurinn nánast þurrkast út. Og við erum nokkuð sammála Demókrötum; Obama hefur heldur meira fylgi en Hillary.
Í óvísindalegri könnun á afstöðu lesenda bloggsíðu minnar er niðurstaðan neðangreind, en hlutföllin hafa allan tímann haldist svipuð og ástæðulaust að halda þessari tilteknu könnun áfram:
Þessi niðurstaða er mjög samhjóða könnun Gallups nýlega. Þar var íslenska þjóðin spurð um hvern hún myndi vilja sem næsta forseta Bandaríkjanna. Í ljós kom að mjótt er á mununum milli Hillary Clinton (49%) og Barack Obama (48%) sem bítast um tilnefningu Demókrataflokksins hið vestra. Ljóst var þar einnig að Íslendingar vilja fá Demókrata í Hvíta húsið því einungis 3% sögðust myndu kjósa John McCain. Þetta er í raun sama niðurstaða og hjá mér miðað við að þeim sé sleppt sem myndu kjósa "ekkert af ofangreindu". Munurinn er þó meiri milli Obama og Hillary hjá mér, enda má búast við því að menn séu í ríkara mæli en áður að hengja hatt sinn á Obama, nú þegar hann er um það bil að ná tilnefningunni.
Mér finnast þessar niðurstöður segja heilmikla sögu. Meira að segja hægrimenn á Íslandi eru langflestir "liberal" og tengja sig frekar Demókrötum en Repúblíkönum. Bush- og Cheney-ismi á aldeilis ekki upp á pallborðið hér á landi. Við viljum ekki svoleiðis öfga og mannkynsfyrirlitningu. Ekki satt?
P.S. ENN OG AFTUR NÝ OG SPENNANDI KÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR! NÚ UM TRÚMÁL!!
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2008 | 11:32
Léttadrengi misþyrmt - sunnudagslesning
Um 20. ágúst 1924 var níu ára gamall drengur frá Sauðárkróki lánaður sem léttadrengur að bæ í Skagafirði og bar kunnugum saman um að þangað hefði drengurinn farið að öllu leyti heill heilsu, vel til fara og óskemmdur á fótum, í góðum holdum og í fullu fjöri. En næstu fimm vikurnar upplifði drengurinn ungi sannkallaða martröð.
Á bænum bjuggu hjón, sem við köllum Guðberg og Jóhönnu, hann 30 ára en hún 24 ára og vanfær af öðru barni þeirra, en fyrir var á heimilinu þriggja ára barn þeirra. Það var hart í ári, kuldatíð og annir miklar. Drengurinn skyldi létta hjónunum verkin.
Fimm vikum eftir komu drengsins var nágrannastúlka að nafni Margrét á ferð á hesti sínum nálægt bænum og rakst á drenginn, sem við köllum Jónas, þar sem hann lá á grúfu við þúfu út á víðavangi, rænulítill og illa á sig kominn. Vildi hann ekki fara heim til sín en samþykkti að fara heim með stúlkunni.
Heimilisfólk stúlkunnar sá þegar að ekki væri allt með felldu. Drengurinn var þrátt fyrir kuldakast illa klæddur að utanhafnarfötum; í einni prjónapeysu og utanhafnarbrókum sem gengnar voru af öðrum lærsaumi, með prjónahúfu á höfði. Drengurinn var blár í andliti af kulda, berhentur og bólginn á höndum, votur uppfyrir hné og skalf mjög. Hann var magur og vesældarlegur og var þegar háttaður ofaní rúm.
Missti allar tær á báðum fótum
Þegar Jónas var afklæddur varð fólkinu starsýnt á fætur hans, sem voru mjög skemmdir; bólgnir uppfyrir ökkla og settir kuldapollum og svörtum drepblettum. Tærnar á báðum fótum voru svartar, harðar og alveg dauðar, og lagði fljótlega af þeim ýldulykt.
Þarna var drengnum hjúkrað í tæpa viku og var hann framan af varla með réttu ráði. Hann komst í læknishendur í nokkra daga áður en hann var fluttur með strandferðaskipi á sjúkrahús, þar sem hann dvaldi í nokkra mánuði undir stöðugu eftirliti. Ekki var hægt að bjarga miklu; leysti af allar tær á báðum fótum og varð að taka af fremsta hluta nokkurra ristarbeinanna.
Mál var höfðað gegn hjónunum Guðbergi og Jóhönnu vegna misþyrmingarinnar. Báru læknar að ekkert hefði getað orsakað ásigkomulag drengsins nema kuldi, vosbúð og illur aðbúnaður.
Berðu á þær smjör drengur
Við rannsókn málsins kom fram sá framburður drengsins, að hjónin hefðu verið vond við hann og barið hann, þó fremur Guðbergur en Jóhanna. Í eitt skipti hefði hann og verið sveltur, en almennt verið svangur á þeim fimm vikum sem hann dvaldi hjá hjónunum.
Hjónin voru hneppt í gæsluvarðhald og lágu fljótlega fyrir játningar þeirra um meginatriði. Sögðust þau ekki hafa veitt því athygli hvort drengurinn væri heill á fótum fyrr en hálfum mánuði eftir að hann kom til þeirra, en þá varð konan þess vör að drengnum væri illt í fótunum. Skoðuðu þau hjónin fæturna og sögðu að þá hafi tærnar á báðum fótum verið orðnar bláleitar og svartar og harðar viðkomu. Prófaði Guðbergur hvort drengurinn fyndi til í tánum með því að klípa í þær, en drengurinn kvaðst ekkert finna til.
Sögðust þau þá hafa íhugað að leita ráða hjá hreppstjóra um lækningar, en úr því varð samt aldrei. Þeim duldist næstu daga ekki að drengnum versnaði; varð sjáanlega haltur og bjagaður í göngulagi. Hlífðist hann við að stíga í fæturna en beitti fyrir sig jörkunum utanfótar og hælunum.
Síðustu vikuna kvartaði drengurinn mjög yfir ástandi sínu, en ráð Guðbergs var þá að drengurinn skyldi bera nýtt smjör á fæturna, það hefði dugað sér vel gegn sprungum í iljum. Frúin sagði honum hins vegar að sækja hreint vatn í koppinn sinn til að þvo fæturna uppúr. Duldist það hjónunum þó ekki að ástand fótanna fór æ versnandi. Skömmu áður en drengurinn var tekinn frá þeim ræddu þau aftur um að koma drengnum til læknis, en ekkert varð úr framkvæmdinni frekar en áður.
Sveltur, barinn og sviptur sængum
Hjónin játuðu á sig sakarefnin í meginatriðum, þótt afar treglega hafi gengið að fá þau til að upplýsa nokkuð. Þau viðurkenndu að þrátt fyrir ástand drengsins hefði honum í engu verið hlíft við vosbúð eða útivist og að hann muni daglega hafa verið votur í fæturna. Jóhanna taldi þó að hún hefði fært drengnum þurra sokka á hverjum morgni.
Guðbergur játaði að hann hefði hýtt drenginn tvisvar með hrísvendi á berar lendar og barið hann einu sinni í höfuðið með hendinni. Var það á þriðju viku dvalartíma drengsins og gert í refsingarskyni, þar eð drengurinn hefði verið ódyggur og óhlýðinn. Ekki var þó talið sannað að nokkuð líkamstjón hefði leitt af þessari harðneskju.
Jóhanna játaði að hún hefði í eitt sinn, að undirlagi bóndans, svelt drenginn í refsingarskyni með því að gefa honum ekki mat eitt kvöldið. Hafði drengurinn þá ekki komið með hest sem hann var sendur eftir. Hann hafi að öðru leyti alltaf fengið nægan mat. Loks þótti það sannað með játningu Jóhönnu að rúmri viku fyrir brottför drengsins hafi hún tekið sængurfatnað allan úr rúmi drengsins (tvær hlýjar sængur sem hann kom með), en látið hann sofa á heydýnu með tvær einfaldar ábreiður ofaná sér. Sagðist hún hafa gert þetta af því drengurinn hefði vætt rúmið að nóttunni.
Engar bætur fyrir örkuml
Sök hjónanna þótti sönnuð og til þess tekið hve illa þau bjuggu að drengnum, þótt óvenjuleg kuldatíð ríkti og svo kalt "að kúm varð ekki alltaf beitt en jörð gránaði af jeljagangi". Hið megna skeytingarleysi var túlkað sem vísvitandi misþyrming. Undirréttardómari taldi samt duga að dæma hjónin í fimm daga fangelsi við vatn og brauð (þau höfðu þá setið í gæsluvarðhaldi í hálfan mánuð) og greiða sjúkrahúslegukostnað drengsins og málskostnað.
Hæstiréttur herti refsinguna upp í 10 daga fangelsi við vatn og brauð.
Athyglisvert er að drengnum voru engar örkumlabætur dæmdar; krafa um slíkt var ekki tekin til greina þar eð drengurinn hefði "not beggja fóta sinna þrátt fyrir missi tánna, svo að hann er sæmilega fær til gangs og hefir lestingin á fótum hans ekki spilt heilsu hans eða kröftum svo séð verði eða gert hann óhæfan til að afla sér lífsviðurværis með venjulegri vinnu"!
Ofangreint byggir á sönnu dómsmáli - fyrir Hæstarétti.
Vísindi og fræði | Breytt 19.5.2008 kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
26.3.2008 | 19:31
Hver var Björn Grillir? Allir saman nú!
Hauskúpubrotið sem fannst í Kjós er nú sagt vera af manni sem kallaður var Björn Grillir, og var umkomulaus sjúklingur á Kleppi á þriðja áratugnum. Þetta er að vísu haft eftir afar umdeildum listamanni að nafni Sverrir Ólafsson og í blóra við fyrri fréttir að umrædd manneskja hafi verið barn eða ung kona. Þessum vafa þarf að eyða.
Ef rétt er að hauskúpubeinið, sem vanvirt hefur verið, er af einstaklingnum "Björn Grillir" þá heimta ég að fá að vita hver það var og að líkamsleyfum hans verði sómi sýndur. Sagt er að þessi Björn hafi látist á þriðja áratug síðustu aldar (sem er þá 1921-1930). Ég auglýsi hér með eftir upplýsingum um manninn.
Google skilar engu um "Björn Grillir". Legstaðaskrá sýnir alls 151 einstakling með heimili (lögheimili) á Kleppsspítalanum í skráðum gröfum landsins (sem út af fyrir sig bendir til þess að Klepparar hafi yfirleitt fengið sómasamlega útför). Enginn þeirra er skráður Björn. Ekki heldur Sigurbjörn, Ásbjörn eða Guðbjörn en fleiri útgáfur tékkaði ég reyndar ekki. Legstaðaskrá er að vísu langt í frá tæmandi en samt. Getur verið að Björn þessi hafi aldrei fengið útför, ekki einu sinni með grjóti í kistu í líkama stað?
Þið fyrirgefið, en ef þeta er nú allt saman rétt hjá Sverri Ólafssyni þá er ástæða til að upplýsa málið skilmerkilega og veita Birni þessum tilhlýðilega útför. Kannski væri réttast að senda fjölskyldu Sverris reikninginn, en útför á kostnað ríkisins er líka í lagi, því ríkið ber sök í gegnum spítalann.
Höfuðkúpa talin vera úr dánarbúi læknis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |