Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Afsögn Björgvins æpir á Sjálfstæðisflokkinn

Björgvin G. Sigurðsson tilkynnir um afsögn sína á...Ég og Björgvin G. Sigurðsson vorum samstarfsmenn fyrir áratug eða svo og ég tel mig þekkja hann ágætlega. Afsögn hans kemur mér ekki á óvart. Ef eitthvað er tel ég að þrýst hafi verið á hann um að stíga slíkt skref ekki - fyrr en þá nú. Ég þekki Björgvin af því að vera einarður prinsippmaður og tel mig vita að hugur fylgi þarna sannarlega máli, en að ekki sé um málamyndagjörning að ræða.

Afsögn Björgvins og - væntanlega að hans frumkvæði - fráhvarf forstjóra og stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins, Jónasar Fr. Jónssonar og Jóns Sigurðssonar, æpir á Sjálfstæðisflokkinn um samsvarandi öxlun ábyrgðar. Við blasir að hið minnsta formaður bankastjórnar og formaður bankaráðs Seðlabankans fjúki og að líkindum fjármálaráðherra. Gerist það má segja að forsenda sé fyrir hendi að núverandi ríkisstjórn geti almennt og yfirleitt setið að völdum fram að kosningum. Ef ekki eru engar forsendur fyrir áframhaldandi starfsstjórnun ríkisstjórnar Geirs H. Haarde.

Í þessum "töluðu" orðum eru forkólfar Samfylkingarinnar að funda með Geir heima hjá honum. Gangi þeim vel með erindi sitt...

Viðbót:

Kannski er ég óþarflega jákvæður í garð afsagnarinnar, en mér finnst furðum sæta hversu margir horfa á afsögnina í neikvæðu ljósi. Jafnvel þeir sem eru búnir að æpa lengi og hátt á öxlun ábyrgðar og afsagnir segja að útspil Björgvins sé bara pólitískur loddaraskapur, hann sé bara að hugsa um eigin hag, þetta sé of lítð og of seint o.s.frv. Jákvæðustu raddirnar segja að Björgvin sé "maður að meiru" fyrir að gera þetta.

Kom ákvörðun Björgvins of seint? Færa má gild rök fyrir því að hún hafi mátt koma fyrr, en að mínu mati þá einvörðungu í tengslum við víðtækari uppstokkun í stjórnarsamstarfinu og þá raunar með afsögn allrar ríkisstjórnarinnar í sjálfu sér. Ákvörðun Björgvins kemur hins vegar ekki of seint miðað við að ólgan í samfélaginu er tiltölulega nýrisin upp til hæstu hæða og uppreisnin innan flokks Björgvins er líka nýtilkomin. Það er NÚ sem mælirinn fylltist.

Of lítið? Já. þessi afsögn hefur lítið gildi fyrir hina reiðu þjóð nema hin hliðin á sama peningnum fylgi með. Fjármálaráðherra (ef ekki stjórnin öll), bankastjórn og bankaráð Seðlabankans.

Ég vildi og óska þess að einhverjar þær klásúlur væru til sem leiddu til "afsagnar" manna á borð við Finn Ingólfsson, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Ólafs Ólafssonar, Björgólfs Thors og Guðmundssonar, Sigurðar Einarssonar og fleiri mætti nefna.  Þarna eru skúrkarnir sem sannarlega eiga að "segja af sér".


mbl.is Björgvin segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forstöðumenn hvattir til að vera á varðbergi

Ríkisendurskoðun hefur sent öllum forstöðumönnum ríkisstofnana bréf þar sem þeir eru hvattir til að kynna sér leiðbeiningar stofnunarinnar um aðferðir til að fyrirbyggja fjármálamisferli.

"Reynslan hefur sýnt að þegar efnahagsástand versnar eykst almennt hætta á því að misfarið sé með fé stofnana og fyrirtækja. Í upplýsingaritinu „Vísbendingar um fjármálamisferli‘‘, sem út kom árið 2006, er að finna leiðbeiningar um hvernig hægt er að uppgötva slík brot og fyrirbyggja þau".

Í niðurlagi bréfsins segir:

Með þessu bréfi er ekki ætlunin að ala á tortryggni milli manna heldur vill Ríkisendurskoðun stuðla að því að stofnanir hafi góða þekkingu á þeim þáttum sem valda hættu á fjármálamisferli og þeim aðferðum sem nota má til að fyrirbyggja hana.‘‘

Texti dreifibréfsins í heild

Þetta er ekki skríll - þetta er ég og þú

Fólk hefur sest niður í Alþingisgarðinum og neitar að verða...Fór á Austurvöll og var þar lengi. Tók myndir og fylgdist vel með, sérstaklega gerði ég mér far um að skoða hvers konar fólk væri mætt. Ég held að það sé fyllilega óhætt að segja að þetta snúist ekki (lengur) um "unga krakka" og "skríl". Það fólk og Svartliðarnir eru kannski mest áberandi í myndum og fremst í flokki, en hitt fólkið var ekki langt undan og framleiddi sinn hávaða: Venjulegt fólk á öllum aldri, sem vill koma skýrum skilaboðum til ríkisstjórnarinnar.

Á þessu skyldi ríkisstjórnin átta sig, ekki síst Samfylkingin, sem á uppruna sinn að rekja til alþýðuhreyfinga. Orð Ingibjargar Sólrúnar um að "þetta" væri "ekki þjóðin" geta ekki gilt lengur, þótt þræta hafi mátt um samsetningu mótmælenda um tíma. 

Persónulega held ég að farsælast væri fyrir ríkisstjórnina að segja af sér sem slíkri en mynda þjóðstjórn, sem væri starfsstjórn fram að kosningum - og að þær kosningar fari fram í fyrsta lagi í maí en í síðasta lagi í september/október. Guðvelkomið að kjósa í leiðinni um hvort fara eigi í aðildarviðræður við ESB.

Núverandi ríkisstjórn nýtur alls ekki trausts til að gera það sem þarf að gera og á þann hátt að það gagnast venjulegu fólki best, en ekki útvöldum.


mbl.is Piparúði og handtökur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkiskirkjan komin niður í 78.6%

 Þjóðkirkjan er kominn alla leið niður í 78.6% af landsmönnum (1. des. sl.). Hlutfallslega varð þar fækkun úr 80,1% í 78,6% milli ára, sem er gríðarlegt stökk niður á við. Fyrir um það bil 15 árum var hlutfallið 93%. Af 248.783 landsmönnum 16 ára og eldri tilheyrðu rúmlega 53.200 manns öðrum trúfélögum eða voru utan trúfélaga. Enn aukast rökin fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju.

 

Meðlimir helstu trúfélaga 16 ára og eldri 1. desember 2008
   FjöldiHlutfallsleg skipting
    
Alls248.783100,0
    
Þjóðkirkjan195.57678,6
Fríkirkjur11.9394,8
 Fríkirkjan í Reykjavík6.0082,4
 Fríkirkjan í Hafnarfirði3.7351,5
 Óháði söfnuðurinn2.1960,9
Trúfélög utan Þjóðkirkju og fríkirkjusafnaða14.1765,7
 Kaþólska kirkjan6.6502,7
 Hvítasunnukirkjan á Íslandi1.6250,7
 Ásatrúarfélag1.1680,5
 Önnur skráð trúfélög4.7331,9
Önnur trúfélög og ótilgreint19.3237,8
Utan trúfélaga7.7693,1

 (Heimild: Hagstofa Íslands)


Ég trúi ekki Sigga Sheik

Sigurður Einarsson. Ég er sammála Þeirri línu sem mér sýnist vera ráðandi varðandi trúverðugleika Sigurðar Einarsson í Kaupþingi um "fiffið" í kringum Sheikh Mohamed bin Khalifa Al-Thani og kaup hans á rúmlega 5% hlut í Kaupþingi: Ég tek ekki hið minnsta mark á yfirlýsingum Sigurðar og tali hans um "misvísandi" fjölmiðlafréttir. Það er Sigurður sem er misvísandi.

Sigurður Einarsson og aðrir forkólfar hins fallna bankaheims hafa misst allt traust og trúverðugleika. Í mínum huga er Sigurður klíkumeðlimur S-hópsins helstu krimmanna úr röðum samvinnuhreyfingarinnar, sem sviku þá frómu stefnu til að verða moldríkir. Hann er af svipuðum kalíber og Ólafur Ólafsson og sá versti af þeim öllum; Finnur Ingólfsson.

Þessir menn njóta þess trausts sem þeir eiga skilið. Fyrr heldur en Fjármáleftirlit og rannsóknaraðilar staðfesta orð Sigurðar þá er þeim einfaldlega ekki trúað. Þannig er það.Eða hvað finnst ykkur hinum?


mbl.is Ekkert óeðlilegt við viðskiptin við Al-Thani
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Þjóðkirkjan skorin niður? Nei.

Ung vinstri græn (UVG) fagna svokölluðum niðurskurði á fjárveitingum til Þjóðkirkjunnar og segja að sá niðurskurður sé "stórt skref í átt að aðskilnaði ríkis og kirkju". Þessu er ég ekki sammála. Nánar tiltekið; ég aðhyllist aðskilnaðinn eins og UVG, en ekki er hægt að tala um raunverulegan 400 milljón króna niðurskurð. Það var hins vegar hætt við mikla hækkun á fjárframlögum.

Sparnaðurinn eða niðurskurðurinn umræddi er ekki fyrirhuguð breyting milli áranna 2008 og 2009. Fárlög (og fjáraukalög) 2008 og nýsamþykkt fjárlög 2009 sýna að fjárframlög til trúmála eru um það bil að standa í stað. Það sem er að lækka felst í breytingunni sem gerð var á upprunalegu fjárlagafrumvarpi 2009 (sem samið var af bjartsýnu fólki fyrir hrunið). Ríkið ætlaði að gera vel við trúfélög, en hvarf frá því. Það er EKKI eiginlegur niðurskurður. Engu hafði verið lofað með löggjöf. Ætlunin var að hækka framlögin, en horfið var frá því. Tala má um sparnað en síður niðurskurð.

Skoðum þetta aðeins betur. Í trúmálum skipti ég fjárframlögum í tvennt: Forréttindaframlög til Þjóðkirkjunnar annars vegar og síðan sóknargjöld sem í grunninn byggja á jafnrétti trúfélaga á milli (að jöfnunarsjóði undanskildum). Lítum fyrst á forréttindaframlögin. Samkvæmt fjárlögum (og fjáraukalögum) 2008 runnu 1.501 milljónir króna (einn og hálfur milljarður) til "Biskups Íslands" (þar í laun presta og stjórnsýsla trúfélagsins með meiru). Til stóð að hækka þetta verulega en vegna efnahagsástandsins var horfið frá því og í fjárlagafrumvarpi er upphæðin 1.509 milljónir. Þetta er ekki niðurskurður heldur hækkun um 8 milljónir. Menn hins vegar spöruðu sér fyrirhugaða stórhækkun.

Annað dæmi af forréttindaframlögunum: Kristnisjóður 2008 var 89.7 milljónir. Það átti að hækka myndarlega 2009, en eftir tiltekt á upprunalegu fjárlagafrumvarpi 2009 endaði þessi tala í 94.5 milljónum. Þetta er ekki niðurskurður, heldur hækkun. Hækkunin er bara ekki eins mikil og í fyrstu var farið af stað með - sem er allt annað mál.

Sóknargjöld byggja í grunninn á jafnrétti milli trúfélaga (og sóknargjöld fólks utan trúfélaga renna í svokallaðan Háskólasjóð (HÍ). Föst upphæð per haus. "Framlög" þar er í raun skattlagning ("tíund"!) fyrir hönd trúfélaganna. Yfirvöld ákveða einhverja krónutölu og að frátöldum Jöfnunarsjóði sókna (sem Þjóðkirkjan situr ein að) fá allir það sama. Niðurskurður eða sparnaður þarna bitnar því jafnt á öllum jafnt og breytir engu um aðskilnað ríkis og kirkju. Sóknargjöld til Þjóðkirkjunnar lækka um 23 milljónir milli ára, en það er ekki niðurskurður. Það er lækkun vegna þess að meðlimum Þjóðkirkjunnar fækkaði hlutfallslega. Sem er allt annað mál.

Þetta skyldu UVG hafa í huga. Hvað sem Biskupsstofa segir þá hefur enginn raunverulegur niðurskurður  átt sér stað á ríkisframlögum til Þjóðkirkjunnar, heldur er einvörðungu búið að "tóna niður" þau útgjöld sem fyrirhuguð voru af mönnum sem voru ekki búnir að upplifa Hrunið Mikla.


mbl.is Ung vinstri græn fagna niðurskurði við þjóðkirkjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðileg jól

Við hérna í Miðstrætinu óskum öllum gleðilegra jóla, sama hvaða trúarbrögðum eða trúleysi þið tilheyrið.

Við óskum ykkur einnig farsældar á komandi ári og ekki síst að við öll fáum að njóta betri stjórnvalda og manneskjulegri stjórnvaldsaðgerða. Nóg er af jólasveinum samt.


mbl.is Nærri 3.000 jólakveðjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samtökin "Davíð heim"

Vill ekki einhver stofna með mér samtökin "Davíð heim"?

Ekki heim til mín þó!

Í samtökunum geta verið tvær deildir. Þeir sem vilja Davíð aftur "heim" í pólitíkina eru í annarri deildinni, en þeir sem vilja að hann fari á eftirlaun heim til sín og klappi skógarköttum og semji ljóð og leikrit í hinni deildinni. Skemmtinefnd getur skipulagt reiptog milli deilda. Davíð dæmir auðvitað.

Á meðan getur venjulegt fólk tekist á við þjóðarvandann.


mbl.is Man ekki eftir símtali við Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En... fleðulæti og slepja eru ær og kýr (margra) presta!

Svo virðist sem Feministafélag Íslands telji að hefðbundin sönnunarbyrði eigi að víkja í kynferðisbrotamálum og að dómarar eigi alltaf að trúa unglingsstúlkum/ungum konum einhliða þegar þær saka karla um kynferðislegt áreiti og annað þaðan af verra. Þá eigi dómarar bara að miða við "upplifun" hinna meintu þolenda. Gerir Feministafélagið sér ekki grein fyrir því hversu hættuleg þessi afstaða er?

Ég er ekki í vafa um að í prestastétt leynist margur úlfurinn í sauðagæru. Ég þykist nokkuð viss um að í umræddu máli hafi presturinn gengið allt of langt í faðmlögum og kossastússi. Ég er viss um að hann hafi verið "krípí". En ég er ekki viss um að hann hafi í raun og sann gengið lengra en lög og hefðir leyfa. Prestar eru "góðmenni" að atvinnu. Þeir hafa töluvert svigrúm til faðmlaga og smeðjulegra orðatiltækja. Úlfarnir í stéttinni, sem erfitt eiga með að hemja kynhvöt sína, notfæra sér kannski þetta svigrúm fram í ystu æsar. Besta ráðið er að losa sig við slíka presta áður en þeir ganga of langt. Varðhundurinn er sóknarnefndin, djákninn, organistinn og fleira gott fólk.

En samkvæmt lögum og hefðum og einfaldlega vegna þess möguleika að meintir þolendur geta verið að bera upp rangar sakargiftir (það hefur gerst og þýðir ekkert um það að þræta) þá gengur ekki að trúa öðrum aðilanum einhliða þegar orð standa gegn orði. Réttlætið og réttarkerfið krefjast þess að meira komi til, því eðlilega er mikill og sterkur vilji fyrir því almennt að saklausir menn dæmist ekki sekir. Við viljum ekki að slíkt hendi okkur og þess vegna viljum við ekki að slíkt hendi aðra.

Dómurinn í Héraðsdómi Suðurlands í máli séra Gunnars Björnssonar virðist vel ígrundaður og dómurinn var fjölskipaður; þarna dæmdu saman þrír dómarar, tveir karlar og ein kona. Í raun sannaðist ekkert á prestinn nema ofboðsleg fleðulæti og slepja, óviðeigandi faðmlög og kinnakossar. Með öðrum orðun nokkurn veginn það sem sáluhjálparar þjóðkirkjunnar gera!

Ráð gegn slíku er að banna prestum með lögum, og með innbyrðis kirkjureglum, að snerta, hvað þá faðma og kyssa sóknarbörn sín. Hands off! Er það ekki?


mbl.is Gagnrýna sýknudóm í kynferðisbrotamáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kirkjan í upphæðum

Þeir sem þekkja til mín vita að ég hef í gegnum árin verið óspar á gagnrýni á Þjóðkirkjuna (Ríkiskirkjuna) og önnur trúfélög skipulagðra trúarbragða. Ekki síst þegar ég var í forsvari fyrir Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju. Nú er komið upp mál fyrir dómi sem ýtir undir þá ímynd að kirkjan sé "í upphæðum" - Kirkjan telur sig eiga rétt á meira en 100 milljónum króna vegna afnota Landsvirkjunar af vatnsréttindum í landi Valþjófsstaðar. Ætli Landsvirkjun þyrfti ekki að breyta þessum vatnsréttindum í vínréttindi til að afvegaleiða hempufólkið?

Í sjálfu sér þarf enginn að efast um að Þjóðkirkjan eigi eins og aðrir landeigendur kröfur á Landsvirkjun ef og þar sem Landsvirkjun er að sölsa undir sig eigur og réttindi. En í þessu máli ætti Þjóðkirkjan að óska eftir frestun á frekari málflutningi vegna málsins meðan mesta ólgan og krísan er að líða hjá. Svo gæti farið að krafa Þjóðkirkjunnar verði krafa á "gjaldþrota" ríki. Að ríkið, sem er þjóðin, megi til með að nota fjármuni sína í annað en að borga fyrir vatnsréttindi. Þjóðkirkjan mætti einnig íhuga að ríkið getur náð þessum fjármunum auðveldlega til baka, t.d. með því að lækka sóknargjöldin og/eða skerða framlög í fjárlögum. Held að það væri reyndar óvitlaust, en Þjóðkirkjan ætlar út í nýjar fjáröflunarleiðir!

Ég sit í stjórn Breiðavíkursamtakanna. Eins og menn muna vafalaust deildu samtökin hart á ríkisvaldið (forsætisráðuneytið) fyrir nánasarlegar tillögur um bætur í drögum að frumvarpi. Undir eðlilegum kringumstæðum væru samtökin nú að herja á Geir og félaga um stórbætt frumvarp og hraða afgreiðslu á boðlegum bótum. En samtökin átta sig fullkomlega á því að slík barátta verður líkast til að bíða um sinn, jafnvel hið minnsta í 2-3 mánuði og hugsanlega til vorþings Alþingis. Bótamálið er jafn brýnt og áður, en samtökin kunna sig og víkja tímabundið meðan við tökum öll saman á Kreppuskrímslinu ógurlega. Óskandi væri að Þjóðkirkjan kynni sig líka.


mbl.is Kirkjan krefur ríkið um milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband