Ef Baugur sekkur - kenna menn fjölmiðlum um?

Ef Baugsmálið fyrir dómi hefði riðið fyrirtækinu að fullu og það farið í þrot, hverjum hefði þá verið kennt um? Ef Baugur fer vegna fjármálakrísunnar núna á hausinn, hverjum verður kennt um? Líkast til verður fjölmiðlum og stjórnarandstöðunni ekki kennt um. Líkast til frekar stjórnvöldum og yfirmönnum ríkisstofnana í Seðlabanka og rannsóknar- og ákæruvaldinu og hugsanlega einhverjum samkeppnisöflum. Væri ekki enda út í hött að benda á fjölmiðlana og stjórnarandstöðuna?

Menn bera gjarnan saman „aðförina“ að Baugi og „aðförina“ að Hafskip. Það er eðlilegur og fróðlegur samanburður. Nú telja menn sig þekkja fingraför Davíðs Oddssonar á yfirtökunni á Glitni og tilheyrandi vandræðum Stoða ehf (Baugs). Allir muna slag Davíðs og Co við Jón Ásgeir og Co. Þegar Jón Ásgeir og félagar munu eftir einhver ár ráða sagnfræðing til að skrifa átakasöguna er ég viss um að atburðarásinni verður stýrt yfir í óhjákvæmilega niðurstöðu: Óvinveitt stjórnvöld beittu (eftir atvikum) embættismönnum og Seðlabanka til að knésetja fyrirtækið.

Gömul og ný söguskýring

Allt aðrar áherslur hafa af einhverjum ástæðum tíðkast við uppgjör á Hafskipsmálinu. Hin viðtekna söguskýring þar er að Hafskip „sökk“ vegna fjölmiðlaumfjöllunar og af því að stjórnarandstæðingar þáverandi fluttu eitraðar ræður. Það er einblínt á þetta og enginn virðist hafa vilja eða orku til að hreyfa andmælum. Að mestu leyti er horft framhjá gjörðum eða aðgerðarleysi þáverandi ríkisstjórnar, þáverandi samkeppnisandstæðinga og til erfiðleika, brota og mistaka Hafskipsmanna sjálfra. Og léleg eftirtekja rannsóknar- og ákæruvaldsins fyrir dómi er auðvitað til marks um að Hafskipsmenn gerðu bara nánast ekki neitt af sér.

Mig langar til að varpa hér fram drögum að annars konar söguskýringu. Kannski fyrst og fremst til varnar þeim sem mest hafa verið ásakaðir í Hafskipsmálinu; fjölmiðlum. Eins og Baugsmálið vakti Hafskipsmálið gríðarlega athygli í þjóðfélaginu og vitaskuld ofureðlilegt að fjölmiðlar fjölluðu um erfiðleika fyrirtækisins og ásakanir á hendur forvígismönnum þess. Gamla söguskýringin innifelur að fjölmiðlar hafi farið offari og að fréttaskrif þeirra hafi átt að vera hófstilltari – væntanlega allt niður í þögnina.

Ákærurnar gáfu fjölmiðlaumfjölluninni réttmæti

Það eitt og sér, að stóreflis lögreglurannsókn fór fram og skilaði af sér ítarlegum ákærum og áfrýjunum þriggja ríkissaksóknara, með stuðningsgögnum og mati ótal sérfræðinga, sýnir að umtalsverð fjölmiðlaumfjöllun var réttlætanleg og réttmæt. Að t.d. fjölmargar fréttir og fréttaskýringar Helgarpóstsins höfðu sitthvað og raunar margt á bak við sig.

Hugleiðið þetta: Fjölmiðlar eru ekki saksóknarar, dómarar eða löggiltir endurskoðendur. Né heldur eru fjölmiðlar yfirmenn rannsóknar- og ákæruvaldsins. Fjölmiðlar endurspegluðu það sem menn gátu grafið upp af upplýsingum á hverjum tíma. Þegar saksóknararnir, með matsskýrslur ótal sérfræðinga í höndunum, gáfu út ákærurnar, var það ekki að skipan t.d. Helgarpóstsins.  

Voru allir sérfræðingarnir vitleysingar?

 Ákærurnar voru ekki skrifaðar upp úr Helgarpóstinum, heldur voru þær afurð sjálfstæðrar rannsóknar og yfirlegu ótal embættismanna og sérfræðinga. Ákærur eru að sjálfsögðu ekki dómur, en þær eru ígrundað mat þar til bærra manna. Þessir embættismenn og sérfræðingar á þeirra vegum komust að þeirri niðurstöðu að vissulega hefðu fjársvik, fjárdráttur, skilasvik, skjalafals, bókhaldsbrot og fleira þess háttar átt sér stað.  Tugir lögfræðinga, lögreglumanna, viðskiptafræðinga, löggiltra endurskoðenda og fulltrúar í rannsóknarnefnd Alþingis komust að þessari niðurstöðu.

Það er bókstaflega út í hött að allir þessu háttsettu og virtu embættismenn og sérfræðingar hafi stjórnast í gjörðum sínum og ákvörðunum af fjölmiðlum. Né heldur eru þeir líklegir til að hafa stjórnast af hörðum ræðum Ólafs Ragnars Grímssonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar og fleiri stjórnarandstæðinga. Ég vil öllu heldur meina að það sé einnig út í hött að allir þessir embættismenn og sérfræðingar hafi gengið lengra og harðar fram en yfirmenn þeirra hjá framkvæmdavaldinu gátu lagt blessun sína á – með fullri virðingu fyrir lögbundnu sjálfstæði undirstofnana ráðherra.

Reikningsskilavenjur og persónuleg útgjöld

Þótt þrír ríkissaksóknarar hafi komið að ákærunum virðist ákæruvaldið hafa staðið sig illa – ekki gert heimavinnu sína nægilega vel. Sakarefnin voru fjölmörg og margvísleg en það kvarnaðist smám saman af þeim. Meðal annars kom þar til dularfulla hugtakið „reikningsskilavenjur“. Þar skoraði Ragnar heitinn Kjartansson eiginlegt úrslitamark – hann rannsakaði betur en rannsóknarvaldið og náði betri árangri!

Þetta hugtak reyndist loðið og teygjanlegt – svo mátti böl bæta að benda á annað verra. Ragnar og félagar gátu með sannfærandi hætti bent á að reikningsskilavenjur Hafskips væru ekkert sérstaklega athugunarverðar: Flest önnur stærri fyrirtæki kokkuðu ársreikninga og uppgjör eftir því hvernig vindar blésu. Reikningsskilavenjur og bókhaldsfærslur voru með alls konar hætti hjá stórfyrirtækjum landsins og mörg dæmi fyrirliggjandi um „fiff“ fyrirtækja til að láta ársreikninga líta betur út.

Einnig er vert að geta þess að stjórn Hafskips staðfesti að ýmsar skrítnar færslur á kostnað fyrirtækisins í þágu persónulegra þarfa forvígismannanna voru með blessun stjórnarinnar. Menn voru sakfelldir fyrir mörg fjárdráttarbrot af þessu tagi, en sýknaðir af ýmsum. Ekki sá ég í fljótu bragði fjallað um það í niðurstöðum dómstóla hvers vegna svona persónuleg útgjöld voru yfirleitt bókfærð sem allt annað en launauppbót.

Sakarefnum fækkaði en menn voru dæmdir

Ákæruvaldinu tókst illa til við að sanna flest sakarefnin og gafst upp á þeim mörgum milli undirréttar og Hæstaréttar. Eins og í Baugsmálinu kom í ljós að „eldri“ skilningur á lögum og hugtökum reyndist haldlítill. Í Hafskipsmálinu reyndist gerð ársreikninga og milliuppgjöra vera álitamál. Í baugsmálinu reyndist „lán“ vera miklu loðnara og teygjanlegra hugtak en fram að því þótti gefið. Áður fastar stærðir voru í hafskipsmálinu orðnar lausar. Formúlur gengu ekki lengur upp. Sönnunarbyrði var allt í einu orðin mun erfiðari en fyrr.

Ákæruvaldið virðist ekki hafa gert mál sitt nægilega skothelt – klúðraði. Reikningsskilavenjuþátturinn er nægilega öflugt dæmi. Ákæruvaldið hefði betur farið mildari höndum um t.d. bankaráðsmennina en vandað sig betur í hinu.

Eftir sem áður blasir við: Menn voru dæmdir. Fjórmenningarnir fengu dóma fyrir mjög alvarleg brot (ekki „smáræði“, eins og gjarnan er gefið í skyn): fyrir eftir atvikum fjárdrátt, skjalafals og fleira. Menn fengu fangelsisdóma, þótt skilorðsbundnir væru. Þetta vill stundum gleymast! Og sá dómur hefur ekki verið tekinn upp.

Horfum til fleiri átta

Dómstólar sakfelldu ekki fyrir marga ákæruliði og ákæruvaldið féll frá mörgum þeirra við andstreymið. Margt misheppnaðist við rannsókn og saksókn og auðvitað reyndist ekki allt rétt sem fjölmiðlar og stjórnarandstæðingar lögðu fyrir almenning.

En það þýðir ekki að málið hafi verið tilefnislaust og ekki heldur umfjöllun fjölmiðla. Langt í frá. Ákærurnar voru ekki afurð fjölmiðla, heldur niðurstaðan af vinnu ótal margra embættismanna og sérfræðinga á þeirra vegum. Ekki Halldórs Halldórssonar eða Ólafs Ragnars Grímssonar.

Mér finnst tími til kominn að skoða fleiri öfl í samfélaginu hvað aðkomu að Hafskipsmálinu varðar. Kannski má nota frasa úr baugsmálinu í því sambandi, sjáum til. Nú vil ég nefna nokkra aðila sem alls ekki hafa verið skoðaðir nægilega vel – af einhverjum dularfullum ástæðum

Fjórir „sakleysislegir“ spilarar

Í fyrsta lagi: Framkvæmdavaldið! Ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks; helmingaskiptastjórnin. Með sín öflugu tengsl inn í valdablokkir viðskiptalífsins. Réttarkerfið var meira og minna hannað og mannað af þessum helmingaskiptaflokkum (með stöku Krata með). Stjórnendur rannsóknar- og ákæruvaldsins voru „þeirra“ menn með tilheyrandi félagslegum og jafnvel pólitískum tengslum. Dómsvaldið var í gamalgrónum höndum; ráðuneytið þá stýrt af Tómasi Árnasyni. Mattarnir voru með bankana og sjálfstæðismenn stýrðu skattayfirvöldum líka. Ætla sagnfræðingar að segja mér að þessi helmingaskiptaöfl hafi lítil sem engin áhrif haft á þróun mála?

Í öðru lagi: Eimskip og „Kolkrabbinn“ yfirleitt. Eimskip var höfuð Kolkrabbans með menn eins og Hörð Sigurgestsson, Indriða Pálsson og Halldór H. Jónsson fremsta í fylkingu og þeir með innmúruð tengsl við Valhöll og þar með ríkisstjórn. Hagsmunir Eimskips vegna málsins voru gríðarlegir. Ætla sagnfræðingar að segja mér að þessi viðskipta- og valdaöfl hafi lítil sem engin áhrif haft á þróun mála?

Í þriðja lagi: Skipadeild SÍS og það viðskiptaveldi yfirleitt. Með innmúraðar tengingar inn í Framsóknarflokkinn og þar með ríkisstjórn. Ætla sagnfræðingar að segja mér að þessi viðskipta- og valdaöfl hafi lítil sem engin áhrif haft á þróun mála?

Í fjórða lagi Hafskip sjálft og útvegsbankinn. Bæði var fyrirtækið í gríðarlegum erfiðleikum af eigin völdum og ytri kringumstæða og djarfar en áhættumiklar ákvarðanir höfðu verið teknar. Eins fór Útvegsbankinn að draga lappirnar í fyrirgreiðslu. Þá komu sumir heimildarmanna fjölmiðla og vitna ákæruvaldsins úr röðum fyrirtækisins. Nefna má að ákæruvaldið mælti með mildum dóm yfir Sigurþóri Ch. Guðmundssyni vegna þess hve greiðlega hann veitti upplýsingar.  Ætla sagnfræðingar að segja mér að eigin gjörðir Hafskipsmanna hafi litla rullu spilað?

Að lokum: Huldumenn Halldórs

Halldór Guðbjarnarson fyrrum bankastjóri skrifaði grein í Moggann í nóvember síðastliðnum. Hann talar um vitleysuna sem búin hafi verið til „hjá ríkissaksóknurum, á Alþingi, hjá Rannsóknarnefnd þingsins, í fjölmiðlum og skúmaskotum út í bæ“. Hann nefnir sérstaklega aðkomu forystumanna Eimskips að því að koma Hafskip af markaði.

Hann talaði um huldumenn sem hafi togað í spottana. Að þeim eiga sagnfræðingar og aðrir að leita. Þá er ekki að finna í ritstjóra Helgarpóstsins eða yfirlýsingaglöðum stjórnarandstæðingum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er afar athyglivert að "ekkert" skuli hafa verið skrifað við þennan pistil Friðriks Þórs.

En er "sagnfræðingurinn" fæddur, sem settur verður í að "búa til" bókina um "Baugsmálið" og Glitnis-hrunið?

En hvernig datt Haarde og Árna að fara í "bíltúr" með Davíð (sbr. "fræga" mynd - af endemum) .....  er það ámóta dómgreindarleysi og að Jón Ásgeir hafi mætt á "hörmungarfund" hjá Stoðum (áður Flugleiðum) á Bentley Continental GT?  .. Var þetta mögulega"ódýrasti" bíllinn hans? ... og því fyrir valinu ....

Þorgeir Þormóðsson (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 15:29

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þetta er sýnilega allt of löng og þung færsla, Þorgeir og þóttist ég vita að ekki myndu margir kommentera. Áhuginn kviknaði áreiðanlega við að nefna Baug, en hefur sjálfsagt fjarað út eftir því sem færslan fjallaði meira um Hafskip. Þrátt fyrir nýútkomna bók virðist enginn rosalegur áhugi fyrir hendi á Hafskipsmálinu.

Tek undir að "almannatengsla" mistökin sem þú nefnir eru fróðleg og kostuleg. Kem kannski inn á þau síðar.

Friðrik Þór Guðmundsson, 30.9.2008 kl. 17:16

3 identicon

Ætli forstjórinn hjá Stoðum rífi húsið á Seltjarnarnesinu eða flytji í kjallarann og leigi út efrihæðina?

Árni Leifur (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 18:07

4 identicon

Ef og hefði, hvaða bull er þetta! Í hafskipsmálinu var gerð aðför að fyrirtækinu, í baugsmálinu aðför að eigendum. Sagt er að samkeppnisaðilinn hafi orðið hafskip að falli, baugsmenn vörðu heiður sinn, að talið er vegna rætinnar öfundar. Blaðamenn eru með og móti, þannig er það bara. Epli og appelsínur.

Sigfús (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 18:09

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég hefði auðvitað átt að bera greinina undir Sigfús þennan. Heiti hann Sigfús. Hefði hann dug til að koma fram undir nafni. Vissi ég hvar hann væri. Og myndi hann tala af einhverju viti. Viðhafa eitthvert samhengi. Tala skýrt.

Sjá t.d. þennan Árna Leif. Hvort sem það er hans rétta nafn eða ekki þá talar hann þó skýrt og skorinort.

Friðrik Þór Guðmundsson, 30.9.2008 kl. 18:35

6 identicon

Hvergi er að finna "ef" og "hefði" nema í færslu Sigfúsar hér að ofan eða sjá sumir meira en aðrir?

Gunnar S. (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 18:48

7 Smámynd: Páll Helgi Hannesson

Til hamingju Lilló, með það sem að mér finnst að mörgu stórglæsileg grein. Skörp greining og tímabær þó síðbúin sé. Ég minni líka á líkindi með þriðja málinu, sem er Kaffibaunamálið, og skrifað var um í Helgarpóstinum í þremur tölublöðunum. Fjórða og lokagreinin komst aldrei á prent. En mér finnst þú eigir bara að halda áfram og búa til lítinn greinaflokk, þessi ágæta grein er í raun bara eins og inngangur.

kv frá Köben, Palli 

Páll Helgi Hannesson, 30.9.2008 kl. 19:10

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka góðar kveðjur Palli! Vona að Köben fari vel með þig.

Komst fjórða og síðasta greinin um kaffibau ekki á prent? Var þetta þá þarna undir lokin þegar Albert Guðmundsson var búinn að senda Róbert Árna Hreiðarsson (já, einmitt hann), Þórir Lárusson (minnir mig að nafnið sé) og fleiri að drepa HP?

Greinaflokkur væri fínt mál. Mér þætti mest um vert að nú færu loks að opna sig allir þeir fagmenn og sérfræðingar sem Hafskipsmenn hafa húðskammað í gegnum árin. Það vantar hina hliðina á málinu.

Friðrik Þór Guðmundsson, 30.9.2008 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband