Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
26.11.2008 | 14:08
Hver er munurinn á fullveldisafsali til IMF og ESB?
Ég er að vísu ekki með svarið á reiðum höndum og væri gaman að fá hér upp skoðanaskipti um þetta. Mér finnst þessi "fárviðrisskýrsla" IMF vera ofboðslega auðmýkjandi. Mér finnst eins og að þarna sé talað um óvita eða óþekka krakka. Eins og að einhver Barnaverndarnefnd sé að skrifa skýrslu um ástand á óregluheimili, þar sem fimm áföll dundu yfir; 1. foreldrarnir drykkfelldir, 2. karlinn lamdi konuna (eða öfugt), 3. börnin stálu úr búð, 4. elsta dóttirin, enn ólögráða, komin í neyslu og farin að selja sig og 5. elsti sonurinn, enn ólögráða, orðinn handrukkari.
Svo er að skilja að okkur hafi verið nauðugur einn kostur, að fá svimandi upphæðir að láni hjá IMF og einstökum ríkjum. Þessir okkar lánveitendur kúguðu okkur til að semja um Icesave og undirgangast á þriðja tug skilmála. Samt hef ég ekki séð þessu líkt við fullveldisafsal. Er ekki IMF að skrifa auðmýkjandi skýrslur um okkur og erum við ekki að beygja okkur og bukta fyrir þeim og einstökum kúgunarríkjum? Hefur fullveldisafsal þá ekki átt sér stað?
Ef svarið er já, væri gott og gagnlegt að heyra og lesa: Hver er munurinn á þessu fullveldisafsali og hinu sem gagnrýnendur reikna með að eigi sér stað ef Ísland gengur í ESB? Ég er ekki ESB-sinni, en mér finnst rétt að svar við þessu fáist. Er munurinn kannski fyrst og fremst sá að IMF óskar ekki eftir fiskkvóta í íslenskri efnahagslögsögu?
![]() |
Hið fullkomna fárviðri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.11.2008 | 13:17
Borgaraleg óhlýðni G. Péturs
Ég var auðvitað að vona að G. Pétur Matthíasson fyrrverandi fréttamaður Sjónvarpsins hefði verið með leyfi RÚV í farteskinu þegar hann ákvað að birta á bloggi sínu umrætt myndskeið af tilraun hans og Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, fyrrum fréttamanns Stöðvar 2, til að taka viðtal við Geir H. Haarde með "alvöru" krítískum spurningum. Það eru auðvitað vonbrigði að svo hafi ekki verið og að ég hygg borðleggjandi að G. Pétur hafi því gerst brotlegur við siðareglur blaða- og fréttamanna og innanhússreglur RÚV.
Ég hygg hins vegar að G. Pétur skili þessum gögnum ósköp glaður og sáttur í bragði. Hann hefur áreiðanlega tekið ákvörðun um borgaralega óhlýðni með þessum gjörningi sínum og víst er að myndskeiðið sýndi okkur ágætlega ofan í hrokafullan hugarheim forsætisráðherra - því það var akkúrat ekkert óeðlilegt við krítíska og krefjandi spurningu G. Péturs sem Geir stöðvaði og fór í fýlu út af. Það er ætlast til þess að blaða- og fréttamenn spyrji harðra og krítískra spurninga; þeir eiga að grípa þær spurningar sem liggja í loftinu og þótt menn spyrji hart er það ekki endilega vegna persónulegra skoðana, heldur eru "devil´s advocate" spurningar mjög algengar í fréttamennskunni.
Myndskeiðið sýnir ágætlega að ráðamönnum er meinilla við að svara krefjandi og hörðum spurningum. Þá dreymir kannski um dásamlega en liðna tíð þegar ráðherrar voru þéraðir af sjónvarpsfréttamönnum, sem báru bara upp spurningar sem ráðherrarnir sjálfir höfðu gaukað að þeim!
Mér finnst aukinheldur rétt að fólk hafi það í huga að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa gjarnan níðst á G. Pétri í gegnum árin. Davíð gaf tóninn í þeim efnum, lagði línuna; hreytti ónotum í G. Pétur fyrir þá sök eina að fyrr á ferli sínum hafði G. Pétur starfað á Þjóðviljanum! Ég var vitni að því og ég held að Geir hafi þarna ekki viljað vera minni maður en Dabbi Pabbi.
Skamm, skamm G. Pétur fyrir að nota efni í eigu RÚV í heimildarleysi. Þú braust siðareglur! En takk.
![]() |
Krafa um að viðtali við Geir verði skilað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.11.2008 | 22:45
Frekar að boða "30-menningana" næst!
Flottur fundur í Háskólabíói. Fundarstjórinn boðaði næsta fund í desember og sagði að þá yrðu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og lífeyrissjóðanna boðaðir til að svara spurningum. Ég er svolítið hissa - ég átti nú frekar von á því að það væri örugglega komið að "30-menningunum", útrásarvíkingunum svokölluðu, aðal sökudólgunum. Ég hef miklu miklu miklu fleiri spurningar til þeirra en verkalýðsforkólfa.
Kannski kemur þó að þeim þarnæst. Þeir þurfa kannski lengri fyrirvara, þrátt fyrir einkaþotur, að koma frá útlöndum, sumir kannski frá Luxemborg og Cayman og Tutola eyjunum. En kannski er borin von að þeir þori að koma.
Ég komst ekki á fund þennan en gat fylgst með honum að megninu til í sjónvarpinu. Mér fannst afar sársaukafullt fyrir augun að sjá Árna Johnsen beint fyrir aftan ræðupúltið, vambmikinn holdgerving spillingarinnar, fúlan á svip og á köflum að því kominn að dotta, svei mér þá. Ekki falleg "auglýsing" fyrir ríkisstjórnina. En góð áminning.
![]() |
Þetta er þjóðin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.11.2008 | 12:52
Virðing - óvirðing: Aðgerðir gegn peningaþvætti "30-menninganna"
Af hverju er ekki búið að draga megnið af "30-menningunum" til opinberrar rannsóknar og þriðju gráðu yfirheyrslu, ásamt massífum húsleitum og frystingu eigna tiltekinna einkahlutafélaga og eigenda þeirra upp í tjón þessara voluðu "snillinga"? Þarna sjáum við sjálfsagða hörku gagnvart "minni" krimmum en þeir stóru virðast njóta e.k. friðhelgi.
Ég hafna því að þessi krafa um AÐGERÐIR GEGN SPILLINGAR- OG SVINDLÖFLUNUM geti flokkast undir öfund og biturleika. Ef einhvern tímann hefur verið framið landráð gegn íslensku þjóðinni, alþýðu manna, þá er það núna. Það er blaut tuska framan í þjóðina að ekkert er að gerast og það er kjaftshögg að þurfa að lesa um sökudólga eins og Sigurð Einarsson brölta og braska með eignir okkar (Kaupþings) í Luxemburg. Ég geri þá kröfu að hann fái ekki að kaupa eignir okkar þar, enda eru peningar (pappírar) frá honum einskis virði og minna en það!
Ég mótmæli þessu!
![]() |
Risavaxnar millifærslur hjá Virðingu hf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.11.2008 | 15:52
Rangir málsaðilar handteknir!
Af hverju er ekki búið að draga megnið af "30-menningunum" til opinberrar rannsóknar og þriðju gráðu yfirheyrslu, ásamt massífum húsleitum og frystingu eigna tiltekinna einkahlutafélaga og eigenda þeirra upp í tjón þessara voluðu "snillinga"?
Af hverju er þess í stað áhersla lögð á að handtaka og sekta fólk sem ofbýður og mótmælir?
Ég mótmæli þessu!
![]() |
Lárus Welding: Rangt að reglur hafi verið brotnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2008 | 23:36
Hverju skila kosningar í vor?
Ég get vel skilið kröfur um kosningar í vor og teldi það ágætt að endurnýja umboð Alþingis. Ég er hins vegar tvístígandi yfir hverju kosningar í vor muni skila og um hvað þær muni snúast um. ESB og Evru? Uppbyggingu nýs samfélags? Hugarfarsbreytingu? Allt eins gæti það farið svo að kosningar í vor breyti nánast engu.
Ef kosningar í vor munu snúast um björgunaraðgerðir fyrir Ísland og snúast að meginmáli um hvort við eigum að fara í ESB og taka upp Evru eða pluma okkur utan ESB og halda krónunni, þá sýnist mér að ákaflega mikið velti á því hvort Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur skipti um kúrs á boðuðum flokksþingum í janúar. Miðað við tölur í könnunum um 70% stuðning um þessar mundir við ESB aðild þá gæti ég trúað því að einkum Framsókn samþykki stefnu um að fara út í aðildarumræður til að sjá hvað okkur býðst - og það gæti flokkurinn séð sig knúinn til að gera til að þurrkast ekki út í kosningum! Ef Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir sömu stefnumótun gæti svo farið að í kosningaloforðum væru það bara VG og Frjálslyndir sem vildu hafna ESB alfarið. Við svo búið myndi sama ríkisstjórnin og nú ríkir taka við að mínu mati og hefja aðildarviðræður.
Ef hins vegar Sjálfstæðisflokkurinn heldur sinni stefnu og vill ekki ESB og ekki aðildarviðræður heldur, þá sýnist mér að kosningar gætu skilað sér í samstjórn VG og Sjálfstæðisflokksins.
Ég er kannski að reyna að segja þetta: Ef líklegt er að kosningar í vor muni snúast um ESB/Evru umfram annað þá myndi ég vilja fyrst sjá hvað út úr flokksþingunum fyrrnefndu í janúar kemur áður en ég lýsi yfir eindreginni afstöðu til kosninga í vor. En það er bara ég.
![]() |
Íslendingar láti ekki kúga sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.11.2008 | 17:49
12% lækkun er algjört lágmark
Ríkisstjórnin hefur beint því til Kjararáðs að lækka laun æðstu ráðamanna og embættismanna "tímabundið fyrir árið 2009". Geir og Ingibjörg Sólrún segjast ekki getað skipað "sjálfstæðu" Kjararáði nánar fyrir, en Geir nefndi hugmyndir um 5 til 15 prósenta lækkun. Ég tel að ekki komi til greina minni lækkun en 12% og hún þarf helst að vera meiri.
Rök mín eru þessi: Ráðherrar eru búnir að senda undirstofnunum sínum og -fyrirtækjum "ordru" um (tillögur um) flatan 10% niðurskurð. Sjálfsagt er óhjákvæmilegt í árferðinu að spara, en jafn augljóst er að sparnaðurinn þarf ekki allur að vera "flatur". Hygg að óhætt sé t.d. að spara tímabundið meira í verklegum framkvæmdum, viðhaldi og stofnkostnaði en í t.d. sjúkrahúsunum og öðrum velferðarpóstum. Til að gefa rými fyrir minna en 10% niðurskurði á velferðarsviðinu þarf þá að spara meira en 10% á ýmsum öðrum sviðum. Til dæmis í launum æðstu yfirmanna. Þar ættu viðmiðunartölurnar að vera 12-20%. Slík umframskerðing gæti nýst til að hemja lengingu biðraða eftir læknisverkum. Til dæmis.
![]() |
Óska eftir launalækkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.11.2008 | 13:21
Líka vantrauststillögu á stjórnarandstöðuna
Það er gott mál að stjórnarandstaðan hafi lagt fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Ég á ekki von á því að hún verði samþykkt, en allt í lagi með það; út úr þessu kemur hið minnsta nauðsynleg umræða um frammistöðu ríkisstjórnarinnar. En eina tillögu vantar.
Samhliða þessari tillögu þyrfti að liggja fyrir vantrauststillaga á stjórnarandstöðuna. Hún hefur líka brugðist. Og hluti hennar á hið minnsta jafn mikla sök á óförum lands og þjóðar í efnahags- og viðskiptamálum og núverandi ríkisstjórn; sem sé Framsóknarflokkurinn. Ef til vill má leysa þetta með því að í væntanlegum vantraustsumræðum gangi menn út frá því að vantraust sé rætt á bæði í senn, þessa ríkisstjórn og ríkisstjórnirnar á undan.
Það er morgunljóst að flytja mætti margar vantrauststillögur fram til umræðu og afgreiðslu. Ekki bara gegn ríkisstjórninni og stjórnarandstöðunni, heldur líka gegn Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, yfirmönnum bankakerfisins, auðjöfrunum og fleirum. Fjölmiðlar ættu líka skilið að fá á sig vantrauststillögu, en þeir að minnsta kosti vita að því, hafa viðurkennt skömm sína og vanmátt og eru vonandi byrjaðir að bæta sitt ráð. Stór hluti þjóðarinnar á líka vantraust skilið fyrir að dansa með gullkálfinum til dýrðar í æðisgenginni en undirstöðulausri efnis- og græðgishyggju, en nokkuð ljóst er að óbreyttir landsmenn eru einmitt þeir einu sem verða almennilega látnir axla ábyrgð með því að taka á sig skellinn. Þjóðinni verður refsað með skuldafangelsi, en Geir, Solla, Valgerður Sverris, Halldór Ásgríms, Davíð Oddsson, Jónas Fr. Jónsson, Jón Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Bjarni Ármannsson, Björgólfur Guðmundsson, Björgólfur Thor, Þorsteinn Már Baldvinsson, Lárus Welding, Kjartan Gunnarsson og fleiri slíkir menn; munu allir sleppa.
Enda sýnist mér að allar boðaðar rannsóknir verði í skötulíki. Ég les það út úr þeirri staðreynd að hersveitir rannsóknar- og ákæruvaldsins fóru ekki strax af stað með húsleitir og yfirheyrslur þegar augljós og rökstuddur grunur blasti við öllum (öðrum) um voðaverk sem stórsköðuðu land og þjóð.
Ekki einu sinni fréttir af þessum dularfullu meintu fjársvikum í kringum Stím ehf virðast kalla á viðbrögð. Þvílíkt og annað eins!Ef lögguna vantar kæru til að geta byrjað þá skal ég hjálpa til með þessu opna kærubréfi til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra og til skattrannsóknarstjóra:
Reykjavík 21. nóvember 2008.
Undirritaður, sem einn eigenda Glitnis, óskar hér með eftir tafarlausri opinberri rannsókn á hlutabréfaviðskiptum Glitnis og Stíms ehf. Miðað við upplýsingar sem fram hafa komið opinberlega liggur borðleggjandi fyrir rökstuddur grunur um brot á hegningar- og skattalögum. óskað er tafarlausrar rannsóknar, þar sem byrjað verður á að tryggja að rannsóknargögnum verði ekki spillt.
Friðrik Þór Guðmundsson.
![]() |
Vantrauststillaga komin fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.11.2008 | 00:32
Upplýstur bruni
Einhvern veginn finnst mér eins og að bruninn hafi verið upplýstur áður en slökkt var í honum...
![]() |
Bruninn á Baldursgötu upplýstur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.11.2008 | 20:09
Fjölmiðlar og niðurskurður
Afþreying er hvað fjölmiðlarekstur varðar svo gott sem andstæðan við fræðslu og upplýsingagjöf (fréttir). Þegar markaðslögmál eru ríkjandi og það kreppir að, fjölmiðill þarf að draga saman seglin og segja upp fólki, er tilhneigingin sú að spara á sviði fræðslu og frétta (alvarlegum, þungum sviðum) frekar en á sviði afþreyingar.
Við fjölmiðlun er gjarnan talað um information (upplýsingar/fræðsla), infotainment (sambland af upplýsinga- og skemmtanagildi) og entertainment (skemmtanagildi - afþreying). Víða um heim hafa ekki síst sjónvarpsstöðvar með fréttastofur verið að færast æ meir frá klassískum fréttum (information) yfir í blönduna (infotainment) og margir fréttasjúkir kvartað yfir því og þá ekki síst þeir sem telja fjölmiðla og einkum sjónvarpsstöðvar vera virkasta og kannski æskilegasta vettvanginn fyrir beina lýðræðislega umræðu og upplýsingaveitu.
Um þessar mundir ríkir fáokun á íslenska fjölmiðlamarkaðinum, þar er kreppa og þar er verið að skera niður.
![]() |
365 verður Íslensk afþreying |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)