Áríðandi leiðrétting á grein deildarstjóra Ríkisskattstjóra

Vegna greinar Aðalsteins Hákonarsonar deildarstjóra eftirlitsdeildar Ríkisskattstjóra, "Skuldsettar yfirtökur og öfugur samruni" í blaði embættisins Tíund, er bráðnauðsynlegt að grípa til leiðréttingar.

Leiðréttingin er þessi: Greinin, sem annars er prýðilega góð og upplýsandi, birtist á röngum tíma. Hún átti að birtast í desember 2007 (í síðasta lagi) en ekki desember 2008.

Þar sem segir í desember 2008

"Hér að framan hefur verið lýst a. m. k. einu af þeim fyrirbærum sem hafa blásið út efnahagsreikninga bankanna og fyrirtækjanna í landinu á síðustu árum. Fyrir þessa uppfinningu hafa menn fengið bæði mikið lof og há laun. Til að hægt væri að koma þessu í kring þurfti greiðan aðgang að lánsfé og þeir sem það fengu voru tilbúnir að greiða bönkunum háar fjárhæðir fyrir aðstoðina sem þeir veittu við að búa ný félög til sölu á markaði. Þannig nærðust þessir aðilar með hvetjandi hætti hvorir á öðrum, bankarnir og fjárfestarnir.
Í raun má halda því fram að viðskiptalífið hafi þrifist á vissum blekkingum sem snérust um að sýna eins góða fjárhagsstöðu fyrirtækjanna og mögulegt var með því að færa allar eignir þeirra á hæsta
mögulega verði og stuðla þannig að því að gengi hlutabréfanna yrði sem allra hæst"
.

... átti að standa í desember 2007:

"Hér að framan hefur verið lýst a. m. k. einu af þeim fyrirbærum sem blása út efnahagsreikninga bankanna og fyrirtækjanna í landinu nú og á síðustu árum. Fyrir þessa uppfinningu hafa menn fengið bæði mikið lof og há laun. Til að hægt væri að koma þessu í kring þarf greiðan aðgang að lánsfé og þeir sem það eru tilbúnir að greiða bönkunum háar fjárhæðir fyrir aðstoðina sem þeir veita við að búa ný félög til sölu á markaði. Þannig nærast þessir aðilar með hvetjandi hætti hvorir á öðrum, bankarnir og fjárfestarnir.
Í raun má halda því fram að viðskiptalífið þrífist á vissum blekkingum sem snúast um að sýna eins góða fjárhagsstöðu fyrirtækjanna og mögulegt er með því að færa allar eignir þeirra á hæsta
mögulega verði og stuðla þannig að því að gengi hlutabréfanna sem allra hæst".

Ef greinin hefði birst á réttum tíma hefði hún meðal annars getað stuðlað að því að tekið væri til í íslensku fjármálalífi og fólk eins og Vilhjálmur Bjarnason og dætur hans væru ekki í nauðvörn frammi fyrir dómstólum að sækja rétt sinn. Þetta leiðréttist hér með.


mbl.is Hlutabréf seld á geðþóttaverði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

En þá hefði hann verið rekinn með þá sök að maður með svo smátt hörund ætti ekki að vera að abbast uppá hörundsmeiri menn.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 19.12.2008 kl. 13:58

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Sammála en þá HEFÐI hann verið baulaður niður sem svekktur fyrrverandi starfsmaður Kpmg. Hroðinn er smátt og smátt að koma upp á yfirborðið. Þetta á bara eftir að verða ljótara.

Ævar Rafn Kjartansson, 19.12.2008 kl. 14:03

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Friðrik. Ég hlýddi á erindi Aðalsteins um þetta efni á fundi í Stykkishólmi í sumar. Veit ekki til þess að þessu hafi verið otað að fjölmilum, en notaðu ímyndunaraflið og spáðu í hversu mikinn áhuga þeir hefðu fengið á málinu. Hver átti aftur alla fjölmiðlana á þeim tíma?

Þá voru allir bankar í góðum gír, útrásardólgarnir voru hinar miklu hetjur og bara hallærislegt að mæla gegn þeim. Núna er landslagið breytt og þetta vekur athygli. Mikla athygli.

Haraldur Hansson, 19.12.2008 kl. 14:40

4 identicon

En bæði danskir og breskir blaðamenn sögðu þetta, ekki bara árið 2007 heldur líka 2008 og fengu heldur betur "trakteringar" héðan.

Þetta var svo undirstrikað "múr og nagl" þegar forseti landsins verðlaunaði Jón Ásgeir Jóhannesson með forsetaviðurkenningu ársins 2007 !

Nú segir farið Jóns Ásgeirs að viðskiptavinir Haga (Bónus og Hagkaup) komi til með að borga sekt Samkeppniseftirlitsins (Visir.is).

Alltaf flottir - og saklausir !

Guttormur Kláus Jónsson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 15:42

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Hver átti aftur alla fjölmiðlana á þeim tíma"? spyr Haraldur.

Haraldur; Þótt menn reyni og reyni þá var og er staðan ekki sú að einhver einn "hver" eigi alla fjölmiðlana. Átti Baugur Agnesi og Moggann? Átti Baugur Viðskiptablaðið? Átti Baugur RÚV? Baugur átti ekki Tíund, málgagn Ríkisskattstjóra, er það? Svarið við spurningu þinni er; jú, fjölmiðlarnir hafa safnast á færri hendur, en enginn einn átti alla fjölmiðlana.

Guttormur: "farið Jóns Ásgeirs"? Líklega áttu við faðir Jóns, frekar en einkaþotuna eða Hömmerinn hans?

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.12.2008 kl. 19:25

6 Smámynd: Haraldur Hansson

Sæll aftur Friðrik Þór.

Ég var ekki að einblína á Baug enda liggja tengslin víðar. T.d. Landsbankinn og Moggi, einnig Kaupþing og Viðskiptablaðið, gegnum Exista og Bakkabræður. Það voru fleiri en Baugsmenn sem stunduðu skuldsettar yfirtökur. Fréttablað ríkisskattstjóra kemur ekki út nema þrisvar á ári.

Hitt atriðið sem ég vildi draga fram, og vegur ekki síður þungt, er að jarðvegurinn var ekki sá sami og nú. Eftir bankahrunið fylgjast nánast allir Íslendingar með fréttum af þessu tagi. Það rekur hver skandallinn annan. Mánuðum fyrir bankahrun hefði svona grein ekki vakið viðlíka athygli og hún gerir nú. Þá var ekki "í tísku" að vera í andstöðu við hetjur dagsins sem voru 30 karlar og 3 konur.

Hitt er svo annað mál - og þar er ég þér hjartanlega sammála - það hefði verið æskilegt að draga þessa hluti fram í dagsljósið miklu fyrr.

Haraldur Hansson, 21.12.2008 kl. 15:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband