".... getur þolað töluverð áföll" - 14. ágúst sl.

Þessi frétt Fjármálaeftirlitsins frá 14. ágúst síðastliðnum er merkileg söguleg heimild. "Niðurstöður álagsprófsins sýna að eiginfjárstaða bankanna er sterk og getur þolað töluverð áföll" er þarna haft eftir forstjóra FME. Þolað töluverð áföll, sagt og skrifað. Ætli eitthvað hafi vantað í þetta álagspróf?

14.08.2008

Íslensku bankarnir standast álagspróf FME

Fjórir stærstu viðskiptabankarnir standast allir álagspróf Fjármálaeftirlitsins sem eftirlitið framkvæmir með reglubundnum hætti. Álagsprófið gerir ráð fyrir að fjármálafyrirtæki standist samtímis áföll í formi tiltekinnar lækkunar á hlutabréfum, markaðsskuldabréfum, vaxtafrystum/virðisrýrðum útlánum og fullnustueignum og áhrifa af lækkun á gengi íslensku krónunnar án þess að eiginfjárhlutfallið fari niður fyrir lögboðið lágmark.

Vakin er athygli á að álagsprófið miðast við stöðuna á viðkomandi tímapunkti. Eiginfjárhlutföll bankanna í lok annars ársfjórðungs 2008 endurspegla þegar áhrif af óróa á fjármálamörkuðum á seinni hluta ársins 2007 og fyrri hluta þessa árs, þ.e. áður en áhrifin af álagsprófinu eru reiknuð. Til viðbótar hinu formlega álagsprófi framkvæmir Fjármálaeftirlitið ýmis álagspróf eftir því sem ástæða þykir til.
  
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME: "Niðurstöður álagsprófsins sýna að eiginfjárstaða bankanna er sterk og getur þolað töluverð áföll.  Stjórnendur og hluthafar bankanna þurfa að leggja áherslu á að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu og jafnvel efla hana, en eiginfjárþörfina þarf reglulega að endurmeta með hliðsjón af mismunandi áhættuþáttum í rekstri og stefnu hvers fyrirtækis."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Skýrsla bresku hagfræðinganna Willem H. Buiter og Anne C. Sibert um íslenska bankakerfið, sem þau skrifuðu fyrir Landsbankann fyrr á þessu ári, þótti þess eðlis að henni var stungið undir stól. Þetta kom fram í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld... 

Buiter segir á bloggi sínu að Landsbankinn hafi leitað til þeirra Anne Sibert snemma á árinu 2008. Voru þau beðið um að skrifa skýrslu um ástæður efnahagsörðugleika sem Ísland og bankar landsins stæðu andspænis og möguleika í stöðunni. Buiter segir að þau hafi sent skýrsluna til bankans undir lok apríl síðastliðins. Þau kynntu síðan uppfærða útgáfu skýrslunnar á fundi í Reykjavík 11. júlí síðastliðinn. Í hópi áheyrenda voru hagfræðingar frá Seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu, einkageiranum og háskólasamfélaginu".

Friðrik Þór Guðmundsson, 14.10.2008 kl. 23:43

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég veit að álagsprófið náði ekki til lausafjárstöðunnar... en FME hlýtur að hafa verið á meðal þeirra sem hlýddu á skýrslu bresku hagfræðinganna. Hefði álagsprófið ekki þurft að ná til lausafjárstöðunnar í ljósi svo alvarlegra upplýsinga að þær þoldu ekki dagsljósið?

Friðrik Þór Guðmundsson, 14.10.2008 kl. 23:48

3 identicon

Álagsprófið stenst og það náði til lausafjárstöðunnar. Bankarnir hefðu þolað töluverð áföll. Hvernig hlutirnir þróuðust fellur langt fyrir utan skilgreininguna "töluverð áföll". Orðið katastrofía á betur við. Það má líkja þessu við fiskvinnslu sem fær engan fisk. Reksturinn yrði fljótur að stöðvast.

Hver er tilgangurinn með þessari grein? Er þörfin til að hengja einhvern upp í næsta tré svona rosalega sterk?

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 08:52

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Altso, já. Sú þörf er sterk. Er eitthvað bogið við það að leita skýringa? En hvaða þörf er þetta til að gera böðla úr þeim sem vilja skammast út í frammistöðu eftirlitsstofnana?

Ef álagsprófið hefur náð til lausafjárstöðunnar þá var það einfaldlega ófullnægjandi próf. Ef fiskvinnsla má eiga von á því að fá ekki fisk þá hlýtur hún að vera undir það búin, frekar en að stinga höfðinu í sandinn og skýrslum undir stól. Nú sópum við ekki staðreyndum undir teppið.

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.10.2008 kl. 09:13

5 identicon

Sæll Friðrik,

að sjálfsögðu á að grafast fyrir um staðreyndir mála, annars værum við ekki 'hugsandi menn'. Hitt er aftur annað mál hvernig þær pælingar eru framsettar.
Langaði til að minnast hér á grein sem birtist í NewScientist þann 25. september 2008 og heitir "The blunders that led to the banking crisis" og er eftir Rob Jameson.

Þarna er verið að ræða takmarkanir, galla og jafnvel grundvallarvillur í stærðfræðilíkönum þeim sem notuð hafa verið við álagsprófanir og áhættuútreikninga í bankageiranum. Læt þig um að rýna í þetta ef þú hefur áhuga, sjálfur er ég langt frá því að skilja til fulls öll hugtökin sem eru notuð í greininni.

Í annarri grein í blaðinu kom fram að bankarnir fengu niðurfellingu á bindiskildu vegna ákveðinna viðskipta - einmitt af því að áhættuútreikningarnir væru orðnir svo fullkomnir og reiknigetan mikil.

Kannski þarf að taka fram að NewScientist er tímarit sem tekur ritrýndar fræðigreinar (t.d. úr Science, Nature og fleiri sérhæfðum útgáfum) og þýðir yfir á mannamál ásamt því að taka viðtöl við vísindamenn. Greinarnar hafa ekki orð á sér fyrir að vera 'skoðanaskekktar' (opinion biased) og virðist blaðið mjög opið fyrir athugasemdum annarra vísindamanna. Tekjur blaðsins virðast vera að miklu leyti á byggðar á náms- og atvinnuauglýsingum í vísindageiranum.

Sveinn í Felli (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 08:00

6 identicon

Gleymdi slóðinni á greinina:

<http://www.newscientist.com/channel/being-human/mg19926754.200-the-blunders-that-led-to-the-banking-crisis.html>

bkv,

Sveinn í Felli (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 08:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband