Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.11.2008 | 13:38
Davíð beinlínis verður að upplýsa um vitneskju sína
Mér finnst mjög gott til þess að vita að hið minnsta einn maður í samfélaginu, Davíð Oddsson, viti upp á hár af hverju fantarnir Brown og Darling ákváðu að beita hryðjuverkalögunum gegn Íslandi. og ég er afskaplega ánægður með að viðskiptanefnd þingsins hafi ákveðið að kalla Davíð til sín til að "grilla" hann um þessa vitneskju og vænti ég biðja um afrit af öllum gögnum sem staðfesta þá vitneskju.
Það gengur auðvitað ekki að Davíð fari með þessa hálfkveðnu vísu og málið stoppi þar. Miklir hagsmunir eru í húfi, meðal annars vegna væntanlegra dómsmála Íslands og Kaupþings gegn Bretlandi vegna einmitt hryðjuverkalaganna og afleiðinga þeirra. Davíð hlýtur að upplýsa um vitneskju sína - hún annað hvort styrkir eða veikir væntanlega málshöfðun. Hér er ég auðvitað að gera ráð fyrir því að ráðamenn hafi ekki afsalað sér réttinum til málshöfðunar með samkomulaginu um Icesave.
Það er alveg sama hvort vitneskja Davíð komi sér illa fyrir einhvern einstakling eða einhverja. Hagsmunir lands og þjóðar eru hagsmunum einstaklinga ofar.
Viðskiptanefnd þingsins verður líka að ganga fast eftir þessum upplýsingum og ekki leyfa seðlabankastjóranum að komast upp með loðin svör eða frekari hálfkveðnar vísur. Ef viðskiptanefndin spyr almennilega þá getur þessi undirmaður/embættismaður ekki hliðrað sér frá svörum. Ef það sem hann nefnir er háð þagnarskyldu eða annars konar leynd þá var það beinlínis siðlaust af honum að nefna þessar upplýsingar í varnarræðu sinni. Og ekki vill seðlabankastjórinn vera siðlaus er það?
Ekki kemur fram í viðtengdri frétt hvenær Davíð á að mæta fyrir nefndina en ég vona að það verði mjög fljótt, því umræddar upplýsingar eru mjög brýnar landi og þjóð.
Jafnframt er mjög brýnt að land og þjóð fái hið fyrsta nákvæmar útlistanir á áhrifum og afleiðingum skilmála Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) á daglegt líf hér á landi. Mér sýnist ljóst að búið sé að njörva Ísland svo niður að miklu nærtækara sé að tala um fullveldisafsal á þessu sviði en hugsanlegt fullveldisafsal með inngöngu í ESB!
![]() |
Davíð kallaður fyrir þingnefnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.11.2008 | 11:40
Steingrímur Joð trúir Davíð eins og nýju neti
Það er athyglisvert og sérkennilegt að lesa í Fréttablaðinu í dag hvernig Eftirlaunalaga-Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, kýs að trúa Davíð Oddssyni eins og nýju neti og fara að bendingum hans - og koma sökinni á Hruninu yfir á Björgvin G. Sigurðarson bankamálaráðherra.
Leiðtogi sósíalista á Íslandi segir þar að ræða Davíðs hafi verið athyglisverð og málefnaleg, að einblínt hafi verið um of á Seðlabankann, en ábyrgðin liggi hjá FME og Björgvini G. Sigurðssyni bankamálaráðherra. Eins og sumir aðrir kýs Eftirlaunalaga-Steingrímur að horfa til meintra aðvörunarorða Davíðs í febrúar en horfa framhjá skínandi jákvæðu heilbrigðisvottorði Davíðs í maí.
Hvers lags eiginlega er þetta?! Er formaður VG kominn í hóp örfárra eftirstandandi aðdáenda Davíðs? Væri ekki nær að formaður sósíalista á Íslandi horfði til ábyrgðar þeirra sem stjórnað hafa landinu í nær tvo áratugi svo gott sem samfleytt og hafa byggt upp hið tjúllaða nýfrjálshyggjukerfi og hannað eftirlitskerfið með því, sem hafa framfylgt einkavina- og frelsisvæðingarprógramminu? Er það virkilega niðurstaða formanns sósíalista að Davíð sé góður og saklaus en vondi maðurinn í Hruninu mikla sé Björgvin G. Sigurðsson?
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með einstökum bönkum en Seðlabankans er að viðhafa "kerfislægt" eftirlit. Svo sagði formaður stjórnar FME í gær og ræða Davíðs staðfestir þetta í raun. Með öðrum orðum átti Seðlabankinn að fylgjast með "kerfislægum" vandamálum. Í maí sl. gaf Seðlabankinn út glimrandi gott heilbrigðisvottorð fyrir bankana kerfislægt. Það fékk bankamálaráðherrann í hendurnar en svo virðist sem Ingibjörg Sólrún hafi ekki séð ástæðu til að nefna við hann loðin aðvörunarorð Davíðs þremur mánuðum fyrr. Hún (og Geir) hefur kannski ekki tekið mark á Davíð, eins og Eftirlauna-Steingrímur gerir.
Eða eru orð formanns sósíalista á Íslandi kannski sögð eftir samráð við fulltrúa VG í bankaráði Seðlabankans, Ragnar Arnalds? Sem vel að merkja hefur EKKI sagt sig úr stjórn Seðlabankans!
18.11.2008 | 10:37
Kveðjuræða Davíðs
Það er augljóst mál að Davíð er (loks) á förum. Þrátt fyrir öll beinu og óbeinu völdin hans er deginum ljósara að "svona tala (embættis)menn ekki" - nema þá helst að þeir hafi engu að tapa. Ég dreg þá ályktun að hann hafi fyrir ræðuna fengið orð í eyra um að honum væri ekki lengur sætt í embætti. Því burt séð frá innihaldinu að öðru leyti þá er þessi ræða augljóst uppgjör manns sem leyfir sér að setja til hliðar þá staðreynd að hann er annars vegar embættismaður en ekki pólitíkus og hins vegar undirmaður (samkvæmt skipuriti!) þeirra sem hann húðskammar.
Eins og með ýmsa aðra pótintáta sér maðurinn ekki nokkra sök hjá sjálfum sér en ýmsa hjá öðrum. Hann skautar framhjá því að 90% landsmanna hafa misst alla tiltrú á hann og vilja hann burt frá kjötkötlunum. Mjög margir sjá í honum allra stærstu sökina á Hruninu - og það er ekki út af neinni lausafjárstöðu bankanna heldur vegna þess samfélagskerfis sem hann bjó til manna mest og lengst. Að því víkur Davíð ekki í ræðu sinni, en hann hefur svosem lengi varað við sumum viðskipta- og bankamönnum. Og hafi Davíð varað ráðamenn við allt frá því í febrúar þá hlýtur hann að hafa skilað því eitthvað einkennilega frá sér, því ella hefði væntanlega verið á hann hlustað.
Fjölmiðlalagakafli kveðjuræðunnar er kapítuli út af fyrir sig, óráðstal manns sem lifir í eigin gallalausa heimi. Fjölmiðlafrumvörpin sem Davíð og Halldór stóðu fyrir voru einfaldlega ekki brúkleg. Stjórnvöld gerðu síðan ekkert með þverpólitíska niðurstöðu fjölmiðlanefndar og hættu bara við allt saman (og þar með Davíð). Þess utan er hvað eignarhald fjölmiðla varðar sú gerbreytta staða uppi núna, að 365 er komið upp í bæli með Árvakri.
Það er skelfilegt að þjóðin þurfi að fá þetta í hausinn á þessum verstu tímum. Að þjóðin þurfi að búa við veruleikafirrtan (aðal)Seðlabankastjóra. Og ríkisstjórn sem leynir eða segir í besta falli hálf-sannleik. Hörmulegt.
Ræðan bendir þó til þess að einn af sökudólgunum sé á útleið.
![]() |
Fjölmiðlar í heljargreipum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.11.2008 | 17:27
Ef Guðni fer þá er Valgerði ekki sætt
Það einfaldlega gengur ekki upp að Guðni Ágústsson segi af sér sem formaður Framsóknarflokksins og þingmaður hans en Valgerður láti eins og ekkert hafi í skorist. Afsögn hennar hlýtur að fylgja í kjölfarið. Það er einfaldlega út í hött að hún verði "verðlaunuð" með formannsstólnum.
Guðna og Valgerði mistókst í sameiningu að halda flokknum í einingu og þau bera í sameiningu ábyrgð á örfylgi flokksins og þau bera í sameiningu ábyrgð á afleiðingum gjörða síðustu ríkisstjórna á undan þeirri yfirstandandi. Sú ábyrgð er gríðarleg og þar er ábyrgð Valgerðar enn meiri en ábyrgð Guðna, sem þó var bara landbúnaðarráðherra, en Valgerður ráðherra bankamála.
Bara sorrý - ef Guðni fer þá hlýtur Valgerður að fara.
![]() |
Guðni segir af sér þingmennsku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.11.2008 | 12:00
Hvaða velferðarútgjöld á að skera niður?
Samkvæmt nýjustu fréttum á að skera niður ríkisútgjöld með flötum 10% niðurskurði á öll ráðuneyti. Þetta eru hrikalegar fréttir, því þarna er ekki gerður greinarmunur á eðli útgjaldanna. Ætlunin er samkvæmt þessu að skera niður t.d. heilbrigðisútgjöld um 10% en þegar liggur fyrir að fjárveitingar í þau máli hafa verið vanáætlaðar og leitt til "hallareksturs" og langra biðlista.
Útgjöld heilbrigðisráðuneytisins 2009 áttu samkvæmt fjárlögum að vera um 120 milljarðar króna og eiga þá að skerðast um 12 milljarða af þessum fimmtíu. Nú sitja vænti ég embættismenn sveittir við að forgangsraða sjúklingum og sjúkdómum; hverjum björgum við og hverjum ekki? Hver fær aðgerð og hver fær bara plástur og er sendur heim?
Um 70% útgjalda velferðarþjónustunnar eru laun. Þessi niðurskurður er því augljóslega ávísun á fjöldauppsagnir.
Mér finnst nær að taka ákvörðun um að skera meira niður útgjöld til "dauðra" hluta en "lifandi". Skerum frekar niður tímabundið í vega-, hafna- og flugvallaframkvæmdum, skerum niður sendiráðsbáknið, skerum niður útgjöld til trúmála um 25% og fleira mætti nefna - en skerum þeim mun minna útgjöld til velferðarmála. Við getum "hert sultarólina" og beðið með eitthvað af bundnu slitlagi frekar en að láta sjúklinga deyja á biðlistum.
![]() |
Lagt til að útgjöld dragist saman um 50,7 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.11.2008 | 10:47
Drög að umsókn? Já eða nei!
Í viðtengdri Moggafrétt segir: "Utanríkisráðuneyti Íslands hefur þegar lagt drög að umsókn um aðild að Evrópusambandinu í byrjun næsta árs, eftir því sem fram kemur á fréttavefnum euobserver". Fyrirsögn með fréttinni er með spurningamerki, en fréttin fór inn kl. 9:38. Nú klukkutíma seinna hefur enginn sagt af eða á hvort frétt euobserver sé rétt.
Það eru grafalvarlegir hlutir að gerast. Sameinuð ríki Evrópu, önnur ríki og IMF hafa þvingað okkur með ofbeldi til að semja um Icesave reikningana (jú, meðal annars vegna kennitöluflakks og mismununar af okkar hálfu), stjórnvöld vilja ekki segja okkur frá skilmálum IMF fyrir láni og þessi undarlega frétt í Mogga segir að utanríkisráðherra, ef ekki ríkisstjórnin öll, hefur þegar lagt fram umsóknardrög til ESB (reyndar segir bara "lagt", ekki einu sinni "fram", hvað þá "til").
Það verður að greiða úr þessari flækju og það verða fjölmiðlar að gera strax áðan. Morgunblaðið verður að útskýra þessa frétt sína ekki seinna en áðan. Við þurfum að fá að vita um smáatriði Icesave-samninganna og IMF-skilmálanna ekki seinna en í síðustu viku!
Það er morgunljóst að stjórnvöldum er ekki treystandi til að vinna að málefnum Íslands að tjaldabaki. Mér sýnist að ekki sé einasta þörf á utanþingsstjórn, heldur að hún verði skipuð óháðum erlendum sérfræðingum! Bara ekki frá ESB, auðvitað. Suður-Ameríka kemur fyrr upp í hugann. Hugo Chavez er kannski til í slaginn.
![]() |
Drög lögð að umsókn um ESB-aðild? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.11.2008 | 11:26
Hugvekja: Breyttur heimur framundan
Eiga róstur eftir að sjatna eða aukast á næstunni? Bjargar lánið frá IMF og einstökum ríkjum eftir að fá okkur til að róast? Það er ekki víst! Ég birti hér í heild frásögn af vef Sambands Ísl. sveitarfélaga, þar sem sagt er frá áhyggjum Karls Björnssonar framkvæmdastjóra yfir því hvað framundan er. Þetta er athyglisverð lesning og ástæða til að hlusta vel á varnaðarorðin - og fjalla um þau.
"Karl Björnsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga gagnrýnir harðlega að ekkert samráð var haft við sveitarfélögin um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) að efnahagsstjórn landsins. Þetta kemur fram í leiðara Karls í nýútkomnum Sveitarstjórnarmálum.
... tekjur sveitarfélaga munu dragast saman á næsta ári á sama tíma og útgjöld munu aukast. Fjárhagsleg afkoma sveitarfélaga mun því versna til muna og mörg hver munu ekki geta samþykkt fjárhagsáætlanir eða fjárheimildir fyrir næsta ár miðað við lítið breytt þjónustustig án þess að auka mjög á skuldirnar. Þær skuldir verða þó ekki raunverulegar fyrr en sveitarfélagið hefur tekið lán. Lántökumöguleikarnir eru á hinn bóginn háðir mikilli óvissu.
Erlendir bankar neita að lána Íslendingum fé og mjög takmarkað lánsfé er hægt að sækja hér innanlands miðað við þörfina. Of margir treysta á lífeyrissjóðina, ríkið vegna fjárlagahalla og sveitarfélögin vegna fyrirsjáanlegs hallareksturs næstu ár. Hinir nýju ríkisreknu bankar vilja einnig fá lánsfé frá lífeyrissjóðunum. Eftirspurnin er því mun meiri en framboðið. Lausnin felst því í að Íslendingar öðlist aftur traust á erlendum lánsfjármörkuðum og í framhaldi af því geti bankar þessa lands tekið upp eðlileg alþjóðleg millibankaviðskipti. Takist það ekki er í mikið óefni komið," segir Karl.
Samfara þessu þurfa sveitarfélög og ríki að móta sameiginlega stefnu í gjaldskrár- og skattamálum. Það gengur ekki að ríkið, án samráðs við sveitarfélögin, hækki gjaldtöku sína og jafnvel skatta á sama tíma og þrýst er á sveitarfélögin að hækka ekki skatta, hækka ekki gjaldskrár, og jafnvel að fella niður gjaldtöku fyrir ólögbundna þjónustu"."
http://www.samband.is/news.asp?id=368&news_ID=1374&type=one
Hvað gerist er sveitarfélög geta ekki borgað út laun? Hver verða viðbrögðin ef sveitarfélög segja að þau geti ekki lengur kostað tónlistarnám, lengda viðveru í grunnskólum o.s.frv. ? Staðreyndin er sú að mjög margt sem okkur hefur þótt sjálfsagt undanfarið verður munaður eftir nokkrar vikur!
![]() |
Ráðamenn og frekir krakkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.11.2008 | 20:57
Fengu það óþvegið án milligöngu Bjarna Harðar
Liðlangan daginn fór hver Framsóknarmanneskjan á fætur annarri upp í pontu á miðstjórnarfundi flokksins og lét Guðna, Valgerði, Halldór og það kompaní fá það óþvegið. Afsögn Bjarna Harðarsonar hafði þá ekki leynt því sem undirniðri var fréttnæmara en mistök Bjarna; flokksmenn eru reiðir og skammast sín fyrir hlut Framsóknar í Hruninu.
Það var augljóst að Guðna og Valgerði var brugðið (á sama tíma getur Bjarni Harðar sprangað um glaðbeittur með sitt nýja "viðmið"). Aldrei hafði sést önnur eins mælendaskrá hjá Framsókn! Aldrei höfðu umræður verið eins "hreinskiptar". með öðrum orðum - aldrei hefur óánægja með forystusveit verið jafn hávær og syndir hennar jafn miklar.
Árin "góðu" með Davíð eru farin að bíta. Fólk veit nefnilega hvar rót hrunsins liggur. Við hliðina á myndinni af Davíð í bílstjórasætinu með Geir í farþegasætinu og Mathiesen í barnastólnum er búið að hengja upp myndina af valgerði að selja Bjöggunum bindiskyldulausan Landsbankann. Svoleiðis er það nú bara.
![]() |
Framsókn flýtir flokksþingi og tekur fyrir tillögu um aðildarviðræður við ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.11.2008 | 11:25
Ekki flokkurinn minn, svo mikið er víst
Þessi boðaði nýi stjórnmálaflokkur, sem hyggst skreyta sig með Sturlu Jónssyni "trukkara" og bera nafn öfgahægri-flokks í Danmörku, ber feigðina í sér. Nái hann því markmiði að bjóða fram, sem mér er til efs, þá fer hann í góðan hóp vonlausustu framboða lýðveldissögunnar. Það er eiginlega varla hægt að hugsa sér lélegra útspil stjórnmálafls í hinum frjóa pólitíska jarðvegi sem nú er fyrir hendi.
Framfaraflokkurinn! Ömurlegur stimpill Danskra öfgamanna til hægri er of greinilegur á þessu annars ágæta nafni. Rasistarnir hans Glistrup hafa því miður eyðilagt þetta nafn. Fyrst ætlaði trukkarinn að stofna nýjan flokk með öðru notuðu nafni, sem aðrir höfðu réttinn til, og það fór í vaskinn með eftirminnilegum hætti. Nú kemur annað vonlaust útspil í pólitík; þegar þorri kjósenda er á leiðinni til vinstri (frá einstaklings- og græðgishyggju til félagshyggju) dettur þessum snillingum í hug að taka upp tákn öfgahægrimanna.
Kannski kemur þetta ekki á óvart. Trukkarinn umræddi leiddi enda baráttu fyrir því að ríkið myndi draga úr álögum sínum á bensín, þegar fyrir lá að ríkið hafði þegar gert það og nær hefði verið að horfa til olíufélagaþursins ógurlega, sem helst var að finna plottandi í Öskjuhlíðinni. Trukkararnir létu höfuðsyndaselinn í friði og það var ófyrirgefanlegt. Einkum þegar við bættist að menn vildu helst afnema hvíldarákvæði vörubílstjóra og leyfa þeim að keyra örþreyttum innan um okkur hin. Svoleiðis túlkaði ég það allavega.
Í viðtengdri frétt mbl.is kemur EKKERT fram um stefnu þessa vonlausa stjórnmálaafls. Þetta er sagður vera flokkur sem "ber hag fólksins í landinu fyrir brjósti", en það getur þýtt nánast hvað sem er. Hvurslags eiginlega er þetta!? Er verið að stofna flokk bara til að stofna flokk og sjá svo til með einhverja stefnu? Sögðust ekki Hitler, Stalín og fleiri slíkir "bera hag fólksins" fyrir brjósti?
Ég veit um hið minnsta tvo hópa sem í gangi eru og undirbúa annað hvort flokk eða baráttufélag. Það er gert af vandvirkni, með söfnun upplýsinga og með því að setja stefnu á blað. Flokkur verður að hafa stefnu og það virðist þessi "Framfaraflokkur" ekki hafa, því ella hefði hún væntanlega verið nefnd, er það ekki?
Fjórflokkakerfið á Íslandi er gríðarlega sterkt. Ef það á að stofna nýjan stjórnmálaflokk sem á að ná árangri þá er það ekki hrist fram úr erminni með svona þvælu. Það sem ekki er vel úr garði gert endist ekki lengi. Líklega væri betra að fólk fjölmennti og yfirtæki gömlu flokkana, frekar en svona kjaftæði!
![]() |
Framfaraflokkurinn stofnaður á næstu dögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.11.2008 | 11:53
Hversu hár verður reikningurinn?
Auga gefur leið að samkomulag við Breta og Hollendinga getur aðeins falið í sér væna eftirgjöf af stefnunni "við látum ekki kúga okkur" og "við borgum ekki erlendar skuldir óreiðumanna". Það er kannski óhjákvæmilegt, en ég ætla að vona að ekki hafi verið tomma gefin eftir í því að höfða mál gegn Bretum vegna hryðjuverkalaganna hvað óþarft tjón Íslands og Kaupþings varðar.
Það er beinlínis skylda okkar að fara með þessi hryðjuverkalög og brot þeirra á meðalhófsreglunni til alþjóðlegra dómstóla. Ég hef ekkert á móti því að áhættusæknir sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi fái tilskilið lágmark upp í innistæður sínar og þá fyrst og fremst með sölu á eignum gamla Landsbankans þar í löndum. Ég get auðvitað ekki stutt það, að kröfuhöfum sé mismunað, en gild hagræn rök og neyðar(réttar)ástand á Íslandi, ásamt hryðjuverkalögunum, standa gegn því að ofurbyrði verði lögð á Íslensku þjóðina.
Hvað sem öðru líður þá er lágmarkskrafa að í boðuðu samkomulagi hafi Bretar fengið hið minnsta löðrung, en vonandi fullgilt kjaftshögg. Ef málið er á hinn veginn þá mun samkomulagið ekki boða gott fyrir ríkisstjórn Geirs Haarde.
![]() |
Ríkisstjórnin boðar blaðamannafund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |