Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Það sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir sagði aðallega...

 Ruglið í kringum aðvörunina/hótunina frá ráðherra, sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir nefndi í aðdraganda ræðu sinnar á borgarafundinum, hefur að ósekju leitt alla athygli fjölmiðla og almennings frá því sem hún sagði í sinni eiginlegu, skrifuðu og úthugsuðu ræðu. Það er í sjálfu sér mest Sigurbjörgu sjálfri að kenna, enda var þetta framhjáhlaup hennar illa ígrundað (rétt eins og aðvörunarorð vinkonunnar, hvernig sem þau voru annars meint).

 Ég tel ljóst að Sigurbjörg er “markeruð” af samskiptum sínum við tiltekna ráðamenn. Hún sagði á kolrangan hátt frá sögunni um “aðvörunina” og mátti vera ljóst af framhaldinu að rökstuddur grunur myndi falla á Guðlaug Þór. Það var alls ekki óeðlileg ályktun, þótt fólk hafi gjarnan mátt stilla fullyrðingum um slíkt í hóf í ljósi óvissunnar.

En yfir litlu verður Vöggur feginn. Núna keppast sjálfstæðismenn við að pissa í skóinn sinn og fá yl af þessu aðvörunarmáli. “Hótunin” kom frá ISG hrópa þeir og maður heyrir feginleikann í röddinni og gleðigrátstafinn í kverkunum.

En menn tala ekki um það sem á eftir kom í innleggi Sigurbjargar - ræðunni sjálfri; þessari skrifuðu og skipulögðu. Þar var Sigurbjörg ekki að fjalla um ISG, heldur um Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sem vinnur eftir Landsfundasamþykkt Sjálfstæðisflokksins en ekki stjórnarsáttmála, ráðherra sem hunsar reglur um mannaráðningar, ráðherra sem ætlar sér að einkavinavæða heilbrigðisþjónustuna og mismuna þeim sem þurfa á henni að halda. Þessu skyldu menn ekki gleyma í öllum hamaganginum og gutl-hávaðanum af kólnandi hlandinu í skóm sjálfstæðismanna. Öllu þessu lýsti stjórnsýslufræðingurinn úthugsað og af yfirlögðu ráði - og lagði starfsheiður sinn undir. Um þessi aðvörunarorð tala sjálfstæðismenn ekki og fjölmiðlar ekki heldur.

Minni á skoðanakönnun hér til hliðar á blogg-síðunni minni; afstaðan til einkareksturs í heilbrigðisþjónustunni.


mbl.is Ráðlegging eða boð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sófamótmæli 2: Blekkingar ráðherra um einkareksturinn

Nú hefur reyndar komið í ljós að það var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sem varaði Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur við að tala varlega á borgarafundinum og passa upp á faglegan heiður sinn. orð standa nú gegn orði um hvers eðlis þessi aðvörun var; hvort hún teldist hótun eða hreinar og klárar vinsamlegar áhyggjur - því Ingibjörg Sólrún segir þær vera vinkonur. Þarna er haf og himinn á milli.

Hvað sem því líður er ástæða til að halda því til haga, að Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra er ekki saklaus af ósannindum og/eða hálf-sannleik í umræðunni um heilbrigðisreksturinn. Hann þykist ekkert vita um plön með aðkomu Róberts Wessmanns að skurðstofurekstri í Reykjanesbæ og lætur eins og það komi sér ekkert við hvað flokksbróðirinn Árni Sigfússon ætli sér í þeim efnum. Þetta er ekki trúverðugt.

Frekar en sá málflutningur Guðlaugs Þórs að "þriðjungur" heilbrigðisstarfseminnar sé þegar í einkarekstri. Þessi framsetning er ekki einasta villandi, heldur í raun og sann ósannindi, miðað við venjulegan skilning á einkarekstri. Ráðherra gerir með öðrum orðum þarna engan greinarmun á lögaðilum sem reknir eru með hagnaðarvonina að leiðarljósi og lögaðilum sem eru sjálfseignastofnanir sem ekki eru í rekstri í gróðaskyni.

Stærsti hlutinn af þeim "þriðjungi" sem ráðherra nefnir nær ekki til hagnaðarvonar-reksturs. Til dæmis eru 80% af öllum öldrunarstofnunum í höndum sjálfseignastofnana. Þegar "venjulegt" fólk talar um og mótmælir einkavæðingu og/eða auknum einkarekstri á heilbrigðissviðinu þá er það að tala um fyrirtæki sem ætla sér að hagnast á sjúkum, slösuðum, öldruðum, fötluðum o.s.frv. Það er verið að tala um gróðapungana sem vilja inn á þessi mið, sem hingað til hefur að mestu einskorðast við almannaþjónustuna og góðviljaðar sjálfseignastofnanir.


mbl.is Guðlaugur kemur af fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Þjóðkirkjan skorin niður? Nei.

Ung vinstri græn (UVG) fagna svokölluðum niðurskurði á fjárveitingum til Þjóðkirkjunnar og segja að sá niðurskurður sé "stórt skref í átt að aðskilnaði ríkis og kirkju". Þessu er ég ekki sammála. Nánar tiltekið; ég aðhyllist aðskilnaðinn eins og UVG, en ekki er hægt að tala um raunverulegan 400 milljón króna niðurskurð. Það var hins vegar hætt við mikla hækkun á fjárframlögum.

Sparnaðurinn eða niðurskurðurinn umræddi er ekki fyrirhuguð breyting milli áranna 2008 og 2009. Fárlög (og fjáraukalög) 2008 og nýsamþykkt fjárlög 2009 sýna að fjárframlög til trúmála eru um það bil að standa í stað. Það sem er að lækka felst í breytingunni sem gerð var á upprunalegu fjárlagafrumvarpi 2009 (sem samið var af bjartsýnu fólki fyrir hrunið). Ríkið ætlaði að gera vel við trúfélög, en hvarf frá því. Það er EKKI eiginlegur niðurskurður. Engu hafði verið lofað með löggjöf. Ætlunin var að hækka framlögin, en horfið var frá því. Tala má um sparnað en síður niðurskurð.

Skoðum þetta aðeins betur. Í trúmálum skipti ég fjárframlögum í tvennt: Forréttindaframlög til Þjóðkirkjunnar annars vegar og síðan sóknargjöld sem í grunninn byggja á jafnrétti trúfélaga á milli (að jöfnunarsjóði undanskildum). Lítum fyrst á forréttindaframlögin. Samkvæmt fjárlögum (og fjáraukalögum) 2008 runnu 1.501 milljónir króna (einn og hálfur milljarður) til "Biskups Íslands" (þar í laun presta og stjórnsýsla trúfélagsins með meiru). Til stóð að hækka þetta verulega en vegna efnahagsástandsins var horfið frá því og í fjárlagafrumvarpi er upphæðin 1.509 milljónir. Þetta er ekki niðurskurður heldur hækkun um 8 milljónir. Menn hins vegar spöruðu sér fyrirhugaða stórhækkun.

Annað dæmi af forréttindaframlögunum: Kristnisjóður 2008 var 89.7 milljónir. Það átti að hækka myndarlega 2009, en eftir tiltekt á upprunalegu fjárlagafrumvarpi 2009 endaði þessi tala í 94.5 milljónum. Þetta er ekki niðurskurður, heldur hækkun. Hækkunin er bara ekki eins mikil og í fyrstu var farið af stað með - sem er allt annað mál.

Sóknargjöld byggja í grunninn á jafnrétti milli trúfélaga (og sóknargjöld fólks utan trúfélaga renna í svokallaðan Háskólasjóð (HÍ). Föst upphæð per haus. "Framlög" þar er í raun skattlagning ("tíund"!) fyrir hönd trúfélaganna. Yfirvöld ákveða einhverja krónutölu og að frátöldum Jöfnunarsjóði sókna (sem Þjóðkirkjan situr ein að) fá allir það sama. Niðurskurður eða sparnaður þarna bitnar því jafnt á öllum jafnt og breytir engu um aðskilnað ríkis og kirkju. Sóknargjöld til Þjóðkirkjunnar lækka um 23 milljónir milli ára, en það er ekki niðurskurður. Það er lækkun vegna þess að meðlimum Þjóðkirkjunnar fækkaði hlutfallslega. Sem er allt annað mál.

Þetta skyldu UVG hafa í huga. Hvað sem Biskupsstofa segir þá hefur enginn raunverulegur niðurskurður  átt sér stað á ríkisframlögum til Þjóðkirkjunnar, heldur er einvörðungu búið að "tóna niður" þau útgjöld sem fyrirhuguð voru af mönnum sem voru ekki búnir að upplifa Hrunið Mikla.


mbl.is Ung vinstri græn fagna niðurskurði við þjóðkirkjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er munurinn á fullveldisafsali til IMF og ESB?

 

Ég er að vísu ekki með svarið á reiðum höndum og væri gaman að fá hér upp skoðanaskipti um þetta. Mér finnst þessi "fárviðrisskýrsla" IMF vera ofboðslega auðmýkjandi. Mér finnst eins og að þarna sé talað um óvita eða óþekka krakka. Eins og að einhver Barnaverndarnefnd sé að skrifa skýrslu um ástand á óregluheimili, þar sem fimm áföll dundu yfir; 1. foreldrarnir drykkfelldir, 2. karlinn lamdi konuna (eða öfugt), 3. börnin stálu úr búð, 4. elsta dóttirin, enn ólögráða, komin í neyslu og farin að selja sig og 5. elsti sonurinn, enn ólögráða, orðinn handrukkari.

 Svo er að skilja að okkur hafi verið nauðugur einn kostur, að fá svimandi upphæðir að láni hjá IMF og einstökum ríkjum. Þessir okkar lánveitendur kúguðu okkur til að semja um Icesave og undirgangast á þriðja tug skilmála. Samt hef ég ekki séð þessu líkt við fullveldisafsal. Er ekki IMF að skrifa auðmýkjandi skýrslur um okkur og erum við ekki að beygja okkur og bukta fyrir þeim og einstökum kúgunarríkjum? Hefur fullveldisafsal þá ekki átt sér stað?

Ef svarið er já, væri gott og gagnlegt að heyra og lesa: Hver er munurinn á þessu fullveldisafsali og hinu sem gagnrýnendur reikna með að eigi sér stað ef Ísland gengur í ESB? Ég er ekki ESB-sinni, en mér finnst rétt að svar við þessu fáist. Er munurinn kannski fyrst og fremst sá að IMF óskar ekki eftir fiskkvóta í íslenskri efnahagslögsögu?


mbl.is Hið fullkomna fárviðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgaraleg óhlýðni G. Péturs

Ég var auðvitað að vona að G. Pétur Matthíasson fyrrverandi fréttamaður Sjónvarpsins hefði verið með leyfi RÚV í farteskinu þegar hann ákvað að birta á bloggi sínu umrætt myndskeið af tilraun hans og Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, fyrrum fréttamanns Stöðvar 2, til að taka viðtal við Geir H. Haarde með "alvöru" krítískum spurningum. Það eru auðvitað vonbrigði að svo hafi ekki verið og að ég hygg borðleggjandi að G. Pétur hafi því gerst brotlegur við siðareglur blaða- og fréttamanna og innanhússreglur RÚV.

Ég hygg hins vegar að G. Pétur skili þessum gögnum ósköp glaður og sáttur í bragði. Hann hefur áreiðanlega tekið ákvörðun um borgaralega óhlýðni með þessum gjörningi sínum og víst er að myndskeiðið sýndi okkur ágætlega ofan í hrokafullan hugarheim forsætisráðherra - því það var akkúrat ekkert óeðlilegt við krítíska og krefjandi spurningu G. Péturs sem Geir stöðvaði og fór í fýlu út af. Það er ætlast til þess að blaða- og fréttamenn spyrji harðra og krítískra spurninga; þeir eiga að grípa þær spurningar sem liggja í loftinu og þótt menn spyrji hart er það ekki endilega vegna persónulegra skoðana, heldur eru "devil´s advocate" spurningar mjög algengar í fréttamennskunni.

Myndskeiðið sýnir ágætlega að ráðamönnum er meinilla við að svara krefjandi og hörðum spurningum. Þá dreymir kannski um dásamlega en liðna tíð þegar ráðherrar voru þéraðir af sjónvarpsfréttamönnum, sem báru bara upp spurningar sem ráðherrarnir sjálfir höfðu gaukað að þeim!

Mér finnst aukinheldur rétt að fólk hafi það í huga að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa gjarnan níðst á G. Pétri í gegnum árin. Davíð gaf tóninn í þeim efnum, lagði línuna; hreytti ónotum í G. Pétur fyrir þá sök eina að fyrr á ferli sínum hafði G. Pétur starfað á Þjóðviljanum! Ég var vitni að því og ég held að Geir hafi þarna ekki viljað vera minni maður en Dabbi Pabbi.

Skamm, skamm G. Pétur fyrir að nota efni í eigu RÚV í heimildarleysi. Þú braust siðareglur! En takk.


mbl.is Krafa um að viðtali við Geir verði skilað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er besti blaðamaðurinn - eða týpan?

Nú hef ég sett inn þriðja hópinn í þríleik mínum - könnun á hver af nánar upptöldum blaða- og fréttamönnum lesendur bloggsins míns telja bestan eða þess konar blaða- og fréttamann sem næst kemst því að vera sú blaðamannstýpa sem mest höfðar til þeirra.

Eins og með síðasta hóp hef ég tekið þá sem urðu efstir af hópi 2 og bætt við nokkrum nýjum nöfnum til að mynda hóp 3, þann síðasta - úrslitahópinn. Óvísindaleg könnun, allt til gamans gert, og allt það. 

Kjósið endilega - það er gaman að kjósa og gagn af því! Já, ég veit að alltaf mætti hafa önnur nöfn þarna, en ég vona að enginn pirrist yfir því að ráði eða móðgist. Það er enginn stórisannleikur í þessu. Bara svona samkvæmisleikur meðan Róm brennur. 

Staðan í hópi 2 varð (efstu menn, 186 atkvæði):

Jakob Bjarnar Grétarsson 21,0%

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir 12,4%

Bogi Ágústsson 11,3%

Björg Eva Erlendsdóttir 9,7%

Sigmar Guðmundsson 9,7%

 

  Jakob Bjarnar er mun virtari og þekktari blaðamaður en ég hafði gert mér í hugarlund! Helvíti gott hjá honum. Vona að flutningurinn til Árvakurs leggist sæmilega í hann.

Viðbót 4. október;

Lokastaðan í könnuninni (8 efstu):

Af eftirtöldum, hver finnst þér besti blaða- og fréttamaðurinn?

 

Bogi Ágústsson (RÚV-Sjónvarp) 13.8%

Broddi Broddason (RÚV-Útvarp) 13.5%

Agnes Bragadóttir (Mogginn) 12.9%

Jakob Bjarnar Grétarsson (Fréttablaðið) 10.6%

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir (mbl.is) 10.0%

Björg Eva Erlendsdóttir (24 stundir) 8.5%

Sigmar Guðmundsson (RÚV-Sjónvarp) 7.4%

Andrés Magnússon (Viðskiptablaðið) 5.3%

340 svöruðu.

 

 Jakob byrjaði með gusti en sprengdi sig fyrir lokasprettinn. Þá náðu Bogi, Broddi og Agnes að sigla fram úr spútnikkinum. Þetta er annars geysilega flott blanda af blaða- og fréttamönnum. Til lukku Bogi (þótt um óvísindalega könnun sé að ræða).


Falin myndavél, fjölmiðlar og friðhelgin

Þegar metnar eru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setur tjáningarfrelsinu skiptir grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings.Í Bubbamálinu var ekki talið að leynileg myndataka af honum reykjandi í bíl sínum ætti erindi til almennings sem liður í slíkri umræðu. Nú er tekist á um það hvort "Benjamínsmál" Kompáss varði almenning það miklu að tjáningarfrelsið trompi friðhelgina.

Í Kastljósi í gærkvöldi tókust lögmenn Kompáss og Benjamíns þessa, meints handrukkara, á um þessi mörk og verður fróðlegt að fylgjast með umfjöllun dómstóla og niðurstöðunni. Fjölmiðlar um heim allan nota óhefðbundnar aðferðir við upplýsinga- og myndaöflun. Í sinni ýktustu mynd eru "Papparassa" ljósmyndarar á ferð, en þeir eru hvorki gott dæmi né fyrirmynd við mat á gildi óhefðbundinna aðferða, því ég er að tala um upplýsingaöflun um mál sem sannanlega varða almenning miklu (en ekki hvað fyrirfólk og stjörnur eru að gera í einkalífi sínu). 

Í þessu máli takast á tjáningarfrelsið og friðhelgi einkalífsins og stóra spurningin er hvort málefnið uppgefna - handrukkarar - sé það brýnt fyrir almenning og umræðuna að upplýsingaöflun með óhefðbundnum hætti sé réttlætanleg og óumflýjanleg.

Nefna má í þessu sambandi mál sem fór fyrir siðanefnd Blaðamannafélags Íslands fyrir nokkrum árum; myndataka og umfjöllun "Ísland í bítið" um erótíska nuddkonu. Hin leynilega myndataka var talin réttlætanleg af siðanefndinni. Hún sagði: "Siðanefnd er sammála lögmanni kærenda um að að öðru jöfnu hefðu hin óhefðbundnu vinnubrögð við efnisöflun hjá kærendum getað falið í sér brot á siðareglum BÍ. Á hinn bóginn ber að líta til þess að um er að ræða starfsemi sem erfitt er að afla upplýsinga um en óhjákvæmilega kallar á umfjöllun fjölmiðla, starfsemi þar sem ólíklegt var að hefðbundin vinnubrögð fréttamanns hefðu skilað fullnægjandi árangri". 

Reyndar "brenglaði" Ísland í bítið myndir og hljóð hvað nuddkonuna varðar en Kompás ekki, en grunnur afstöðu siðanefndar lá þó í mikilvægi málefnisins og því að hefðbundnar leiðir til upplýsingaöflunar væru erfiðar ef ekki ómögulegar.

Hugleiða má hvort Kompáss hefði átt að "brengla" myndina af handrukkaranum meinta og þá nefna ekki nafn hans, en ég hygg að vegna aðdraganda málsins og umfjöllunar annarra þá hafði það ekki endilega verið raunhæft eða þjónað tilgangi lengur. 

Ég hygg að í grundvallaratriðum hafi Kompáss-aðferðin verið réttlætanleg (að því gefnu að umsjónarmenn voru ekki að leikstýra atburðarásinni). Umræða um ofbeldi og handrukkun er brýn fyrir almenning og hefðbundnar aðferðir ekki auðsóttar.


mbl.is Starfar ekki lengur hjá World Class
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafskip: Sagan sem ekki er sögð (seinni hluti)

Í fyrri hluta færslunnar um Hafskipsbókina benti ég á þann óplægða akur Hafskipsmálsins, sem er hlutur ríkjandi stjórnvalda (og ríkjandi viðskiptavelda) í því hvernig fór. Dr. Gunnlaugur Þórðarson benti réttilega á að "opinbera rannsóknarvaldið" væri "angi af framkvæmdavaldinu" (bls. 123). Með öðrum orðum voru þeir allir fulltrúar framkvæmdavaldsins, embættismennirnir og sérstaklega ráðnu sérfræðingarnir sem komu að rannsókn Hafskipsmálsins.

Þetta voru menn á borð við Þórð Björnsson, Hallvarð Einvarðsson, Jónatan Þórmundsson, Þórir Oddsson, Braga Steinarsson, Jón Skaftason, Ragnar H. Hall, Markús Sigurbjörnsson, Gest Jónsson, Jóhann H. Níelsson, Viðar Má Matthíasson, Símon Á. Gunnarsson, Valdimar Guðnason, Jón Þorsteinsson og marga, marga fleiri. Samkvæmt hinni hefðbundnu söguskýringu hlupu allir þessir menn fyrst og fremst eftir "æsifréttum" fjölmiðlanna og lykilræðum stjórnarandstæðinga. Samkvæmt þessari hefðbundnu söguskýringu höfðu yfirmenn þeirra (ráðherrarnir, ríkisstjórnin) engin áhrif á áherslur þeirra eða aðgangshörku. Ráðherrar gáfu samkvæmt þessu enga heimild fyrir því að embættismennirnir tjáðu sig frjálslega í fjölmiðlum eða beittu hörðustu aðferðum við handtökur og þar fram eftir götunum. Við sem þekkjum ráðherrasögu þjóðarinnar hljótum að lyfta brúnum. Eitt símtal eða spjall við forsætisráðherra eða dómsmálaráðherra hefði dugað til að stöðva yfirlýsingar og taka upp mildari meðferð á meintum sakamönnum. Það eitt að t.d. Hallvarður Einvarðsson eða skiptaráðendurnir voru ekki "mildaðir" eða beinlínis þaggað niður í þeim segir mér heilmikla sögu, þekkjandi ráðherraræðið á Íslandi.

Sama á við um það þegar forráðamenn Hafskips voru handteknir og færðir í gæsluvarðhald og fyrir dómara, gjarnan með blaðamenn mætta og sjónvarpsvélar í gangi. Ég get tekið heilshugar undir að þetta voru að því er virðist allharkalegar og óþarflega grófar aðgerðir. Mér finnst mjög freistandi að ætla að slík aðferðarfræði hafi verið borin undir æðstu ráðamenn. Sem þá lögðu sína blessun á hörkuna. Ég get ekki séð að það sé óleyfileg ályktun að gefnum tilefnum. Hins vegar finnst mér ekki mikið um kvartanir yfir einangruninni og aðbúnaðinum í gæsluvarðhaldinu; þá meina ég að þetta var sá aðbúnaður sem öðrum grunuðum mönnum var boðið upp á og því ekki nema réttmætt að "hvítflibbar" sætu við sama borð og ófínari menn. Annað hvort allir eða enginn! Og annað hvort voru lagafyrirmæli um að grunaðir menn ættu rétt á að lögmenn þeirra væru viðstaddir yfirheyrslur, eða ekki.

Réttarkerfið í heild sinni var hannað og mannað af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum og tengdum öflum. Allir þræðir þar voru á höndum þessara aðila. Þar og í samfélaginu öllu, ekki síst í viðskiptunum, ríki helmingaskipta-andinn. Helmingaskiptaflokkarnir voru við völd og skipafélög "þeirra" voru annars vegar Eimskip og hins vegar skipadeild SÍS. Hafskip var óþægur þriðji aðili. Tengdur Alberti Guðmundssyni og öðrum sjálfstæðismönnum, sem ekki voru innvígðustu og innmúruðustu forsprakkar flokksins. Albert var ekki í uppáhaldi hjá Valhallarklíkunni, flokkseigendafélaginu. Margir sjálfstæðismenn vildu áreiðanlega koma höggi á hann. Þeirra á meðal slíkir menn innan Kolkrabbans. Ég veit ekkert um ónafngreinda heimildamenn HP og annarra fjölmiðla eða "lekendur" gagna. Veit að þeirra á meðal voru óánægðir starfsmenn Hafskips (Gunnar Andersen, Björgvin Björgvinsson og sjálfsagt fleiri). Veit ekki hver"Jón "Deep throat" Jónsson" var. Veit bara að ég tel fulla ástæðu til að álykta að meðal heimildamanna fjölmiðla hafi innmúraða menn verið að finna.

Er eitthvað óeðlilegt við það að telja meiri líkur á því en minni að lykilmenn í Sjálfstæðisflokknum og Kolkrabbanum hafi komið duglega að "upphafi og endalokum" Hafskips? Ekki virðast þeir a.m.k. hafa lyft litla putta til að bjarga skipafélaginu og Alberti; Geir Hallgrímsson, Matthías Á. Mathiesen, Matthías Bjarnason, Sverrir Hermannsson, Ragnhildur Helgadóttir, Þorsteinn Pálsson og forystumennirnir í þingliðinu.  Það segir mér heilmikla sögu, þekkjandi ráðherraræðið á Íslandi.

Í þessu sambandi er mjög fróðlegt að lesa í bókinni hvar Hafskipsmálinu er líkt við Baugsmál nútímans. Þar er talað um þann kjarna að ráðist hafi verið að fyrirtæki með offorsi, en þegar upp var staðið hafi sakarefni flestöll gufað upp. Í þessu sambandi er það ekki síst athyglisvert (sem ekki er gert neitt úr í bókinni) að í Baugsmálinu var rannsóknar- og ákæruvaldið sagt stýrast af hatursfullu framkvæmdarvaldinu - en í Hafskipsmálinu á rannsóknar- og ákæruvaldið að hafa stýrst af fjölmiðlum og stjórnarandstæðingum! 

Sagan um aðkomu Valhallar, helmingaskiptastjórnarinnar og Kolkrabbans er ósögð. Bókin ætlaði sér ekki að segja þá sögu og það kemur hreinskilnislega fram.

Mig langar til að nefna þá hugleiðingu bókarinnar að ef til vill hafi Hafskip alls ekki verið gjaldþrota. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að Hafskip hafi óhjákvæmilega orðið að fara í gjaldþrot. Hins vegar blasir við að fyrirtækið var í gríðarlegum vanda (N-Atlantshafssiglingarnar, gengisþróunin, lítið eigið fé, rekstur Eddunnar, verkfall BSRB, missir flutninga fyrir Varnarliðið og áfram mætti telja). Fyrstu fréttir fjölmiðla snérust einkum um þessa erfiðleika (í frásögnum sem líkja má við fréttir núdagsins um fyrirtæki í erfiðleikum). Ekki fer á milli mála að róinn var lífróður hvað sem aðkomu fjölmiðla og stjórnmálamanna líður. Það var verið að reyna að bjarga "sökkvandi" fyrirtæki og til þess voru viðræður við Eimskip og SÍS (meðal annars að kröfu Útvegsbankans). Kannski hefði verið unnt að forðast gjaldþrot, en upp úr þeim reddingum hefði aldrei komið eiginlegt Hafskip. En Hafskip fór í gjaldþrot - og það var að kröfu lánadrottna (ekki fjölmiðla eða stjórnarandstæðinga). Og það voru til eignir, vissulega; en að tala um að 70% hafi fengist upp í kröfur er MJÖG villandi (og allar framsettar tölur á þáverandi verðlagi, en ekkert framreiknað og það finnst mér mjög miður). Því þá eru menn að bera saman kröfur í búið frá ársbyrjun 1986 (á verðlagi þá) og síðan innkomnar tekjur við skiptalok árið 1993. Þá eru menn ekki að taka með í reikninginn verðþróun í 7-8 ár. Á þetta benti skiptaráðandi með óbeinum hætti þegar hann mat að um 20% hefðu fengist upp í kröfur. En um þessar reiknikúnstir er óþarfi að fjölyrða meira að sinni.

(ATH. Hér felli ég niður smá kafla vegna réttmætrar athugasemdar frá Stefáni Gunnari; misskilningur sem hann segir kannski megi rekja til þess að hann hafi ekki verið nægilega skýr í umræddum tilvitnuðum texta)

Ég vil ekki gera lítið úr áhrifamætti fjölmiðla þess tíma. Í bókinni liggja ALLIR fjölmiðlar landsins undir ámæli, sumir í stórum stíl. Auðvitað gera fjölmiðlar mistök; villur og ónákvæmni eru þar daglegt brauð (í mismiklum mæli). Það gilti þá og gildir enn. Fjölmiðlar voru þá og eru nú undirmannaðir, hjá þeim ríkir oftast vinnuálag og tímaþröng, fjármagnsskortur og takmörkuð sérhæfing. Blaðamenn geta undir þessum kringumstæðum ekki alltaf varast gögn og heimildir sem varasamar geta reynst. Fjölmiðlar voru þannig örugglega ekki saklausir af mistökum á sínum tíma og þeir eru ekki saklausir í dag. Áfellisdómur um fjölmiðla í Hafskipsmálinu er því ekkert síður áfellisdómur yfir þá í dag vegna annarra mála. Þeir eiga áreiðanlega eftir að fá á sig ákúrur vegna umfjöllunar um t.d. Eimskip, XL og fleiri slík mál. Við skulum hafa það á bakvið eyrað. Það er voðalega auðvelt að taka við þeirri ábendingu höfundar bókarinnar (bls. 58) að fjölmiðlar hafi í Hafskipsmálinu átt að vera hófstilltari og ekki vera með upphlaup og ásakanir. Stjórnarandstæðingar hvers tíma geta líka auðveldlega tekið við slíkum hollráðum og fundist þau réttmæt.

Niðurstaða: Bókin er prýðilegt yfirlit yfir það sem áður hefur komið fram, en veltir engum steinum og skilur fjölmargar spurningar eftir ósvöruðum. Í bókinni er prýðilega skýr en hlutdræg lýsing á atburðarás, en stórir þættir verða útundan.

p.s. Margt fleira mætti segja og kannski nýtast athugasemdaumræður í það. Ef einhverjar umræður þá vakna. Mér sýnist reyndar ekki mikill áhugi ríkjandi á málinu, en sjáum til.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hafskip: Sagan sem ekki er sögð (fyrri hluti)

Bók Stefáns Gunnars Sveinssonar um Hafskipsmálið er hið þokkalegasta YFIRLIT yfir "Hafskipsmálið" svokallaða. Aðal ókostur bókarinnar felst þó kannski einmitt í því að hér er eingöngu um yfirlit að ræða - engum steinum er velt, engin ný gögn til staðar eða sannanir. Höfundurinn getur þess enda skilmerkilega að hann hafi verið beðinn um að gera yfirlit og "skýra allt það sem áður hefur komið fram" um málið (feitletrun mín).

"Hlutlægni má hins vegar krefjast af fræðimönnum, ekki síst þegar þeir koma fram á opinberan ritvöll".

 Sagði Ragnar heitinn Kjartansson í Morgunblaðinu 3. júlí 1991. Þremenningarnir frá Hafskip, sem eru verkbeiðendur Stefáns Gunnars, eiga samkvæmt Stefáni Gunnari ekki á nokkurn hátt að hafa reynt að hafa áhrif á skrif hans og ætla ég ekki að efa það. Stefán segir hins vegar heiðarlega og hreinskilnislega að hann sé ekki hlutlaus í (fræði)skrifum sínum og tiltekur að hann hafi samúð með Hafskipsmönnum, verkbeiðendunum. Bókin ber enda þess greinilegt vitni; atburðarásinni er stýrt yfir í óhjákvæmilega samúðarfulla niðurstöðu. Í stuttu máli að svo gott sem ALLIR hafi verið vondir við Hafskipsmenn og Útvegsbankastjóra og þeir sjálfir einir haft rétt fyrir sér, fyrir utan nokkrar samúðarfullar raddir sem studdu þá eftir allt bramboltið.

Í þeim tveimur ritdómum sem birst hafa um bókina um og eftir helgi (sem ég hef  séð) er bent á það sama og ég hugsaði við lesturinn og eftir hann: Þarna er sagan alls ekki öll sögð. Páll Baldvin Baldvinsson segir þetta efnislega í Fréttablaðinu fyrir helgi og Jón Þ. Þór segir þetta í DV í dag:

"Stefán rekur upphafið með hefðbundnum hætti til frétta- og greinaskrifa í Helgarpóstinum og sýnir síðan hvernig málið vatt smám saman upp á sig. Þetta er hin hefðbundna skýring og henni get ég ekki hafnað með rökum. Ég á hins vegar afar erfitt með að trúa því, að tiltölulega lítið vikublað (sem ekki naut sérlega mikils álits á sínum tíma) hefði eitt og sér getað valdið öllum þessum óvinafagnaði. Það hljóta önnur og sterkari öfl að hafa staðið að baki. Mörgum fleiri spurningum er ósvarað að lestri loknum og víst er að hér eru mörg rannsóknarefni", segir Jón í DV-ritdóminum í dag.

 Nákvæmlega. Mér dettur ekki í hug að skrif Helgarpóstsins (HP) (sem nær eingöngu voru skrif Halldórs Halldórssonar) hafi ekki haft áhrif, þó nú væri. En mér finnst þessi "hefðbundna" skýring ekki halda vel vatni, að benda fyrst og fremst á Helgarpóstinn og aðra fjölmiðla og síðan gera ógnarmikið úr þætti stjórnarandstöðuþingmanna,einkum Ólafs Ragnars Grímssonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar og Svavars Gestssonar.

Þannig kýs höfundur að líta á upphaf og að stórum hluta endalok Hafskipsmálsins: Skrif í HP og öðrum fjölmiðlum og ákveðnar ræður ofangreindra þingmanna. En það vantar gjörsamlega inn í þetta mikilvæga vídd og það eru rannsóknarefnin sem Jón talar um. Þessi söguskýring gengur út frá því að fjölmiðlar og þingmenn í stjórnarandstöðu-minnihluta hafi haft úrslitaáhrif á hvernig fór. Að allra helst hafi orð þessara aðila haft áhrif á embættismenn og aðra rannsakendur á sínum tíma. Með öðrum orðum að HP og aðrir fjölmiðlar og ÓRG og félagar hafi drifið rannsakendur og saksóknarana til offors og æðis.

Víddin sem vantar (en er þó imprað á nánast innan sviga) er þessi: Að völdum sat ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þessir flokkar höfðu framkvæmdavaldið og yfirmenn embættismanna réttarkerfisins voru undirmenn ráðherra þessara flokka. Jón Helgason var dómsmálaráðherra en ekki Ólafur Ragnar Grímsson. Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra en ekki Jón Baldvin Hannibalsson. Matthías Á. Mathiesen og síðar Matthías Bjarnason voru ráðherrar bankamála, en ekki Svavar Gestsson. Albert Guðmundsson og síðar Þorsteinn Pálsson voru ráðherrar fjármála, en ekki Guðmundur Einarsson. Að völdum sat "helmingaskiptastjórn" þeirra flokka sem um áratugaskeið höfðu mannað yfirmannastöður réttarkerfisins "sínum" mönnum. Þessir menn höfðu auðvitað, ef einhverjir, úrslitaáhrif á áherslur og kraft opinberrar rannsóknar á Hafskipsmálinu. Jú, jú, rannsakendur og saksóknarar áttu og eiga að vera sjálfstæðir, en bein og óbein áhrif yfirboðaranna í ráðherrastólunum eru borðleggjandi Íslenskt einkenni og hefur verið alla tíð.

En samkvæmt bókinni og hinni hefðbundnu söguskoðun þá hlupu embættismennirnir, undirmenn ráðherranna, fyrst og fremst eftir duttlungum fjölmiðlanna og (lítilvægra) þingmanna í stjórnarandstöðu. Ráðherrum framkvæmdarvaldsins er að flestu leyti lýst sem áhrifalausum og hjálparvana áhorfendum. Fjölmiðlaumfjöllun hafði örugglega áhrif á almenningsálitið og ræður stjórnarandstöðuþingmanna kunna að hafa verið óþægilegar í sameiningaviðræðum við Eimskip, jafnvel rýrt eignir Hafskips óbeint, en hvað voru valdamennirnir við kjötkatlana að gera?

Menn geta spurt sig: Gátu ráðherrarnir imprað á því við rannsakendur og saksóknara að annað hvort gæta hófs við meðferð málsins - eða beitt fullri hörku? Við skulum ekki gleyma því að það var umfram allt stjórnarmeirihlutinn sem setti á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd þingsins til að fara í saumana á málinu. Í bókinni eru miklu varpað yfir á þessa nefnd.

Imprað er á innanflokksátökum innan Sjálfstæðisflokksins. Talað um öfl þar sem vildu "klekkja á Alberti". Þessum steini er þó ekki velt, bara lyft pínulítið. Og öðrum stórum steini er bara alls ekki lyft, hvað þá velt: Hver var hlutur Eimskips í atburðarásinni? Hafði "Kolkrabbinn" engin úrslitaáhrif á það hvernig fór? Ég leyfi mér að efast um að "Kolkrabbinn" hafi verið aðgerðarlaus og tel mér óhætt að fullyrða að hann hafi einmitt verið í góðu sambandi við lykilmenn hjá framkvæmdarvaldinu. Og jafnvel hjálpað við að koma upplýsingum til fjölmiðla (ég var blaðamaður á HP 1986 og 1987 en veit alls ekkert um heimildarmenn Halldórs ritstjóra umfram þá sem nafngreindir voru og kom ekkert að skrifunum sjálfum - þau voru alfarið á borði HH lengstum). Þessi saga er ósögð og höfundi þessarar bókar var ekki ætlað að segja hana.

Að rekja upphaf og að stórum hluta endalok Hafskipsmálsins til fjölmiðla og stjórnarandstæðinga er ákveðið sjónarhorn. Það er sjónarhorn þar sem kosið er að horfa framhjá veigamiklum breytum. Má ekki tala um upphaf og endalok í öðrum atriðum: Í gífurlegum rekstrarerfiðleikum Hafskips, í Norður-Atlantshafssiglingunum ("heljarstökk út í óvissuna"), til reksturs Eddunnar með Eimskip, til þess að árið 1984 var ár mikilla áfalla í skiprekstri almennt, til síðharðnandi samkeppni skipafélaganna, til aðgerðarleysis Útvegsbankans í eftirliti sínu með þessum viðskiptavini, til "þungs hugar" starfsmanna Hafskips á borð við Gunnars Andersen og Björgvins Björgvinssonar, til þess er stjórn SÍS hafnaði sameiningu við Hafskip eða til þess er Eimskip setti "óskiljanlega" fyrirvara við sameiningu við sig? Og auðvitað til þess að framkvæmdavaldið kom ekki til bjargar?

(hér verð ég af óviðráðanlegum ástæðum að stoppa í bili. Sé ekkert því til fyrirstöðu að birta það sem komið er, en skelli mér í niðurlagið síðar í dag)


Hafskip: Rannsakandi með ákveðnar skoðanir

 Forsíða bókarinnar.

Viðbrögð við þessari frétt Morgunblaðsins hljóta að vera blendin og vitaskuld þurfa forvitnir að lesa bókina. Ég velti fyrir mér orðunum sem höfð eru eftir verktakanum, Stefáni, að hann "hafi ákveðnar skoðanir á viðfangsefninu sem hann telji að ekki eigi að leyna". Hvað þýðir það? Eins veltir maður fyrir sér hvaða gildi það hefur þegar "verkbeiðendurnir" (kostunarmenn bókarinnar) byðja verktakann að vera hlutlægur - svona ríkir og áhrifamiklir menn.

Notabene ég er ekki að draga fagmennsku verktakans í efa; ég þarf auðvitað að lesa bókina.  Ég vona svo sannarlega að verktakinn taki ekki þátt í því að skrifa Íslandssöguna eftir fyrirfram gefinni forskrift (ég leyfi mér að ganga út frá því að svo hafi hann ekki gert). En ár eftir ár hafa Hafskipsmenn, verkbeiðendurnir, unnið að því að breyta Íslandssögunni hvað Hafskipsmálin varðar. Til dæmis með villandi samanburði á kröfum og eignum hvað gjaldþrot Hafskips varðar.

Hitt er annað mál að ég treysti rannsakendum yfirvalda ágætlega til að klúðra rannsóknum, nálgast þær með hlutdrægum hætti, fara offari á köflum og ég treysti stjórnmálamönnum allveg til að fara framúr sjálfum sér í málflutningi. Ég treysti stjórnmálamönnum og forsprökkum Eimskipafélags "Kolkrabbans" fullkomlega til að eiga stóran þátt í örlögum Hafskips. En ég treysti líka "verkbeiðendum" allveg til að breyta gangi sögunnar. Einhverjir þeirra hafa ritskoðað og lýst yfir vilja til að kaupa fjölmiðil gagngert til að leggja hann niður. Ég nefni engin nöfn!

Ég sakna eins í þessari frétt Moggans; fram kemur að "verkbeiðendur" hafi beðið verktakann Stefán sérstaklega um að rannsaka "þátt fjölmiðla" í Hafskipsmálinu. Í frétt þessari kemur ekkert fram um "þátt fjölmiðla". Þetta vantar í fréttina. Kannski var þáttur fjölmiðla ekki svo mikill, umfram það að segja fréttir af málinu? Þarna er fyrst og fremst lýst aðkomu lögreglurannsakenda og stjórnmálamanna.

En ég þarf auðvitað að lesa bókina.

ATH NÝ SKOÐANAKÖNNUN UM FORSTJÓRA SJÚKRATRYGGINGASTOFNUNAR HÉR TIL HLIÐAR 


mbl.is Rannsókn Hafskipsmáls gagnrýnd í nýrri bók
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband