Um fjölmiðla og eigendur þeirra

Meðal þess sem Einar Már Guðmundsson nefndi í ræðu sinni á Austurvelli í dag var að Sigmundur Ernir (og félagar hans á Stöð 2 og öðrum "Baugsmiðlum") ættu að segja við Jón Ásgeir Jóhannesson (aðaleiganda miðlanna) að taka þá ábyrgð sem hann beri.

Undir þetta má taka upp að vissu marki, en það fer eftir hvað meint er með "segja við". Er átt við að þeir eigi að tala við hann persónulega og skipa honum að taka ábyrgð? Er átt við það að þeir eigi að segja þetta við hann í fréttaupptöku og þá sem hluta af frétt? Er átt við að starfsfólkið eigi að fara í verkfall og stöðva fjölmiðilinn sem það vinnur hjá þar til Jón Ásgeir hefur tekið ábyrgð? Eða er átt við "óbeina" aðkomu að slíkum skilaboðum með flutningi á gagnrýnum fréttum um meintar sakir Jóns Ásgeirs, þar sem reiddar eru fram fréttir og fréttaskýringar með óyggjandi upplýsingum, þess eðlis að Jón Ásgeir hljóti að taka ábyrgð? Hér er úr vöndu að ráða.

Auðvitað eru faglegir fjölmiðlamenn tvístígandi gagnvart eigendum þeirra fjölmiðla sem þeir starfa á. Ef þeir flytja fréttir af eigendum sínum þá eru þeir vanhæfir til þess og þeim ekki trúað. Ef þeir flytja ekki fréttir af eigendum sínum eru þeir undir hæl eigenda sinna. Menn eru því á milli steins og sleggju. Geta sig varla hrært og eru gagnrýndir hvað sem þeir gera. Er betra að vera vanhæfur? Er verra að vera undir hæl eigendanna?

Ég hygg að allt of mikið sé gert úr meintri þrælslund blaða- og fréttamanna gagnvart eigendum fjölmiðlanna. Ég held að of mikið sé jafnframt gert úr ritskoðunartilburðum eigendanna sjálfra. Stór hluti vandans er sjálfsritskoðun - það er fagmönnum erfitt að fjalla krítískt um eigendur síns fyrirtækis. Milli steins og sleggju sem fyrr segir. Baugsmiðlar eiga erfitt með að fjalla um Baug. Viðskiptablaðið gat illa fjallað um Bakkavararbræður. Morgunblaðið á erfitt með að fjalla um sína eigendur. RÚV er líka í vandræðum; t.d. að fjalla um menntamálaráðherra og makann hans.

Fjölmiðlum í svona stöðu væri það góður kostur að geta leitað út fyrir ritstjórnirnar og í smiðju óháðra og ótengdra fjölmiðlaverktaka um einstök verkefni sem eru eigendum viðkomandi fjölmiðla of náin. Ég sting upp á því.


mbl.is Mótmælt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

góð hugmynd.

sandkassi (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 22:51

2 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk fyrir þessar vangavelltur...ég tek undir þetta með sjálfsritskoðunina!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 3.1.2009 kl. 23:04

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Er enginn undrandi yfir því að fréttamenn skuli aldrei hafa spurt ábyrgðarmenn valdstjórnarinnar þeirrar spurningar hvað þeir eigi við með þeirri klisju að enginn hafi getað séð það fyrir hvað í vændum var?

Er ég eini maðurinn á Íslandi sem finnst það óþægilegt að láta þetta fólk ljúga upp í opið geðið á mér og komast upp með það?

Árni Gunnarsson, 3.1.2009 kl. 23:20

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Mér finnst það bæði rétt og rangt hjá þér Árni að ráðamenn séu ekki spurðir nógu vel og vandlega. Fréttamenn hafa sumir stundum spurt gagnrýninna spurninga, meðal annars um hvaða vitneskja hafi legið fyrir áður en að hruninu kom. Ekki nógu margir og ekki nógu oft. Og klisjukenndum svörum með hálf-sannleik hefur ekki verið fylgt nógu vel eftir.

Kannski vantar meiri frumvinnslu, gagnaöflun, skipulagða upprifjun og virka þátttöku óháðra utanaðkomandi aðila með sérþekkingu. Kannski er ekki endilega málið að "spyrja ráðamenn" ef hægt er að finna svörin öðruvísi.

Í kvöldfréttum annarrar sjónvarpsstöðvarinnar var fjallað um hugsanlega málshöfðun ríkisins (Íslensku þjóðarinnar) gegn Breskum stjórnvöldum vegna hryðjuverkalagasetningarinnar og talsmaður stjórnvalda hér spurður að því hvenær frestur til málshöfðunar renni út og komst viðmælandinn upp með að svara að hann hefði ekki nægilega þekkingu til að svara spurningunni.

Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Ég hélt satt að segja að það væri alveg á hreinu að bæði Kaupþing og ríkið myndu höfða málið og krefjast hárra skaðabóta - og hafði lesið að fresturinn myndi renna út núna 7. janúar! Hélt því að pappírarnir væru byrjaðir að renna út úr prentvélunum og að leggja af stað til London.

Getur verið að það eigi ekki að höfða þetta mál? Fjölmiðlamenn verða að ganga mjög einarðlega í málið strax "í gær". Þetta snýst enda ekki bara um skaðabæturnar upp í Icesave og kaupþingsskuldirnar; þetta snýst líka um að fólkið fái að sjá að ALLT sé gert til að lágmarka tjón núverandi og komandi kynslóða. Og auðvitað verja þjóðina fyrir ofbeldi af hálfu frekra stórþjóða.

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.1.2009 kl. 23:51

5 identicon

Sjá þessa frétt

Helga (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 00:30

6 Smámynd: Benedikt Bjarnason

Ég læt það mig litlu skipta hverjir eiga fjölmiðlana. Menn mega kalla þá „Baugsmiðla“ eða hvað annað mér að meinalausu.

En ég er það gamall að ég man eftir því þegar Ríkisútvarpið var eina útvarpsrásin og stjórnmálaflokkarnir gáfu út hver sitt málgagn. Tíminn, málgagn Framsóknarflokksins kom með sveitapóstinum, hálfsmánaðarlega eða vikulega þegar best lét. Morgunblaðið eða önnur dagblöð sáust varla.

Ekki get ég ímyndað mér að auðvelt hafi verið fyrir andstæðinga framsóknar að fá birtar gagnrýnisgreinar á stefnu Framsóknarflokksins í Tímanum. Og auðvitað hefur þetta verið svipað  hjá hinum blöðunum. Ekki veit ég hvort þú manst eftir þessum tíma, en þú leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál. 

Nú er frjálsræðið mun meira. Fjölmiðlar fleiri og öflugri. Svo ekki sé talað um möguleika nettengingarinnar um allt land.

Vissulega getur verið erfitt að gagnrýna eða flytja fréttir af sínum vinnuveitenda. Sama hvernig skrifað er, allt getur valdið tortryggni. En mín tilfinning er sú að fréttamaður sem er vandur að virðingu sinni flytur fréttir af fréttnæmum málefnum af kostgæfni sama hver eigandinn er.

Eigandi af fréttamiðli getur alltaf reynt að koma í veg fyrir eða fegra fréttaflutning af málum sem varða hann á einhvern hátt. Það breytir engu hversu stórann hlut hann á i tilteknum fjölmiðli. Ef viljinn er fyrir hendi þá er ekkert sem kemur í veg fyrir slíka tilraun. Á endanum er það samviska og heiðarleiki fréttamannsins sem ræður úrslitum.

Benedikt Bjarnason, 4.1.2009 kl. 00:51

7 identicon

Ég spyr mig vegna málsóknarinnar.

Vita stjórnvöld hér hugsanlega að hún sé vonlaus. Að ef farið yrði í dómsmál yrði að upplýsa hvers vegna Bretar lokuðu á íslensku bankana, að þá komist upp um vafasama fjármagnsflutninga.

Og að það yrðu einfaldlega talin næg rök til að sýkna bresk yfirvöld eða vísa málinu frá?

Ég velti þessu fyrir mér.

Egill (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 01:20

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þetta, Egill, er einmitt eitt af því sem þarf að ganga úr skugga um - því ekki hefur okkur verið sagt af þessu.

Ég var einmitt að ná mér í grein Stefán Jóns Hafstein í Fréttablaðinu 27. desember síðastliðinn (Innlendir vendipunktar: Flugleiðin til Íslands), til að rifja upp og narta af í hugsanlega sunnudagshugvekju á morgun.

Hér finnst greinin:

http://www.visir.is/article/20081227/SKODANIR03/898453017

 Molar úr greininni, sem furðufáir virðast hafa lesið þannig að umræða skapaðist:

"Þetta er bara brot í púsl sem raðast hefur upp að undanförnu: Að íslenskir stjórnmálamenn, Seðlabankamenn og viðskiptabankamenn hafi a.m.k. í 2 ár vitað að í veruleg vandræði stefndi. Stóra planið mótaðist... 

... Í byrjun apríl átti Geir Haarde fund með Gordon Brown. Efni fundarins lék á reiki því tvær mismunandi útgáfur af fréttatilkynningum fóru út um hann. Nú er staðhæft að Brown hafi ráðlagt Haarde að leita til AGS. Hvers vegna var því heilræði ekki hlítt? Skömmu síðar veitti Alþingi heimild til að taka stórlán, en fljótlega varð ljóst að engir 500 milljarðar dygðu í varasjóð. Svo vildi enginn lána Íslandi. Tveir breskir fræðimenn komu til landsins í boði Landsbanka og lásu þar upp að Íslendingum væru fáir kostir í boði, veðsetja auðlindir, slá risa-risalán eða skipta um gjaldmiðil sem líklega væri of seint. Stóra planið mótaðist í huga ráðamanna og skúffa viðskiptaráðuneytis gerð klár...".

Friðrik Þór Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 01:32

9 Smámynd: Sigfús Axfjörð Sigfússon

Hvað finnst þér sjálfum, hvaða leiðir ættu simmi og þeir að fara að vinnuveitanda sínum?

Sigfús Axfjörð Sigfússon, 4.1.2009 kl. 01:47

10 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Ef  fréttamenn /blaðamenn  geta ekki sinnt fagmennsku sinni af ótta við að  tapa starfi sínu, ættu þeir þá ekki að vera í öðrum störfum?

Og ef viðurkennt er að það sé skiljanlegt!!!!! þeir þurfi að hafa í sig og á, því ættu þá einhverjir aðilar úti í bæ (verktakar) að koma að vinnslu frétta sem gætu skaðað þá á einhvern annan hátt - t.d. það að geta vænst þess að fá starf hjá þessum sömu fjölmiðlum?

Hvað varðar RÚV þá eiga fréttamenn þar, ekkert fremur nú en fyrir 20 árum eða 30 árum að vera hræddir um að skrifa um menntamálaráðherra.

Því ættu þeir að vera það?

Seg þú okkur, þú sem varst starfsmaður Kastljóss?

Annars kann ég bloggi þínu vel þótt ég hafi á stundum aðrar skoðanir, sér í lagi þegar kemur að fjölmiðlaumfjöllun.

Ég þarf ekki að spyrja Einar Má Guðmundsson að því hvað hann meinti með orðum sínum í dag - hann fór áreiðanlega fram á það að hinir ,,hlutlausu" fréttamenn spyrðu eiganda sinn um sín málefni rétt eins og málefni annarra. 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 4.1.2009 kl. 02:01

11 identicon

Ég held þú hittir naglann á höfuðið þegar þú segir fjölmiðlamenn milli steins og sleggju. Ef fjallað er um eigendurna er því ekki trúað, en ef það er ekki gert er kvartað undan því. Persónulega kýs ég frekar fyrri kostinn.

Kerfið hefur, frá mínum bæjardyrum, virkað þannig að fjölbreytni fjölmiðla hefur gert þetta minna mikilvægt en ella. Ef einn miðill fjallar ekki um ákveðið mál eru aðrir boðnir og búnir. Þetta gæti hins vegar farið að verða stærra vandamál þegar miðlunum fækkar.

Ég held að stærra vandamál sé einfaldlega tímaleysi. Blaðamenn þurfa að "framleiða" mikið af fréttum á hverjum degi. Ég man eftir að hafa fengið tvær til þrjár vikur til að vinna að fréttaskýringu. Amerískir kollegar sem ég hef rætt við hafa sumir fengið sex mánuði eða meira til að vinna að frétt. Og flogið milli heimsálfa nokkrum sinnum ef þörf var talin á. Peningaskortur getur þannig haft mikil áhrif á fjölmiðla, yfir því er ég uggandi núna.

Ég er líka sammála því sem þú segir að þrælslund fjölmiðlafólks og ritskoðun eigenda sé ofmetin. Ég hef skrifað um Baugsmálið svo gott sem frá upphafi, fyrst í Morgunblaðið og svo Fréttablaðið. Á hvorugu blaðinu reyndi einhver að hafa áhrif á það sem ég skrifaði, á einn veginn eða annan. Í óteljandi fréttum sem ég hef skrifað um þetta mál man ég ekki einu sinni til þess að fyrirsögn hafi verið breytt af fréttastjóra eða öðrum, sem gerist þó því sem næst daglega með allskonar fréttir á öllum blöðum. Kannski voru menn extra varkárir um að hrófla við þessum fréttum, ég veit það svo sem ekki.

Kannski fengu ritstjórar mínir eða forstjóri 365 orð í eyra frá Jóni Ásgeiri eða öðrum eftir að ég hafði eitthvað eftir einhverjum sem þeim var ekki þóknanlegt. Ég hef ekki hugmynd, því ekki hefur mér verið sagt af því. Jafnvel þó svo hafi verið hefur kerfið virkað. Hafi einhver reynt að skipta sér af fréttunum stóðu mínir yfirmenn væntanlega vaktina og tóku ákúrur á sig án þess að ég fengi einu sinni að vita af því.

Brjánn Jónasson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 09:54

12 Smámynd: Magnús Jónsson

Friðrik: ég tel að það sé eins og þú kallar það sjálfsritskoðun sem er versta ritskoðun sem til er, ég sé ekki fyrir mér að Jón Á sé að lesa prófarkir blaða sina hann er einfaldlega of klókur til þess, sandalar selja blöð eða umfjöllun er auglýsing, og gefur tilefni til andsvara.

Telja má nokkuð víst að stjórnmálamen hafi haft nokkra vitneskju um í hvaða óefni stefndi í að minnstakosti 1 til 2 ár það minnsta, allt tal um annað ber vitni um að men hafi ekki trúað eða ekki viljað trúa þeim teiknum sem á lofti voru, því þegar men sá stærsta hagkerfi heims riða til fals fyrir framan sig, og sama mynstur vera í gangi hér heima, það er nánast hægt að spegla húsnæðissprengjuna í USA og hér heima, og gríðarlegan vöxt á heildarskuldsetningu Íslands sem varð nánast allur til vegna bankalána erlendis til að fjármagna húsnæðissprengjuna, sejgast stjórnmálamen ekki hafa séð hrunið koma þá annað hvort ljúga þeir eða eru það veruleikafirrtir að hálfa væri nóg.  

Magnús Jónsson, 4.1.2009 kl. 10:23

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka  ykkur fyrir innleggin, sérstaklega þér Brjánn. Ég get ekki annað en verið sammála því að tímaleysi og vinnuálag séu miklir skaðvaldar sem blaðamannastéttin býr við og bætist ofan á ýmis önnur vandamál, eins og nálægðarvanda (áhrif smæðar samfélagsins), skort á sérþekkingu, sjálfsritskoðun og fleira. Um þetta fjallaði ég ítarlega í MA-ritgerð minni og byggði á sérfræðingakönnun meðal 100 reyndra blaða- og fréttamanna. Þar setti ég reyndar líka fram tillögur til mótaðgerða (Sigfús og Alma), sem ég hendi kannski hingað inn síðar í dag þegar ég nenni að grufla í ritgerðinni.

Reyndar hefur Blaðamannafélagið hrint í framkvæmd einni slíkri hugmynd (veit ekkert hvort það tengist ritgerð minni!), en félagið býður styrki fyrir þá sem vilja vinna sjálfstætt að ótilgreindum rannsóknarverkefnum (og eru þá óháðir einhverjum "eigendum"). Ég ætla að sækja í þann sjóð. Kannski einhverjir nýlega atvinnulausir blaða- og fréttamenn vilji samstarf?

Friðrik Þór Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 13:14

14 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ekki að það svari öllum spurningum eða sé tæmandi fyrir öll vandamál blaða- og fréttamanna, en í nefndri MA-ritgerð setti ég fram nokkrar tillögur sem einhver hefur kannski gaman og gagn af:

  1. Blaða- og fréttamenn eiga að taka siðareglur sínar og innanhúsa- og vinnureglur til endurskoðunar og hafa þá í forgrunni að skerpa á skyldum sínum gagnvart samfélaginu. Hér má hafa til hliðsjónar metnaðarfull ákvæði að hætti Society of Professional Journalists (SPJ). Hér má nefna: Leitaðu sannleikans og segðu frá honum á djarfan en sanngjarnan hátt. Segðu söguna um margbreytileika og umfang hinnar mannlegu reynslu djarflega, jafnvel þegar slíkt er ekki vinsælt, veittu hinum raddlausu rödd; upplýsingar frá óopinberum aðilum eru jafn réttmætar og opinberar upplýsingar, viðurkenndu sérstaka skyldu til að tryggja að hagsmunamálum almennings sé sinnt á opinn hátt og að aðgengi að upplýsingum sé tryggt, veittu stjórnvöldum og ýmsum öðrum valdamiklum hagsmunaaðilum virkt aðhald og miðaðu við að þá háu gæðastaðla sem þú ætlar öðrum. Hér má taka undir orð Birgis Guðmundssonar, aðjúnkts og fyrrum blaðamanns: „... hjá mörgum framsæknum erlendum miðlum er mikil áhersla lögð á skylduna til að segja sannleikann og sú áhersla mætti vera skýrari í siðareglum Blaðamannafélags Íslands“. Hér má einnig taka undir orð dr. Herdísar Þorgeirsdóttur, fyrrum blaðamanns, sem í viðtali í Ríkisútvarpinu í janúar 2006 sagði að það ætti frekar að efla skyldur fjölmiðla en að beita sér fyrir t.d. því að herða refsilagaákvæði.
  2. Blaða- og fréttamenn eiga að setja fram og ýta á eftir viðurkenndum og viðteknum reglum þar sem kveðið er á um sjálfstæði ritstjórna, þar sem blaða- og fréttamenn eru styrktir og verndaðir gegn óæskilegum áhrifum utanfrá, svo sem frá auglýsendum eða eigendum fjölmiðilsins.
  3. Auk endurskoðunar á siða- og vinnureglum eiga blaða- og fréttamenn að beita sér fyrir því að siðanefnd eða ámóta stofnun taki upp af sjálfsdáðum, fjalli sérstaklega um og úrskurði um mál þar sem talið er að félagsmenn hafi ekki getað ástundað fagleg vinnubrögð vegna utanaðkomandi áhrifa.
  4. Blaða- og fréttamenn eiga að taka sig saman um almenna kröfu um aukinn tíma og svigrúm vegna vandasamrar umfjöllunar hvers konar og um að dregið verði úr vinnuálagi. Þessar kröfur hljóta jafnt að beinast að útgefendum sem ritstjórum og fréttastjórum.
  5. Blaða- og fréttamenn eiga að sýna frumkvæði í því að finna skipulegar leiðir til að tryggja góða eftirfylgni frétta. Þetta starf ætti jafnt að mótast innan ritstjórna og milli ritstjórna. Fjölmiðlar eiga að láta af þeim leiða óvana að snerta helst ekki á málum sem samkeppnisandstæðingur hefur birt fyrst („skúbbað“).
  6. Fjölmiðlar og samtök blaða- og fréttamanna eiga að stórefla hvers kyns fræðslu, starfsþjálfun og símenntun. Samtök blaða- og fréttamanna eiga að beita sér fyrir því að taka saman og gefa út leiðbeiningarrit (handbækur) sem koma sér vel við hvers kyns upplýsingaöflun.
  7. Blaða- og fréttamenn eiga að standa með virkum hætti gegn þeirri þróun, sem tröllriðið hefur fjölmiðla erlendis og farið er að gæta í vaxandi mæli hér á landi, að eigendur/útgefendur fjölmiðla skeri sífellt meira niður í rekstrarkostnaði fjölmiðla til að mæta háværum kröfum hluthafa um hámarks arðsemi. Þeir eiga í sameiningu að reka áróður fyrir því hversu mikil verðmæti eru fólgin í vandaðri og gagnrýninni blaða- og fréttamennsku. Blaða- og fréttamenn eiga að taka til umræðu stofnun rannsóknarsjóðs, sem hefði það að markmiði að styrkja sérverkefni (á vegum fjölmiðla eða einstaklinga) sem fela í sér gagnrýna þjóðfélagsgreiningu.

Friðrik Þór Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 14:54

15 Smámynd: Guðbjörg Hildur Kolbeins

Það hefur oft flögrað að mér að fjölmiðlar ættu að fá utanaðkomandi blaða-/fréttamenn til að fjalla um málefni sem tengjast eigendum fjölmiðlanna. Það hefur ekki verið sérlega trúverðugt að lesa eða horfa á viðtöl sem blaða- og fréttamenn hafa tekið við menn sem borga launin þeirra.

Guðbjörg Hildur Kolbeins, 4.1.2009 kl. 17:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband