Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Hugvekja: Liðin sem ég elska og hata

Í fótboltanum heldur maður með sínu liði, maður á að hata erkifjendurna og maður má ekki vera félagsskítur. Þessi einarða afstaða er annars mikið til bundin við íþróttirnar, því á öðrum sviðum lífsins leyfist manni að skipta um skoðun og hollustu. Í pólitík er maður þannig ekki endilega félagsskítur þótt maður flakki á milli flokka í kjörkassanum. En það er samt talið vera gegn „anda“ stjórnmálanna.

Sumir halda reyndar „pólitískt“ með sínu fótboltaliði. Eftir því sem mér skilst þá eiga vinstrimenn ekki að halda með KR – því það hafi verið og sé auðvalds-liðið. Eins og Real Madrid á Spáni. Á Ítalíu telst AC Milan vera hægra-lið Berlusconis og Lazio er sagt vera lið Fasistanna. Hvað Enska boltann varðar er ljóst að Íslendingar halda með sigurvegurunum. Þrír af hverjum fjórum halda með Liverpool, Man. Utd eða Arsenal – hinn fjórðungurinn heldur með skrítnum undirmálsliðum eins og Tottenham eða WBA, skilst mér. Fyrir marga er þarna um trúarbrögð að ræða og kirkjur þessara trúarbragða eru til muna betur sóttar en kirkjur hefðbundinna trúarbragða.

Ég get ekki alveg farið eftir formúlunni; Ég er félagshyggjumaður en held með KR, meintu auðvaldsliði. En ég hata ekki Val. Í Enska boltanum held ég með öðru meintu auðvaldsliði, Tottenham, en ég hata ekki Arsenal (þótt ég voni að þeir tapi sérhverjum leik).

Í pólitík er ég löngu búinn að yfirgefa einstrengingslegar skoðanir og hollustu. Ég myndi vilja hafa persónukjör; fá að pikka út einstaklingana á listunum, en ekki flokkana. Ég myndi vilja fá að velja skynsama, öfgalausa einstaklinga af öllum listum, því í pólitíkinni er „mitt lið“ ekki endilega best. Landið eitt kjördæmi og persónukjör. Af (nú) 63 frambjóðendum myndi ég örugglega velja minnst 3-4 úr þeim flokki sem mér er annars verst við. Af því að þar er líka þrátt fyrir allt að finna gott og skynsamt fólk. Fólk sem vill samfélaginu vel en ekki bara sjálfu sér.

Sem félagshyggjumaður myndi ég áreiðanlega velja fleiri einstaklinga sem eru „til vinstri“. En slík hugtök þýða ekki það sama og þau gerðu hér áður fyrr. Í velferðarsamfélögum eins og á Íslandi er löngu ljóst að þriðja leiðin varð fyrir valinu; að taka það besta úr hægrinu og vinstrinu og búa til manneskjulegt blandað hagkerfi. Reyndar hafa öfgafullir frjálshyggjumenn verið að reyna að breyta þessu, en þeim verður ekki kápan úr því klæðinu úr þessu, enda hefur nýfrjálshyggjan beðið alvarlegt skipbrot og verður dæmd samkvæmt því.

Þannig myndi maður kannski vilja hafa það í fótboltanum; fá að búa til eigið lið úr þeim leikmönnum allra liða sem spila besta og fallegasta boltann. Mitt Íslenska lið yrði ekki uppfullt af KR-ingum. Mitt Enska lið hefði meira að segja einn eða tvo Arsenalmenn í hópnum, svei mér þá. En þá yrði ég af einhverjum talinn svikari og félagsskítur. O jæja.

Í viðskiptum? Ég vil fá gamla góða Alþýðubankann aftur. Og það er tímabært á ný fyrir alþýðuna og landsbyggðarfólkið að stofna pöntunarfélög og samvinnufélög. Í alvöru talað.


Hugvekja: Þú skalt ekki stela

hugvekja

Þegar fólk stelur lambalæri í Bónus eða glingri úr Smáralind þá heitir það þjófnaður og brot á boðorðum Guðs og slíkt fólk ætti samkvæmt norminu helst að senda til Breiðavíkur til tuktunar hjá geðveikum brottreknum togaraskipstjórum. Þegar moldríkt fólk stelur hins vegar milljónum og milljörðum af samhluthöfum sínum þá heitir það viðskipti og samkvæmt norminu ætti helst að senda það til Bessastaða og hengja fálkaorðu á það fína slekti.

Meira er ekki um það að segja. Er það?


mbl.is Hnuplað fyrir mörg hundruð þúsund í Smáralind
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurskurðar- og sparnaðartillögur mínar: leiðari

Fjárlög ársins í ár gera ráð fyrir 434 milljarða króna ríkisútgjöldum. Á sama tíma er ljóst að efnahagslegur samdráttur er að hellast yfir landsmenn. Svo er að sjá að yfirvöld finni helst sparnaðarleiðir í velferðarmálum (sbr. spítalar) og öryggismálum (sbr. lögregla og landhelgisgæsla). Mig langar að beina augum yfirvalda að öðrum sparnaðarpóstum.

Fyrir það fyrsta legg ég til að útgjöld til trúmála verði skorin niður um þó ekki væri nema 20-30 prósent; mest hjá Þjóðkirkjunni vegna forréttinda hennar, en minna hjá öðrum trúfélögum og til Háskólasjóðs (þangað sem renna sóknargjöld fólks utan trúflokka). Í alla þessa pósta eiga í ár að renna 4.650 milljónir króna (liðlega 4.6 milljarðar). Tökum 1.2 milljarða af þessu og setjum helminginn í spítalana en spörum restina. Skerum Þjóðkirkjufjárlög, sóknargjöld, Jöfnunarsjóð sókna, Kirkjumálasjóð, kristnisjóð og slíka pósta um allt að 30%. Ég er notabene ekki á móti fjárveitingum til trúfélaga, en fórnarlundin á að segja til sín í kreppunni og þessi óeiginlega tvö- til þrefalda tíund mætti gjarnan frekar renna til velferðarmála; stytta biðlista og borga birgjum heilbrigðisstofnana til að spara vanskila- og dráttarvexti.

Skerum Alþingisútgjöld um 10% - þar fást 245 milljónir. Skerum "Varnarmál" um 20% - þar fást 106 milljónir. Skerum sendiráð um 20% - þar fást 384 milljónir. Skerum "greiðslur vegna mjólkurframleiðslu" niður um 10% - þar fást 500 milljónir. Skerum "greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu" um 10% - þar fást 365 milljónir. 50 milljónir í viðbót vegna Bændasamtaka Íslands. Skerum "styrki vegna stjórnmálasamtaka" niður um 20% - þar fást 74 milljónir. Skerum niður "landkynningarskrifstofur erlendis" um 50% - þar fást 82 milljónir. Skerum niður "markaðssókn í íslenska ferðaþjónustu" um 50% - þar fást 15 milljónir. Skerum niður" markaðssókn Íslands í Norður-Ameríku" um 50% - þar fást 24 milljónir.

Skerum niður skúffufé ráðherranna og ríkisstjórnarinnar um 65-70%; þar fást 60 milljónir vegna ráðherranna og 125 milljónir vegna ríkisstjórnarinnar.

Endurskoðum útgjöld eins og: Ritun biskupasögu (14 milljónir), útboðs- og einkavæðingaverkefni (15 milljónir), ráðgjöf vegna breytinga í heilbrigðis- og tryggingamálum (30 milljónir), viðhald stafkirkju í Vestmannaeyjum (3 milljónir), landþurkun (4.5 milljónir), námsleyfi lögfræðinga (3.7 milljónir), Hollvinasamtök varðskipsins Óðins (5 milljónir), Hið íslenska reðursafn (800 þúsund), heiðurslaun listamanna - Erró (1.8 milljón), heiðurslaun listamanna - Guðbergur Bergsson (1.8 milljón), Hvítasunnukirkjan á Íslandi, Kirkjulækjarkot (2 milljónir), Krossinn, unglingastarf (2 milljónir), Klúbbur matreiðslumeistara (3 milljónir), niðurrif frystihúss í Flatey (10 milljónir), Spákonukot á Skagaströnd (5 milljónir), Vestmannaeyjabær - "handritin heim" (5 milljónir), ár kartöflunnar 2008 (1.5 milljón), umhverfissamtökin Blái herinn (1.2 milljón).

Ég er viss um að ég móðgi þarna suma, en ég hef þó fundið ærið fé til að stytta biðlistana, borga birgjunum, ráða nokkrar löggur og laga eina þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þetta er bara spurning um forgang á samdráttartímum. 


Jóhanna rokkar - hennar tími er kominn

Að fylgi Samfylkingarinnar aukist um 5% á sama tíma og fylgi Sjálfstæðisflokksins dragist saman um 6% eru stórmerkileg tíðindi. Að vísu kemur ekki fram hvenær könnun Fréttablaðsins var framkvæmd, en mér sýnist að það megi gefa sér að mesti áhrifavaldurinn hafi verið nýjustu aðgerðirnar með Jóhönnu Sigurðardóttur og íbúðalánin í forgrunni. Áður hefur komið fram að Jóhanna er langvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Jóhanna er því að gera það gott og augljóst að hvíslingar/orðrómur um að Samfylkingin hafi ætlað að skipta henni út í ráðherrauppstokkun á miðju kjörtímabili hlýtur að byggja á veikum grunni og sé þá alltént í endurskoðun. Það virðist beinlínis út í hött að kasta frá sér trekkjaranum Jóhönnu Sigurðardóttur.

Með Samfylkinguna í uppsveiflu og Sjálfstæðisflokkinn í niðursveiflu skilur maður ögn betur hróp Kristjáns Þórs Júlíussonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins um að menn "láti ekki rúlla yfir sig endalaust" (sjá færslu hér fyrr). Sjálfstæðisflokkurinn er eðlilega óvanur því að vera samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn sem tapar meðan hinn græðir. Reglan er að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins hrynji en ekki öfugt.

Að öðru. Það er sunnudagur og það er messutími. Las í gær með velþóknun frétt um aukið umfang borgaralegu samtakanna Siðmennt, sem framkvæmir nú æ fleiri "athafnir"; nafngiftir, giftingar, útfarir og kannski fleira. Það hlýtur að koma að því bráðum að Siðmennt auglýsi borgaralega messu (guðlausa guðþjónustu!). Ekki er ég trúleysingi og ekki félagi í Siðmennt, en fagna mjög að fólki bjóðist valkostir Siðmenntar um borgaralegar athafnir. Og ég er viss um að þessa dagana aukist fylgi lífsskoðanafélagsins Siðmenntar. Amen.


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar í könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Svarthöfði þá "Idol" trúleysingja?

 Svarthöfði vakti kátínu nærstaddra ferðamanna og sat fyrir...

Það uppátæki trúleysingjanna í Vantrú, að láta "Svarthöfða" (úr Star wars) marsera kolsvartan og illúðlegan á eftir skraut- og kjólklæddri skrúðgöngu þjóðkirkjupresta, var auðvitað fyrst og fremst bráðfyndið og meinlaust grín. Hinir geistlegu verða að geta tekið svona gríni, enda verða þeir að viðurkenna að þessi skrautkjólasýning er í nútímanum... segjum skopleg.

En spurningar vakna um leið hvort lesa megi eitthvað sérstakt og annað en grín út úr uppátæki trúleysingjanna. Hvert er svarið við spurningunni: Af hverju Svarthöfði? Af hverju þessi kolsvarti og grimmi fulltrúi illra afla Stjörnustríðanna?

Jú, jú, þarna vafra skrautklæddir prestar og biskupar um í kjólum, með skrítna kraga og annað pjatt og punt, þeir ganga um með mismunandi djúpan hátíðar- og helgislepjusvip og þar er aðallega verið að halda í heiðri gamlar hefðir - "kristna arfleifð". En ef frá eru taldir stöku geistlegir menn, sem hóta á stundum helvítisvist í brennisteinsfnyki, þá eru prestarnir og biskuparnir almennt og yfirleitt góðir menn og konur, sem vilja vel. Ekki einu sinni "Svartstakkarnir" í Þjóðkirkjunni geta í alvöru talist "harðir" og hótandi (sumir, kannski). Pjattið og puntið er vel meint þótt gamaldags og úr sér gengið sé. Á milli mismunandi yfirdrifinna embættisverka eru prestarnir og biskuparnir fyrst og fremst venjulegir og oftast vel yfir meðallagi góðir og hjálplegir borgarar.

En af hverju er Svarthöfði Stjörnustríðanna mótvægi trúleysingjanna í gríninu? Er ekki hætt við að þegar hláturinn þagnar þá standi Svarthöfði eftir sem ímynd eða "Idol" trúleysingjanna í Vantrú? Ótvíræður fulltrúi illra afla? Andskotans í neðra? Er ekki hætt við því að Svarthöfði verði "lógó" trúleysingja, svona óvart, í hugum margra?

Trúleysingjar segja stundum að trúaðir dýrki draug eða drauga-þrenningu reyndar. Þegar kirkjuþing kemur saman í haust eiga trúleysingjarnir frekar, í áróðursskyni, að senda draug á vettvang. Til dæmis hinn góða Casper. Þeir (ég er ekki á meðal þeirra) vilja væntanlega ekki að eftir standi, að þegar fólk hugsar um trúleysi þá komi hinn illi Svarthöfði upp í hugann, er það?


mbl.is Svarthöfði vakti lukku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjáningarfrelsið og trúarbrögðin

Þegar ég á sínum tíma varði birtingu Jótlandspóstsins á Múhammeðs-teiknimyndunum fékk ég sterk viðbrögð frá fólki sem taldi að ég væri á móti Múslimum og Íslam. Ég reyndi að útskýra mikilvægi tjáningarfrelsisins og trúfrelsisins og mikilvægi þess að stjórnvöld ritskoðuðu ekki frjálsa fjölmiðla, en það gekk bara svona og svona.

Kannski að samskonar boðskapur gangi betur í vandlætarana ef hann kemur frá dönskum heimspekingi? Ég vil altént gera orð Lars Grassme Binderup að mínum. meðal annars eftirfarandi:

"... Tjáningarfrelsið sé hins vegar svo mikilvægt að alls ekki megi setja því skorður til að hindra menn í að gagnrýna og jafnvel hæða trúarbrögð. Íbúar í lýðræðissamfélagi verði að sætta sig við að andstæðingar trúarbragða beiti oft harkalegum aðferðum, aldrei megi sætta sig við að hótað sé ofbeldi til að þagga niður í slíkum röddum. Auk þess ýti það undir tortryggni í garð minnihlutahópa ef þeim sé tryggð vernd gegn móðgunum gagnvart trú þeirra, fremur en t.d. kristnum. Hvaða hópur sem er geti þá í raun gengið á lagið, einnig guðleysingjar, og fullyrt að eitthvað í málflutningi annarra særi þá og þess vegna verði að setja honum skorður".


mbl.is Megum hæða trúarbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helmingur trúir, aðrir eru í vafa, trúa ekki eða eru á annarri bylgjulengd

Ég tel mig geta talað um merkjanlega vísbendingu um trúarafstöðu gesta inn á bloggsíðu mína (hið minnsta þeirra áhugasömustu um trúmál yfirleitt).  Helmingurinn lýsir sig vera kristinn, langflestir þeirra í Þjóðkirkjunni. Hlutfallslega fáir eru annarrar trúar en kristni en einhverrar hefðbundinnar/skipulagðrar trúar þó. Næstum þriðjungur lýsir yfir trúleysi sínu, efahyggjumenn eru 8% og þeir sem eru „eitthvað allt annað“ en ofangreint mælast en eru fáir. Þessir þrír hópar ná til samans 44%.

 

Kristinn í Þjóðkirkjunni      41.2%  (87 atkvæði)
Kristinn í Fríkirkjusöfnuði    3.8% (   8 atkvæði)
Kristinn Kaþólsk(ur)            2.8%  (   6 atkvæði)
Kristinn í öðrum söfnuði       3.3%  (   7 atkvæði)
Ásatrúar                                 0.9% (   2 atkvæði)
Múslimi                                  0.9% (   2 atkvæði)
Búddatrúar                             0.5% (   1 atkvæði)
Önnur trú en ofangreint        2.4%   (  5 atkvæði)
Efahyggjumaður (Agnostic)   8.1%  (17 atkvæði)
Trúlaus                                  30.8% (65 atkvæði)
Eitthvað allt annað                 5.2%  (11 atkvæði)

(211 hafa svarað)

 

Þetta er í sjálfu sér í ágætu samræmi við niðurstöður trúarlífsrannsóknar Guðfræðistofnunar, þar sem um helmingur taldi sig vera kristinn en um þriðjungur trúlausan.

Þessar upplýsingar eru fyrst og fremst gagnlegar fyrir mig. Mér finnst fínt að fá merkjanlega vísbendingu um að þeir sem lesa blogg mitt endurspegli samfélagið allt í grófum dráttum.  Ég fékk svipaða vísbendingu í lesendakönnun um pólitíska afstöðu samkvæmt vinstri-hægri ásnum.  Dæmi um gildi slíkra upplýsinga varð örugglega bloggvini Gunnari Th. Gunnarssyni eftirtektarvert. Hann ákvað að apa eftir könnun minni um pólitíska afstöðu í anda vinstri-hægri ásnum. Ég fékk 194 „smellur“, en hann hætti könnuninni með aðeins 80 „smellur“. Ég er til vinstri en hann er til hægri, en svo bar þó við, ef vísbendingarnar eru réttmætar, að við virðumst fá tiltölulega svipaða pólitíska breydd í gestum.  Það finnast mér merkilegar vísbendingar. Hægrimenn eru að kíkja á hvað ég sé að skrifa og um hvað er talað hjá mér og vinstri menn eru að kíkja á hvað Gunnar er að segja og hvað er talað um hjá honum. Það er gott. 


Hverrar trúar ert þú - ef einhverrar?

Athugið: ENN OG AFTUR NÝ OG SPENNANDI KÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR! NÚ UM TRÚMÁL!! Smile

Mér leikur forvitni á að vita hvernig þið lesendur bloggsíðu minnar skilgreinið ykkur í trúmálum. Því hvet ég lesendur síðunnar til að taka þátt í könnuninni hér til hliðar og tjá sig eftir nennu og öðrum atvikum í athugasemdadálkinn við þessa hér færslu.

Forvitnilegt væri fyrir einhvern annan að vita hvort samsetningin yrði svipuð með sömu kosti... 


Heldur Guð með United eða Chelsea?

Sonja Bjork fotboltakappiÞað eru nokkrar mínútur í lokaumferð Enska boltans. Ég hljóp til áðan, niður í bæ og ætlaði í Kolaportið og í bakarí, en allt var lok, lok og læs. Villuráfandi útlendingar höfðu enga skýringu, en ég fann Íslending sem sagði mér að það væri Hvítasunnudagur. Það vissi ég ekki. Var send út fréttatilkynning?

En þetta leiddi mig til spurningarinnar, sem rétt er að spyrja opinberlega núna, áður en leikirnir byrja. Heldur Guð með United eða Chelsea?

Og hvað fallbaráttuna varðar; hvaða botnlið hefur syndgað minnst eða er Guði mest þóknanlegt í þá veru að falla ekki; Fulham, Reading eða Birmingham.  Veit Guð af Íslendingunum í Reading og að á Íslandi er fólks svo gott að loka Kolaportinu og bakaríum í dag?

Jæja, svörin verða ljós von bráðar...

(Myndin er af Sonju Björk, litlu frænkunni minni í Seattle) 


mbl.is Úrslitin ráðast í Englandi í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband