Handalögmál í sameign fjölbýlishúss

Það brustust út slagsmál í stigagangi fjölbýlishúss á dögunum. Það kom upp mjög alvarlegur ágreiningur um sameign hússins. Stjórn húsfélagsins hafði öllum að óvörum selt sameignina.

Íbúar fjölbýlishússins fengu, hver í sinni séreign hússins, tilkynningu frá formanni húsfélagsins að stjórnin hefði ákveðið að selja einum íbúðareigendanna, auðmanninum í penthousinu, allar sameignir fjölbýlishússins. Stigagangana, tröppurnar, þvottahúsið, hjólageymsluna og svo framvegis. Hér eftir væru umferð og athafnir á þessum hlutum fasteignarinnar bönnuð nema með leyfi nýja eigandans, svo sem að komast til íbúða sinna. Tekið yrði sérstakt gjald fyrir að hýsa póstkassa og geyma hjól. Í kjölfarið heyrðust sögur af miklum plönum nýja eigandans með fyrrum sameignina; hann ætlaði að efna þar til ýmiss konar verslunar og þjónustu - og skemmtihalds fram á rauða nótt.

Einnig heyrðust fréttir af því að auðmaðurinn í penthousinu, nýji "sameignar"eigandinn, ætti í viðræðum við fjársterkan aðila í næstu blokk um að kaupa af sér téðan stigagang - með góðum söluhagnaði auðvitað. Sem gefur augaleið; hann fékk jú eignina frá stjórn húsfélagsins á afar, afar, afar góðu verði.

Þegar þetta heyrðist gerðu íbúar fjölbýlishússins loks vart við sig, þeir stormuðu stigagangana (borguðu auðvitað nýja eigandanum umferðartoll), drógu formann húsfélagsins fram og börðu hann. Sem að vísu breytti engu. Formaðurinn fékk glóðarauga, en hló alla leið til bankans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Selt sameignina? Er það hægt? Er það löglegt? Varla að ég trúi þessu, nema þá vegna þess hver bloggarinn er.

Hlynur Þór Magnússon, 17.3.2007 kl. 13:39

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Jú, Hlynur Þór, svo virðist sem "íbúarnir", sem samfélag, geti ekki átt sameign. Líkt og þjóð sem getur víst ekki átt sameign. Hins vegar getur kaupandi sameigninnar leyst öfl úr læðingi. Þá verður sko líf í tuskunum í stigagöngunum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.3.2007 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband