Færsluflokkur: Heimspeki

Næturhjal

 

Þú sagðir víst að nóttin væri

vindasöm og hrein.

“Úr afkimunum þyrlast þá

þjóðar sálar mein.”

 

Þú sagðir og að óravíddir

öllum blöstu við.

“Er þó allt svo nándar nærri,

því nóttin er upphafið.”

 

Ég sagði við þig ,,Nótt er nótt

með niðaskugga,

og gífurtal um gæðin þá

er gömul tugga.”

 

“Ekki máttu,” mæltir þú,

“mátt og hug þinn skorða,

af tilviljun ég svona tók

táknum prýtt til orða.”

 

Ég sagði þér að slaka á.

“Senn nú fer að rofa

og fíflin ein á fótum enn.”

                                                       Þá fórstu loks að sofa.

 


Tíu boðorð í tilefni sérstaks sunnudags

Ný ríkisstjórn, nýtt upphaf, Nýtt Ísland; alls konar tímamót í gangi og stórmerkilegir samfélagslegir viðburðir sem við upplifum nú. Það er sunnudagur og rétt að varpa fram andlegri og veraldlegri hugvekju inn í Bessastaða-seremóníurnar.

Hin kristna trú segir áhangendum sínum að tileinka sér "Boðorðin tíu" en lenda í helvíti ella. Þessi boðorð eru ekki allra og þá einkum fyrstu þrjú boðorðin eða svo. Maðurinn hefur enda fyrir langa löngu komið sér upp almennari siðareglum. Á þessum sérstaka sunnudegi býð ég fólki að hugleiða eftirfarandi 10 "boðorð":

1. Ekki gera öðrum það, sem þú vilt ekki að aðrir geri þér.

2. Í hverju því sem þú tekur þér fyrir hendi skaltu forðast að skaða aðra.

3. Komdu fram við annað fólk, önnur dýr og allt sem lifir af ástúð, heiðarleika, hreinskilni, trúmennsku og virðingu.

4. Ekki hunsa illvirki eða hika við að koma réttlæti á, en vertu alltaf tilbúinn að fyrirgefa þeim sem viðurkennir rangindi og sannlega iðrast.

5. Lifðu lífinu með gleði og hamingju að markmiði.

6. Reyndu ávallt að læra eitthvað nýtt.

7. Sannprófaðu hvaðeina; Leggðu mat á eigin hugmyndir út frá staðreyndum og vertu til í að hverfa frá sérhverri hugmynda þinna sem stenst ekki slíkt mat.

8. Ekki streða við að ritskoða sjálfan þig eða flýja undan ágreiningi; berðu ávallt virðingu fyrir þeim sem eru á annarri skoðun en þú. 

9. Reyndu að komast að eigin niðurstöðu út frá þinni eigin rökhyggju og reynslu; ekki leiðast í blindni af öðrum.

10. Efastu um allt - spurðu spurninga.

Og auðvitað er rétt að hafa til hliðsjónar tíu boðorð kristninnar - þ.e. hin tíu styttu boðorð 8en þau voru nokkru ítarlegi í upphaflegum handritum):

  1. Ég er Drottinn, Guð þinn, þú skalt ekki aðra guði hafa.
  2. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
  3. Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.
  4. Heiðra skaltu föður þinn og móður.
  5. Þú skalt ekki mann deyða.
  6. Þú skalt ekki drýgja hór.
  7. Þú skalt ekki stela.
  8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
  9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband