Er Þjóðkirkjan skorin niður? Nei.

Ung vinstri græn (UVG) fagna svokölluðum niðurskurði á fjárveitingum til Þjóðkirkjunnar og segja að sá niðurskurður sé "stórt skref í átt að aðskilnaði ríkis og kirkju". Þessu er ég ekki sammála. Nánar tiltekið; ég aðhyllist aðskilnaðinn eins og UVG, en ekki er hægt að tala um raunverulegan 400 milljón króna niðurskurð. Það var hins vegar hætt við mikla hækkun á fjárframlögum.

Sparnaðurinn eða niðurskurðurinn umræddi er ekki fyrirhuguð breyting milli áranna 2008 og 2009. Fárlög (og fjáraukalög) 2008 og nýsamþykkt fjárlög 2009 sýna að fjárframlög til trúmála eru um það bil að standa í stað. Það sem er að lækka felst í breytingunni sem gerð var á upprunalegu fjárlagafrumvarpi 2009 (sem samið var af bjartsýnu fólki fyrir hrunið). Ríkið ætlaði að gera vel við trúfélög, en hvarf frá því. Það er EKKI eiginlegur niðurskurður. Engu hafði verið lofað með löggjöf. Ætlunin var að hækka framlögin, en horfið var frá því. Tala má um sparnað en síður niðurskurð.

Skoðum þetta aðeins betur. Í trúmálum skipti ég fjárframlögum í tvennt: Forréttindaframlög til Þjóðkirkjunnar annars vegar og síðan sóknargjöld sem í grunninn byggja á jafnrétti trúfélaga á milli (að jöfnunarsjóði undanskildum). Lítum fyrst á forréttindaframlögin. Samkvæmt fjárlögum (og fjáraukalögum) 2008 runnu 1.501 milljónir króna (einn og hálfur milljarður) til "Biskups Íslands" (þar í laun presta og stjórnsýsla trúfélagsins með meiru). Til stóð að hækka þetta verulega en vegna efnahagsástandsins var horfið frá því og í fjárlagafrumvarpi er upphæðin 1.509 milljónir. Þetta er ekki niðurskurður heldur hækkun um 8 milljónir. Menn hins vegar spöruðu sér fyrirhugaða stórhækkun.

Annað dæmi af forréttindaframlögunum: Kristnisjóður 2008 var 89.7 milljónir. Það átti að hækka myndarlega 2009, en eftir tiltekt á upprunalegu fjárlagafrumvarpi 2009 endaði þessi tala í 94.5 milljónum. Þetta er ekki niðurskurður, heldur hækkun. Hækkunin er bara ekki eins mikil og í fyrstu var farið af stað með - sem er allt annað mál.

Sóknargjöld byggja í grunninn á jafnrétti milli trúfélaga (og sóknargjöld fólks utan trúfélaga renna í svokallaðan Háskólasjóð (HÍ). Föst upphæð per haus. "Framlög" þar er í raun skattlagning ("tíund"!) fyrir hönd trúfélaganna. Yfirvöld ákveða einhverja krónutölu og að frátöldum Jöfnunarsjóði sókna (sem Þjóðkirkjan situr ein að) fá allir það sama. Niðurskurður eða sparnaður þarna bitnar því jafnt á öllum jafnt og breytir engu um aðskilnað ríkis og kirkju. Sóknargjöld til Þjóðkirkjunnar lækka um 23 milljónir milli ára, en það er ekki niðurskurður. Það er lækkun vegna þess að meðlimum Þjóðkirkjunnar fækkaði hlutfallslega. Sem er allt annað mál.

Þetta skyldu UVG hafa í huga. Hvað sem Biskupsstofa segir þá hefur enginn raunverulegur niðurskurður  átt sér stað á ríkisframlögum til Þjóðkirkjunnar, heldur er einvörðungu búið að "tóna niður" þau útgjöld sem fyrirhuguð voru af mönnum sem voru ekki búnir að upplifa Hrunið Mikla.


mbl.is Ung vinstri græn fagna niðurskurði við þjóðkirkjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allir íslendingar sem vilja nýtt ísland þar sem frelsi og TRÚFRELSI, virðing fyrir öðrum toppar listann... verða að segja sig úr ríkiskirkjunni.
Það er ekki pláss fyrir ríkisgeimgaldrakarl á nýju íslandi; Face it

DoctorE (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 14:00

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Tek "face it" auðvitað ekki til mín, Dokksi, enda fyrir löngu orðinn utan trúfélaga og borga því sóknargjöld í Háskólasjóð. Ég er í trúmálum leitandi sál, opin fyrir ýmsu en full efasemda.

En ég var sem sagt að ræða ríkisframlög til trúmála, ekki trúmálin sjálf...

Friðrik Þór Guðmundsson, 5.1.2009 kl. 14:09

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Góð bloggfærsla Friðrik Þór.  Þetta þarf að koma fram.

Vissulega þarf að taka tillit til verðhækkana milli ára þegar útgjöld til ríkisstofnana eru skoðuð, en laun launþega taka ekki mið og verðbólgu og útgjöld til ríkiskirkjunnar ættu ekki heldur að gera það.

Matthías Ásgeirsson, 5.1.2009 kl. 14:19

4 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Þú segir kartafla, ég segi tómatur ;)

Magnús V. Skúlason, 5.1.2009 kl. 14:43

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Kartöflur og tómatar mæta gjarnan niðurskurði...

Friðrik Þór Guðmundsson, 5.1.2009 kl. 15:09

6 identicon

Ég tala auðvitað bara fyrir mig, en allt minna en alger aðskilnaður ríkis og kirkju er óviðsættanlegt. Ástæðan fyrir því að nánast vonlaust sé að aðskilja kirkjuna hinsvegar, er sú leiðinlega staðreynd að kirkjan á ennþá svo mikið af jörðum sem ríkið notar, þar á meðal jörðina undir Alþingishúsinu skilst mér.

Persónulega finnst mér að ef ríkinu takist ekki að kaupa þessar lóðir á sanngjörnu (lesist: lágu) verði, þá eigi bara að taka þetta af þeim. Það á ekki að líta á það sem valkost að kirkjan verði áfram hluti af ríkinu. Fari hún ekki með góðu finnst mér ekkert að því að reita hana burt með þeim aðferðum sem til þarf. Það er óverjandi að vera með ríkiskirkju.

Hjálparstarf og annað eins er hægt að fjármagna á þeim forsendum að vera hjálparstarf, en kirkjan er hluti af ríkinu og því þarf að ljúka. Það er okkur til skammar að hún sé þarna ennþá og að við losnum ekki við hana með góðu.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 15:46

7 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Við (ríkið) erum búin að borga ríkiskirkjunni margfalt fyrir þessar jarðir eins og bent er á í þessari grein og ítrekað í þessari.

Matthías Ásgeirsson, 5.1.2009 kl. 15:56

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Mikið rétt; að teknu tilliti til verðbólgu er verðmæti framlaganna að rýrna. En mér vitanlega eru fjárlög ekki með verðtryggingarákvæði. Og hér er ég fyrst og fremst að eltast við hugtakið "Niðurskurður".

Þegar Biskup og félagar segja að framlög til Þjóðkirkjunnar hafi verið skorin niður um 400 milljónir króna þá kemur upp ákveðin ímynd í hugum fólks. Fyrsta vers þar er að álykta að framlög milli 2008 og 2009 lækki með beinum hætti um 400 milljónir króna. Það er ekki að gerast. Fyrstu hugmyndir við gerð fjárlagafrumvarps fyrir 2009 voru tónaðar niður vegna hrunsins. Útkoman er svipuð krónutala og á nýliðnu ári. Enginn veit hvað það verður í raun mikil rýrnun að teknu tilliti til verðbólgu, því við vitum ekki hver verðbólgan verður. Og við vitum ekki heldur hvaða "leiðréttingar" munu sjá dagsins ljós í fjáraukalögum fyrir nýhafið ár. Óvissan er nokkur en planið er að óbreyttu: Um það bil sama krónutalan og árið 2008.

Friðrik Þór Guðmundsson, 5.1.2009 kl. 16:07

9 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

...en ég vil ekki borga neitt í þetta apparat!!!...skiptir það einhverju?

Finnst ekki hægt að rökstyðja svona þjófnað...og finnst miklu fleiri rök til dæmis við að borga björgunarsveitunum þessa fjárupphæð?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 5.1.2009 kl. 17:41

10 identicon

Haukur vegna þess að hér á að vera lýðræði og jafnrétti þá er algerlega óásættanlegt að ríkið sé að hampa einhverjum guði einhverra íslendinga.
Þetta sjá allir með hálfan heila, þetta er partur af þeim lærdóm sem við þurfum til þess að ná okkur frá gamla íslandi, að hér sé ríkisguð er eins og að segja að sumir íslendingar séu fremri öðrum.

Mig hlakkar rosalega til þegar kirkjan verður tekin af spenanum, mig hlakkar svo til því ég veit að kuflarnir munu reyna að blóðmjólka allt sem þeir geta, þó svo að við séum búin að borga margfalt, þó svo að margar eignir kirkju hafi komið undir með óheiðarlegum hætti.
Merkið þessi orð mín!!!

DoctorE (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 20:00

11 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Haukur , ég bjó 6 ár í DK (sem er lýðræði...ef það eru rök?).

Þar fékk ég skattprósentuna tilbaka.

Ég var alin upp í kaþólsku og er utan trúarsafnaða í rúm 20 ár!...hef verið í Siðmennt og verð jörðuð þar!

Hvers vegna  á Eg að borga til þín og þú ekki til mín?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 5.1.2009 kl. 20:57

12 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Gott hjá þeim í Danmörku, að borga sóknargjöldin til baka (vænti ég). En sóknargjöldin eru ekki (vanda)málið. Fólk utan trúfélaga borgar sóknargjaldaígildi ekki til trúariðkunar, heldur til Háskólasjóðs. Ég myndi vilja að mitt rynni til líknarfélags að eigin vali.

Vandamálið er miklu heldur forréttindaframlögin sem renna til eins trúfélags umfram önnur, Þjóðkirkjunnar. Það er gert í skjóli jarða sem fyrir rúmum 100 árum voru afhentar ríkinu. Það er fyrir lifandis löngu búið að borga þessar jarðir - margfalt. 

Hvað um það; Ég get ekki vorkennt Þjóðkirkjunni að fá á sig skerðingu (miðað við raunvirði) á nýhöfnu ári. Formúlunni samkvæmt eiga allir að herða sultarólina og Þjóðkirkjan í öllum sínum upphæðum er sjálfsagt skotmark.

Friðrik Þór Guðmundsson, 5.1.2009 kl. 22:52

13 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Kirkeskatten - folkekirkens væsentligste indtægtskilde

http://www.km.dk/folkekirken/statistik-og-oekonomi/oekonomi/kirkeskat.html?alt=1$3

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 6.1.2009 kl. 07:15

14 identicon

Anna, vilja ekki borga, ég vil ekki aðskattfé mitt borgi fyrir niðurgreidda uppeldisþjónustu yfirvalda (leikskólar) á meðan þeir foreldrar sem sinna þessu hlutverki sjálf fá ekkert. Var einhver að tala um lýðræði og jafnrétti?

Palli (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 09:19

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég vil ekki að minn skattur fari í Varnarmálastofnun. Ekki í sukk-sendiráð. Ekki í Bændasamtök Íslands. Ekki í gullklósett ráðherra. Ekki í snobbferðir og risnu. Ég vil setja mína skatta alla í velferðarmálin. En ég fæ litlu ráðið um þetta. Við kjósum "fjárhaldsmenn" skattsins á þing og fólkið þarna úti er svo vitlaust að kjósa alltaf flokka sem eru ekki sammála mér. En ég verð samt að borga skatta; því annars verð ég settur í fangelsin sem ég vil ekki að skattarnir mínir fari í.

Friðrik Þór Guðmundsson, 6.1.2009 kl. 10:32

16 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Palli og Friðrik...víst er góður púnktur í þessu hjá ykkur, en ég vil aðskilja veraldlegt og andlegt vald og finnst eins og að risnukostnaður vegna andlegra mála ætti að vera valfrjáls!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 6.1.2009 kl. 15:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband