Hverju skila kosningar í vor?

Ég get vel skilið kröfur um kosningar í vor og teldi það ágætt að endurnýja umboð Alþingis. Ég er hins vegar tvístígandi yfir hverju kosningar í vor muni skila og um hvað þær muni snúast um. ESB og Evru? Uppbyggingu nýs samfélags? Hugarfarsbreytingu? Allt eins gæti það farið svo að kosningar í vor breyti nánast engu.

Ef kosningar í vor munu snúast um björgunaraðgerðir fyrir Ísland og snúast að meginmáli um hvort við eigum að fara í ESB og taka upp Evru eða pluma okkur utan ESB og halda krónunni, þá sýnist mér að ákaflega mikið velti á því hvort Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur skipti um kúrs á boðuðum flokksþingum í janúar. Miðað við tölur í könnunum um 70% stuðning um þessar mundir við ESB aðild þá gæti ég trúað því að einkum Framsókn samþykki stefnu um að fara út í aðildarumræður til að sjá hvað okkur býðst - og það gæti flokkurinn séð sig knúinn til að gera til að þurrkast ekki út í kosningum! Ef Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir sömu stefnumótun gæti svo farið að í kosningaloforðum væru það bara VG og Frjálslyndir sem vildu hafna ESB alfarið. Við svo búið myndi sama ríkisstjórnin og nú ríkir taka við að mínu mati og hefja aðildarviðræður.

Ef hins vegar Sjálfstæðisflokkurinn heldur sinni stefnu og vill ekki ESB og ekki aðildarviðræður heldur, þá sýnist mér að kosningar gætu skilað sér í samstjórn VG og Sjálfstæðisflokksins.

Ég er kannski að reyna að segja þetta: Ef líklegt er að kosningar í vor muni snúast um ESB/Evru umfram annað þá myndi ég vilja fyrst sjá hvað út úr flokksþingunum fyrrnefndu í janúar kemur áður en ég lýsi yfir eindreginni afstöðu til kosninga í vor. En það er bara ég.


mbl.is Íslendingar láti ekki kúga sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Varðandi kosningar strax eða í síðasta lagi í vor, vil ég vitna í grein Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í Morgunblaðinu 21. Nóvember sl.

"Ég tek undir með Davíð Oddssyni um það, að rækileg rannsókn óháðra, erlendra aðila hlýtur að fara fram á hlut Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins, bankanna, Jóns Ásgeirs og annarra aðila að atburðarás síðustu missera og ára. Eftir að niðurstöður slíkrar rannsóknar liggja fyrir, er eðlilegt, að þjóðin kveði upp sinn dóm í kosningum. Það eru einungis þeir, sem óttast slíkar niðurstöður, sem vilja rjúka í kosningar áður. Enn er margt ósagt".  ( Undirstrikun mín, GThG )

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.11.2008 kl. 23:43

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hólmsteinn og Friedman eru núna eins fjarri þjóðar-sálinni og mögulega nokkrir lúserar komast.

Þess utan; það er ekki síst VG sem vill kosningar núna. Hvað hefur VG að óttast varðandi slíkar rannsóknir?

Sem sagt bull. Ekki þetta með ítarlegar rannsóknir erlendra óháðra aðila, sem ég er sammála, heldur hverjir óttast kosningar eða óttast ekki.

Friðrik Þór Guðmundsson, 22.11.2008 kl. 23:48

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég er sammála þér FÞG um kosningar og tel að það væri bara fljótræði að boða til þeirra nú. Á næsta ári gæti verið komin sú staða að kjósa verði vegna afstöðu kjósenda til ESB, en svo er ekki víst að þess þurfi fyrr en 2010

Hólmfríður Bjarnadóttir, 22.11.2008 kl. 23:51

4 identicon

Humm ... 70% stuðningir við sjálfstæðisafsal?

Síðasta skoðanak. gaf til kynna 51% stuðning var það ekki?

Þurfa Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir ekki að segja til hliðar smámálin og standa saman vörð um sjálfstæði þjóðar - fiskinn okkar o.s.frv. ?

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 00:10

5 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Það eru uppi nokkuð sérstakar aðstæður í landinu og þær munu verða það næstu árin. Vera má að þessar aðstæður kalli á sérstakar lausnir.  Eitt af því  sem hefur beðið algert skipbrot er traust gagnvart  stjórnvöldum - hvaða nafni sem þau nefnast. Hér eru mínar vangaveltur um þessi mál, ef þið hafið áhuga...

Haraldur Rafn Ingvason, 23.11.2008 kl. 00:18

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Bankarnir höfðu hag af því að gera upp í evrum og ákváðu að beita öllum einkareknum fjölmiðlum af fullum krafti  fyrir ESB vagninn. Nú eru bankarnir farnir á hausinn en tregðulögmálið heldur ferðinni enn um sinn, þó augljóst sé að þær atvinnugreinar sem eftir lifa muni bíða verulegt tjón af inngöngu í ESB.

Ef svo ólíklega fer að Sjálfstæðisflokkur samþykki að fara í aðildarviðræður mun flokkakerfið riðlast, enda mun þá skilja fyrir fullt og allt milli flokksins og LÍÚ, það yrðu stórtíðindi.

Sigurður Þórðarson, 23.11.2008 kl. 00:39

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hvað getum við lært af þessum hörmungum? Sjálfstæðisflokkurinn kemur ekki til greina sem valkostur hjá hugsandi fólki af augljósum ástæðum.

Samfylkingin sveik þá kjósendur sem kusu hana sem mótvægisafl gegn Sjálfstæðisflokknum. Það er því alvarlegur dómgreindarbrestur að kjósa þá.

Framsókn er varla til lengur. Þá er í raun bara VG eftir, nema nýr og ferskur flokkur komi fram á sjónarsviðið.

Theódór Norðkvist, 23.11.2008 kl. 00:51

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Viðskrifari; 70% talan er eftir minni og var örugglega miðað við þá eingöngu sem tóku ákveðna afstöðu. Kannski var slatti óákveðinn, en 70% talan gengur þá út frá því að þegar á hólminn er komið þá skiptist óákveðnir nokkurn veginn eins og hinir. SOP.

Fólk sem er þreytt á núverandi valkostum flokkakerfisins, og vill sjá eitthvað nýtt, ætti einmitt að vilja bíða með kröfur um kosningar til hið minnsta janúar. Það tekur sinn tíma fyrir nýja flokka að gíra sig upp, safna mannskap, halda fundi, semja stefnu o.s.frv. Það allt getur reynst erfitt, enda held ég að þúsundirnar sem mótmæla, eðlilega og skiljanlega, eigi ekki endilega ótal margt sameiginlegt annað en ofsareiði og andúð á spillingu, samtryggingu og nýfrjálshyggju. Það hljómar vel fyrir t.d. VG, en ekki ef sömu þúsundir telja öruggasta skjólið og lausnirnar vera að finna hjá ESB og hafa Evru! See what I mean?

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.11.2008 kl. 01:45

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er rétt að Hólmsteinninn og Friedman eru lengra frá þjóðarsálinni núna en áður, en það er einmitt mergur málsins. Ef óháð rannsókn á ástandinu leiðir í ljós að hugmyndafræði þeirra sé í engu um að kenna, þá yrði það áfall fyrir 10 - 15% flokk eins og VG.  VG vill hamra járnið meðan það er heitt, og nýta sér þann meðbyr sem flokkurinn hefur í skoðanakönnunum núna. Að krefjast persónulegra sökudólga úr röðum frjálshyggjumanna, er strategía þeirra til fylgisaukningar. Þess vegna vilja þeir kosningar strax og vilja ekki að andstæðingar þeirra nái vopnum sínum. Það er í sjálfu sér bara eðlilegt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2008 kl. 05:49

10 identicon

Mér finnst þið vera að blanda saman eplum og appelsínum.  Með ósk um kosningar í vor eða allavega á næsta ári er verið að lýsa því yfir að núverandi ríkisstjórn sé ekki vandanum vaxin. 

Evrópumálin er allt önnur Ella og í rauninni myndu kosningar kalla á skýra stefnu flokkanna í því tilliti.  Það þarf ekkert endilega að velta á ríkisstjórn hvort aðild að ESB kæmi til greina eða ekki.  Því ekki þjóðaratkvæði að lokinni rækilegri kynningu á kostum og göllum Evrópusambandsaðildar?

Guðjón Baldursson (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 07:53

11 Smámynd: molta

lýðræðið er gelt - ekki einu sinni hamfarir eins og þær sem hafa yfir okkur gengið - og eru í bága við loforð sjálfstæðismanna um styrka efnahagsstjórn þannig að minnsta kosti þar hafa þeir brugðist ábyrgð, auk þess sem ég veit ekki hver ætti að vera ábyrgur fyrir þessu klúðri nema þeir sem hafa boðið sig fram til að stjórna,

eftir allt þetta, þá myndi stjórnin halda velli með glans ef kosið væri í dag. 

molta, 23.11.2008 kl. 08:05

12 identicon

Ég er bara að hugsa um hvers konar ríkisstjórn gæti "hugsanlega kannski" tekið við að loknum kosningum.  Vilja menn e.t.v. fá VG & Frjálslyndaflokkinn mynda meirihlutastjórn?  *hrollur*

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 09:44

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Gunnar; Sjálfstæðisflokkurinn mun sjá til þess að hvers kyns rannsóknir muni aðeins ná 1-3 ár aftur í tímann og aldeilis ekki ná til samfélagsmála heldur eingöngu beinna lögbrota. Nýfrjálshyggjan mun því ekki fá þann óformlega áfellisdóm opinberra rannsakenda sem hún á fyllilega skilið - nema í gegnum dóm kjósenda.

Vitaskuld liggur rót Hrunsins í þeirri eftirlitslausu ótemju sem fyrri ríkisstjórnir komu á laggirnar. Þú getur séð sterka vísbendingu í skoðanakönnunum um að kjósendur séu sammála þessu; Sjálfstæðisflokkurinn í auðmýkjandi lágmarksfylgi en VG í áður óséðu hámarki og raunar vinstri flokkarnir tveir með jafnsterkan mögulegan meirihluta í könnunum og núverandi stjórnarflokkar í síðustu kosningum. Þú sérð á sömu könnunum að kjósendur eru ekki að refsa Samfylkingunni sérstaklega, þótt sá flokkur eigi sína sök, og því morgunljóst að kjósendur horfa aftur til stjórnarára ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og þeirrar gegndarlausu efnis- og græðgishyggju sem þær stóðu fyrir og komu upp. Það er ömurlegt að sjá þig segja að kjósendur séu bara að falla fyrir einhverju plotti VG - kjósendur hafa fulla burði til að ákveða hvaða flokkar eigi að fá refsingu í næstu kosningum. "Sýkna" Samfylkingar og "sakfelling" Sjálfstæðisflokksins er hávær yfirlýsing vitiborins fólks, sem ákveðið hefur að senda nýfrjálshyggjuna til höfundar síns - í neðra!

Friðrik Þór Guðmundsson, 23.11.2008 kl. 15:46

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þarna ertu að gefa þér eitthvað fyrirfram, Friðrik. Svoleiðis fullyrðingar hafa tilhneigingu til að eldast illa.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2008 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband