Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ná í peningana á Cayman Islands

Ég er ekki búinn að skoða frumvarpið ofan í kjölinn, en ég býst fastlega við því að þar sé að finna ákvæði um að "snillingarnir" skili aftur árangurstengdu bónusgreiðslunum, er það ekki? Og að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að sækja peningana sem auðjöfrarnir hafa stungið undan og sett á reikninga í Sviss, Cayman Islands og víðar, er það ekki?

Það á ekki að gefa þessum snillingum og auðjöfrum neitt. Það á að taka frá þeim innistæðulausan ábata, sem sekt fyrir að leggja fjármálakerfi landsins í rúst. Þetta er enda ekki "bara" alþjóðleg krísa, heldur eru séríslenskar aðstæður stór hluti af þessu.


mbl.is Víðtækar heimildir til inngripa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugvekja: Liðin sem ég elska og hata

Í fótboltanum heldur maður með sínu liði, maður á að hata erkifjendurna og maður má ekki vera félagsskítur. Þessi einarða afstaða er annars mikið til bundin við íþróttirnar, því á öðrum sviðum lífsins leyfist manni að skipta um skoðun og hollustu. Í pólitík er maður þannig ekki endilega félagsskítur þótt maður flakki á milli flokka í kjörkassanum. En það er samt talið vera gegn „anda“ stjórnmálanna.

Sumir halda reyndar „pólitískt“ með sínu fótboltaliði. Eftir því sem mér skilst þá eiga vinstrimenn ekki að halda með KR – því það hafi verið og sé auðvalds-liðið. Eins og Real Madrid á Spáni. Á Ítalíu telst AC Milan vera hægra-lið Berlusconis og Lazio er sagt vera lið Fasistanna. Hvað Enska boltann varðar er ljóst að Íslendingar halda með sigurvegurunum. Þrír af hverjum fjórum halda með Liverpool, Man. Utd eða Arsenal – hinn fjórðungurinn heldur með skrítnum undirmálsliðum eins og Tottenham eða WBA, skilst mér. Fyrir marga er þarna um trúarbrögð að ræða og kirkjur þessara trúarbragða eru til muna betur sóttar en kirkjur hefðbundinna trúarbragða.

Ég get ekki alveg farið eftir formúlunni; Ég er félagshyggjumaður en held með KR, meintu auðvaldsliði. En ég hata ekki Val. Í Enska boltanum held ég með öðru meintu auðvaldsliði, Tottenham, en ég hata ekki Arsenal (þótt ég voni að þeir tapi sérhverjum leik).

Í pólitík er ég löngu búinn að yfirgefa einstrengingslegar skoðanir og hollustu. Ég myndi vilja hafa persónukjör; fá að pikka út einstaklingana á listunum, en ekki flokkana. Ég myndi vilja fá að velja skynsama, öfgalausa einstaklinga af öllum listum, því í pólitíkinni er „mitt lið“ ekki endilega best. Landið eitt kjördæmi og persónukjör. Af (nú) 63 frambjóðendum myndi ég örugglega velja minnst 3-4 úr þeim flokki sem mér er annars verst við. Af því að þar er líka þrátt fyrir allt að finna gott og skynsamt fólk. Fólk sem vill samfélaginu vel en ekki bara sjálfu sér.

Sem félagshyggjumaður myndi ég áreiðanlega velja fleiri einstaklinga sem eru „til vinstri“. En slík hugtök þýða ekki það sama og þau gerðu hér áður fyrr. Í velferðarsamfélögum eins og á Íslandi er löngu ljóst að þriðja leiðin varð fyrir valinu; að taka það besta úr hægrinu og vinstrinu og búa til manneskjulegt blandað hagkerfi. Reyndar hafa öfgafullir frjálshyggjumenn verið að reyna að breyta þessu, en þeim verður ekki kápan úr því klæðinu úr þessu, enda hefur nýfrjálshyggjan beðið alvarlegt skipbrot og verður dæmd samkvæmt því.

Þannig myndi maður kannski vilja hafa það í fótboltanum; fá að búa til eigið lið úr þeim leikmönnum allra liða sem spila besta og fallegasta boltann. Mitt Íslenska lið yrði ekki uppfullt af KR-ingum. Mitt Enska lið hefði meira að segja einn eða tvo Arsenalmenn í hópnum, svei mér þá. En þá yrði ég af einhverjum talinn svikari og félagsskítur. O jæja.

Í viðskiptum? Ég vil fá gamla góða Alþýðubankann aftur. Og það er tímabært á ný fyrir alþýðuna og landsbyggðarfólkið að stofna pöntunarfélög og samvinnufélög. Í alvöru talað.


Predikun frá prestum frjálshyggjunnar

"Davíð Oddsson hefur lagt trúverðugleika íslensks efnahagslífs í rúst,” segir Richard Portes, prófessor við London Business School í samtali við Viðskiptablaðið en hann telur þjóðnýtingu Glitnis hafa verið mikinn afleik og kallar hana stórslys. Hann segir að “hin fráleitu” ummæli Davíðs Oddssonar um að aðrir bankar kynnu að hljóta sömu örlög, ættu ekki að heyrast frá neinum seðlabankastjóra. „Ég tel að aðgerðir Seðlabankans hafi verið eitt stórslys. Ég vona að forsætisráðherra og ráðgjafar hans munu ekki veita Seðlabankanum mikla athygli í þeirri viðleitni sinni að endurreisa trú á íslenskt efnahagslíf,” segir Portes".

London School of Economics er í miklu uppáhaldi hjá prestum frjálshyggjunnar. Segi ekki meir.


mbl.is Davíð: Seðlabankar segja sjaldan nei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur Björgólfur ekki um annað að hugsa?

Rannsókn á aðkomu og gjörðum embættismanna að gamla Hafskipsmálinu? Núna? Beiðni lögð inn á fimmtudag??!! Eru menn ekki með öllum mjalla? Bankakerfið og þjóðarbúið í stórhættu og að sligast, með fólk í hrönnum í ekki síst Landsbanka Björgólfs að óttast um sparifé sitt - og þetta er efst á baugi; að rannsaka eldgamalt sakamál (þar sem menn voru sannarlega dæmdir fyrir alvarlegar sakargiftir).

Og heyrðu mig nú - þarna er ekkert óskað eftir því að rannsökuð verði aðkoma fjölmiðla og stjórnarandstæðinga, sem hingað til hafa verið sagðir höfuðpaurar málsins. Og það er ekki beðið um rannsókn á aðkomu þáverandi ráðherra (yfirmanna þessara upptöldu embættismanna) og harðra og valdamikilla samkeppnisandstæðinga (Eimskip, skipadeild SÍS). Og það er ekki beðið um rannsókn á aðkomu Hafskipsmanna sjálfra, forvígismannanna og starfsmanna sem stigu fram þannig að málið fæddist (Gunnars Andersen, Björgvins Björgvinssonar og fleiri). 

Mér er misboðið. Ég er stórlega hneykslaður. Það er eitt út af fyrir sig að Hafskipsmenn leggi fram svona beiðni (það er ekkert að því per se) - en tímasetningin maður! Var enginn þeirra með nógu mikla skynsemi í farteskinu til að sjá að betra væri að fresta þessari beiðni um þó ekki væri nema nokkrar vikur? Að betra væri fyrir alla að fókusa á yfirstandandi stór-krísu?

Á föstudag fór ég í Landsbankann hans Björgólfs og hugðist tæma þar gjaldeyrisreikning með dollurum, peningum sem við eigum hjónin og höfum treyst Landsbankanum fyrir. Landsbankinn hans Björgólfs gat ekki látið mig fá peningana okkar. Kristín kona mín lýsir þessari reynslu vel á bloggi sínu (hér). 

Óska eftir opinberri rannsókn á aðkomu eiganda Landsbankans að því að bankinn gat ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart okkur. Getur verið að hann hafi haft um eitthvað allt annað að hugsa en hag bankans og þjóðarinnar?

p.s. Björgólfur: Klukkan er 11:28 og Mogginn er ekki enn kominn til okkar. Viltu kanna það fyrir mig?

p.s.p.s. lokastaðan í "blaðamannakönnuninni" er hér.


mbl.is Krefjast opinberrar rannsóknar á Hafskipsmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju sagði enginn okkur neitt?

Þegar við farþegarnir afturí horfum nú út um afturgluggann og sjáum í forundran rústirnar þá hljótum við að spyrja fólkið í framsætunum - af hverju sagði enginn okkur neitt? Okkur var bara sagt að góðærinu væri lokið og að við tæki samdráttur - en enginn sagði okkur af þeim möguleika að allt gæti og væri líklegt til að fara á annan endann. Er það nokkuð?

Hvorki stjórnarflokkar né stjórnarandstaða sögðu okkur frá líklegum stóráhrifum og afleiðingum hinnar alþjóðlegu krísu á okkur.Enginn af snillingunum í greiningardeildum bankanna vöruðu okkur við og sögðu okkur t.d. að dreifa og tryggja á annan hátt sparnað okkar. Og því miður fyrir mína stétt þá bættu fjölmiðlar hér ekki úr með raunsæjum "dómsdagsspám", "svartagallsrausi" og "fjölmiðlafári".

Hví? Mátti ekki segja það? Kannski þurfti að tala varlega? En, bíddu við, hafa ekki sterk orð fallið á undanförnum mánuðum að staða þjóðarbúsins og fyrirtækjanna væri þrátt fyrir allt STERK og bara lægð framundan? Erum við enda ekki búin að lesa um það í mörg árs hversu einkum bankarnir væru að skila tugmilljarða hagnaði á hverju ári, gott ef ekki ársfjórðungi? Og voru Seðlabanki og Fjármálaeftirlit ekki einmitt að fylgjast með eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu bankanna - fyrir OKKAR hönd? Var einhverá þeim bæjum, einhverjir snillinganna þar, að impra á því að ósköp gætu dunið á?

Mátti kannski ekki segja okkur neitt af ótta við viðbrögð okkar? Voru allir snillingarnir og sérfræðingarnir sammála um það að segja Jóni og Gunnu ekki frá hinni miklu vá - af því að við værum svo... gjörn á að örvilnast og grípa til óþarfra ráðstafana?

Mátti ekki segja að krónan væri svo ömurleg að Jón og Gunna ættu kannski að kaupa sér Evrur? Að staða bankanna væri svo tæp að ráðlegt væri að dreifa sparnaði OKKAR þar og grípa til skynsamlegra ráðstafana? 

"Subprime" loans í Bandaríkjunum, Fanny Mae og allt það - alþjóðlega krísan sem forsætisráðherrann talar um - blasti þetta ekki við sérfræðingunum og snillingunum? Áhrif þessa og keðjuverkanir - áttu sérfræðingarnir ekki að geta séð möguleg og líkleg stóráhrif á okkur og afleiðingar, nóg til þess að siðferðilega væri rétt af fólkinu í landinu að huga að eignasamsetningu sinni og skuldum, byrja að semja við lánadrottna tímanlega o.s.frv? Ég man bara eftir kurteisum orðum um lægð og að góðærinu væri kannski lokið í bili.


mbl.is Glitnisaðgerð ekki endapunktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brottrekstur Davíðs blasir við

Eftir eitraðar sendingar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, til Davíðs Oddssonar aðalseðlabankastjóra getur fátt annað komið til greina en að Davíð sé á útleið; hann verði látinn víkja. Þegar Þorgerður Katrín segir eins skýrt og greinilega og henni þykir mögulegt, að Davíð sé kominn langt út fyrir verksvið sitt og þegar hún tekur fyllilega undir tilvísun bankamálaráðherrans: "Svona gera menn ekki" - er ekki annað fært en að ganga alla leið.

Ef þú segir A þá verður þú að segja B. Að ráðherra húðskammi Seðlabankastjóra svona og með einlægum reiðisvip og festu í ofanálag og þegar ráðherrann vitnar í þessi fleygu orð Davíðs sjálfs, um að svona "gera menn ekki", þá verður vart lengra gengið í vanþóknun á embættismanni og skammaryrðum í hans garð. Svoleiðis er það bara!


mbl.is Seðlabankastjóri þekki sinn stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef þetta hefði verið Landsbankinn...

 bjoggithor

Hér er ein samviskuspurning ofan í lesendur: Ef það hefði verið Landsbanki Björgólfsfeðganna, í stað Glitnis-banka Baugsfeðganna, sem kom "skríðandi" og "á hnjánum" til Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar, í lausafjárvandræðum, hefðu viðbrögð hinna síðarnefndu verið hin sömu, þ.e. að þjóðnýta Landsbankann?

Ekki að ég gleypi umkvartanir Baugsfeðga hráar, langt í frá, en hefðu Björgólfsfeðgar fengið sömu trakteríngarnar? Ég get ekki svarað þessu, auðvitað, en mitt fyrsta svar er: Nei, svo hefði ekki verið. En það er bara sterk tilfinning.

(Meðfylgjandi magnaða mynd fengin að láni frá Fréttablaðinu)


mbl.is Jón Ásgeir: Sagði að þetta yrði feigðarför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef Baugur sekkur - kenna menn fjölmiðlum um?

Ef Baugsmálið fyrir dómi hefði riðið fyrirtækinu að fullu og það farið í þrot, hverjum hefði þá verið kennt um? Ef Baugur fer vegna fjármálakrísunnar núna á hausinn, hverjum verður kennt um? Líkast til verður fjölmiðlum og stjórnarandstöðunni ekki kennt um. Líkast til frekar stjórnvöldum og yfirmönnum ríkisstofnana í Seðlabanka og rannsóknar- og ákæruvaldinu og hugsanlega einhverjum samkeppnisöflum. Væri ekki enda út í hött að benda á fjölmiðlana og stjórnarandstöðuna?

Menn bera gjarnan saman „aðförina“ að Baugi og „aðförina“ að Hafskip. Það er eðlilegur og fróðlegur samanburður. Nú telja menn sig þekkja fingraför Davíðs Oddssonar á yfirtökunni á Glitni og tilheyrandi vandræðum Stoða ehf (Baugs). Allir muna slag Davíðs og Co við Jón Ásgeir og Co. Þegar Jón Ásgeir og félagar munu eftir einhver ár ráða sagnfræðing til að skrifa átakasöguna er ég viss um að atburðarásinni verður stýrt yfir í óhjákvæmilega niðurstöðu: Óvinveitt stjórnvöld beittu (eftir atvikum) embættismönnum og Seðlabanka til að knésetja fyrirtækið.

Gömul og ný söguskýring

Allt aðrar áherslur hafa af einhverjum ástæðum tíðkast við uppgjör á Hafskipsmálinu. Hin viðtekna söguskýring þar er að Hafskip „sökk“ vegna fjölmiðlaumfjöllunar og af því að stjórnarandstæðingar þáverandi fluttu eitraðar ræður. Það er einblínt á þetta og enginn virðist hafa vilja eða orku til að hreyfa andmælum. Að mestu leyti er horft framhjá gjörðum eða aðgerðarleysi þáverandi ríkisstjórnar, þáverandi samkeppnisandstæðinga og til erfiðleika, brota og mistaka Hafskipsmanna sjálfra. Og léleg eftirtekja rannsóknar- og ákæruvaldsins fyrir dómi er auðvitað til marks um að Hafskipsmenn gerðu bara nánast ekki neitt af sér.

Mig langar til að varpa hér fram drögum að annars konar söguskýringu. Kannski fyrst og fremst til varnar þeim sem mest hafa verið ásakaðir í Hafskipsmálinu; fjölmiðlum. Eins og Baugsmálið vakti Hafskipsmálið gríðarlega athygli í þjóðfélaginu og vitaskuld ofureðlilegt að fjölmiðlar fjölluðu um erfiðleika fyrirtækisins og ásakanir á hendur forvígismönnum þess. Gamla söguskýringin innifelur að fjölmiðlar hafi farið offari og að fréttaskrif þeirra hafi átt að vera hófstilltari – væntanlega allt niður í þögnina.

Ákærurnar gáfu fjölmiðlaumfjölluninni réttmæti

Það eitt og sér, að stóreflis lögreglurannsókn fór fram og skilaði af sér ítarlegum ákærum og áfrýjunum þriggja ríkissaksóknara, með stuðningsgögnum og mati ótal sérfræðinga, sýnir að umtalsverð fjölmiðlaumfjöllun var réttlætanleg og réttmæt. Að t.d. fjölmargar fréttir og fréttaskýringar Helgarpóstsins höfðu sitthvað og raunar margt á bak við sig.

Hugleiðið þetta: Fjölmiðlar eru ekki saksóknarar, dómarar eða löggiltir endurskoðendur. Né heldur eru fjölmiðlar yfirmenn rannsóknar- og ákæruvaldsins. Fjölmiðlar endurspegluðu það sem menn gátu grafið upp af upplýsingum á hverjum tíma. Þegar saksóknararnir, með matsskýrslur ótal sérfræðinga í höndunum, gáfu út ákærurnar, var það ekki að skipan t.d. Helgarpóstsins.  

Voru allir sérfræðingarnir vitleysingar?

 Ákærurnar voru ekki skrifaðar upp úr Helgarpóstinum, heldur voru þær afurð sjálfstæðrar rannsóknar og yfirlegu ótal embættismanna og sérfræðinga. Ákærur eru að sjálfsögðu ekki dómur, en þær eru ígrundað mat þar til bærra manna. Þessir embættismenn og sérfræðingar á þeirra vegum komust að þeirri niðurstöðu að vissulega hefðu fjársvik, fjárdráttur, skilasvik, skjalafals, bókhaldsbrot og fleira þess háttar átt sér stað.  Tugir lögfræðinga, lögreglumanna, viðskiptafræðinga, löggiltra endurskoðenda og fulltrúar í rannsóknarnefnd Alþingis komust að þessari niðurstöðu.

Það er bókstaflega út í hött að allir þessu háttsettu og virtu embættismenn og sérfræðingar hafi stjórnast í gjörðum sínum og ákvörðunum af fjölmiðlum. Né heldur eru þeir líklegir til að hafa stjórnast af hörðum ræðum Ólafs Ragnars Grímssonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar og fleiri stjórnarandstæðinga. Ég vil öllu heldur meina að það sé einnig út í hött að allir þessir embættismenn og sérfræðingar hafi gengið lengra og harðar fram en yfirmenn þeirra hjá framkvæmdavaldinu gátu lagt blessun sína á – með fullri virðingu fyrir lögbundnu sjálfstæði undirstofnana ráðherra.

Reikningsskilavenjur og persónuleg útgjöld

Þótt þrír ríkissaksóknarar hafi komið að ákærunum virðist ákæruvaldið hafa staðið sig illa – ekki gert heimavinnu sína nægilega vel. Sakarefnin voru fjölmörg og margvísleg en það kvarnaðist smám saman af þeim. Meðal annars kom þar til dularfulla hugtakið „reikningsskilavenjur“. Þar skoraði Ragnar heitinn Kjartansson eiginlegt úrslitamark – hann rannsakaði betur en rannsóknarvaldið og náði betri árangri!

Þetta hugtak reyndist loðið og teygjanlegt – svo mátti böl bæta að benda á annað verra. Ragnar og félagar gátu með sannfærandi hætti bent á að reikningsskilavenjur Hafskips væru ekkert sérstaklega athugunarverðar: Flest önnur stærri fyrirtæki kokkuðu ársreikninga og uppgjör eftir því hvernig vindar blésu. Reikningsskilavenjur og bókhaldsfærslur voru með alls konar hætti hjá stórfyrirtækjum landsins og mörg dæmi fyrirliggjandi um „fiff“ fyrirtækja til að láta ársreikninga líta betur út.

Einnig er vert að geta þess að stjórn Hafskips staðfesti að ýmsar skrítnar færslur á kostnað fyrirtækisins í þágu persónulegra þarfa forvígismannanna voru með blessun stjórnarinnar. Menn voru sakfelldir fyrir mörg fjárdráttarbrot af þessu tagi, en sýknaðir af ýmsum. Ekki sá ég í fljótu bragði fjallað um það í niðurstöðum dómstóla hvers vegna svona persónuleg útgjöld voru yfirleitt bókfærð sem allt annað en launauppbót.

Sakarefnum fækkaði en menn voru dæmdir

Ákæruvaldinu tókst illa til við að sanna flest sakarefnin og gafst upp á þeim mörgum milli undirréttar og Hæstaréttar. Eins og í Baugsmálinu kom í ljós að „eldri“ skilningur á lögum og hugtökum reyndist haldlítill. Í Hafskipsmálinu reyndist gerð ársreikninga og milliuppgjöra vera álitamál. Í baugsmálinu reyndist „lán“ vera miklu loðnara og teygjanlegra hugtak en fram að því þótti gefið. Áður fastar stærðir voru í hafskipsmálinu orðnar lausar. Formúlur gengu ekki lengur upp. Sönnunarbyrði var allt í einu orðin mun erfiðari en fyrr.

Ákæruvaldið virðist ekki hafa gert mál sitt nægilega skothelt – klúðraði. Reikningsskilavenjuþátturinn er nægilega öflugt dæmi. Ákæruvaldið hefði betur farið mildari höndum um t.d. bankaráðsmennina en vandað sig betur í hinu.

Eftir sem áður blasir við: Menn voru dæmdir. Fjórmenningarnir fengu dóma fyrir mjög alvarleg brot (ekki „smáræði“, eins og gjarnan er gefið í skyn): fyrir eftir atvikum fjárdrátt, skjalafals og fleira. Menn fengu fangelsisdóma, þótt skilorðsbundnir væru. Þetta vill stundum gleymast! Og sá dómur hefur ekki verið tekinn upp.

Horfum til fleiri átta

Dómstólar sakfelldu ekki fyrir marga ákæruliði og ákæruvaldið féll frá mörgum þeirra við andstreymið. Margt misheppnaðist við rannsókn og saksókn og auðvitað reyndist ekki allt rétt sem fjölmiðlar og stjórnarandstæðingar lögðu fyrir almenning.

En það þýðir ekki að málið hafi verið tilefnislaust og ekki heldur umfjöllun fjölmiðla. Langt í frá. Ákærurnar voru ekki afurð fjölmiðla, heldur niðurstaðan af vinnu ótal margra embættismanna og sérfræðinga á þeirra vegum. Ekki Halldórs Halldórssonar eða Ólafs Ragnars Grímssonar.

Mér finnst tími til kominn að skoða fleiri öfl í samfélaginu hvað aðkomu að Hafskipsmálinu varðar. Kannski má nota frasa úr baugsmálinu í því sambandi, sjáum til. Nú vil ég nefna nokkra aðila sem alls ekki hafa verið skoðaðir nægilega vel – af einhverjum dularfullum ástæðum

Fjórir „sakleysislegir“ spilarar

Í fyrsta lagi: Framkvæmdavaldið! Ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks; helmingaskiptastjórnin. Með sín öflugu tengsl inn í valdablokkir viðskiptalífsins. Réttarkerfið var meira og minna hannað og mannað af þessum helmingaskiptaflokkum (með stöku Krata með). Stjórnendur rannsóknar- og ákæruvaldsins voru „þeirra“ menn með tilheyrandi félagslegum og jafnvel pólitískum tengslum. Dómsvaldið var í gamalgrónum höndum; ráðuneytið þá stýrt af Tómasi Árnasyni. Mattarnir voru með bankana og sjálfstæðismenn stýrðu skattayfirvöldum líka. Ætla sagnfræðingar að segja mér að þessi helmingaskiptaöfl hafi lítil sem engin áhrif haft á þróun mála?

Í öðru lagi: Eimskip og „Kolkrabbinn“ yfirleitt. Eimskip var höfuð Kolkrabbans með menn eins og Hörð Sigurgestsson, Indriða Pálsson og Halldór H. Jónsson fremsta í fylkingu og þeir með innmúruð tengsl við Valhöll og þar með ríkisstjórn. Hagsmunir Eimskips vegna málsins voru gríðarlegir. Ætla sagnfræðingar að segja mér að þessi viðskipta- og valdaöfl hafi lítil sem engin áhrif haft á þróun mála?

Í þriðja lagi: Skipadeild SÍS og það viðskiptaveldi yfirleitt. Með innmúraðar tengingar inn í Framsóknarflokkinn og þar með ríkisstjórn. Ætla sagnfræðingar að segja mér að þessi viðskipta- og valdaöfl hafi lítil sem engin áhrif haft á þróun mála?

Í fjórða lagi Hafskip sjálft og útvegsbankinn. Bæði var fyrirtækið í gríðarlegum erfiðleikum af eigin völdum og ytri kringumstæða og djarfar en áhættumiklar ákvarðanir höfðu verið teknar. Eins fór Útvegsbankinn að draga lappirnar í fyrirgreiðslu. Þá komu sumir heimildarmanna fjölmiðla og vitna ákæruvaldsins úr röðum fyrirtækisins. Nefna má að ákæruvaldið mælti með mildum dóm yfir Sigurþóri Ch. Guðmundssyni vegna þess hve greiðlega hann veitti upplýsingar.  Ætla sagnfræðingar að segja mér að eigin gjörðir Hafskipsmanna hafi litla rullu spilað?

Að lokum: Huldumenn Halldórs

Halldór Guðbjarnarson fyrrum bankastjóri skrifaði grein í Moggann í nóvember síðastliðnum. Hann talar um vitleysuna sem búin hafi verið til „hjá ríkissaksóknurum, á Alþingi, hjá Rannsóknarnefnd þingsins, í fjölmiðlum og skúmaskotum út í bæ“. Hann nefnir sérstaklega aðkomu forystumanna Eimskips að því að koma Hafskip af markaði.

Hann talaði um huldumenn sem hafi togað í spottana. Að þeim eiga sagnfræðingar og aðrir að leita. Þá er ekki að finna í ritstjóra Helgarpóstsins eða yfirlýsingaglöðum stjórnarandstæðingum.


Uggvænlegar hræringar í fjölmiðlabransanum

fjölmiðlar í krísuÉg ætla rétt si svona að skrásetja eftirfarandi núna, sem ástæða er til að fjalla nánar um eftir svefn: Áhrifa greiðslustöðvunar Stoða (og hræringa þar á undan) er greinilega byrjað að gæta á fjölmiðlaflóru 365.

Fréttablaðið er horfið inn til Árvakurs (Moggans) og hliðarráðstafanir þess líta dagsins ljós fljótlega; Annað fríblaðið hlýtur að víkja. Fréttablaðið er sterkara "lógó" en 24 stundir. Líklega "sameinast" fríblöðin tvö og hagræðing mun vafalaust skila einhverju góðu fólki á götuna í atvinnumálum.

DV er augljóslega í hættu. Enn meiri hættu ef það blað fylgdi FBL yfir til Árvakurs, því Björgólfur kynni að hafa yfirþyrmandi áhuga á því að leggja blaðið niður. En blaðið er hugsanlega framarlega sem fórnarkostnaður hjá núverandi eigendum hvort eð er.

Ætli menn að baki Stoðum reyni ekki mest að halda í og starfrækja Stöð2-Bylgjuna.

Vona að þessir fjölmiðlar lifi af krísuna. Það væri afskaplega dapurlegt að missa kannski tvo fjölmiðla af þeim sem nú prýða fjölmiðlaflóruna. Við tæki einsleitari fjölmiðlaumfjöllun, meiri samþjöppun og minni samkeppni. Svona geta hlutirnir snúist við; það er ekki langt síðan maður hafði áhyggjur af því að Baugsmiðlaveldið ætlaði að sölsa Moggann undir sig.

Það er reyndar merkilegt að skoða eignasafn Stoða; maður spyr sig í ljósi ráðstafana á undanförnum mánuðum: Voru "fórnanlegar" eignir settar undir Stoðir en öðrum eignum komið í betra skjól?


Hver er besti blaðamaðurinn - eða týpan?

Nú hef ég sett inn þriðja hópinn í þríleik mínum - könnun á hver af nánar upptöldum blaða- og fréttamönnum lesendur bloggsins míns telja bestan eða þess konar blaða- og fréttamann sem næst kemst því að vera sú blaðamannstýpa sem mest höfðar til þeirra.

Eins og með síðasta hóp hef ég tekið þá sem urðu efstir af hópi 2 og bætt við nokkrum nýjum nöfnum til að mynda hóp 3, þann síðasta - úrslitahópinn. Óvísindaleg könnun, allt til gamans gert, og allt það. 

Kjósið endilega - það er gaman að kjósa og gagn af því! Já, ég veit að alltaf mætti hafa önnur nöfn þarna, en ég vona að enginn pirrist yfir því að ráði eða móðgist. Það er enginn stórisannleikur í þessu. Bara svona samkvæmisleikur meðan Róm brennur. 

Staðan í hópi 2 varð (efstu menn, 186 atkvæði):

Jakob Bjarnar Grétarsson 21,0%

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir 12,4%

Bogi Ágústsson 11,3%

Björg Eva Erlendsdóttir 9,7%

Sigmar Guðmundsson 9,7%

 

  Jakob Bjarnar er mun virtari og þekktari blaðamaður en ég hafði gert mér í hugarlund! Helvíti gott hjá honum. Vona að flutningurinn til Árvakurs leggist sæmilega í hann.

Viðbót 4. október;

Lokastaðan í könnuninni (8 efstu):

Af eftirtöldum, hver finnst þér besti blaða- og fréttamaðurinn?

 

Bogi Ágústsson (RÚV-Sjónvarp) 13.8%

Broddi Broddason (RÚV-Útvarp) 13.5%

Agnes Bragadóttir (Mogginn) 12.9%

Jakob Bjarnar Grétarsson (Fréttablaðið) 10.6%

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir (mbl.is) 10.0%

Björg Eva Erlendsdóttir (24 stundir) 8.5%

Sigmar Guðmundsson (RÚV-Sjónvarp) 7.4%

Andrés Magnússon (Viðskiptablaðið) 5.3%

340 svöruðu.

 

 Jakob byrjaði með gusti en sprengdi sig fyrir lokasprettinn. Þá náðu Bogi, Broddi og Agnes að sigla fram úr spútnikkinum. Þetta er annars geysilega flott blanda af blaða- og fréttamönnum. Til lukku Bogi (þótt um óvísindalega könnun sé að ræða).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband