Líka vantrauststillögu á stjórnarandstöðuna

 

Það er gott mál að stjórnarandstaðan hafi lagt fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Ég á ekki von á því að hún verði samþykkt, en allt í lagi með það; út úr þessu kemur hið minnsta nauðsynleg umræða um frammistöðu ríkisstjórnarinnar. En eina tillögu vantar.

Samhliða þessari tillögu þyrfti að liggja fyrir vantrauststillaga á stjórnarandstöðuna. Hún hefur líka brugðist. Og hluti hennar á hið minnsta jafn mikla sök á óförum lands og þjóðar í efnahags- og viðskiptamálum og núverandi ríkisstjórn; sem sé Framsóknarflokkurinn. Ef til vill má leysa þetta með því að í væntanlegum vantraustsumræðum gangi menn út frá því að vantraust sé rætt á bæði í senn, þessa ríkisstjórn og ríkisstjórnirnar á undan.

Það er morgunljóst að flytja mætti margar vantrauststillögur fram til umræðu og afgreiðslu. Ekki bara gegn ríkisstjórninni og stjórnarandstöðunni, heldur líka gegn Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, yfirmönnum bankakerfisins, auðjöfrunum og fleirum. Fjölmiðlar ættu líka skilið að fá á sig vantrauststillögu, en þeir að minnsta kosti vita að því, hafa viðurkennt skömm sína og vanmátt og eru vonandi byrjaðir að bæta sitt ráð. Stór hluti þjóðarinnar á líka vantraust skilið fyrir að dansa með gullkálfinum til dýrðar í æðisgenginni en undirstöðulausri efnis- og græðgishyggju, en nokkuð ljóst er að óbreyttir landsmenn eru einmitt þeir einu sem verða almennilega látnir axla ábyrgð með því að taka á sig skellinn. Þjóðinni verður refsað með skuldafangelsi, en Geir, Solla, Valgerður Sverris, Halldór Ásgríms, Davíð Oddsson, Jónas Fr. Jónsson, Jón Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Bjarni Ármannsson, Björgólfur Guðmundsson, Björgólfur Thor, Þorsteinn Már Baldvinsson, Lárus Welding, Kjartan Gunnarsson og fleiri slíkir menn; munu allir sleppa.

Enda sýnist mér að allar boðaðar rannsóknir verði í skötulíki. Ég les það út úr þeirri staðreynd að hersveitir rannsóknar- og ákæruvaldsins fóru ekki strax af stað með húsleitir og yfirheyrslur þegar augljós og rökstuddur grunur blasti við öllum (öðrum) um voðaverk sem stórsköðuðu land og þjóð.

Ekki einu sinni fréttir af þessum dularfullu meintu fjársvikum í kringum Stím ehf virðast kalla á viðbrögð. Þvílíkt og annað eins!Ef lögguna vantar kæru til að geta byrjað þá skal ég hjálpa til með þessu opna kærubréfi til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra og til skattrannsóknarstjóra:

Reykjavík 21. nóvember 2008.

Undirritaður, sem einn eigenda Glitnis, óskar hér með eftir tafarlausri opinberri rannsókn á hlutabréfaviðskiptum Glitnis og Stíms ehf. Miðað við upplýsingar sem fram hafa komið opinberlega liggur borðleggjandi fyrir rökstuddur grunur um brot á hegningar- og skattalögum. óskað er tafarlausrar rannsóknar, þar sem byrjað verður á að tryggja að rannsóknargögnum verði ekki spillt.

Friðrik Þór Guðmundsson.


mbl.is Vantrauststillaga komin fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Núna reynir á almennan þingmann Samfylkingarinnar þ.e. hvort að þeir styðji þau Þórunni Sveinbjarnardóttur og Björgvin Sigurðsson eða Ingibjörgu Sólrúnu og Geir Haarde.

Sigurjón Þórðarson, 21.11.2008 kl. 13:27

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, já, Sigurjón. Ég hlakka sömuleiðis til að heyra stjórnarandstöðuna þilja upp öll varnaðarorðin sín um stöðu bankakerfisins. Um allt aðhaldið sem ekki var hlustað á. Ertu ekki sammála?

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.11.2008 kl. 13:34

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég verð að bæta við þessari stórkostlegu setningu úr DV:

""Það er skoðun okkar framsóknarmanna að þessi ríkisstjórn sé alveg ómöguleg,“ segir Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins".

Bara alveg hreint ómöguleg!

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.11.2008 kl. 13:42

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Því miður hafa varnaðarorð stjórnarandstöðunnar ekki náð neinum eyrum, það má reyndar lesa um þær í ræðum þeirra á alþingi.is. En fjölmiðlar hafa ekkert frekar viljað fá þeirra varnaðarorð upp á yfirborðið en hagspekinga og annara sem reyndu að vara við.  Stjórnarandstaðan hefur verið hunsuð allan tímann, eins og stjórnin er núna að hunsa almenning í þessu landi.  Ég er með óbragð í munninum, get svo svarið það.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.11.2008 kl. 13:44

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það eru ansi margar ræður á vef þingsins, Ásthildur. Margar og langar. Getur þú stytt leitina með því að benda á mergjuðustu aðvörunar-ræðurnar, sem ekki var hlustað á?

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.11.2008 kl. 13:50

6 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Eins og þú veist mæta vel Friðrik þá á stjórnarandstaðan ekki ein heiðurinn að því að benda á hversu bankarnir stóður tæpt heldur kom það fram hjá erlendum sérfræðingum.

Sigurjón Þórðarson, 21.11.2008 kl. 13:54

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka þér fyrir Sigurjón. Nú er mikil umræða um það meðal fjölmiðlamanna um hvernig þeir brugðust í aðdraganda Hrunsins. Það er einmitt eitt af atriðunum að fjölmiðlar hafi tekið fyrir gagnrýni erlendis frá, borið undir ráðamenn og bankaforkólfa hér (sem vitaskuld neituðu og sögðu allt í himnalagi) og... látið gott heita, í stað þess að standa fyrir sjálfstæðum úttektum.

Gerði stjórnarandstaðan svipað; vitnaði í erlenda gagnrýni, spurði ráðherra, fékk svör, fór í andsvör... og lét gott heita? Voru ráðherrar og forkólfar kallaðir fyrir nefndir þingsins að beiðni stjórnarandstöðunnar? Var Seðlabankinn boðaður að beiðni stjórnarandstöðunnar að svara krítískum spurningum? Voru framkvæmdastjóri og formaður stjórnar FME kallaði á beinið og grillaðir að ósk stjórnarandstöðunnar? Þetta eru svona praktískar spurningar sem gott væri að fá upplýsingar um. 

Ég er notabene ekki á nokkurn hátt að verja gjörðir og ekki-gjörðir ríkisstjórnarinnar. Ég er bara að bæta við að skoða megi frammistöðu stjórnarandstöðunnar líka.

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.11.2008 kl. 14:07

8 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Hér er einhver að tala um lántöku bankanna  og

133. löggjafarþing — 31. fundur, 21. nóv. 2006.
afnám verðtryggingar lána.
10. mál
[18:46]
Hlusta
Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Vegna þess að því var haldið fram hér af einum hv. þingmanni að skuldaaukning bankanna stafaði af því að bankarnir hefðu yfirtekið að einhverju leyti skuldbindingar Íbúðalánasjóðs þá finnst mér rétt í lokin á þessari umræðu að taka það fram að það er af og frá að það skýri alla þessa skuldaaukningu sem er upp á annað þúsund milljarða frá árinu 2004 til júní þessa árs. Það er ekki hægt að skýra það með því. Það sést best á því að hrein staða Íslands við útlönd á þessum stutta tíma hefur versnað um 600 milljarða kr. Skýringanna er því miklu frekar að leita í þeirri eignaverðbólgu sem hefur verið og því að innlánsstofnanir hafa verið að bera inn lánsfé á lægri vöxtum og endurlána hér. Það er vissulega áhyggjuefni að það sé ekki meiri hvati en raun ber vitni til sparnaðar í þjóðfélaginu. Við sjáum þetta bara á auglýsingum bankanna. Hvað ganga þær út á? Þær ganga út á að auglýsa yfirdráttarlán sem eru með yfir 20% vöxtum. Þetta er áhyggjuefni, þ.e. að það sé kannski verið að auglýsa að það sé 1% eða 2% ódýrara að taka lán fyrir viðkomandi skuldara en þá eru menn jafnvel að tala um 20%–23% vexti sem er alveg gríðarlegt.

Þetta er áhyggjuefni og ég er viss um að þessi umræða bæði um vexti og verðtryggingu á eftir að verða þyngri og sér í lagi ef ríkisstjórnin ætlar ekki að ráða neitt við verðbólguna. Það er náttúrlega stórundarlegt að dæmið sé sett upp með þeim hætti að ekki sé hægt að breyta þessari verðtryggingu vegna þess að þá muni vextir verða yfir 10%. Það er eins og menn ætli bara að búa sig undir það að kveða ekkert niður verðbólguna, að þetta eigi að vera viðvarandi ástand. Því höfnum við algjörlega í Frjálslynda flokknum að menn horfi svo til framtíðar að hér verði 8–9% verðbólga. Það er alveg ótrúleg framtíðarsýn sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins virðast bera hér á borð, þ.e. að þetta ástand verði til framtíðar. Þetta hlýtur að vera tímabundið ástand sem menn ætla að takast á við í raun. (Gripið fram í.)

Sigurjón Þórðarson, 21.11.2008 kl. 14:26

9 identicon

Sæll Friðrik, treystir þú stjórnarandstöðunni? Spurning spurningar vegna. Ég treysti hvorki ríkisstjórninnni sem nú situr við völd né embættiskerfinu sem hér hefur þróast undanfarin ár til að leysa úr þessum ógöngum með réttlæti að markmiði. Eins og þú segir fær almenningur að borga brúsann.  Máttlaus viðleitni stjórnvalda í Baugsmálinu, hverjar svo sem rætur þess voru, var greinileg í uppsetningunni einn skikkjuklæddur saksóknari gegn her Boss-jakkafatadressaðra lögmanna. Og það fer um mann, að þessu liði skuli fengið í hendur allt þetta lánsfé til veita aftur til braskaranna því það er nokkuð víst að þangað mun það fara.

Bárður R. Jónsson (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 14:47

10 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Því miður, Sigurjón, þá sé ég fátt í þessum ræðuhluta sem snertir áhyggjur af hugsanlegu hruni banka- og fjármálakerfisins. Ágætis málflutningur um útlánaaukningu, eignaverðbólgu, almenna verðbólgu, vexti og slíkt, en ekkert um að bankakerfið sé að vaxa samfélaginu yfir höfuð. En þetta var svo sem nóvember 2006 og varla einu sinni hægt að segja að útlensku greiningardeildirnar og matsfyrirtækin hafi þarna verið byrjuð að kvaka. Kannski smá, Danske Bank sjálfsagt.

Ég tek undir áhyggjur þínar, Bárður. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.11.2008 kl. 16:07

11 identicon

Sæll Fridrik, alltaf anægjulegt ad kikja a bloggid thitt. Eg mæli med bokinni Bullshit eftir ameriska heimspekinginn Harry G. Frankfurt. Bullshit segir allt sem segja tharf a thessum sidustu og verstu timum sem dynja yfir thjodina. Kær kvedja fra Norge.

Solrun Sigurdardottir (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 17:10

12 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Takk Sólrún. Bullshit skal það vera!

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.11.2008 kl. 17:52

13 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég er innilega sammála þér Friðrik í því að ábyrg Framsóknar er mikil í því hvernig þetta þróaðist.  Auðvitað ber stjórnarandstaða á hverjum tíma ábyrgð á að veita aðhald. En ábyrgð stjórnarinnar er meiri enda starfa eftirlitsstofnanir á ábyrgð ráðherra og ráðherrar hafa mun betri aðgang að upplýsingum. Þá bera ríkisstjórnirnar  einar ábyrgð á öllum þeim efnahagsráðstöfunum sem kyntu undir verðbólgu, þenslu og viðskiptahalla og hlutur Framsóknar var ekki lítill í því.

Sigurður Þórðarson, 21.11.2008 kl. 21:43

14 Smámynd: Sigurður Þórðarson

p.s.

það góða sem ég vona að hafi komið út úr þessu er að það hefur orðið hugarfarsbreyting hjá almenningi og stemning fyrir verulegri uppstokkun.

Sigurður Þórðarson, 21.11.2008 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband