Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Léttadrengi misþyrmt - sunnudagslesning

Um 20. ágúst 1924 var níu ára gamall drengur frá Sauðárkróki lánaður sem léttadrengur að bæ í Skagafirði og bar kunnugum saman um að þangað hefði drengurinn farið að öllu leyti heill heilsu, vel til fara og óskemmdur á fótum, í góðum holdum og í fullu fjöri. En næstu fimm vikurnar upplifði drengurinn ungi sannkallaða martröð.

 

Á bænum bjuggu hjón, sem við köllum Guðberg og Jóhönnu, hann 30 ára en hún 24 ára og vanfær af öðru barni þeirra, en fyrir var á heimilinu þriggja ára barn þeirra. Það var hart í ári, kuldatíð og annir miklar. Drengurinn skyldi létta hjónunum verkin.

 

Fimm vikum eftir komu drengsins var nágrannastúlka að nafni Margrét á ferð á hesti sínum nálægt bænum og rakst á drenginn, sem við köllum Jónas, þar sem hann lá á grúfu við þúfu út á víðavangi, rænulítill og illa á sig kominn. Vildi hann ekki fara heim til sín en samþykkti að fara heim með stúlkunni.

 

Heimilisfólk stúlkunnar sá þegar að ekki væri allt með felldu. Drengurinn var þrátt fyrir kuldakast illa klæddur að utanhafnarfötum; í einni prjónapeysu og utanhafnarbrókum sem gengnar voru af öðrum lærsaumi, með prjónahúfu á höfði. Drengurinn var blár í andliti af kulda, berhentur og bólginn á höndum, votur uppfyrir hné og skalf mjög. Hann var magur og vesældarlegur og var þegar háttaður ofaní rúm.

 

Missti allar tær á báðum fótum

 

Þegar Jónas var afklæddur varð fólkinu starsýnt á fætur hans, sem voru mjög skemmdir; bólgnir uppfyrir ökkla og settir kuldapollum og svörtum drepblettum. Tærnar á báðum fótum voru svartar, harðar og alveg dauðar, og lagði fljótlega af þeim ýldulykt.

 

Þarna var drengnum hjúkrað í tæpa viku og var hann framan af varla með réttu ráði. Hann komst í læknishendur í nokkra daga áður en hann var fluttur með strandferðaskipi á sjúkrahús, þar sem hann dvaldi í nokkra mánuði undir stöðugu eftirliti. Ekki var hægt að bjarga miklu; leysti af allar tær á báðum fótum og varð að taka af fremsta hluta nokkurra ristarbeinanna.

 

Mál var höfðað gegn hjónunum Guðbergi og Jóhönnu vegna misþyrmingarinnar. Báru læknar að ekkert hefði getað orsakað ásigkomulag drengsins nema kuldi, vosbúð og illur aðbúnaður.

 

Berðu á þær smjör drengur

 

Við rannsókn málsins kom fram sá framburður drengsins, að hjónin hefðu verið vond við hann og barið hann, þó fremur Guðbergur en Jóhanna. Í eitt skipti hefði hann og verið sveltur, en almennt verið svangur á þeim fimm vikum sem hann dvaldi hjá hjónunum.

 

Hjónin voru hneppt í gæsluvarðhald og lágu fljótlega fyrir játningar þeirra um meginatriði. Sögðust þau ekki hafa veitt því athygli hvort drengurinn væri heill á fótum fyrr en hálfum mánuði eftir að hann kom til þeirra, en þá varð konan þess vör að drengnum væri illt í fótunum. Skoðuðu þau hjónin fæturna og sögðu að þá hafi tærnar á báðum fótum verið orðnar bláleitar og svartar og harðar viðkomu. Prófaði Guðbergur hvort drengurinn fyndi til í tánum með því að klípa í þær, en drengurinn kvaðst ekkert finna til.

 

Sögðust þau þá hafa íhugað að leita ráða hjá hreppstjóra um lækningar, en úr því varð samt aldrei. Þeim duldist næstu daga ekki að drengnum versnaði; varð sjáanlega haltur og bjagaður í göngulagi. Hlífðist hann við að stíga í fæturna en beitti fyrir sig jörkunum utanfótar og hælunum.

 

Síðustu vikuna kvartaði drengurinn mjög yfir ástandi sínu, en ráð Guðbergs var þá að drengurinn skyldi bera nýtt smjör á fæturna, það hefði dugað sér vel gegn sprungum í iljum. Frúin sagði honum hins vegar að sækja hreint vatn í koppinn sinn til að þvo fæturna uppúr. Duldist það hjónunum þó ekki að ástand fótanna fór æ versnandi. Skömmu áður en drengurinn var tekinn frá þeim ræddu þau aftur um að koma drengnum til læknis, en ekkert varð úr framkvæmdinni frekar en áður.

 

Sveltur, barinn og sviptur sængum

 

Hjónin játuðu á sig sakarefnin í meginatriðum, þótt afar treglega hafi gengið að fá þau til að upplýsa nokkuð. Þau viðurkenndu að þrátt fyrir ástand drengsins hefði honum í engu verið hlíft við vosbúð eða útivist og að hann muni daglega hafa verið votur í fæturna. Jóhanna taldi þó að hún hefði fært drengnum þurra sokka á hverjum morgni.

 

Guðbergur játaði að hann hefði hýtt drenginn tvisvar með hrísvendi á berar lendar og barið hann einu sinni í höfuðið með hendinni. Var það á þriðju viku dvalartíma drengsins og gert í refsingarskyni, þar eð drengurinn hefði verið ódyggur og óhlýðinn. Ekki var þó talið sannað að nokkuð líkamstjón hefði leitt af þessari harðneskju.

 

Jóhanna játaði að hún hefði í eitt sinn, að undirlagi bóndans, svelt drenginn í refsingarskyni með því að gefa honum ekki mat eitt kvöldið. Hafði drengurinn þá ekki komið með hest sem hann var sendur eftir. Hann hafi að öðru leyti alltaf fengið nægan mat. Loks þótti það sannað með játningu Jóhönnu að rúmri viku fyrir brottför drengsins hafi hún tekið sængurfatnað allan úr rúmi drengsins (tvær hlýjar sængur sem hann kom með), en látið hann sofa á heydýnu með tvær einfaldar ábreiður ofaná sér. Sagðist hún hafa gert þetta af því drengurinn hefði vætt rúmið að nóttunni.

 

Engar bætur fyrir örkuml

 

Sök hjónanna þótti sönnuð og til þess tekið hve illa þau bjuggu að drengnum, þótt óvenjuleg kuldatíð ríkti og svo kalt "að kúm varð ekki alltaf beitt en jörð gránaði af jeljagangi". Hið megna skeytingarleysi var túlkað sem vísvitandi misþyrming. Undirréttardómari taldi samt duga að dæma hjónin í fimm daga fangelsi við vatn og brauð (þau höfðu þá setið í gæsluvarðhaldi í hálfan mánuð) og greiða sjúkrahúslegukostnað drengsins og málskostnað.

 

Hæstiréttur herti refsinguna upp í 10 daga fangelsi við vatn og brauð.

 

Athyglisvert er að drengnum voru engar örkumlabætur dæmdar; krafa um slíkt var ekki tekin til greina þar eð drengurinn hefði "not beggja fóta sinna þrátt fyrir missi tánna, svo að hann er sæmilega fær til gangs og hefir lestingin á fótum hans ekki spilt heilsu hans eða kröftum svo séð verði eða gert hann óhæfan til að afla sér lífsviðurværis með venjulegri vinnu"!

 

Ofangreint byggir á sönnu dómsmáli - fyrir Hæstarétti. 


(Mogga)bloggarar III.b: Mistök lagfærð

 Mér urðu á hrapaleg mistök við vinnslu síðustu færslu minnar og sé mér ekki annað fært en að grípa hér til lagfæringar. Eftir allt sem á undan er gengið er með öllu óskiljanlegt að mér hafi orðið á svona klaufaleg mistök. Er ég enda sjálfum mér sárreiður.

Ég gleymdi sem sagt að tengja færsluna við frétt í því skyni að hámarka mögulegan lestur færslunnar. Eins og ég hafði boðað vegna umfjöllunarinnar um (Mogga)bloggið þá hugðist ég viljandi tengja þær færslur við mest lesnu innlendu frétt mbl.is hverju sinni, hver svo sem hún væri (og bið Moggabloggið afsökunar á þeirri táknrænu gjörð).

Ég verð því að grípa til endurbirtingar. En í stað þess að kópera og peista hingað inn dettur mér í hug að bara vísa ykkur á færsluna hér fyrir neðan - það er fljótlegra fyrir mig.

Kannski dugar þessi lagfæring mér til að komast yfir Jens Guð þrátt fyrir allt? Eru ekki örugglega allir að lesa um harmleikinn í Bakkatjörn?

 


mbl.is Harmleikur á Bakkatjörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Mogga)bloggarar III: Verið rödd en ekki kvak

Nú er ég auðvitað stokkinn upp í 6. sætið; um leið og ég boðaði skrif um ykkur bloggarana sjálfa þá rauk lesturinn upp. Þetta er þriðja og síðasta færslan um (Mogga)bloggarana. Í fyrri blogg-tilraun minni, sem átti sér stað í mars sl., náði ég með átaki að koma mér úr sama og engu og upp í 5. sæti „vinsældarlista“ Moggabloggsins og í þessu síðara átaki mínu, öðru vísi uppbyggðu, er ég núna kominn upp í 6. sætið sem fyrr segir.

 

Á fyrra tímabilinu skrifaði ég nokkuð títt og prufaði alls konar „brögð“ og „þemu“ í bloggfærslunum, meira að segja kökuuppskrift og hvaðeina. Stóð það átak yfir í vikutíma. Ég setti á tímabilinu ýmsa mismunandi pistla á bloggið. Inn rötuðu pistlar um Mýrarhúsaskólamálið, kristilegt siðgæði, Hannes Hólmstein, heilbrigðiskerfið, umhverfismál, Kópavogíska spillingu, Steiner-dóminn og einnig slengdi ég fram sleggjudómi um ferð 200 kennara til Kína og næstum því Tíbet. Allt var þetta með hinum ýmsu áherslum og þá ekki endilega algerlega mínum eigin!

 

Um það bil sem ég var kominn í 5. sætið og sá ekki fram á að fara ofar, nema með gríðarlegri viðbótarvinnu, slakaði ég á, skrifaði sjaldnar og skrifaði loks skipulega og málefnalega um þungt mál; losunarmálin (útstreymi gróðurhúsalofttegunda). Og þó ég hafi reynt að gera skrifin þau áhugaverð þá hrundu heimsóknirnar og æ færri tóku þátt í umræðunni. Með minni og málefnalegri skrifum tókst mér á bara nokkrum dögum að koma mér úr 5. sætinu niður í það 76. Þetta var sem sagt árangurinn af því að reyna að fá lesendur bloggsins til að lesa og ræða um losunarmálin!

 

Seinna tímabilið hófst 23. apríl og hefur því staðið yfir í 22-23 daga. Ég miðaði að þessu sinni við að jafnaði 1-2 færslur á dag, en að öðru leyti hef ég leikið mér að hinum ýmsu málefnum, tónum:

 

Ég vil skipta þessu seinna tímabili í þrennt. Fyrsta tímabilið: Ég get sagt að það skilaði mörgum heimsóknum að skrifa um Trukkarana og mótmæli þeirra (þau voru þá sæmilega fersk), um jarðgangavitleysuna í Árna Johnsen. Vel gekk líka að grínast með ölvun og ofbeldi „aðkomufólks“ í miðborgina, en langbest í heimsóknum var að fjalla um trúmálaskrif Skúla Skúlasonar, því trúmálaumræða er greinilega mjög mikið lesin og kommenteruð á, einkum ef maður storkar lesendum með æsilegum skoðunum. Annað tímabilið: Frá ca. 28. apríl til 6. maí dró úr heimsóknum hjá mér, enda skrifaði ég í meira mæli en áður þá um almenna pólitík og prufaði syrpu af limru-skrifum (limrur höfða augljóslega ekki til fjöldans). Þriðja tímabilið: Frá um 8. maí fór síðan lesturinn/skoðunin hraðbyri uppávið á ný, en þá kom ég með grínaktugar færslur um stofnun Anti-Rúsínufélags Íslands (ARFI), fjölskyldublogg um afmæli sonar míns heitins, þóttist ætla að segja „allt“ um veru mína hjá Kastljósi, fjallaði um kristilegt siðgæði og hið eldheita mál eftirlaunalög ráðherra og þingmanna. Þessi síðasta blanda kom mér á skömmum tíma úr 31. sæti í 8. sæti.  

 

Besta „trixið“ var síðan núna í lokin; að boða skipulögð skrif um ykkur bloggarana sjálfa og nafngreina súper-bloggarana. Mikill kippur koma á lesturinn/skoðunina og 6. sætið kom í höfn. Eftir miðnætti í kvöld verð ég að líkindum búinn að hrifsa 5. sætið á ný, af Jens Guð – og þá er hringnum lokað, því ég geri mér ekki nokkrar vonir um að fara uppfyrir súper-bloggarana fjóra. Það er of mikið erfiði að reyna það. Hugsanlega gæti ég það með mjög tíðum færslum, sitja við tölvuna allan daginn og hamra inn – en því nenni ég að sjálfsögðu ekki þótt ég gæti.

 

Málið er nefnilega ósköp einfalt. Þó ég segist vera að greina þennan blessaða lista þá skipta einstaka vísbendingar litlu máli; eina almennilega viðmiðunin er hvort þú hafir eitthvað fróðlegt/forvitnilegt/skemmtilegt að segja og hvort þú skapir með því innihaldsríka umræðu á þessum Almenningi. Ef ekki þá ertu bara framlenging á vitleysunni sem ríkti á malefnin.com og ert í raun og veru ekki að taka þátt í neinni þjóðfélagsumræðu. Og það eru einmitt skilaboðin mín til bloggara; verið rödd sem hlustað er á en ekki kvak sem enginn skilur og skilur ekkert eftir sig!

 

P.S. NÝ OG SPENNANDI KÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR! 


Framhjáhlaup I: Pólitík gesta minna

 Miðað við mína daglegu óvísindalegu könnun þá eru gestir bloggsins míns yfir það heila tekið nokkuð dreifðir á pólitíska litrófið, en ef til vill má tala um pínulitla vinstri slagsíðu.

"Vel til vinstri" og "Heldur til vinstri" eru samanlagt með 43% hjá mér, sem ekki er fjarri lagi hvað fylgi Samfylkingarinnar og VG varðar. 16.5% gesta minna skilgreina sig "um miðbikið", sem er heldur betur í hærri kantinum miðað mið Framsóknarflokkinn. Í fljótu bragði mætti ætla að fylgjendur Sjálfstæðisflokksins séu hlutfallslega "of" fáir hjá mér, en svo er ekki þegar betur er að gáð. "Vel til hægri", "heldur til hægri" og "ópólitískur" eru samtals 34.1% og það passar nokkurn veginn við Sjálfstæðisflokkinn. Hí hí. 

Lesandi bloggsins míns er pólitískt:
Vel til vinstri              12.1%
Heldur til vinstri         31.3%
Um miðbikið               16.5%
Heldur til hægri          16.5%
Vel til hægri                 8.8%
Ópólitískur                   8.8%
Annað                           6.0%
182 hafa svarað

(Mogga)bloggarar II: Nokkur ráð til að fjölga innlitum

Nú hafa Moggabloggarar hjálpað mér vel við að finna húsráð við að auka lesturinn/innlitið á bloggi. Ég ákvað að gera sérstaka færslu um þessi ráð og bæta við úr eigin eigin reynsluheimi. Vonandi koma fleiri góð ráð, en auðvitað er besta ráðið það, að hafa eitthvað vitrænt og fróðlegt frá að segja! Bætið endilega við neðangreindan lista með kommentum.

 

 Að skrifa um fjölskylduna / fjölskylduerfiðleika, einkum af hreinskilni, ekki síst um sjúkdóma eða önnur ámóta frávik.

 Að hafa "lokkandi" fyrirsögn og inngang.

 Að skrifa um "heit" mál eins og trúmál, lögreglu- og dómsmál (einkum kynferðisbrot og ofbeldi), kynlíf. Alvarleg mál eins og skipulagsmál og heilbrigðismál hins opinbera eru ekki líkleg til mestu vinsælda, en ná til afmarkaðs markhóps þó.

 Að skrifa margar færslur á dag.

 Að tengja færslur við fréttir.

 Að hafa eitthvað að segja sem skiptir máli!

 Að vanda sig og blogga frá hjartanu. Ef menn eru góðir skrifarar þá skilar það sér oftast í miklum lestri.

 Að tímasetja færslurnar vel; hugleiða hvenær fólk sest helst við tölvuna.

 Að skrifa undir nafni (þótt nafnleysi útiloki ekki árangur).

 Að vera vel og heppilega tengdur „bloggvinum“, sem heimsækja þig, kommentera og vísa á bloggið þitt hjá sér.

 Hægt er að ná langt með því að skrifa fyrir sértækan markhóp.  Skak.blog.is er dæmi; þröngur hópur en heilmiklar flettingar. Jens Guð höfðar til dægurtónlistarfólks.

 Að bloggfærsla manns nái því að vera annað sýnishornið á forsíðu mbl.is, nái sýnishornunum 10 á blogg-forsíðunni sjálfri („Umræðn“), að komast í „heitar umræður“ og „vinsæl blogg“.

- - -  Færslan sem átti að vera númer tvö verður þá númer þrjú og kemur á morgun.

p.s. minni enn á könnunina hér til hliðar


mbl.is Hrópað af þingpöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Mogga)bloggarar I: Um súper-bloggara, kynlíf, trúmál og ofbeldi

Bloggarar eru áhugaverður hópur. Eru þeir eins og fólk er flest og geta þeir talist spegilmynd af umræðunni og áherslunni í samfélaginu? Ef svo er má heita athyglisvert að heitasta umræðan (fjöldi kommenta) er þessar stundirnar um eggjakast á heimili þjóðernissinna í Frjálslynda flokknum (Viðar Helgi Guðjohnsen) og um klámvísur Helgu Guðrúnar Eiríksdóttur. Alltaf myndast heit umræða um trúmál og mjög vinsæl eru fjölskyldublogg, einkum mæðra, sem segja sjúkdóma-/erfiðleikasögu sína og/eða barna sinna. Ykkar val hvort leggja megi eitthvað út frá þessu.

Bloggið er að verða nokkuð viðurkennt form af tjáningu í samfélaginu og á sinn drjúga þátt í sístækkandi hópi álitsgjafa. Ég hef að undanförnu skoðað Mogga-bloggheiminn (ég veit að blogg er víðar) og tekið virkan þátt í þeim tiltekna Almenningi. Ég gerði tilraun með ýmsum tilfæringum í mars og nú í apríl hélt ég uppi stöðugum færslum frá 23. apríl og fram að færslunni sem nú er rituð. Í fyrra skiptið vildi ég markvisst koma mér sem efst á „vinsældarlista“ Moggabloggsins, en í síðara skiptið vildi ég fara hægar í sakirnar, auðga betur umræðuna (fjölga kommentum) og prufa fleiri málefni.

Við komum betur að því síðar, því fyrst er að skoða hversu marga gesti/IP-tölur og flettingar þarf til að komast efst eða ofarlega á téðan „vinsældarlista“. Á þeim bænum hafa undanfarnar vikur og kannski mánuði trónað í fjórum efstu sætunum með litlum undantekningum þau fjögur sem geta kallast súper-bloggararnir:

 

1. Áslaug Ósk Hinriksdóttir aslaugosk.blog.is   15.334 vikufl.

2. Jóna Á. Gísladóttir jonaa.blog.is                  12.803 vikufl.

3. Stefán Friðrik Stefánsson stebbifr.blog.is    12.468 vikufl.

4. Jenný Anna Baldursdóttir jenfo.blog.is        10.527 vikufl.

 

Þetta fólk hefur á tímabilinu náð að halda nokkuð stöðugum miklum vinsældum á Moggablogginu. Enga palladóma ætla ég að fella um þeirra síður, en merkilegt út af fyrir sig hversu ólíkar þessar bloggsíður eru

Stöku sinnum komast óvæntir hopparar um stund inn á þennan súper-lista. Ómar Ragnarsson rauf múrinn um stund og Jónínu Ben tókst um skamma hríð einnig að rjúfa múrinn. Undir það síðasta náði Ásdís Rán Gunnarsdóttir að komast inn í þennan hóp með umræðu í kringum fegurðarsamkeppni, en er skyndilega horfin af topplistanum. En þessi fjögur hafa verið stöðugast uppi.

Efstu tveir bloggararnir á listanum segja einkum fjölskyldusögur sínar, en hin tvö segja einkum álit sitt á þjóðmálunum (önnur til vinstri og hin til hægri). Það hlýtur að teljast ári gott að ná 15 þúsund flettingum núna og raunar 25-30 þúsund flettingum á viku þegar best lét fyrir örfáum vikum (og veðrið var ekki eins gott) og að fá allt upp í 2.500 gesti að jafnaði á dag. Bloggari sem fær ca. 1.500 IP-tölur eða 2.000 gesti til sín á sólarhring er að líkindum að „tala við“ um 2.500 til 3.000 manns á dag (það eru jú fleiri en einn um hverja tölvu). Það er feikilega góðir „lestur“ – og mikið verk að halda honum stöðugum, hvað þá vaxandi. Það er alveg ljóst að mikil vinna liggur að baki því að ná súper-bloggaranafnbót.

Meira í næsta pistli, í kvöld eða á morgun. Fram að því óska ég eftir kommentum um hvað menn telja að einstaklingur þurfi að gera til að komast inn í eða upp að hópi súper-bloggaranna fjögurra.

p.s. merkja við nýja könnun hér til hliðar, takk.

p.s.p.s. bloggfærsla þessi og framhaldsbloggfærslur verða almennt tengdar við þær innlendu fréttir mbl.is sem mest eru lesnar hverju sinni.


mbl.is Yngri en 23 ára bannað að tjalda nema í fylgd með fullorðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heldur Guð með United eða Chelsea?

Sonja Bjork fotboltakappiÞað eru nokkrar mínútur í lokaumferð Enska boltans. Ég hljóp til áðan, niður í bæ og ætlaði í Kolaportið og í bakarí, en allt var lok, lok og læs. Villuráfandi útlendingar höfðu enga skýringu, en ég fann Íslending sem sagði mér að það væri Hvítasunnudagur. Það vissi ég ekki. Var send út fréttatilkynning?

En þetta leiddi mig til spurningarinnar, sem rétt er að spyrja opinberlega núna, áður en leikirnir byrja. Heldur Guð með United eða Chelsea?

Og hvað fallbaráttuna varðar; hvaða botnlið hefur syndgað minnst eða er Guði mest þóknanlegt í þá veru að falla ekki; Fulham, Reading eða Birmingham.  Veit Guð af Íslendingunum í Reading og að á Íslandi er fólks svo gott að loka Kolaportinu og bakaríum í dag?

Jæja, svörin verða ljós von bráðar...

(Myndin er af Sonju Björk, litlu frænkunni minni í Seattle) 


mbl.is Úrslitin ráðast í Englandi í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin kveikti á perunni í heilbrigðismálum

Samfylkingin hélt í gær bráðnauðsynlegt opið málþing um þróun heilbrigðisþjónustunnar í höndum ríkisstjórnarinnar. "Bráðnauðsynlegt" segir ég, fyrir flokkinn, því sú ímynd var tryggilega farin að streyma út að yfirlýst félagshyggjufólkið í flokknum væri að leyfa Sjálfstæðisflokknum óáreittum að einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Og Samfylkingin hefur undanfarið verið að missa fylgi út á þessa ímynd.

Mér til nokkurrar furðu getur mbl.is þessa fundar í engu, þ.e. að segja frá því sem fram fór á honum. Væntanlega hefur enginn fréttamaður verið laus í verkefnið. O jæja. Kannski fyrsta umferð Íslandsmótsins í karlafótbolta hafi dregið að sér alla orkuna? Fundarmætingin (um 50 manns held ég) minnti mig enda á að kerlingar af báðum kynjum virðast alltaf telja það besta fundartímann fyrir pólitíska fundi að hitast eftir hádegi á laugardegi þegar spennandi fótbolti er í gangi. Furðulegt. Má ég heldur benda á kl. 11 á laugardegi, nú eða miklu heldur kl. 11 á sunnudegi. Síst af öllu held ég að messutími dragi úr mætingu á pólitíska fundi. Það hafa miklu, miklu fleiri áhuga á fótbolta en messu, segi ég og skrifa. En sem sagt í þetta sinnið fórnaði ég því að fara á völlinn og fór á þetta opna málþing eða ráðstefnu um heilbrigðismálin hjá Samfylkingunni.

Samfylkingin notaði eðlilega samkomuna og nærveru ljósvakamiðlanna til að segja (loks) skýrt og fullum fetum að engin einkavæðing myndi eiga sér stað í heilbrigðiskerfinu. Og útlista hve flokkurinn væri að gera margt og gott í velferðarmálum. Formaður flokksins hefur áréttað og undirstrikað að í stjórnarsáttmálanum sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að ekkert verði einkavætt í heilbrigðisþjónustunni og að þótt mismunandi rekstrarform megi skoða þá standi alls ekki til að hlutafélagsvæða Landspítalann. Nú höfum við þetta svart á hvítu og getum mátað við orð þess fólks sem stýrir heilbrigðisþjónustunni, en það er frjálshyggjufólkið Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, Árni Mathiesen fjármálaráðherra, Vilhjálmur Egilsson, Pétur H. Blöndal og Ásta Möller. Þessi nafnaupptalning segir margt um hvers vegna fjöldinn allur af félagshyggjufólki hefur haft áhyggjur. Og hvers vegna Valgerður Bjarnadóttir varaþingmaður Samfylkingarinnar sagði opinberlega í síðasta mánuði að "við" (væntanlega Samfylkingin) vissum ekkert hvað heilbrigðisráðherra og hans fólk væri að gera í þessum málaflokki.

Ég er unnandi samfélagslega rekinnar heilbrigðisþjónustu og vill ekki sjá gróðasjónarmið ráða för þgar sjúkdómar og slys eru annars vegar. Þannig er ég bara, meðan sumir trúa þvælunni upp úr Pétri Blöndal og fleirum um "fé án hirðis" á þessu sviði.

Og mér finnst ekkert of mikið þótt 100 milljarðar af fjárlögum (um fjórðungur) renni til heilbrigðismála (nema þegar útgjaldaaukning stafar af t.d. óeðlilegum hækkunum á lyfjaverði). Mín vegna mætti hlutfallið vera 50% og þá frekar að skera niður á allt öðrum sviðum. Raunar er fyrir löngu búið að skera burt alla "fitu" í heilbrigðisþjónustunni og helbert fjársvelti í gangi um árabil. Ég segi og skrifa: "Hallarekstur" í heilbrigðismálum ER EKKI TIL. Það er bara til næg eða ónóg fjárveiting miðað við eðlilega meðhöndlun á sjúkum og slösuðum.

Lýk þessu með ágætum brandara sem einn fyrirlsarinn flutti, Anna Sigrún Baldursdóttir, fjármálaráðjafi á Landspítalanum: Að reyna að stjórna læknum er eins og að reyna að smala köttum!


mbl.is Heilbrigðiskerfi í hættu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær eru kosningaloforð svikin? Flest strax í upphafi!

Í þessum pistli ætla ég að fjalla um kosningaloforð og svik við þau. Ég ætla að leitast við að vera málefnalegur – en vona að það fæli ekki lesendur frá! Ég skal lofa að reyna að vera ekki leiðinlegur, þótt ég muni ekki fjalla um kynlíf, ofurstjörnur eða ofbeldi (boða reyndar pistil um bloggara mjög fljótt).

Allir flokkar gefa út kosningaloforð fyrir kosningar. Ég tel að fyrir kosningar eigi stjórnmálaflokkar hikstalaust að útlista forgangsröðun loforða og lista upp hver þeirra séu ófrávíkjanleg við ríkisstjórnarmyndun. Fjölmiðlar mættu gjarnan koma að slíkri skráningu, ef svo má kalla. Að öðru leyti blasir við að efndir og svik kosningaloforða ákvarðast að stærstum hluta við samningu stjórnarsáttmálanna – frekar en á kjörtímabilinu sem slíku. Málamiðlunin á degi númer eitt innifelur að kosningaloforð eru svikin, með réttu eða röngu.  Allir flokkar svíkja kosningaloforð, þannig séð. Má ekki allt eins tala um að mestu kosningaloforðasvikararnir séu stjórnarandstöðuflokkarnir, sem lofuðu fögru en auðnaðist ekki að drulla sér í ríkisstjórn til að efna loforðin?

Íslenskar ríkisstjórnir eru samsteypustjórnir. Sögulega séð er enginn flokkur í þeirri aðstöðu á Íslandi að hafa hreinan meirihluta. Og þegar flokkar með ólíkar stefnur og áherslur bræða saman ríkisstjórn þá hafa yfirleitt báðir flokkar gefið eftir af kosningaloforðum. Þau mál detta út af eða frestast og kannski bara gleymast.

Dæmi: Flokkur A lofar m.a. vinsælu máli X. Flokkur B lofar m.a. vinsælu máli Y. Flokkar þessir mynda stjórn, en vegna gagnkvæmra krafna komast hvorugt málanna X eða Y í stjórnarsáttmála. Var það ekki ÞÁ sem kosningaloforð þessi voru svikin? Og voru þau svikin þarna strax í upphafi vegna andstöðu eins flokksins eða linkindar hins flokksins?

Spurning hvort frekar megi tala um að kosningaloforðum sé fórnað á altari valdasetunnar en að þau séu svikin í umræðu þegar vel er komið inn á kjörtímabilið. Stóru svikin eða stærri en upphafssvikin eru þegar loforð komast í stjórnarsáttmála en eru ekki efnd.

Vini mínum Vinstri-grænum hefur verið tíðrætt um svik Samfylkingarinnar. Ég jánka sumu, öðru ekki, eins og gengur. Og ég lagði fyrir hann þraut sem ég tel mig ekki hafa fengið lausn hans á. Ég spurði hann hvað VG hefði svikið í ríkisstjórn. Ekki gat hann sagt að VG hefði ekkert svikið til að komast í ríkisstjórn. Báðir vitum við betur. Um tíma var þannig mikið rætt um samstjórn Sjálfstæðisflokksins og VG. Hvað hefði hrokkið út af borði VG við samningu stjórnarsáttmálans? Hvað hefði VG gleypt af áherslumálum Sjálfstæðisflokksins (eða annarra flokka)?

Það er sum sé auðvelt að grafa upp svik á kosningaloforðum, t.d. með einföldum samanburði. En oftast er nauðsynlegt að útlista orsakirnar að baki.


Sonar saknað - Sturla Þór eldri 25 ára

 Sturla Þór

 Hann á 25 ára afmæli í dag - og hvílík veisla, hefði hann lifað. Ég sakna þín á hverjum degi Stubburinn minn. Glæpsamlegt flugfélag svipti þig og fimm önnur lífinu og frábær samfélagslega rekin heilbrigðisþjónusta var næstum búin að bjarga lífi þínu, gegn öllum líkindum. 

Við fórum að leiðinu þínu áðan og ég hengdi KR merki á krossinn þinn - það ætti að tryggja heimasigur gegn Grindavík í dag.

Að öðru leyti og að sinni geri ég að mínum orðum færslu mömmu þinnar í morgun (roggur.blog.is):

 

"Í dag 10. maí hefði Sturla okkar orðið 25 ára. Í dag förum við að leiðinu hans og leggjum á það blóm. Höldum upp á daginn með köku og kaffi. Sturla á það sannarlega skilið. Við viljum minnast hans með gleði og rifja upp minningar. Það gefur deginum óneitanlega gleðiblæ að nú hefur Sturlubarnið bæst við fjölskylduna. Hann minnir á frænda sinn um sumt. Er ákafur og kraftmikill. Veit hvað hann vill og er handsterkari en hægt er að reikna með hjá svona litlu barni. Gleðigjafi og gullmoli".


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband