Færsluflokkur: Sjónvarp

Sænsk stjórnvöld innleiða hlerunar-svívirðu!

Sænska þingið hefur samþykkt umdeild lög um símahleranir, tölvupóstavöktun og fleira, lög sem skelfa mig og væntanlega allt réttsýnt fólk. Með 143 atkvæðum gegn 138 voru hlerunar- og eftirlitslög samþykkt sem framkalla ímyndir af veröld Georgs Orwell í "1984". Allt í nafni títtnefndra hryðjuverkaógna - en vitaskuld verður þetta opið fyrir gegndarlausri misnotkun, meðal annars til að setja höft á fjölmiðla.

Við á Íslandi, blaða- og fréttamenn og aðrir, verðum að standa vaktina. Ella sýnist mér að hryðjuverkamönnum muni takast (kannski) hið eiginlega ætlunarverk sitt; að eyðileggja vestrænt lýðræði, tjáningarfrelsi og koma á samfélagi óttans og haftanna. Hversu langt á að ganga í nafni þess að "vernda öryggi borgaranna"? Ekki svona langt. Áður en lögin voru samþykkt sagði fyrrum yfirmaður sjálfrar leyniþjónustunnar í Svíþjóð lögin ekki vernda réttindi einstaklinga og að þau þyrfti að endurhugsa. Stjórnvöld fullyrða að einungis verð fylgst með símtölum og föxum erlendis frá, og að innanlandssamskipti verði ekki hleruð.  Sérfræðingar segja þó að erfitt sé að skilja þar á milli. Og ekki þarf sérfræðinga til að sjá fyrir sér gegndarlausa misnotkun, ekki síst í pólitískum tilgangi.

Lögin veita Sænskum stjórnvöldum (sérstakri stofnun) heimild til að "skanna" öll millilandasímtöl, tölvupósta og fax-sendingar án dómsúrskurðar. Sérfræðingar telja að meðal aukaafurða laganna verði að fólk muni t.d. heykjast á því að koma upplýsingum til fjölmiðla. Lögin ýta undir sjálfsritskoðun og tjáningarfælni. Evrópusamtök blaðamanna hafa varað við og mótmælt þessum lögum harðlega og telja slík lög veikja verulega "varðhunda"hlutverk fjölmiðla.

Vissulega hafa fleiri Evrópsk ríki aukið hlerunarheimildir og sum gengið ansi langt og þá aðallega til að fylgja "ráðum" Bandaríkjastjórnar. Einna lengst hafa Bretland og Ítalía gengið, en nú herma fregnir að Ítalía sé að hverfa til baka frá verstu Orwellískunni. Og þá kemur þessi steypa frá okkar annars yfirleitt frjálslyndu frændum. Sveiattan.


mbl.is Sænska þingið samþykkir hlerunarlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kastljós verður sýknað í Jónínu-málinu

Ég trúi ekki öðru en að í Jónínu-málinu svokallaða verði Kastljós sýknaði. Að í dómsmálinu sem Jónína Bjartmarz höfðar, með nöfnum sonar og tengdadóttur, þá verði réttmæti umfjöllunar Kastljóss staðfest. Ég trúi þessu vegna þess að ég fylgdist vel með vinnslu þessarar umfjöllunar, þótt ég hafi ekki komið með beinum hætti að henni. Ég er sannfærður um að í þessari umfjöllun hafi fjölmiðillinn gætt faglegra sjónarmiða og byggt á eins vandaðri upplýsingaöflun og tök voru á, og að fjölmiðillinn hafi gegnt skyldum sínum eðlilega við að veita stjórnvöldum aðhald.

Fyrr féll úrskurður í Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands sem kom mér verulega á óvart, en svo virðist sem sumt fólk sjái í umfjölluninni óvild og þá væntanlega af persónulegum toga, í garð ráðherrans fyrrverandi og fjölskyldu hennar. Siðanefndin virtist með öðrum orðum trúa því að umsjónarmaður Kastljóss hafi gengið um með óvildarhug í garð viðkomandi fyrrum ráðherra, hafi viljandi farið með rangfærslur gagngert til að gera viðkomandi ráðherra tortryggilegan og í því skyni „látið undir höfuð leggjast að afla grundvallarupplýsinga í viðkvæmu máli“. Siðanefndin fór þá ólíkindaleið að taka kærumálflutning fyrrum ráðherrans sem lög á bók en rök Kastljóss voru að engu höfð og lutu þau þó að grundvallarreglum fagsins. Þó verður að undirstrika að siðanefnd BÍ „sakfelldi“ aðeins vegna hluta kæru ráðherrans fyrrverandi og tók undir aðhaldshlutverkið. Ég hygg síðan að flestallir sanngjarnir einstaklingar taki undir að afgreiðsla allsherjarnefndar á viðkomandi umsókn um ríkisborgararétt hafi EKKI verið eðlileg. Kastljós stóð sig þarna vel í vandasömu máli, aflaði góðra upplýsinga og hafði áreiðanleg gögn og heimildir sér að baki. Umfjöllunin var réttmæt og að langstærstum hluta áreiðanleg – t.d. stendur óhaggað eftir að allsherjarnefnd þingsins sveigði af hefðbundinni braut umsókna um ríkisborgararétt til að þóknast tilteknum umsækjanda og gætti þá ekki jafnræðis milli umsækjenda. Það er grafalvarlegt mál fyrir fjölmiðla- og tjáningarfrelsið ef dómstólar sakfella Kastljós. Það myndi bitna með sorglegum hætti á réttmætu aðhaldi fjölmiðla að kjörnum fulltrúum þjóðarinnar.
mbl.is Krefjast miskabóta upp á 3,5 milljónir króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Edit - cut - trash

Skjár einn er með ágætis þætti á sinni dagskrá. En mest æpandi og leiðingjarnasti dagskrárliðurinn nefnist auglýsingar, þetta drasl sem látið er rjúfa hið áhugaverða efni æ meir, æ oftar. Auglýsingar (sem sumir kalla skilaboð (sic)) og dagskrárkynningar eru orðin svo yfirþyrmandi fyrirbæri á stöðinni að hið hálfa væri nóg. Í vinsælum þáttum er truflunin einfaldlega orðin svo mikil að maður fer að gefast upp. Þegar ástandið er orðið þannig að maður verður að taka þættina upp til að geta hraðspólað yfir píninguna þá þurfa auglýsendur að fara að athuga sinn gang. Oft hef ég hugsað til þess hversu næs væri að hafa forrit með edit-cut möguleikum að hreinsa út þetta auglýsingadrasl. Því drasl er þetta mestmegnis og það heyrir til undantekninga að auglýsingarnar séu ekki hreinn og beinn blekkingaleikur og lygi. Hvar eru eiginlega lögin sem eiga að banna villandi framsetningu og ósannindi í auglýsingum? Er öllum orðið sama? Má núorðið ljúga hverju sem er í þessum auglýsingum? Cut.

Síðar sama kvöld: Ég þurfti á þessari útrás að halda. Þær eru orðnar ansi margar vörurnar og þjónustan sem ég sver að ég kaupi aldrei vegna síendurtekinna dagskrártruflana ofnotaðra auglýsinga. Nema einhver finni upp auglýsingaeyði...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband