Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Leggjum (geð)sjúklingaskatt á auðjöfrana!

Það er sunnudagur, messutími og mál að predika.

Ríkisstjórn sem sker niður velferðarkerfi alþýðunnar og leggur viðbótarskatt á venjulegt fólk, en sleppir því að leggja á auðuga fólkið hátekjuskatt (og kallar hann bara "táknrænan"), sleppir því að leggja á auðuga fólkið stóreignaskatt og sleppir því að leggja á auðuga fólkið sérstakan fjármagnstekjuskatt, er ekki ríkisstjórnin mín. Svo mikið er víst.

Ríkisstjórn sem, vissulega af illri nauðsyn, sker niður framlög til velferðarkerfisins, ekki síst til aldraðra og öryrkja, og leggur á alþýðuna nýjan sjúklingaskatt, en dregur lappirnar við rannsókn á Hruninu og orsökum þess og hverjir báru þar ábyrgð og er of "kurteis" við auðjöfra landsins til að frysta eigur þeirra sem eru röklega grunaðir um að skaða þjóðina, er ekki ríkisstjórnin mín. Langt í frá.

En þá er það hin hliðin; Þjóð, sem ekki er undir núverandi kringumstæðum búin að segja "gömlu" stjórnmálaflokkurunum upp og stríð á hendur, og nú þegar búin að stofna til nýrra stjórnmálaeininga - er kannski ekki viðbjargandi. Fussar núna en kýs gamla stóðið í næstu kosningum. Því miður.

Heldur áfram að kaupa í Hagkaup og öðrum dýrari verslunum Baugsveldisins (1) í stað þess að loka þeim dyrum. Einmitt núna fyrir jólin. 

Það er kannski rétt að minna fólk á að þegar það fer og verslar í Hagkaup og öðrum dýrari verslunum Baugsveldisins þá er það ekki bara að leggja blessun sína á snekkju- og einkaþotuliðið í Baugi, heldur að borga fyrir lúxusveislur þess. Predikun lokið.

(1) Þarna stóð Bónus, en við nánari umhugsun er kannski réttara að refsa Baugi annars staðar en í ódýrustu verslunum einokunarveldisins (2).

(2) Þessu var ekki breytt vegna ritskoðunar á vegum Baugsmanna!


mbl.is Sendaherrabústaðir verði seldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áríðandi leiðrétting á grein deildarstjóra Ríkisskattstjóra

Vegna greinar Aðalsteins Hákonarsonar deildarstjóra eftirlitsdeildar Ríkisskattstjóra, "Skuldsettar yfirtökur og öfugur samruni" í blaði embættisins Tíund, er bráðnauðsynlegt að grípa til leiðréttingar.

Leiðréttingin er þessi: Greinin, sem annars er prýðilega góð og upplýsandi, birtist á röngum tíma. Hún átti að birtast í desember 2007 (í síðasta lagi) en ekki desember 2008.

Þar sem segir í desember 2008

"Hér að framan hefur verið lýst a. m. k. einu af þeim fyrirbærum sem hafa blásið út efnahagsreikninga bankanna og fyrirtækjanna í landinu á síðustu árum. Fyrir þessa uppfinningu hafa menn fengið bæði mikið lof og há laun. Til að hægt væri að koma þessu í kring þurfti greiðan aðgang að lánsfé og þeir sem það fengu voru tilbúnir að greiða bönkunum háar fjárhæðir fyrir aðstoðina sem þeir veittu við að búa ný félög til sölu á markaði. Þannig nærðust þessir aðilar með hvetjandi hætti hvorir á öðrum, bankarnir og fjárfestarnir.
Í raun má halda því fram að viðskiptalífið hafi þrifist á vissum blekkingum sem snérust um að sýna eins góða fjárhagsstöðu fyrirtækjanna og mögulegt var með því að færa allar eignir þeirra á hæsta
mögulega verði og stuðla þannig að því að gengi hlutabréfanna yrði sem allra hæst"
.

... átti að standa í desember 2007:

"Hér að framan hefur verið lýst a. m. k. einu af þeim fyrirbærum sem blása út efnahagsreikninga bankanna og fyrirtækjanna í landinu nú og á síðustu árum. Fyrir þessa uppfinningu hafa menn fengið bæði mikið lof og há laun. Til að hægt væri að koma þessu í kring þarf greiðan aðgang að lánsfé og þeir sem það eru tilbúnir að greiða bönkunum háar fjárhæðir fyrir aðstoðina sem þeir veita við að búa ný félög til sölu á markaði. Þannig nærast þessir aðilar með hvetjandi hætti hvorir á öðrum, bankarnir og fjárfestarnir.
Í raun má halda því fram að viðskiptalífið þrífist á vissum blekkingum sem snúast um að sýna eins góða fjárhagsstöðu fyrirtækjanna og mögulegt er með því að færa allar eignir þeirra á hæsta
mögulega verði og stuðla þannig að því að gengi hlutabréfanna sem allra hæst".

Ef greinin hefði birst á réttum tíma hefði hún meðal annars getað stuðlað að því að tekið væri til í íslensku fjármálalífi og fólk eins og Vilhjálmur Bjarnason og dætur hans væru ekki í nauðvörn frammi fyrir dómstólum að sækja rétt sinn. Þetta leiðréttist hér með.


mbl.is Hlutabréf seld á geðþóttaverði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mark "Deep throat" Felt kvaddur

 Mark Felt.

Merkilegur einstaklingur er látinn. Mark Felt var embættis- og stjórnmálamaður sem unni heitar rétti og hag almennings en rétt og hag spilltra stjórnmálamanna og athafnamanna.

Gagnvart gjörspilltum yfirmönnum sínum í pólitíkinni og fjármögnurum þeirra tók hann afstöðu með Jóni og Gunnu og hjálpaði blaðamönnunum Woodward og Bernstein hjá fjölmiðlinum Washington Post að fletta ofan af spillingu og leynimakki Nixons og kóna hans. Tryggði hið nauðsynlega lýðræðislega aðhald, sem ekki fékkst samkvæmt venjulegum rásum.

Bless, Felt.

Hvar eru "Feltar" Íslands? Hvar eru þeir sem þykir meira virði hagur almennings en hagur spilltra stjórnmála-, embættis- og athafnamanna - og koma mikilsverðum upplýsingum til trúverðugra blaða- og fréttamanna?


mbl.is „Deep Throat" látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar á að skera 100 milljarða til viðbótar?

Er ekki dásamlegt að vera undir handleiðslu IMF og fá hingað "tilsjónarmann" þaðan? Hreint og beint yndislegt. Og þessir góðu yfirmenn okkar leyfa okkur að reka ríkissjóð með, hva, 150 milljarða króna halla. Sem betur fer höfum við svo frjálslynda yfirmenn.

Í alvöru talað - um fjárlögin; nú höfum við upplifað viðbrögð við þeim niðurskurði sem þó hefur verið ákveðinn. Hann er auðvitað vondur; velferðin skert, aldraðir og öryrkjar sviknir, nýr sjúklingaskattur lagður á, bændur skertir, framkvæmdum frestað o.s.frv.

Sumir segja að það sé alrangt að skila frá sér fjárlögum með halla og telja að það eigi að skera niður um 100 milljarða TIL VIÐBÓTAR. Jón Magnússon, þingmaður Frjálslyndra, sagði beint út á þingi að það ætti að skera niður um 100 milljarða í viðbót en hafnaði auknum skatttekjum upp í þá upphæð. Ég beið spenntur eftir tillögum hans um þessa 100 milljarða. Hann nefndi niðurskurð á fæðingarorlofssjóði og afnám sjómannaafsláttar.

Kannski eru þetta valkostirnir:  Demba öllum vandanum yfir á núverandi kynslóðir í stað þess að dreifa honum og láta komandi kynslóðir taka þátt í honum. Það myndi þýða að VIÐ þyrftum að fara nokkurn veginn niður að hungursneyðarmörkum. Hvar á að taka 100 milljarðana (umfram það sem þegar hefur verið boðað)? Eigum við að afnema öll ríkisútgjöld til trúmála? Það eru ekki nema 5 milljarðar eða svo. Eigum við að loka spítölum og skólum? Leggja varðskipum, loka fangelsum, hætta að borga atvinnuleysisbætur og fæðingarorlof, afnema öll framlög til menningar og íþrótta, leggja niður Umboðsmenn barna og Alþingis, loka Sinfóníuhljómsveitinni?

 Poul Thomsen, yfirmaður sendinefndar IMF, sagði á fundi með blaðamönnum í utanríkisráðuneytinu í dag að aðal viðfangsefni núna væri að fást við fjárlögin. Visir.is: "Thomsen segir að niðurskurður í núverandi fjárlögum sé hóflegur, en fyrir 2010 verði hann mun meiri".

Hafa menn tillögur - eða sætta menn sig við halla-fjárlög?


mbl.is Áætlunin gengur vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pöntunarfélag alþýðu

Ekki veit ég hvort Jón Gerald Sullenberger sé rétti maðurinn til að ganga fram sem frelsandi engill, vera andlit mótmæla og stofna til lágvöruverslana á Íslandi. Jafnvel þótt hann hafi á einhverjum tímapunkti ákveðið að taka ekki þátt í misjafnlega löglegum gjörningum Baugs-manna og veislum á Thee Viking snekkjunni, þá gleymist það mér ekki að hann var fram að þeim tímapunkti fullur þátttakandi.

Ég myndi frekar vilja sjá almenning á Íslandi (alþýðuna) taka saman höndum. Fyrirfáeinum árum var lágvöruverslun að pakka saman og fara frá Höfn í Hornafirði og ég spurði Jón bróðir minn þar af hverju fólkið stofnaði ekki bara pöntunarfélag? Eins og í gamla daga, þegar verkalýðurinn brást við okurstarfsemi kaupmanna?

Ég spyr að hinu sama nú, fyrir landið allt. Gefum þessum kaupmönnum langt nef og stofnum pöntunarfélag. Nóg er af húsnæði undir lagera og einfalt skrifstofuhald. Gerum þetta sjálf í staðinn fyrir að treysta á Bónus og Jón Gerald.


mbl.is Jón Gerald mótmælir í Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ALLT fer undir teppið og við borgum ALLT

Því meir sem tíminn líður til einskis, því meir sem menn í ábyrgðarstöðum sverja af sér ábyrgð, þeim mun sannfærðari verð ég að sekir menn muni sleppa, að verðmæti okkar fari í súginn og að það verði setta á axlir alþýðu landsins í núverandi og komandi kynslóðum að borga - að axla ábyrgðina!

Hvarvetna finnst mér blasa við að þetta verði lexía málsins. Ráðagerðir um hvítbók, um sérstakan saksóknara, um rannsóknir á hinu og þessu - allt kemur þetta allt of seint til framkvæmda. "Útrásarvíkingarnir" munu sleppa og hafa haft nægan tíma til að fiffa með eignir og skuldir. Pólitískir ráðamenn sleppa við að axla ábyrgð. Ráðherrar þessarar og síðustu ríkisstjórna munu sleppa við ábyrgðina. Bankastjórn og bankaráð Seðlabankans munu sleppa. Stjórnendur og yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins munu sleppa. Ekkert af þessu liði fær nema í mesta lagi áminningu. Enginn mun tapa pening og æru nema Jón og Gunna. 

Engu mun skipta þótt fjölmiðlar geri sitt besta við að bæta upp fyrir sofandaháttinn undanfarinna ára. Harðar fréttir fjölmiðla virðast enda ekki hreyfa við sekum og ábyrgum aðilum hið minnsta.

Að þessum svartsýnu orðum sögðum held ég í jólabloggpásu!


Samtökin "Davíð heim"

Vill ekki einhver stofna með mér samtökin "Davíð heim"?

Ekki heim til mín þó!

Í samtökunum geta verið tvær deildir. Þeir sem vilja Davíð aftur "heim" í pólitíkina eru í annarri deildinni, en þeir sem vilja að hann fari á eftirlaun heim til sín og klappi skógarköttum og semji ljóð og leikrit í hinni deildinni. Skemmtinefnd getur skipulagt reiptog milli deilda. Davíð dæmir auðvitað.

Á meðan getur venjulegt fólk tekist á við þjóðarvandann.


mbl.is Man ekki eftir símtali við Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð endilega aftur í pólitíkina!*

 Davíð Oddsson kemur á fund viðskiptanefndar.

Þetta er þyngra en tárum taki. Davíð virðir meinta bankaleynd meir en þjóðarhagsmuni og embættismaðurinn neitar að svara brýnum spurningum yfirmanna sinna, kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Vill ekki upplýsa þjóðina um meinta vitneskju sína um hvers vegna Brown og Darling settu á ísland hryðjuverkalög. Hafi hann þá á annað borð nokkuð meint það sem hann sagði á fundi Viðskiptaráðs á dögunum.

Og hótar svo þjóðinni þeirri refsingu að "koma" aftur í stjórnmálin verði hann rekinn.

Ekki nema von að Geir sé í vandræðum með karlinn.

Morgunblaðið boðar viðtal við karlinn. Hversu krefjandi verða spurningarnar? Verður hann spurður að því hver eða hverjir séu hinir vernduðu - því bankaleynd er ætlað að verja einhverja hagsmuni, ekki satt. Hagsmunir hvaða aðila eru svona mikið ofar hagsmunum þjóðarinnar, sem eins og kunnugt er undirbýr málshöfðun vegnabresku hryðjuverkalaganna. Hverja setur Davíð ofar þjóðinni?

*ég breytti fyrirsögninni. Ég vil DO aftur í pólitíkina og helst auðvitað með eigin flokk. Ég held að það gæti orðið gaman.


mbl.is Davíð ber fyrir sig bankaleynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En... fleðulæti og slepja eru ær og kýr (margra) presta!

Svo virðist sem Feministafélag Íslands telji að hefðbundin sönnunarbyrði eigi að víkja í kynferðisbrotamálum og að dómarar eigi alltaf að trúa unglingsstúlkum/ungum konum einhliða þegar þær saka karla um kynferðislegt áreiti og annað þaðan af verra. Þá eigi dómarar bara að miða við "upplifun" hinna meintu þolenda. Gerir Feministafélagið sér ekki grein fyrir því hversu hættuleg þessi afstaða er?

Ég er ekki í vafa um að í prestastétt leynist margur úlfurinn í sauðagæru. Ég þykist nokkuð viss um að í umræddu máli hafi presturinn gengið allt of langt í faðmlögum og kossastússi. Ég er viss um að hann hafi verið "krípí". En ég er ekki viss um að hann hafi í raun og sann gengið lengra en lög og hefðir leyfa. Prestar eru "góðmenni" að atvinnu. Þeir hafa töluvert svigrúm til faðmlaga og smeðjulegra orðatiltækja. Úlfarnir í stéttinni, sem erfitt eiga með að hemja kynhvöt sína, notfæra sér kannski þetta svigrúm fram í ystu æsar. Besta ráðið er að losa sig við slíka presta áður en þeir ganga of langt. Varðhundurinn er sóknarnefndin, djákninn, organistinn og fleira gott fólk.

En samkvæmt lögum og hefðum og einfaldlega vegna þess möguleika að meintir þolendur geta verið að bera upp rangar sakargiftir (það hefur gerst og þýðir ekkert um það að þræta) þá gengur ekki að trúa öðrum aðilanum einhliða þegar orð standa gegn orði. Réttlætið og réttarkerfið krefjast þess að meira komi til, því eðlilega er mikill og sterkur vilji fyrir því almennt að saklausir menn dæmist ekki sekir. Við viljum ekki að slíkt hendi okkur og þess vegna viljum við ekki að slíkt hendi aðra.

Dómurinn í Héraðsdómi Suðurlands í máli séra Gunnars Björnssonar virðist vel ígrundaður og dómurinn var fjölskipaður; þarna dæmdu saman þrír dómarar, tveir karlar og ein kona. Í raun sannaðist ekkert á prestinn nema ofboðsleg fleðulæti og slepja, óviðeigandi faðmlög og kinnakossar. Með öðrum orðun nokkurn veginn það sem sáluhjálparar þjóðkirkjunnar gera!

Ráð gegn slíku er að banna prestum með lögum, og með innbyrðis kirkjureglum, að snerta, hvað þá faðma og kyssa sóknarbörn sín. Hands off! Er það ekki?


mbl.is Gagnrýna sýknudóm í kynferðisbrotamáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn um fjölmiðla - fjölmiðlar um þingmenn

Nú auglýsir Skjár Einn að framundan sé þátturinn Málefnið. Í Málefninu á að fjalla um "framtíð Íslenskra fjölmiðla". Umsjónarmenn þessa dagskrárgerðar í fjölmiðlinum Skjá Einum um fjölmiðla eru tveir kjörnir þingmenn þjóðarinnar, sem þiggja laun fyrir löggjafarstörf, Illugi Gunnarsson, kjörinn þingmaður af lista Sjálfstæðisflokksins og Katrín Jakobsdóttir, kjörinn þingmaður af lista Vinstri grænna.

Það veitir ekki af umfjöllun um framtíð íslenskra fjölmiðla. Sjálfsagt eru þau ekki verst til þess fallin, lögfræðingurinn og þingmaðurinn Illugi og bókmenntafræðingurinn og þingmaðurinn Katrín. Og sjálfsagt má finna að því að hefðbundnir fjölmiðlamenn annist dagskrárgerð um framtíð íslenskra fjölmiðla. Einhvern veginn finnst mér það nú samt eins og þarna eigi blindur að leiða haltan. Hafa þingmenn ekki annars nóg að gera þótt þeir taki ekki dagskrárgerð af fólki sem vantar verkefni? Eru aðstoðarmenn þessara þingmanna kannski að sinna þingstörfunum sjálfum?

Það er gott að það eigi að fjalla um framtíð íslenskra fjölmiðla

Ég legg til að í næsta þætti fjalli tveir fjölmiðlamenn, blaða- og fréttamenn, um framtíð íslenskra stjórnmála. Það er líka ákaflega verðugt verkefni um atvinnugrein og fag sem eru í djúpri kreppu þessi misserin. Annar ofangreindra þingmanna væri kjörinn til að svara krefjandi spurningum um stjórn íslenska ríkisins síðustu tvo áratugina eða svo. Um hrikalega útkomu flokks hans í skoðanakönnunum (sem mætti útleggja sem "stórkostlegt rekstrartap"). Um lexíuna af nýfrjálshyggjunni og einkavinavæðingunni o.s.frv. Og auðvitað um þann skaða sem íslensk stjórnmál hafa orðið fyrir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband