Helmingur trúir, aðrir eru í vafa, trúa ekki eða eru á annarri bylgjulengd

Ég tel mig geta talað um merkjanlega vísbendingu um trúarafstöðu gesta inn á bloggsíðu mína (hið minnsta þeirra áhugasömustu um trúmál yfirleitt).  Helmingurinn lýsir sig vera kristinn, langflestir þeirra í Þjóðkirkjunni. Hlutfallslega fáir eru annarrar trúar en kristni en einhverrar hefðbundinnar/skipulagðrar trúar þó. Næstum þriðjungur lýsir yfir trúleysi sínu, efahyggjumenn eru 8% og þeir sem eru „eitthvað allt annað“ en ofangreint mælast en eru fáir. Þessir þrír hópar ná til samans 44%.

 

Kristinn í Þjóðkirkjunni      41.2%  (87 atkvæði)
Kristinn í Fríkirkjusöfnuði    3.8% (   8 atkvæði)
Kristinn Kaþólsk(ur)            2.8%  (   6 atkvæði)
Kristinn í öðrum söfnuði       3.3%  (   7 atkvæði)
Ásatrúar                                 0.9% (   2 atkvæði)
Múslimi                                  0.9% (   2 atkvæði)
Búddatrúar                             0.5% (   1 atkvæði)
Önnur trú en ofangreint        2.4%   (  5 atkvæði)
Efahyggjumaður (Agnostic)   8.1%  (17 atkvæði)
Trúlaus                                  30.8% (65 atkvæði)
Eitthvað allt annað                 5.2%  (11 atkvæði)

(211 hafa svarað)

 

Þetta er í sjálfu sér í ágætu samræmi við niðurstöður trúarlífsrannsóknar Guðfræðistofnunar, þar sem um helmingur taldi sig vera kristinn en um þriðjungur trúlausan.

Þessar upplýsingar eru fyrst og fremst gagnlegar fyrir mig. Mér finnst fínt að fá merkjanlega vísbendingu um að þeir sem lesa blogg mitt endurspegli samfélagið allt í grófum dráttum.  Ég fékk svipaða vísbendingu í lesendakönnun um pólitíska afstöðu samkvæmt vinstri-hægri ásnum.  Dæmi um gildi slíkra upplýsinga varð örugglega bloggvini Gunnari Th. Gunnarssyni eftirtektarvert. Hann ákvað að apa eftir könnun minni um pólitíska afstöðu í anda vinstri-hægri ásnum. Ég fékk 194 „smellur“, en hann hætti könnuninni með aðeins 80 „smellur“. Ég er til vinstri en hann er til hægri, en svo bar þó við, ef vísbendingarnar eru réttmætar, að við virðumst fá tiltölulega svipaða pólitíska breydd í gestum.  Það finnast mér merkilegar vísbendingar. Hægrimenn eru að kíkja á hvað ég sé að skrifa og um hvað er talað hjá mér og vinstri menn eru að kíkja á hvað Gunnar er að segja og hvað er talað um hjá honum. Það er gott. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Víst var þessi kostur til staðar. Stokkar og steinar pössuðu ágætlega undir "eitthvað allt annað".

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.5.2008 kl. 12:50

2 identicon

Ég náði ekki að kjósa... ég er algerlega fargin trúfrjáls

DoctorE (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 13:34

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég er búinn að gúggla "fargin" týpu af trúfrelsi en fann ekkert.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.5.2008 kl. 13:59

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

tékkaðu á þessu Friðrik: http://olijon.blog.is/blog/olijon/#entry-546625

Þarna kemur hann inn á ýmsa hluti sem ég trúi að séu nokkuð réttir hjá honum. Athyglisvert myndbandið neðst í pistlinum

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.5.2008 kl. 15:23

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Mér finnst vanta eiginlega flokk fyrir mig. Efahyggjumaður sem er enn skráður í þjóðkirkjunni. Þjóðkirkjan er með skráða mun fleiri en eru raunverulega trúaðir eða hallir undir hana en afskrá sig ekki af tillitssemi við sína nánustu. Ég mun segja mig úr þjóðkirkjunni fljótlega.

Haukur Nikulásson, 22.5.2008 kl. 15:35

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, Gunnar, auðvitað þarf að hafa þetta allt í huga og ég sjálfur búinn að skýrta út fyrir þér mína fyrirvara og tiltaka að gildi minna kannana sé fyrst og fremst mikilvægt fyrir mig sjálfan.

Og hvað svindl varðar þá varaði ég mig á slíku; tók afrit á stöðunni á ca. 5 atkvæða fresti eða eins oft og ég gat til að skoða þróunina. Greindi engar óeðlilegar hreyfingar, þróunin var statt og stöðugt svipuð. Hafi einhverjir verið að svindla þá eru það helst "Kristnir í Þjóðkirkjunni" sem löguðu stöðu sína nokkuð seinni hluta tímans sem könnunin var uppi! Alls ekki trúlausir og efahyggjumenn, sem voru mjög duglegir að melda sig fyrst en sigu síðan hlutfallslega niður úr ca. 45% í 38% samtals.

Vitaskuld er alrangt hjá kverúlantaútvarpsstöð eins og Sögu að yfirfæra Netkönnun hjá sér yfir á þjóðina. Það liggur við að þjóðin ætti að fara í meiðyrðamál! 

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.5.2008 kl. 15:36

7 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Haukur, þú ert ekki einn um það.  83% trúleysingja eru skráðir í Þjóðkirkjuna og einungis helmingur þjóðkirkjumeðlima eru kristnir ef eitthvað er að marka könnun kirkjunnar.  Mundu að breyta skráningu fyrir 1. des, því þann dag er staðan tekin og sóknargjöld næsta árs taka mið af skráningu þann dag.

Matthías Ásgeirsson, 22.5.2008 kl. 15:42

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Haukur: Auðvitað var þarna flokkur fyrir þig!!!!! Þú ert efahyggjumaður og þar áttir þú að "smella". Þetta var könnun um trúarafstöðu en ekki trúfélagaaðild.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.5.2008 kl. 15:48

9 identicon

Að vera trúfrjáls er að vera laus undan dogma fortíðar, að vera laus við að trúa á súpergaura í geimnum, að vera laus við að trúa einhverju bulli í kexrugluðum fornmönnum, thats what it is.

DoctorE (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 18:06

10 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ef stokkar og steinar pössuðu ekki í "eitthvað allt annað" þá hljóta þeir að hafa passað í "önnur trú en ofangreint". Ekki vil ég halda fram að þetta hafi verið fullkomin uppsetning hjá mér, en mér finnst endilega að þú hafir átt að komast þarna í einhvern hópinn Benedikt. Ef ekki þá vantaði kláralega flokk og satt best að segja hefði verið í góðu lagi að hafa "Stokka og steina" flokk. Sorrý.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.5.2008 kl. 18:40

11 Smámynd: Hebbi tjútt

Á ekki að taka öllu svona með nettu twisti !

Hebbi tjútt, 22.5.2008 kl. 19:33

12 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég hef sagt það áður og segi það enn: Mér finnst orðið "trúfrjáls" sem Doktorinn nefnir stórfínt og hefði kosið það ef það hefði verið í boði en ég tók ekki þátt í könnuninni hjá þér af því mér fannst enginn möguleiki henta mér - ekki einu sinni "eitthvað allt annað" því það var of vítt fyrir minn smekk. "Trúfrjáls" er í mínum huga allt annars eðlis en "trúlaus" eða aðrir kostir sem boðið var upp á í könnuninni.

Þetta lýsir því kannski helst hvað málið er huglægt og persónubundið.

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.5.2008 kl. 20:17

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Trúfrjáls er mjög athyglisvert hugtak og væri gaman að heyra meira. Frjáls frá trú og þá trúleysismegin eða frjáls í trú og þá með einhverskonar trú? Mér sýnist DocktorE raunar vera að lýsa dæmigerðu trúleysi (atheism): "að vera laus undan dogma fortíðar, að vera laus við að trúa á súpergaura í geimnum, að vera laus við að trúa einhverju bulli í kexrugluðum fornmönnum".

En kannski er til trúfrelsisismi mér ókunnur. Er til enskt heiti yfir fyrirbærið eða þessa huglægu stefnu? Faith-free? Deligion? 

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.5.2008 kl. 20:53

14 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég veit það ekki, Friðrik... get ekki svarað spurningum þínum. Ég er aðallega með orðsins hljóðan í huga og þá merkingu eða þann skilning sem mér finnst það bjóða upp á. Þekki engan -isma í þessu sambandi en kannski Doktorinn viti meira um það en ég - enda er ég lítt ismafróð kona.

En ef við skoðum orðið "trúfrelsi" og hvað í því felst er minn skilningur sá, að það þýði að hverjum sé frjálst að hafa þá trú sem hann helst kýs og ef við flokkum "trúleysi" þar með er trúfrelsið fullkomnað því frelsið hlýtur líka að felast í því að trúa ekki á neitt ef mönnum sýnist svo.

Að vera trúfrjáls þýðir því að minnsta kosti í mínum huga að mér sé frjálst að trúa á það sem mér sýnist - eða ekki á það sem mér hugnast ekki - og engum kemur það við. Ég vil hafa mína trú eða trúleysi fyrir mig og kæri mig ekki um að tilheyra neins konar skipulögðum trúarbrögðum eða trúarhópum frekar en stjórnmálaflokkum og því hentar þetta mér prýðilega.

Líklega er ég ein af þeim sem rekst illa í hópum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.5.2008 kl. 22:11

15 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ef raunverulega væri til einhvers konar guð sem gæti eða vildi gera vart við sig með sannanlegum hætti nú þá væru að sjálfsögðu ekki allir þessir guðir í ótal trúarbrögðum og klofningsbrotun innan þeirra. Ekki hefði þurft að falsa biblíuna og breyta henni svo hún "samræmdist nútímanum" og heimssýn og hagsmunum falsaranna á hverjum tíma. Ergo: það er alls ekkert sem bendir til þess að neinn guð sé til.

Margir segjast vera í reglulegu sambandi við einhvers konar guð og það er þeirra mál en reyni þeir að sannfæra aðra um að téður guð sé raunverulega til þá er það bara orðrómur og ber að meta sem slíkan.

Baldur Fjölnisson, 22.5.2008 kl. 23:49

16 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Efni Biblíunnar á víst að vera komið frá guði þessum en ekki mun hann þó hafa skrifað það eigin hendi og ekki heldur breytt því og falsað og togað út og suður og norður og niður, heldur munu sérlegir fulltrúar hans hér á jörðinni hafa séð um það. Aftur: fullyrðingar þeirra um að vera í sérstöku sambandi við guðinn eru ekkert annað en orðrómur þegar þær koma í eyru þriðja aðila osfrv.

Það sem gerir ritsmíð þessa sérstaklega grunsamlega er sú staðreynd að meintur guð og fulltrúar hans hafa ekki haft svo mikið sem minnsta grænan grun um elementarí hluti svo sem lögun jarðarinnar og fyrirkomulag í sólkerfinu. Þannig er því blákalt haldið fram að jörðin sé flöt og hvíli á risavöxnum stöplum og sé alveg kyrrstæð og sólin snúist um hana. Og þessi steypa er enn í Biblíunni ! Ásamt margri annarri víðáttuvitleysunni ! Þetta er algjörlega úti á túni í ljósaskiptunum og hvernig enn er hægt að reka þetta nígeríusvindl allra tíma verður mér áfram hulið.

Baldur Fjölnisson, 23.5.2008 kl. 00:08

17 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Einhvern veginn svona lítur þetta út skv. Biblíunni.

Sennilega hafa munkarnir sem suðu saman þessa dellu verið á krónísku trippi af mygluðu brauði.

Baldur Fjölnisson, 23.5.2008 kl. 00:31

18 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Lára og DoctorE: Mér sýnist doktorinn helst lýsa eins konar trúleysi en Lára einna helst eins konar einstaklingsmiðaðri efahyggju og bæði trúfrelsi. Auðvitað eru útfærslurnar persónubundnar og stundum erfitt að aðgreina trú og segjum mótaða lífssýn. Ég vil nú samt meina að þið bæðuð hefðuð getað valið þarna flokk án þess að verða mjög meint af!

Andrés Björgvin: Þú átt í sjálfu sér "heima" í "kristinn í Þjóðkirkjunni". Aðskilnaður ríkis og kirkju kemur málinu ekki við (margt þjóðkirkjufólk styður það málefni jafn dyggilega og til að mynda trúleysingjar), aðsókn í kirkju var ekki til umræðu eða tíðni samskipta við skipulagða kirkju. En aðalatriðið er að þetta var spurning um trú en ekki trúfélagsaðild. Þú ert þannig kristinn í fyrsta sæti. Ég get tekið undir að forvitnilegt hefði verið að hafa flokk eins og "Kristinn, en óháður skipulögðu kirkjustarfi", sem er sjálfsagt þokkaleg grúbba, en eins og þú segir gætu flokkarnir orðið margir.

Baldur. Þakka frískleg innlegg. Ef þú tónar heiftina niður ögn þá kannski hlusta fleiri á þig í staðinn fyrir að horfa á þig hrópa... 

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.5.2008 kl. 00:39

19 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ég man nú ekki nákvæmlega ritningarkaflann en einhvers staðar í verklagsreglum meints guðs til undirmanna sinna í sambandi við nýtingu á dýrum þá vill hann meina að hérar og kanínur séu jóturdýr eins og nautgripir. Og á öðrum stað varar hann þá við vængjuðum skordýrum sem gangi um á fjórum fótum. Það er nú eiginlega lágmarkskrafa að þeir sem þykjast skapa eitthvað sem og blaðafulltrúar þeirra hafi hundsvit á sköpuninni og geti lýst henni amk. á þokkalega vitrænan hátt en því er engan veginn til að dreifa hjá guði þessum og ritstjórn hans.

Baldur Fjölnisson, 23.5.2008 kl. 00:44

20 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Andrés; sillý me. En "Kristinn, en óháður skipulögðu kirkjustarfi" er samt forvitnilegur hópur. Hljómar reyndar pínulítið eins og "Fer ekki í kirkju en hef mína barnatrú"... :D

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.5.2008 kl. 00:52

21 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Friðrik, það er óþarfi að reyna að búa til einhverja heift.

Ad hominem trix duga aldrei.

Mín vegna mega menn trúa því sem þeim sýnist það er allt í góðu. En þeir eiga sjálfir að fjármagna klúbbastarfsemi í kringum slíkt. Hér er ríkið með stóra atvinnuleysisgeymslu sem byggist á þessum gömlu kellingabókum og þjóðsögum og það kostar milljarða árlega. Fjársvik af þessu tagi eru einfaldlega ólíðandi.

Baldur Fjölnisson, 23.5.2008 kl. 00:52

22 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Salta Pro Nobis, eins og pabbi sagði gjarnan. "Et Cetera" bætti hann svo við. Ok, ekki heift þá, heldur... ofboðslega staðfestu.

Þegar ég var ungmenni þá var ég svona ofboðslega staðfastur og samdi texta við lag:

Sýndu mér sönnun - að ég sé guðs hönnun 

og þá mun ég trúa þér,

En meðan Guð þegir er sama hvað þú segir

ég veit þú ert að ljúg´að mér. 

 

Sýndu mér andann sem leysa mun vandann

og þá mun ég trúa þér. 

Menn tala með byssum og því er ég viss um

að þú sért að ljúg´að mér. 

 

Sýndu mér drauginn sem ber geislabauginn

og þá mun ég trúa þér.

En bók þín er slitin og kolsvört á litinn

og ég veit þú ert að ljúg´að mér.

Einhver vers bættust við, en ég varð mildari með árunum. Það hefur og dregið úr ofboðslegri staðfestunni minni að eiginlega eru kristnir menn á Íslandi sjálfir búnir að leggja mestu fáránleikasögurnar úr Gamla testamentinu til hliðar og Þjóðkirkjan vinnur sjálf ötullega að aðskilnaði ríkis og kirkju. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.5.2008 kl. 01:05

23 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ég er bara að fjalla um stórfelld fjársvik sem byggjast á ótrúlega fáránlegri lygasteypu og hef rökstutt það með tilvísunum í meintan guð sjálfan og ritstjóra hans. Hvernig væri að reyna að festa fingur á því málefni heldur en að vera að jagast í minni persónu?

Baldur Fjölnisson, 23.5.2008 kl. 01:07

24 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hver? Ég? Andrés? Jæks.

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.5.2008 kl. 01:10

25 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

"og Þjóðkirkjan vinnur sjálf ötullega að aðskilnaði ríkis og kirkju. "

Ég vildi að það væri svo gott.  Sá aðskilnaður  sem Þjóðkirkjan vinnur að gengur út að hún ráði sjálf öllum sínum málum (sem er gott) en fái áfram sporslur og sérstöðu út á sögu sína (sem er óþolandi).  Síðustu ár hefur sóknin í leik- og grunnskóla stóraukist eins og þú veist.

Þjóðkirkjan vinnur ekki að alvöru aðskilnaði, því miður. 

Matthías Ásgeirsson, 23.5.2008 kl. 08:04

26 identicon

Ef þú ert með IP-tölur skráðar í könnuninni þinni og getur tengt hvert atkvæði við einstakling væri gaman að fá reiknaðar tölur yfir fylgni milli þess að vera Kristinn/trúlaus og stjórnmálaskoðun úr hinni könnuninni sem þú minnist á...

Gunnar Örn Stefánsson (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 08:33

27 identicon

Auðvitað vilja kuflar þjóðkirkju hanga áfram á ríkisspenanum, þar hafa þeir áskrift að fínum launum, eru með launahæstu mönnum ríkisins.
Hún er með risagullkirkjur á næstum hverju götuhorni.
Þjóðkirkjan er helsti óvinur kristni á íslandi, hún er skömm fyrir alla þjóðina og þá einna helst fyrir meðlimi sína.

DoctorE (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 08:35

28 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þær eru mjög skemmtilegar þessar kannanir þínar Friðrik. Ég tók að vísu ekki þátt í þessari enda hef ég verið stopult á Netinu.  Mér finnst líka fyndið að sjá hversu vel þessar kannanir þína virðast endurspegla almennar skoðanir í þjóðfélaginu.     Ertu virkilega svona venjulegur Friðrik?

Sigurður Þórðarson, 23.5.2008 kl. 09:08

29 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Ertu virkilega svona venjulegur Friðrik" spyr Siggi Þórðar, innblásinn af Óðni og Þór. Nei, Siggi, ég harðneita því að vera svona venjulegur. Það eru blogglesendur sem eru svona venjulegir, en sjálfur er ég stútfullur af dintum og sérvisku. Goðin eru samkvæmt mínum heimildum óhress með að fá ekki atkvæði frá þér, enn þakka þér þó fyrir innlitið núna.

Matthías; Þakka guðspjallið! Aðskilnaðurinn sem ég tala um þarna er Þjóðkirkjan að aðskilja sig frá þjóðinni með stefnu sinni (gagnvart t.d. samkynhneigðum) og gjörðum og orðum einstaka geistlegra fulltrúa. Þetta trúfélag vill auðvitað ekki alvöru aðskilnað. Vill þykjustu aðskilnað og bæði aukin innri völd og fé. Reyndar get ég, ólíkt þér hygg ég, sætt mig við fjárframlög til trúariðkunar, svo fremi sem það er á jafnréttisgrundvelli og að trúlausir/utan trúflokka geti sjálfir ráðstafað sínum "sóknargjöldum" til líknarfélaga eða annarra góðgerðafélaga að vali.

Hef ekki tæknikunnáttu til að framkvæma það sem þú nefnir, Gunnar Örn.

Rétt að slengja hér fram tölum úr könnun Gallup fyrir Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma (2004):

 

Hefur þú mikinn eða lítinn áhuga á trúmálum? (791)

Mjög mikinn             10.7%

Frekar mikinn           22.9%

Hv. mikinn né lítinn    29.8%

Frekar lítinn             27.4%

Mjög lítinn                 9.1%

 

Telur þú þig vera trúaða(n) eða ekki? (787)

Trúaða(n)         70.1%

Er ekki viss        10.9%

Ekki trúaða(n)    18.9%


Eingöngu trúaðir (70.1%) spurðir:

Hvaða fullyrðing kemst næst trúarafstöðu þinni? (535)

Ég játa kristna trú       78.3% (54.9% heildar)

Ég trúi á minn hátt      21.7%

Meira en þriðjungur okkar hefur lítinn eða engan áhuga á trúmálum, annar þriðjungur mjög eða frekar mikinn áhuga og þriðji þriðjungurinn liggur þarna mitt á milli. 70% telja sig trúaða og þar af játa 78% kristna trú. Miðað við þetta eru"aðeins"  um 55% okkar bæði trúuð OG játa kristna trú.

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.5.2008 kl. 09:42

30 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Reyndar get ég, ólíkt þér hygg ég, sætt mig við fjárframlög til trúariðkunar, svo fremi sem það er á jafnréttisgrundvelli og að trúlausir/utan trúflokka geti sjálfir ráðstafað sínum "sóknargjöldum" til líknarfélaga eða annarra góðgerðafélaga að vali.

Ég gæti alveg sætt mig við það.

Reyndar vildi ég helst að trúfélög sæju alfarið um þetta.  Ég tel við fáum ekki rétta mynd af trúarviðhorfum þjóðarinnar gegnum skráningu í trúfélag fyrr en fólk finnur kostnaðinum sjálft.

En ef fólk gæti ráðstafað sóknargjöldum til líknarfélaga eða góðgerðarfélaga að eigin vali held ég að það myndi strax hafa veruleg áhrif.

Sem er einmitt ástæða þess að ríkiskirkjan berst hatrammlega gegn slíkum breytingum. 

Matthías Ásgeirsson, 23.5.2008 kl. 10:26

31 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ég legg til að ég fái 250 milljónir fyrir að endurrita og stytta Biblíuna enda er hún engan veginn boðleg hvorki sem skáldskapur eða trúarrit. Einna best líst mér að að gera þetta að eins konar vísindaskáldsögu og er td. með mjög góðar hugmyndir í sambandi við Nóa og örkina og öll dýrin.

Núverandi útgáfa af því ævintýri gerir ráð fyrir að Nói og fjölskylda hafi tekið með sér í örkina tvö eintök af öllum dýrum jarðarinnar ásamt fóðri og vatni fyrir fjörutíu daga sjóferð sem augljóslega þýðir að örkin hefur verið - hvað eigum við að segja ... á stærð við Reykjanesskagann? Nói og fjölskylda hafa þá verið með heilu flotana af treilerum og þúsundir manna í vinnu við að fóðra hjörðina og tryggja velferð hennar og hindra að dýrin ætu hvert annað. Sérstakt tím vísindamanna hefur síðan verið með nokkrar milljónir tegunda skammlífra skordýra í gjörgæslu til að hindra að þau dæju út. Það er kannski hægt að telja einhverjum fábjánum trú um að Nói sjálfur hafi náð að verða 950 ára gamall en 40 daga gamlar húsflugur, nei takk, ekki einu sinni Gunnar í krossinum myndi kaupa það.

Þessi vitleysa öll þarf sem sagt algjöra yfirhalningu og ég er með mjög góða lausn á því sem felst í því að guð gefur Nóa eins konar geislabyssu sem gerir honum kleift að minnka dýrin þannig að þau passi í örk og umhverfi og vinnuframlag Nóa og fjölskyldu. Þau eru síðan fryst á tæknilegan hátt og geymd einhvern veginn svona:

Síðan þegar sjóferðinni lýkur gengur þessi prósess til baka á vísindalegan hátt.

Meira síðar, en síminn er þegar rauðglóandi hjá mér og ég reikna með að skrifa undir á morgun og hin handhæga og skemmtilega 150 síðna Nýbiblía mín verði svo jólabókin í ár.

Baldur Fjölnisson, 23.5.2008 kl. 11:01

32 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þessi frábæra hugmynd hefur heldur betur slegið í gegn og núna rignir yfir mig hugmyndum frá almenningi um útfærslu Nóadæmisins. Myndin að neðan, sem ég fékk frá einhverjum gaur á Akureyri lýsir listrænni sýn hans á verkefnið. Takið eftir mínimalismanum í hönnun arkarinnar. Snilld. Nói sjálfur er fyrir miðri mynd, sjá má Jafet neðst á myndinni en sennilega hefur restin af fjölskyldunni ekki verið við, kannski frúin hafi skroppið í Bónus að versla í matinn.

Baldur Fjölnisson, 23.5.2008 kl. 11:24

33 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Jamm og ég sem minnkaði myndina af flötu jörðinni sérstaklega til að forðast að sjokkera þá sem lifa og hrærast í afar myndrænu umhverfi en hafa samt etv. aldrei séð lýst á myndrænan hátt heimsmynd meints skapara. Og svo fær maður bara skammir. Víst eru laun heimsins vanþakklæti. Amen og kúmen.

Baldur Fjölnisson, 23.5.2008 kl. 17:52

34 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Annars biðst ég velvirðingar á missögn í sambandi við sjóferð Nóa og fjölskyldu og dýranna. Það rigndi jú í 40 daga og fjörutíu nætur en síðan voru þau á siglingu í 150 daga í viðbót, skv. ritningunni. Þannig að les: jafnvel Gunnar í krossinum myndi ekki trúa að húsflugur hvað þá dægurflugur gætu náð 190 daga aldri.

En ég veit að hinir sannkristnu hafa pottþétta lausn á þessu öllu eins og venjulega. Um var að ræða kraftaverk og þar að auki eru vegir guðs órannsakanlegir. Já, þannig er það alltaf í ævintýrunum. Þau eru lítt í sambandi við veruleikann.

Baldur Fjölnisson, 23.5.2008 kl. 18:05

35 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég var að hlusta á fréttaskýringaþátt á CNN um daginn þar sem greindir voru kjósendur í prófkjöri Demókrata vestur í Bandaríkjunum. Mikill munur var eftir menntun, húðlit, kyni, fjárhag og aldri en mestur var munur eftir trú.  Þannig vöru miklar líkur á að vel menntaður, dökkur, ungur, vel stæður karlmaður kysi Obama en væri hann í þokkabót ekki mjög trúaður eða jafnvel trúlaus voru líkurnar á að hann kysi Clinton aðeins lítið brot úr prósenti. Þannig var hinn gríðarlegi munur  árangri frambjóðendana í Kentucy og Oregon skýrður með því að í Oregon væri tekjur hærri og menntun mun meiri en þó vó þyngst að rúmlega 25% íbúana töldu sig trúlausa, sem þykir gríðar hátt í Bandaríkjunum.

Sigurður Þórðarson, 23.5.2008 kl. 20:24

36 identicon

Ég sætti mig ekki við að ríkið dæli fjármagni í neina hjátrú, þeir sem vilja vera í einhverju hallelúja dæmi borgi slíkt úr eigin vasa.

DoctorE (IP-tala skráð) 24.5.2008 kl. 12:26

37 Smámynd: Sigurður Rósant

Þetta eru skemmtilegar niðurstöður af könnun þinni á trúarviðhorfum bloggara sem heimsækja síðu þína, Friðrik. Óvenju margir "trúfrjálsir" eða trúleysingjar sem hér reyna að hjálpa trúboðum til réttrar breytni á blogginu.

Mér finnst þetta orð DoctorsE mjög gott í staðinn fyrir neikvæða merkingu orða eins og trúleysingi, vantrúaður eða vondur. Ég hef stundum orðað það þannig að ég sé "frelsaður frá allri trú", en "trúfrjáls" er betra.

Fjölnir kemur með skemmtilegar hugmyndir á sögunni af Nóa og flóðinu mikla sem kaffærði öll fjöll jarðar en bjargaði dægurflugunni. Hann leiðréttir svo sig er hann segir að flóðið hafi ekki aðeins staðið í 40 daga skv. ritningunni, heldur 190 daga. Ekki veit ég hvernig hann hefur komist það þessu, en skv. 1.Mós 7.11 byrjaði ballið "Á sexhundraðasta aldursári Nóa, í öðrum mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á þeim degi opnuðust allar uppsprettur hins mikla undirdjúps og flóðgáttir himinsins lukust upp."  Og því lauk svo skv. 1. Mós 8:13-14 "Og á sexhundraðasta og fyrsta ári, í fyrsta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, var vatnið þornað á jörðinni. Og Nói tók þakið af örkinni og litaðist um, og var þá yfirborð jarðarinnar orðið þurrt. Í öðrum mánuðinum, á tuttugasta og sjöunda degi mánaðarins, var jörðin þurr."

Svo Móse og dægurflugurnar ásamt öllum dýrunum voru þarna a.m.k heilt ár eða 370 daga um borð í örkinni frægu, með nóg vatn að drekka, nóg af heyi, korni og öllum fæðutegundum sem dýrin þörfnuðust og vaskar konur sem mokuðu jafn harðan undan fénaðinum og settu í rotþró sem framleiddi metangas til lýsingar á neðri hæðum arkarinnar. Aldrei var svo mikið sem undiralda sem hefði getað liðað 135 metra langt, 13,5 metra hátt og 20 metra breitt eikarskipið í sundur á fyrstu sekúndum flotsetningar þess, þrátt fyrir afburða kalföttunar og tjörgunar á skipinu að utanverðu.

Með kveðju

Sigurður Rósant, 24.5.2008 kl. 20:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband