En... fleðulæti og slepja eru ær og kýr (margra) presta!

Svo virðist sem Feministafélag Íslands telji að hefðbundin sönnunarbyrði eigi að víkja í kynferðisbrotamálum og að dómarar eigi alltaf að trúa unglingsstúlkum/ungum konum einhliða þegar þær saka karla um kynferðislegt áreiti og annað þaðan af verra. Þá eigi dómarar bara að miða við "upplifun" hinna meintu þolenda. Gerir Feministafélagið sér ekki grein fyrir því hversu hættuleg þessi afstaða er?

Ég er ekki í vafa um að í prestastétt leynist margur úlfurinn í sauðagæru. Ég þykist nokkuð viss um að í umræddu máli hafi presturinn gengið allt of langt í faðmlögum og kossastússi. Ég er viss um að hann hafi verið "krípí". En ég er ekki viss um að hann hafi í raun og sann gengið lengra en lög og hefðir leyfa. Prestar eru "góðmenni" að atvinnu. Þeir hafa töluvert svigrúm til faðmlaga og smeðjulegra orðatiltækja. Úlfarnir í stéttinni, sem erfitt eiga með að hemja kynhvöt sína, notfæra sér kannski þetta svigrúm fram í ystu æsar. Besta ráðið er að losa sig við slíka presta áður en þeir ganga of langt. Varðhundurinn er sóknarnefndin, djákninn, organistinn og fleira gott fólk.

En samkvæmt lögum og hefðum og einfaldlega vegna þess möguleika að meintir þolendur geta verið að bera upp rangar sakargiftir (það hefur gerst og þýðir ekkert um það að þræta) þá gengur ekki að trúa öðrum aðilanum einhliða þegar orð standa gegn orði. Réttlætið og réttarkerfið krefjast þess að meira komi til, því eðlilega er mikill og sterkur vilji fyrir því almennt að saklausir menn dæmist ekki sekir. Við viljum ekki að slíkt hendi okkur og þess vegna viljum við ekki að slíkt hendi aðra.

Dómurinn í Héraðsdómi Suðurlands í máli séra Gunnars Björnssonar virðist vel ígrundaður og dómurinn var fjölskipaður; þarna dæmdu saman þrír dómarar, tveir karlar og ein kona. Í raun sannaðist ekkert á prestinn nema ofboðsleg fleðulæti og slepja, óviðeigandi faðmlög og kinnakossar. Með öðrum orðun nokkurn veginn það sem sáluhjálparar þjóðkirkjunnar gera!

Ráð gegn slíku er að banna prestum með lögum, og með innbyrðis kirkjureglum, að snerta, hvað þá faðma og kyssa sóknarbörn sín. Hands off! Er það ekki?


mbl.is Gagnrýna sýknudóm í kynferðisbrotamáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

.... og ég sem átti von á "milljón" athugasemdum!

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.12.2008 kl. 15:30

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Vei - komment!

 "Ertu að meina að innan kirkjunnar séu hefðir um kristilegar kærleikssnertingar" - já, í raun er ég að meina það (en meina ekkert um hvað sé kvenkyns sóknarbörnum illskiljanlegt í því samhengi). Eins og ég segi: Prestar eru atvinnumenn í góðmennsku, sálusorgarar og kærleiksboðberar. Almennt séð held ég að samfélagið umberi snertingar og faðmlög af þeirra hálfu meir en hjá öðrum - þegar allt er með felldu auðvitað. Undir kjörkringumstæðum eru perrar ekkert að villast í guðfræðina! ÞEIR EIGA EKKI AÐ VERA ÞARNA!! Enginn vill sjá þá þarna!

Það er einmitt full þörf á því að góðar sálir sem lausar eru við afbrigðislega kynhvöt séu í kirkjunum til að veita fólki nánd og snertingu, sem þurfa á því að halda. 

 "Þetta er ekki fyrsta málið þar sem kærur kvenna á hendur prestum og jafnvel biskupum eru virtar að vettugi". Ég fæ reyndar ekki séð að kærur þessar hafi verið virtar að vettugi. Þær fóru í gegnum rannsókn, ákæru og dóm! Þær voru með öðrum orðum ekki virtar að vettugi heldur fengu þær fulla meðferð (utan hvað Hæstiréttur er að líkindum eftir). Málið er einfaldlega það að lögin eru með þeim hætti að leyfa ekki sem sönnun að taka orð þolanda gegn orði hins kærða/ákærða. Leyfa það ekki. Lögin gera ráð fyrir sönnunarbyrði og í svona málum er hún vissulega oftast erfið og kannski að óbreyttu full erfið.

 "... þessi pistill þinn finnst mér því miður bera vott um að þú hafir ekki skilning á eðli kynferðisofbeldis. Ég vildi óska þess að þú myndir kynna þér það".

Erla, góða Erla! Það vill svo til að vegna minna starfa hef ég kynnt mér nánast alla kynferðisbrotadóma síðustu 10-15 ára og skoðað í þaula ástæður sakfellinga og sýkna. Ég fullyrði að í kynferðisbrotamálum hafi dómarar landsins teygt sig eins langt og hægt er (að óbreyttum lögum) við að stóla á trúverðugleika og stöðugleika framburðar þolendanna. Sakfellingar eru til muna algengari en sýknur (en refsiramminn vissulega illa nýttur). Hefur þú kynnt þér þetta, Erla? Farið í gegnum öll málin? Hefur þú lesið þennan tiltekna dóm, sem við nú ræðum? Sástu ekki þar hvar dómararnir þrír, karlarnir og konan, sögðu að orð stæðu gegn orði?

Ég vona að þú vaðir ekki um í þeirri villu að ég hafi einhverja samúð með kynferðisbrotamönnum. Ég hef á þeim hina megnustu ímugust. Sérstaklega þeim þeirra sem eru prestar eða í ámóta trúnaðarstörfum. En það þýðir ekki að það megi brjóta lögin við að koma lögum yfir þá! Kirkjan verður að taka hart á svona málum innan sinna vébanda og kannski ætti löggjafarsamkundan að fara yfir lögin, en ég held að við hljótum að vera sammála um að kröfur um sönnunarbyrði eigi að vera sæmilega strangar, til verndar hinum saklausu?

Ef ég fer til löggunnar, kæri þig og segi að þú hafir stolið af mér milljón krónum og hef enga aðra sönnun en orð mín (framburð) gegn neitun þinni þá yrðir þú sýknuð. Eðlilega. Ég gæti svo sem sagt að kæra mín hafi verið virt að vettugi. Og talað um fordóma og afturhald. En ég gat ekki sannað upp á þig meintan stuld!

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.12.2008 kl. 16:28

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég skoðaði þessi mál með mjög sterkri ljósaperu, Erla, þakka þér fyrir. Þú hins vegar svarar því ekki hvort þú hafir skoðað þessi mál. Þú svarar ekki hvort þú hafir lesið sýknudóminn yfir séranum. Þú segir ekkert um hvort breyta eigi kröfunni um sönnunarbyrði og þá á hvern hátt.  Og orð þín standa óbreytt um að ég hafi "ekki skilning á eðli kynferðisofbeldis".

Ég tek undir að krítískir fréttamenn gangi á forkólfa kirkjunnar. Sjálfur er ég ekki starfandi núna sem fréttamaður og leyfi mér því að beina þessu frá akkúrat mér sjálfum. Ég tók saman mikla skýrslu um "skilaboð" dómstóla í kynferðisbrotadómum og hún liggur fyrir hjá mínum fyrrum vinnuveitendum (RÚV/Kastljós), en þar hefur Þóra (Guðrúnardóttir) verið dugleg við að fjalla um svona mál.

Hvað presta varðar er það hárrétt að kannski er það miklu fremur í verkahring kirkjunnar að taka hart á brotlegum prestum en að sönnunarbyrði sé breytt í þessum málaflokki. Kirkjan getur leyft sér slakari sönnunarbyrði en dómstólar! Kirkjan á (eða ætti) að hafa strangar reglur um hvort og þá hvaða faðmlög og kossar mega viðgangast, hvað þá annað og meira. Alltént þegar ung sóknarbörn eru annars vegar, sem viðkvæmt er að umgangast. Það er auðvitað hart ef almennilegir og velmeinandi prestar mega ekki snerta sóknarbörn sín, en kannski er það eina útgönguleiðin! Skilaboð samfélagsins hafa á undanförnum árum verið þessleg.  Kannski koma bæði perrar og feministar, í sameiningu, því til leiðar á endanum að ekki nokkrum heiðvirðum og saklausum mönnum dettur í hug að snerta börn og auðsýna þeim hlýju, almennt og yfirleitt, svona til að vera hafinn yfir allan vafa.

Séra Gunnar var kannski sýknaður, en framburður hans fyrir rétti ætti að duga til að koma honum úr embætti og koma í veg fyrir kosningu hans í öðrum sóknum. Er það ekki? Er það ekki lán í óláninu?

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.12.2008 kl. 18:18

4 Smámynd: Ingibjörg SoS

Milljón athugasemdum? Ég er mest hissa að þú skulir þó hafa fengið þessa einu, frá mjög heilbrigt þenkjandi einstaklingi, Erlu Sigurðardóttur. Ekki ætla ég að eyða einu aukateknu orði á þessi skrif þín. Ætla ekki einu sinni að segja þér ástæðuna.

Ingibjörg SoS, 3.12.2008 kl. 18:29

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

ok, ISS. Mér er það að meinalausu. "Hugsum áður en við tölum og upplýsumst áður en við dæmum".

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.12.2008 kl. 19:37

6 Smámynd: B Ewing

Herregud!  Það er ástæða fyrir því hve fáar athugasemdirnar eru....   ...ÚBERfemínistarnir eru að skrifa minningargreinarnar um þig....

Annars hef ég ekkert kynnt mér málið og eyði ekki tíma mínum í það héðan af.

B Ewing, 3.12.2008 kl. 22:00

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, kannski, Bobby. Og finnst mér ég þó að ég hafi ekkert verið vondur við feminista. Eiginlega óþekkari við prestana ef eitthvað er. Og ég tek fyllilega undir óskir Feministafélags Íslands í bréfi þess til ráðherra og dómara; ég vona að þeim verði ekki nauðgað!

Feminismi kemur þessu máli raunar EKKERT við. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég er að tala hér um lög og reglur og hvernig við förum að því að sortera í sundur seka og saklausa. Ég hef áður sagt þá meiningu mína að sýkna er ekki hið sama og bókað sakleysi, heldur eingöngu að sekt hafi ekki talist sönnuð. Þrír dómarar komust að þeirri niðurstöðu í þessu máli að þótt fram teldist komið að sérann hefði faðmað báðar stúlkurnar og kysst aðra þeirra hið minnsta á kinn þá teldist ekki sannað að það hafi gerst í kynferðislegum tilgangi. Ég eins og áreiðanlega flestir aðrir, sem lesið hafa dóminn, tel fullkomlega ljóst að presturinn hafi hegðað sér með óviðeigandi hætti og átti ekkert tilefni til að faðma stúlkurnar og ég held raunar að maðurinn eigi ekki að tilheyra viðkomandi stétt. En þrír dómarar, þar af ein kona, Hervör Þorvaldsdóttir, töldu ósannað að hin óviðeigandi hegðan hefði verið kynferðisleg. Ég hef fulla samúð með stúlkunum og efast ekki um upplifun þeirra, en áfram stendur að orð stóð gegn orði og engar aðrar haldbærar sannanir að fá. Ég hygg að í kynferðisbrotum hafi dómarar landsins lagt sig í líma við að finna óbeinum sönnunum sem mest gildi í kynferðisbrotamálum, en þær fundust ekki hjá þessum dómurum. Kannski í Hæstarétti, ef málið fer þangað.

Kannski Feministafélagið ætti að tala við Hervöru dómara. Eða þessa konu:

" Vitnið Sólrún Guðjónsdóttir kvaðst hafa starfað sem meðhjálpari með ákærða allan hans starfstíma í kirkjunni. Kvaðst hún aldrei á þessum tíma hafa orðið vör við neitt óeðlilegt eða ósiðsamleg í fari hans gagnvart börnum og unglingum. Ákærði væri mjög einlægur maður og ætti það alveg eins til að faðma fólk að sér og kyssa í kveðjuskyni". Nær að tala við þær en skrifa minningargreinar um mig!

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.12.2008 kl. 22:38

8 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þú ert blaðamaður.  Af hverju rannsakar þú ekki málið?  T.d. komu fleiri stúlkur fram á sínum tíma en ekki var ákært í málum allra.

Hvað með sögu þessa prests - af hverju hefur hann hröklast frá tveimur stöðum áður en hann endaði á Selfossi?  Er hugsanlegt að það sé eitthvað meira í dæminu - eitthvað sem enginn þorir að rannsaka?  Eru það allt saman ómarktækar slúðursögur?

Ég veit það ekki.

Matthías Ásgeirsson, 4.12.2008 kl. 01:04

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Takk Matthías. Svo mikið er víst að ég ætla ekki launalaust að fara að rannsaka málefni Gunnars Björnssonar! Þú kannski last það ekki hér ofar, en þessa dagana er ég ekki starfandi blaðamaður (þessar stundirnar) og get hugsað mér miklu, miklu verðugri sjálfboðaliðastörf en að skoða þennan klerk og faðmlög hans.

Ég vona að enginn sé að taka mínum skrifum um þetta mál sem einhvers konar málsvörn fyrir þann hempuklædda. Það er langur vegur frá.  Hér var ég hvorki að fjalla um feminisma eða guðfræði, heldur miklu frekar lögfræði.

Friðrik Þór Guðmundsson, 4.12.2008 kl. 01:16

10 Smámynd: Jóhann G. Frímann

Sammála þér Friðrik. Það á að bera virðingu fyrir réttlætinu og grunnreglum og upprunalegum anda laga. Þó lög séu mörg orðin flókin og skrumskæld og í sumum tilfellum andstæð upphaflegri hugsun, þá verðum við að halda í grunngildi eins og þau að enginn sé sekur fyrr en sekt er sönnuð á óvéfengjanlegan hátt. Annað bíður upp á pyntingar og dómstól götunnar.Beiskja er engin réttlæting fyrir öðru. Þú átt að vera jafn fyrir lögunum og njóta sömu verndar hvort sem þú ert kona eða karl.

Jóhann G. Frímann, 4.12.2008 kl. 06:36

11 identicon

Ég hef á tilfinningunni að stelpur hafi komis upp með að nota dómara sem melludólga í gegnum tíðina eins og málið með strákana sem gátu sannað sakleysi sitt með vídói úr síma . hvað hefði skeð ef þeir hefðu ekki haft video upptökuna ?

bpm (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 09:31

12 Smámynd: Jóhann G. Frímann

Það má aldrei slaka á sönnunarbyrðinni. Að dæma saklausan er versti glæpur sem til er.

Jóhann G. Frímann, 4.12.2008 kl. 11:05

13 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Já, ég er á því að dómarar séu alveg á grensuni í kynferðisbrotamálum* má nefna Hæstaréttardóm sem féll í dag. Samt virðist það engu breyta fyrir sjálfskipaða sleggjudómara, dómarar eru alltaf verri en ofbeldismennirnir. Ég varð frægur í fimm klukkustundir þegar ég skrifaði lesendabréf í Fréttablaðið fyrir fáum árum um kynferðisbrotadóm sem sleggjudómurum  þótti allt of vægur. Mér þótti hann fráleitur. Tuttugu kortera frægð mín varð þegar sá einstæði atburður gerðist að dómarinn svaraði með heilsíðu grein í sama blaði og óskaði að fleiri væru með fullu viti eins og KSK.

* Ef ég segist vera sammála síðueiganda helmingast dýrð mín.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 4.12.2008 kl. 22:42

14 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hvaða mál var þetta KSK (á hvítflibbanum) og hvaða dómari?

Vil nefna þá skoðun mína að þegar kynferðisbrot á annað borð sannast og viðkomandi eru dæmdir sekir þá finnst mér viðurlögin yfirleitt vera heldur væg. En þá meina ég alvöru brot, ekki áreiti.

Friðrik Þór Guðmundsson, 4.12.2008 kl. 22:58

15 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Dómarinn í málinu var Jónas Jóhannsson við héraðsdóm Reykjaness. Málið varðaði kynferðisbrot sem ákærði framdi fimmtán ára gamall. Málið var höfðar þegar gerandinn var kominn vel á þrítugs aldur. Ákæra og dómur tóku mið af því að um fullorðin einstakling væri að ræða, mér fannst það kostulegt. Því til sönnunar tók ég mið af bónda sem fer að heiman og kemur eftir tvær vikur. Tíu dögum áður en bóndinn kom heim hafði hundurinn hlaupið í lambféð. Þegar bóndinn frétti þetta við heimkomuna tók hann hundinn afsíðis og skammaði hann herfilega.

FB hafði viðtal við nokkra sleggjudómara þaml. Illuga Jökulsson, öll spiluðu þau hugsunnarlaust sömu upptökuna.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 4.12.2008 kl. 23:24

16 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ef dómarar færu að taka orð kvenna góð og gild í kynferðisbrotamálum án annarra sannanna yrði fjandinn laus. Þá myndi fölskum ákærum fjölga gríðarlega.

Klípan er þessi: Mjög lítið er um að konur ljúgi í kynferðisbrotamálum vegna þess hvernig dómskerfið vinnur. Ef sönnunarbyrðinni yrði hins vegar snúið við og "allar konur segja satt þar til annað kemur í ljós", myndu óvandaðar konur taka (eða hóta að taka æruna) af körlum í eiginhagsmunaskyni á svipaðan hátt og óvandaðir karlar nauðga konum.

Benedikt Halldórsson, 5.12.2008 kl. 04:58

17 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Bæði í þessu nýjasta máli og svo í flestum málum þar sem menn hafa verið sýknaðir af ákærum um kynferðisbrot er allt of mikið um að fólk ráðist á dómarana og gjarnan án þess að hafa lesið dóminn. Mjög sjaldan er reynt að horfa til þess hvort rannsóknar- og ákæruvaldið kunni að hafa brugðist eða að framburður meintra þolenda hafi verið reikull og kannski ekki staðist.

Ég hef fulla samúð með þeim þolendum sem verða fyrir barðinu á ofbeldismönnum. Ég hef ímugust á þeim einstaklingum sem beita kynferðislegu (og öðru) ofbeldi. Mér sýnist að dómarar landsins geri sitt ýtrasta til að teygja sönnunarbyrðina í þágu þolenda, svo mikið að sumum dómurum er um og ó, t.d. Jóni Steinari Gunnlaugssyni. Þegar aðrar sannanir skortir reyna þeir að meta trúverðugleika og stöðugleika framburðar og það getur skipt sköpum þegar orð stendur gegn orði. Í máli klerksins dugði það ekki til og voru þannig lýsingar annarrar stúlkunnar taldar breytilegar um það sem gerðist. Við slíkt færðist vafinn klerkinum í hag. Hann neitaði staðfastlega allan tímann og leiddi fram vitni sér til stuðnings. Í gegnum þá brynju tókst rannsóknar- og ákæruvaldinu ekki að komast.

Friðrik Þór Guðmundsson, 5.12.2008 kl. 11:29

18 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Í kossum og faðmlögum verða BÁÐIR aðilar að vilja. Þótt presta langi mikið til að faðma og kyssa fólk, eiga þeir engan rétt til að fá útrás fyrir slíkar þarfir á sóknarbörnum sínum, stórum eða smáum.

Þetta er ekki flókið.

Gísli Ásgeirsson, 5.12.2008 kl. 12:26

19 Smámynd: Páll Jónsson

Það er merkilegt hvað maður er fljótt stimplaður talsmaður kynferðisafbrotamanna ef gerð er tilraun til að andmæla því að dómarar séu upp til hópa spilltir og fyrirlitlegir kvennahatarar (sem virðist vera hin almenna skoðun hér í bloggheimum).

Það er ekki ómögulegt að einstaklingur hafi í raun brotið af sér en engu að síður sé rétt (eða a.m.k. ekki fráleitt) að sýkna hann miðað við þau gögn og vitnisburði sem lögð eru fyrir dómara.

Páll Jónsson, 5.12.2008 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband