Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
21.1.2009 | 11:31
Þarf 120.000 manns til að knýja fram kosningar?
Fyrir um það bil aldarfjórðungi skilaði af sér tillögum þáverandi stjórnarskrárnefnd og var þar margt gott sem rataði á prent. meðal annars um þjóðaratkvæði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og framsóknarflokksins voru tregir gagnvart slíku lýðræðistæki, en fulltrúar Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins ekki. A-flokkarnir lögðu til að undirskriftir 20% (Alþýðubandalag) til 25% (Alþýðuflokkur) kjósenda dygðu til að knýja fram þjóðaratkvæði.
Þetta var á "Vilmundartímum" en hugmyndir um þjóðaratkvæði hafa ekki verið háværar á síðustu árum.Í þeirri stjórnarskrárnefnd sem nú situr að verkum hefur ekki náðst samstaða um þetta. "Samstaða er um það í nefndinni að vert sé að rýmka möguleika á því að haldnar séu jóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg málefni. Hins vegar greinir nefndarmenn á um það hversu langt eigi að ganga í því efni". Nefna má að Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar lögðu (í tíð síðustu ríkisstjórnar) fram á Alþingi frumvarp um að fimmtungur (20%) kosningabærra manna í landinu geti krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um lagafrumvarp sem Alþingi hafi samþykkt. Til að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar yrðu bindandi þyrfti meira en fimmtungur
kosningabærra manna að greiða atkvæði gegn gildi laganna. Samband ungra sjálfstæðismanna lagði og til að fjórðungur (25%) kosningabærra manna gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem samþykkt eru af Alþingi. Sjá áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar.
Helgi Hjörvar og fleiri Samfylkingarþingmenn hafa lagt til að meirihluti (50%) kjósenda geti krafist þess að efnt verði til kosninga. Það gera, hvað, um 120 þúsund undirskriftir, eða ríflega tvöfalt það sem Varið land náði á sínum tíma með gríðarlegu átaki. Ég hygg að það myndi kosta mun minni fyrirhöfn að gera einfalda hallarbyltingu í tilfallandi stjórnarflokkum, til að knýja fram stjórnarslit og kosningar!
En 20% hlutfall er fínt hlutfall hvað þjóðaratkvæðagreiðslur varðar. Um 45-48 þúsund manns.
![]() |
Meirihluti geti krafist kosninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 15:32
Þetta er ekki skríll - þetta er ég og þú
Fór á Austurvöll og var þar lengi. Tók myndir og fylgdist vel með, sérstaklega gerði ég mér far um að skoða hvers konar fólk væri mætt. Ég held að það sé fyllilega óhætt að segja að þetta snúist ekki (lengur) um "unga krakka" og "skríl". Það fólk og Svartliðarnir eru kannski mest áberandi í myndum og fremst í flokki, en hitt fólkið var ekki langt undan og framleiddi sinn hávaða: Venjulegt fólk á öllum aldri, sem vill koma skýrum skilaboðum til ríkisstjórnarinnar.
Á þessu skyldi ríkisstjórnin átta sig, ekki síst Samfylkingin, sem á uppruna sinn að rekja til alþýðuhreyfinga. Orð Ingibjargar Sólrúnar um að "þetta" væri "ekki þjóðin" geta ekki gilt lengur, þótt þræta hafi mátt um samsetningu mótmælenda um tíma.
Persónulega held ég að farsælast væri fyrir ríkisstjórnina að segja af sér sem slíkri en mynda þjóðstjórn, sem væri starfsstjórn fram að kosningum - og að þær kosningar fari fram í fyrsta lagi í maí en í síðasta lagi í september/október. Guðvelkomið að kjósa í leiðinni um hvort fara eigi í aðildarviðræður við ESB.
Núverandi ríkisstjórn nýtur alls ekki trausts til að gera það sem þarf að gera og á þann hátt að það gagnast venjulegu fólki best, en ekki útvöldum.
![]() |
Piparúði og handtökur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 13:12
Nú skunda ég á Austurvöll
19.1.2009 | 14:48
Ríkiskirkjan komin niður í 78.6%
Þjóðkirkjan er kominn alla leið niður í 78.6% af landsmönnum (1. des. sl.). Hlutfallslega varð þar fækkun úr 80,1% í 78,6% milli ára, sem er gríðarlegt stökk niður á við. Fyrir um það bil 15 árum var hlutfallið 93%. Af 248.783 landsmönnum 16 ára og eldri tilheyrðu rúmlega 53.200 manns öðrum trúfélögum eða voru utan trúfélaga. Enn aukast rökin fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju.
Meðlimir helstu trúfélaga 16 ára og eldri 1. desember 2008 | |||
Fjöldi | Hlutfallsleg skipting | ||
Alls | 248.783 | 100,0 | |
Þjóðkirkjan | 195.576 | 78,6 | |
Fríkirkjur | 11.939 | 4,8 | |
Fríkirkjan í Reykjavík | 6.008 | 2,4 | |
Fríkirkjan í Hafnarfirði | 3.735 | 1,5 | |
Óháði söfnuðurinn | 2.196 | 0,9 | |
Trúfélög utan Þjóðkirkju og fríkirkjusafnaða | 14.176 | 5,7 | |
Kaþólska kirkjan | 6.650 | 2,7 | |
Hvítasunnukirkjan á Íslandi | 1.625 | 0,7 | |
Ásatrúarfélag | 1.168 | 0,5 | |
Önnur skráð trúfélög | 4.733 | 1,9 | |
Önnur trúfélög og ótilgreint | 19.323 | 7,8 | |
Utan trúfélaga | 7.769 | 3,1 |
(Heimild: Hagstofa Íslands)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
19.1.2009 | 12:42
Ég trúi ekki Sigga Sheik
Ég er sammála Þeirri línu sem mér sýnist vera ráðandi varðandi trúverðugleika Sigurðar Einarsson í Kaupþingi um "fiffið" í kringum Sheikh Mohamed bin Khalifa Al-Thani og kaup hans á rúmlega 5% hlut í Kaupþingi: Ég tek ekki hið minnsta mark á yfirlýsingum Sigurðar og tali hans um "misvísandi" fjölmiðlafréttir. Það er Sigurður sem er misvísandi.
Sigurður Einarsson og aðrir forkólfar hins fallna bankaheims hafa misst allt traust og trúverðugleika. Í mínum huga er Sigurður klíkumeðlimur S-hópsins helstu krimmanna úr röðum samvinnuhreyfingarinnar, sem sviku þá frómu stefnu til að verða moldríkir. Hann er af svipuðum kalíber og Ólafur Ólafsson og sá versti af þeim öllum; Finnur Ingólfsson.
Þessir menn njóta þess trausts sem þeir eiga skilið. Fyrr heldur en Fjármáleftirlit og rannsóknaraðilar staðfesta orð Sigurðar þá er þeim einfaldlega ekki trúað. Þannig er það.Eða hvað finnst ykkur hinum?
![]() |
Ekkert óeðlilegt við viðskiptin við Al-Thani |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.1.2009 | 13:47
Samfylkingin ibbar smá gogg
Ekki fer á milli mála að það hafa myndast brestir í stjórnarsamstarfið. Brestirnir heyrast í tengslum við útkomu auka-landsfundar Sjálfstæðisflokksins og nú hefur Samfylkingin boðað einhvers konar fundarhöld til að ... hvað var það kallað ... skerpa stefnu sína? Össur lætur litla kínverja springa af og til og alls ekki virðist óréttmætt að gera ráð fyrir kosningum í ár.
Þær kosningar eiga ekki að koma of snemma, það hef ég sagt fyrr. Í fyrsta lagi í maí/júní, en jafnvel ekki fyrr en í september/október. Annars vegar er brýnt að óánægju- og reiðialdan í samfélaginu fái að formast í nýrri (nýjum) pólitískri breiðfylkingu (flokki), sem nái að skipuleggja sig og taka þátt í kosningum af myndugleika. Ef það gerist hins vegar ekki þá verður óánægt og reitt fólk að fá gott tækifæri og tíma til að hreinsa til í "gömlu" flokkunum með lýðræðislegum hætti; koma í veg fyrir uppstillinga-áráttu þeirra sem verma nú valdasætin og knýja fram lýðræðislegt val á nýrri forystu meðsem opnustum prófkjörum. Þetta hef ég tuðað um áður og tuða enn.
Ég leyfi mér og að bæta því við að ríkisstjórnin ætti fram að þeim kosningum fyrst og fremst að hegða sér eins og starfsstjórn og einbeita sér að lausn brýnustu vandamála. Þessi ríkisstjórn á ekki að efna til verulega umdeildra kerfisbreytinga, eins og að auka einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Og sem slík starfsstjórn ætti hún að hleypa að fólki sem áunnið hefur sér traust meðal hins reiða almennings, í lykilembætti og úttektir. Menn eins og Þorvaldur Gylfason, Vilhjálmur Bjarnason, Ragnar Önundarson, Lilja Mósesdóttir (fleiri mætti nefna); þau eiga að vera í stöðu til að hafa bein og formleg áhrif á ákvarðanir stjórnvalda.
Starfsstjórnin og Alþingi ættu og að dusta rykið af fjölmiðlalagafrumvarpi því sem þverpólitísk samstaða náðist um (en menntamálaráðherra treysti sér ekki til að knýja í gegn (ég er EKKI að tala um Davíðs-frumvörpin)), endurskoða það og laga að aðstæðum og gera svo að lögum. Þar sem aðaltakmarkið væri að efla sjálfstæði ritstjórna fjölmiðla og gera rekstur fjölmiðla bæði gagnsærri og auðveldari. Bæði nú og á komandi mánuðum og árum er brýn nauðsyn að hafa hina lýðræðislegu umræðu öfluga og aðgengilega - og óbrenglaða af utanaðkomandi og ólýðræðislegum öflum.
17.1.2009 | 13:56
Ástþór til Vanúatú
Ég er einn af þeim mörgu sem töldu það þjóðráð hjá Róberti Wade að Davíð Oddsson yrði gerður að sendiherra (eða bara eitthvað) á Kyrrahafseyjunni Vanúatú. Þar getur hann sest á friðarstól og samið ljóð og smásögur um Hannes. Þessu til viðbótar langar mig til að biðja Davíð um að taka Ástþór Magnússon með sér. Það yrði líka góð landhreinsun.
![]() |
Fundurinn ólöglegur? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.1.2009 | 13:33
Enga óreiðumenn í heilbrigðisþjónustuna, takk
Benedikt Jóhannesson af Engey er einn af þeim frjálshyggjumönnum sem koma fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins að skipulagsbreytingum á heilbrigðisþjónustunni og stendur þar með Guðlaugi Þór Þórðarsyni að áformum um einkavæðingu á þessu viðkvæma sviði almannaþjónustunnar. Það er því merkilegt að lesa pistil hans um óreiðumennina í bönkunum, sem í raun eru sömu öflin og hans fólk vill hleypa að heilbrigðiskerfinu.
Varnaðarorð hans (sem svo má kalla) gilda enda ekki bara um fjármálakerfið, heldur um öll önnur svið sem nýfrjálshyggjan og gróðaöflin vilja tileinka sér og sjóðum sínum. Óreiðumennirnir í bönkunum eru að stofni til sömu óreiðumennirnir og komu landinu á kaldan klaka og sömu óreiðumennirnir og vilja nú gera heilsubrest manna að féþúfu. Útlendingar treysta Róberti Wessmann og hans líkum ekkert betur en óreiðumönnunum í bönkunum. Leiðin til að feta okkur "frá ánauð til frelsis" liggur ekki um þá almannaþjónustu sem mikill meirihluti landsmanna vil að verði áfram í sameignarrekstri á vegum hins opinbera.
Benedikt er stjórnarformaður "Sjúkratrygginga Íslands", hinnar nýju stofnunar sem er lykillinn að leið Sjálfstæðisflokksins til aukinnar frjálshyggju í heilbrigðissviðinu. Forstjórinn er Steingrímur Ari Arason, einn harðasti boðberi nýfrjálshyggjunnar á Íslandi og fyrrum Einkavæðingarnefndarmaður. Þessir menn vilja hleypa óreiðumönnunum að til að gera heilsuleysi landsmanna að féþúfu og gróðaveg. Þar er ekki rætt um góðviljaðar sjálfseignastofnanir, heldur fyrirtæki sem leita hámarksgróða. Fyrirtæki sem meta eigin hag ofar hag "viðskiptavinanna".
Var síðustu daga með skoðanakönnun á síðunni og hún endurspeglar ágætlega viðhorf lesenda bloggsins míns, sem aftur ríma vel við fyrri alvöru kannanir um afstöðuna til rekstrarforma á heilbrigðissviðinu. Svona varð niðurstaðan:
Spurt er: Á heilbrigðissviðinu vil ég:
24,0% Aukinn einkarekstur sjálfseignastofnana
1,8% Aukinn einkarekstur hagnaðarvonar
Samtals aukinn einkarekstur: 25.8%
9,6% Minnka einkarekstur sjálfseignastofnana
37,7% Minnka einkarekstur hagnaðarvonar
Samtals minni einkarekstur: 47.3%
18,0% Óbreytt hlutfall einkareksturs
9,0% Ekkert af ofangreindu
167 svöruðu.
Að lokum þetta: Er ekki hægt að senda Ástþór Magnússon til Vanúatú með Davíð Oddssyni?
![]() |
Telja að óreiðumenn stjórni bönkunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.1.2009 | 13:33
Mannlíf í "útgáfuhlé" - fjölmiðlar í lífróðri
Ekki er nú mikið bloggað um þau stórtíðindi að tímaritið Mannlíf hafi verið sett í "útgáfuhlé", sem mér sýnist miðað við stöðuna á fjölmiðlamarkaðinum þýða niðurlagningu um nokkurt skeið. Þetta er enn eitt dæmið um þann ólgusjó sem fjölmiðlar eru í og gerir blaða- og fréttamönnum sífellt erfiðara um vik að vinna vinnu sína almennilega. Einmitt núna þegar þjóðin þarf hvað mest á gagnrýninni fjölmiðlun að halda.
Mannlíf hefur í gegnum árin alltaf verið með beittar og gagnrýnar greinar á síðum sínum (þótt áherslan á það hafi verið mismikil eftir ritstjórum). DV tilheyrir sama útgáfuaðilanum og hefur þurft að skera niður hjá sér (fjöldi blaðsíðna) þótt kraftur sé í blaðinu. Dagblaðið 24 stundir er horfið, búið að skera niður og sameina fréttastofur RÚV, fréttastofur Stöðvar 2 og Bylgjunnar hafa farið í gegnum hagræðingu með fækkun, Mogginn rær lífróður og fleira mætti nefna.
Blaða- og fréttamenn kjósa þessa dagana fyrir árlega tilnefningu til blaðamannaverðlauna. Margir gera það áreiðanlega með hálfum hug vegna fjármálakreppunnar og almennrar viðurkenningar á að fjölmiðlar hafi brugðist í aðdraganda kreppunnar. En ýmislegt var ágætlega gert samt. Og blaða- og fréttamenn hafa stigið á stokk og lofað að gera betur. Það verður hins vegar ansi erfitt við sífelldan niðurskurð og "útgáfuhlé". Hugsanlega finnst í vaxandi mæli mótvægi í netmiðlum. Vonandi. Hins vegar ætti ríkið einnig að íhuga að finna leiðir til að létta undir með rekstri fjölmiðla (með sanngjörnum hætti), enda er hlutur fjölmiðla í hinni lýðræðislegu umræðu viðurkenndur og talinn mikilvægur.
Ég vona alltént að ekki fari fleiri fjölmiðlar undir græna torfu eða í "útgáfuhlé".
![]() |
Mannlíf fer í útgáfuhlé |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.1.2009 kl. 02:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.1.2009 | 11:59
Það sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir sagði aðallega...
Ruglið í kringum aðvörunina/hótunina frá ráðherra, sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir nefndi í aðdraganda ræðu sinnar á borgarafundinum, hefur að ósekju leitt alla athygli fjölmiðla og almennings frá því sem hún sagði í sinni eiginlegu, skrifuðu og úthugsuðu ræðu. Það er í sjálfu sér mest Sigurbjörgu sjálfri að kenna, enda var þetta framhjáhlaup hennar illa ígrundað (rétt eins og aðvörunarorð vinkonunnar, hvernig sem þau voru annars meint).
Ég tel ljóst að Sigurbjörg er markeruð af samskiptum sínum við tiltekna ráðamenn. Hún sagði á kolrangan hátt frá sögunni um aðvörunina og mátti vera ljóst af framhaldinu að rökstuddur grunur myndi falla á Guðlaug Þór. Það var alls ekki óeðlileg ályktun, þótt fólk hafi gjarnan mátt stilla fullyrðingum um slíkt í hóf í ljósi óvissunnar.
En yfir litlu verður Vöggur feginn. Núna keppast sjálfstæðismenn við að pissa í skóinn sinn og fá yl af þessu aðvörunarmáli. Hótunin kom frá ISG hrópa þeir og maður heyrir feginleikann í röddinni og gleðigrátstafinn í kverkunum.
En menn tala ekki um það sem á eftir kom í innleggi Sigurbjargar - ræðunni sjálfri; þessari skrifuðu og skipulögðu. Þar var Sigurbjörg ekki að fjalla um ISG, heldur um Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sem vinnur eftir Landsfundasamþykkt Sjálfstæðisflokksins en ekki stjórnarsáttmála, ráðherra sem hunsar reglur um mannaráðningar, ráðherra sem ætlar sér að einkavinavæða heilbrigðisþjónustuna og mismuna þeim sem þurfa á henni að halda. Þessu skyldu menn ekki gleyma í öllum hamaganginum og gutl-hávaðanum af kólnandi hlandinu í skóm sjálfstæðismanna. Öllu þessu lýsti stjórnsýslufræðingurinn úthugsað og af yfirlögðu ráði - og lagði starfsheiður sinn undir. Um þessi aðvörunarorð tala sjálfstæðismenn ekki og fjölmiðlar ekki heldur.
Minni á skoðanakönnun hér til hliðar á blogg-síðunni minni; afstaðan til einkareksturs í heilbrigðisþjónustunni.
![]() |
Ráðlegging eða boð? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |