Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Til hamingju Valgerður Bjarnadóttir

Valgerður Bjarnadóttir"Það er mér um megn að sitja fundi með bankastjórn sem situr í óþökk ekki bara fólksins í landinu heldur einnig þeirra sem ábyrgir eru fyrir stjórn landsins. Með þessu bréfi segi ég af mér setu í bankaráði Seðlabanka Íslands."

Til hamingju Valgerður Bjarnadóttir. 


mbl.is Valgerður hættir í bankaráði Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var einhver að tala um einelti?

Bessastaðir, embættisbústaður forseta Íslands.Í ákveðnum kreðsum hér á landi er talað um einelti í garð formanns bankastjórnar Seðlabankans, fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins. Eðlilega eru það fyrst og fremst sjálfstæðismenn sem tala um þetta meinta einelti.

Minna ber á því að talað sé um einelti í garð forseta Íslands. Aðallega eru það einmitt fyrst og fremst sjálfstæðismenn sem ástunda það meinta einelti. 

Ég dreg ekkert úr því að eitt og annað í orðum og gjörðum forsetans megi finna að. Sumir ganga svo langt að telja að hann hafi orðið hagsmunum þjóðarinnar skaðlegur. En ef þetta á að heita rétt þá er mér lífsins ómögulegt að skilja hvernið hið sama getur ekki átt við um formann bankastjórnar Seðlabankans, miðað við umræðuna meðal valda- og áhrifamikilla einstaklinga erlendis. En það er bara mín skoðun.


mbl.is Óska skýringa á grein Eiðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hýðingar, vandarhögg og gapastokkar... og sniðganga

Hýðingin á Lækjartorgi í dag var víst tilkomin vegna komu fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) til Íslands, en sjóður þessi gegnir sem kunnugt er yfirstjórn efnahagsmála á Íslandi. Í gjörningi "aðgerðasinna" voru skuldaþrælar hýddir. Við það vöknuðu hjá mér hugrenningar um hverja í raun ætti að hýða og/eða setja í gapastokk: Þá athafnamenn sem komu okkur í þessar ógöngur allar.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig á því standi að aðgerðir hafi að litlu sem engu leyti snúið að "auðjöfrunum" svo kölluðu. Aðgerðir gegn stjórnmála- og embættismönnum eru vel skiljanlegar, en af hverju beinast svo gott sem engar aðgerðir gegn "snillingunum"?

Mér finnst merkilega lítið hafa verið rætt um aðgerðina SNIÐGANGA eða "Boycott". Ég held að engin umræða hafi markvisst farið fram um slíkt - að beina spjótum reiðinnar að athafnamönnunum og þar af að líffærinu sem mestan sársaukann er að finna; buddunni. 

Hvernig væri að listi yrði tekinn saman um fyrirtæki, vörur og þjónustu sem réttmætt teldist að sniðganga að minnsta kosti um einhvern tíma, í mótmælaskyni? Ég skal byrja. Hérna hægra megin á bloggsíðunni er auglýsing frá símafyrirtækinu Nova. Mér skilst að að það sé í eigu Bjögganna í Novator. Hér með strengi ég þess heit að eiga ekki viðskipti við það fyrirbæri.


mbl.is Láta hýða sig í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Argasta einelti gegn auðjöfrunum

Það er auðvitað ekkert annað en argasta einelti hvernig fólk veitist að auðjöfrum landsins, mönnum eins og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Björgólfs-feðgunum. Nú þykir fréttnæmt og grimmt lesið að Jón Ásgeir hafi sett íbúð á Manhattan á sölulista. Og í annarri víðlesinni frétt er verið að fetta fingur út í þá mótuðu stefnu bankamógúlanna að víkja frá reynsluboltum í bönkunum en setja inn í staðinn "vel menntaða en reynslulitla unga karlmenn". Í enn annarri þrautlesinni frétt eru menn að hlakka yfir því að hugsanlega verði sölu Baugs á Högum til Gaums rift.

Er ekki kominn tími á að stofna samtökin "Verndum auðjöfrana"? Eineltið er orðið yfirgengilegt. Eins og það hafi ekki verið nógu mikið áfall fyrir þessa menn að missa allt úr handaskolunum í rekstri fyrirtækja sinna þá er nú verið að velta sér upp úr því að þessir menn séu neyddir til að selja kofa sína, rellur, báta, skrjóða og glingur.

Fremstir ganga fjölmiðlarnir, ekki síst Baugsmiðlarnir sjálfir, sem launa þannig eigendum sínum lambið gráa - og hreykja sér síðan á hæsta steini með tilnefningum til blaðamannaverðlauna.

Ég hef ákveðið að setja starfsemi félags míns, Anti-rúsínufélagsins, á ís og undirbúa stofnun samtakanna "Verndum auðjöfrana". Þetta einelti gengur of langt. Eins og að auðjöfrarnir hafi gert eitthvað af sér! Ég veit t.d. til þess að sumir þeirra hafi margoft hvíslað því að ráðamönnum að veruleg hætta væri á því að bankarnir hryndu!

p.s. hugvekja á morgun um nýjustu fréttir af fótalausa, nýrnaskemmda, heyrnarskerta, tannlausa, einangraða, eignalausa og réttindalausa pólverjanum (sjá færslur hér neðar).


mbl.is Selja íbúð á Manhattan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö ár frá Breiðavíkur-sprengjunni

Nú eru liðin 2 ár frá því að Kastljós og DV vörpuðu sannkallaðri samfélagslegri sprengju inn í þá tiltölulega slétta og fellda tilveru okkar á Íslandi. Miðaldra karlmenn stigu fram úr skuggaveröldum sínum og sögðu frá því hvernig skilningsvana opinber yfirvöld stóðu að því að berja þá og svívirða sem börn og unglinga hálfri öld fyrr.

"Breiðavíkurdrengirnir" áunnu sér aðdáun samlanda sinna. Umfjöllunin um þá leiddi til blaðamannaverðlauna. Rannsóknarnefnd var sett á laggirnar og heit strengd. Sanngirnisbótum var lofað.

Og hvað hefur þá gerst? Svo gott sem ekki neitt. Fyrri ríkisstjórn lagði fram frumvarp um að borga drengjunum um það bil flatskjár-virði af bótum og kannski rúmlega það ef þeir gætu sannfært geðlækna nógu vel um skaða sinn. Með miklum gráti og ógurlegum gnístri tanna mætti hífa sanngirnisbæturnar upp í bíl-virði.

Ofbeldinu hafði sum sé ekki linnt. Spurning með næstu ríkisstjórn.


Tíu boðorð í tilefni sérstaks sunnudags

Ný ríkisstjórn, nýtt upphaf, Nýtt Ísland; alls konar tímamót í gangi og stórmerkilegir samfélagslegir viðburðir sem við upplifum nú. Það er sunnudagur og rétt að varpa fram andlegri og veraldlegri hugvekju inn í Bessastaða-seremóníurnar.

Hin kristna trú segir áhangendum sínum að tileinka sér "Boðorðin tíu" en lenda í helvíti ella. Þessi boðorð eru ekki allra og þá einkum fyrstu þrjú boðorðin eða svo. Maðurinn hefur enda fyrir langa löngu komið sér upp almennari siðareglum. Á þessum sérstaka sunnudegi býð ég fólki að hugleiða eftirfarandi 10 "boðorð":

1. Ekki gera öðrum það, sem þú vilt ekki að aðrir geri þér.

2. Í hverju því sem þú tekur þér fyrir hendi skaltu forðast að skaða aðra.

3. Komdu fram við annað fólk, önnur dýr og allt sem lifir af ástúð, heiðarleika, hreinskilni, trúmennsku og virðingu.

4. Ekki hunsa illvirki eða hika við að koma réttlæti á, en vertu alltaf tilbúinn að fyrirgefa þeim sem viðurkennir rangindi og sannlega iðrast.

5. Lifðu lífinu með gleði og hamingju að markmiði.

6. Reyndu ávallt að læra eitthvað nýtt.

7. Sannprófaðu hvaðeina; Leggðu mat á eigin hugmyndir út frá staðreyndum og vertu til í að hverfa frá sérhverri hugmynda þinna sem stenst ekki slíkt mat.

8. Ekki streða við að ritskoða sjálfan þig eða flýja undan ágreiningi; berðu ávallt virðingu fyrir þeim sem eru á annarri skoðun en þú. 

9. Reyndu að komast að eigin niðurstöðu út frá þinni eigin rökhyggju og reynslu; ekki leiðast í blindni af öðrum.

10. Efastu um allt - spurðu spurninga.

Og auðvitað er rétt að hafa til hliðsjónar tíu boðorð kristninnar - þ.e. hin tíu styttu boðorð 8en þau voru nokkru ítarlegi í upphaflegum handritum):

  1. Ég er Drottinn, Guð þinn, þú skalt ekki aðra guði hafa.
  2. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
  3. Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.
  4. Heiðra skaltu föður þinn og móður.
  5. Þú skalt ekki mann deyða.
  6. Þú skalt ekki drýgja hór.
  7. Þú skalt ekki stela.
  8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
  9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.


Er ástæða til að halda sigurhátíð?

 Raddir fólksins stefna fólki á Austurvöll í dag, ekki fyrst og fremst til að mótmæla, eins og hingað til, heldur til að halda sigurhátíð. Er það tímabært? Hefur einhver sigur unnist? Svarið er bæði já og nei. Það vantar bara viðeigandi forskeyti á undan orðinu sigur. Það vantar t.d. forskeytið "áfanga-". Að öðru leyti er varla hægt að horfa framhjá stórfenglegum - áfangasigrum - fólksins.

Egill Helgason fjallar um þetta á Eyjubloggi sínu og segir: "Mér er alveg fyrirmunað að skilja hví Raddir fólksins boða til sigurhátíðar í dag. Lítið hefur gerst nema að ein ríkisstjórn er fallin. Önnur hefur ekki einu sinni tekið við. Nánast á hverjum degi berast fréttir af nýjum hneykslismálum í banka- og fjármálakerfinu. Maður sér ekki að sé mikið verið að taka á fjárglæframönnunum sem settu Ísland á hausinn. Atvinnuleysi eykst og kjörin versna. Er virkilega tilefni til að fagna sigri?"

Við Egil vil ég segja: Settu fyrrnefnt forskeyti á viðeigandi stað og þá getur þú fagnað eins og flestir aðrir. Fólkið er 5:0 yfir í hálfleik og spillingarliðið er nokkrum mönnum undir vegna rauðra spjalda. Réttnefndur sigur er í öruggu sjónmáli.

Er það ekki? Það Íslands- og jafnvel heimssögulega hefur gerst (miðað við langlundargerð Íslendinga) að fólk stormaði út á göturnar og flæmdi í burtu óvinsæla ríkisstjórn. Það er ekki lítil gjörð. Það stefnir í nýja ríkisstjórn sem endurspeglar mun betur (samkvæmt könnunum) vilja fólksins. Það er ekkert slor (þótt vissulega verði að líta á hana sem tímabundna starfsstjórn þar til annað kemur í ljós). Það er búið að bóka kosningar. Eins og fólkið vildi. Það er búið að bóka stjórnlagaþing, endurskoðun stjórnarskrárinnar, með í farteskinu að auka lýðræði og til að mynda auka hlut þjóðaratkvæðagreiðslna. Það er búið að stöðva aðhaldsleysis-nýfrjálshyggjuna. Eins og fólkið vildi. Það er búið að senda Sjálfstæðisflokkinn í frí eftir 18 ára stanslausa stjórnarsetu - eins og fólkið vildi. Það er búið að skipa sérstakan saksóknara og sérstaka rannsóknarnefnd (hvítbókarnefnd) til að fara í saumana á bankahruninu. Eins og fólkið vildi.

Vissulega mætti sumt vera fastara í hendi, eins og aðgerðir gegn "snillingunum" í bönkunum og eignarhaldsfélögunum, sem eru höfuðpaurar hrunsins. Eins mætti vilji fólksins hafa endurspeglast betur í myndun nýrrar breiðfylkingar um framboð. Eitt og annað mætti vera skýrara. En fólkið er búið að vinna svo margar orrustur og slík yfirburðastaða í stríðinu að "sigurhátíð" er í góðu lagi - meðan huglægt forskeyti er á réttum stað.

Að þessari sigurhátíð lokinni verður fólkið hins vegar að gera upp við sig hvað það vill gera næst. Mynda breiðfylkingu um framboð? Þá er nú aldeilis farið að liggja á. Það er verið að mynda nýja ríkisstjórn og í samkomulaginu verður kveðið á um kosningar, að líkindum í apríl.Viðkomandi "gömlu" flokkar virðast vilja hafa kosningarnar í fyrra fallinu. Það er slæmt að því leyti að þá gefst lítill tími til að undirbúa framboð; hjá öllum. Gömlu flokkarnir hlaupa út í uppstillingu í stað prófkjörs og það er ekki beint í anda virks lýðræðis. Ný framboð hafa skemmri tíma til að skipuleggja kosningastarfið - og munu líka eiga erfitt með að ástunda lýðræðislegt val á framboðslista. Það er ekki í anda þeirra lýðræðiskrafna sem uppi hafa verið. Væntanlega eiga Hörður Torfason og Gunnar Sigurðsson ekki að raða upp lista. Það væri ekki mikill sigur.


mbl.is Stjórnin mynduð á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænn og/eða vænn - um mengun mannúðarinnar

 Ég er ósköp grænn gagnvart umhverfinu en númer eitt vænn gagnvart velferðarkerfinu. Ég styð ekki mengun í náttúrunni, en ég leggst alfarið gegn mengun mannúðarinnar.

Ég styð heilshugar baráttuna gegn mengun í náttúrunni og hef skilning á þörfinni fyrir minni losun gróðurhúsalofttegunda. En ef skynsömum umhverfissjónarmiðum er fylgt þá met ég meira ábata atvinnuuppbyggingar en sparifataloforð sem ekki eru í takti við hlut Íslands í raunverulegri losun. Nú sem aldrei fyrr þarf samfélagið á skilvirkri tekjuöflun að halda.

Sama gildir um hvalveiðar. Ég fellst ekki á tilfinningarök um að veiðar á hvölum séu í sjálfu sér slæmar, burt séð frá öðrum rökum. Ef skynsöm rök segja að hvalveiðar færi þjóðinni meiri tekjur en sem nemur tjóninu sem veiðarnar hafa í för með sér, þá fellst ég á hvalveiðar. Ef tjónið er meira og þá nettótap af veiðunum, þá er ég þeim ekki fylgjandi.

Ekki síst í yfirstandandi krísu horfi ég til alls þess sem getur varið velferðarkerfið gegn óþörfum skakkaföllum. Mannúð velferðarkerfisins er númer eitt hjá mér. Niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni er eitur í mínum beinum. Ef það tryggir sjúklingum og slösuðum nauðsynlega meðferð og kemur í veg fyrir lokun deilda og annað slíkt þá get ég alveg fallist á alls konar verksmiðjur (sem standast heilbrigt umhverfismat, einkum á landsbyggðinni) og hvalveiðar.

Vildi bara nefna þetta.


mbl.is Deildum lokað á Landakoti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um reiði, hatur, heift og hefnd

Ég get vel skilið að sjálfstæðismenn séu reiðir út í Samfylkinguna fyrir að svipta Sjálfstæðisflokkinn völdum. Bráðnauðsynlegt aðgerð út af fyrir sig og í takt við þjóðarviljann, en ég skil reiðina samt; við erum að tala um flokk og fólk sem telur að völdin eigi að vera í þess höndum og helst engra annarra. Engum öðrum sé treystandi til að "stýra þjóðarskútunni"; aðrir séu almenn eða pólitísk fífl og gott ef ekki skaðvaldar, sem beiti svikum og prettum til að koma snillingunum úr Valhöll frá völdum.

Reiði sjálfstæðismanna er vitaskuld ekki næstum því eins innihaldsrík og réttmæt og reiði þjóðarinnar eftir hrunið. Hún er sértæk og hjá sumum er hún stæk, svo jaðrar við hatur. Sumir sjálfstæðismenn vilja nú ekki gráta Björn bónda, heldur fara út og hefna. Eiturtungur eru virkjaðar, sögur settar á flot og öll vopn notuð.

Berið þetta saman við réttmæta reiði almennings vegna árangurs og afleiðinga af 18 ára samfelldri stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins.

Hitt er annað mál að fleiri en sjálfstæðismenn hafa undanfarið fyllst reiði og farið offari. Mjög margir álitsgjafar leggja sérstakt fæð á suma stjórnmálamenn. Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún standa vafalaust fremst í flokki slíkra "fórnarlamba". Í sumum kreðsum eru stöku auðjöfrar sérstaklega mikið hataðir að því er virðist, eins og Jón Ásgeir og Bjöggarnir. Það getur verið erfitt að halda aftur af tilfinningunum og stöðva formælingarnar frá því að komast út um munninn. 

Þetta eru að sönnu leiðinleg viðhorf; að stjórnast af reiði, hatri, heift og hefnd. Ég neita því ekki að hafa gerst sekur um ofboðslega reiðilestra. Í þeim reiðilestrum hefur mér einkum verið uppsigað við Davíð Oddsson og aðhaldslausa nýfrjálshyggjukerfið sem hann kom upp. Þessi reiði kraumaði hvað mest í mér í kjölfar bankahrunsins og fjármálakreppunnar. Nú er ég orðinn rólegri og ánægðari (vegna sigurs fólksins). Ég hef enga ósk heitari en að Davíð Oddssyni auðnist að stíga sjálfur til hliðar og setjast á friðarstól, t.d. við skriftir. Ég leyfi mér að vona sömuleiðis að stækustu andstæðingar Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar haldi sér á málefnaplaninu og einbeiti sér að pólitík en ekki persónum.


mbl.is „Ótrúlega ómerkilegt“ af Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri stjórn eftir fall Berlínarmúrsins

Kannski væri best að þegja og sjá til hvað stjórnarsáttmálinn segir, áður en maður fullyrðir of mikið eða gefur sér of mikið fyrirfram. En kannski er í lagi að vera svolítið djarfur og segja hreint út: Að fá vinstri stjórn núna, sem leggur áherslu á hag alþýðunnar og vill hreinsa til í spillingarbælum, er ferskur andblær eftir of mörg ár af afskiptaleysis-frjálshyggju og stöðugt vaxandi stéttamun.

Þær hugmyndir sem maður hefur heyrt og lesið, um áherslur væntanlegrar vinstri stjórnar, hljóma vel og rétt að líta á þessar yfirlýsingar sem "kosningaloforð" komandi ríkisstjórnar. Almenningur og fjölmiðlar eiga að fylgjast með gjörðunum og haka við efndirnar. Og muna eftir þeim þegar að kosningum kemur.

Það blása núna ferskir vindar. Þjóðin greip í taumana. Ríkisstjórn Geirs H. Haarde er fallin. Ráðherrar hafa loks axlað ábyrgð. Ræsting er hafin í Fjármálaeftirlitinu. Ræsting að hefjast í Seðlabankanum.Aðgerðir að hefjast sem miðast við hagsmuni fjöldans, ekki hinna útvöldu. Gott fordæmi á að setja með fækkun ráðherra (vonandi). Talað er um að fá inn í ríkisstjórn aðra en atvinnupólitíkusa (vonandi).

Mér finnst eiginlega eins og að Berlínarmúr hafi fallið. Við séum að losna undan þungbæru oki afskiptaleysis-frjálshyggju Davíðskunnar.


mbl.is Falið að mynda stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband