Mannlíf í "útgáfuhlé" - fjölmiðlar í lífróðri

Blöð og tímarit sem Birtíngur hefur gefið út.Ekki er nú mikið bloggað um þau stórtíðindi að tímaritið Mannlíf hafi verið sett í "útgáfuhlé", sem mér sýnist miðað við stöðuna á fjölmiðlamarkaðinum þýða niðurlagningu um nokkurt skeið. Þetta er enn eitt dæmið um þann ólgusjó sem fjölmiðlar eru í og gerir blaða- og fréttamönnum sífellt erfiðara um vik að vinna vinnu sína almennilega. Einmitt núna þegar þjóðin þarf hvað mest á gagnrýninni fjölmiðlun að halda.

Mannlíf hefur í gegnum árin alltaf verið með beittar og gagnrýnar greinar á síðum sínum (þótt áherslan á það hafi verið mismikil eftir ritstjórum). DV tilheyrir sama útgáfuaðilanum og hefur þurft að skera niður hjá sér (fjöldi blaðsíðna) þótt kraftur sé í blaðinu. Dagblaðið 24 stundir er horfið, búið að skera niður og sameina fréttastofur RÚV, fréttastofur Stöðvar 2 og Bylgjunnar hafa farið í gegnum hagræðingu með fækkun, Mogginn rær lífróður og fleira mætti nefna.

Blaða- og fréttamenn kjósa þessa dagana fyrir árlega tilnefningu til blaðamannaverðlauna. Margir gera það áreiðanlega með hálfum hug vegna fjármálakreppunnar og almennrar viðurkenningar á að fjölmiðlar hafi brugðist í aðdraganda kreppunnar. En ýmislegt var ágætlega gert samt. Og blaða- og fréttamenn hafa stigið á stokk og lofað að gera betur. Það verður hins vegar ansi erfitt við sífelldan niðurskurð og "útgáfuhlé". Hugsanlega finnst í vaxandi mæli mótvægi í netmiðlum. Vonandi. Hins vegar ætti ríkið einnig að íhuga að finna leiðir til að létta undir með rekstri fjölmiðla (með sanngjörnum hætti), enda er hlutur fjölmiðla í hinni lýðræðislegu umræðu viðurkenndur og talinn mikilvægur.

Ég vona alltént að ekki fari fleiri fjölmiðlar undir græna torfu eða í "útgáfuhlé".


mbl.is Mannlíf fer í útgáfuhlé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Friðrik, af hverju eru þetta meiri stórtíðindi, en að loka hafi þurft öllum verslunum BT nema tveimur eða að BYGG hafi dregið saman seglin svo mikið að varla er nokkurt segl uppi.  Það eru allir að róa lífróður.

Mér finnst þessi frétt miklu fremur lýsa skynsemi þeirra sem ráða ríkjum hjá Birtingi.  Það er jú ljóst að tímaritin er það fyrsta sem fýkur, þegar skera þarf niður útgjöld heimilanna.  Næst eru það áskriftir sjónvarpsstöðvanna (þ.e. 365 eða hvað það heitir).  Það kom lymskuleg hækkun hjá þeim um daginn, þar sem allt í einu var farið að rukka um afnotagjald fyrir aukamyndlykil.  Nú afsökunin var svo aumkunarverð, að manni lá við hlátri.

Marinó G. Njálsson, 16.1.2009 kl. 14:45

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já Marinó, hverjum þykir sinn fugl fagur og allt það. Vegna minnar menntunar og starfsreynslu þá geri ég sjálfsagt meira úr mikilvægi fjölmiðla en margur annar.

Ég hef tilhneigingu til að líta alvarlegum augum á mikilvægi hinnar lýðræðislegu umræðu og telja fjölmiðla gegna lykilhlutverki þar. Tölvubúðir og byggingavöruverslanir koma og fara en áfram verður hægt að kaupa tölvur og byggingavörur sem í engu hafa skerst að gæðum og gagnsemi.

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.1.2009 kl. 14:53

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Friðrik, ég skil alveg þína afstöðu, en tímarit eins og Mannlíf eru orðin á eftir í þjóðfélagsumræðunni.  Vefurinn, hvort heldur bloggið eða önnur birtingarform skoðanaskipta, hefur tekið yfir.  Mér þætti það t.d. mun alvarlegra, ef Mogga-blogginu yrði lokað eða það sett í "útgáfufrí".  Jafnvel prentútgáfur dagblaðanna eru að verða undir í baráttunni við vefinn.

Vandi tímaritanna er að þau hafa ekki haft nægilega lifandi vettvang á vefnum.  Þessu verða þau að breyta ætli þau að lifa af.  Svo einfalt er það.

Marinó G. Njálsson, 16.1.2009 kl. 15:22

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Varðandi tölvubúðir o.s.frv., þá var fjölskyldufyrirtækinu lokað um daginn, þ.e. versluninni Iðunni.  Þetta fyrirtæki var stofnað af Viktoríu Bjarnadóttur og fleirum árið 1934.  Það tóku fáir eftir þessu, vegna þess að þetta var bara eitt strá í flórunni.  Það sama gildir um Mannlíf.

Marinó G. Njálsson, 16.1.2009 kl. 15:25

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, ég skil að lokun fjölskyldufyrirtækisins sé þér ofarlega í huga og þykir leitt að heyra af lokun þess. Og meðtek orð þín um fjölmiðlana án mikilla mótmæla.

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.1.2009 kl. 15:57

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Björn Ingi er hættur á Markaði Fréttablaðsins og er óhætt að segja að staða hans sem ritstjóri þar hafi orkað tvímælis vegna pólitískrar stöðu hans. Sama má kannski segja um væntanlegan net-fjölmiðil hans, en auðvitað verður reynslan að dæma þar um. Í mbl.is kemur þetta fram eftir honum (og hefur með innihald færslunnar að gera):

"„Fréttablaðið hefur ekki farið varhluta af þessu, ekki heldur Markaðurinn, viðskiptablað þess. Á undanförnum mánuðum hefur því miður þurft að rifa seglin þar á öllum sviðum, með fækkun starfsfólks, minna blaði og nú síðast fækkun útgáfudaga. Slíkar ráðstafanir eru auðvitað skiljanlegar í árferði sem þessu og í framhaldi af því varð niðurstaða milli mín og stjórnenda blaðsins í dag um að ég láti af störfum sem viðskiptaritstjóri á Fréttablaðinu. Þakka ég samstarfsfólki mínu á Markaðnum og Fréttablaðinu einstaklega áhugaverð kynni á undanförnum mánuðum,“ segir Björn Ingi Hrafnsson á bloggsíðu sinni.

Hann segist verða áfram með þátt sinn Markaðinn með Birni Inga á Stöð 2. Þá segist hann ætla að láta verða af gömlum draumi sem hann hafi lengi gengið með í maganum, en það er að stofna eigin fjölmiðil með fréttum, skoðunum og fréttaskýringum á Netinu".

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.1.2009 kl. 16:05

7 identicon

Sæll.

Íslendingar hafa alltaf verið miklir fréttafíklar. Ætli það hafi ekki gert það að verkum að allt of margir fjölmiðlar voru stofnaðir.  Það ætti ekki að leyfa fyrirtækjum að fljóta áfram af því bara.  Sjáum nú hver staðan er orðin eftir að fyrirtæki eins og t.d. Exista hafa fengið alveg hreint fáránlega mikla peninga að láni (og greinilega Árvakur líka) án þess að geta nokkurn tímann staðið undir því.

Fyrirtæki (og fjölmiðlar) sem geta ekki staðið undir sér ættu að hætta rekstri - hver segir að við *þurfum* endilega Moggann?  Ætli myndi ekki einhver annar stofna dagblað sem gæti þá staðið undir sér?

Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband