Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hve mikið verðum við neydd til að borga fjárkúgurunum?

Það var gott að heyra Geir segja að ekki standi til að láta Breta (og IMF) fjárkúga okkur. Ég vildi samt geta verið öruggur um að hann meini þetta eða geti staðið við þetta loforð. Eina lykilspurningu leyfi ég mér að bera hér og nú upp í von um að einhver geti svarað.

Hvað nákvæmlega erum við að fara að borga Bretum? Hér á ég við þetta:  Það er ljóst að til eru alþjóðasamþykktir og -lög um það hvað ríki eigi að ábyrgjast mikið ef og þegar svona lagað gerist. Í þessu tilviki er upprunaríki bankans skuldbundið til að tryggja upp að vissu marki og starfsstöðvar-ríkið ofan á það upp að vissu marki. Alþjóðasamþykktir gera alls ekki ráð fyrir því að ríki borgi í topp skuldir einkaaðila (í þessu tilviki einkafyrirtækisins Landsbankans). Það væri enda fráleitt.

Ég fæ ekki betur séð en að það sé verið að kúga okkur skattgreiðendur á Íslandi í nútíð og framtíð til að borga áhættuinnistæður Bretanna upp í topp. Borga fyrir ekki bara óreiðu bankanna, heldur fyrir óráðsíu-, græðgis- og áhættuávöxtun óábyrgra Breta. Hvernig má það vera? Geta IMF og Bretar virkilega kúgað okkur til að gera þetta? Það er aldeilis "hjálpsemin" við Bretana, sem undir handleiðslu ruddans Browns settu hryðjuverkalög á ekki bara Landsbankans heldur Íslenska ríkið (okkur) líka. Og keyrðu Kaupþing í þrot í kaupbæti.

Nú eru bankar að hrynja um öll Vesturlönd og væntanlega reynir víða á tryggingasjóði þeirra og stjórnvaldsábyrgðir. Stendur til að við borgum allt Icesave draslið í topp, meðan að í sambærilegum málum annarra hruninna banka sé bara borgað upp að vissu marki eins og alþjóðasamþykktir kveða á um? Getur verið að þetta skerði möguleikann á að bæta skaða innlendra "tapara" og skaðinn þá tvöfaldur? 

Svo þetta í lokin: Horfum framhjá landamærunum ögn og þá sjáum við að "Íslendingar" rústuðu ekki Icesave og öðrum gylliboðsreikningum. Það gerðu alþjóðlegir áhættu-kapítalistar.


mbl.is Við munum ekki láta kúga okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gleyma Framsóknarflokknum

Íslendingar eru hvarvetna óvelkomnir erlendis (einkum þó í Bretaveldi), mæta reiði og andstyggð, er meinuð innganga eða vísað burt. Slíkur er orðstír okkar um þessar mundir vegna útrásarsnillinganna, viðskiptabanka þeirra (sjóða!) og getu- og eftirlitsleysis stjórnvalda. Bretar hafa ekki aðeins fryst Landsbanka og Íslenska ríkið, heldur lagt venjulega Íslendinga í klakabönd.

Í öllum ömurlegheitunum fær stjórnarandstaðan eðlilega að tjá sig og eins og gefur að skilja hefur hún fátt gott um ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að segja. Þó vakti óþarflega litla athygli þegar Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins sagði á þingi á dögunum að ekki ætti að skipta um ríkisstjórn; efna til stjórnarkreppu og kosninga. Guðni veit sem er, þótt hann gagnrýni út og suður, að Framsóknarflokkurinn þolir illa of mikið dagsljós þegar aðdragandi kreppunnar á Íslandi er skoðaður.

Það er enda full ástæða til að gleyma ekki þætti Framsóknarflokksins. Sá flokkur sat linnulaust í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum frá 23. apríl 1995 til 24. maí 2007 eða í rúm 12 ár. Rétt er að halda til haga eftirfarandi:

Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra og leiðtogi nr. 2 nánast allan tímann (á eftir Davíð) og um skeið forsætisráðherra.

Finnur Ingólfsson, iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra 23. apríl 1995 - 31. des. 1999.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 31.12.1999  til 15. júní 2006. Meðan hún var bankamálaráðherra (í 6 og hálft ár) var bönkunum gefnar algerlega frjálsar hendur en Fjármálaeftirlitið mátti hafa hendur sínar bundnar. Bindiskylda bankanna var afnumin.

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 15. júní 2006 til 24. maí 2007.

Valgerður, Jón, Halldór og Davíð Oddsson stýrðu efnahags- og bankamálum á veigamestu útrásartímunum og hönnuðu hið ófullnægjandi eftirlitskerfi.


mbl.is Óvelkomnar í gæludýraverslun í Glasgow
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glórulaus nafngift: Landsbankinn er blótsyrði

Ég er að fatta það betur og betur hversu glórulaus dómgreindarskortur var fólginn í því að nefna yfirtekna bankann "Nýi Landsbankinn". Ekki furða að illa gangi að koma gjaldeyrisviðskiptum á skrið á ný - "Landsbankinn" er ónýtt og neikvætt nafn erlendis, þótt "Nýi" sé með sem forskeyti. Úti fær fólk æluna í hálsinn og ofsa í hjarta við að heyra þetta nafn, því miður.

Það á í sjálfu sér líka við um hina "nýju" bankana, en nafn Landsbankans er hvað versta blótsyrðið í útlöndum. Geta menn ekki verið sammála um að þetta sé reyndin, hvað svo sem mönnum finnst um Bjöggana og aðra aðal- og aukaleikara?

Og svona í leiðinni; Mér sýnist vera að koma í ljós að ummæli Kristrúnar Heimisdóttur, aðstoðarkonu utanríkisráðherra, í Silfri Egils á sunnudag um að Japanir hafi fyrstir boðið okkur hjálp og séu okkar bestu vinir, sé steypa!  Shiochi Nakagawa, fjármálaráðherra Japans, kannast ekki við neitt!

Og enn annað, svona í leiðinni: Ég man ekki betur en að geir Haarde hafi á blaðamannafundi ca. 7. október sagt að við ættum gjaldeyrisvaraforða til 9 mánaða, þannig að daglegt líf væri tryggt. Man ég vitlaust eða var þetta rangt hjá honum? Ef þessi forði var til, hvert fór hann? Er hann kannski frystur í Bretlandi og gull Seðlabankans líka, sem þar er geymt?


Það horfir enginn á Ingva Hrafn

Ég er að leita að umræðum einhvers staðar, já bara einhvers staðar, um "viðtal" Ingva Hrafns Jónssonar við Jón Ásgeir í Baugi á Hrafnaþingi ÍNNs í gærkvöldi. Það virðist enginn hafa horft á viðtalið nema kannski ég, sem villtist þangað (eins og maður villist stundum óvart inn á Omega og stekkur jafnharðan burt). Því minnist ég á þetta að Jón Ásgeir sagði við Hrafninn að Davíð Oddsson hefði stolið 48 milljörðum frá Stoðum (eða Baugi). "Hnuplað".

Nú er ÍNN að sönnu ekki merkileg sjónvarpsstöð, stórfurðuleg reyndar, og það skrítnasta af öllu skrítnu þar er Hrafnaþing hins ofstækisfulla Ingva Hrafns. En hvað um það, þarna átti sér stað einskonar "viðtal"; þ.e. samtal kunningja. Það hófst ekki almennilega fyrr en Ingvi Hrafn var búinn að pissa duglega utan í Jón Ásgeir með því að láta áhorfendur (þá sem hugsanlega voru hinum megin skjásins) vita að hann, Ingvi Hrafn, þekkti nú aldeilis Jóhannes, föður Jóns og að sá væri góður maður, og að margt hefði verið rætt og skrafað um þegar þeir feðgar hefðu komið að veiða hjá honum í Langá, það væri sko gaman. 

En þegar Ingva Hrafni hugnaðist loks að setja sjálfan sig í annað sætið þá spurði hann Jón Ásgeir margra vinalegra spurninga, sem flestar áttu það sameiginlegt að vera löðrandi í gildismati Ingva Hrafns og tón hans; svona "Er nokkuð að marka það sem skíthælar segja um þig og ykkur?".

Hvað sem því líður dugði mærðartónninn til að Jón Ásgeir segði vini sínum ljótar sögur. Sú ljótasta (þ.e. óhugnanlegasta) var að Seðlabankinn (í persónu Davíðs Oddssonar) hefði ekki bara unnið skemmdarverk á Glitni og Baugi, heldur beinlínis farið inn í Stoðir og stolið ("hnuplað") þaðan 48 milljörðum króna. Davíð og félagar voru með beinum hætti ásakaðir um að brjóta hegningarlög.

Sá þetta enginn eða heyrði á ÍNN? Er enginn að tala um þetta? Er búið að kalla á lögguna? Horfir kannski ENGINN á Hrafnaþing? Þetta er vissulega hálfgerður sirkus, þessi stöð, en hefur hún aldeilis ekkert áhorf? Eða hefur hún smávegis áhorf en enginn tekur mark á innihaldinu?


Eins og ómálga börn í efnahagsmálum?

 Robert Z. Aliber.

Nú hefur heiðursdoktor í Chicago kveðið upp þann dóm að við Íslendingar séum eins og ómálga börn, sem kunnum ekkert, skiljum ekkert og getum ekkert í efnahagsmálum og að enginn treysti okkur og vilji því ekki lána okkur!

Robert Z. Aliber, prófessor emeritus við háskólann í Chicago, segir í grein í Morgunblaðinu í dag að það beri enginn traust til núverandi ríkisstjórnar og seðlabanka (Íslands); það treysti þeim enginn til þess að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar séu til þess að unnt verði að endurgreiða slík lán.

Þetta er harður dómur Aliber, en virðist byggja á mistökum síðustu ríkisstjórnar (á árunum 2005-06, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks). "Nú vita (núverandi stjórnvöld) ekki hvernig unnt sé að ná jafnvægi aftur eftir að pappírsauðurinn er horfinn. Það er ólíklegt að nýir leiðtogar sem væru valdir af handahófi í símaskrá gætu valdið jafnmiklum efnahagslegum glundroða og núverandi stjórnvöld," segir Aliber.

Samkvæmt þessu virðist samráðið mikla erlendis hafa snúist um að menn teldu Íslendinga vera heimsk og skilningsvana börn í efnahagsmálum. Almennilegt fólk hafi þá allt í einu áttað sig á þessu! En "ríkisstjórnin og seðlabankinn virðist ekki skilja af hverju Bandaríkin og önnur lönd hiki við að lána þeim peninga".

Annað hvort hefur Aliber rétt fyrir sér og við sjáum ekki eða skiljum hversu ofboðslega vitlaus við erum eða Aliber (og aðrir) hafi óréttmætar forsendur til að segja okkur svona ofboðslega vitlaus og getulaus. 

Þetta eru skuggalegar lýsingar mannsins. Þótt margir hér hafi verið duglegir að tala um og vara við skuldasöfnuninni og undirstöðuskorti á útrásinni og að auðurinn væri fyrst og fremst á pappírnum þá held ég að enginn hafi ályktað sem svo að við værum eiginlega vitlausari en ómálga börn!


mbl.is Stjórnvöld skilningslaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, en.... HVERS VEGNA??

 Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir

Fréttaskýring Agnesar Bragadóttur í Sunnudagsmogganum er afar athyglisverð og lærdómsrík, en skilur eftir sig að minnsta kosti eina stóra spurningu: Hvers vegna í ósköpunum? Þetta hlýtur að vera fyrri hluti og von á seinni hlutanum bráðlega, þar sem leitast verður við að svara þessari stóru spurningu.

Niðurstaða fyrri hlutans er nefnilega klár; Fulltrúar Seðlabanka Evrópu og Bandaríkjanna, Alþjóðagreiðslubankans í Basel (Sviss) og seðlabanka Bretlands, Danmerkur og Svíþjóðar höfðu samráð um að kafsigla og yfirgefa Ísland. Meintir "vinir" sviku litla Ísland.

Heimildamannasafn Agnesar mynda enda einhliða sjónarhorn; þetta eru viðmælendur úr Íslenska bankaheiminum og að sögn viðmælendur meðal stjórnvalda og eftirlitsstofnana á Íslandi. Allt innlendir meintir sökudólgar; bankamenn sem fóru offari og stjórnvöld og eftirlitsstofnanir sem brugðust með því að grípa ekki tímanlega til aðgerða og viðhafa almennilegt eftirlit.

Ég dreg þessa heimildarmenn í sjálfu sér ekki í efa. Þeir horfa á málin frá sínu sjónarhorni og segja sjálfsagt samviskusamlega frá. En það vantar algerlega hina hlið málsins; sjónarhorn fyrrnefndra alþjóðastofnana og fyrirtækja. Það HLÝTUR að koma í framhaldinu. Þarna er enda enginn sem útskýrir hvers vegna ákveðið var með samráði að fara svona illa með litla Ísland.

Það örlar reyndar á margframkominni mögulegri skýringu; að Íslenska bankakerfið hafi verið allt of stórt og lausafjárstaða þess allt of lítil. "Bankamenn sjá það nú" og að þeir hefðu átt að hægja á sér 2006!

En það útskýrir ekki af hverju þessar alþjóðastofnanir tóku fyrst vel í beiðni um hjálp en höfðu svo samráð og snarsnérust við. Hví? Hví?? Hinir Evrópsku og Bandaríski seðlabankar ákváðu að yfirgefa Íslendinga "sem hafi orðið Íslenska bankakerfinu að falli". Hvers vegna í ósköpunum?

Hvers lags eiginlega var þetta skuggalega samráð "vina" okkar, bankaheimsins og stjórnvalda viðkomandi ríkja? Ekki taka seðlabankar svona afdrifaríka ákvörðun um að yfirgefa og sökkva Íslandi án samráðs við og blessunar pólitíska valdsins í þessum ríkjum!?

Í seinni hluta fréttaskýringarinnar hlýtur Agnes/Mogginn að krefja þessa aðila um svör og það hreinskilin og heiðarleg svör - ekki almennt bla bla. Hvernig stendur á þessari árás á Ísland? Ísland var í vanda, en meðvituð ákvörðun virðist hafa verið tekin með samráði um að hjálpa ekki Íslandi heldur láta landið fara í þrot. Gerði Ísland eitthvað af sér sem var ófyrirgefanlegt? Réttlæti offors og græðgi 20-30 auðjöfra á Íslandi að allri þjóðinni yrði með samtakamætti steypt í glötun?

Þekkjandi Agnesi þá hlýtur hún að vera þegar byrjuð á seinni hlutanum. Er það ekki?


mbl.is Þeir felldu bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver sagði hvað í utanríkismálanefnd?

Utanríkismálanefnd Alþingis kom víst saman í gærdag til að "fara yfir stöðu mála í samskiptum Breta og Íslendinga". Við kjósendur fáum auðvitað ekki að fylgjast með slíkum umræðum kjörinna fulltrúa. Fengum náðarsamlegast að fylgjast með fundi heilbrigðisnefndar á dögunum, sem markaði tímamót, en utanríkismálanefnd er víst ekki við hæfi kjósenda.

Nefndir þingsins eru almennt og yfirleitt lokaðar kjósendum, þ.e. óbreyttum almenningi. Umræður þar koma okkur almennt ekki við og við kannski ekki talin hafa vitglóru til að fylgjast með nefndarstörfum. Ekki dettur þinginu heldur í hug að bjóða upp á rannsóknarnefndir, hvað þá slíkar nefndir sem starfa fyrir opnum tjöldum, þar sem hægt væri að sjá nefndarmenn grilla til dæmis útrásarvíkinga um hvernig og hvers vegna þeir settu þjóðina á hausinn. Kannski hjálpar ekki að útrásarvíkingarnir geta svarað: Þið leyfðuð okkur að gera þetta og gerðuð engar athugasemdir. Kannski.

Ég er engu nær við að reyna að átta mig á afstöðu Íslands gagnvart Bretum Browns. Er það lína Össurar? Geirs? Hvað sagði Steingrímur Joð á fundinum sem krafðist að yrði haldinn? Ræddi nefndin framkomu við venjulega Íslendinga víða erlendis og viðbrögð við því? Megum við fá að heyra?


mbl.is Utanríkismálanefnd kölluð saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"You have been warned"

 "You have been warned", endaði Given that (Landsbanki og Kaupþing) have taken billions in UK retail deposits, it may be a sobering thought for savers to consider where they are putting their cash

Iceland's banks top 'riskiness league'

 

... More risky is Alliance & Leicester, whose price was about 342 points last week, again reflecting its high dependence on wholesale financial markets, which have become frozen in recent months. But the real horrors are in Iceland.

Credit insurance for debts at Iceland's biggest bank, Landsbanki, is priced at 610 points while that for Kaupthing is priced at a hair-raising 856. Given that these two have taken billions in UK retail deposits, it may be a sobering thought for savers to consider where they are putting their cash. These banks are now seen as the most unsafe in the developed world.

Of course, no one can be sure that disaster looms for anyone, but the figures on credit default swaps show clearly where investment professionals think the big risks are.

You have been warned.

 Kemur ekki atkvæðagreiðslunni í SÞ beint við, en spurning hver eigi að vorkenna hverjum?


mbl.is Bretar vorkenna Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiftursókn í gangi gegn Íslandi

Við höfum ekkert með "varnir" Breta að gera - þeim er ekki treystandi að óbreyttu. Raunar er ekki einleikið hversu Ísland er grátt leikið af ekki bara Bretum, heldur mjög mörgum öðrum. Viðmót gagnvart Íslenskum ríkisborgurum er víða kuldalegt og lokað á þá, jafnvel á Norðurlöndum. Hvernig í ósköpunum stendur á þessu? Hvað höfum við gert til að eiga þetta skilið?

Þetta er orðið meira en svo að dugi að benda á flottræfilshátt og hákarla-kapítalisma auðjöfra. Ekki dugir heldur að segja sem svo að Íslensk stjórnvöld hafi klúðrað gagnsókn í áróðursstríði. Leiftursóknin gegn Íslandi virðist eiga sér dýpri rætur en svo. Er Ísland kjörið skotmark útrásar öfundar og reiði? Höfum við sýnt af okkur einhvern slíkan hroka, yfirlæti og dramb sem verðskuldar fyrirlitningu - og sjáum það bara ekki? Eða erum við alsaklausir og þessar pælingar bara paranoia?

Fjármálasnillingar okkar fóru kannski offari, stjórnvöld stóðu sig kannski ekki í stykkinu, en venjulegir Íslenskir ríkisborgarar og saklaus Íslensk fyrirtæki eiga ekki skilið þá framkomu sem þeim hefur verið auðsýnd víða erlendis. Nema að við höfum gert eitthvað af okkur sem þjóð sem okkur er einfaldlega ómögulegt að koma auga á. Svarið við þessu andstreymi erlendis er ekki linkind og rándýr eftirgjöf. Ekki heldur gagnvart innlendum sökudólgum.


mbl.is Vill ekki Bretana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn inn annar væntanlega út

Steingrímur Ari Arason er enn einn frjálshyggjumaðurinn til að fá stöðu innan heilbrigðis- og tryggingageirans og eru þeir nú orðnir svo fjölmennir á þeim slóðum að ekkert annað getur blasað við en aukin frjálshyggjuvæðing velferðarþjónustunnar. Þótt frjálshyggjan hafi beðið eftirminnilegt skipbrot.

Með tilkomu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisráðuneytið og eftirgjöf Samfylkingarinnar er þessi málaflokkur æ meir undir stjórn Guðlaugs Þórs, Péturs Blöndal, Ástu Möller, Benedikts Jóhannessonar og nú Steingríms Ara Arasonar. Sumir fagna þessari þróun en ég hygg að fleiri og æ fleiri beri ugg í brjósti.

Aftur á móti virðist innvígður og innmúraður Valhallar-lögfræðingur vera á útleið afar fljótlega. Komið hefur í ljós og frá því sagt á visir.is (hér), að Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins hafi ekki einasta verið hluthafi í Landsbankanum (gamla, hans Bjögga), heldur hafi Baldur selt þessa hlutafjáreign sína mánuði áður en bankinn "sökk".  Hjá visir.is kemur fram sú fullyrðing Baldurs að hann ekki haft meiri upplýsingar en þær sem markaðurinn hafði. 

Þetta er augljóslega rangt. Hann reynir að passa orðalagið, en það tekst ekki að klóra yfir fölsunina. Nú vita allir um Bresku skýrsluna sem stungið var undir stól eftir sérstaka kynningu hérlendis - það var kolsvört skýrsla og hún var eftir því sem fram hefur komið kynnt Landsbankamönnum, mönnum frá fjármálaráðuneytinu og handfylli af öðrum. Þessar upplýsingar höfðu baldur og félagar en markaðurinn ekki.

Ég fæ ekki betur séð en að innherjaupplýsingar hafi verið misnotaðar. Þessa sölu beri að afturkalla. Og að einhver eigi að axla ábyrgð.


mbl.is Steingrímur Ari forstjóri sjúkratryggingastofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband