Það sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir sagði aðallega...

 Ruglið í kringum aðvörunina/hótunina frá ráðherra, sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir nefndi í aðdraganda ræðu sinnar á borgarafundinum, hefur að ósekju leitt alla athygli fjölmiðla og almennings frá því sem hún sagði í sinni eiginlegu, skrifuðu og úthugsuðu ræðu. Það er í sjálfu sér mest Sigurbjörgu sjálfri að kenna, enda var þetta framhjáhlaup hennar illa ígrundað (rétt eins og aðvörunarorð vinkonunnar, hvernig sem þau voru annars meint).

 Ég tel ljóst að Sigurbjörg er “markeruð” af samskiptum sínum við tiltekna ráðamenn. Hún sagði á kolrangan hátt frá sögunni um “aðvörunina” og mátti vera ljóst af framhaldinu að rökstuddur grunur myndi falla á Guðlaug Þór. Það var alls ekki óeðlileg ályktun, þótt fólk hafi gjarnan mátt stilla fullyrðingum um slíkt í hóf í ljósi óvissunnar.

En yfir litlu verður Vöggur feginn. Núna keppast sjálfstæðismenn við að pissa í skóinn sinn og fá yl af þessu aðvörunarmáli. “Hótunin” kom frá ISG hrópa þeir og maður heyrir feginleikann í röddinni og gleðigrátstafinn í kverkunum.

En menn tala ekki um það sem á eftir kom í innleggi Sigurbjargar - ræðunni sjálfri; þessari skrifuðu og skipulögðu. Þar var Sigurbjörg ekki að fjalla um ISG, heldur um Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sem vinnur eftir Landsfundasamþykkt Sjálfstæðisflokksins en ekki stjórnarsáttmála, ráðherra sem hunsar reglur um mannaráðningar, ráðherra sem ætlar sér að einkavinavæða heilbrigðisþjónustuna og mismuna þeim sem þurfa á henni að halda. Þessu skyldu menn ekki gleyma í öllum hamaganginum og gutl-hávaðanum af kólnandi hlandinu í skóm sjálfstæðismanna. Öllu þessu lýsti stjórnsýslufræðingurinn úthugsað og af yfirlögðu ráði - og lagði starfsheiður sinn undir. Um þessi aðvörunarorð tala sjálfstæðismenn ekki og fjölmiðlar ekki heldur.

Minni á skoðanakönnun hér til hliðar á blogg-síðunni minni; afstaðan til einkareksturs í heilbrigðisþjónustunni.


mbl.is Ráðlegging eða boð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já Friðrik Þór þetta var ljóta uppákoman.

Ekki er ég nú Sjálfstæðismaður þannig að ekki get ég orðið sakaður um að vera með kólnað hland í skónum mínum.

Ég verð þó að segja það að það getur vel verið rétt hjá þér að Sjálfstæðismenn sumir hverjir séu með kalt hland í skónum sínum, vegna þessa.

En ég verð nú líka að segja það sama um ansi marga innmúraða Samfylkingarmenn líka, vegna þessa máls. 

Munurinn á þeim og Sjöllunum er aðeins tæknilegs eðlis, það liggur aðeins í því að Samfylkingar-hlandið er ekki ennþá orðið kalt, þannig að það vermir örlítið ennþá.

En það er skammgóður vermir, því það þarf enga Sjálfstæðismenn til þess að sjá að þessi meinta tilraun utanríkisráðherra þjóðarinnar til þöggunar með valdboði sendiboðans, þar sem viðkomandi var beðin að "tala varlega á mótmæla fundinum og gæta að starfheiðri sínum og starfsframa"  Þetta var sko ekkert persónulegt símtal vinkvenna. Þetta var það sama bragð og geræðis stjórnarherrar allra tíma hafa hafa viðhaft í krafti valda sinna. Nota þriðja aðila, auðsveipa sendiboða sína og töskubera, til að koma hinum "hreina og sanna vilja" þeirra á framfæri við óróaseggi og láta þá vita af því að fylgst sé með þeim af VALDINU og sendiboðum þess.

SVEI ÞESSU ! 

Ég þori að fullyrða það að í öllum nágrannaríkjum okkar hefði svona framganga æðsta ráðamanns vakið mjög hörð viðbrögð sem leitt til auðmjúkrar afsökurnarbeiðni og síðar afsagnar viðkomandi valdsmanns.

Kanski að fólk sé að hlífa utanríkisráðherranum vegna veikindaleyfis hennar, það getur verið og er að mörgu leyti skiljanlegt. 

En það er þá líka eina afsökun fjölmiðla fyrir vettlingatökin og hinna sem hafa skyndilega steinþagnað með volgt hlandið enn í skónum ! 

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 12:53

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, Gunnlaugur, ekki dettur mér í hug að réttlæta aðvörun ISG og ég get vel ímyndað mér að fjölmiðlar séu tvístígandi vegna veikinda hennar. Það eru mannleg viðbrögð. Ekki ætti þó að saka að hjóla í aðstoðarmanninn Kristrúnu Heimisdóttur, sem sagt er að hafi verið sendiboðinn. Ég réttlæti ekki aðvörunina, en í ljósi lýsinga um vináttu kvenanna þá get ég heldur ekki afneitað möguleikanum um að aðvörunin hafi í raun og sann verið vel meint (en auðvitað algerlega óviðeigandi og augljóslega klaufalega fram sett af sendiboðanum, úr því að viðtakandinn brást svona við).

En þú líka, Gunnlaugur, skautar framhjá þeim grafalvarlegu lýsingum sem komu fram í ígrundaðri, skrifuðu ræðu Sigurbjargar. Þeim þætti er óþarfi að gleyma!

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.1.2009 kl. 13:40

3 identicon

Já, manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þegar maður les ræðuna í rólegheitum. Þetta eru skelfileg áform ef rétt er frá sagt sem ég í sjálfu sér efast ekkert um. Og kannski er þessi formáli Sigurbjargar fyrsta vísbendingin um að fólki er svo nóg boðið að þöggunin virki ekki eins vel og áður. Ég vona svo sannarlega að það sé raunin og fleiri fari að tjá sig.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 14:09

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll Friðrik ertu með slóð á ræðuna hennar?

Sigurður Þórðarson, 15.1.2009 kl. 15:06

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ræðan var ekki kominn inn á vefsíðu www.borgarafundur.org áðan, en fer væntanlega hingað þegar að því kemur. Sagt er líka: Myndbandsupptökur munu koma á vefinn eins fljótt og auðið er. Ég skrifa hér út frá minnispunktum.

En ég legg ég til að þú hlustir á ræðuna á vefslóð RÚV meðan þú bíður.

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.1.2009 kl. 15:14

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Eða hjá Láru Hönnu.

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.1.2009 kl. 15:18

7 Smámynd: Júlíus Valsson

Þetta var undarleg ræða, flutt á afar undarlegan hátt og sem fékk mjög undarlega umfjöllun í fjölmiðlum.
Það undarlegasta í þessu öllu er að menn eru nú ákaflega undrandi yfir því að nú skuli loksins einn ráðherra fylgja stefnuskrá flokks síns, hvort sem hún er annars rétt eða röng í augum kjósenda. Mjög undarlegt allt saman.

Júlíus Valsson, 15.1.2009 kl. 17:31

8 Smámynd: Jón Ragnar Björnsson

Ég horfði á fundinn í Háskólabíói í sjónvarpinu í gærkveldi. Fannst hann góður og margt frábært.

Umræðan um þöggunarmálið/varnaðarorðin er allt of mikil og leiðir okkur frá aðalatriðum. Við eigum auðvitað ekki að hætta að tala um það sem okkur finnst miður fara og við þurfum að velta við öllum steinunum eins og Geir segir,  en þurfum að huga að framtíð þjóðarinnar:

  • Hvernig þjóðfélag viljum við sjá rísa úr þessum rústum?
  • Hvaða leið ætlum við að fara til þess?
  • Erum við, þ.e. þú og ég reiðubúinn til að taka virkan þátt í þeirri vegferð?
-Ég er til. Ég vil sjá Nýja Ísland rísa úr rústum þessa. Það verður 2. íslenska lýðveldið 

Jón Ragnar Björnsson, 15.1.2009 kl. 18:03

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ertu virkilega svona tregur Júlíus? Ráðherrar í samsteypustjórnum fara eftir stjórnarsáttmála, en ekki flokkssamskiptum. Stjórnarsáttmáli er málamiðlun, þar sem búið er að kasta því út af borðinu sem ekki er samþykkt af báðum (öllum) stjórnarflokkum.

Aukin einkavæðing og einkarekstur með hagnað að leiðarljósi er EKKI í stjórnarsáttmálanum; var hafnað af samstarfsflokknum og er því EKKI stefna ríkisstjórnarinnar.

En samkvæmt þinni forgangsröðun mætti Samfylkingin fylgja stefnu sinni og sækja um í ESB fyrir hönd þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar - af því að það er í flokkssamþykktum...

 Vil og vekja athygli á pistli Bjargar Evu Erlendsdóttur á smugan.is (hér).

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.1.2009 kl. 19:06

10 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sæll Friðrik, mér finnst þetta skynsamleg og upplýsandi túlkun hjá þér

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 15.1.2009 kl. 20:06

11 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Þegar skítnum er sópað undir teppið, þá er hann bara undir teppinu fer ekkert. Ég skil ekki þessa umræðu sem virðist vera að fara í gang núna,  að það verði að horfa fram,  fyrst þarf að sópa skítnum undan teppinu svo hægt sé taka til, annað gengur bara ekki upp, þessi orð voru til Jóns Ragnars.

Góð grein hjá þér Friðrik. 

Sigurveig Eysteins, 15.1.2009 kl. 20:14

12 Smámynd: Júlíus Valsson

"Stefna ríkisstjórnarinnar er að á Íslandi sé veitt heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða. Leggja á stóraukna áherslu á forvarnir á öllum sviðum og stuðla að heilbrigðari lífsháttum. Leita á leiða til að lækka lyfjaverð og einfalda greiðsluþátttöku hins opinbera. Kostnaðargreina á heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgir sjúklingum. Þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Skapað verði svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum, en jafnframt tryggt að allir hafi að henni jafnan aðgang, óháð efnahag."

ref:

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar

Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007

Júlíus Valsson, 15.1.2009 kl. 23:26

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Það undarlegasta í þessu öllu er að menn eru nú ákaflega undrandi yfir því að nú skuli loksins einn ráðherra fylgja stefnuskrá flokks síns".

Júlíus Valsson, 2009.

 "Skapað verði svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum, en jafnframt tryggt að allir hafi að henni jafnan aðgang, óháð efnahag" hefur lítið með áherslur Guðlaugs Þórs að gera. Hann vildi samkvæmt stjórnsýslufræðingnum ekkert hafa með að gera þetta tal um "jafnan aðgang, óháð efnahag" í löggjöfina um Sjúkratryggingar Íslands. Hann vildi ráða frjálshyggjumann yfir Sjúkratryggingar Íslands og engan annan. Hann vill gera sjúklinga að féþúfu á altari nýfrjálshyggjunnar. Ekkert af þessu er í stjórnarsáttmálanum. Það þurfti fimm-manna sendinefnd frá Samfylkingunni til að troða "jafnan aðgang, óháð efnahag" upp í kokið á honum.Segir stjórnsýslufræðingurinn, innanbúðarmanneskjan.

Merkilegt, nú á þessum tímum, að mönnum detti í hug að ekki bara verja heldur trana frjálshyggjunni fram. Þessa dagana ættu frjálshyggjumenn að læðast lúpulegir með veggjum og segja "afsakið" í öðru hverju orði.

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.1.2009 kl. 23:52

14 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk fyrir pistilinn og slóðina en erindið er reyndar ekki inni en ég sá það á RUV vefnum. Ég held að sjálfstæðismönnum finnist að þeir eigi að stjórna einir, þeir hafa gert það svo lengi. Ég er ekki viss um að samfylkingarfólk sé allt sama sinnis, réttara sagt veit ég að svo er ekki.  Þú hefur sjálfur greint þessi mál ágætlega áður.

Sigurður Þórðarson, 16.1.2009 kl. 00:40

15 Smámynd: Óskar Arnórsson

Góður pistill. Ég er svo reiður að mér langar að setja ca. 40 manns í gapastokk. Er með listan yfir þá sem hafa áhuga, sem  eiga heima í þeim.. 

Óskar Arnórsson, 16.1.2009 kl. 00:45

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Friðrik, þú ert nú gamall blaðamaður og margir kollegar þínir hafa í gegnum tíðina frekar viljað fást við það sem er auðvelt að skrifa um, en það sem er merkilegt. 

Auðvitað var stærsta fréttin varðandi hana Sigurbjörgu, að landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins var stjórnarsáttmálanum yfirsterkari, að fagleg nálgun var bara skálkaskjól fyrir ófaglega ákvörðunartöku, að þessi blessaða stofnun er bara sett á fót til að auka álögur á sjúklinga í landinu.

Marinó G. Njálsson, 16.1.2009 kl. 01:00

17 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Það er virkilega gaman að lesa bloggið þitt, Friðrik, og athugasemdirnar. Sem reyndur blaðamaður hefur þú bakgrunnsþekkingu til að fjalla um málefni samtímans af þekkingu og innsæi.

Þá hefur það mikið skemmtigildi að sjá skína í gegn um skrifin hvaða stjórnmálaöflum menn eru hlynntir. Viðbrögðin við orðum Sigurbjargar er eitt kostulegasta dæmið þar um og menn eru strax farnir að skjóta hverjir á aðra um frjálshyggju og rauðu höndina á víxl!

Og svo snýst það mál alls ekkert um stjórnmálaskoðanir, þöggun eða andstöðu við eitt eða neitt. "Rísandi stjarna" í opinbera geiranum var áminnt um að koma vel fyrir, hvort sem hún mælti með eða móti ríkisstjórn, rétt eins og gerðist í sögunum í Æskunni í gamla daga!

Flosi Kristjánsson, 16.1.2009 kl. 10:01

18 Smámynd: Júlíus Valsson

Ég hef nú ekki hundsvit á stjórnmálum en tek það fram að ég er stjórnarsinni.

Það væri nú meiri aumingjaskapurinn ef stjórnmálamenn reyndu ekki að koma viðhorfum flokks síns og stefnuskrá inn í stjórnarsáttmála. Mér sýnist það hafa tekist bærilega í þetta sinn og með fullu samþykki samstarfsflokksins. Er það ekki annars venjan? Af hverju eru menn svona undrandi á því?  

Júlíus Valsson, 16.1.2009 kl. 11:32

19 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er nokkuð viss um að þessi umvöndun kemur frá Guðlaugi Þór í upphafi.  Hann veit að Sigurbjörg ætlar að tala á fundinum.  Hann óttast það sem hún hefur fram að færa.  Hann veit líka að þeim er vel til vina henni og Ingibjörgu.  Hann setur sig í samband við utanrílkisráðherrann og biður hana að tala Sigurbjörgu til.  Þetta er eina skynsamlega niðurstaðan.  Ingibjörg Sólrún hafði enga ástæðu til að óttast umræðu Sigurbjargar.  Hún var því að gera Guðlaugi greiða með þessu.  Sýnir hennar dómgreindarleysi að finnast þetta í lagi.  Það útskýrir líka hvers vegna Sigurborg fer fram með málið á fundinum, því hún veit að þessi "vinsamlegu" tilmæli eru komin frá Guðlaugi Þór.  Hann flökti líka og iðaði þegar hann var spurður, um sína að komu að þessu í sjónvarpinu. 

Fyrir mér er þetta augljóst dæmi og hvorugu til sóma.  En dæmigert fyrir íslendinga að byrja strax að þrasa um það sem engu máli skiptir - hvort þeirra átti sökina, þegar það er þeirra beggja skítur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.1.2009 kl. 12:02

20 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"... þú ert nú gamall blaðamaður og margir kollegar þínir hafa í gegnum tíðina frekar viljað fást við það sem er auðvelt að skrifa um, en það sem er merkilegt".

 Ég get ekki verið vel sammála þessu orðalagi Marinó. Stór hluti af blaða- og fréttamönnum vill frekar gera eitthvað sem er merkilegt en eitthvað sem er auðvelt. Aðstæður til tímafrekrar djúpköfunar í blaðamennsku eru hins vegar mjög erfiðar og hafa versnað. Tímaþröng og vinnuálag einkennir stéttina sem aldrei fyrr, nú þegar kreppir að hjá fjölmiðlunum; fjölmiðlum fækkar og starfsfólki fækkar. Nokkrir blaða- og fréttamenn ná þó enn að gera fleira en það sem "auðvelt" er, en þeir mættu vera miklu fleiri.

Bráðlega verða kynntar tilnefningar blaða- og fréttamanna til þrennskonar verðlauna fyrir umfjallanir á nýliðnu ári og við skulum sjá hvort ekki hafi fundist eitthvað sem á verðlaun skilið. Þrátt fyrir að blaða- og fréttamenn hafi fyllilega viðurkennt opinberlega að fjölmiðlar hafi brugðist í aðdraganda fjármálakreppunnar.

 Flosi segir: "Þá hefur það mikið skemmtigildi að sjá skína í gegn um skrifin hvaða stjórnmálaöflum menn eru hlynntir". Ekki veit ég hvort þú átt við mig Flosi, ég viðurkenni vissulega á mig tilteknar persónulegar tilhneigingar til félagshyggju, en ekki að ég sé bundinn einhverjum núverandi stjórnmálaöflum. Kannski áttir þú frekar við þá sem eru að kommentera á færslurnar.

Júlíus. "Það væri nú meiri aumingjaskapurinn ef stjórnmálamenn reyndu ekki að koma viðhorfum flokks síns og stefnuskrá inn í stjórnarsáttmála. Mér sýnist það hafa tekist bærilega í þetta sinn og með fullu samþykki samstarfsflokksins": Þessu mótmæli ég ekki út af fyrir sig. Samfylkingin hefur þó túlkað stjórnarsáttmálann á allt annan hátt en Sjálfstæðisflokkurinn í heilbrigðismálum. Ég sótti málþing á vegum flokksins um þessi mál á síðasta ári og þar var túlkunin allt önnur en framkvæmd Guðlaugs Þórs gengur út frá.

Takk öll fyrir innlegginn/umræðuna.

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.1.2009 kl. 12:46

21 identicon

Ég er fegin þessari færslu þinni því ég hafði velt því sama fyrir mér.

Eva (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 13:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband