Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þá fyrst gýs reiðin upp fyrir alvöru

Hafi menn skynjað að reiði væri áberandi í þjóðfélaginu þá er það skiljanlegt, en hins vegar er reiðibylgjan og mótmælin varla byrjuð, miðað við það sem koma skal. Þegar þúsundirnar missa vinnuna, fá uppboðs- og gjaldþrotabréfin, fá ekki vörurnar sínar í búðunum en finna þar aðallega verðhækkanir, skila bílunum, þurfa að skera niður í heilsugæslu og tannlækningum, þurfa að skera niður í barnavistun, þurfa að segja upp sjónvarpsáskrift, hætta að fara í leikhús og bíó og böll - þá fyrst gýs reiðin upp fyrir alvöru.

Þetta gerist af fullu afli um og eftir þessi mánaðarmót og næstu vikurnar og mánuðina. "Taparar" hingað til hafa fyrst og fremst verið innistæðueigendur og skuldarar myntkörfulána. Nú bætist restin af þjóðinni við á lestarteinana. 

Þá verður hjáróma rödd stjórnvalda og forstjóra sem segja manni að leita ekki að sökudólgum. Þá verður hjáróma rödd hinna sömu um að Ísland sé bara að súpa seiðið af alheimskreppu. Fólk lætur ekki villa sér sýn; þetta eru hamfarir af mannavöldum og Íslenska ástandið er langtum verra en það sem gerist í öðrum vestrænum ríkjum. Það er ekkert skrítið að fólk sé reitt - og sökudólgar eiga svo sannarlega að axla ábyrgð. Annað verður ekki liðið.


mbl.is Svört mánaðamót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við ábyrgjumst Landsbankann - not really

Ekki verður betur séð en að Íslensk stjórnvöld hafi beitt Breta alþekktu Framsóknarbragði í glímunni um Icesave-reikninga Landsbankans. Segja já, já og nei, nei. Við sögðumst aldrei ætla EKKI að lána eða skuldbinda ríkissjóð, heldur virða alþjóðalög og því var beiting hryðjuverkalaganna án réttlætingar. Hins vegar ætlum við nú að segja; jú við erum skuldbundin, en í alþjóðalögunum sem við ætlum að virða er líka neyðarréttarklásúla - og hana ætlum við líka að virða!

"If needed" myndi ríkið ábyrgjast innistæðurnar í samræmi við alþjóðalög, sagði viðskiptaráðuneytið okkar við Bretana 4. október. Þetta "if needed" er lykilorðalag. Ef á þarf að halda. Eða ef á reynir.  Eða ef ekki verður hjá því komist. Eða ef það reynist fullkomlega óhjákvæmilegt.

Þetta var sagt en svo kom hrunið. Og neyðarréttarklásúlan er skýr: Skuldbindingarnar gilda ef t.d. einn banki fer á hausinn á 10 ára fresti (þetta frá Pétri H. Blöndal þingmanni komið), sem sagt við "eðlilegar" aðstæður. Nú eru aðstæður hins vegar óeðlilegar; heilt bankakerfi og gjaldmiðill hrunin. Undir slíkum kringumstæðum tekur neyðarrétturinn við: Við getum ekki borgað. Sem er auðvitað allt, allt annað en við ætlum ekki að borga.  Er svona erfitt fyrir Bretana að skilja þetta?

...

Má til með að senda Moggafólki kveðjur. Að efna til slagsmála við Björn Bjarnason fyrrum samstarfsmann sinn OG við Björgólf Guðmundsson, aðaleiganda sinn, er aðdáunarvert og mikilvæg skilaboð fjölmiðilsins um að láta ekki stjórnmálamenn eða eigendur vaða yfir sig. Gott þetta. Eins verð ég að hrósa Kastljósi fyrir afar góða frammistöðu að undanförnu, ekki síst Darling-bréfs umfjöllunina og yfirheyrslu Sigmars á Geir. 

Hins vegar verð ég að lýsa yfir sorg minni með báða "hópana" sem skipulagt hafa mótmæli undanfarið vegna fjármálakrísunnar. Báðir hóparnir eru mjög ósannfærandi og engin fjöldahreyfing fæðist út frá þeim.


mbl.is Geysirgate: Dularfulla bréfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikurinn og lygin

 Björgólfur Thor Björgólfsson kemur á fund ráðherra helgina...

Í bili segi ég bara þetta: Sannleikurinn liggur sjálfsagt mitt á milli lyga Björgólfs og lyga Davíðs.

Frekari skoðunar er þörf!


mbl.is Misráðin ákvörðun sem endaði með skelfingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar, Bjöggar og Brúskur

 Bjöggarnir í Landsbankanum hafa nú verið að koma úr skugganum til að kenna öllum nema sjálfum sérum hvernig fór fyrir Landsbankanum, öðrum bönkum og þjóðarskútunni almennt. Þeir eru í afneitun, blessaðir og skilja ekki af hverju pilsfaldakapítalisminn gat ekki skotist á vettvang til að bjarga hákarla-kapítalismanum. Hvers vegna redduðu fulltrúar skattgreiðenda okkur ekki tugmilljörðum króna, spyrja þeir í forundran og beina böndunum að Seðlabankanum (les: Davíð "Brúskur" Oddsson).

Sjálft Morgunblaðið kaupir ekki skýringar aðaleiganda síns, Björgólfs Guðmundssonar. Það er auðvitað auðmýkjandi áfellisdómur yfir Björgólfi. Blaðið sem hann á trúir honum ekki. Ekki einasta er þetta stórmerkilegt fyrir ímyndina um sjálfstæðar ritstjórnir, heldur mikilvæg skilaboð til annarra eigenda fjölmiðla. Auðjöfrarnir hafa misst virðinguna og niðr´um sig. Þeirra eigin fjölmiðlar eru í uppreisn og trúa þeim ekki.

Bjöggarnir segja nú að ef bara Seðlabankinn hefði útvegað sér 200 milljón punda baktryggingu á úrslitastundu hefði allt verið í lagi.  Hvað með aðdragandann? Hver kom Landsbankanum í þá stöðu sem hann var í? Seðlabankinn? Kannski; í þeim skilningi að Seðlabanki og Fjármálaeftirlit áttu að vera búin að grípa inn í stöðuna - á allt annan hátt en Bjöggarnir voru að tala um. Afskipti slíkra stjórnvaldsstofnana áttu að vera fólgin í því að halda aftur af bankakerfi einkageirans við útrásarofforsið. Ekki að kasta fé skattgreiðenda í hítina. Þessu má líka beina til Breskra stjórnvalda og eftirlitsstofnana; hafi þau fyrst risið upp til aðgerða þegar einkafyrirtækið Landsbankinn þurfti neyðarreddingu frá Íslenskum skattgreiðendum þá brugðust þau of seint við.

Davíð og Co eiga sitt en þessi kaleikur var ekki í boði. Að minnsta kosti hlýtur Seðlabankinn ekki seinna en í dag að útskýra rökin á bak við höfnun Seðlabankans á umbeðnum pilsfalda-kapítalisma. Stjórnvöld segja ekki nei við slíkri beiðni að ástæðulausu, hefði maður haldið. Sérstaklega ekki með Bresk stjórnvöld andandi yfir sér í hálsmálið. Það var út af fyrir sig rétt að fara ekki eftir pilsfalda-óskum Bjögganna, hitt er verra að Bresk stjórnvöld brugðust ósæmilega við - og beinlínis rotuðu okkur. Spörkuðu síðan í okkur liggjandi meðvitundarlaus. Nú reyna Árni Páll Árnason þingmaður og fleiri að segja vinaþjóðum okkar frá þessu óþverraverki; hvernig Bretar hefðu gengið fram af miklu offorsi gagnvart Íslendingum, fryst eigur bankanna og sett Ísland hryðjuverkalista. "Þannig hafi Bretar aukið enn á vandann,  stuðlað að frekari eignarýrnun og þar með skaðað almennt evrópska kröfuhafa". 

Ég vil sjá sannfærandi rök Seðlabankans fyrir því að hafna pilsfaldalausn Bjögganna. Það er eins gott að það séu sannfærandi rök, en ekki "bara af því" og hefndardyntir Brúsksins.


mbl.is Eru nú fyrst að átta sig á alvarleika málsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiningardeildin og Glitnissjóðurinn

Hafi Illugi Gunnarsson þingmaður setið í stjórn sjóðs Glitnis, sem tapaði stórum hluta af inneignum þúsunda Íslendinga þá er það allalvarlegt fyrir hann. Nú er ekki ljóst með þátttöku hans og ábyrgð á ákvarðanatökum, en samkvæmt þessu tók hann þátt í því að keyra áfram áhættusjóði sem ekki stóðu undir sér þegar á reyndi. Man einhver eftir viðvörunarorðum frá honum?

Ég tók eftir því að Edda Rós Karlsdóttir var í Silfrinu titluð hagfræðingur. Við kynninguna vantaði að bæta við "og fyrrverandi forstöðumaður Greiningadeildar Landsbankans".  Ég segi þetta ekki í sökudólgarskyni, heldur skal rétt vera rétt og álitsgjafar settir í sín réttu hlutverk! Edda Rós er fín fyrir sinn hatt, en óneitanlega munu greiningardeildir bankanna (jafnt sem stjórnendur hans) fara undir smásjánna í Hvítbóksvinnunni. Sömuleiðis aðrir greiningaraðilar, eftirlitsaðilar og matsfyrirtæki. Um leið verður rifjuð upp saga gagnrýni og varnaðarorða.

Þeir eru margir sem bera ábyrgð á því hvernig fór. Egill fékk sjálfsagt margar hafnanir þegar hann leitaði fanga við að manna Silfrið í dag - ég geri fyllilega ráð fyrir því að hann hafi viljað hafa þarna einstaklinga á borð við Björgólf Guðmundsson, á borð við Bjarna Ármannsson, á borð við Sigurð Einarsson, á borð við Davíð Oddsson, kannski forstjóra Fjármálaeftirlitsins og kannski helst af öllu Brown eða Darling, sem sviptu okkur síðasta bankanum þegar verst stóð á (með ósannindum). Egill kom reyndar ekkert inn á Brown/Darling, sem ég tók eftir, og þykir mér það nokkuð sérstætt. Við heimamenn eigum auðvitað stærstan partinn, en þeir kumpánar sviptu okkur síðustu voninni.

Þegar sagan verður sögð er ágætt myndefni og lexíu að finna í upprifjun Keðjubréfamálsins, sem tröllreið öllu fyrir, hvað, 17-18 árum? Og í biðröðunum af fólki að kaupa hluti í DeCode. Kannski Kári finni nú keðjubréfa-genið fyrir okkur. Við þurfum kannski lyf við þessu.

Þess utan hygg ég að það verði að segja þjóðinni sannleikann um hvað geti blasað við okkur á næstunni, þegar afleiðingar krísunnar hellast yfir. Hér eru hughrif: Ásýndin breytist - til dæmis hverfa byggingakranarnir og mörg hús og hallir standa um óákveðið skeið eins og rústir. Er það ekki? Er nokkur ástæða til að ætla að það verði talið knýjandi að klára t.d. tónlistarhúsið við höfnina nema á miklu lengri tíma en til stóð. Við munum kannski einkum sjá þetta að öðru leyti í þeim lóðum og fasteignum í borginni sem sætt hafa skipulegum uppkaupum á undanförnum árum. Það þarf að upplýsa um þetta á öllum sviðum; að lífshættir okkar eru að fara að umturnast.

Greiningardeildin og Glitnissjóðurinn hafa kannski skoðun á því?


mbl.is Óheppilegt að þingmenn stýri sjóðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugvekja: Til vinstri snú - frjálshyggjan kvödd

 Mynd 481793

Fylgið er að flytjast til vinstri - það er í grófum dráttum niðurstaðan. Könnun Fréttablaðsins gefur nokkuð ákveðna vísbendingu um að kjósendur hafi þann þroska til að bera að sjá að þungamiðja ábyrgðarinnar á því hvernig komið er fyrir Íslandi liggi hjá ríkisstjórnum síðustu 12-13 ára, en ekki fyrst og fremst hjá núverandi ríkisstjórn (þótt hún eigi sitt). Það er enginn að "flýja" yfir til Framsóknar um björgun!

 Samfylkingin og Vinstri hreyfingin grænt framboð hafa stóraukið fylgi sitt, en Sjálfstæðisflokkurinn að tapa stórt og Framsóknarflokkurinn fær ekki hina minnstu búbót. Þetta er marktæk vinstri sveifla, þótt skekkjumörkin séu há í svona könnun. Mér finnst fram koma sterk vísbending umbæði vinstri sveiflu og að fólk sé að tjá sig um gegndarlausa og eftirlitssnauða frjálshyggju síðustu tvo áratugina. Að þótt hún hafi verið fín um hríð þá hafi hún á endanum reynst hin mesta böl og að nú sé komið að því að fara "back to basics" fyrir Ísland, sem er mátuleg skynsöm markaðshyggja samfara sterku velferðarkerfi jafnaðarmennskunnar. Hvorki villta "vestrið" né njörvað "austrið".

Þessi þróun var byrjuð að fæðast fyrir síðustu þingkosningar með vinstri sveiflu yfir til VG, en á síðustu stundu fór sú sókn meira yfir á Samfylkinguna. Nú eru skilaboðin afdráttarlaus; bæði "rauða" VG og "bleika" Samfylkingin fá marktækt aukinn stuðning. Skilaboðin eru skýr: Í yfirstandandi krísu og eftirfylgjandi aðgerðum eiga að gilda prinsipp jafnaðarmennskunnar, frelsi, jafnrétti og bræðralag. Ekkert Oddssonar-Friedman frjálshyggjusukk.


mbl.is Minnihluti styður stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lekinn og auma Breska ljónið

Birting Kastljóss á samtali fjármálaráðherranna Darlings og Árna Matt var stórkostlegur viðburður, bæði pólitískt og í fjölmiðlasögunni. Gjörbreytti stöðunni í "kalda stríðinu" milli Íslands og Bretlands. Eins og venjulega er sumum meira umhugað um hver hafi lekið en um efnivið lekans, en við því er að búast. Kvörtun Breta yfir lekanum er hins vegar ákaflega grátbrosleg.

Geir Haarde hefur greint frá þessari kvörtun Bretanna og virtist taka mátulegt mark á þeirri armæðu. Enda er það með ólíkindum fífldjarft að kvarta yfir lekanum eftir að þeir höfðu notað samtalið til að setja hryðjuverkalögin á Ísland. Mér finnst það raunar lítt skiljanlegt af hverju einhver þurfti að leka; af hverju þessu samtali var ekki varpað formlega út af stjórnvöldum hér strax eftir hryðjuverkalögin fyrir tveimur vikum eða svo. Kannski vildu menn passa upp á einhverja diplómatíu fyrst von var á Breskri sendinefnd til Íslands að ræða málin, en það er linkindarleg tillitsemi. 

Mér er alveg sama hver lak þessu. Menn eins og Björn Bjarnason og Össur Skarphéðinsson hafa fagnað lekanum og ég fagna líka, ekki bara með þjóðarhag í huga, heldur líka að fjölmiðlum (Kastljósi) hafi tekist að ná í þetta. 

Og fleira mætti gjarnan leka, sem veitir almenningi upplýsingar og skýrir stöðu og þróun mála. Áfram fjölmiðlar! Blaða- og fréttamenn mega gjarnan bæta sem mest og best fyrir sofandaháttinn sl. 2-3 ár, þegar við þurftum mest á aðhaldshlutverki þeirra að halda gagnvart stjórnvöldum og stórfyrirtækjunum.


Bætur, Bretar, Bankar og Brown

 Mynd 481749

Ég fagna því að almennir innistæðueigendur Icesave-reikninga í Bretlandi fæi peninga í hendur. Líkast til koma greiðslurnar úr sjóðum Breta, en Íslenska ríkisábyrgðin lánuð okkur. Deilt er um hversu há sú fjárhæð á að vera; sumir tala um 600 milljarða en aðrir tala um lægri upphæð og fer það eftir túlkun á lögunum - um þetta er deilt.

Íslenska ríkið (við) á auðvitað að standa við alþjóðlegar skuldbindingar, en jafn ljóst er að Bretar verða, þeir beinlínis verða, að standa ábyrgir orða sinna og gjörða. Hið minnsta Kaupþing og helst líka Íslenska ríkið (við öll) á að fara í mál við Breta og Brown og krefjast stórfelldra upphæða vegna hryðjuverkalaganna, Kaupþings og annars skaða. Skaðinn þar var án efa langt umfram þessa allt að 600 milljarða. Við erum skyldug til að leggja út í þessi málaferli og eins og málið liggur fyrir er ólögmætið borðleggjandi hjá Brown og Co. 

Málið á að sækja mjög stíft, af fullri hörku. Hins vegar gætu menn fallist á dómsátt þar sem skuldajöfnun á sér stað á skaðabótunum og á ábyrgðarhluta Íslenska ríkisins (okkar) vegna Icesave-reikninganna. Ef það væri ekki á sléttu þá lægi mismunurinn okkar megin. Að vonum yrðu Brown og Co. heldur fúlir því þá væru það í raun þeir sem greiddu Icesave-reikningseigendunum (einstaklingum, sveitarfélögum, spítulum, lögreglufélögum og þeim öllum). En ég myndi ekki missa svefn yfir því.


mbl.is Eigendur Icesave-reikninga fá greitt innan tíu daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Darling og Brown lugu - okkur til ómetanlegs tjóns

Þá er það eins klárt og hægt er; Árni fjármálaráðherra sagði ekkert í viðkomandi símtali 7. október sem réttlætti orð og túlkun Darlings, fjármálaráðherra Breta, daginn eftir, að honum hefði verið sagt af Íslenskum yfirvöldum að ekki stæði til að standa við skuldbindingar sínar. Darling laug 8. október og síðar sama dag froðufelldi Brown hjá BBC og setti hryðjuverkalögin.

Ef ekki má tala um hreina og beina lygi blasir hið minnsta við að Darling hafi túlkað samtal sitt við Árna 7. október á allra versta mögulega veg (án þess þó að það hafi verið sagt sem hann sagði að var sagt). Ef Darling var hugsanlega með einhverja þýðingu á ummælum Davíðs í Kastljósi sama kvöld og símtalið átti sér stað, 7. október, þegar hann og Brown gripu til óyndisúrræða sinna þá hið minnsta sagði hann það ekki. "They told us" sagði hann og ekkert kemur þá annað til greina en símtalið við Árna - og þar sagði Árni ekkert í líkingu við það sem Darling lýgur upp á hann.

Það á ekki að semja um afarkosti við Breta. Það á að semja um tryggingasjóðsgreiðsluna (16 þúsund pundin), samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum (þótt fúlt sé að borga óreiðuskuld Bjögganna) og ekki penný meir. Þetta á að greiða með hagstæðu láni frá góðu fólki, ekki með áþvinguðu láni frá Bretum.

Spurning mín frá fyrri færslu stendur hins vegar enn; Hvaða heildarupphæðir eru fyrirliggjandi um annars vegar greiðslu samkvæmt þessum tryggingasjóðsskuldbindingum til Breta/Icesave og hvað eru Bretar að heimta? Mismunurinn þarna á milli er nefnilega fjárkúgunin; handrukkunin.


mbl.is Samtal Árna og Darlings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju reiddust Brown og Darling svona heiftarlega?

 Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.

Það er auðvitað nógu slæmt út af fyrir sig að Brown og félagar hafi sett hryðjuverkalög á Landsbankann, Kaupþing, önnur Íslensk fyrirtæki og íslenska ríkið með ómældum skaða. Verra er að ofan á þá gjörð liggi ekki fyrir hvert tilefnið óyggjandi var. Skyndilega þann 8. október sagði Darling fjölmiðlum ytra að Íslensk stjórnvöld hefðu, "would you believe it", sagt sér að þau ætluðu ekki að borga. Í kjölfarið formælti Brown Íslendingum og klukkutíma síðar var búið að setja hryðjuverkalögin.

Vegna orðalags Darlings getur hann ekki verið að vísa í neitt annað en símtal hans og Árna Mathiesen aðeins sólarhringnum fyrr (þetta getur ekki átt við orð Davíðs Oddssonar í Kastljósi miðað við orðalagið). DV reyndi að fá útskrift af þessu samtali en fékk synjun, en ég vona að það breytist fljótlega, því við sem þjóð verðum að fá það á hreint, svart á hvítu, hvort Árni hafi sagt eitthvað sem réttlætti svona gífurlega hörð viðbrögð, hvort rétt sé að hann hafi virkilega sagt að Ísland myndi ekki borga. Að stjórnvöld vilji ekki upplýsa um þetta samtal er grunsamlegt og maður verður eiginlega að fara að hallast að því að Árni hafi beinlínis sagt þetta með ótvíræðum hætti og kannski bætt einhverju við sem tryllti Bretana. Það er vont að þurfa að velkjast í vafa með þetta.

Af hverju urðu Brown og Darling svona trylltir? Af hverju er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með Bretum í að handrukka okkur um ógnarháar upphæðir? Hvaða skömm virðist vera að reka okkur út í að borga meira en okkur er skylt samkvæmt alþjóðlegum samþykktum? Það vildi ég óska að skýr svör fáist sem fyrst.


mbl.is Gott dæmi um misnotkun laga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband