Færsluflokkur: Sjónvarp
6.10.2008 | 20:37
Fróðlegur Kompás-þáttur um Hafskipsmálið
Kompásþátturinn í kvöld um Hafskipsmálið var hinn fróðlegasti og flest í honum rímaði ágætlega við ritdóm minn og langa færslu á dögunum. Sérstaklega þetta með bókina hans Örnólfs Árnasonar sem Björgólfi þótti ekki nógu "góð". Reyndar hef ég bætt því við að Björgólfur ætti að snúa sér að öðru en Hafskip og það er nú aldeilis að reynast réttmæt ábending nú, þegar Björgólfsbanki riðar til falls (líklega kennir hann fjölmiðlum um það).
Bók Örnólfs er önnur bókin sem telja má víst að Björgólfur gamli hafi ritskoðað með beinum hætti, en honum tókst ekki að kaupa dagblað til að leggja niður. Hvað um það; Kompás-þátturinn hafði sem betur fer nokkurn veginn réttan fókus; þar var fjölmiðlum og stjórnarandstæðingum ekki kennt um allt (Þótt Matti Bjarna vilji áfram vaða í þeirri villu), heldur sjónunum beint réttilega að "huldumönnunum": Loksins, loksins. Reyndar hefði mátt segja nánar frá en gert var hversu Hafskipsmenn sjálfir áttu sök að máli. En þarna mátti þó finna þefinn af, skulum við segja, trúlegri sökudólgum; Jóhannes Nordal leysir Halldór Halldórsson af, Hörður Sigurgestsson leysir Ólaf Ragnar af, Gunnlaugur Claessen leysir Jón Baldvin a, Markús Sigurbjörnsson leysir Svavar Gestsson af: aðalliðið er tekið við af varaliðinu. Eimskipafélagið og embættismenn sökktu Hafskip en ekki fjölmiðlar og stjórnarandstæðingar. Og ég held raunar að menn eins og Mattarnir Bjarna og Mathiesen hafi vitað meir um hvað var að gerast en þeir láta eða létu síðar uppi.
Ég vil sjá bókina eða handritið hans Örnólfs Árnasonar. Eftir Kompás-þáttinn getur Örnólfur ekki annað en upplýst um bókina eða helst gefið hana út einhvern veginn. Annars verður að draga þá ályktun að hann hafi, ótrúlegt nokk, verði keyptur til þagnar.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2008 | 00:40
Uggvænlegar hræringar í fjölmiðlabransanum
Fréttablaðið er horfið inn til Árvakurs (Moggans) og hliðarráðstafanir þess líta dagsins ljós fljótlega; Annað fríblaðið hlýtur að víkja. Fréttablaðið er sterkara "lógó" en 24 stundir. Líklega "sameinast" fríblöðin tvö og hagræðing mun vafalaust skila einhverju góðu fólki á götuna í atvinnumálum.
DV er augljóslega í hættu. Enn meiri hættu ef það blað fylgdi FBL yfir til Árvakurs, því Björgólfur kynni að hafa yfirþyrmandi áhuga á því að leggja blaðið niður. En blaðið er hugsanlega framarlega sem fórnarkostnaður hjá núverandi eigendum hvort eð er.
Ætli menn að baki Stoðum reyni ekki mest að halda í og starfrækja Stöð2-Bylgjuna.
Vona að þessir fjölmiðlar lifi af krísuna. Það væri afskaplega dapurlegt að missa kannski tvo fjölmiðla af þeim sem nú prýða fjölmiðlaflóruna. Við tæki einsleitari fjölmiðlaumfjöllun, meiri samþjöppun og minni samkeppni. Svona geta hlutirnir snúist við; það er ekki langt síðan maður hafði áhyggjur af því að Baugsmiðlaveldið ætlaði að sölsa Moggann undir sig.
Það er reyndar merkilegt að skoða eignasafn Stoða; maður spyr sig í ljósi ráðstafana á undanförnum mánuðum: Voru "fórnanlegar" eignir settar undir Stoðir en öðrum eignum komið í betra skjól?
Sjónvarp | Breytt 3.10.2008 kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.9.2008 | 13:48
Hver er besti blaðamaðurinn - eða týpan?
Nú hef ég sett inn þriðja hópinn í þríleik mínum - könnun á hver af nánar upptöldum blaða- og fréttamönnum lesendur bloggsins míns telja bestan eða þess konar blaða- og fréttamann sem næst kemst því að vera sú blaðamannstýpa sem mest höfðar til þeirra.
Eins og með síðasta hóp hef ég tekið þá sem urðu efstir af hópi 2 og bætt við nokkrum nýjum nöfnum til að mynda hóp 3, þann síðasta - úrslitahópinn. Óvísindaleg könnun, allt til gamans gert, og allt það.
Kjósið endilega - það er gaman að kjósa og gagn af því! Já, ég veit að alltaf mætti hafa önnur nöfn þarna, en ég vona að enginn pirrist yfir því að ráði eða móðgist. Það er enginn stórisannleikur í þessu. Bara svona samkvæmisleikur meðan Róm brennur.
Staðan í hópi 2 varð (efstu menn, 186 atkvæði):
Jakob Bjarnar Grétarsson 21,0%
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir 12,4%
Bogi Ágústsson 11,3%
Björg Eva Erlendsdóttir 9,7%
Sigmar Guðmundsson 9,7%
Jakob Bjarnar er mun virtari og þekktari blaðamaður en ég hafði gert mér í hugarlund! Helvíti gott hjá honum. Vona að flutningurinn til Árvakurs leggist sæmilega í hann.
Viðbót 4. október;
Lokastaðan í könnuninni (8 efstu):
Af eftirtöldum, hver finnst þér besti blaða- og fréttamaðurinn?
Bogi Ágústsson (RÚV-Sjónvarp) 13.8%
Broddi Broddason (RÚV-Útvarp) 13.5%
Agnes Bragadóttir (Mogginn) 12.9%
Jakob Bjarnar Grétarsson (Fréttablaðið) 10.6%
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir (mbl.is) 10.0%
Björg Eva Erlendsdóttir (24 stundir) 8.5%
Sigmar Guðmundsson (RÚV-Sjónvarp) 7.4%
Andrés Magnússon (Viðskiptablaðið) 5.3%
340 svöruðu.
Jakob byrjaði með gusti en sprengdi sig fyrir lokasprettinn. Þá náðu Bogi, Broddi og Agnes að sigla fram úr spútnikkinum. Þetta er annars geysilega flott blanda af blaða- og fréttamönnum. Til lukku Bogi (þótt um óvísindalega könnun sé að ræða).
Sjónvarp | Breytt 4.10.2008 kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
24.9.2008 | 12:23
Falin myndavél, fjölmiðlar og friðhelgin
Þegar metnar eru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setur tjáningarfrelsinu skiptir grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings.Í Bubbamálinu var ekki talið að leynileg myndataka af honum reykjandi í bíl sínum ætti erindi til almennings sem liður í slíkri umræðu. Nú er tekist á um það hvort "Benjamínsmál" Kompáss varði almenning það miklu að tjáningarfrelsið trompi friðhelgina.
Í Kastljósi í gærkvöldi tókust lögmenn Kompáss og Benjamíns þessa, meints handrukkara, á um þessi mörk og verður fróðlegt að fylgjast með umfjöllun dómstóla og niðurstöðunni. Fjölmiðlar um heim allan nota óhefðbundnar aðferðir við upplýsinga- og myndaöflun. Í sinni ýktustu mynd eru "Papparassa" ljósmyndarar á ferð, en þeir eru hvorki gott dæmi né fyrirmynd við mat á gildi óhefðbundinna aðferða, því ég er að tala um upplýsingaöflun um mál sem sannanlega varða almenning miklu (en ekki hvað fyrirfólk og stjörnur eru að gera í einkalífi sínu).
Í þessu máli takast á tjáningarfrelsið og friðhelgi einkalífsins og stóra spurningin er hvort málefnið uppgefna - handrukkarar - sé það brýnt fyrir almenning og umræðuna að upplýsingaöflun með óhefðbundnum hætti sé réttlætanleg og óumflýjanleg.
Nefna má í þessu sambandi mál sem fór fyrir siðanefnd Blaðamannafélags Íslands fyrir nokkrum árum; myndataka og umfjöllun "Ísland í bítið" um erótíska nuddkonu. Hin leynilega myndataka var talin réttlætanleg af siðanefndinni. Hún sagði: "Siðanefnd er sammála lögmanni kærenda um að að öðru jöfnu hefðu hin óhefðbundnu vinnubrögð við efnisöflun hjá kærendum getað falið í sér brot á siðareglum BÍ. Á hinn bóginn ber að líta til þess að um er að ræða starfsemi sem erfitt er að afla upplýsinga um en óhjákvæmilega kallar á umfjöllun fjölmiðla, starfsemi þar sem ólíklegt var að hefðbundin vinnubrögð fréttamanns hefðu skilað fullnægjandi árangri".
Reyndar "brenglaði" Ísland í bítið myndir og hljóð hvað nuddkonuna varðar en Kompás ekki, en grunnur afstöðu siðanefndar lá þó í mikilvægi málefnisins og því að hefðbundnar leiðir til upplýsingaöflunar væru erfiðar ef ekki ómögulegar.
Hugleiða má hvort Kompáss hefði átt að "brengla" myndina af handrukkaranum meinta og þá nefna ekki nafn hans, en ég hygg að vegna aðdraganda málsins og umfjöllunar annarra þá hafði það ekki endilega verið raunhæft eða þjónað tilgangi lengur.
Ég hygg að í grundvallaratriðum hafi Kompáss-aðferðin verið réttlætanleg (að því gefnu að umsjónarmenn voru ekki að leikstýra atburðarásinni). Umræða um ofbeldi og handrukkun er brýn fyrir almenning og hefðbundnar aðferðir ekki auðsóttar.
Starfar ekki lengur hjá World Class | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)
16.9.2008 | 12:36
Góður og slæmur samruni hjá RÚV
Samruni fréttastofa RÚV, Sjónvarps og Útvarps, kemur í sjálfu sér ekki á óvart og þarf alls ekki að vera óskynsamleg ráðstöfun. Sérstaklega ekki ef fréttaflutningur og úrvinnsla getur styrkst enn meir hjá þessum fréttamiðlurum, sem almenningur taldi fyrir að væru hinar virtustu og traustustu í landinu. Kostirnir verða vonandi ofan á, en gallar eru fyrir hendi.
Stærsti gallinn er auðvitað sá að nú fáum við áhorfendur/áheyrendur/lesendur einni sjálfstæðri ritstjórn færri að moða úr. Þótt þessar fréttastofur hafi verið náskyldar og oft samráð þar á milli, þá var líka samkeppni á milli þeirra, holl samkeppni og metnaður að vera á undan og með betri fréttir en kollegarnir á hinum enda gangsins. Líklegir og mögulegir kostir geta að sönnu vegið þetta upp, þ.e. ef markmið Páls Magnússonar og félaga er ekki beinlínis það eitt að spara pening og þess vegna draga úr metnaði við upplýsingaöflun og úrvinnslu. Raunar á ég bágt með að trúa því að á þeim vettvangi verði skorið meira niður eftir hreinsanirnar við OHF-væðinguna og uppsagnir í maí og júní. Eftir slíkar hræringar væri beinlínis siðlaust að nota þennan samruna til annars en að stórefla fréttaþjónustuna og tryggja áfram virðinguna og traustið.
Ekki vil ég mikið segja um að Óðinn Jónsson hafi frekar en Elín Hirst verið valinn til að verða fréttastjóri nýju sameinuðu fréttastofunnar. Þekki þau bæði bara af góðu einu faglega séð. Elín er sjálfsagt ekkert of hress með þetta, en ég held að hún standi traustum fótum eftir sem áður.
ATH NÝ SKOÐANAKÖNNUN UM FORSTJÓRA SJÚKRATRYGGINGASTOFNUNAR HÉR TIL HLIÐAR
Fréttastofur RÚV sameinaðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
6.9.2008 | 12:50
Árni Johnsen stefnir Agnesi - ærunnar vegna!
Tveir "gamlir" Moggablaðamenn stefna nú í dómstólaslag, en Árni Johnsen þingmaður og fyrrum blaðamaður (og félagi í Blaðamannafélaginu) hefur stefnt Agnesi Bragadóttur blaðamanni fyrir meint meiðyrði (ærumeiðingar) í morgunþættinum Í bítið á Bylgjunni hinn 9. júlí sl. Agnes viðhafði þar mjög sterka gildisdóma um Árna, skóf ekkert ofan af hlutunum frekar en oft áður í viðlíka viðtölum og fór mikinn.
Agnes kallaði Árna meðal annars dæmdan glæpamann, sem ekki hefði iðrast gjörða sinna, hann hafi verið mútuþægur og gerst sekur um umboðssvik - hann væri hneyksli og hálfgert stórslys. Þetta kallar Árni meiðyrði og vill fá 5 milljón króna miskabætur, en það er athyglisverð upphæð núna í umræðunni um að Breiðavíkurdrengjum þykja plön um 375 þúsund króna til tveggja milljóna króna bætur til sín vegna skepnuskapsins og nauðungarinnar á Breiðavík vera ófullnægjandi. Árni er samkvæmt þessu um það bil þrefalt til fjórfalt skaddaðri eftir Agnesi en meðal Breiðavíkurdrengur - og hana nú!
Nú mætti ýmislegt segja um stöðu blaðamanna eins og Agnesar til að koma fram með skoðanir opinberlega, sem áhrif kunna að hafa á traust þeirra og trúverðugleika í blaðamannastarfinu. Agnes er bæði í senn skeleggur álitsgjafi með sterkar persónulegar skoðanir og verðlaunaður blaðamaður. Fer þetta saman? Það er vitaskuld ekki hægt að taka lýðræðisleg mannréttindi af blaðamönnum, að fá að tjá sínar persónulegu skoðanir. Því aðeins er það vandasamt blaðamönnum að þessi tjáning getur haft áhrif á traust þeirra og trúverðugleika í blaðamannastarfinu. Mér hefur sjálfum fundist Agnes fara á stundum full geyst í yfirlýsingum og skoðunum þegar hún hefur verið kölluð til að gefa álit og þá útfrá þeirri hugsun að litríkar persónulegar skoðanir hennar kunni að rýra trúverðugleika hennar við það sem hún er best í; blaða- og fréttamennsku. Ég finn þetta á sjálfum mér; ég er að tjá mig persónulega hér á blogginu og víðar og verð sífellt að ritskoða sjálfan mig til að gera mig ekki ótrúverðugan sem blaðamann og vanhæfan í of mörgum málum. Tel mig reyndar hafa farið yfir mörkin í sumum tilvikum og gæti því verið skotmark í sumum málaflokkum hvað umfjöllun varðar; ég hafi gert mig vanhæfan. Því jafnvel þótt ég rembist eins og rjúpan upp við staurinn við að starfa með óhlutdrægum hætti þá er ég sem blaðamaður veikur fyrir skotum á nokkrum sviðum vegna tjáningar minnar sem persónu, svo sem í trúmálum (vegna baráttu minnar fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju) og jafnvel kannski í heilbrigðismálum (vegna eindreginnar gagnrýni minnar á niðurskurð á því sviði og biðlistana). Þá hef ég hikstalaust gert mig vanhæfan til að fjalla um Breiðavíkurmál sem blaðamaður með því að taka sæti í stjórn Breiðavíkursamtakanna. Um leið er ég hræddur um að ég yrði að taka með einhverjum fyrirvara umfjöllun Agnesar sem blaðamanns um tiltekin mál sem hún hefur tjáð sem mjög sterkt um sem álitsgjafinn og persónan Agnes. Og það er ekki gott því Agnes er góður og almennt trúverðugur blaðamaður, að líkindum einn af okkar allra bestu blaðamönnum. Hún verður að passa upp á að "kjafturinn" skaði ekki þann orðstír.
En allt þetta gildir ekki um þetta tiltekna mál Árna Johnsen. Meðal annars með í huga hvernig dómstólar hafa dæmt og skilgreint leyfilega gildisdóma þá fæ ég ekki annað sé en að málið sér gjörtapað fyrir Árna. Fyrir það fyrsta segir Agnes þarna almennt séð og yfirleitt bara það sem satt er og rétt. Árni var dæmdur fyrir glæpi, mútuþægni og umboðssvik. Hann iðraðist ekki eða hið minnsta mjög takmarkað. Árni ER "hálfgert stórslys" og (gjörðir hans) hneyksli. Ekkert í því sem Agnes sagði er beinlínis rangt og allt er það leyfilegur gildisdómur af gefnu tilefni. Ef Sigurður Líndal mátti ljúga upp á mig í skjóli leyfilegs gildisdóms má Agnes segja satt um Árna Johnsen. Það blasir við.
Jú, jú, oft má satt kyrrt liggja og ekki er beinlínis pent að sparka í liggjandi menn. En mál Árna Johnsen á einmitt ekki að liggja kyrrt og hann er allsendis ekki liggjandi maður. Árni gæti allt eins farið í mál við þá mörgu kjósendur sem strikuðu hann út af lista í síðustu þingkosningum - og tapað því máli jafn glæsilega.
Agnesi Bragadóttur stefnt fyrir meiðyrði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
5.9.2008 | 13:52
"Varst þú á Breiðavík?"
Ég er í stjórn Breiðavíkursamtakanna (BRV), er ritari þeirra og gjarnan fundarstjóri og eitthvað sást ég tilsýndar í fréttum RÚV þegar greint var frá félagsfundi BRV og megnri óánægju félagsmanna með bótahugmyndir fyrirliggjandi frumvarpsdraga forsætisráðuneytisins. Þó var ég ekkert sérstaklega viðbúinn því þegar gamall vinur minn hringdi í mig og spurði hvort ég hefði verið á Breiðavík og væri að berjast fyrir bótum.
BRV voru á síðasta aðalfundi opnuð fyrir aðild allra áhugamanna um þessi mál; Breiðavík og önnur vistheimili hins opinbera og þá voru líka tilgangur og markmið samtakanna víkkuð út. Við þau tímamót voru "utanaðkomandi" stuðningsmenn kjörnir í stjórnina og þá meðal annars ég. Við þessir "utanaðkomandi" erum því fyrst og fremst að hjálpa til í sjálfboðaliðavinnu og erum aldeilis hvorki að falast eftir bótum eða öðrum greiðslum. Eins hygg ég að gildi um liðveislu Ragnars Aðalsteinssonar lögfræðings, þótt ég viti ekki fyrir víst hvort hann á endanum fái einhverjar krónur upp í t.d. kostnað við hina miklu vinnu sem hann er að inna af hendi fyrir samtökin.
Við erum sem sagt virkir áhugamenn um að þessi mál verði krufin til mergjar og gerð upp með mannsæmandi hætti fyrir þau fyrrum börn og unglinga sem sættu nauðung og harðræði á téðum vistheimilum. Og það undrar mig ekki að Breiðavíkurdrengirnir og önnur fyrrum vistbörn skuli reiðast og sárna vegna þeirra bótaupphæða sem frumvarpsdrögin forsætisráðherra gera ráð fyrir að óbreyttu. Formaður samtakanna, Bárður R. Jónsson, líkti þessum upphæðum við flatskjá eða örlítið betri notaðan bíl. Vitaskuld eru peningarnir ekki aðalatriðið og í raun verður skaðinn seint bættur. En bætur á að greiða og þær eiga að vera mannsæmandi og skipta einhverju máli fyrir líf þessa fólks. Þær verða að sönnu að gera líf þessa fólks bærilegra; auka lífsgæðin.
Er sómi af því að segja nú: Hérna er notuð meðalbifreið og vertu nú ánægð(ur)?
Samanburðurinn við bætur í kynferðisbrotamálum leiðir fyrst og fremst athyglina að því hversu þær bætur eru ömurlega lágar. Og raunar hef ég lengi talað um hversu trygginga- og bótalöggjöf á Íslandi er nánasarleg; virðist til muna hagfelldari gerendum og tryggingafélögum en þolendum. Ég segi alls ekki að "Ameríska kerfið" (í einkamálum) sé betra, en eitthvað má nú hífa þessar almennu bætur upp. Og í tilfelli Breiðavíkurbarna blasir við að ríki og sveitarfélög hér geta varla fundið sóma í því að gera til mikilla muna verr við þessi "börn" en Norðmenn gerðu í sambærilegum málum.
Við Kristín kynntumst því á eigin skinni hversu fáránlega lágar bætur á Íslandi geta verið. Þegar 17 ára sonur okkar dó vegna flugslyss taldi tryggingafélag viðkomandi flugfélags nóg að gert með 1.5 milljón króna greiðslu og þá að útfararkostnaði meðtöldum! Tryggingafélagið mat 17 ára einstaklinginn til um það bil 1.1 milljón króna. Tryggingafélagið hrósaði sjálfsagt happi að sonurinn var ekki í launaðri vinnu og var ekki með fjölskyldu á sínu framfæri; það dró verulega úr verðmæti hans að því er virðist. Og kannski hefur tryggingafélagið hrósað happi yfir því að sonurinn dó; því hefði hann lifað hefði hann búið við mikla örorku og þá hefði tryggingafélagið mátt greiða tugir milljóna. Okkur tókst nú að tosa bæturnar nokkuð upp, sem ekki breytir því, að tryggingafélagið taldi verðmæti drengsins dáins á við tveggja ára notaða Toyota-bifreið (á þeim tíma). Við okkur blasti það sama og blasir nú við Breiðavíkurbörnum: Peningarnir eru ekki aðalatriðið en þetta er beinlínis móðgun og löðrungur í ofanálag. Þetta er ekki mannsæmandi.
Fáránleikinn í tilviki frumvarpsdraganna áðurnefndu birtist meðal annars í þessu: Það hefur verið ákveðið að ættingjar (erfingjar) látinna Breiðavíkurbarna (sem mörg tóku eigið líf). Hvernig á að meta viðkomandi til stiga?
Það þarf að gera til mikilla muna betur en forsætisráðuneytið hefur að óbreyttu í hyggju. Viðbrögðin meðal almennings síðustu daga benda eindregið til að ráðuneytisfólk sé lokað inn í fílabeinsturni og skynji ekki hvernig staðan er. Þjóðin stendur eindregið með þessum fyrrum vistbörnum og hneykslast á nánasarskap stjórnvalda. Fjölmiðlafréttir og bloggfærslur benda eindregið til þess og athyglisvert að bæði Morgunblaðið og 24 stundir rita leiðara í þessa áttina í dag. Forsætisráðuneytið er ósköp einmana í þessari umræðu og "leka"útspil forsætisráðherra honum ekki til sóma.
Bæturnar hærri í Noregi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.9.2008 | 15:25
Nefndir Alþingis opna sig fyrir almenningi
Viðhengd frétt, um stuðning ríkisstjórnarinnar við álverið á Bakka, er einna merkilegust fyrir þær sakir að þar er hvergi minnst á Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra, "grænasta" ráðherra ríkisstjórnarinnar. Lesandinn verður þá að gera ráð fyrir að Þórunn sé líka stuðningsmaður álversins, sem getur svo sem vel verið, en kemur þá áreiðanlega ýmsum á óvart.
Ekki kemur fram hvort Þórunn hafi verið fjarstödd viðkomandi utandagskrárumræðu eða einfaldlega ekki tekið til máls. Vitað er að einstakir ráðherrar hafa mjög ólíkar áherslur í þessum efnum og er ég viss um að fleiri en ég spyrji: "En hvað með Þórunni"? Hugsanlega vill hún ekki tjá sig opinberlega um afstöðu sína til álversins til að gera sig ekki vanhæfa ef og þegar kemur til úrskurðarmála síðar, en slík sjónvarmið hafa hins vegar ekki stöðvað ráðherrann frá eindreginni afstöðu gegn öðrum verksmiðjuáformum, um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.
Annars ætlaði ég miklu heldur að tjá mig um merkilega frétt á bls. 12 í Mogganum (pappírsútgáfu) í dag, en hana fann ég ekki hér á mbl.is. "Starfið í þingnefndunum opnað" segir í fyrirsögn og fram kemur sú tímamótaákvörðun að opna eigi fundi fastanefnda þingsins fyrir fjölmiðlum og almenningi. Raunar bara suma fundina og eftir geðþótta nefndarmanna, en mikilvægt skref hefur verið stigið engu að síður. Þingnefndafundir hafa fram að þessu farið fram fyrir luktum dyrum (stundum með fjölmiðlamenn hangandi fyrir utan). Nú er komin upp sú velþegna stefna að "almenningur hafi aðgang að meðferð mála hvað nefndirnar varðar" (segir Sturla Böðvarsson forseti Alþingis). Ég fagna þessari opnun, en vænti þess að allir eða flestir nefndafundir verði opnir.
Stjórnin styður álver á Bakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2008 | 10:05
Látið okkar kæra vin taka viðtalið
Grein Vals Ingimundarsonar í Mogganum í dag er holl lesning. Fólk ætti að eiga hana og geyma. Ekki síst áhugamenn um fjölmiðla og fréttamat, um hvernig utanaðkomandi öfl geta og reyna að stýra vinnubrögðum og áherslum fjölmiðla. Í þessu tilviki Bandarísk yfirvöld.
Samkvæmt Vali var Bandarískum yfirvöldum í mun að fá stuðning Íslands við innárásina í Írak. Fram kemur að útsendarar þeirra hafi nálgast bæði Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins og Boga Ágústsson fréttastjóra Sjónvarpsins og leitast við að fá rétta tegund af umfjöllun. Var boðið upp á viðtal við Colin Powell sem gulrót góðra samskipta og áhrifa - og jafnvel gengu Kanarnir svo langt að stinga upp á hvaða undirmenn (blaða- og fréttamenn) Styrmis og Boga ættu að taka hin eiginlegu viðtöl. Kanarnir voru augljóslega með sérlega vinveitta blaða- og frétamenn í huga. Því miður kemur ekki fram hverjir það voru sem þeir stungu upp á. Gaman væri að fá það fram, en það er samt önnur saga. Og auðvitað er snefill af möguleika að Kanarnir hafi ekki verið að hugsa svona heldur bara nefna þá sem þeir teldu hina faglegustu og færustu til verksins.
Blaða- og fréttamenn verða alltaf að hafa svona þrýsting á bak við eyrað (so to speak!). Að öðru leyti er umfjöllunin fyrst og fremst söguleg - og herinn sem betur fer löngu farinn. Halldór farinn og Davíð "farinn". Og stuðningur Íslands við Íraksstríðið enginn. Og Kanarnir og heimurinn bráðum loks (Hallelujah!) lausir við Bush.
Stuðningur við innrás lá fyrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.7.2008 | 17:58
Hálfleikur: Kastljós sýknað - spá mín rétt
Það er gleðilegt fyrir tjáningarfrelsið og fyrir blaða- og fréttamennskuna sem fag að Kastljós hafi í dag verið sýknað í máli því sem ég kenni við Jónínu Bjartmarz. En ekki ætla ég þó að vera með of stórar ályktanir að sinni, því vafalaust fer málið fyrir Hæstarétt. Hvað spádóm minn um sýknu varðar er ég þó altént yfir í hálfleik.
Ég fjallaði um þessa málshöfðun fyrir nokkru og spáði sýknu (hér). Undirréttardóminn má finna á þessari slóð. Hér á eftir fara valdir kaflar úr undirréttardóminum:
"Viðurkennt er að hlutverk fjölmiðla sé m.a. að veita stjórnvöldum aðhald og fjalla um mál ef grunur leikur á að misfarið sé með vald í þjóðfélaginu. Er enda óumdeilt að fjölmiðlar hafi verulegt svigrúm til umfjöllunar um menn og málefni líðandi stundar. Hæstiréttur hefur í dómum sínum staðfest (m.a. í dómum Hæstaréttar í málum nr. 278/2006 og nr. 541/2005 (nr. 278/2006 (,,Bubbi fallinn), nr. 541/2005 (Jónína Benediktsdóttir gegn 365)), að málefni sem talin eru varða almenning og geta talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu, eigi rétt á fréttaumfjöllun í fjölmiðlum. Almennt er viðurkennt að þeir sem fara með áberandi og ábyrgðarmikil trúnaðarstörf í þjóðfélaginu, svo sem stjórnmálamenn, verði að þola vissa fjölmiðlaumfjöllun en þó með þeim takmörkunum að ekki verði gengið nær einkalífi þeirra en óhjákvæmilegt er í opinberri umræðu um málefni er almenning varða. Jónína Bjartmarz, móðir stefnanda Birnis, var ráðherra í ríkisstjórn Íslands er umfjöllunin átti sér stað".
"Ekkert er fram komið er bendir til þess að stefndu hafi ekki unnið úr þeim upplýsingum, er þau höfðu undir höndum, með vönduðum hætti. Þrátt fyrir að vissar upplýsingar um málið hafi ekki verið réttar í upphafi voru leiðréttingar gerðar á síðari stigum umfjöllunarinnar og þessar misfellur högguðu ekki fréttagildi málsins".... "Umfjöllun Kastljóss vegna umsóknar stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt var málefni sem átti erindi til almennings og hafði fréttagildi. Óhjákvæmilegt var í þágu úrvinnslu fréttaefnisins að fram kæmu upplýsingar um persónulega hagi stefnanda Luciu. Að því er varðar myndbirtingu umsóknarinnar í Kastljósi hinn 30. apríl 2007 þá verður að telja eðlilegt í ljósi framvindu málsins og í kjölfar viðtals í Kastljósi við Jónínu Bjartmarz að fram kæmi á hvaða grundvelli umsókn Luciu um íslenskan ríkisborgararétt væri reist. Verður ekki talið að með myndbirtingu umsóknarinnar, eins og hún var sýnd í Kastljósi, og umfjöllun um hana, hafi verið gengið nær einkalífi stefnenda en þörf var á í opinberri umræðu um málefni sem varðaði almenning".
"Nægar ástæður voru fyrir hendi er réttlættu þessa umfjöllum um efni sem tengdist meðferð og afgreiðslu allsherjarnefndar á veitingu ríkisborgararéttar. Verður fallist á með stefndu að umfjöllunin í garð stefnenda hafi ekki gengið lengra en nauðsyn bar til. Er þá litið til þess að um var að ræða opinbera umræðu um málefni sem varðaði almenning. Eru því engin skilyrði til þess að dæma stefndu til refsingar samkvæmt 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga".
"Stefndu, Páll Magnússon, Helgi Seljan Jóhannsson, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Sigmar Guðmundsson og Þórhallur Gunnarsson, skulu vera sýkn af kröfum stefnenda, Luciu Celeste Molina Sierra og Birnis Orra Péturssonar, í máli þessu".
Starfsmenn Kastljóss sýknaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt 29.7.2008 kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)