Tíu boðorð í tilefni sérstaks sunnudags

Ný ríkisstjórn, nýtt upphaf, Nýtt Ísland; alls konar tímamót í gangi og stórmerkilegir samfélagslegir viðburðir sem við upplifum nú. Það er sunnudagur og rétt að varpa fram andlegri og veraldlegri hugvekju inn í Bessastaða-seremóníurnar.

Hin kristna trú segir áhangendum sínum að tileinka sér "Boðorðin tíu" en lenda í helvíti ella. Þessi boðorð eru ekki allra og þá einkum fyrstu þrjú boðorðin eða svo. Maðurinn hefur enda fyrir langa löngu komið sér upp almennari siðareglum. Á þessum sérstaka sunnudegi býð ég fólki að hugleiða eftirfarandi 10 "boðorð":

1. Ekki gera öðrum það, sem þú vilt ekki að aðrir geri þér.

2. Í hverju því sem þú tekur þér fyrir hendi skaltu forðast að skaða aðra.

3. Komdu fram við annað fólk, önnur dýr og allt sem lifir af ástúð, heiðarleika, hreinskilni, trúmennsku og virðingu.

4. Ekki hunsa illvirki eða hika við að koma réttlæti á, en vertu alltaf tilbúinn að fyrirgefa þeim sem viðurkennir rangindi og sannlega iðrast.

5. Lifðu lífinu með gleði og hamingju að markmiði.

6. Reyndu ávallt að læra eitthvað nýtt.

7. Sannprófaðu hvaðeina; Leggðu mat á eigin hugmyndir út frá staðreyndum og vertu til í að hverfa frá sérhverri hugmynda þinna sem stenst ekki slíkt mat.

8. Ekki streða við að ritskoða sjálfan þig eða flýja undan ágreiningi; berðu ávallt virðingu fyrir þeim sem eru á annarri skoðun en þú. 

9. Reyndu að komast að eigin niðurstöðu út frá þinni eigin rökhyggju og reynslu; ekki leiðast í blindni af öðrum.

10. Efastu um allt - spurðu spurninga.

Og auðvitað er rétt að hafa til hliðsjónar tíu boðorð kristninnar - þ.e. hin tíu styttu boðorð 8en þau voru nokkru ítarlegi í upphaflegum handritum):

  1. Ég er Drottinn, Guð þinn, þú skalt ekki aðra guði hafa.
  2. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
  3. Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.
  4. Heiðra skaltu föður þinn og móður.
  5. Þú skalt ekki mann deyða.
  6. Þú skalt ekki drýgja hór.
  7. Þú skalt ekki stela.
  8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
  9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Friðrik.

Þetta er frábært innlegg hjá þér

í tilefni dagsins.

Kærleikskveðja til þín og allra þinna.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 12:44

2 identicon

Sæll, nú er loforðalistinn kominn fram og ekki orð um "auðmenn borgi" Var þetta kannski bara lýðskrum ? "Haldleggja eigur þeirra" var það líka lýðskrum ? Hvað finnst þér ?

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 19:10

3 identicon

Gott innlegg.

Í annað.  Er einhver möguleiki á að þú hafir sótt um blaðamannsstöðu hjá Eyjunni sem var verið að auglýsa?

Kv.

joð (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 13:24

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Neibb, joð, ég sótti ekki um slíkt starf.

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.2.2009 kl. 14:14

5 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Friðrik Þór hafðu þökk fyrir þessi skrif! 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 2.2.2009 kl. 15:39

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það er rétt að taka það fram að ég "smeið" ekki fyrri boðorðalistann, heldur "stal" honum úr bók, en höfundurinn "stal" honum af Netinu án þess að geta höfundarins þar. Svona listar eru óteljandi til.

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.2.2009 kl. 16:54

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Flottur listi, mjög í anda Dawkins

En það er athyglisvert, að boðorðin tíu eins og þú birtir þau og þau eru kennd í kristinfræði, eru ekki svona í biblíunni.  Í 2. Mósebók 20 og 5. Mósebók 5 er alveg skýrt að 2. boðorðið er eftirfarandi (í útgáfu 5. Mósebókar):

Þú skalt ekki gera þér skurðgoð í líkingu neins sem er á himnum uppi eða á jörðu niðri eða í vatninu undir jörðinni. 9Þú skalt ekki tilbiðja skurðgoð og ekki dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð. Ég refsa börnum þeirra sem eru mér fjandsamlegir í þriðja og fjórða ættlið fyrir afbrot feðra þeirra. 10En þeim sem elska mig og halda boð mín sýni ég gæsku í þúsund ættliði. 

Af einhverjum ástæðum hefur þetta verið ritskoðað út úr orði Guðs áður en það er matreitt fyrir okkur nútímafólkið.  Verður það að teljast nokkuð djarftækt, ef menn taka þetta bókstaflega á annað borð.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.2.2009 kl. 21:11

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Alveg hárrétt hjá þér, Vilhjálmur, listinn er ættaður úr bók þess manns (sá ekki ástæðu til að nefna hann sérstaklega bæði af því að hann kallar á heift sumra og svo "stal" hann þessu af öðrum - og svo er ég ekki Dawkins-isti þótt hann sé prýðileg lesning og lærdómsrík).

Líka rétt; boðorðin voru/eru mun lengri í upphaflegum handritum, ekki bara annað boðorðið. Hef þetta ekki fyrir framan mig, en ég man að síðasta boðorðið var með miklu nákvæmari útlistingum um hvað af hinu og þessu náungans maður eigi ekki að girnast.  Ég man að ég sló því alveg föstu að ég myndi ekki girnast "ösnu" náunga míns...

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.2.2009 kl. 21:27

9 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Án Guðs sé ég enga þörf fyrir svona boðorð, hvorki fyrri eða seinni. Án Guðs eru Hitler Stalín og þvílíkir einir sönnu sigurvegarar mannkyns. Án Guðs hefur ekkert annað líf neinn tilgang nema til að þjóna mér. Þetta er rökrétt ákvörðun því án Guðs er ég kominn af engu, er ekkert og verð að engu. Það er að segja sé ég eitthvað. Þegar líf Jarðar, ef hér er líf, þurkast út þá hefur ekkert gerst, minna en að einn dropi falli í útsæinn.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 2.2.2009 kl. 22:57

10 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Það er ekki nóg með að boðorðin séu lengri í Biblíunni, þessi boðorð eru ekki lengur í gildi!  Það hafa flestir heyrt af því þegar Móses braut lögmálstöflurnar.

Boðorðin tíu I: Nýjar lögmálstöflur

Einhver neyðarlegasti misskilningur Kristinnar kirkju allt frá upphafi Rómarkirkjunnar er meðferð hennar á boðorðunum tíu. Á einhver bjánalegan hátt hefur það ekki borist til eyrna guðfræðinga eða presta að núverandi boðorð eru ekki lengur í gildi. Því Móses braut lögmálstöflurnar í tætlur og fékk nýjar frá Yahweh. Þessu er lýst í annarri Mósesbók

Þar er t.d. tíunda boðorðið:

10) Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar. 

Ég hef enn haldið þetta boðorð!

Matthías Ásgeirsson, 3.2.2009 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband