Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.6.2008 | 10:44
En eru þetta þá ekki snillingar???
Það er augljóst mál að Eimskip er í vondum málum og að þessi fjárfesting útrásar-snillinganna í Innovate stórbrotið klúður. Fyrirtækið hefur afskrifað eignarhlut í þessu tiltölulega nýkeypta dótturfélagi en bókfært virði eignarhluts telst 74,1 milljónir evra, sem afskrifaður er að fullu.
Þetta gera á genginu í dag um 8.8 milljarðar, ef mér skjöplast ekki. Ég vænti ígrundaðrar fréttaskýringar einhverra eða allra fjölmiðla. Og frétta af því að einhverjir snillingar hafi misst störf sín og bónusa...
![]() |
Eimskip lækkar um 10,47% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.6.2008 | 13:31
Frjálshyggjuvæðing heilbrigðismála brátt fullkomnuð
Margt ágætt má um Benedikt Jóhannesson segja og vissulega má gera umbætur i heilbrigðis og tryggingageirum landsins. En frjálshyggjuáherslan er orðin æpandi, að minnsta kosti í eyrum jafnaðarmanna.
Ákveðið hefur verið að Benedikt Jóhannesson, formaður stjórnar sjúkratryggingastofnunar sem tekur til starfa í haust, verði starfandi stjórnarformaður stofnunarinnar uns forstjóri hefur verið skipaður.
I ríkisstjórn með aðild Samfylkingarinnar eru forystumenn heilbrigðismála Guðlaugur Þór Þórðarson, Árni Mathiesen, Vilhjálmur Egilsson, Ásta Möller, Petur Blöndal og Benedikt Jóhannesson. Nu vantar bara að bæta Hannesi Hólmsteini í hópinn. Þá er frjálshyggjuvæðing þessarar almannaþjónustu fullkomnuð.
![]() |
Benedikt starfandi stjórnarformaður sjúkratryggingastofnunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.6.2008 kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.5.2008 | 11:04
Aðgerðamiðstöð í boði alvöru skúrksins
Er "bensínstöð Olís við Suðurlandsveg" aðgerðamiðstöð trukkaranna? Eru olíufélögin að berjast með trukkurunum fyrir lægra bensínverði? Ættu trukkararnir ekki að loka "bensínstöð Olís við Suðurlandsveg" með mótmælum frekar en að heiðra skálkinn?
Ég stend með trukkurunum í baráttunni fyrir lægra bensínverði. En ég mótmæli aðferðafræði þeirra. Hvað bensínverð varðar hafa þeir eitthvað ruglast á skúrkum. Þeir eiga að safna liði við Austurvöll og fara þaðan á bensínstöðvarnar og loka þeim. Til að mótmæla verðhækkunum og álagningu olíufélaganna og hækkun olíuframleiðsluríkjanna á heimsmarkaðsverði. Þarna er skúrkarnir.
Aftur á móti geta trukkararnir mótmælt á Austurvelli þegar stjórnvöld ætla að leggja umhverfisskatt á eldsneytið, eins og örugglega er fyrirhugað og tíðast t.d. á hinum Norðurlöndunum. Trukkararnir missa þá að vísu stuðning græningja, en það er kannski lítil fórn fyrir lægra eða ekki-hærra bensínverð.
Til að reyna að komast út úr ógöngum sínum tala trukkararnir núna um allt önnur mál en lagt var upp með. Tala um eftirlaunalögin og baráttuna fyrir þá sem minnst mega sín. Verður hnykkt á þessu með kröfum um að hætta við framboð í Öryggisráð SÞ og fyrir því að koma "kistilega siðgæðinu" aftur inn í skólafrumvörpin? Stofna flokk, kannski?
Bara eitt að lokum: Sjálfsagt finnst mörgum þetta sniðugt með líkkisturnar. Ekki mér. Fyrir mér tákna líkkistur ástvinamissi. En það er bara ég.
![]() |
Fyrst og fremst táknræn athöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.5.2008 | 17:18
Gleðileg "kommúnista"frétt í Mogganum
Einhvern tímann hefði ég sagt "aldrei", aðspurður hvort svona texti myndi einhvern tímann birtast í Morgunblaðinu: "Laun æðsta stjórnanda Kaupþings árið 2006 jafngiltu því að í kringum 10. mars væri hann búinn að vinna sér inn upphæð sem venjulegt verkafólk er alla starfsævina að strita fyrir og það tók 321 fullvinnandi verkakonu allt árið að vinna fyrir launum hans".
Það er náttúrulega langt síðan Morgunblaðið breyttist frá því að vera hreinræktað flokksmálgagn og málpípa atvinnurekenda yfir í að vera (að langmestu leyti) faglegt dagblað. Samt kemur það mér þægilega á óvart að lesa frétt í Morgunblaðinu sem hefði sómt sér vel í Þjóðviljanum eða Alþýðublaðinu hérna áður fyrr. Frétt um svívirðilega mikinn tekjumun í samfélaginu. Talað um verkakonur og allez. Sem "strita alla ævina" fyrir hungurlús.
Er Ólafur Stephensen þá sósíalisti eftir allt saman?! Detta af höfði mínu allar lýs og fílar!
![]() |
Sjöfaldar ævitekjur á einu ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.5.2008 | 11:12
Tjáningarfrelsið og trúarbrögðin
Þegar ég á sínum tíma varði birtingu Jótlandspóstsins á Múhammeðs-teiknimyndunum fékk ég sterk viðbrögð frá fólki sem taldi að ég væri á móti Múslimum og Íslam. Ég reyndi að útskýra mikilvægi tjáningarfrelsisins og trúfrelsisins og mikilvægi þess að stjórnvöld ritskoðuðu ekki frjálsa fjölmiðla, en það gekk bara svona og svona.
Kannski að samskonar boðskapur gangi betur í vandlætarana ef hann kemur frá dönskum heimspekingi? Ég vil altént gera orð Lars Grassme Binderup að mínum. meðal annars eftirfarandi:
"... Tjáningarfrelsið sé hins vegar svo mikilvægt að alls ekki megi setja því skorður til að hindra menn í að gagnrýna og jafnvel hæða trúarbrögð. Íbúar í lýðræðissamfélagi verði að sætta sig við að andstæðingar trúarbragða beiti oft harkalegum aðferðum, aldrei megi sætta sig við að hótað sé ofbeldi til að þagga niður í slíkum röddum. Auk þess ýti það undir tortryggni í garð minnihlutahópa ef þeim sé tryggð vernd gegn móðgunum gagnvart trú þeirra, fremur en t.d. kristnum. Hvaða hópur sem er geti þá í raun gengið á lagið, einnig guðleysingjar, og fullyrt að eitthvað í málflutningi annarra særi þá og þess vegna verði að setja honum skorður".
![]() |
Megum hæða trúarbrögð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.5.2008 | 00:18
Syndir feðranna: Breiðavíkursamtökin opna blogg
Breiðavíkursamtökin hafa opnað nýja bloggsíðu: brv.blog.is. Samtökin hafa verið opnuð öllu áhugafólki um barnaverndarmál og þá ekki síst vistunarúrræði hins opinbera á öllum tímum. Í nýrri stjórn BRV eru nú tveir fyrrum vistheimiladrengir (formaður og varaformaður) og þrír stuðningsmenn málefnisins "að utan". Ég er einn þeirra.
Mikil vinna er framundan og meðal margra annarra er það verkefni að koma heimasíðu samtakanna (www.breidavikursamtokin.is) í notendavænna form. Fram að því höfum við sett Moggabloggsíðu í gang. Ég hvet til umræðu þar, enda er ég umsjónarmaður bloggsins! Virkjum bloggið til styrktar umræðu um vistunarúrræði barnaverndaryfirvalda og sveitarfélaga í fortíð og nútíð, um allt land.
Upphafsávarp Bárðar R. Jónssonar, formanns BRV, á bloggsíðu samtakanna:
Breiðavíkursamtökin - allt áhugafólk um barnavernd velkomið
Að rétt rúmlega ár sé liðið frá því Breiðavíkurmálin voru tekin fyrir í fjölmiðlum þykir mér ótrúlegt; mér finnst eins og þau hafi verið þar alla mína ævi eða allavega stærstan hluta hennar.
Það er ekkert undarlegt við það. Ég dvaldi á Breiðavík um tveggja ára skeið og þótt maður væri ekki að velta sér upp úr því mótar samt reynslan úr æsku lífið og Breiðavík vildi ég bara gleyma. Ég vissi alltaf að mikið óréttlæti hafði verið framið á okkur sem sendir höfðu verið til Breiðavíkur en taldi að þar sem heimurinn væri nú eins og hann er næðist aldrei fram neitt réttlæti í því efni. Kannski að þar verði breyting á.
Breiðavíkursamtökin voru svo stofnuð í framhaldi af umfjölluninni fjölmiðlunum. Þessi samtök Breiðavíkurdrengja voru ætluð öllum þeim sem höfðu dvalið á stofnunum, heimilum og einkaheimilum á vegum ríkisins og Barnaverndar. Það kom fljótt í ljós að þessi takmörkun þrengdi að félaginu og þótt það hafi gert mikið gagn með því að vera vettvangur til að hittast á hefur ekki gengið nógu vel að skilgreina viðfangsefnin og átta sig á því hvernig þessi hagsmunasamtök mjög svo ólíkra einstaklinga geta beitt sér í málum þeirra.
Á fyrsta aðalfundi Breiðavíkursamtakanna þann 17. maí, s.l. var því ráðist í að breyta lögum félagsins, opna þau fyrir öllum sem vilja leggja þessari baráttu lið og láta sig hag barna í fortíð og nútíð skipta máli. Eitt verkefni félags sem okkar er að gera sögu barnaverndar í íslensku samfélagi skil.
Annað verk sem liggur fyrir vinnst fyrst og fremst á pólitískum vettvangi en það snýst um væntanlegar bætur til þeirra sem dvöldu á þessum heimilum.
Breiðavíkurskýrslan markaði tímamót í íslenskri stjórnsýslu. Yfirvöld brugðust við henni með frumvarpi sem átti að taka fyrir á vorþingi en það virðist ljóst að því verður frestað fram á haustið; við hjá samtökunum erum sátt við það. Það þarf að vanda sig og það er ekki einfalt mál að greiða bætur til þessa hóps.
Á aðalfundinum var ég kosinn formaður samtakanna. Ég hafði ekki sóst sérstaklega eftir því embætti og eins og ég hef látið hafa eftir mér hefði mér verið sama þótt þessi mál hefðu aldrei komið upp á yfirborðið en mér rann blóðið til skyldunnar og þess vegna samþykkti ég að tala við Bergstein Björgúlfsson og Kristinn Hrafnsson þegar þeir unnu að myndinni Syndir feðranna, það var árið 2004/5. Margt hefur gerst eftir það.
Nú þreifar ný stjórn Breiðavíkursamtakanna sig áfram en með mér völdust í stjórn þeir Georg Viðar Björnsson, varaformaður og fráfarandi formaður, Friðrik Þór Guðmundsson, ritari, Þór Saari, gjaldkeri, og Ari Alexander Ergis Magnússon, stjórnarmaður og leikstjóri myndarinnar Syndir feðranna (ásamt Bergsteini). Ég vil bjóða þessa ágætu menn velkomna til starfa fyrir félagið og ég hlakka til samstarfsins við þá.
Bárður R. Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég tel mig geta talað um merkjanlega vísbendingu um trúarafstöðu gesta inn á bloggsíðu mína (hið minnsta þeirra áhugasömustu um trúmál yfirleitt). Helmingurinn lýsir sig vera kristinn, langflestir þeirra í Þjóðkirkjunni. Hlutfallslega fáir eru annarrar trúar en kristni en einhverrar hefðbundinnar/skipulagðrar trúar þó. Næstum þriðjungur lýsir yfir trúleysi sínu, efahyggjumenn eru 8% og þeir sem eru eitthvað allt annað en ofangreint mælast en eru fáir. Þessir þrír hópar ná til samans 44%.
Kristinn í Þjóðkirkjunni 41.2% (87 atkvæði)
Kristinn í Fríkirkjusöfnuði 3.8% ( 8 atkvæði)
Kristinn Kaþólsk(ur) 2.8% ( 6 atkvæði)
Kristinn í öðrum söfnuði 3.3% ( 7 atkvæði)
Ásatrúar 0.9% ( 2 atkvæði)
Múslimi 0.9% ( 2 atkvæði)
Búddatrúar 0.5% ( 1 atkvæði)
Önnur trú en ofangreint 2.4% ( 5 atkvæði)
Efahyggjumaður (Agnostic) 8.1% (17 atkvæði)
Trúlaus 30.8% (65 atkvæði)
Eitthvað allt annað 5.2% (11 atkvæði)
(211 hafa svarað)
Þetta er í sjálfu sér í ágætu samræmi við niðurstöður trúarlífsrannsóknar Guðfræðistofnunar, þar sem um helmingur taldi sig vera kristinn en um þriðjungur trúlausan.
Þessar upplýsingar eru fyrst og fremst gagnlegar fyrir mig. Mér finnst fínt að fá merkjanlega vísbendingu um að þeir sem lesa blogg mitt endurspegli samfélagið allt í grófum dráttum. Ég fékk svipaða vísbendingu í lesendakönnun um pólitíska afstöðu samkvæmt vinstri-hægri ásnum. Dæmi um gildi slíkra upplýsinga varð örugglega bloggvini Gunnari Th. Gunnarssyni eftirtektarvert. Hann ákvað að apa eftir könnun minni um pólitíska afstöðu í anda vinstri-hægri ásnum. Ég fékk 194 smellur, en hann hætti könnuninni með aðeins 80 smellur. Ég er til vinstri en hann er til hægri, en svo bar þó við, ef vísbendingarnar eru réttmætar, að við virðumst fá tiltölulega svipaða pólitíska breydd í gestum. Það finnast mér merkilegar vísbendingar. Hægrimenn eru að kíkja á hvað ég sé að skrifa og um hvað er talað hjá mér og vinstri menn eru að kíkja á hvað Gunnar er að segja og hvað er talað um hjá honum. Það er gott.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (47)
20.5.2008 | 11:03
Engar bætur til Breiðavíkurdrengja - að sinni
Aðeins 5 dagar eftir af þinghaldi og enn hefur ekkert sést bóla á frumvarpi um bætur til handa Breiðavíkurdrengjum, ekkert frumvarp enn "til kynningar" hvað þá til samþykktar á vorþingi. Mér skilst þó að ennþá sé verið að reyna að koma saman einhverjum texta og einhverjum bótafjárhæðum og má altént búast við frumvarpi á haustþingi. Er það ekki?
Það er svo sem enginn að flýta sér heil ósköp, en ég veit að Breiðavíkurdrengirnir vilja heyra og lesa beinum orðum hvað sé að gerast. Ekki endilega um fjárhæð bótanna (sumir þó) heldur vilja þeir fá á tilfinninguna að þeir séu ekki gleymdir AFTUR og örlög þeirra. Vafasamt er að væntanleg fjárhæð bótanna bæti upp fyrir skaðann, enda erum við fyrst og fremst að tala um viðurkenningu hins opinbera og reisn einstaklinganna, sem svo illa var farið með.
Á aðalfundi Breiðavíkursamtakanna, sem fram fór um síðustu helgi, voru samtökin víkkuð út hvað markmið varðar og þau opnuð fyrir aðild allra sem áhuga hafa á barnaverndarmálum fyrr og síðar. Samtökin eru ekki bundin við Breiðavík og munu í framtíðinni meðal annars beina sjónum sínum að vistheimilum og öðrum stofnunum á borð við Kumbaravog, Reykjahlíð og fleiri. Eins og Spanó-nefndin svokallaða. Ég hlakka til að starfa með Breiðavíkurdrengjunum að því að sinna hagsmunum barna og unglinga, en á aðalfundinum var ég kjörinn í stjórn þeirra. Það er mér mikill heiður og ég tek þessari áskorun alvarlega.
Forsætisráðherra mætti gjarnan taka áhyggjur Breiðavíkurdrengjanna alvarlega og staðfesta opinberlega áður en þinghaldi lýkur áætlun sína um frumvarpsflutning.
![]() |
Annasamir dagar á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.5.2008 | 02:14
Hverrar trúar ert þú - ef einhverrar?
Athugið: ENN OG AFTUR NÝ OG SPENNANDI KÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR! NÚ UM TRÚMÁL!!
Mér leikur forvitni á að vita hvernig þið lesendur bloggsíðu minnar skilgreinið ykkur í trúmálum. Því hvet ég lesendur síðunnar til að taka þátt í könnuninni hér til hliðar og tjá sig eftir nennu og öðrum atvikum í athugasemdadálkinn við þessa hér færslu.
Forvitnilegt væri fyrir einhvern annan að vita hvort samsetningin yrði svipuð með sömu kosti...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
19.5.2008 | 11:31
Íslendingar eru Demókratar - vilja ekki Repúblíkana
Það þarf ekkert að velkjast í vafa um það; Íslendingar halda, hvað Bandarísk stjórnmál varðar, með Demókrataflokknum. Ef bara Íslendingar væru að kjósa fyrir vestan myndi Repúblíkanaflokkurinn nánast þurrkast út. Og við erum nokkuð sammála Demókrötum; Obama hefur heldur meira fylgi en Hillary.
Í óvísindalegri könnun á afstöðu lesenda bloggsíðu minnar er niðurstaðan neðangreind, en hlutföllin hafa allan tímann haldist svipuð og ástæðulaust að halda þessari tilteknu könnun áfram:
Þessi niðurstaða er mjög samhjóða könnun Gallups nýlega. Þar var íslenska þjóðin spurð um hvern hún myndi vilja sem næsta forseta Bandaríkjanna. Í ljós kom að mjótt er á mununum milli Hillary Clinton (49%) og Barack Obama (48%) sem bítast um tilnefningu Demókrataflokksins hið vestra. Ljóst var þar einnig að Íslendingar vilja fá Demókrata í Hvíta húsið því einungis 3% sögðust myndu kjósa John McCain. Þetta er í raun sama niðurstaða og hjá mér miðað við að þeim sé sleppt sem myndu kjósa "ekkert af ofangreindu". Munurinn er þó meiri milli Obama og Hillary hjá mér, enda má búast við því að menn séu í ríkara mæli en áður að hengja hatt sinn á Obama, nú þegar hann er um það bil að ná tilnefningunni.
Mér finnast þessar niðurstöður segja heilmikla sögu. Meira að segja hægrimenn á Íslandi eru langflestir "liberal" og tengja sig frekar Demókrötum en Repúblíkönum. Bush- og Cheney-ismi á aldeilis ekki upp á pallborðið hér á landi. Við viljum ekki svoleiðis öfga og mannkynsfyrirlitningu. Ekki satt?
P.S. ENN OG AFTUR NÝ OG SPENNANDI KÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR! NÚ UM TRÚMÁL!!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)