Hvar er stjórnarformaður Landsbankans?

Það er búið að tala grilljón sinnum við stjórnarformann Glitnis og stjórnarformann Kaupþings-banka, en hvar er stjórnarformaður Landsbankans og hvert er álit hans á bankakrísunni og neyðarlögunum?Jú, við sáum son stjórnarformannsins hoppa og skoppa upp og niður tröppur að hitta ráðherra, en hvar er pabbinn, stjórnarformaðurinn?

Fyrir helgina var gjaldeyrisþurrð í Landsbankanum. Það er búið að taka völdin af bankanum (og öðrum) með neyðarlögum. Björgólfur Guðmundsson segir ekkert! Væntanlega neitar hann að tala við fjölmiðla - frekar en að þeir reyni ekki að tala við hann! Samt er mögulega að hrynja yfir bankann hans mál sem er margfalt stærra og alvarlegra en aðaláhugamál stjórnarformannsins; að gera upp eldgamlar Hafskips-sakir

Landsbankinn er aðalbanki minn. Þar á ég sætan lítinn sparnað (móðurarf) í krónum og dollurum. Það dugar mér ekki að heyra forsætisráðherra segja innistæður tryggar. Ég vil heyra í stjórnarformanni bankans sem ég treysti aurunum fyrir. Hann hlýtur að geta tekið sér pásu frá því að ritrýna sagnfræðilegar bækur.

Verður Landsbankinn til sem slíkur í fyrramálið? Verða einhverjir peningar í bankanum? Eru þeir kannski farnir eitthvað annað?


mbl.is Neyðarlög sett í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Já, hvar eru feðgarnir? Þeir gefa ekki kost á viðtölum.

Og í öllu þessu fári, fjölmiðlaumfjöllun og viðtölum við ráðherra, þingmenn, sérfræðinga og álitsgjafa...

HVAR ER FJÁRMÁLARÁÐHERRANN?

Enginn hefur talað við hann - eða hann ekki talað við neinn. Er það ekki svolítið dularfullt? Maðurinn er nú einu sinni ráðherra fjármála þjóðarinnar.

Lára Hanna Einarsdóttir, 7.10.2008 kl. 00:09

2 identicon

Friðrik. Lestu um stjórnarformanninn í viðtalsbók móðurbróður konu þinnar heitins. Forvitnileg lesning.

SÞH (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 01:15

3 identicon

Hvar eru og voru fréttamennirnir sem áttu að spyrja?

Þeir töluðu við Sigurð Einarsson og þeir töluðu við Þorstein Má.

Við þurfum ungan Nojara frá NRK - strax - er það ekki!

Er verið að taka niður „englahringi“ á mörgum stöðum núna?

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 01:17

4 identicon

Ja nú detta mér allar lifandi lýs úr höfði. Þegar Hafskipsmálið stóð sem hæst var ég unglingur og að sjálfsögðu upptekin við það. Því var ég á kafi í félagsmálum, frekar en þjóðfélagsmálum og vissi ekkert hver gerði hvað, eða hvort. Oft síðustu árin hef ég þó hlustað á ýmsa ræða Hafskipsmálið, og virðast allir sammála um að þú, Friðrik, hafir með skrifum þínum á þeim tíma skapað þann glundroða sem varð til þess að fella veldið. Og nú les ég að þú geymir spariféð í bankanum hans Björgúlfs. Skrítið!!! Bara mjög skrítið. Eða er þetta svona '......keep your enemies closer'?

Dagga (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 08:46

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Lára; fjármálaráðherra er eitt, en forsætisráðherra er samkvæmt Íslenskri hefð "yfirmaður" efnahagsmála. Forsætisráðuneytið er með öðrum orðum eiginlegt Efnahagsmálaráðuneyti. Næstur í röðinni í þessum ósköpum er bankamálaráðherrann. Fjármálaráðherra er sem fyrr í barnastólnum aftur í.

Englahringirnir, Viðskrifari, eru horfnir. Þeir voru úr gulli og sáust síðast við Karabíska hafið.

Ég heyrði áðan að skilanefnd væri búin að taka yfir Landsbankann og víkja bankastjórn til hliðar. Það róar mig mjög. 

Og svo eru Rússarnir mættir til aðstoðar? Vill Björn Bjarna þiggja??? Getur hann sett ofstækið á ís?

Friðrik Þór Guðmundsson, 7.10.2008 kl. 08:49

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Oft síðustu árin hef ég þó hlustað á ýmsa ræða Hafskipsmálið, og virðast allir sammála um að þú, Friðrik, hafir með skrifum þínum á þeim tíma skapað þann glundroða sem varð til þess að fella veldið. Og nú les ég að þú geymir spariféð í bankanum hans Björgúlfs. Skrítið!!! Bara mjög skrítið".

Þessi frábæru skrif þín voru ekki komin inn þegar ég skrifaði síðustu athugasemd, "Dagga". Þú ert líklega sagnfræðingur á launum hjá Björgólfi eða hvað?

Ekki veit ég hvaða fólk þú talar við, Dagga nafnlausa. Það eru augljóslega vitleysingar og þú þá í viðeigandi félagsskap. Ég hóf störf á helgarpósturinn eftir að Hafskipsskrif voru byrjuð og ég held ég muni rétt að ég hafi ekki skrifað eina einustu grein um Hafskip, enda voru þau skrif nær alfarið í höndunum á ritstjóranum Halldóri Halldórssyni. Þess utan "sökktu" fjölmiðlar ekki Hafskip, heldur Hafskipsmenn sjálfir og síðan Eimskipamenn og fleiri "huldumenn". 

Já, ég á sparifé í Landsbankanum. Þar var ég áður en Björgólfum var færður bankinn á silfurfati. Og hvað svo sem Hafskip áhrærir, þá var Landsbankinn í höndum Björgólfanna ekkert betri eða verri kostur en hinir bankarnir í höndum annarra "snillinga".

Friðrik Þór Guðmundsson, 7.10.2008 kl. 09:28

7 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Einhver minnist á móðurbróðir minn og það sem hann segir í viðtalsbók sinni fyrir nokkrum árum um viðskipti hans við, ýmsa nýríka, auðmenn Íslands. Sjálf hef ég nú verið að rifja upp það sem hann sagði við mig um þau viðskipti og komst ekki á prent. Hefði sennilega þótt ærumeiðandi. Það skal tekið fram að frændi minn þessi er nú látinn og var sjálfur alls enginn engill í viðskiptum.

Kristín Dýrfjörð, 7.10.2008 kl. 09:56

8 identicon

Sæll Friðrik.

Nei ég er svo sannarlega ekki sagnfræðingur því annars hefði ég ekki svona óbeint verið að spyrja þig hvað væri hæft í þessu, sem þú og svaraðir. Björgúlfsfeðga hef ég aldrei hitt, nema ef telst með að ganga fram hjá þeim yngri á göngum Hagaskóla í den. Hef í raun ekkert heyrt mikið um þetta meðal minna vina heldur meira úti í samfélaginu, en gott að heyra að það á ekki rétt á sér. Það er óþarfi að vera alltaf reiðilegur.

Með kveðju.

Dagga (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 10:48

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Reiðilegur? Þú afsakar vonandi, en ég hélt að ég ætti að taka orðunum alvarlega, um að ég hefði sökkt heilu skipafélagi - og bregðast við samkvæmt því. Mér fannst sjálfum raunar að þetta væri ekkert yfirmáta reiðilegt hjá mér og væri í svipuðum anda og kom frá þér.

Allir geta flett Helgarpóstinum hjá www.timarit.is og séð og lesið Hafskipsskrifin þar. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 7.10.2008 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband