Eins og ómálga börn í efnahagsmálum?

 Robert Z. Aliber.

Nú hefur heiðursdoktor í Chicago kveðið upp þann dóm að við Íslendingar séum eins og ómálga börn, sem kunnum ekkert, skiljum ekkert og getum ekkert í efnahagsmálum og að enginn treysti okkur og vilji því ekki lána okkur!

Robert Z. Aliber, prófessor emeritus við háskólann í Chicago, segir í grein í Morgunblaðinu í dag að það beri enginn traust til núverandi ríkisstjórnar og seðlabanka (Íslands); það treysti þeim enginn til þess að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar séu til þess að unnt verði að endurgreiða slík lán.

Þetta er harður dómur Aliber, en virðist byggja á mistökum síðustu ríkisstjórnar (á árunum 2005-06, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks). "Nú vita (núverandi stjórnvöld) ekki hvernig unnt sé að ná jafnvægi aftur eftir að pappírsauðurinn er horfinn. Það er ólíklegt að nýir leiðtogar sem væru valdir af handahófi í símaskrá gætu valdið jafnmiklum efnahagslegum glundroða og núverandi stjórnvöld," segir Aliber.

Samkvæmt þessu virðist samráðið mikla erlendis hafa snúist um að menn teldu Íslendinga vera heimsk og skilningsvana börn í efnahagsmálum. Almennilegt fólk hafi þá allt í einu áttað sig á þessu! En "ríkisstjórnin og seðlabankinn virðist ekki skilja af hverju Bandaríkin og önnur lönd hiki við að lána þeim peninga".

Annað hvort hefur Aliber rétt fyrir sér og við sjáum ekki eða skiljum hversu ofboðslega vitlaus við erum eða Aliber (og aðrir) hafi óréttmætar forsendur til að segja okkur svona ofboðslega vitlaus og getulaus. 

Þetta eru skuggalegar lýsingar mannsins. Þótt margir hér hafi verið duglegir að tala um og vara við skuldasöfnuninni og undirstöðuskorti á útrásinni og að auðurinn væri fyrst og fremst á pappírnum þá held ég að enginn hafi ályktað sem svo að við værum eiginlega vitlausari en ómálga börn!


mbl.is Stjórnvöld skilningslaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skeggi Skaftason

Það virkilega sorglega er ða Aliber kom hingða til lands og sagði okkur þetta 6. maí. Þetta sagði þá á Sildri Egils (aðrir fjölmiðlar fjölluðu um fyrirlestur hans):

"Samkvæmt Rober Z. Aliber eru vandræðin í bönkunum rétt að byrja. Það er ekki há einkunn sem hann gefur stjórnendum bankanna. Orð hans eru reyndar mjög samhljóða því sem Ragnar Önundarson hefur sagt í Morgunblaðsgreinum og í viðtölum hjá mér í Silfrinu.

Bankarnir komust í hendur á gráðugum mönnum sem kunnu ekki að reka þá. Og þeir hættu að vera íhaldssamir og varfærnir eins og bankar eiga að vera heldur breyttust í áhættusjóði – sem héldu um tíma að þeir kynnu allt betur en aðrir fjármálamenn.

Ragnar hefur líka lagt til að skilið verði á milli viðskiptabanka og fjárfestingarsjóða.

Eins og stendur eru bankarnir ófærir um að gegna viðskiptabankahlutverkinu. Það er stór spurning hversu það ástand stendur lengi.

En þessi orð eru höfð eftir Aliber:
“Aliber gagnrýndi forystumenn bankanna harðlega og sagði að þeir stjórnuðust annað hvort af græðgi, fáfræði eða hvoru tveggja.

Hann sagði óhjákvæmileg að endurskipuleggja íslensku bankana enda væru þeir ekki bankar lengur í hefðbundnum skilningi þess orðs heldur sjóðir. Bankarnir þyrftu að renna saman og síðan þyrfti að skipta þeim í tvennt: í hefðbundna viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Hið opinbera geti ábyrgst skuldbindingar viðskiptabankanna en á ekki að ábyrgjast skuldbindingar fjárfestingarbankanna. Hann segir eðlilegt að bankarnir selji dótturfélög sín áður en hið opinbera taki stórt lán til að geta komið þeim til aðstoðar.”

Skeggi Skaftason, 20.10.2008 kl. 09:39

2 identicon

Ríkisstjórn Íslands, sem enginn ber traust til?

Það á þá við um Ingibjörgu Sólrúnu og kó í Samfylkingunni líka er það ekki?

Þá þýðir ekki að koma á nýrri stjórn með þessu sama fólki þótt annar parturinn færi er það nokkuð?

Hvað á þá að gera?  Allir að kjósa Framsókn, Vinstri græna og Frjálslyndaflokkinn?

Sveinn Gunnars (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 09:55

3 identicon

Það er ekki þeim að kenna sem veitir frelsi heldur þarf að sjá og taka á því þegar frelsið er misnotað og bregðast við því.

Þjófurinn sleppur sé hann kænn er það ekki?

Fékk Björgólfur Guðmundsson ekki dóm á sínum tíma einmitt fyrir fjárglæfra? og stutt er síðan Jón Ásgeir og félagar fengu dóm?

Halda menn enn að þeir hafi verið saklausir?

Ragnar Jón (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 10:03

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Eins og ég hef sagt áður: Ragnar Önundarson í Stjórnarráðið.

Sveinn; Af hverju tekur þú Samfylkinguna sérstaklega fyrir? Meginsökina á fyrri ríkisstjórn, en þó aðallega Davíð Oddsson frá 2001. 

Ég dreg þá ályktun að ALLIR flokkarnir þurfi yfirhalningu við áður en hægt er að kjósa þá. Stjórnarandstöðuflokkarnir eru EKKERT hæfari til að tækla málin en núverandi stjórnarflokkar.

Friðrik Þór Guðmundsson, 20.10.2008 kl. 10:08

5 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Já það er mikið til í þessum skrifum Aliber.

Það voru þó ákveðnar raddir í samfélaginu 2004 - 2006 sem vöruðu sterklega við en það var slegið á þær og frekar reynt að þagga þær beinlínis niður en hitt.

Það voru hagfræðingarnir Þorvaldur Gylfason, Gunnar Tómasson ofl.  Það voru margir sem hafa haldið fram að t.d. verðlagning á veiðiheimildum sé komin langt út fyrir nokkra skynsemi og að sá atvinnuvegur safnaði skuldum sem hann engan vegin gæti staðið í skilum með eins og virðist vera koma á daginn.  Ég man til þess að ég skaut þessu að þér þegar þú varst í rannsóknarblaðamennsku fyrir kastljósið, sem stóð sig annars vel í að rannsaka önnur brýn mál s.s. sifjaspellsmál í Hafnafirði.

Öllu þessu var ýtt út af borðinu og greiningadeildir voru helst í því að búa til góða stemningu fyrir partýið. 

Beitt var þöggun á ýmsum sviðum s.s. var heimasíða mín var vistuð á Alþingi lokað hið snarasta eftir að ég náði ekki kjöri og fjöldi greina og pistla teknir út af veraldarvefnum.  Í pistlunum fjallaði oft á tíðum við um umdeild mál s.s. þegar stjórn Fl Group sagði af sér í heilu lagi og einn þeirra sem lét sig hverfa var eiginkona forsætisráðherra.  Það breytti engu um að bullið héldi áfram.  

Sigurjón Þórðarson, 20.10.2008 kl. 10:28

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Takk fyrir þetta Sigurjón. Man í augnablikinu ekki eftir innihaldi sendingar þinnar til mín á RÚV og þætti fengur í því að heyra meira um hvernig kvóta-málið tengist bankahruninu.

En það er hárrétt að ýmsir reyndu að vara við fyrr á árum en fengu lítinn hljómgrunn. Það er þeim til upplyftingar en hinum til háðungar.

Friðrik Þór Guðmundsson, 20.10.2008 kl. 10:36

7 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er óhætt að fullyrða að fyrstu spilapeningarnir inn í bankakerfið hafi komið með sölu eiga almennings þ.e. veiðiheimilda.

Stærðirnar sem þar um ræðir sjást best á skuldsetningu sjávarútvegsins.  Á sama tíma og tekjur í isl. krónum hafa staðið í stað, skipakostur elst og afli dregist saman, þá hafa skuldirnar margfaldast þær eru núna varlega áætlaðar í kringum 400 - 500 milljarðar en voru um 130 milljarðar 1997.

Milljarðakúlurnar fóru að velta út úr greininni fyrir alvöru í kringum árið 2000 og margur hefur hefur ekki áttað sig á þeim stærðum sem um ræði.  Helst kemur upp nafn Þorsteins Vilhelmssonar sem seldi sig út úr Samherja og náði í nokkrar kúlur sem hann gat haldið áfram að spila með.

Við sameiningu HB og Miðnes runnu háar upphæðir út úr kerfinu og síðan aftur nokkri milljarðar út úr sameinuðu fyrirtæki HB og Granda sem var farið að spila  með.  Björgúlfsfeðgar kaupa síðan ÚA og breyta í Brim og búta niður og selja en við það eitt renna út milljarðar út úr greininni og til feðganna sem hægt var að spila með.   Við það að trillurnar voru settar inn í kvótakerfið á sl. kjötímabili þá gafst færi á að veðsetja það og selja á brjálæðislegu yfirverði með lántöku í bönkunum.  Fræg saga er úr Grímsey þar sem lítil Trilluútgerð sem skapaði nokkrum manneskjum sæmilega vel launuðum störf, var seld á einhverja milljarða.

Verðlagning veiðiheimilda var svo há og langt frá því að reksturinn gæti staðið undir kaupum á heimildinni en engu að síður þá mátti sjá að þá þróun að við það að það þrengdi að útgerðinni að þá hækkaði verðið á veiðiheimildum enn frekar.  Leiðin út úr vandanum var jafnvel að hækka verðið í tengdum viðskiptum og slá síðan lán út á hækkaðan höfuðstól.

Sigurjón Þórðarson, 20.10.2008 kl. 11:33

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Mér finnst rétt að rifja upp athugasemd Halldórs J. Kristjánssonar Landsbankastjóra, fyrir hönd Samtaka fjármálafyrirtælkja, við málflutning Aliber, í Morgunblaðinu 7. maí síðastliðinn:

„Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) gera alvarlegar athugasemdir við yfirlýsingar fyrrverandi hagfræðiprófessors, Roberts Z. Alibers, á fundi í Háskóla Íslands í vikunni. Fullyrðingar hans um íslenskt fjármálakerfi báru þess vitni að vera illa ígrundaðar og byggja á huglægu mati fremur en hlutlægri rannsókn.

Í fyrsta lagi er enginn grundvöllur fyrir þeirri staðhæfingu að sennilega sé hafið „hljóðlátt“ áhlaup á íslenska banka þar sem enginn eigandi jöklabréfa og bankaskuldabréfa sem nálgast gjalddaga muni endurnýja þau á næstunni. Þær athugasemdir eru úr lausu lofti gripnar, enda féllu 100 ma.kr. af jöklabréfum á gjalddaga á fyrsta ársfjórðungi og 98,2 ma.kr. af jöklabréfum voru gefin út á sama fjórðungi. Með áhlaupi á banka er átt við að innstæðueigendur mæti og taki út innlán sín. Það að jöklabréf verði ekki endurnýjuð getur ekki falið í sér eða verið hluti af áhlaupi á banka því jöklabréf eru viðskipti milli aðila utan bankanna þó þau séu mögulega gerð með milligöngu banka, innlendra eða erlendra. Aliber hefur uppi getsakir um að stórfyrirtæki hér á landi séu farin að flytja fé sitt úr íslenskum bönkum. Staðreyndin er sú að í mars jukust innlán innlendra fyrirtækja í íslenskum bönkum um 69 ma.kr. og frá áramótum nemur aukningin 73 mö.kr. Engar vísbendingar eru um að sú þróun hafi snúið til baka. Hann lítur einnig fram hjá því að það eru skýr merki þess að áhættufælni á erlendum mörkuðum fari lækkandi og hefur skuldatryggingarálag íslenskra banka fallið yfir 60% frá hæsta gildi 31. mars síðastliðinn. Einnig hafa íslensku bankarnir sýnt fram á aðgengi að erlendu fjármagni í lokuðum skuldabréfaútgáfum á undanförnum mánuðum á viðunandi kjörum, þrátt fyrir erfitt tíðarfar.

Í öðru lagi fullyrðir Aliber að íslenskir bankar hafi greitt of hátt verð fyrir dótturfélög sín erlendis og segir að ef bankarnir gætu selt þessi dótturfélög sín í dag mundu þeir gera það. Honum finnst eðlilegt að dótturfélögin verði seld áður en hið opinbera tekur stórt lán til þess að koma bönkunum til aðstoðar. Aliber horfir fram hjá því að margar af stærstu yfirtökum íslensku bankanna gengu afar vel fyrir sig og skiluðu umtalsverðum samlegðaráhrifum, stóraukinni áhættudreifingu og juku arðsemi bankanna. Má þar nefna yfirtöku Kaupþings á Singer & Friedlander og kaup Glitnis á Bnbank. Vöxtur Landsbankans hefur að mestum hluta verið innri vöxtur án þess að farið hafi verið í stórar yfirtökur. Þá horfir hann fram hjá því að dótturfyrirtæki sem bankarnir hafa keypt erlendis eru að mestu leyti fyrirtæki sem hafa að meginstarfsviði útlán og fjármögnun þeirra, svo sem FIH sem Kaupþing á í Danmörku, dótturfyrirtæki Glitnis í Noregi og Landsbanki Heritable í Bretlandi.

Í þriðja lagi fullyrðir Aliber að íslensku bankarnir séu ekki bankar heldur reknir eins og sjóðir og að endurskipulagning þeirra sé óhjákvæmileg. Hann segir þá þurfa að renna saman og skipta eigi þeim upp í einingar, þ.e. viðskiptabanka og fjárfestingarbanka, og ríkið eigi einungis að ábyrgjast viðskiptabankahlutann. Það er ekkert í rekstri íslensku viðskiptabankanna sem kallar á slíkar afdrifaríkar aðgerðir. Þeir standa á traustum grunni með há eiginfjárhlutföll og lausafjárstöðu sem stenst alþjóðlegan samanburð.

Eiginfjárhlutföll þeirra standast strangt álagspróf Fjármálaeftirlitsins og eru bankarnir að skila um þessar mundir viðunandi afkomu í erfiðu árferði. Bankarnir hafa dregið úr gengismun sem hlutfalli af tekjum, hlutfall útlána af eignum er hátt í alþjóðlegum samanburði og viðskiptamódel þeirra ber vott um ábyrga útlánastefnu með góðri dreifingu milli landsvæða og atvinnugreina. Jafnframt hefur hlutfall innlána af útlánum verið aukið og bankarnir treysta mun minna á skammtíma fjármögnun. Íslensku bankarnir eru því ekki reknir eins og sjóðir heldur ábyrg fyrirtæki með sterka eiginfjárstöðu og því er yfirlýsing Alibers úr takti við raunverulegar staðreyndir. Meginþunginn í starfsemi íslensku bankanna er hefðbundin inn- og útlánastarfsemi, en hlutbréfaeign þeirra hefur verið á bilinu 2–5% af heildareignum. Þáttur fjárfestingarbankastarfsemi er í raun ekki meiri en hjá hliðstæðum erlendum viðskiptabönkum sem eru lykilbankar á sínum heimamarkaði eins og íslensku bankarnir eru (sjá mynd aftast).

Í fjórða lagi segir Aliber að Ísland geti ekki viðhaldið viðskiptahalla umfram 10% og að flest hagkerfi geti aðeins viðhaldið 5–6% viðskiptahalla til lengri tíma. Staðreyndin er sú að íslenska hagkerfið hefur sýnt fram á mikla aðlögunarhæfni og sveigjanleika á skömmum tíma, sbr. viðsnúning úr 10,2% viðskiptahalla árið 2000 í 1,5% afgang árið 2002. Viðskiptahallinn milli áranna 2006 og 2007 minnkaði einnig hratt. Nú eru sterk merki þess að viðskiptahallinn sé á hröðu undanhaldi, en einstaklingar hafa snarlega dregið úr öllum stærri útgjöldum. Einnig virðist sem Aliber hafi ekki kynnt sér rannsókn í nýjustu Peningamálum Seðlabanka Íslands um þróun á erlendri stöðu þjóðarbúsins, þar sem erlendar eignir eru metnar á markaðsvirði. Þar kemur fram að viðskiptahallinn hefur í raun verið ekki svo fjarri þeirri tölu sem Aliber nefnir sem sjálfbæran halla.

Í fimmta lagi telur Aliber að íslensku bankarnir séu ungir og hafi enga getu til þess að verðmeta áhættu. Hér fer hann einnig á svig við staðreyndir. Íslenska bankakerfið stendur á gömlum merg og hefur langa reynslu af því að meta áhættu arðsemi viðskipta. Þá lætur Aliber þau orð falla að ekki séu til staðar upplýsingar um hversu arðbær rekstur bankanna er. Bankarnir eru opinberlega skráð félög og birta ýtarlega reikninga ársfjórðungslega samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.

Það er afar mikilvægt að umfjöllun um íslenskt efnahagslíf og fjármálakerfi sé vönduð, nú þegar augu alþjóðlegs viðskiptalífs beinast að Íslandi. Órökstuddar upphrópanir geta haft alvarleg áhrif og því brýnt að leita viðhorfa ábyrgra aðila við slíkum fullyrðingum áður en þær eru birtar.

Halldór J. Kristjánsson,

formaður SFF.“

Friðrik Þór Guðmundsson, 20.10.2008 kl. 12:26

9 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Orð Halldórs eru mjög athyglisverð, svo ekki sé meira sagt. Dæmigerð fyrir viðbrögð bæði fjármálamanna og stjórnvalda við aðvörunum - innlendum sem erlendum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.10.2008 kl. 12:38

10 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Eins og vanalega á sigur þúsund mæður en ósigur er munaðarlaus. Í dag er hægt að nefna hvaða gagnrýni sem er um banka og engum dettur í hug að verja bankana. En ég ætla að reyna.

Það er merkilegt við þessi orð Aliber að hann gagnrýnir íslenska banka fyrir að gera það sem bankar um allan heim gera. Taka lán til að endurlána og vaxa. Er þá allur heimurinn ómálga börn? Lítum aðeins á hvað er að gera í kring um okkur. ÖLL lönd eru að lenda í því sem við lentum í, bankar þeirra eru ekki með lausafé til að standa við skuldbindingar sínar. Bretland er nýbúið að setja 37 milljarða í bankana og þjóðnýta hluta af Royal Bank of Scotland, Holland, Belgía, Bandaríkin. Meir að segja Sviss er að lenda í vandræðum með sína risastóru banka, UBS og Credit Suisse. Það sem þessar þjóðir eiga umfram okkur eru Seðlabankar sem vit er í og af stærð sem telur, til að aðstoða þessa banka sína. Við áttum hann ekki né heldur stjórnvöld og seðlabankastjóra sem tóku mark á viðvörunarorðum.

Það verður að greina á milli orsaka og afleiðingar. Orsök falls okkar banka er það sem er að orsaka mikil vandræði um allan heim. Afleiðingarnar fyrir okkur eru aftur á móti mjög alvarlegar vegna stærða bankanna og skuldbindinga þeirra vegna.

Orsökin er það sem Aliber er að gagnrýna. Og sú orsök er að kvelja allan helvítis heiminn, Friðrik.  Er þá ekki allur heimurinn ómálga barn líka, spyr ég aftur?

Blaðamenn sváfu á verðinum, eins og seðlabankastóri, bankastarfsmenn og ríkisstjórnin. Hvernig væri nú að hætta að sofa á verðinum og fara hugsa aðeins út í þá gagnrýni sem enginn virðist andmæla í dag? Eða má kannski ekki andmæla einstefnu gagnrýni eins og hjá Aliber? Er það ekki pólitískt rétt?

Sigurjón Sveinsson, 20.10.2008 kl. 14:27

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sigurjón; ég út af fyrir sig hvorki tek undir né mótmæli því sem Aliber segir nú eða sagði áður (ég er ekki að gera hans lýsingu að minni þótt ég leggi út frá henni). Ef gagnrýni hans á de facto við "allan heiminn" þá mótmæli ég því ekkert. Afleiðingar orsakanna virðast hins vegar þungbærari fyrir okkur en flesta aðra vegna þess að samfélagið stendur ekki undir skuldbindingum "of stórs" bankakerfis og þoldi verr lausafjárskortinn en stærri samfélög.

Hvað varðar blaðamenn, þá hef ég ritað hér færslur þar sem ég gagnrýni fjölmiðla einmitt fyrir að sofa (með hinum) á verðinum. Ég tek á mig mína ábyrgð á þeim tíma sem ég var starfandi blaða- og fréttamaður, en í dag kenni ég meistaranemum í blaða- og fréttamennsku og reyni að innstilla í þá krítísk og sjálfstæð vinnubrögð, enda er yfirstandandi umræða kjörið dæmi um hvernig fjölmiðlar geta brugðist eða sinnt illa því ætlaða hlutverki þeirra að vera t.d. stjórnvöldum og stórfyrirtækjum virkt aðhald. Það er hins vegar fjölmargt sem dregur úr getu blaðamanna til að ástunda þetta virka aðhald og má nefna skort á sérfræði í því sambandi, manneklu, vinnuálag, tímaskort, nálægðarvandann (smæð samfélagsins, kunningjasamfélagið) og fleira. Kannski munar mestu um að viðskiptablaðamenn hafa orðið að já-bræðrum forstjóranna frekar en að halda fjarlægð og spyrja krítískra og upplýstra spurninga?

Friðrik Þór Guðmundsson, 20.10.2008 kl. 14:52

12 identicon

Robert Z. Aliber tekur nú ekki neinar vinstri beygjur í umfjöllun sinni og segir svo sem ekkert nýtt. Íslenskir stjórnmálamenn hafa varað sterklega við stöðu bankanna hér á undanförnum árum og er trúlegt að Aliber hafi einfaldlega tekið upp þær viðvarannir.

Það ætti því að fara varlega í að setja hér allt á annann endann yfir orðum þessa aldraða háskólakennara sem má líklega muna sinn fífil fegri.

sandkassi (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 17:33

13 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

maður er ekki beint stoltur af því hvernig staðið hefur verið að hagstjórn á Íslandi undanfarin ár.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.10.2008 kl. 19:29

14 identicon

IMF: Krónuna á flot og háa stýrivexti

IMF: Krónuna á flot og háa stýrivexti
Tvö helstu skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í viðræðum við Íslendinga eru þau

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 23:34

15 identicon

Sé þetta rétt þá er þetta í takt við stefnu Seðlabankans er það ekki?

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 23:34

16 identicon

Af vefsíðu Vísis !

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 23:35

17 identicon

Þetta er samt ekkert til þess að skammast sín fyrir. Allar þjóðir ganga í gegnum svona jarðhræringar fyrr eða síðar. Íslenskt hagkerfi mun jafna sig fljótt á þessu.

Athyglisvert að karlinn skyldi ekki taka einhverjar hliðstæður úr fjármálasögu Bandaríkjanna. Það ætti að vera nærtækt fyrir hann, hefði stutt mál hans og gefið því vægi.

Það að íslendingar séu eins og "ómálga börn". Þetta hljómar svona eins og lýsingin á George Bush.

Þá væri einnig athyglisvert að fá skoðun hans á því að Clinton tímabilið sem skilaði mestu hagsæld í sögu Bandaríkjanna skuli nú aðeins nokkrum árum seinna skila sér í jafn ömurlegu ástandi þar í landi eins og raun ber vitni í dag.

Ég held að það sé nú hægt að fá meira spennandi fyrirlesara hingað en þetta. T.d. þá eru til sérfræðingar í frjálsu falli gjaldmiðla og var á sínum tíma sett saman svona gengi til þess að takast á við slíkt ástand. Þessi hópur vann víða þar á meðal í Rússlandi.

Svoleiðis fólk vil ég fá hingað

sandkassi (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 23:38

18 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Viðskrifarinn var augljóslega viðrekarinn milli 23:34 og 23:35!

Ég satt að segja veit ekki hvernig meta skal ofangreind "skilyrði" IMF. Þau koma mér spánskt fyrir sjónir og þarfnast frekari meltingar við. Skoða það kannski á morgun, héðan af.

"...íslensku bankarnir séu ekki bankar heldur reknir eins og sjóðir og að endurskipulagning þeirra sé óhjákvæmileg". Þetta finnst mér nokkuð gott hjá Aliber. Og mótmæli Halldórs heldur hjáróma í baksýnisglugganum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.10.2008 kl. 00:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband