Hugvekja: Liðin sem ég elska og hata

Í fótboltanum heldur maður með sínu liði, maður á að hata erkifjendurna og maður má ekki vera félagsskítur. Þessi einarða afstaða er annars mikið til bundin við íþróttirnar, því á öðrum sviðum lífsins leyfist manni að skipta um skoðun og hollustu. Í pólitík er maður þannig ekki endilega félagsskítur þótt maður flakki á milli flokka í kjörkassanum. En það er samt talið vera gegn „anda“ stjórnmálanna.

Sumir halda reyndar „pólitískt“ með sínu fótboltaliði. Eftir því sem mér skilst þá eiga vinstrimenn ekki að halda með KR – því það hafi verið og sé auðvalds-liðið. Eins og Real Madrid á Spáni. Á Ítalíu telst AC Milan vera hægra-lið Berlusconis og Lazio er sagt vera lið Fasistanna. Hvað Enska boltann varðar er ljóst að Íslendingar halda með sigurvegurunum. Þrír af hverjum fjórum halda með Liverpool, Man. Utd eða Arsenal – hinn fjórðungurinn heldur með skrítnum undirmálsliðum eins og Tottenham eða WBA, skilst mér. Fyrir marga er þarna um trúarbrögð að ræða og kirkjur þessara trúarbragða eru til muna betur sóttar en kirkjur hefðbundinna trúarbragða.

Ég get ekki alveg farið eftir formúlunni; Ég er félagshyggjumaður en held með KR, meintu auðvaldsliði. En ég hata ekki Val. Í Enska boltanum held ég með öðru meintu auðvaldsliði, Tottenham, en ég hata ekki Arsenal (þótt ég voni að þeir tapi sérhverjum leik).

Í pólitík er ég löngu búinn að yfirgefa einstrengingslegar skoðanir og hollustu. Ég myndi vilja hafa persónukjör; fá að pikka út einstaklingana á listunum, en ekki flokkana. Ég myndi vilja fá að velja skynsama, öfgalausa einstaklinga af öllum listum, því í pólitíkinni er „mitt lið“ ekki endilega best. Landið eitt kjördæmi og persónukjör. Af (nú) 63 frambjóðendum myndi ég örugglega velja minnst 3-4 úr þeim flokki sem mér er annars verst við. Af því að þar er líka þrátt fyrir allt að finna gott og skynsamt fólk. Fólk sem vill samfélaginu vel en ekki bara sjálfu sér.

Sem félagshyggjumaður myndi ég áreiðanlega velja fleiri einstaklinga sem eru „til vinstri“. En slík hugtök þýða ekki það sama og þau gerðu hér áður fyrr. Í velferðarsamfélögum eins og á Íslandi er löngu ljóst að þriðja leiðin varð fyrir valinu; að taka það besta úr hægrinu og vinstrinu og búa til manneskjulegt blandað hagkerfi. Reyndar hafa öfgafullir frjálshyggjumenn verið að reyna að breyta þessu, en þeim verður ekki kápan úr því klæðinu úr þessu, enda hefur nýfrjálshyggjan beðið alvarlegt skipbrot og verður dæmd samkvæmt því.

Þannig myndi maður kannski vilja hafa það í fótboltanum; fá að búa til eigið lið úr þeim leikmönnum allra liða sem spila besta og fallegasta boltann. Mitt Íslenska lið yrði ekki uppfullt af KR-ingum. Mitt Enska lið hefði meira að segja einn eða tvo Arsenalmenn í hópnum, svei mér þá. En þá yrði ég af einhverjum talinn svikari og félagsskítur. O jæja.

Í viðskiptum? Ég vil fá gamla góða Alþýðubankann aftur. Og það er tímabært á ný fyrir alþýðuna og landsbyggðarfólkið að stofna pöntunarfélög og samvinnufélög. Í alvöru talað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það er mikið talað um tvo hópa sem kljást með hatur í farteskinu: Davíðs-hópur og Baugs-hópur. Vona að bæði þessi "lið" falli um deild. Aukið frelsi Davíðs er nú ok. "Bónus"-hugsjón Baugsfeðga er nú græðgi, yfirtaka og ógn.

Friðrik Þór Guðmundsson, 5.10.2008 kl. 14:01

2 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Ég hef alltaf sagt að það sé flokksræði á íslandi en ekki lýðræði. Lýðræði skapast ekki fyr en við fáum að kjósa okkar fulltrúa inn á þing.

Ég held ekki með neinu liði í dag nema með fólkinu í landinu. 

Brynjar Jóhannsson, 5.10.2008 kl. 15:10

3 Smámynd: Dunni

Þú ert ekki eini vinstrimaðurinn sem heldur með KR.

En eftir að hafa verið með þínum betri helmingi á ættarmóti fyriri austan vona ég að Austri eigi eftir að fá smá pláss í hjarta þínu.

Dunni, 5.10.2008 kl. 17:39

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, Dunni, oggu-pínu-ponku-ponku lítið pláss.

Brynjar; prófkjörin voru stórt lýðræðisskref. Nú er búið að þrengja að þeim verulega og meira að segja Samfylkingin (hluti hennar) virðist hrifin af uppstillingu.

 Og auðvitað fyrir löngu búið að gelda útstrikanir.

Friðrik Þór Guðmundsson, 5.10.2008 kl. 21:05

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Tek undir þetta með pöntunar- og samvinnufélögin. Upp með þau aftur! Áfram KEA!

Kveðja úr gamla kaupfélagsbænum.

Svavar Alfreð Jónsson, 5.10.2008 kl. 22:10

6 identicon

Pöntunarfélög, samvinnufélög, Lees Utd. og ÍA  - aukin ríkisrekstur, þjóðnýting, OG EIGNAKÖNNUN!

Ofangreint fyllir hjartað yl.

Af hverju er aldrei minnst á eignakönnun? Slík könnun hefur farið hér fram áður - man ekki ártalið. Hverjir eiga hvað? Hvernig eignuðust þeir það? Með hvaða peningum og með hvaða vinnuframlagi?

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 6.10.2008 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband