Greiningardeildin og Glitnissjóðurinn

Hafi Illugi Gunnarsson þingmaður setið í stjórn sjóðs Glitnis, sem tapaði stórum hluta af inneignum þúsunda Íslendinga þá er það allalvarlegt fyrir hann. Nú er ekki ljóst með þátttöku hans og ábyrgð á ákvarðanatökum, en samkvæmt þessu tók hann þátt í því að keyra áfram áhættusjóði sem ekki stóðu undir sér þegar á reyndi. Man einhver eftir viðvörunarorðum frá honum?

Ég tók eftir því að Edda Rós Karlsdóttir var í Silfrinu titluð hagfræðingur. Við kynninguna vantaði að bæta við "og fyrrverandi forstöðumaður Greiningadeildar Landsbankans".  Ég segi þetta ekki í sökudólgarskyni, heldur skal rétt vera rétt og álitsgjafar settir í sín réttu hlutverk! Edda Rós er fín fyrir sinn hatt, en óneitanlega munu greiningardeildir bankanna (jafnt sem stjórnendur hans) fara undir smásjánna í Hvítbóksvinnunni. Sömuleiðis aðrir greiningaraðilar, eftirlitsaðilar og matsfyrirtæki. Um leið verður rifjuð upp saga gagnrýni og varnaðarorða.

Þeir eru margir sem bera ábyrgð á því hvernig fór. Egill fékk sjálfsagt margar hafnanir þegar hann leitaði fanga við að manna Silfrið í dag - ég geri fyllilega ráð fyrir því að hann hafi viljað hafa þarna einstaklinga á borð við Björgólf Guðmundsson, á borð við Bjarna Ármannsson, á borð við Sigurð Einarsson, á borð við Davíð Oddsson, kannski forstjóra Fjármálaeftirlitsins og kannski helst af öllu Brown eða Darling, sem sviptu okkur síðasta bankanum þegar verst stóð á (með ósannindum). Egill kom reyndar ekkert inn á Brown/Darling, sem ég tók eftir, og þykir mér það nokkuð sérstætt. Við heimamenn eigum auðvitað stærstan partinn, en þeir kumpánar sviptu okkur síðustu voninni.

Þegar sagan verður sögð er ágætt myndefni og lexíu að finna í upprifjun Keðjubréfamálsins, sem tröllreið öllu fyrir, hvað, 17-18 árum? Og í biðröðunum af fólki að kaupa hluti í DeCode. Kannski Kári finni nú keðjubréfa-genið fyrir okkur. Við þurfum kannski lyf við þessu.

Þess utan hygg ég að það verði að segja þjóðinni sannleikann um hvað geti blasað við okkur á næstunni, þegar afleiðingar krísunnar hellast yfir. Hér eru hughrif: Ásýndin breytist - til dæmis hverfa byggingakranarnir og mörg hús og hallir standa um óákveðið skeið eins og rústir. Er það ekki? Er nokkur ástæða til að ætla að það verði talið knýjandi að klára t.d. tónlistarhúsið við höfnina nema á miklu lengri tíma en til stóð. Við munum kannski einkum sjá þetta að öðru leyti í þeim lóðum og fasteignum í borginni sem sætt hafa skipulegum uppkaupum á undanförnum árum. Það þarf að upplýsa um þetta á öllum sviðum; að lífshættir okkar eru að fara að umturnast.

Greiningardeildin og Glitnissjóðurinn hafa kannski skoðun á því?


mbl.is Óheppilegt að þingmenn stýri sjóðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jamm, borgin mun líta út eins og Hiroshima um ókomin ár með steypustyrktarjárnið fálmandi til himins eins og fingur drukknandi manns.  Þegar tekið verður til við að klára fylleríið við höfnina, þá munu torfusamtökin rísa upp og banna að hróflað verði við þessum menningarsögulegu minjum.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.10.2008 kl. 19:31

2 identicon

Það má nú gjarnan setja hann Illuga í bát með Davíð Odds og fleyta þeim út til hafs. Drengurinn er náttúrulega algerlega siðlaus. Bún að klúðra þessu en sér ekki soma sinn í að hverfa bara af borðinu!

Tími til kominn að fólk fari að láta frá sér heyra

Nonni

Jón (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 21:22

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ertu búinn að kíkja á upprifjunina í síðustu færslunni hjá mér?

Svo bendi ég á þau sannindi sem Jóhannes Björn sagði um greiningadeildir bankanna í Silfrinu í dag: "Greiningadeildir allra banka í heiminum eru auglýsingastofur. Þær eru ekki stofnanir sem setja út eitthvað af viti. Þær eru að auglýsa."

Svo segir hann að mánuðina áður en hlutabréfamarkaðurinn hrapaði árið 2001 hafi 95% sérfræðinga í auglýsingadeildum bankanna (sem þær ættu að heita frekar en greiningadeildir) ráðlagt fólki að kaupa hlutabréf.

Og hann segir að um mitt þetta ár hafi sömu deildir verið að spá 18% hækkun á hlutabréfum seinni hluta árs 2008 þótt allar grundvallarstaðreyndir hefðu bent til að markaðurinn myndi hrapa.

Ef ég finn tíma til að klippa saman upprifjun frá fleiri mánuðum kemur í ljós hvað fulltrúar greiningadeilda bankanna sögðu og hvað síðan varð.

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.10.2008 kl. 21:44

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hagsmunagæslumenn og þátttakendur eru víða og greiningadeildirnar ekki endilega í fyrsta kaflanum. En ráðgjöf þaðan á úrslitaskeiði vissulega skoðunar virði.

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.10.2008 kl. 21:50

5 identicon

Satt og rétt Friðrik.

Viltu ekki  skrifa bók um þetta? Svona fyrir þjóðina en ekki valdhafa...

Halldór (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband