Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Voru hryðjuverkalögin kannski réttlætanleg aðgerð?

Sé þetta virkilega svona slæmt, að það telst næsta vonlaust fyrir Íslenska ríkið að höfða sérstakt mál gegn Bretlandi vegna hryðjuverkalaganna (burt séð frá málshöfðun bankaskilanefnda) þá er ekki verjandi annað en að birta álit Bresku lögmannsstofunnar. Það hlýtur að vera eðlileg krafa og sjálfsagt að verða við henni. Fjölmiðlar hljóta að óska eftir skýrslunni með vísan til upplýsingalaga. Ekki seinna en í gær.

Ef þetta er svona augljóst Þá liggur bara eitt eftir - beiting hryðjuverkalaga gegn íslenska ríkinu (okkur) var réttlætanleg aðgerð. Hvað er það þá sem við ekki vitum, sem ekki má segja okkur?
Álitið verður að birtast í heild sinni - það var gert fyrir okkur, vegna okkar og á okkar kostnað. Forsætisráðuneytið birtir minnisblað ríkislögmanns, en það er ekki nóg.

mbl.is (undirstrikanir og feitletranir mínar):

"Ríkisstjórnin hefur fengið álit frá bresku lögmannsstofunni Lovells um hugsanlega málshöfðun íslenska ríkisins gegn breskum stjórnvöldum í þeim tilgangi að láta reyna á lögmæti kyrrsetningar eigna Landsbankans með stjórnvaldsákvörðun þeirra frá 8. október 2008  á grundvelli hryðjuverkalaganna. Voru bresku lögmennirnir fengnir til að leggja mat á hvort hægt væri að hnekkja kyrrsetningunni fyrir breskum dómstólum á grundvelli sjónarmiða um ólögmæti og hvort íslenska ríkið gæti höfðað skaðabótamál fyrir breskum dómstólum vegna kyrrsetningarinnar.

Fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að lögmennirnir töldu að litlar sem engar líkur væru á því að íslensk stjórnvöld gætu hnekkt kyrrsetningunni fyrir breskum dómstólum. Rökstuddu þeir niðurstöðuna ítarlega með tilliti til breskra lagasjónarmiða og dómafordæma og töldu að lagaákvæðin veittu breskum stjórnvöldum afar rúmar heimildir til þess að beita kyrrsetningarákvæðum. Þá voru þeir þeirrar skoðunar að engar líkur væru á því að íslenska ríkið myndi fá dæmdar skaðabætur fyrir breskum dómstólum vegna kyrrsetningarinnar. Ríkislögmaður og þjóðréttarsérfræðingur utanríkisráðuneytisins voru sammála þessu áliti.

Á grundvelli þessa hefur ríkisstjórnin ákveðið að höfða ekki mál gegn breskum stjórnvöldum fyrir breskum dómstólum á þessu stigi. Hún mun hins vegar kanna aðra möguleika til alþjóðlegrar málsóknar til þrautar og má þar sérstaklega nefna Mannréttindadómstól Evrópu".


mbl.is Leita til mannréttindadómstóls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirlitsnefndin sem átti að passa upp á eftirlitið

Engum blöðum er um það að fletta að Bjarni Ármannsson og félagar hans í Klúbbi útrásarvíkinga skulda þjóðinni bæði afsökunarbeiðni og "skaðabætur". Það liggur fyrir. Og augu manna hafa réttilega beinst að eftirlitsstofnunum eins og Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Nú langar mig hins vegar að víkja að einni mikilvægri NEFND og spyrja hana opinberlega um hlutverk hennar og skyldur.

Allar götur aftur til ársins 1999 hefur verið starfandi "ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur". Samkvæmt sérstökum lögum hefur henni verið ætlað að tryggja "að opinbert eftirlit stuðli að velferð þjóðarinnar, öryggi og heilbrigði almennings, öryggi eigna, umhverfisvernd, eðlilegum viðskiptaháttum og neytendavernd". Segir og að þegar "eftirlitsreglur eru samdar eða stofnað er til opinbers eftirlits skal viðkomandi stjórnvald meta þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Slíkt mat getur m.a. falist í áhættumati, mati á alþjóðlegum skuldbindingum um eftirlit, mati á kostnaði opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga, mati á hvort ná megi sama árangri með hagkvæmari aðferðum eða mati á þjóðhagslegu gildi eftirlits".

Í "ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur" hafa margir einstaklingar átt sæti sl. tæpa áratug. Þetta fólk hefur haft það hlutverk m.a. að "taka eftirlitsreglur eða framkvæmd tiltekinnar eftirlitsstarfsemi til athugunar í heild eða að hluta" og "Veita stjórnvöldum ráðgjöf um endurskoðun eftirlitsreglna og framkvæmd eftirlits". 

 Nefndin tekur reglum samkvæmt mál til athugunar að eigin frumkvæði eða eftir rökstuddum ábendingum. Í reglugerðinni segir að nefndin skuli sjálf ákveða hvort ábendingar gefi tilefni til athugunar af hennar hálfu. Um málsmeðferð nefndarinnar segir ennfremur: „Nefndin beinir niðurstöðum athugana sinna til viðkomandi stjórnvalds og eftir atvikum til þess ráðherra er stjórnvald heyrir stjórnfarslega undir. Sinni stjórnvald ekki ábendingum nefndarinnar eða virðir ráðgjöf hennar að vettugi skal nefndin gera viðkomandi ráðherra og forsætisráðherra kunnugt um það".

Nefndin er til þriggja ára í senn og 2005 til 2008 áttu sæti í henni:

Aðalmenn

  • Halldór Árnason, skrifstofustjóri forsætisráðuneyti, formaður,
  • Ágúst Þór Jónsson verkfræðingur,
  • Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
  • Pétur Reimarsson, verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins, og
  • Þórunn Sveinbjörnsdóttir, fyrsti varaformaður verkalýðsfélagsins Eflingar.

Varamenn

  • Árni Páll Árnason héraðsdómslögmaður og
  • Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins.

Ritari nefndarinnar er Haukur Ingibergsson, forstjóri Fasteignamats ríkisins.

 Mig langar hér með til að spyrja þetta ágæta nefndarfólk hvort einhvern tímann hafi komið upp grunur hjá því eða ábendingar um að eftirlit Seðlabanka og Fjármálaeftirlits með fjármálakerfi þjóðarinnar hafi eitthvað verið ábótavant og hafi mátt herða og hvort nefndin hafi skoðað það og hugsanlega beint einhverjum tilmælum til téðra stofnana og ráðherra þeirra.


mbl.is Endurgreiddi 370 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Þjóðkirkjan skorin niður? Nei.

Ung vinstri græn (UVG) fagna svokölluðum niðurskurði á fjárveitingum til Þjóðkirkjunnar og segja að sá niðurskurður sé "stórt skref í átt að aðskilnaði ríkis og kirkju". Þessu er ég ekki sammála. Nánar tiltekið; ég aðhyllist aðskilnaðinn eins og UVG, en ekki er hægt að tala um raunverulegan 400 milljón króna niðurskurð. Það var hins vegar hætt við mikla hækkun á fjárframlögum.

Sparnaðurinn eða niðurskurðurinn umræddi er ekki fyrirhuguð breyting milli áranna 2008 og 2009. Fárlög (og fjáraukalög) 2008 og nýsamþykkt fjárlög 2009 sýna að fjárframlög til trúmála eru um það bil að standa í stað. Það sem er að lækka felst í breytingunni sem gerð var á upprunalegu fjárlagafrumvarpi 2009 (sem samið var af bjartsýnu fólki fyrir hrunið). Ríkið ætlaði að gera vel við trúfélög, en hvarf frá því. Það er EKKI eiginlegur niðurskurður. Engu hafði verið lofað með löggjöf. Ætlunin var að hækka framlögin, en horfið var frá því. Tala má um sparnað en síður niðurskurð.

Skoðum þetta aðeins betur. Í trúmálum skipti ég fjárframlögum í tvennt: Forréttindaframlög til Þjóðkirkjunnar annars vegar og síðan sóknargjöld sem í grunninn byggja á jafnrétti trúfélaga á milli (að jöfnunarsjóði undanskildum). Lítum fyrst á forréttindaframlögin. Samkvæmt fjárlögum (og fjáraukalögum) 2008 runnu 1.501 milljónir króna (einn og hálfur milljarður) til "Biskups Íslands" (þar í laun presta og stjórnsýsla trúfélagsins með meiru). Til stóð að hækka þetta verulega en vegna efnahagsástandsins var horfið frá því og í fjárlagafrumvarpi er upphæðin 1.509 milljónir. Þetta er ekki niðurskurður heldur hækkun um 8 milljónir. Menn hins vegar spöruðu sér fyrirhugaða stórhækkun.

Annað dæmi af forréttindaframlögunum: Kristnisjóður 2008 var 89.7 milljónir. Það átti að hækka myndarlega 2009, en eftir tiltekt á upprunalegu fjárlagafrumvarpi 2009 endaði þessi tala í 94.5 milljónum. Þetta er ekki niðurskurður, heldur hækkun. Hækkunin er bara ekki eins mikil og í fyrstu var farið af stað með - sem er allt annað mál.

Sóknargjöld byggja í grunninn á jafnrétti milli trúfélaga (og sóknargjöld fólks utan trúfélaga renna í svokallaðan Háskólasjóð (HÍ). Föst upphæð per haus. "Framlög" þar er í raun skattlagning ("tíund"!) fyrir hönd trúfélaganna. Yfirvöld ákveða einhverja krónutölu og að frátöldum Jöfnunarsjóði sókna (sem Þjóðkirkjan situr ein að) fá allir það sama. Niðurskurður eða sparnaður þarna bitnar því jafnt á öllum jafnt og breytir engu um aðskilnað ríkis og kirkju. Sóknargjöld til Þjóðkirkjunnar lækka um 23 milljónir milli ára, en það er ekki niðurskurður. Það er lækkun vegna þess að meðlimum Þjóðkirkjunnar fækkaði hlutfallslega. Sem er allt annað mál.

Þetta skyldu UVG hafa í huga. Hvað sem Biskupsstofa segir þá hefur enginn raunverulegur niðurskurður  átt sér stað á ríkisframlögum til Þjóðkirkjunnar, heldur er einvörðungu búið að "tóna niður" þau útgjöld sem fyrirhuguð voru af mönnum sem voru ekki búnir að upplifa Hrunið Mikla.


mbl.is Ung vinstri græn fagna niðurskurði við þjóðkirkjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað má ekki segja okkur?

Icesave reikningur Landsbankans.   Mér til mikillar furðu virðist vera umtalsverð hætta á því að frestur til málshöfðunar líði án þess að ríkisstjórnin fyrir hönd þjóðarinnar höfði mál gegn Bretlandi fyrir að setja á okkur hryðjuverkalögin. Í aldeilis ógnvekjandi frétt Sjónvarpsins í gær kom fram að maðurinn sem á að vera að skoða málið fyrir okkar hönd, Páll Þórhallsson, sé búinn að vera í fríi í útlöndum í hálfan mánuð. Fréttamaðurinn náði eitthvað í skottið á honum og fékk upp úr honum að hann treysti sér ekki til að svara til um hvenær frestur til málshöfðunar renni út - hann sé ekki nógu vel að sér um það.

Ég hafði áður lesið eða heyrt að þessi frestur væri að renna út núna 7. janúar. Ég vona að Kristín Sigurðardóttir fréttakona Sjónvarpsins fylgi þessu fast eftir og að aðrar fréttastofur taki málið upp. Fram hefur komið að það séu "meiri líkur en minni" á því að Kaupþing höfði mál, en það er ekki nóg. Ég vil að mál verði einnig höfðað fyrir OKKAR hönd, þjóðarinnar. Ekki bara vegna peninganna (en auðvitað viljum við lágmarka tjón þjóðarinnar) heldur líka vegna þjóðarstoltsins.

Hins vegar hefur komið fram það álit Geirs Haarde forsætisráðherra að til greina komi að sleppa málshöfðun en semja þess í stað um betri lánskjör vegna lántökunnar upp í Icesave. Það finnst mér óviðunandi hugsanaháttur. Ég sætti mig ekki við þetta og trúi því ekki að þjóðin geri það. Hygg raunar að ef ekki verði farið í mál við Breta verði það eins og olía á eldinn þann sem brennur hérlendis.

Allt er þetta dularfullt og styrkir mig í þeirri trú að sitthvað búi undir sem okkur er ekki sagt frá. Það er eitthvað verulega svart þarna að baki sem illa þolir dagsljós. Á yfirborðinu eigum við að vera með gjörunnið mál gegn Bretlandi, en undir yfirborðinu leynist líklega eitthvað ullabjakk sem kannski gerir málið tapað. Við fáum ekki að vita af því. 

Stefán Jón Hafstein var að reyna að velta þessu öllu upp í stórfróðlegri grein í Fréttablaðinu 27. desember síðastliðnum. Þar fjallaði hann um "Stóra planið", þar sem við ætluðum að "borga ekki" erlendar skuldir óreiðumanna, en vorum þvinguð til þess, með hryðjuverkalögunum og þrýstingi annarra "vinaþjóða". Hér er bútur úr greininni:

"Í gegnum skín plottið: Við borgum ekki. En það gat hann ekki sagt með þeim orðum - ekki eftir að snjallræðið klikkaði. Og aðrir ráðamenn geta ekki viðurkennt að hafa unnið samkvæmt því. En þannig hlýtur það að hafa verið. „Má-kannski-segja-að-eftir-á-að-hyggja-hefðum-við-ef-till-vill-átt-að-vera-betur-vakandi" er virkilega slæm afsökun. En hún er sú eina sem eftir stendur því miklu verra er að viðurkenna tilvist Stóra plansins sem brást og leiddi þjóðina í ánauð. Það gengur einfaldlega ekki upp að fólk með tiltölulega heila hugsun, eins og stjórn Seðlabankans, í ríkisstjórn, eftirlitsstofnunum, í bönkunum og 63 Alþingismenn hafi ekki lagt upp neina aðgerðaáætlun. Það væri svo óendanlegt ábyrgðarleysi hjá svo mörgum, svo lengi, að brýtur gegn allri skynsemi. Þegar áramótaannálar fjölmiðlanna verða kynntir sjáum við að allt þetta ár glumdu viðvörunarbjöllur samfellt og blikkljós hringsnérust. Einhvers staðar, einhvern tíman var ákveðið að nota Dario Fo leiðina. Hver? Hvers vegna? Að hvers ráðum?

Hér þarf að halda til haga smávægilegri frétt á vísi.is, sem birtist fljótlega eftir að neyðarlögin voru sett. Jón Þór Sturluson aðstoðarmaður viðskiptaráðherra lýsti því að ráðuneytið hefði verið vel undirbúið og drög að neyðarlögunum legið fyrir „í sumar". Þetta vakti af einhverjum ástæðum ekki mikla athygli. Það sannar þá tilgátu mína að þá þegar hafi Dario Fo leiðin verið hönnuð. Þetta styður frásögn Davíðs sem snemma árs hélt ásamt sínum mönnum til London og var svo brugðið við lýsingu Breta á íslensku bönkunum að þeir kölluðu ráðamenn saman við heimkomu og lásu yfir þeim skýrslu sína. Nánar tiltekið „forystumönnum stjórnarflokkanna, ýmsum ráðherrum og embættismönnum"."

 

 Eitthvað það hefur verið að gerast með bankastarfsemi "okkar" sem þolir ekki dagsljósið og við fáum ekki að vita um, en gerir málshöfðun gegn Bretum líkast til að engu. Ég vil fá að vita hvað þetta er. Ef ekki stendur til að höfða þetta mál þá vil ég vita ástæðurnar og frábið mér hálf-sannleik og lygi.

Getur verið að reiði almennings yfir því að höfða ekki málið sé skárri en væntanleg reiði almennings yfir því sem gerðist en okkur er ekki sagt frá?


mbl.is Icesave-lánakjörin enn óljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um fjölmiðla og eigendur þeirra

Meðal þess sem Einar Már Guðmundsson nefndi í ræðu sinni á Austurvelli í dag var að Sigmundur Ernir (og félagar hans á Stöð 2 og öðrum "Baugsmiðlum") ættu að segja við Jón Ásgeir Jóhannesson (aðaleiganda miðlanna) að taka þá ábyrgð sem hann beri.

Undir þetta má taka upp að vissu marki, en það fer eftir hvað meint er með "segja við". Er átt við að þeir eigi að tala við hann persónulega og skipa honum að taka ábyrgð? Er átt við það að þeir eigi að segja þetta við hann í fréttaupptöku og þá sem hluta af frétt? Er átt við að starfsfólkið eigi að fara í verkfall og stöðva fjölmiðilinn sem það vinnur hjá þar til Jón Ásgeir hefur tekið ábyrgð? Eða er átt við "óbeina" aðkomu að slíkum skilaboðum með flutningi á gagnrýnum fréttum um meintar sakir Jóns Ásgeirs, þar sem reiddar eru fram fréttir og fréttaskýringar með óyggjandi upplýsingum, þess eðlis að Jón Ásgeir hljóti að taka ábyrgð? Hér er úr vöndu að ráða.

Auðvitað eru faglegir fjölmiðlamenn tvístígandi gagnvart eigendum þeirra fjölmiðla sem þeir starfa á. Ef þeir flytja fréttir af eigendum sínum þá eru þeir vanhæfir til þess og þeim ekki trúað. Ef þeir flytja ekki fréttir af eigendum sínum eru þeir undir hæl eigenda sinna. Menn eru því á milli steins og sleggju. Geta sig varla hrært og eru gagnrýndir hvað sem þeir gera. Er betra að vera vanhæfur? Er verra að vera undir hæl eigendanna?

Ég hygg að allt of mikið sé gert úr meintri þrælslund blaða- og fréttamanna gagnvart eigendum fjölmiðlanna. Ég held að of mikið sé jafnframt gert úr ritskoðunartilburðum eigendanna sjálfra. Stór hluti vandans er sjálfsritskoðun - það er fagmönnum erfitt að fjalla krítískt um eigendur síns fyrirtækis. Milli steins og sleggju sem fyrr segir. Baugsmiðlar eiga erfitt með að fjalla um Baug. Viðskiptablaðið gat illa fjallað um Bakkavararbræður. Morgunblaðið á erfitt með að fjalla um sína eigendur. RÚV er líka í vandræðum; t.d. að fjalla um menntamálaráðherra og makann hans.

Fjölmiðlum í svona stöðu væri það góður kostur að geta leitað út fyrir ritstjórnirnar og í smiðju óháðra og ótengdra fjölmiðlaverktaka um einstök verkefni sem eru eigendum viðkomandi fjölmiðla of náin. Ég sting upp á því.


mbl.is Mótmælt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af Hvítliðum og Svartliðum

 Frá mótmælum á Austurvelli.Það viðrar vel til mótmæla í dag. Ég ætla að fara og hlusta á stúlkuna 8 ára - það er ekki síst hún sem á að erfa ófögnuðinn af völdum Hrunsins, sukksins og spillingarinnar.

Kannski mætir Ólafur Klemensson, sérlegur útsendari Seðlabankans? Á kannski leið hjá fyrir einskæra tilviljun? Kannski sendir Valhöll uppbúna "Hvítliðasveit" til að vernda lýðræðið? Það væri eftir öðru ef harðsvíruðustu Sjallarnir eru búnir að skipuleggja aðgerðir gegn mótmælum alþýðunnar. Verst að slíkir "Hvítliðar" geta bent á ofbeldi og eyðileggingu örfárra svokallaðra aktífista (eða Anarkista) - sem ég mun hér með kalla "Svartliða".

Að öðru en samt ekki öðru. Ég lýsi hér með furðu minni á að mbl.is leyfi ekki bloggfærslutengingu við frétt sína um Ólaf Klemensson og svæfingalækninn hans. Lygar Ólafs í fréttinni eru yfirgengilegar - það sanna myndir og frásagnir vitna. Mennirnir var mættir fyrir framan Hótel Borg til að beita ofbeldi (rétt eins og harðsvíruðustu Svartliðarnir). Þeir ógnuðu mótmælendum gjörsamlega að ósekju og ljúga um annað. Skammarleg framkoma. Þetta vildi ég fá að rita færslu um með tengingu við viðkomandi frétt, en af einhverjum ástæðum meinar mbl.is mér og öðrum það. Gagnlegt væri að fá skýringu á því. Vonandi er hún til og getur talist gild.


mbl.is Mótmælaróður hertur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað nánar tiltekið fæst með ofbeldi og eyðileggingu?

Miklar umræður sköpuðust við síðustu færslu mína um Kryddsíldarævintýrið við Hótel Borg. Það er gott. Í færslunni var ég almennt að taka undir gildi og nauðsyn mótmælanna, en frábiðja mér ofbeldi og eyðileggingu og taldi þannig óréttmætt að rjúfa viðkomandi dagskrárgerð, enda væri þar verið að spyrja stjórnmálamenn krítískra spurninga.

Það er óbreytt. Ég hef nú horft á mikinn fjölda mynda og lesið ótal frásagnir af atburðunum við Hótel Borg og það hefur ekki breytt grundvallarskoðun minni á því sem fram fór, þótt ég hafi heldur færst nær túlkun mótmælenda hvað ofbeldi af hálfu lögreglunnar varðar. Fæ ekki betur séð en að piparúðaárásin hafi verið hlutfallslega of sterk viðbrögð miðað við aðstæður.

Þetta breytir hins vegar ekki þeirri skoðun minni að hluti mótmælendanna (ég hef sérstaklega nefnt þá sem ég kalla Anarkistana) gekk of langt. Græjur voru skemmdar og saklaust fólk var meitt. Ég tel að þegar slíkt gerist þá sé veruleg hætta á því að mótmælin missi stuðning og ekki er það gott. Innan um heiðvirt og gott fólk sem býr við réttmæta reiði eru einstaklingar sem virðast hafa ofbeldi og skemmdarverk að sínu skærasta leiðarljósi. Það er ekki gott.

En það má vissulega ræða hvaða aðferðir eru líklegar til að opna augu stjórnvalda best og mest. Getur verið að leið hinna svarklæddu og andlitshuldu Anarkista sé einmitt best? Verða bílar og hús að brenna og fólk að lemstrast og deyja? Er það tilfellið? Gott væri að fá upplýsingar um það hvort stjórnvöld hafi einhvers staðar breytt um stefnu vegna róttækra aðgerða og ofbeldis af hálfu þeirra hlutfallslega fáu mótmælenda sem lengst ganga. Er það að gerast í Grikklandi núna? Gerðist það í Frakklandi vegna aðgerðanna í úthverfum Parísar? Er þessi róttæka aðferðarfræði með öðrum orðum einhvers staðar að skila árangri þannig að augu stjórnvalda opnast og stefna þeirra breytist? Eða næst meiri og betri árangur með annarskonar og friðsamlegri aðferðum?

Notabene, ég er ekki að tala um heildstæðar uppreisnir innan þjóðfélaga, byltingar. Hvorki aðgerðirnar hér né t.d. í Grikklandi eru uppreisn eða bylting. Fjarri því. Enginn vafi er á því að mikil reiði er ríkjandi í samfélaginu vegna Hrunsins Mikla og spillingarmála sem tengjast því, en það er langur vegur frá því að þorri þegna landsins vilji umbylta ríkjandi samfélagsskipan. Það vill skipta um fólk, já, en ekki stjórnskipan. Krafan um kosningar er kannski einmitt staðfesting á viljanum til að halda í fulltrúalýðræðið og þingræðið. Eða hvað haldið þið?


mbl.is Gas Gas Gas á gamlársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það átti að færa Kryddsíldina - það á að stokka upp

Eins reiður og ég er vegna Hrunsins og sammála almennum mótmælum þá hlýt ég að fordæma eyðileggingaþörfina sem þarna birtist. Að því sögðu verð ég að harma að Stöðvar tvö fólk hafi ekki séð hættuna fyrir og ákveðið að flytja Kryddsíldina burt frá Hótel Borg og Austurvelli.

Ég held að þetta flokkist ekkert undir að vera vitur eftir á hjá mér - ef vitað er að aðgerðir myndu standa yfir á þessum stað og þessum tíma. Mig grunar raunar að Stöðvar tvö fólk hafi ekkert haft á móti því að mótmælaaðgerðir myndu "krydda" Kryddsíldina, en þá er það fólk samsekt stjórnvöldum um að hafa vanmetið reiðina sem í gangi er hjá þeim róttækustu. 

En auðvitað eiga stjórnvöldin mestu sökina á því hversu reitt fólk er. Þau hafa algjörlega misst allt samband við venjulegt fólk og halda að fólkið sé sátt við það sem þau gera. Sem er af og frá. Hjá fólki er mjög vel rökstuddur grunur um að allar "björgunaraðgerðir" miðist við að púkka undir útvalda en láta "óbreytta" fá reikninginn. Það er ímyndin og ekkert bendir til þess að hún sé röng.

Hitt er annað mál að reiði almennings hefur ekki, enn hið minnsta, fengið boðlegar og lýðræðislegar útrásarleiðir. Slíkt ýtir undir óánægju. Ef fram væru að koma "alvöru" nýir pólitískir valkostir og/eða að uppstokkun væri að eiga sér stað í "gömlu" flokkunum væri ástandið strax betra. En svo er ekki.


mbl.is Fólk slasað eftir mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðileg jól

Við hérna í Miðstrætinu óskum öllum gleðilegra jóla, sama hvaða trúarbrögðum eða trúleysi þið tilheyrið.

Við óskum ykkur einnig farsældar á komandi ári og ekki síst að við öll fáum að njóta betri stjórnvalda og manneskjulegri stjórnvaldsaðgerða. Nóg er af jólasveinum samt.


mbl.is Nærri 3.000 jólakveðjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárlögin: Nokkrir póstar til að skera niður

Mynd 485320Ég hef grandskoðað fjárlagafrumvarpið fyrir 2009, sem nú er til umfjöllunar og samþykktar á Alþingi. Fann þar margt til að skera niður til að létta á þörfinni fyrir að skera niður velferðarútgjöld og leggja á sjúklingaskatta. Til dæmis 372 milljóna króna framlag til stjórnmálasamtaka.

Ég legg neðangreindan lista fram til umræðu, en sumt af þessu hefur þegar verið skorið niður frá fyrstu frumvarpsdrögum, annað ekki (eins og framlagið til stjórnmálasamtaka!). Sumt þarna má skera niður myndarlega tímabundið, annað má hverfa alfarið. Samtals hljóða neðangreindir liðir upp á tæpa 14 milljarða (mér sýnist að það mætti skafa hið minnsta helminginn af þessu) og auðvitað má finna margt fleira í frumvarpinu sem má fara í "frí" um stundarsakir. Gjörið svo vel:

 

Skotmörk til niðurskurðar (milljónir króna)

Sendiráð Íslands: 2.496 m.kr.

Sóknargjöld til þjóðkirkjunnar: 2.018 m.kr.

Biskup Íslands: 1.510 m.kr.

Varnarmálastofnun: 1.197 m.kr.

Fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll: 1.006 m.kr.

Styrkir til ferja og sérleyfishafa: 989 m.kr.

Sinfóníuhljómsveit Íslands: 717 m.kr.

Jöfnunarsjóður sókna: 379 m.kr.

Framlög til stjórnmálasamtaka: 372 m.kr.

Íslensk friðargæsla: 320 m.kr.

Styrkir til innanlandsflugs: 317 m.kr.

Samningar við sveitarfélög um menningarmál: 294 m.kr.

Kirkjumálasjóður: 292 m.kr.

Sóknargjöld til annarra trúfélaga: 255 m.kr.

Landkynningarskrifstofur erlendis: 203 m.kr.

Skúffufé ríkisstjórnarinnar: 200 m.kr.

Íslenska óperan: 176 m.kr.

Óframleiðslutengdur stuðn. við mjólkurframleiðendur: 158 m.kr.

Íslenski dansflokkurinn: 130 m.kr.

Þróunar- og markaðsverkefni Bændasamtaka: 115 m.kr.

Nýliðunar- og átaksverkefni í sauðfjárframleiðslu: 97 m.kr.

Kristnisjóður: 95 m.kr.

Skúffufé ráðherra samtals: 81 m.kr.

Atlantshafsbandalagið, NATO: 71 m.kr.

Markaðssetning Íslands í Norður-Ameríku: 64 m.kr.

Gljúfrasteinn - Hús skáldsins: 36 m.kr.

Landssamband KFUM og KFUK: 34 m.kr.

Starfsemi áhugaleikfélaga: 25 m.kr.

Átak í hrossarækt: 25 m.kr.

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar: 18 m.kr.

Bridgesamband Íslands: 14 m.kr.

Ritun biskupasögu, Hið íslenska fornritafélag: 14 m.kr.

Verðlagsnefnd landbúnaðarafurða: 6 m.kr.

Innleiðing gagnagrunna á lögbýlum: 5 m.kr.

Hollvinasamtök varðskipsins Óðins: 5 m.kr.

Námsleyfi lögfræðinga: 4 m.kr.

Viðhald á stafkirkju í Vestmannaeyjum: 3 m.kr.

Stórstúka Íslands: 2 m.kr.

Biblíuþýðingar: 600 þúsund kr.

 

Ég býst við háværum mótmælum út af sumu af þessu og tek ég því fagnandi! Munið bara: Niðurskurður 2009 er sagður verða erfiður og sársaukafullur - en yfirstofnun Íslands, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, boðar MUN RÓTTÆKARI niðurskurð 2010.

Sem reyndar er stórmerkilegt, í ljósi fréttar af sjóðnum í síðustu viku, sem ástæða er til að rifja hér upp:

 "Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), segir að ríkisstjórnir verði að auka fjárútlát svo efla megi hagvöxt í heiminum" (Viðskipti | mbl.is | 21.12.2008). Það virðast önnur lögmál gilda á Íslandi.

 


mbl.is Vilja endurskoða fjárlög í ársbyrjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband