Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þegar löggan lúrir á gögnum

Það er vitaskuld átakanlegt að hugsa til þess að það hafi tekið vel á þriðja áratug fyrir aðstandendur Einars Agnarssonar og Sturlu Steinssonar að fá rannsóknargögn í hendur er varðar vofveiflegan dauðdaga þeirra félaga og að ekki hafi verið teknar skýrslur af fólki.. Ég kannast við svona tregðu, allt of vel, en mér gekk þó öllu betur að mér sýnist.

Furða mig reyndar mjög á því af hverju þessi gagnaaðgangur var svona lokaður, í ljósi þess að nánustu aðstandendur látins einstaklings hafa rétt á aðgangi að gögnum um einstaklinginn eins og hann væri beiðandinn sjálfur. Um aukinn aðgang er að ræða. Því miður fannst mér þetta ekki koma nógu skýrt fram í annars ágætri umfjöllun Kompáss; var ekki örugglega lögfræðingur og/eða réttargæslumaður fyrir drengina, að minnsta kosti lengi framan af og svo í undanförnu upplýsingaátaki? Ekki það, að það þurfi alltaf lögfræðinga, í sjálfu sér óþarfi að gera of mikið úr þeim, en ég veit að embættismenn svara frekar svoleiðis fólki en sauðsvörtum almúga. Eru ekki allir með það á hreinu?

Það var átakanlegt að hlýða á hvert vitnið á fætur öðru lýsa því hvernig ekki var óskað eftir vitnisburði þeirra. Engar skýrslur teknar af augljósum vitnum. Það er auðvitað fáheyrt. Ég kannast mætavel við þetta eftir reynsluna mína af rannsókn RNF og lögreglunnar á flugslysinu í Skerjafirði. RNF spurði helst alls ekki vitni/sjónarvotta og lögreglan talaði seint og illa við grunaða og vitni. Því miður.

En þá er komið að ljótum forsendum slíkra rannsóknaraðila. Og hlustið nú vel. Svona rannsóknaraðilar taka mjög mátulegt mark á sjónarvottum og vitnum. Vilja eingöngu tala við slíkt fólk ef það er óumdeilanlega sérfræðingar og að áþreifanleg sönnunargögn eru ekki fyrir hendi. Þið þarna úti, Jón og Gunna; þið eruð lágt skrifuð. Sjón ykkar og minni eru ónothæf gögn, nema stundum, ef algerlega rekur í nauðir og vitnisburðurinn fellur að þægilegri kenningu.

Á hinn bóginn má ekki gleyma því að margir rannsóknaraðilar eru undirmannaðir, illa mannaðir, vantækjaðir og fjársveltir. 


mbl.is Ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari hafna ásökunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einn sigurinn fyrir einokunarsinna Íslands

Þá eru Atlantsskip búin að gefast upp. Það ætlar ekki að ganga vel að halda uppi samkeppnissjónarmiðum hérlendis. Hvarvetna vegnar best einokunarsinnum og fjandmönnum samkeppni, sem að því er virðist eru flestir "frumkvöðlar" og "athafnamenn" landsins. Hámark eitt, kannski tvö, fyrirtæki á hverju sviði, þrjú þegar best lætur en þá með samráði í Öskjuhlíðinni.

Maður skilur eiginlega ekki að sönnum kapítalistum á Íslandi geti liðið vel. Kannski eru þeir ekki til. Eða teljandi á fingrum annnarrar handar. Enda ríkir ekki kapítalismi á Íslandi, nema helst pilsfaldakapítalismi og einokunarkapítalismi. Sumir kunna að koma auga á smá samkeppni á afmörkuðum sviðum, en það er iðulega gervi-samkeppni.

Kapítalismi á Íslandi gengur út á að yfirtaka markaðinn og blóðmjólka almenning/neytendur. Einu lögaðilarnir sem ekki hafa einokun/fáokun á sinni stefnuskrá eru almannaþjónustufyrirtæki hins opinbera. Og unnið er að útrýmingu slíkra fyrirtækja og koma þeim í hendur einkavinanna, svo úr fáist almennileg einokun.

Ég skora á ykkur að benda mér á svið einkareksturs þar sem samkeppni ríkir og fleiri en þrír eru um hituna (ég er ekki að tala um veltulitla sjálfsæða verktaka). Koma svo!


mbl.is Atlantsskip semja við Eimskip og hætta rekstri skipa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísitölubundin einkavæðing tískustefnu í leikskólarekstri - svindl!

Þetta er auðvitað gjörsamlega út í hött. Einkavæddur leikskóli sem reynist dýrari en samfélagsreknir leikskólar og meðal annars vegna þess að tískufyrirbrigðið Hjallastefnan fær vísitölubindingu á samning sinn meðan samfélagsreknir leikskólar mega kokgleypa verðbólgunni. Þetta er einfaldlega svindl og blekkingar.

"... samningur bæjaryfirvalda við “Hjallastefnuna ehf.” er vísitölubundinn meðan aðrir leikskólar á Akureyri fá fasta upphæð árið 2008, þrátt fyrir um 12% verðbólgu" segir í bókun fulltrúa VG á Akureyri en samt er Hlynur Hallsson ekki hugrakkari en svo að hann treystir sér ekki til að lýsa ósvinnunni sem gagnrýni á Hjallastefnuna. Eins og menn vita er sú stefna af einhverjum stórundarlegum ástæðum í tísku.

Þegar samfélagsþjónusta er einkavædd er lágmark að hún njóti ekki forréttinda gagnvart almannaþjónustunni. Hver er tilgangurinn með einkavæðingu ef við tekur dýrari og að líkindum verri þjónusta?


mbl.is Dýrara að reka leikskólann Hólmasól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar: Fljótfærnisleg bommerta Víkurfrétta

Ein helgasta klásúla siðareglna blaðamanna er að vanda upplýsingaöflun og gefa fólki sem fjallað er um færi á að svara fyrir sig. Blaðamaður Víkurfrétta á Suðurnesjum flýtti sér heldur mikið á dögunum og hefur nú fengið yfir sig siðanefndarúrskurð. Algerlega óþarfan úrskurð og grunar mig að blaðamaðurinn hafi frekar viljað hafa það sem skemmtilegar hljómaði en að spyrja umfjöllunarefnið um réttmæti og áreiðanleika upplýsinganna.

Í umæddu tilviki (farið á press.is til að fá smáatriðin)birtu Víkurfréttir frétt um fjóra svarta ruslapoka á stað þar sem þeir áttu ekki heima og því um umhverfissóðaskap að ræða. Blaðamaðurinn virðist hafa grúskað í ruslinu og séð umslag með nafni manneskju - og það var honum nóg til að fullyrða að viðkomandi manneskja væri sóðinn. Fréttin var skrifuð sem beint ávarp til viðkomandi nafngreindrar konu, sem var beðin um að koma ruslinu sínu til eyðingar hjá Sorpeyðingarstöð Suðurnesja.

Þarna réðu vafalaust góðkynja áhyggjur af umhverfi för en líka möguleiki að blaðamaðurinn hafi beinlínis viljað kenna konunni mannasiði. En hann hafði enga beina sönnun fyrir því að viðkomandi kona væri sóðinn og HAFÐI EKKI SAMBAND VIÐ HANA til að gefa henni færi á að játaða eða neita "sök". Það var þó gert fyrir næstu umfjöllun og hún neitaði þá sök en blaðamaðurinn sá ástæðu til að draga trúverðugleika hennar í efa með því að benda á umslagið með hennar nafni. Þetta eru auaðvitað óvönduð og ólíðandi vinnubrögð. Nafnbirtingin átti alls ekki rétt á sér fyrr þá heldur en viðkomandi kona hefði fengið tækifæri á að segja sína hlið málsins.

Þetta er ekki meðal "stærri" siðamála blaða- og fréttamanna, en er ágætis dæmi um mistök sem auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir. En þá hefði fréttin kannski aldrei farið út - rétt eða röng!


mbl.is Brutu gegn siðareglum blaðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tákna rauðir túlipanar bláa heilbrigðisstefnu?

 Ég sé að hjartalæknum gengur vel í "kjarabaráttu" sinni. óskandi að þeim gengi betur með baráttu sína fyrir auknum fjárveitingum til að eyða biðlistum í heilbrigðisþjónustunni. En það eru tvær auglýsingar í Fréttablaðinu 1. maí sem mér eru nú hugleiknar. Og ég er forviða.

Eins og gengur var Samfylkingin með auglýsingu þennan hátíðsdag, rauða baráttuauglýsingu, þar sem talað var um "verkalýðinn". Það er til marks um breytta tíma að í auglýsingunni var helsta skrautið RAUÐIR TÚLÍPANAR. Altso hvað!? Túlípanar? Eru ekki rauður RÓSIRNAR alþjóðlegt tákn jafnaðarmanna?! Síðast þegar ég vissi. Hvað táknar þessi breyting. Hefur jafnaðarmannastefnan verið yfirgefin og tekin upp einhver óútskýrð túlípanastefna?

Og BEINT UNDIR þessari auglýsingu var önnur frá Háskólanum í Reykjavík (viljandi? tilviljun?) þar sem auglýst er "spennandi" meistaranám fyrir "framsækna stjórnendur" og frumkvöðla í heilbrigðismálum. Og takið nú eftir. Námið er sagt fyrir "metnaðarfulla einstaklinga sem ætla sér hlutverk í þeim breytingum sem framundan eru í heilbrigðismálum Íslendinga".

Háskólinn í Reykjavík virðist allt vita um þessar breytingar og nógu mikið til að fjárfesta í spennandi meistaranámi fyrir "frumkvöðla". Getur einhver sagt mér hvaða breytingar þetta eru? Er getið um þær einhvers staðar, í stjórnarsáttmála og slíku? Erum við hér að tala um að stórar ákvarðanir liggi fyrir um stórfellda einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni?

Ég er ekki viss um að þingmenn Samfylkingarinnar geti svarað mínum spurningum, samanber:

 
"Já, hvað er hann að gera? Við vitum ekkert hvað hann er að gera," hrópaði Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í Silfri Egils
16. mars sl. og átti við hvað Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra væri að gera.


mbl.is Samið við hjartalækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalt veldi - nýr ritstjóri

Það er ástæða til að óska Ólafi Þ. Stephensen til hamingju með ritstjórastólinn á því aldna fjölmiðlastórveldi, Morgunblaðinu. Ráðning hans í stólinn kemur ekki á óvart. Mér hefur fundist að hann hafi lengi verið allveg að mæta á vettvanginn. Og örugglega fantafínn millileikur að hann æfði sig á 24 stundum. Enginn efast um fagmennsku hans - og hann skrifar með Zetu.

En það er tregafullt að kveðja Styrmi Gunnarsson (þótt hann muni örugglega láta að sér kveða á öðrum vettvangi). Ég deili ekki með honum pólitískar skoðanir í mörgu, en ég virði þá þróun frá flokksmálgagni til faglegra prinsippa sem orðið hefur í hans tíð. Ef við setjum til hliðar einn eða tvo efnisþætti í blaðinu þá er Mogginn í dag hinn prýðilegasti fjölmiðill, er lesinn af mörgum, hefur rúm fyrir margar skoðanir, sinnir fréttum, fræðslu og upplýsingagjöf og hefur að undanförnu sýnt frumkvæði og dirfsku við að taka upp nýja miðlunarkosti. Nei, ég er ekki að fara að sækja um vinnu á Mogganum. Þessi jákvæðni er sjálfsagt sumarkomunni að kenna.


mbl.is Nýr ritstjóri hlakkar til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er í 9% hópnum og er flokkslaus

Sumir halda að Samfylkingin hafi tapað 9% fylgi frá síðustu kosningum (samkvæmt mælingu Fréttablaðsins) út af því að hann stóð ekki gegn áformum um verksmiðju í Helguvík. Ég er á annarri skoðun. Annars vegar háir Framsóknar-heilkennið flokkinn (örlög samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins) og hins vegar eru vinir velferðarkerfisins farnir að flýja flokkinn. Þetta er minn gildisdómur. Ef þið vitnið í mig þá ber að titla mig stjórnmálafræðing!

Meðan formaður Samfylkingarinnar þeysist um heiminn að reyna að koma okkur í Öryggisráð SÞ þá gengur Geir, Guðlaugi Þór og Vilhjálmi Egilssyni ágætlega að einkavæða almannaþjónustuna og koma sem mestu af velferðarkerfinu í hendur kaupahéðna. Í viðhengdri frétt er að vísu haft eftir Geir að "engin ný stefna hefði verið mótuð um rekstarform Landspítala", en það er auðvitað bara orðhengilsháttur. Þessi áform eru öllum þeim ljós, sem hálft hafa vit eða meira.

Maður á ekkert að vera að segja frá leynilegu atkvæði sínu í síðustu kosningunum. Ég get hins vegar sagt að ég er sem stendur og að óbreyttu meðlimur í 9% hópnum áðurminnsta. Hitt er annað mál að enginn hinna flokkanna höfðar til mín, þannig að ég er í tómarúmi. Æ, æ.


mbl.is Ekki endilega besta hugmyndin að breyta Landspítala í hlutafélag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við ekki að bjarga bönkunum og vera góð við hvítflibbana?

Ég hef illa getið hamið mig yfir tali um að ríkið (sem er þjóðin, þú og ég og allir hinir) komi bönkunum til bjargar, væntanlega með skattfé. Ég segi ekki að ég hati bankana, en þessar okurbúllur hafa farið illa með nógu marga til þess að ég neita að hjálpa þeim. Sömuleiðis er ég allur á iði yfir fréttum um að verið sé að skera niður og draga úr getum efnahagsbrotadeildar til að sauma að brotlegum hvítflibbum. Sem meðal annars fyrirfinnast í bönkunum og öðrum slíkum fjármálafyrirtækjum.

Kannski verð ég ásakaður um öfund út í auðmenn og verður bara að hafa það. En meint öfund er þá bara aukaatriði í þessum málflutningi. Ég les einhvers staðar í dag að bankarnir hafi tekið 1% af peningunum okkar og sett í varajóð, sem ég held að telji 16 milljarða. Þarna liggur okkar björgun, en ég bið bankana um að þiggja ekki skattfé okkar. Að öðrum kosti krefst ég þess að við 8ríkið) fáum hlutabréf í þeim bönkum sem við björgum og gott ef ekki er stórþörf á einum þjóðnýttum banka.

Og hvernig mönnum dettur í hug að skerða möguleika rannsóknaraðila og ákæruvalds við að taka hvítflibbana fyrir er mér hulin ráðgáta. Svindlarar og sukkarar í þeirra röðum eru, segi ég og skrifa, verri en síbrotamaðurinn sem stelur læri í Bónus. Verri.


mbl.is Færri rannsaka hvítflibbana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ef hlutverkin snérust við í dómaramálinu?

Það er full ástæða til að ræða í þaula samskiptin milli stjórnvalda og eftirlitsstofnunarinnar Umboðsmanns Alþingis (Umba), eftir athyglisverðar ávirðingar Árna Matt, setts dómsmálaráðherra, á Umba. Fullyrðingar Árna um hlutdrægni og/eða óvönduð vinnubrögð Umba mega ekki fá að hanga í lausu lofti.

Árni er vitaskuld í vandræðum með að réttlæta þann gjörning að taka Þorstein Davíðsson Oddssonar framyfir hæfari menn við skipan dómara. Það sjá allir í gegnum klíkuráðninguna, enda eru "allir" þaulæfðir í að sjá og greina pólitískar mannaráðningar. Eftir "frænda Davíðs" og "Besta vin Davíðs" sjá "allir" að dæmið með "son Davíðs" er rakið.

Málið var rætt í Kastljósi af Siv Friðleifsdóttur stjórnarandstæðingi og Sigurði Kára Kristjánssyni stjórnarsinna og flokksbróður ráðherrans. Ég segi nú ekkert um þeirra málflutning, annað en að ég lék mér að því í huganum að snúa dæminu við; ef Framsóknarráðherrann Siv hefði gert son eða dóttur vinar síns og flokksbróður að dómara í blóra við hæfnisdóma þá myndi Sigurður Kári stjórnarandstæðingur hafa hávaðasamar skoðanir á spillingunni. Um þetta er ég fullkomlega viss. Þá myndu Sigurður Kári og Siv tala þveröfugt við það sem þau gerðu í Kastljósi. Auga gefur leið að raddir beggja virkuðu ansi holar í mín eyru og ég tilbúnari fyrir vikið að hlusta frekar á sérfræðinga um stjórnskipan landsins, eins og lagaprófessora og stjórnmálafræðinga. Og hljómurinn í ÞEIM röddum er nokkuð afgerandi.


mbl.is Vill utandagskrárumræðu um ummæli Árna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðrik Fimmti

Best að ljúka þessu tilraunatali öllu saman; tilraunin skilaði mér hæst í fimmta sætið og samþykki ég hér með bloggmeistaranafnbótina Friðrik fimmti. Ómar Ragnarsson er síðan búinn að berja í klárinn og ruddi mér með offorsi niður í sjötta sætið. Ég vissi ekki að Ómari gæti verið svona mikil ótukt.

Og að gefnum tilefnum: Ég veit að það eru til fleiri bloggheimar en Moggabloggið. Ég veit að það, að síða er heimsótt, þýðir ekki endilega að síðan sé lesin.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband