Engin ný framboð og uppstilling hjá "gömlu" flokkunum?

Það er von að stjórnarskiptin á Íslandi veki athygli erlendis eftir allt það sem á undan er gengið.  En eitt af því sem ég myndi vilja sjá rætt meira innanlands sem utan er hversu aðstandendum ríkisstjórnarinnar (Samfylkingu, VG og Framsóknarflokki) liggur lífið á að efna til þingkosninga.

Það á að kjósa 25. apríl. Mér finnst þetta heldur snemmt. Mánuði seinna hefði strax verið betra. Ég hef nefnt þetta áður: Mér finnst það ákaflega mikilvægt að væntanlegum frambjóðendum gefist góður tími til að hafa undirbúning framboðsins sem lýðræðislegastan. Að ný framboð fái þokkalegan tíma til að ákveða að bjóða fram, fá fólk til liðs við sig og velja lýðræðislega á lista. Og að "gömlu flokkarnir" gefi bæði tíma og ráðrúm fyrir "hreinsun" að fara fram og fyrir prófkjör að eiga sér stað (ella verður gripið til gömlu uppstillingaraðferðar valdakjarnans).

Ég óttast að það gerist sem alls ekki ætti að gerast: Að upp úr hinni miklu pólitísku gerjun fólksins komi engir nýir framboðslistar og að innan gömlu flokkanna MINNKI lýðræðið með uppstillingum. Það væri ekki beinlínis í anda þeirrar umræðu og þeirra aðgerða sem tíðkast hafa að undanförnu. 

En dagsetningin er komin og talsmenn nýrra framboða verða að hafa hraðann á. Og innan "gömlu" flokkanna verða talsmenn prófkjara að fara að beita sér.


mbl.is Stjórnarskiptin vekja athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Ég er sammála þér, byltingin gerði þau mistök að koma ekki með neitt í staðin fyrir gömlu flokkana. Framundan er því stuttar ríkisstjórnir með óljósa stefnu. Vonandi verðu komið eitthvað nítt framboð áður en haustkosningin fer fram.

Offari, 2.2.2009 kl. 15:28

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Ávæning af þessu sjónarmiði heyrðist í fréttum nýlega þar sem sagt var frá því að Framsókn íhugaði uppstillingu í einhverjum kjördæmum vegna þess stutta tíma sem væri fram að kosningum. Einhvernvegin skilur slíkt eftir óbragð munninum. Getur verið að sigur lýðræðisins, verði sigur flokkræðisins?

Kristín Dýrfjörð, 2.2.2009 kl. 15:36

3 Smámynd: Hlynur Hallsson

Ég veit ekki betur en að það sé stefnt að forvali í öllum kjördæmum hjá VG. Það er krafa um lýðræðislegt val.

Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 2.2.2009 kl. 15:44

4 Smámynd: Sverrir Einarsson

Framsókn gerði ekki "óvart" kröfu um að það yrði stutt í kjördag, það var gert til að ný framboð gætu ekki komið fram, undirbúningur yrði nógu stuttur. Þetta gekk í VG og Samfó, nú hafa þeir "afsökun" um að ekki hafi tekist að finna nýja einstaklinga, sem væru tilbúnir að taka slaginn. Nýi formaðurinn í Framsókn er ekki alveg eins "saklaus" og fólk heldur, hann er með "ráðgjafa" á báðar hendur, þetta er ekki allt einhver suða uppúr honum sjálfum. Sanniði til gamla flokkseigenda klíkan hefur líka "saklausa" ráðgjafa á réttum stöðum og otar þeim að formanninum eftir "réttum" leiðum svo þetta líti nú allt voða "saklaust" út í fjölmiðlum.

Sverrir Einarsson, 2.2.2009 kl. 16:13

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hverjir fá að taka þátt í forvalinu, Hlynur, þ.e. kjósa/velja? Eru það skráðir félagar eða þeir sem lýsa yfir stuðningi við VG?

Auðvitað eru gallar við galopin prófkjör, en þau eru auðvitað lýðræðislegust. Viðsættanlegt er að yfirlýstir stuðningsmenn fái allir að kjósa/velja. Lágmark er að skráðir félagar fái að kjósa/velja, en það er samt of þröngt. Ólíðandi er að t.d. fimm eða sjö manna uppstillinganefndir handpikki á lista.

Þetta gildir fyrir ný framboð líka. Það er lítið lýðræðislegt við að Hörður Torfa og Gunnar Sig ráði því hverjir rata á lista.

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.2.2009 kl. 16:44

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála þér Friðrik. Þessum flokkum liggur lífið á að kjósa. Þeir vilja ekki að ný framboð taki frá þeim atkvæði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.2.2009 kl. 17:24

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Aftur á móti mannstu kannski úr því í mótmælunum, Gunnar, að krafan var "kosningar strax". Það hefði auðvitað verið út í hött!

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.2.2009 kl. 18:03

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég held að enginn einn flokkur umfram aðra þurfi að hafa áhyggjur af nýjum framboðum. Ég held það bitni í svipuðu hlutfalli á öllum. Fólk er óánægt í öllum flokkum. En auðvitað beinist grunurinn sterklega að VG og Framsókn, þeir flokkar hafa haft meðbyr í skoðanakönnunum, þó heldur sé að fjara undan VG.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.2.2009 kl. 18:11

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Svo er spurning hvort Sjálfstæðisflokkurinn klofni, Gunnar, með sérframboði Davíðs, Styrmis og félaga. Held það væri reyndar þjóðráð fyrir flokkinn að klofna, hann kemur yfirleitt vel út úr því fyrir rest. Í stað þess að fara einn fram og fá 25% fer hann fram í tvennu lagi og fær samtals 35%, sameinast svo eftir kosningar og hefur grætt 10 prósentustig. Ég er viss um að þú sért sammála þessu...

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.2.2009 kl. 18:25

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þessi fabúlering verður aldrei að veruleika

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.2.2009 kl. 18:40

11 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Friðrik,

mér þykir þú glöggur. Ekki hafði mér dottið í hug að það hagnaðist Sjálfstæðisflokknum að bjóða fram í tvennu lagi. Að öðru leiti er ég sammála færslu þinni, þetta er mjög bagalegt fyrir ný framboð. 

Gunnar Skúli Ármannsson, 2.2.2009 kl. 22:07

12 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Friðrik.

Góð hugleiðing og þörf.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 3.2.2009 kl. 00:05

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Telst Íslandshreyfingin, sem er aðeins tveggja ára gömul grasrótarhreyfing utan þings, vera ein af "gömlu flokkunum"?

Það held ég ekki. Og það þarf ekki að gefa sér það ef heimilt verður að hafa óraðaðan lista að Ísllandshreyfingin innleiði ekki það.

Fyrir síðustu kosningar töluðum við fyrir daufum eyrum um að ráðherra mættu ekki vera á þingi, að löggjafarvaldið yrði eflt með því og einnig með stórauknu eftirlitshlutverk þingsins.

Það var ekki "in" þá að ræða slíkt, vægi atkvæða og breytingu á kjördæmaskipaninni.

Við eigum besta flokksmerkið, baráttusöng, nafn, stefnu og myndum eiga gott fólk í komandi kosningum.

Það eina sem við eigum ekki eru peningar. Við erum með skuld frá síðustu kosningum þegar tímarnir voru þannig að vonlaust var að fara í kosningar án peninga.

Nú er öldin önnur og baráttumál okkar um að berjast gegn spillingu, skammtímagræðgi og tillitsleysi gagnvart komandi kynslóðum á öllum sviðum þjóðlífsins hafa aukið gildi sitt.

Ef við förum fram munum við segja: Við getum ekki boðið fram bæklinga, kosningaskrifstofur, sjónvarps- og útvarpsauglýsingar. Það eina sem við höfum að bjóða erum við sjálf og hugsjónir okkar.

Ómar Ragnarsson, 3.2.2009 kl. 11:31

14 identicon

Gömlu miðju og hægri flokkarnir vilja Re Branding á sjálfum sér, sömu áherslur aðrar pakkningar.

Það er ótrúlegt að menn sjái ekki mótsögnina í þessu hjá sjálfum sér. Auðvitað hefðu miðju og hægri menn átt að vera fyrir löngu búnir að sjá í hvað stefndi þegar hrunið varð. Það að núverandi flokkar vilji kjósa er augljóst. Að fá nýtt umboð myndi gera það að verkum að flokkar myndu geta myndað meirihluta í stað þess að vera í umboði lítils flokks, sem setur ríkjandi minnihlutastjórn úrslitakosti. Auðvitað vilja ný öfl "fá tíma" til að komast að, en að sama skapi á að bíða með það í eitt og hálft ár?

En nýji flokkurinn vill ekki kosningu strax, því hann er ekki til og því ekki líklegur til árangurs. Því vill flokkurinn, sem er ekki til, kjósa þegar hann kemur vel út í könnunum . Hvenær sem það verður.

Andres Kristjansson (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 11:37

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Greinilegt er að fjölmiðlarnir eru fastir í sinni skilgreinigu á því hvað séu stjórnmálaflokkar. Í frásögnum af Þjóðarpúlsi Gallup er fylgi Frjálslynda flokksins tilgreint en ekki fylgi Íslandshreyfingarinnar þótt það hafi verið jafnmikið og fylgi Frjálslynda flokksins.

Þetta er athyglisvert í því að nú eru í landinu sex stjórnmálaflokkar sem hafa fengið hliðstæða skráningu í kerfinu sem slíkir. En af því að Íslandshreyfingunni var á ósanngjarnan og ólýðræðislegan hátt meinað að fá fulltrúa í samræmi við kjörfylgi beita fjölmiðlarnir þöggun um hana.

Ómar Ragnarsson, 3.2.2009 kl. 11:47

16 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Telst Íslandshreyfingin, sem er aðeins tveggja ára gömul grasrótarhreyfing utan þings, vera ein af "gömlu flokkunum"?" spyr Ómar og svarar nei og ég svara hinu sama í sjálfu sér. Íslandshreyfingin (ÍH) er þó eiginlega hvorugt; nýtt né gamalt framboð, og það sem skiptir máli í þessari hér umræðu er hvernig framboð, ný, miðaldra og gömul, velja á sína lista.

Ég tek undir að það er bagaleg tilhneiging fjölmiðlamanna og ýmissa annarra að "gleyma" í sífellu ÍH. Ég lofa Ómari því að í stjórnmálafræðikúrsinum sem ég kenni í meistaranáminu í blaða- og fréttamennsku við HÍ er ÍH með í allri umfjöllun eins og aðrir flokkar sem hafa boðið fram og/eða ætla að gera það.

Á Ómari er að skilja að óvíst sé hvort ÍH bjóði fram og hann talar meðal annars um peningaleysi. Miðað við þingkosningar þurfa öll framboð að liggja fyrir, ef ég man þetta rétt í augnablikinu, 10. apríl og þangað til eru því aðeins rúmir 2  mánuðir. Það hefði munað miklu fyrir undirbúninginn að hafa þó ekki nema einn mánuð í viðbót til að viðhafa sem lýðræðislegast val á lista og undirbúa ný framboð. Þetta er það sem ég var að undirstrika. Framboð eru ekki hrist fram úr erminni, nema þá að einhverjir litlir einræðisherrar taki allar ákvarðanir bak við luktar dyr, í reykfylltum herbergjum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.2.2009 kl. 13:05

17 Smámynd: Tjörvi Dýrfjörð

Tek undir það að þetta er of skammur tími til kosninga. eins sýnist mér þær hugmyndir um breytingar á kosningalöggjöfinni að færa prófkjör flokkana inn í kjörklefana á kjördag ekki ásættanlegar. þetta þýðir í fyrsta lagi að öll umræða fyrir kosningar verður í höndum núverandi þingmanna og oddvita listana því nýjir frambjóðendur verða óþekktir framá kjördag vegna auglýsingabanns sem verður örugglega krafa flokkana vegna lagana um fjármál flokkana sem skilyrðir hámarksstuðning einstaklinga og fyrirtækja við 300 þúsund á ári til framboðs samtals hvort sem um er að ræða framboð til prófkjörs eða þings, þessa peninga vilja flokkarnir ekki missa til einstaklinga í prófkjöri.

Í öðru lagi þá mun prófkjörsbaráttan standa fram á kjördag sem gerir framboðum erfiðara um vik að koma stefnumálum sínum á famfæri þar sem allir frambjóðendur verða í persónulegu framapoti og bræðravígum, einhverjir sem munu fara frjálslega með stefnu síns flokks og pop artistar munu spretta fram.

semsagt að samanlögðu þá er þessi stutti tími til kosninga og breytingar á kosningakerfinu ekkert annað en tilraun til þjófnaðar á lýðræðinu og allt í boði Framsóknarflokksins stutt af VG og samþykkt af Samfylkingu Sjálfstæðisflokki og Frjálslyndum.

og sannast það sem margoft hefur verið sagt " það er sama rassgatið undir þeim öllum saman"

Guð blessi Ísland (Ekki veitir okkur af)

Tjörvi Dýrfjörð, 5.2.2009 kl. 17:19

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í Sjálfstæðisflokknum gera kjördæmisráðin einfaldlega könnun á vilja flokksmanna í þessum efnum. Ákaflega lýðræðislegt að mínu mati. Flokkar sem búa við lélegt mannval eru líklegri til að notast við uppstillingu þó það sé ekki algilt. Prófkjör geta verið bölvaður friðarspillir ef kosningabaráttan fer úr böndunum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.2.2009 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband