Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

100% hækkun Bílastæðasjóðs

Fékk um daginn bréf. Var ekki gluggapóstur en hefði allt eins getað verið það. Bréfið var augljóslega skrifað af manneskju (í stofnun) sem ekki er í sambandi við raunveruleikann. Manneskjan var að boða 100% hækkun á sinni "þjónustu".

Manneskjan að baki skrifunum ritaði fyrir hönd Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar. Ég á heima á B-svæði bílastæða og í bréfinu kom fram að ekki einasta minnkar svæðið sem ég hef rétt til, heldur myndi árgjaldið hækka úr 3.000 krónum í 6.000 krónur. Ég hef nú um skeið beðið þess að málið kæmi upp í fréttum en án árangurs.

Bílastæðasjóður er á ábyrgð borgarinnar og þar er Sjálfstæðisflokkurinn við stjórnvölinn. Getur einhver góðhjörtuð sál reynt að hafa vit fyrir þessu fólki og segja því að eitthvað hljóti að vera bogið við 100% hækkun á þjónustu nú á þessum vondu tímum fyrir fólk og buddur?


Það fjarar undan Sjálfstæðisflokknum

 Nú treystir aðeins einn af hverjum fimm kjósendum sér til að lýsa yfir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn. Það verður að teljast meiriháttar áfall fyrir flokkinn, einkum og sér í lagi í ljósi þess að fylgi samstarfsflokksins, Samfylkingarinnar, dalar lítt sem ekkert.

Sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur misst helming kjósenda sinna frá síðustu þingkosningum og um leið að Framsóknarlokkurinn er ekki að fá aukið fylgi þrátt fyrir stjórnarandstöðu, en Samfylkingin heldur sínu, segir marktæka sögu: Reiði og óánægja kjósenda beinist fyrst og fremst að afleiðingunum af gjörðum helmingaskiptastjórnanna sl. 17-18 ár, en síður að núverandi stjórnarsamstarfi; jafnvel þótt þessi ríkisstjórn hafi sofnað á verðinum. Rót vandans liggur hjá fyrri ríkisstjórnum - liggur í nýfrjálshyggju- og einkavinavæðingarstefnu Davíðs Oddssonar og félaga. Því er hin greinilega vinstrisveifla til komin.

 Vinstrihreyfingin-grænt framboð nýtur nú mesta fylgis meðal þjóðarinnar og mælist fylgi VG nú 32%, en fylgi Samfylkingar 31%, Sjálfstæðisflokks 21%, Framsóknarflokks 8% og Frjálslynda flokksins og Íslandshreyfingarinnar 3%. Einungis 32% aðspurðra segjast styðja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hlutfall þeirra sem taka ákveðna afstöðu er óvenju hátt; fólkið velkist ekki mikið í vafa.

Rökréttasta niðurstaðan í kjölfar kosninga með svona úrslitum væri ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar. Hætt er þó við því að erfitt reyndist að koma slíkri stjórn á koppinn vegna ESB málanna. Auðveldasta leiðin til að létta af þeirri byrði væri samkomulag um að skjóta því til þjóðarinnar bæði hvort fara eigi út í aðildarviðræður OG því sem út úr slíkum viðræðum myndi þá koma.

 


mbl.is VG stærsti flokkurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttukveðjur til RÚV-ara

 

Ég sendi starfsmönnum RÚV hér með mínar heitustu baráttukveðjur vegna enn einnar uppsagnahrinunnar. Mér sýnist ljóst að allt of langt hafi að undanförnu verið gengið við niðurskurð og sparnað og að það muni verulega skerða getu fjölmiðilsins til að ástunda frétta- og dagskrárgerð. Einmitt þegar við þurfum hvað mest á öflugum fréttum og fréttatengdu efni að halda.

Ég nefni þetta með í huga að ekki er um einangraða uppsagnahrinu að ræða, heldur hafa niðurskurðar- og sparnaðaraðgerðir staðið yfir allt frá því fyrir ohf-væðingu. Mjög margir reyndir frétta- og dagskrárgerðarmenn eru horfnir af vettvangi og ljóst að fækkunin nú gerir það enn erfiðara en áður að standa undir væntingum um öfluga, sjálfstæða og óháða upplýsingagjöf til almennings. Þess utan hanga yfir höfðum manna óljós orð um frekari aðgerðir og undir þeim kringumstæðum liggur eins og mara á starfsfólkinu óttinn um atvinnuöryggið og þar með leggst á fólkið af vaxandi þunga sjálfsritskoðun og meðvirkni.

Þetta er afleitt ástand. Þótt við því sé að búast að RÚV þurfi að mæta versnandi árferði þá hygg ég að aðgerðir séu komnar langt upp fyrir það sem eðlilegt getur talist miðað við lögbundið hlutverk þessa fjölmiðils í almannaeigu. Tal um afnám afnotagjalds og brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði leggur þeim mun meiri skyldur á herðar stjórnvalda um að tryggja fjölmiðlinum í almannaeigu næg fjárframlög til sómasamlegs rekstrar.


mbl.is Starfsmenn Rúv boða til funda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velvild, heiðarleiki og hæfni

Í Silfri Egils í dag fannst mér einna merkilegast að hlusta á Guðrúnu Heiðu Baldvinsdóttur, lektor í Svíþjóð í innri endurskoðun, ræða um þrjár mikilvægustu forsendur sem stjórnendur þurfa að hafa til að bera til að njóta trausts. Þetta eru velvild, heiðarleiki og hæfni.

Á Guðrúnu var að skilja, og ástæða til að taka undir, að allar þessar forsendur séu vafa undirorpnar. Stjórnendur á sviði stjórnmála og viðskipta á Íslandi hafa ekki sýnt fram á að þeim sé treystandi, miðað við að af þeim eigi að geisla velvild, heiðarleiki og hæfni. Við getum ekki bókað að þeir beri hag okkar fyrir brjósti, þeir séu heiðarlegir og að þeir hafi hæfni til að breyta rétt.


"Kosningar strax" er ólýðræðisleg krafa

Það fólk sem vill ríkisstjórnina strax frá og hafa kosningar fyrir áramót er ekki beinlínis lýðræðissinnaðasta fólk landsins, þótt því finnist kannski að svo sé. Þessi krafa um kosningar svo fljótt er að mínu mati beinlínis andlýðræðisleg.

Ríkisstjórnin má út af fyrir sig segja sig frá völdum formlega, en hún yrði starfsstjórn fram að kosningum. En kosningar mega alls ekki koma of fljótt. Það beinlínis verður að gefa nýjum öflum færi á að myndast, safna mannskap og bjóða fram í öllum kjördæmum. Það verður líka að gefa stuðningsfólki og flokksfélögum "gömlu" flokkanna færi á að undirbúa hallarbyltingar innan þeirra. Lýðræðið er stundum hægvirkt en verður að fá að klára sig. Ef kosningar fara fram fyrir áramót verður að líkindum bara um "gömlu" flokkana að velja og flokksskrípið sem Ástþór Magnússon og Ásgerður Jóna Flosadóttir eru að mynda. Fólkið í kringum aðgerðirnar, mótmælafundina á Austurvelli og í Háskólabíói er ekki næstum því tilbúið með framboð, enda engin alhliða stefna í gangi og eins víst að fólkið þar sé fyrst og fremst sameinað um reiði og óánægju.


Póstar fyrir stjórnvöld að skera niður...

 

Ég er alveg viss um það að aðgerðir stjórnvalda "í því skyni að koma fyrirtækjum landsins til hjálpar" muni reynast mörgum pilsfaldakapítalistanum góðar og ég hef satt að segja miklu meiri áhyggjur af niðurskurðarplönum ríkisstjórnarinnar. Ætlunin virðist vera að skera niður flatt um 10% (nema Jóhanna blessunin segir NEI), en ég er einn þeirra sem vill frekar forgangsraða og skera duglega niður í ýmsum gælu- og fyrirgreiðsluverkefnum.

Í því sambandi langar mig til að rifja upp sparnaðartillögur mínar, sem ég setti fram í júlí sl., löngu fyrir Hrunið Mikla. Svona var færslan og er hún enn í góðu gildi:

Fjárlög ársins í ár gera ráð fyrir 434 milljarða króna ríkisútgjöldum. Á sama tíma er ljóst að efnahagslegur samdráttur er að hellast yfir landsmenn. Svo er að sjá að yfirvöld finni helst sparnaðarleiðir í velferðarmálum (sbr. spítalar) og öryggismálum (sbr. lögregla og landhelgisgæsla). Mig langar að beina augum yfirvalda að öðrum sparnaðarpóstum.

Fyrir það fyrsta legg ég til að útgjöld til trúmála verði skorin niður um þó ekki væri nema 20-30 prósent; mest hjá Þjóðkirkjunni vegna forréttinda hennar, en minna hjá öðrum trúfélögum og til Háskólasjóðs (þangað sem renna sóknargjöld fólks utan trúflokka). Í alla þessa pósta eiga í ár að renna 4.650 milljónir króna (liðlega 4.6 milljarðar). Tökum 1.2 milljarða af þessu og setjum helminginn í spítalana en spörum restina. Skerum Þjóðkirkjufjárlög, sóknargjöld, Jöfnunarsjóð sókna, Kirkjumálasjóð, kristnisjóð og slíka pósta um allt að 30%. Ég er notabene ekki á móti fjárveitingum til trúfélaga, en fórnarlundin á að segja til sín í kreppunni og þessi óeiginlega tvö- til þrefalda tíund mætti gjarnan frekar renna til velferðarmála; stytta biðlista og borga birgjum heilbrigðisstofnana til að spara vanskila- og dráttarvexti.

Skerum Alþingisútgjöld um 10% - þar fást 245 milljónir. Skerum "Varnarmál" um 20% - þar fást 106 milljónir. Skerum sendiráð um 20% - þar fást 384 milljónir. Skerum "greiðslur vegna mjólkurframleiðslu" niður um 10% - þar fást 500 milljónir. Skerum "greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu" um 10% - þar fást 365 milljónir. 50 milljónir í viðbót vegna Bændasamtaka Íslands. Skerum "styrki vegna stjórnmálasamtaka" niður um 20% - þar fást 74 milljónir. Skerum niður "landkynningarskrifstofur erlendis" um 50% - þar fást 82 milljónir. Skerum niður "markaðssókn í íslenska ferðaþjónustu" um 50% - þar fást 15 milljónir. Skerum niður" markaðssókn Íslands í Norður-Ameríku" um 50% - þar fást 24 milljónir.

Skerum niður skúffufé ráðherranna og ríkisstjórnarinnar um 65-70%; þar fást 60 milljónir vegna ráðherranna og 125 milljónir vegna ríkisstjórnarinnar.

Endurskoðum útgjöld eins og: Ritun biskupasögu (14 milljónir), útboðs- og einkavæðingaverkefni (15 milljónir), ráðgjöf vegna breytinga í heilbrigðis- og tryggingamálum (30 milljónir), viðhald stafkirkju í Vestmannaeyjum (3 milljónir), landþurrkun (4.5 milljónir), námsleyfi lögfræðinga (3.7 milljónir), Hollvinasamtök varðskipsins Óðins (5 milljónir), Hið íslenska reðursafn (800 þúsund), heiðurslaun listamanna - Erró (1.8 milljón), heiðurslaun listamanna - Guðbergur Bergsson (1.8 milljón), Hvítasunnukirkjan á Íslandi, Kirkjulækjarkot (2 milljónir), Krossinn, unglingastarf (2 milljónir), Klúbbur matreiðslumeistara (3 milljónir), niðurrif frystihúss í Flatey (10 milljónir), Spákonukot á Skagaströnd (5 milljónir), Vestmannaeyjabær - "handritin heim" (5 milljónir), ár kartöflunnar 2008 (1.5 milljón), umhverfissamtökin Blái herinn (1.2 milljón).

Ég er viss um að ég móðgi þarna suma, en ég hef þó fundið ærið fé til að stytta biðlistana, borga birgjunum, ráða nokkrar löggur og laga eina þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þetta er bara spurning um forgang á samdráttartímum.


mbl.is Aðgerðir kynntar eftir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar í ólgusjó

 

Ég var búinn að nefna það að ástandið á fjölmiðlamarkaðinum ætti eftir að versna, en manni verður nú samt um og ó þegar verstu spár virðast ætla að rætast. "24 stundir" blaðið er horfið, Fréttablaðið að renna inn í Árvakur, Mogginn að riða til falls, starfsfólk Viðskiptablaðsins að reyna að taka við blaðinu af Bakka(varar)bræðrum og RÚV að segja upp fjölda frétta- og dagskrárgerðarmönnum.

Mér sýnist enda vonlítið að blaða- og fréttamenn geti almennilega staðið við heitstrengingar um ný og betri vinnubrögð eftir sofandahátt og meðvirkni síðustu ára. Þeir fyllast sennilega enn frekar en fyrr af ótta um atvinnu sína og af sjálfsritskoðun. 

Þetta er afleit þróun.


mbl.is Unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu Árvakurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hárbeittur og hættulegur niðurskurðarhnífur hjá RÚV OHF

Í raun og sann hefur staðið yfir nær linnulaus niðurskurður hjá RÚV allt frá ohf-væðingunni í fyrra - og var "stofnunin" þó í þokkalega þéttri spennitreyju fyrir þau tímamót. Við ohf-væðinguna hættu fjölmargir góðir frétta- og dagskrárgerðarmenn og enn fleiri hafa yfirgefið fjölmiðilinn síðan og enn virðist þeim eiga að fækka.

Mér sýnist að staðan sé að verða ansi krítísk þegar horft er á upplýsinga- og fræðsluskyldu þessa fjölmiðils í almannaeigu. Væntanlega er þó markmiðið ekki að reka frétta- og dagskrárgerðarþjónustu með algerum lágmarks mannskap. Samfélagið þarf á því að halda að sameinaðar fréttastofur RÚV séu öflugar, en ekki máttlausar og mannskapurinn logandi hræddur um atvinnuöryggi sitt - sífellt að passa sig að stuða ekki valdaöflin og sífellt að ástunda sjálfsritskoðun vegna þess. Því meiri gagnrýni sem ríkir á einkarekna fjölmiðla vegna hugsanlegra áhrifa eigenda þeirra þeim mun mikilvægara er það almenningi að eiga traustan bakhjarl í sjálfstæðri og óháðri fréttastofu og dagskrárgerð á vegum fjölmiðils í almannaeigu. Hin lýðræðislega umræða krefst þess.

Hver var ávinningurinn af ohf-væðingunni? Hvernig hefur ríkið uppfyllt loforð um fjármögnun? Hvað voru frétta- og dagskrárgerðarmenn margir fyrir þau tímamót og hvað verða þeir margir eftir nýjasta niðurskurðinn?


mbl.is Boðað til starfsmannafundar hjá RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill Heimdallur reka Davíð eða Blöndal og Hólmstein?

Viðtengd frétt segir frá því að Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, krefjist þess að stjórn Seðlabanka Íslands og yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins segi af sér tafarlaust og axli þannig þá ábyrgð sem þeim ber. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórnin hefur samþykkt.

Ljóst er að með hugtakinu "yfirstjórn" FME á Heimdallur ekki við starfsmenn á borð við Jónas Fr. Jónsson, heldur stjórn í hefðbundnum skilningi, þar sem er stjórnarformaður o.s.frv.

En hvað meinar Heimdallur með "stjórn" Seðlabankans? Er átt við "bankastjórn", þ.e. Davíð, Eirík og Ingimund, eða er átt við stjórn þá sem kallast bankaráð og inniheldur meðal annarra Halldór Blöndal og Hannes Hólmstein Gissurarson? Er kannski átt við hvorutveggja?

Svar óskast!


mbl.is Heimdallur: Stjórn SÍ og FME segi af sér án tafar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptanefnd bíði ekki í viku - vegna óeirðahættunnar

 

Það er vitaskuld mjög slæmt að Davíð Oddsson skuli hafa forfallast og ekki komist á fund viðskiptanefndar Alþingis til að svara þar spurningum um vitneskju sína - vitneskjuna sem hann fullyrti að hann hafi um af hverju Bresk stjórnvöld settu hryðjuverkalögin á Landsbankann, Íslenska ríkið og bresk-íslenska bankann Singer and Friedlander (Kaupthing). Afar slæmt vegna þeirrar viðkvæmu stöðu sem uppi er, þar sem sérhver hroki, sérhvert styggðaryrði og sérhver skortur á upplýsingagjöf er olía á þann eld sem nú geisar í samfélaginu.

Þetta eru afar slæm forföll núna þegar óánægja og reiði fara stigvaxandi út í stjórnvöld, ekki síst leiðtoga ríkisstjórnarinnar og ábyrgðarmenn FME og Seðlabankans. Af öllum þessum beinist hvað mesta reiðin, með réttu eða röngu, að Davíð Oddssyni og litlar líkur á því að "venjulegar" afsakanir fyrir forföllunum dugi, heldur verður því sjálfkrafa trúað, að gefnu tilefni, að hann sé þarna að sýna Alþingi yfirgang og hroka. Hafi hann ekki "vottorð" um óyggjandi og skiljanleg forföll þá verður þetta túlkað sem ögrun og mun æra hina óstöðugu sem tilbúnir eru til að ganga lengra en góðu hófi gegnir í mótmælaaðgerðum.

Sannast sagna ætti viðskiptanefnd ekki að bíða í viku heldur blása til fundar hið allra fyrsta eða um leið og Davíð losnar úr forföllunum. Til að valda ekki óþarfa óróleika. Gefa út slíka yfirlýsingu ekki seinna en strax!

Það er nefnilega raunveruleg hætta á því að mestu "aktífistarnir" hér á landi muni ganga lengra og lengra og nota einmitt svonalagað til að æsa upp lýðinn!


mbl.is Davíð frestar komu sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband