Sófamótmæli 2: Blekkingar ráðherra um einkareksturinn

Nú hefur reyndar komið í ljós að það var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sem varaði Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur við að tala varlega á borgarafundinum og passa upp á faglegan heiður sinn. orð standa nú gegn orði um hvers eðlis þessi aðvörun var; hvort hún teldist hótun eða hreinar og klárar vinsamlegar áhyggjur - því Ingibjörg Sólrún segir þær vera vinkonur. Þarna er haf og himinn á milli.

Hvað sem því líður er ástæða til að halda því til haga, að Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra er ekki saklaus af ósannindum og/eða hálf-sannleik í umræðunni um heilbrigðisreksturinn. Hann þykist ekkert vita um plön með aðkomu Róberts Wessmanns að skurðstofurekstri í Reykjanesbæ og lætur eins og það komi sér ekkert við hvað flokksbróðirinn Árni Sigfússon ætli sér í þeim efnum. Þetta er ekki trúverðugt.

Frekar en sá málflutningur Guðlaugs Þórs að "þriðjungur" heilbrigðisstarfseminnar sé þegar í einkarekstri. Þessi framsetning er ekki einasta villandi, heldur í raun og sann ósannindi, miðað við venjulegan skilning á einkarekstri. Ráðherra gerir með öðrum orðum þarna engan greinarmun á lögaðilum sem reknir eru með hagnaðarvonina að leiðarljósi og lögaðilum sem eru sjálfseignastofnanir sem ekki eru í rekstri í gróðaskyni.

Stærsti hlutinn af þeim "þriðjungi" sem ráðherra nefnir nær ekki til hagnaðarvonar-reksturs. Til dæmis eru 80% af öllum öldrunarstofnunum í höndum sjálfseignastofnana. Þegar "venjulegt" fólk talar um og mótmælir einkavæðingu og/eða auknum einkarekstri á heilbrigðissviðinu þá er það að tala um fyrirtæki sem ætla sér að hagnast á sjúkum, slösuðum, öldruðum, fötluðum o.s.frv. Það er verið að tala um gróðapungana sem vilja inn á þessi mið, sem hingað til hefur að mestu einskorðast við almannaþjónustuna og góðviljaðar sjálfseignastofnanir.


mbl.is Guðlaugur kemur af fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég röstyð það á bloggi mínu í dag hvers vegna ekki skiptir meginmáli hvort ráðleggingar Ingibjargar Sólrúnar voru í vinsemd og af væntumþykju vegna þess að í þjóðfélagi þöggunar og ótta eru það oft vinir manns sem verða að verkfærðum ráðandi afla, oft óafvitandi.

Ómar Ragnarsson, 13.1.2009 kl. 23:10

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég er viss um að Sigurbjörg hafi varað vinkonu sína við tilteknum ráðandi öflum og viljað fá hana í burt frá sömu öflum - og þá ekki síst með í huga faglegan og pólitískan orðstír vinkonunnar. Ég hugsa að það sé meiri þungi og vit í varnaðarorðum Sigurbjargar og meira í húfi.

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.1.2009 kl. 23:27

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Annars er ég nú hættur að fatta almennilega þetta Sigurbjargarmál.

 Fyrr í dag kom þetta fram á mbl.is, haft eftir Sigurbjörgu:

"Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir sagðist í morgun hafa fengið um þetta skilaboð en ekki rætt við sjálfan ráðherrann sem hún segist enn ekki ætla að nefna með nafni. Hún ætli ekki að tala um þetta frekar en svona eigi ráðherrar ekki að haga sér".

 En svo kemur þetta:

Visir.is í kvöld: "Ingibjörg sendi frá sér tilkynningu seinnipartinn í dag frá Stokkhólmi þar sem hún er í veikindaleyfi. Þar kom fram að í krafti vináttu vildi Ingibjörg ráða Sigurbjörgu heilt og kom þeim skilaboðum til hennar frá Stokkhólmi að nálgast ræðu sína á borgarafundinum ,,af varfærni og gæta þess að ganga ekki á faglegan heiður sinn."

,,Nei nei, þetta var aðvörun og kannski vel meint," sagði Sigurbjörg aðspurð hvort hún hafi litið á orð utanríkisráðherra sem hótun. Meiningin hafi ekki verið að setja fram dylgjur og það sjáist vel þegar hlustað sé á ræðuna. Að öðru leyti vildi Sigurbjörg ekki tjá sig meira um málið".

 Vel meint - en ekki haga sér svona? Það vantar eitthvað þarna inn í myndina.

Friðrik Þór Guðmundsson, 14.1.2009 kl. 00:19

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

NÚ KÖNNUN UM EINKAREKSTUR Á HEILBRIGÐISSVIÐINU HÉR TIL HLIÐAR

Friðrik Þór Guðmundsson, 14.1.2009 kl. 00:30

5 identicon

Ef ég ætti mjög hvatvísan vin, sem ætlaði að halda ræðu á miklum hitafundi, væri ég vís til að ráðleggja honum að gæta hófs og skaða ekki starfsheiður sinn.

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 11:16

6 identicon

Það kann að vera að Ingibjörgu hafi alltaf þótt í raun lítið til Sigurbjargar koma þó svo hún fái hana í verkefni. Að minnsta kosti treystir hún henni ekki fullkomlega til að halda ræða án þess að hún skapi sér verulega hættu með því

Anna María (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 17:39

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sigurbjörg þessi sýndi ill innræti með þessum dylgjum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.1.2009 kl. 04:23

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég skal ekki segja um illt innræti, Gunnar, en ég tel ljóst að Sigurbjörg er "markeruð" af samskiptum sínum við ráðamenn.Hún sagði á kolrangan hátt frá sögunni um "aðvörunina" og mátti vera ljóst af framhaldinu að rökstuddur grunur myndi falla á Guðlaug Þór. Það var alls ekki óeðlileg ályktun, þótt fólk hafi gjarnan mátt stilla fullyrðingum um slíkt í hóf í ljósi óvissunnar. Ég held að ég hafi passað mig!

En yfir litlu verður Vöggur feginn. Núna keppast sjálfstæðismenn við að pissa í skóinn sinn og fá yl af þessu aðvörunarmáli. "Hótunin" kom frá Samfylkingunni hrópa þeir og maður heyrir feginleikann í röddinni og grátstafinn í kverkunum.

Og kannski að vonum, því fyrir utan að geta skotið á ISG þá leiðir þetta rugl til þess að menn tala ekki um það sem á eftir kom í innleggi Sigurbjargar - ræðunni sjálfri; þessari skrifuðu og skipulögðu. Þar var Sigurbjörg ekki að fjalla um ISG, Gunnar, heldur um heilbrigðisráðherra sem vinnur eftir Landsfundasamþykkt Sjálfstæðisflokksins en ekki stjórnarsáttmála, ráðherra sem hunsar reglur um mannaráðningar, ráðherra sem ætlar sér að einkavinavæða heilbrigðisþjónustuna og mismuna þeim sem þurfa á henni að halda. Hvað segir þú um þetta Gunnar?

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.1.2009 kl. 11:09

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta var engin hótun hjá ISG, hún þekkir sitt heimafólk og vissi að ekki var vanþörf á aðvöruninni, eins og komið hefur á daginn.

Sigurbjörg er rekin áfram af heift og hatri í garð Guðlaugs. Í ljósi alls þá er ekki skrítið að Guðlaugur hafi ekki haft áhuga á að ráða hana til frekari starfa. Guðlaugur er mannþekkjari.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.1.2009 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband