Léttadrengi misþyrmt - sunnudagslesning

Um 20. ágúst 1924 var níu ára gamall drengur frá Sauðárkróki lánaður sem léttadrengur að bæ í Skagafirði og bar kunnugum saman um að þangað hefði drengurinn farið að öllu leyti heill heilsu, vel til fara og óskemmdur á fótum, í góðum holdum og í fullu fjöri. En næstu fimm vikurnar upplifði drengurinn ungi sannkallaða martröð.

 

Á bænum bjuggu hjón, sem við köllum Guðberg og Jóhönnu, hann 30 ára en hún 24 ára og vanfær af öðru barni þeirra, en fyrir var á heimilinu þriggja ára barn þeirra. Það var hart í ári, kuldatíð og annir miklar. Drengurinn skyldi létta hjónunum verkin.

 

Fimm vikum eftir komu drengsins var nágrannastúlka að nafni Margrét á ferð á hesti sínum nálægt bænum og rakst á drenginn, sem við köllum Jónas, þar sem hann lá á grúfu við þúfu út á víðavangi, rænulítill og illa á sig kominn. Vildi hann ekki fara heim til sín en samþykkti að fara heim með stúlkunni.

 

Heimilisfólk stúlkunnar sá þegar að ekki væri allt með felldu. Drengurinn var þrátt fyrir kuldakast illa klæddur að utanhafnarfötum; í einni prjónapeysu og utanhafnarbrókum sem gengnar voru af öðrum lærsaumi, með prjónahúfu á höfði. Drengurinn var blár í andliti af kulda, berhentur og bólginn á höndum, votur uppfyrir hné og skalf mjög. Hann var magur og vesældarlegur og var þegar háttaður ofaní rúm.

 

Missti allar tær á báðum fótum

 

Þegar Jónas var afklæddur varð fólkinu starsýnt á fætur hans, sem voru mjög skemmdir; bólgnir uppfyrir ökkla og settir kuldapollum og svörtum drepblettum. Tærnar á báðum fótum voru svartar, harðar og alveg dauðar, og lagði fljótlega af þeim ýldulykt.

 

Þarna var drengnum hjúkrað í tæpa viku og var hann framan af varla með réttu ráði. Hann komst í læknishendur í nokkra daga áður en hann var fluttur með strandferðaskipi á sjúkrahús, þar sem hann dvaldi í nokkra mánuði undir stöðugu eftirliti. Ekki var hægt að bjarga miklu; leysti af allar tær á báðum fótum og varð að taka af fremsta hluta nokkurra ristarbeinanna.

 

Mál var höfðað gegn hjónunum Guðbergi og Jóhönnu vegna misþyrmingarinnar. Báru læknar að ekkert hefði getað orsakað ásigkomulag drengsins nema kuldi, vosbúð og illur aðbúnaður.

 

Berðu á þær smjör drengur

 

Við rannsókn málsins kom fram sá framburður drengsins, að hjónin hefðu verið vond við hann og barið hann, þó fremur Guðbergur en Jóhanna. Í eitt skipti hefði hann og verið sveltur, en almennt verið svangur á þeim fimm vikum sem hann dvaldi hjá hjónunum.

 

Hjónin voru hneppt í gæsluvarðhald og lágu fljótlega fyrir játningar þeirra um meginatriði. Sögðust þau ekki hafa veitt því athygli hvort drengurinn væri heill á fótum fyrr en hálfum mánuði eftir að hann kom til þeirra, en þá varð konan þess vör að drengnum væri illt í fótunum. Skoðuðu þau hjónin fæturna og sögðu að þá hafi tærnar á báðum fótum verið orðnar bláleitar og svartar og harðar viðkomu. Prófaði Guðbergur hvort drengurinn fyndi til í tánum með því að klípa í þær, en drengurinn kvaðst ekkert finna til.

 

Sögðust þau þá hafa íhugað að leita ráða hjá hreppstjóra um lækningar, en úr því varð samt aldrei. Þeim duldist næstu daga ekki að drengnum versnaði; varð sjáanlega haltur og bjagaður í göngulagi. Hlífðist hann við að stíga í fæturna en beitti fyrir sig jörkunum utanfótar og hælunum.

 

Síðustu vikuna kvartaði drengurinn mjög yfir ástandi sínu, en ráð Guðbergs var þá að drengurinn skyldi bera nýtt smjör á fæturna, það hefði dugað sér vel gegn sprungum í iljum. Frúin sagði honum hins vegar að sækja hreint vatn í koppinn sinn til að þvo fæturna uppúr. Duldist það hjónunum þó ekki að ástand fótanna fór æ versnandi. Skömmu áður en drengurinn var tekinn frá þeim ræddu þau aftur um að koma drengnum til læknis, en ekkert varð úr framkvæmdinni frekar en áður.

 

Sveltur, barinn og sviptur sængum

 

Hjónin játuðu á sig sakarefnin í meginatriðum, þótt afar treglega hafi gengið að fá þau til að upplýsa nokkuð. Þau viðurkenndu að þrátt fyrir ástand drengsins hefði honum í engu verið hlíft við vosbúð eða útivist og að hann muni daglega hafa verið votur í fæturna. Jóhanna taldi þó að hún hefði fært drengnum þurra sokka á hverjum morgni.

 

Guðbergur játaði að hann hefði hýtt drenginn tvisvar með hrísvendi á berar lendar og barið hann einu sinni í höfuðið með hendinni. Var það á þriðju viku dvalartíma drengsins og gert í refsingarskyni, þar eð drengurinn hefði verið ódyggur og óhlýðinn. Ekki var þó talið sannað að nokkuð líkamstjón hefði leitt af þessari harðneskju.

 

Jóhanna játaði að hún hefði í eitt sinn, að undirlagi bóndans, svelt drenginn í refsingarskyni með því að gefa honum ekki mat eitt kvöldið. Hafði drengurinn þá ekki komið með hest sem hann var sendur eftir. Hann hafi að öðru leyti alltaf fengið nægan mat. Loks þótti það sannað með játningu Jóhönnu að rúmri viku fyrir brottför drengsins hafi hún tekið sængurfatnað allan úr rúmi drengsins (tvær hlýjar sængur sem hann kom með), en látið hann sofa á heydýnu með tvær einfaldar ábreiður ofaná sér. Sagðist hún hafa gert þetta af því drengurinn hefði vætt rúmið að nóttunni.

 

Engar bætur fyrir örkuml

 

Sök hjónanna þótti sönnuð og til þess tekið hve illa þau bjuggu að drengnum, þótt óvenjuleg kuldatíð ríkti og svo kalt "að kúm varð ekki alltaf beitt en jörð gránaði af jeljagangi". Hið megna skeytingarleysi var túlkað sem vísvitandi misþyrming. Undirréttardómari taldi samt duga að dæma hjónin í fimm daga fangelsi við vatn og brauð (þau höfðu þá setið í gæsluvarðhaldi í hálfan mánuð) og greiða sjúkrahúslegukostnað drengsins og málskostnað.

 

Hæstiréttur herti refsinguna upp í 10 daga fangelsi við vatn og brauð.

 

Athyglisvert er að drengnum voru engar örkumlabætur dæmdar; krafa um slíkt var ekki tekin til greina þar eð drengurinn hefði "not beggja fóta sinna þrátt fyrir missi tánna, svo að hann er sæmilega fær til gangs og hefir lestingin á fótum hans ekki spilt heilsu hans eða kröftum svo séð verði eða gert hann óhæfan til að afla sér lífsviðurværis með venjulegri vinnu"!

 

Ofangreint byggir á sönnu dómsmáli - fyrir Hæstarétti. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

því miður margar svipaðar sögur til

Hólmdís Hjartardóttir, 18.5.2008 kl. 11:59

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Á þessu aldarskeiði er tíðarandinn ennþá óhugnanlega fjandsamlegur þeim sem minna máttu sín. Ég heyrði þessa sögu í æsku minni en ótrúlega lítið var þetta þó rætt, enda gerðist þetta í afar fjarlægri sveit.

Móðirin gerðist ung ráðskona hjá öldruðum bónda- ekkjumanni og ól honum mörg börn sem öll urðu harðduglegt manndómsfólk þrátt fyrir hrakninga í uppvexti. Karlinn var reyndar kominn í kör er síðustu börnin fæddust.

Umræddur piltur komst ótrúlega vel frá þessari fötlun sinni. Hann fór að vinna við netagerð, sem hann lærði svo og varð að mig minnir meistari í iðninni. Hann rak eigin netagerð í allmörg ár á Siglufirði ef ég man rétt.

Af mörgum dæmum hliðstæðum sem ég hef heyrt af frá þessum tíma hygg ég þetta muni hafa verið verst. Í það minnsta vil ég leyfa mér að vona að svo hafi verið. 

Árni Gunnarsson, 18.5.2008 kl. 12:04

3 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Óskylt þessu og þó kannski ekki svo. Nú vill dómsmálaráðherra gera þeim sem minna mega sín erfiðara að sækja rétt sinn gagnvart þeim sem á hlut þess gerir.

Gísli Sigurðsson, 18.5.2008 kl. 12:26

4 Smámynd: Bumba

Komdu sæll, þakka þér fyrir þennan pistil. Ég þekkti þennan mann. Hann var nafni minn og kallaður tái. Hann tók örlögum sínum með stakri ró og prýði. Barngóður var hann með afbrigðum og hugsa ég oft til hans. En hann var nú víst ekki sá eini á þessum tíma sem lenti í slíku og þvílíku. Stúlka var líka á bæ þessum en hún strauk. Hún dó fyrir nokkrum árum og söng ég við hennar útför. Hún jafnaði sig aldrei. Með beztu kveðju.

Bumba, 18.5.2008 kl. 13:55

5 Smámynd: Einar Þór Strand

Til er mjög ítarleg umfjöllun um þetta mál í bókinni "Undir högg að sækja" eftir Elías Snæland Jónsson útg 1985 af Vöku-Helgafell

Einar Þór Strand, 18.5.2008 kl. 14:39

6 Smámynd: Einar Þór Strand

Þetta með bæturnar kom til vegna þess að ákæruvaldið hafði ekki staðið rétt að ákærunni og ekki borið kröfu um bætur undir lögráðamann drengsins það er móðurina og þess vengna var ekki hægt að dæma bætur.

Einar Þór Strand, 18.5.2008 kl. 14:43

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Mikið er þetta sorgleg frásögn og því miður sönn.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 18.5.2008 kl. 15:45

8 Smámynd: Ásta Björk Solis

Hrikaleg saga en sannar samt ad thraelahald var ekki bara svertingjavandamal.Thvi thad eru allt of margar svona sogur til a Islandi.

Ásta Björk Solis, 18.5.2008 kl. 16:22

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka innlegginn. Það er morgunljóst að mörg svona mál áttu sér stað á þessum tíma og fyrr. Baldur Hermannsson fékk miklu harðari móttökur vegna þátta sinna í sjónvarpinu en hann átti skilið, man ekki í augnablikinu hvað þeir hétu, en hann upplýsti um ómanneskjulega meðferð á þeim sem minna máttu sín á íslandi í fyrri tíð.

Ofangreint mál kom upp 1924. Ekki liðu síðan nema 30 ár að ráðamenn á Íslandi og barnaverndarnefndir tóku að senda meinta "óknyttadrengi" til Breiðavíkur og allir vita nú hvernig dvölin þar þróaðist fyrir marga drengjanna. Sumir þeirra segja að drengirnir hafi vrið sendir í barsmíða- og nauðganaverksmiðju fyrir hina mestu smámuni og stundum ekkert annað en að vera úr fátækri fjölskyldu.

Einar Þór; ég veit af bók meistara Elíasar Snælands, en þessi frásögn byggir á hæstaréttardómnum. Raunar birtist þessi frásögn í röð dómsmálapistla sem ég annaðist á Degi 1999-2000, með téðan meistara sem ritstjóra. Þetta er saga sem á að rifja upp reglulega.

Friðrik Þór Guðmundsson, 18.5.2008 kl. 16:27

10 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

p.s.

P.S. AFTUR NÝ OG SPENNANDI KÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR! Smile

Friðrik Þór Guðmundsson, 18.5.2008 kl. 17:01

11 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þáttaröð Baldurs Hermannssonar hét "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins" og var frábær. Það mætti alveg endursýna hana.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.5.2008 kl. 17:27

12 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Merkileg en dapurleg saga.  En eitt stakk mig illilega, en það var að drengurinn var "lánaður" sem léttadrengur, til að létta hjónum lífið.  Þá sjálfsagt engin laun þegið fyrir störf sín, önnur enn fæði, fatnað og húsnæði.

  Þykir mér þau hafa launað honum illa, lánið á kröftum sínum og vinnu.

Sigríður Sigurðardóttir, 18.5.2008 kl. 19:09

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Takk Lára Hanna fyrir að rifja nafn þáttanna upp. Það á hikstalaust að endursýnaþá og rifja umræðuna upp frá sínum tíma og bera saman við frásagnir af Breiðavík, Kumbaravogi, Reykjahlíð o.s.frv., sem nær nútímanum hafa verið.

Friðrik Þór Guðmundsson, 18.5.2008 kl. 19:42

14 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Þetta er skelfileg saga og eins og við vitum, aðeins ein af fjöldamörgum. Það sem er skelfilegast af öllu, er að svona nokkuð tíðkast ennþá, þó að kannski í öðru formi sé. Eins og fortíðin kenni okkur ekki nóg.

Jóna Á. Gísladóttir, 18.5.2008 kl. 21:29

15 identicon

Ég bjó í sama húsi og þessi maður, við Lækjargötu á Siglufirði á síðari hluta sjöunda áratugarins. Hann var  drag haltur á báðum fótum. Jón var netagerðarmeistari og rak netaverkstæði á Siglufirði. Það skal oft hafa verið erfitt hjá honum að standa við netavinnu alla daga, svona mikið fatlaður.

Árni Pálsson (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 07:44

16 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll, takk. Vantar þó yfirfærsluna yfir í nútímann. Hvar eru okkar blindu blettir gagnvart börnum. kv. B

Baldur Kristjánsson, 19.5.2008 kl. 11:19

17 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka ykkur öllum glimrandi undirtektir. Ég er að hugsa um að verðlauna ykkur með annarri góðri dómsmálafrásögn seinna í dag. Heimsókn séra Baldurs fær mig til að nefna nýja könnun hér til hliðar um trúarafstöðu lesenda bloggsíðu minnar.

Yfirfærslan til nútímans kemur. Ég var um helgina kjörinn í nýja stjórn Breiðavíkursamtakanna (þau voru "opnuð" á aðalfundinum og ég einn af þremur "utanaðkomandi" í stjórninni) og það hvetur mig til dáða að tengja fyrri feðranna syndir við nútímann...

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.5.2008 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband