Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
31.7.2008 | 11:18
Harðir fjölmiðlanaglar og penir pólitíkusar
Mér sýnist á öllu að heldur fleiri álitsgjafar telji Helga Seljan hafa verið of harður við Ólaf borgarstjóra en hinir, sem telja að Helgi hafi auðsýnt borgarstjóranum nauðsynlegt aðhald með beittum en réttmætum spurningum. Ólafur borgarstjóri var fjúkandi reiður og það var Guðni Ágústsson líka þegar hann stormaði út í miðju viðtali Sverris Stormskers við hann á Útvarpi Sögu.
Í báðum tilfellum misbauð pólitíkusum að spyrlar voru ekki eins og þeir vildu hafa þá. Enda búum við ekki lengur við veruleika gærdagsins, þar sem blaða- og fréttamenn tóku við fyrirframsömdum spurningum frá pólitíkusum og þéruðu ráðherra og þingmenn.
Í dag viðurkenna pólitíkusar í orði að blaða- og fréttamenn eigi að veita þeim aðhald og vera harðir þegar því er að skipta. Hvað náungana tvo í "stormsveitinni" varðar er rétt að gera þann greinarmun, að Guðni mátti vel vita að hann var ekki að fara að tala við blaða- og fréttamann þar sem Sverrir Stormsker sat. Sverrir er ekki fagmaður í blaða- og fréttamennsku, heldur landsþekktur galgopi og grínari. Guðni þurfti því ekki að búast við faglegu viðtali.
Ólafur borgarstjóri mátti á hinn bóginn búast við öflugri fagmennsku og hörðum spurningum. Hann er ekki í þeirri stöðu að geta sagt: "Ég kom hingað til að ræða borgarmál" og ráða því sjálfur hvaða spurningum hann vill svara og hvenær þeim telst svarað. Í ljósi verulega umdeildra mála og ákvarðana síðustu daga og vikur mátti hann fyllilega búast við ágengum spurningum og að þeim spurningum yrði fylgt eftir kæmu skýr svör ekki. Og það var einmitt vandi Ólafs í Kastljósþættinum; hann hafði ekki skýr svör við áleitnum spurningum en vildi frekar ræða "borgarmál" og fá spurningar sem honum líkaði að svara.
Það er að mínu mati rangt hjá Ólafi að Helgi hafi "sýnt borgarstjóraembættinu óvirðingu" með ágengni sinni. Helgi sýndi embættinu þvert á móti virðingu, því stjórnmálamenn ætlast í orði kveðnu til aðhalds frá fjölmiðlum. Helgi leitaðist við að uppfylla þá skyldu sína að krefja pólitíkusinn svara við spurningum sem brenna á fólki úti í samfélaginu, ekki síst um umdeildar ráðstafanir borgarstjóra hvað Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur varðar.
Að þessu sögðu má hins vegar alveg ræða hvort Helgi hafi endurtekið spurningarnar um aðstoðarkonuna fyrrverandi of oft eða gripið helst til of oft eða snemma fram í þegar Ólafur ætlaði augljóslega ekki að svara grunnspurningunum afdráttarlaust. Ég get fallist á að Helgi hafi dvalist of lengi við þessar Ólafar-spurningar eftir að ljóst mátti vera að Ólafur hreinlega ætlaði ekki að svara þeim almennilega. En þá er ég auðvitað undir áhrifum þess að fjölmargt annað brýnt og umdeilt hefur verið í gangi sem kallar á harðar spurningar. Ég er með öðrum orðum ekki voðalega upptekinn af því hver sé fulltrúi Ólafs í skipulagsráði eða aðstoðarmaður hans. Hvað listaháskólann varðar skiptir það ekki miklu máli, heldur hitt hvort 19. aldar stefna sé stefna meirihlutans. Ég hefði þannig viljað nánari svör þegar Ólafur borgarstjóri lét það út úr sér í þættinum að honum þætti listaháskólabyggingin (teikningin) ekki ljót og gæti sómt sér vel Á BAKVIÐ 19. aldar húsin. En þar með væri grunnhugsunin að baki teikningunni rokin út í veður og vind.
Hvað um það, borgarstjóri verður að muna, að það tíðkast ekki lengur að beygja sig, bukta og þéra borgarstjóraembættið. Góður borgarstjóri, sem hefur gert eitthvað umdeilt, móðgast ekki, neitar að svara og stormar út með reiðisvip. Góður borgarstjóri hefur svör á reiðum höndum og svarar þeim skýrt og skilmerkilega. Það er um leið besta aðferðin gagnvart ágengum blaða- og fréttamönnum!
![]() |
Guðni gekk út í beinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.7.2008 | 17:58
Hálfleikur: Kastljós sýknað - spá mín rétt
Það er gleðilegt fyrir tjáningarfrelsið og fyrir blaða- og fréttamennskuna sem fag að Kastljós hafi í dag verið sýknað í máli því sem ég kenni við Jónínu Bjartmarz. En ekki ætla ég þó að vera með of stórar ályktanir að sinni, því vafalaust fer málið fyrir Hæstarétt. Hvað spádóm minn um sýknu varðar er ég þó altént yfir í hálfleik.
Ég fjallaði um þessa málshöfðun fyrir nokkru og spáði sýknu (hér). Undirréttardóminn má finna á þessari slóð. Hér á eftir fara valdir kaflar úr undirréttardóminum:
"Viðurkennt er að hlutverk fjölmiðla sé m.a. að veita stjórnvöldum aðhald og fjalla um mál ef grunur leikur á að misfarið sé með vald í þjóðfélaginu. Er enda óumdeilt að fjölmiðlar hafi verulegt svigrúm til umfjöllunar um menn og málefni líðandi stundar. Hæstiréttur hefur í dómum sínum staðfest (m.a. í dómum Hæstaréttar í málum nr. 278/2006 og nr. 541/2005 (nr. 278/2006 (,,Bubbi fallinn), nr. 541/2005 (Jónína Benediktsdóttir gegn 365)), að málefni sem talin eru varða almenning og geta talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu, eigi rétt á fréttaumfjöllun í fjölmiðlum. Almennt er viðurkennt að þeir sem fara með áberandi og ábyrgðarmikil trúnaðarstörf í þjóðfélaginu, svo sem stjórnmálamenn, verði að þola vissa fjölmiðlaumfjöllun en þó með þeim takmörkunum að ekki verði gengið nær einkalífi þeirra en óhjákvæmilegt er í opinberri umræðu um málefni er almenning varða. Jónína Bjartmarz, móðir stefnanda Birnis, var ráðherra í ríkisstjórn Íslands er umfjöllunin átti sér stað".
"Ekkert er fram komið er bendir til þess að stefndu hafi ekki unnið úr þeim upplýsingum, er þau höfðu undir höndum, með vönduðum hætti. Þrátt fyrir að vissar upplýsingar um málið hafi ekki verið réttar í upphafi voru leiðréttingar gerðar á síðari stigum umfjöllunarinnar og þessar misfellur högguðu ekki fréttagildi málsins".... "Umfjöllun Kastljóss vegna umsóknar stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt var málefni sem átti erindi til almennings og hafði fréttagildi. Óhjákvæmilegt var í þágu úrvinnslu fréttaefnisins að fram kæmu upplýsingar um persónulega hagi stefnanda Luciu. Að því er varðar myndbirtingu umsóknarinnar í Kastljósi hinn 30. apríl 2007 þá verður að telja eðlilegt í ljósi framvindu málsins og í kjölfar viðtals í Kastljósi við Jónínu Bjartmarz að fram kæmi á hvaða grundvelli umsókn Luciu um íslenskan ríkisborgararétt væri reist. Verður ekki talið að með myndbirtingu umsóknarinnar, eins og hún var sýnd í Kastljósi, og umfjöllun um hana, hafi verið gengið nær einkalífi stefnenda en þörf var á í opinberri umræðu um málefni sem varðaði almenning".
"Nægar ástæður voru fyrir hendi er réttlættu þessa umfjöllum um efni sem tengdist meðferð og afgreiðslu allsherjarnefndar á veitingu ríkisborgararéttar. Verður fallist á með stefndu að umfjöllunin í garð stefnenda hafi ekki gengið lengra en nauðsyn bar til. Er þá litið til þess að um var að ræða opinbera umræðu um málefni sem varðaði almenning. Eru því engin skilyrði til þess að dæma stefndu til refsingar samkvæmt 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga".
"Stefndu, Páll Magnússon, Helgi Seljan Jóhannsson, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Sigmar Guðmundsson og Þórhallur Gunnarsson, skulu vera sýkn af kröfum stefnenda, Luciu Celeste Molina Sierra og Birnis Orra Péturssonar, í máli þessu".
![]() |
Starfsmenn Kastljóss sýknaðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.7.2008 kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.7.2008 | 11:26
Niðurskurðar- og sparnaðartillögur mínar: leiðari
Fjárlög ársins í ár gera ráð fyrir 434 milljarða króna ríkisútgjöldum. Á sama tíma er ljóst að efnahagslegur samdráttur er að hellast yfir landsmenn. Svo er að sjá að yfirvöld finni helst sparnaðarleiðir í velferðarmálum (sbr. spítalar) og öryggismálum (sbr. lögregla og landhelgisgæsla). Mig langar að beina augum yfirvalda að öðrum sparnaðarpóstum.
Fyrir það fyrsta legg ég til að útgjöld til trúmála verði skorin niður um þó ekki væri nema 20-30 prósent; mest hjá Þjóðkirkjunni vegna forréttinda hennar, en minna hjá öðrum trúfélögum og til Háskólasjóðs (þangað sem renna sóknargjöld fólks utan trúflokka). Í alla þessa pósta eiga í ár að renna 4.650 milljónir króna (liðlega 4.6 milljarðar). Tökum 1.2 milljarða af þessu og setjum helminginn í spítalana en spörum restina. Skerum Þjóðkirkjufjárlög, sóknargjöld, Jöfnunarsjóð sókna, Kirkjumálasjóð, kristnisjóð og slíka pósta um allt að 30%. Ég er notabene ekki á móti fjárveitingum til trúfélaga, en fórnarlundin á að segja til sín í kreppunni og þessi óeiginlega tvö- til þrefalda tíund mætti gjarnan frekar renna til velferðarmála; stytta biðlista og borga birgjum heilbrigðisstofnana til að spara vanskila- og dráttarvexti.
Skerum Alþingisútgjöld um 10% - þar fást 245 milljónir. Skerum "Varnarmál" um 20% - þar fást 106 milljónir. Skerum sendiráð um 20% - þar fást 384 milljónir. Skerum "greiðslur vegna mjólkurframleiðslu" niður um 10% - þar fást 500 milljónir. Skerum "greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu" um 10% - þar fást 365 milljónir. 50 milljónir í viðbót vegna Bændasamtaka Íslands. Skerum "styrki vegna stjórnmálasamtaka" niður um 20% - þar fást 74 milljónir. Skerum niður "landkynningarskrifstofur erlendis" um 50% - þar fást 82 milljónir. Skerum niður "markaðssókn í íslenska ferðaþjónustu" um 50% - þar fást 15 milljónir. Skerum niður" markaðssókn Íslands í Norður-Ameríku" um 50% - þar fást 24 milljónir.
Skerum niður skúffufé ráðherranna og ríkisstjórnarinnar um 65-70%; þar fást 60 milljónir vegna ráðherranna og 125 milljónir vegna ríkisstjórnarinnar.
Endurskoðum útgjöld eins og: Ritun biskupasögu (14 milljónir), útboðs- og einkavæðingaverkefni (15 milljónir), ráðgjöf vegna breytinga í heilbrigðis- og tryggingamálum (30 milljónir), viðhald stafkirkju í Vestmannaeyjum (3 milljónir), landþurkun (4.5 milljónir), námsleyfi lögfræðinga (3.7 milljónir), Hollvinasamtök varðskipsins Óðins (5 milljónir), Hið íslenska reðursafn (800 þúsund), heiðurslaun listamanna - Erró (1.8 milljón), heiðurslaun listamanna - Guðbergur Bergsson (1.8 milljón), Hvítasunnukirkjan á Íslandi, Kirkjulækjarkot (2 milljónir), Krossinn, unglingastarf (2 milljónir), Klúbbur matreiðslumeistara (3 milljónir), niðurrif frystihúss í Flatey (10 milljónir), Spákonukot á Skagaströnd (5 milljónir), Vestmannaeyjabær - "handritin heim" (5 milljónir), ár kartöflunnar 2008 (1.5 milljón), umhverfissamtökin Blái herinn (1.2 milljón).
Ég er viss um að ég móðgi þarna suma, en ég hef þó fundið ærið fé til að stytta biðlistana, borga birgjunum, ráða nokkrar löggur og laga eina þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þetta er bara spurning um forgang á samdráttartímum.
17.7.2008 | 13:01
Gettu betur - hver verður forstjóri Landspítalans?
Hér með efni ég til spádómskeppni og heiti 5.000 króna verðlaunum. Sá sigrar sem giskar rétt á hver verður ráðinn/skipaður nýr forstjóri Landspítalans Háskólasjúkrahúss (LSH).
Að sönnu ekki há verðlaunaupphæð, en ég er fremur tekjulítill sem stendur - og aðalvinningurinn er auðvitað að sigra. Ef fleiri en einn koma með rétt svar verður dregið úr réttum svörum. Þátttakendur eru og beðnir um rökstuðning fyrir spá sinni (má vera stuttur). Verður það læknir eða embættismaður? Verður það núverandi starfsmaður eða utanaðkomandi? Verður það kona eða karl? Verður það samflokksmaður heilbrigðisráðherra eða annars flokks/ópólitískur? Verður það einkavæðingarsinni eða hollvinur almannaþjónustunnar?
Koma svo! Þau sem sóttu um eru:
Anna Lilja Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Landspítala.
Anna Linda Bjarnadóttir, sjálfstætt starfandi lögmaður.
Björn Zoëga, starfandi forstjóri Landspítala.
Stefán E. Matthíasson, læknir, sjálfstætt starfandi sérfræðingur.
Eydís K. Sveinbjarnardóttir, sviðsstjóri Landspítala.
Guðmundur Björnsson, læknir, meðeigandi og stjórnarformaður Janus-endurhæfingar.
Helgi Þorkell Kristjánsson, aðstoðardeildarstjóri innkaupadeildar Icelandair Tech. Services.
Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Aker-háskólasjúkrahússins í Ósló.
Kristján Oddsson, yfirlæknir stjórnsýslusviðs landlæknisembættisins.
María Heimisdóttir, sviðsstjóri Landspítala.
Már Kristjánsson, sviðsstjóri lækninga-, slysa- og bráðasviðs Landspítala.
Ragnheiður Haraldsdóttir, sviðsstjóri í heilbrigðisráðuneytinu.
Sjöfn Kristjánsdóttir, læknir, sjálfstætt starfandi sérfræðingur.
Valgerður Bjarnadóttir, sviðsstjóri Landspítala.
Úrslit 29. ágúst 2008: Heilbrigðisráðherra hefur valið Huldu "Þá Norsku" Gunnlaugsdóttur til starfans. Hulda fékk af 23 gildum atkvæðum hér flest atkvæði eða 8. Ég er búinn að draga milli þeirra sem giskuðu rétt og upp úr hattinum kom nafn Ingvars Guðmundssonar. Honum er velkomið að rukka mig um vinninginn. Mér er hugstæðari vinningur eða tap spítalans og sjúklinganna, en það á eftir að koma í ljós!
![]() |
14 sóttu um starf forstjóra LSH |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.8.2008 kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
28.6.2008 | 19:37
Gráðugir millar og bankar hundskist til að hemja sig
Jón Ásgeir og Jóhannes pabb´ans virðast staðráðnir í að "fara í mál við ríkið" vegna dómsmálanna gegn Baugi. Mig langar til að upplýsa þá feðga um að "ríkið" er ég og þú - Jón og Gunna; alþýða þessa lands. Fólkið sem verlsar í búðunum þeirra. Ríkið er ekki Davíð og Björn Bjarna, heldur skattgreiðendur. Ef Jón og Jóhannes vilja "refsa" Davíð og félögum fyrir meinta aðför að sér þá gera þeir það ekki með máli gegn Jóni og Gunnu. Orðum um að skaðabótunum yrði skilað aftur til skattgreiðenda ber að hafa að engu, enda í hæsta máta ótrúverðugt.
Þetta liggur því fyrir: Jón Ásgeir og Jóhannes vilja að Íslenskur almenningur borgi sér skaðabætur. Ég hygg að íslenskur almenningur ætti að taka þessar greiðslur sínar út fyrirfram með því að versla sem því nemur minna hjá Baugi. Byrja í dag.
Já, ég er í vondu skapi. Afskaplega vondu skapi og þá einkum vegna fyrri fréttar í dag þess eðlis að íslensku viðskiptabankarnir eru hugsanlega að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef. Bankafíflin eru búin að kæra út og suður í tilraun sinni til að knésetja Íbúðalánasjóð, af því þeir vilja ekki að Íbúðalánasjóður flækist fyrir þeirri fyrirætlan sinni að blóðsjúga íbúðarkaupendur og sitja einir að því í sinni samtryggingu. Ég fæ hroll að sjá þennan Guðjón Rúnarsson heimta niðurlagningu Íbúðarlánasjóðs. Af því að ég veit að Íslensku bankarnir hafa engan áhuga á "eðlilegum markaðslögmálum" heldur vilja fá að okra á sem flestum í samkeppni við sem fæsta.
Ef eitthvað kjaftæði í Evrópu segir að starfsemi Íbúðalánasjóðs sé í andstöðu við reglur og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þá er lausnin að segja upp samningnum en ekki afhenda viðskiptabönkunum Íbúðalánasjóð. Mig langar til að biðja bankana um að taka gráðuga, spillta og skítuga putta sína af Íbúðalánasjóði. Burt með ykkur!
Hvað ætli líði langur tími þar til þetta lið heimtar niðurlagningu Landsspítalans á grundvelli þess að hann eigi ekki að ástunda samkeppni við einkasjúkrahús?
![]() |
Mun flytja einhver félög Baugs til annarra landa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.7.2008 kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
22.6.2008 | 11:16
Jóhanna rokkar - hennar tími er kominn
Að fylgi Samfylkingarinnar aukist um 5% á sama tíma og fylgi Sjálfstæðisflokksins dragist saman um 6% eru stórmerkileg tíðindi. Að vísu kemur ekki fram hvenær könnun Fréttablaðsins var framkvæmd, en mér sýnist að það megi gefa sér að mesti áhrifavaldurinn hafi verið nýjustu aðgerðirnar með Jóhönnu Sigurðardóttur og íbúðalánin í forgrunni. Áður hefur komið fram að Jóhanna er langvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Jóhanna er því að gera það gott og augljóst að hvíslingar/orðrómur um að Samfylkingin hafi ætlað að skipta henni út í ráðherrauppstokkun á miðju kjörtímabili hlýtur að byggja á veikum grunni og sé þá alltént í endurskoðun. Það virðist beinlínis út í hött að kasta frá sér trekkjaranum Jóhönnu Sigurðardóttur.
Með Samfylkinguna í uppsveiflu og Sjálfstæðisflokkinn í niðursveiflu skilur maður ögn betur hróp Kristjáns Þórs Júlíussonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins um að menn "láti ekki rúlla yfir sig endalaust" (sjá færslu hér fyrr). Sjálfstæðisflokkurinn er eðlilega óvanur því að vera samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn sem tapar meðan hinn græðir. Reglan er að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins hrynji en ekki öfugt.
Að öðru. Það er sunnudagur og það er messutími. Las í gær með velþóknun frétt um aukið umfang borgaralegu samtakanna Siðmennt, sem framkvæmir nú æ fleiri "athafnir"; nafngiftir, giftingar, útfarir og kannski fleira. Það hlýtur að koma að því bráðum að Siðmennt auglýsi borgaralega messu (guðlausa guðþjónustu!). Ekki er ég trúleysingi og ekki félagi í Siðmennt, en fagna mjög að fólki bjóðist valkostir Siðmenntar um borgaralegar athafnir. Og ég er viss um að þessa dagana aukist fylgi lífsskoðanafélagsins Siðmenntar. Amen.
![]() |
Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar í könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.6.2008 | 13:36
Sænsk stjórnvöld innleiða hlerunar-svívirðu!
Sænska þingið hefur samþykkt umdeild lög um símahleranir, tölvupóstavöktun og fleira, lög sem skelfa mig og væntanlega allt réttsýnt fólk. Með 143 atkvæðum gegn 138 voru hlerunar- og eftirlitslög samþykkt sem framkalla ímyndir af veröld Georgs Orwell í "1984". Allt í nafni títtnefndra hryðjuverkaógna - en vitaskuld verður þetta opið fyrir gegndarlausri misnotkun, meðal annars til að setja höft á fjölmiðla.
Við á Íslandi, blaða- og fréttamenn og aðrir, verðum að standa vaktina. Ella sýnist mér að hryðjuverkamönnum muni takast (kannski) hið eiginlega ætlunarverk sitt; að eyðileggja vestrænt lýðræði, tjáningarfrelsi og koma á samfélagi óttans og haftanna. Hversu langt á að ganga í nafni þess að "vernda öryggi borgaranna"? Ekki svona langt. Áður en lögin voru samþykkt sagði fyrrum yfirmaður sjálfrar leyniþjónustunnar í Svíþjóð lögin ekki vernda réttindi einstaklinga og að þau þyrfti að endurhugsa. Stjórnvöld fullyrða að einungis verð fylgst með símtölum og föxum erlendis frá, og að innanlandssamskipti verði ekki hleruð. Sérfræðingar segja þó að erfitt sé að skilja þar á milli. Og ekki þarf sérfræðinga til að sjá fyrir sér gegndarlausa misnotkun, ekki síst í pólitískum tilgangi.
Lögin veita Sænskum stjórnvöldum (sérstakri stofnun) heimild til að "skanna" öll millilandasímtöl, tölvupósta og fax-sendingar án dómsúrskurðar. Sérfræðingar telja að meðal aukaafurða laganna verði að fólk muni t.d. heykjast á því að koma upplýsingum til fjölmiðla. Lögin ýta undir sjálfsritskoðun og tjáningarfælni. Evrópusamtök blaðamanna hafa varað við og mótmælt þessum lögum harðlega og telja slík lög veikja verulega "varðhunda"hlutverk fjölmiðla.
Vissulega hafa fleiri Evrópsk ríki aukið hlerunarheimildir og sum gengið ansi langt og þá aðallega til að fylgja "ráðum" Bandaríkjastjórnar. Einna lengst hafa Bretland og Ítalía gengið, en nú herma fregnir að Ítalía sé að hverfa til baka frá verstu Orwellískunni. Og þá kemur þessi steypa frá okkar annars yfirleitt frjálslyndu frændum. Sveiattan.
![]() |
Sænska þingið samþykkir hlerunarlög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.6.2008 | 11:34
Endurheimt votlendis besta aðferðin gegn oflosun
Þessi samantekt Moggans, þ.e. hin pappírslega í sjálfum Mogganum, er skyldulesining fyrir hvern þann sem ætlar sér að tala um leiðir til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, einkum CO2. Ég hef nefnt þetta svið áður, en kannski menn trúi vísindamönnum betur: Losun CO2 vegna framræstra mýra og horfins votlendis að öðru leyti er MEIRI en öll losun á Íslandi vegna jarðefnaeldsneytis.
Við getum með öðrum orðum náð MEIRI árangri gegn oflosun CO2 ef við endurheimtum votlendið en með því að taka bensín-bílana af fólkinu. En best getum við með hvoru tveggja og fleiri aðferðum. Aðalatriðið er að vekja ráðamenn til meðvitundar um að það er til fleira en einhliða áhersla á að breyta lífi fólksins með þvingunaraðgerðum.
![]() |
Votlendi Hvanneyrar fari á skrá Ramsar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.6.2008 | 10:01
Kastljós verður sýknað í Jónínu-málinu
Ég trúi ekki öðru en að í Jónínu-málinu svokallaða verði Kastljós sýknaði. Að í dómsmálinu sem Jónína Bjartmarz höfðar, með nöfnum sonar og tengdadóttur, þá verði réttmæti umfjöllunar Kastljóss staðfest. Ég trúi þessu vegna þess að ég fylgdist vel með vinnslu þessarar umfjöllunar, þótt ég hafi ekki komið með beinum hætti að henni. Ég er sannfærður um að í þessari umfjöllun hafi fjölmiðillinn gætt faglegra sjónarmiða og byggt á eins vandaðri upplýsingaöflun og tök voru á, og að fjölmiðillinn hafi gegnt skyldum sínum eðlilega við að veita stjórnvöldum aðhald.
Fyrr féll úrskurður í Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands sem kom mér verulega á óvart, en svo virðist sem sumt fólk sjái í umfjölluninni óvild og þá væntanlega af persónulegum toga, í garð ráðherrans fyrrverandi og fjölskyldu hennar. Siðanefndin virtist með öðrum orðum trúa því að umsjónarmaður Kastljóss hafi gengið um með óvildarhug í garð viðkomandi fyrrum ráðherra, hafi viljandi farið með rangfærslur gagngert til að gera viðkomandi ráðherra tortryggilegan og í því skyni látið undir höfuð leggjast að afla grundvallarupplýsinga í viðkvæmu máli. Siðanefndin fór þá ólíkindaleið að taka kærumálflutning fyrrum ráðherrans sem lög á bók en rök Kastljóss voru að engu höfð og lutu þau þó að grundvallarreglum fagsins. Þó verður að undirstrika að siðanefnd BÍ sakfelldi aðeins vegna hluta kæru ráðherrans fyrrverandi og tók undir aðhaldshlutverkið. Ég hygg síðan að flestallir sanngjarnir einstaklingar taki undir að afgreiðsla allsherjarnefndar á viðkomandi umsókn um ríkisborgararétt hafi EKKI verið eðlileg. Kastljós stóð sig þarna vel í vandasömu máli, aflaði góðra upplýsinga og hafði áreiðanleg gögn og heimildir sér að baki. Umfjöllunin var réttmæt og að langstærstum hluta áreiðanleg t.d. stendur óhaggað eftir að allsherjarnefnd þingsins sveigði af hefðbundinni braut umsókna um ríkisborgararétt til að þóknast tilteknum umsækjanda og gætti þá ekki jafnræðis milli umsækjenda. Það er grafalvarlegt mál fyrir fjölmiðla- og tjáningarfrelsið ef dómstólar sakfella Kastljós. Það myndi bitna með sorglegum hætti á réttmætu aðhaldi fjölmiðla að kjörnum fulltrúum þjóðarinnar.
![]() |
Krefjast miskabóta upp á 3,5 milljónir króna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.6.2008 | 10:05
Er Svarthöfði þá "Idol" trúleysingja?
Það uppátæki trúleysingjanna í Vantrú, að láta "Svarthöfða" (úr Star wars) marsera kolsvartan og illúðlegan á eftir skraut- og kjólklæddri skrúðgöngu þjóðkirkjupresta, var auðvitað fyrst og fremst bráðfyndið og meinlaust grín. Hinir geistlegu verða að geta tekið svona gríni, enda verða þeir að viðurkenna að þessi skrautkjólasýning er í nútímanum... segjum skopleg.
En spurningar vakna um leið hvort lesa megi eitthvað sérstakt og annað en grín út úr uppátæki trúleysingjanna. Hvert er svarið við spurningunni: Af hverju Svarthöfði? Af hverju þessi kolsvarti og grimmi fulltrúi illra afla Stjörnustríðanna?
Jú, jú, þarna vafra skrautklæddir prestar og biskupar um í kjólum, með skrítna kraga og annað pjatt og punt, þeir ganga um með mismunandi djúpan hátíðar- og helgislepjusvip og þar er aðallega verið að halda í heiðri gamlar hefðir - "kristna arfleifð". En ef frá eru taldir stöku geistlegir menn, sem hóta á stundum helvítisvist í brennisteinsfnyki, þá eru prestarnir og biskuparnir almennt og yfirleitt góðir menn og konur, sem vilja vel. Ekki einu sinni "Svartstakkarnir" í Þjóðkirkjunni geta í alvöru talist "harðir" og hótandi (sumir, kannski). Pjattið og puntið er vel meint þótt gamaldags og úr sér gengið sé. Á milli mismunandi yfirdrifinna embættisverka eru prestarnir og biskuparnir fyrst og fremst venjulegir og oftast vel yfir meðallagi góðir og hjálplegir borgarar.
En af hverju er Svarthöfði Stjörnustríðanna mótvægi trúleysingjanna í gríninu? Er ekki hætt við að þegar hláturinn þagnar þá standi Svarthöfði eftir sem ímynd eða "Idol" trúleysingjanna í Vantrú? Ótvíræður fulltrúi illra afla? Andskotans í neðra? Er ekki hætt við því að Svarthöfði verði "lógó" trúleysingja, svona óvart, í hugum margra?
Trúleysingjar segja stundum að trúaðir dýrki draug eða drauga-þrenningu reyndar. Þegar kirkjuþing kemur saman í haust eiga trúleysingjarnir frekar, í áróðursskyni, að senda draug á vettvang. Til dæmis hinn góða Casper. Þeir (ég er ekki á meðal þeirra) vilja væntanlega ekki að eftir standi, að þegar fólk hugsar um trúleysi þá komi hinn illi Svarthöfði upp í hugann, er það?
![]() |
Svarthöfði vakti lukku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |