Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kirkjan í upphæðum

Þeir sem þekkja til mín vita að ég hef í gegnum árin verið óspar á gagnrýni á Þjóðkirkjuna (Ríkiskirkjuna) og önnur trúfélög skipulagðra trúarbragða. Ekki síst þegar ég var í forsvari fyrir Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju. Nú er komið upp mál fyrir dómi sem ýtir undir þá ímynd að kirkjan sé "í upphæðum" - Kirkjan telur sig eiga rétt á meira en 100 milljónum króna vegna afnota Landsvirkjunar af vatnsréttindum í landi Valþjófsstaðar. Ætli Landsvirkjun þyrfti ekki að breyta þessum vatnsréttindum í vínréttindi til að afvegaleiða hempufólkið?

Í sjálfu sér þarf enginn að efast um að Þjóðkirkjan eigi eins og aðrir landeigendur kröfur á Landsvirkjun ef og þar sem Landsvirkjun er að sölsa undir sig eigur og réttindi. En í þessu máli ætti Þjóðkirkjan að óska eftir frestun á frekari málflutningi vegna málsins meðan mesta ólgan og krísan er að líða hjá. Svo gæti farið að krafa Þjóðkirkjunnar verði krafa á "gjaldþrota" ríki. Að ríkið, sem er þjóðin, megi til með að nota fjármuni sína í annað en að borga fyrir vatnsréttindi. Þjóðkirkjan mætti einnig íhuga að ríkið getur náð þessum fjármunum auðveldlega til baka, t.d. með því að lækka sóknargjöldin og/eða skerða framlög í fjárlögum. Held að það væri reyndar óvitlaust, en Þjóðkirkjan ætlar út í nýjar fjáröflunarleiðir!

Ég sit í stjórn Breiðavíkursamtakanna. Eins og menn muna vafalaust deildu samtökin hart á ríkisvaldið (forsætisráðuneytið) fyrir nánasarlegar tillögur um bætur í drögum að frumvarpi. Undir eðlilegum kringumstæðum væru samtökin nú að herja á Geir og félaga um stórbætt frumvarp og hraða afgreiðslu á boðlegum bótum. En samtökin átta sig fullkomlega á því að slík barátta verður líkast til að bíða um sinn, jafnvel hið minnsta í 2-3 mánuði og hugsanlega til vorþings Alþingis. Bótamálið er jafn brýnt og áður, en samtökin kunna sig og víkja tímabundið meðan við tökum öll saman á Kreppuskrímslinu ógurlega. Óskandi væri að Þjóðkirkjan kynni sig líka.


mbl.is Kirkjan krefur ríkið um milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bara tvö pör af frambjóðendum

Það er kannski ósköp eðlilegt þannig séð, en samt. Allar fréttir hérlendis um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum gefa sterklega til kynna að kjósendur vestra hafi bara um að velja annað hvort parið; Obama-Biden eða McCain-Palin. Staðreyndin er sú að ekki færri en átta pör eru í framboði, þar af tvö sósíalísk!

Ralph Nader "neytendafrömuður" er enn að og býður sig nú fram með einhverjum sem heitir Matt Gonzales og þeir skrá sig sem óháða frambjóðendur. Frambjóðendur fyrir "Socialism & Liberation Party" eru Gloria La Riva í forsetann og Eugene Puryear. Fyrir "Socialist Workers Party" bjóða sig fram James E. harris og kona með kunnuglegt eftirnafn; Alyson Kennedy. Á vegum "Libertarian Party" koma Bob Barr og Wayne A. Root. Flokkur að nafni "Constitution Party" býður fram Chuck Baldwin og Darrell L. Castle og loks má nefna frambjóðendur "Green Party", tvær konur; Cynthia McKinney og Rosa Clemente. 

Enginn af þessum "minni spámönnum" fær að komast að í sjónvarpskappræðum og fjölmiðlar vestra virðast hunsa þá að mestu. Frægastur er auðvitað Ralph Nader, sem oft hefur boðið sig fram og er gjarnan skammaður fyrir að taka atkvæði af Demókrataflokknum. En hvert þessara "sér"framboða er líklegt til að fá slatta af atkvæðum (en hlutfallslega fá) og einhver tækifæri til áróðurs og áhrifa á málflutning hinna stóru. Vildi bara nefna þetta.


mbl.is Síðustu sjónvarpskappræðurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

".... getur þolað töluverð áföll" - 14. ágúst sl.

Þessi frétt Fjármálaeftirlitsins frá 14. ágúst síðastliðnum er merkileg söguleg heimild. "Niðurstöður álagsprófsins sýna að eiginfjárstaða bankanna er sterk og getur þolað töluverð áföll" er þarna haft eftir forstjóra FME. Þolað töluverð áföll, sagt og skrifað. Ætli eitthvað hafi vantað í þetta álagspróf?

14.08.2008

Íslensku bankarnir standast álagspróf FME

Fjórir stærstu viðskiptabankarnir standast allir álagspróf Fjármálaeftirlitsins sem eftirlitið framkvæmir með reglubundnum hætti. Álagsprófið gerir ráð fyrir að fjármálafyrirtæki standist samtímis áföll í formi tiltekinnar lækkunar á hlutabréfum, markaðsskuldabréfum, vaxtafrystum/virðisrýrðum útlánum og fullnustueignum og áhrifa af lækkun á gengi íslensku krónunnar án þess að eiginfjárhlutfallið fari niður fyrir lögboðið lágmark.

Vakin er athygli á að álagsprófið miðast við stöðuna á viðkomandi tímapunkti. Eiginfjárhlutföll bankanna í lok annars ársfjórðungs 2008 endurspegla þegar áhrif af óróa á fjármálamörkuðum á seinni hluta ársins 2007 og fyrri hluta þessa árs, þ.e. áður en áhrifin af álagsprófinu eru reiknuð. Til viðbótar hinu formlega álagsprófi framkvæmir Fjármálaeftirlitið ýmis álagspróf eftir því sem ástæða þykir til.
  
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME: "Niðurstöður álagsprófsins sýna að eiginfjárstaða bankanna er sterk og getur þolað töluverð áföll.  Stjórnendur og hluthafar bankanna þurfa að leggja áherslu á að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu og jafnvel efla hana, en eiginfjárþörfina þarf reglulega að endurmeta með hliðsjón af mismunandi áhættuþáttum í rekstri og stefnu hvers fyrirtækis."


Fjölbýlishúsið og stigagangurinn

Mig langar hér og nú til að rifja upp færslu mína frá því á síðasta ári, sem ég skrifaði sem "paródíufrétt" um átök í fjölbýlishúsi, eftir að stigagangurinn og aðrar sameignir höfðu verið "einkavæddar". Auðjöfurinn sem keypti sameignirnar er nú með allt niður um sig og tímabært að íbúar fjölbýlishússins endurheimti sínar gömlu eignir.

Færslan/Paródíufréttin var svona:

"Það brutust út slagsmál í stigagangi fjölbýlishúss á dögunum. Það kom upp mjög alvarlegur ágreiningur um sameign hússins. Stjórn húsfélagsins hafði öllum að óvörum selt sameignina.

Íbúar fjölbýlishússins fengu, hver í sinni séreign hússins, tilkynningu frá formanni húsfélagsins að stjórnin hefði ákveðið að selja einum íbúðareigendanna, auðmanninum í penthousinu, allar sameignir fjölbýlishússins. Stigagangana, tröppurnar, þvottahúsið, hjólageymsluna og svo framvegis. Hér eftir væru umferð og athafnir á þessum hlutum fasteignarinnar bönnuð nema með leyfi nýja eigandans, svo sem að komast til íbúða sinna. Tekið yrði sérstakt gjald fyrir að hýsa póstkassa og geyma hjól. Í kjölfarið heyrðust sögur af miklum plönum nýja eigandans með fyrrum sameignina; hann ætlaði að efna þar til ýmiss konar verslunar og þjónustu - og skemmtihalds fram á rauða nótt.

Einnig heyrðust fréttir af því að auðmaðurinn í penthousinu, nýi "sameignar"eigandinn, ætti í viðræðum við fjársterkan aðila í næstu blokk um að kaupa af sér téðan stigagang - með góðum söluhagnaði auðvitað. Sem gefur augaleið; hann fékk jú eignina frá stjórn húsfélagsins á afar, afar, afar góðu verði.

Þegar þetta heyrðist gerðu íbúar fjölbýlishússins loks vart við sig, þeir stormuðu stigagangana (borguðu auðvitað nýja eigandanum umferðartoll), drógu formann húsfélagsins fram og börðu hann. Sem að vísu breytti engu. Formaðurinn fékk glóðarauga, en hló alla leið til bankans".

http://lillo.blog.is/blog/lillo/entry/149671

 


Við höldum með sigurvegurunum, er það ekki?

Okkur líkar best við þá sem eru bestir og vinna oftast og glæstu sigrana, er það ekki? Hjá sumum gætir tilhneigingar til að halda með þeim sem aldrei vinna, „the underdogs“, en sú árátta hefur sjálfsagt verið að hverfa á tímum nýfrjálshyggjunnar, efnishyggjunnar og einstaklingshyggjunnar (survival of the fittest/fattest). Í lífsins baráttu viljum við vera eins og sigurvegararnir – Liverpool og Manchester United.

Enski boltinn hefur löngum átt hug og hjörtu landsmanna, einkum karlkyns en líka í vaxandi mæli kvenkyns. Af hundruðum liða í Englandi höfum við flest ákveðið að halda með þeim sem vinna oftast. Við viljum tapa sem sjaldnast og helst aldrei. Við viljum lágmark eina gullmedalíu hvert ár.

Deild Enska boltans hjá mbl. Is hefur undanfarnar vikur staðið fyrir „liðskönnun“ okkar á meðal um stuðning við Ensk lið og nú áðan höfðu 11.673 greitt atkvæði í könnuninni (sem er fádæma mikið í net-könnunum hér á landi). Staðan hefur lítt breyst að undanförnu og er svona:

Hvert er þitt lið í ensku úrvalsdeildinni?

Liverpool             32,7%

Man.Utd             27,4%

Arsenal                15,6%

Chelsea                 5,9%

Tottenham           4,8%

West Ham            3,3%

Newcastle            1,7%

Aston Villa            1,6%

Everton                 1,5%

Man.City               1,5%


Það eru til fjölbýlishús með um 500 íbúa. Líkast til er þar að finna 163 Púlara, 137 Manútara, 78 Gönnera, 29 Clesíara, 24 Spursara, 17 Westhamara og síðan 52 sem halda með ýmsum öðrum liðum.

Efnt til knattspyrnumóts gætu Púlarar sent nær 15 (ellefu manna) lið, Manútarar 12, Gönnerar 7 lið, Chelsíarar 2 (og hálft) og Spursarar 2 lið. Ofsalega mikið um rauða boli!

75.7% halda með 3 liðum, þeim sigursælustu auðvitað. Mér finnst raunar merkilegt hve mínir menn, Spurs, njóta mikils fylgis hérlendis, miðað við kröfuna um helst „dollu“ á hverju ári, sem áreiðalega er vænting stuðningsmanna þriggja til fjögurra efstu liðanna á listanum. Þrír af hverjum fjórum halda með dollu-liðunum. Mest er ég hissa yfir því að Chelsea hafi ekki hoggið stærri skörð í hlut þriggja efstu, eftir Eiðstímabilið. Ég er líka svolítið hissa að KR-búningur Newcastle hafi ekki skilað meiri árangri.

En það sem vekur einna mestu athyglina hjá mér er brotthvarf Lídsaranna. Miðað við það sem ég man er ég handviss um að Leeds United hafi hér fyrir bara 10-20 árum náð allavega fjórða sætinu með kannski 10%. Nú virðast fylgismenn liðsins hafa gufað upp að mestu. Af hverju ætli það sé? Jú, liðið varð gjaldþrota, féll um tvær deildir og vinnur núna aldrei „dollur“. Við höldum ekki með svoleiðis liðum.  -

p.s. Hef „falið“ reiði-pistlana mína í bili en ekki eytt þeim. Þeir eru og verða áfram til, en fá hvíld frá lesningu að sinni.


Förum í mál við Brown og Breta

 Brown réttir einhverjum öðrum en Íslendingum höndina.

Eftir að hafa þrælað í gegnum athugasemdir við grein Ben Murray (hér) er ég dolfallinn og ekki bara sorgmæddur heldur fjúkandi reiður í garð Gordon Brown, Alistair Darling og Breta yfirleitt. En alvarlegar spurningar vakna í leiðinni og ég geri þá kröfu til fjölmiðla að þeir óski eftir og birti útskrift af símtali Árna Matt og Darling. ÞETTA ER BRÁÐNAUÐSYNLEGT.

Það er ljóst að tilfinningar eru sjóðheitar milli Breta og Íslendinga nú. Hygg að það væri skynsamlegt fyrir Breta hér og Íslendinga í Bretlandi að haska sér heim, heilsunnar vegna. Skaðinn af yfirlýsingum Darling og Brown er óskaplegur og ég tek undir með þeim röddum sem segja að Ísland eigi að höfða mál gegn Bretlandi vegna hruns Kaupþings-banka. En ég er líka húrrandi reiður, líka fjúkandi reiður yfir því að reiðin í garð "snillinganna" er allt í einu óverðskuldað komin í annað sæti!

Ég vona að England tapi fyrir Kazakstan í fótboltanum í dag - og er þá mikið sagt, því ég hef verið einlægur aðdáandi Enska boltans, Bretlands almennt og haldið með Verkamannaflokknum þar í landi.

Þessi færsla var skrifuð eftir að ég taldi nokkrum sinnum upp að 10.


mbl.is „Sparkað í liggjandi (Ís)land"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlarnir í ólgusjónum

Ekki kemur á óvart að fjármálakrísan hafi áhrif á fjölmiðlaflóruna. Fréttablaðið er runnið inn í Árvakur (Moggann) og 24 stundir að hverfa úr flórunni. Líklega er RÚV eini öruggi fjölmiðillinn þessa dagana. Það er vond staða, því þótt ástæðulaust sé að ætla að lífið snúist um fjölmiðla þá eru þeir óneitanlega mjög mikilvægir fyrir hina lýðræðislegu umræðu. Það er sök sér þótt einn eða tveir þeirra hverfi, en hrikalegt áfall ef fleiri en það verða undir.

Einmitt út af þessu mikilvægi eiga þeir í krísunni í dag að líta í eigin barm og hugleiða hvað þeir hefðu getað gert betur í aðdraganda krísunnar - sl. 2-3 ár raunar. Ástæða er til að hvetja alla áhugamenn um fjölmiðla til að lesa tímamótaleiðara ritstjóra DV í dag (hér). Leiðarinn er skyldulesning! Fjölmiðlarnir hafa tekið þátt í dansinum í kringum gullkálfinn og því að skamma spámenn erlendis sem vogað hafa sér að líta á Íslensku útrásina krítískum augum. Fjölmiðlar hafa í þeim efnum brugðist við að veita stjórnvöldum og stórfyrirtækjum virkt aðhald. Hugsanlega hefur samsetning eignarhalds fjölmiðlanna haft þar áhrif á.

Fjölmiðlum er það hollt að læra af þessari lexíu. Og nú eiga þeir ekki að falla í samstöðu-gildruna og hlífa ráðamönnum og forstjórum. Þeir eiga að viðurkenna eigin hlutdeild í aðdragandanum og byrja strax að gera betur!


mbl.is Fréttablaðið og Árvakur saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frysta skal eigur "snillinganna"

Reiðin er vondur húsbóndi, sagði lögfræðingur sem sendi mér tölvupóst í dag og er ósáttur við blammeringar mínar í garð samflokksmanna sinna, Geirs og Davíðs. Þetta er allveg satt og auðvitað á maður að "telja upp að 10" - vandamálið er bara að ég er búinn að telja og telja og er kominn hið minnsta upp í sex hundruð sextíu og sex, en er enn fjúkandi reiður.

Reiðin út í Geir og Davíð kemst þó ekki í hálfkvist miðað við reiði mína í garð "snillingana", þessa 20-30 sem Vilhjálmur Bjarnason hefur talað um. Reiðin minnkar ekki við að lesa um að „Bílskúrssölur“ séu nú hafnar á eigum íslenskra banka erlendis. Nú les maður um kaup ING í Bretlandi á Edge og Heritable bönkunum þar í landi, sem voru í eigu Kaupþings og Landsbankans, sölu á Kaupþingi í Svíþjóð, sem kunni að enda í höndum sænska seðlabankans, fáist ekki kaupendur og að dótturfyrirtæki Glitnis í Finnlandi sé til sölu. Útrás "snillinganna" er á brunaútsölu.

Hvar eru "snillingarnir"? Flognir burt á einkaþotunum? Hvað tóku þeir með sér?

Það verður tafarlaust að frysta eigur "snillinganna", ef ekki fyrir okkur þá upp í svikin við sparifjáreigendur útlendinganna sem þeir sviku. Þetta er mín krafa og undir hana tók starfsmaður Seðlabankans sem ég hitti áðan. Erlendis eru menn farnir að frysta eigur þessara manna og fyrirtækja þar og þetta eigum við að gera hér.

Já, reiðin er vondur húsbóndi. En sá húsbóndi þarf ekki þar af leiðandi að hafa rangt fyrir sér. Meðan "snillingarnir" koma ekki fram og tala beint við þjóðina þá verður reiðin áfram húsbóndinn, hversu vondur sem hann er.


mbl.is Ísland á „bílskúrssölu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er stjórnarformaður Landsbankans?

Það er búið að tala grilljón sinnum við stjórnarformann Glitnis og stjórnarformann Kaupþings-banka, en hvar er stjórnarformaður Landsbankans og hvert er álit hans á bankakrísunni og neyðarlögunum?Jú, við sáum son stjórnarformannsins hoppa og skoppa upp og niður tröppur að hitta ráðherra, en hvar er pabbinn, stjórnarformaðurinn?

Fyrir helgina var gjaldeyrisþurrð í Landsbankanum. Það er búið að taka völdin af bankanum (og öðrum) með neyðarlögum. Björgólfur Guðmundsson segir ekkert! Væntanlega neitar hann að tala við fjölmiðla - frekar en að þeir reyni ekki að tala við hann! Samt er mögulega að hrynja yfir bankann hans mál sem er margfalt stærra og alvarlegra en aðaláhugamál stjórnarformannsins; að gera upp eldgamlar Hafskips-sakir

Landsbankinn er aðalbanki minn. Þar á ég sætan lítinn sparnað (móðurarf) í krónum og dollurum. Það dugar mér ekki að heyra forsætisráðherra segja innistæður tryggar. Ég vil heyra í stjórnarformanni bankans sem ég treysti aurunum fyrir. Hann hlýtur að geta tekið sér pásu frá því að ritrýna sagnfræðilegar bækur.

Verður Landsbankinn til sem slíkur í fyrramálið? Verða einhverjir peningar í bankanum? Eru þeir kannski farnir eitthvað annað?


mbl.is Neyðarlög sett í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fróðlegur Kompás-þáttur um Hafskipsmálið

 Kompásþátturinn í kvöld um Hafskipsmálið var hinn fróðlegasti og flest í honum rímaði ágætlega við ritdóm minn og langa færslu á dögunum. Sérstaklega þetta með bókina hans Örnólfs Árnasonar sem Björgólfi þótti ekki nógu "góð". Reyndar hef ég bætt því við að Björgólfur ætti að snúa sér að öðru en Hafskip og það er nú aldeilis að reynast réttmæt ábending nú, þegar Björgólfsbanki riðar til falls (líklega kennir hann fjölmiðlum um það). 

Bók Örnólfs er önnur bókin sem telja má víst að Björgólfur gamli hafi ritskoðað með beinum hætti, en honum tókst ekki að kaupa dagblað til að leggja niður. Hvað um það; Kompás-þátturinn hafði sem betur fer nokkurn veginn réttan fókus; þar var fjölmiðlum og stjórnarandstæðingum ekki kennt um allt (Þótt Matti Bjarna vilji áfram vaða í þeirri villu), heldur sjónunum beint réttilega að "huldumönnunum": Loksins, loksins. Reyndar hefði mátt segja nánar frá en gert var hversu Hafskipsmenn sjálfir áttu sök að máli. En þarna mátti þó finna þefinn af, skulum við segja, trúlegri sökudólgum; Jóhannes Nordal leysir Halldór Halldórsson af, Hörður Sigurgestsson leysir Ólaf Ragnar af, Gunnlaugur Claessen leysir Jón Baldvin a, Markús Sigurbjörnsson leysir Svavar Gestsson af: aðalliðið er tekið við af varaliðinu. Eimskipafélagið og embættismenn sökktu Hafskip en ekki fjölmiðlar og stjórnarandstæðingar. Og ég held raunar að menn eins og Mattarnir Bjarna og Mathiesen hafi vitað meir um hvað var að gerast en þeir láta eða létu síðar uppi.

Ég vil sjá bókina eða handritið hans Örnólfs Árnasonar. Eftir Kompás-þáttinn getur Örnólfur ekki annað en upplýst um bókina eða helst gefið hana út einhvern veginn. Annars verður að draga þá ályktun að hann hafi, ótrúlegt nokk, verði keyptur til þagnar.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband