Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.11.2008 | 22:42
Fyrst Vörður, nú bláir Skagamenn
Fyrst efndi kjördæmisráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, Vörður, til byltingar gegn Davíð (sjá færslu hér neðar) og nú bætist við stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna á Akranesi. Skjólum Davíðs er verulega tekið að fækka og nú er burðarvirkið að hrynja.
Svörnustu, innvígðustu og innmúruðustu aðdáendur og fylgjendur Davíðs eru nú að yfirgefa hann hver á fætur öðrum. Jafnvitlaust og það er að kenna honum einum um ófarir lands og þjóðar þá stendur hann samt fremstur. Veislan var í boði hans og hann bauð ómælt brennivín. Meðan allir voru fullir tók enginn eftir því að þjóðarskútan var að stranda og skerið heitir Óheftaogeftirlitslausaeinkavinavæðingar-ogfrelsisvæðingar-skerið. Skipstjórinn var fyllstur og ber mestu persónulegu sökina, þótt hann hafi farið í koju korteri fyrir strand.
---
p.s. Tengt þessu, en óbeint: Ofsalega sniðuga einkarekstursformið í Heilsuverndarstöðinni er farið á hausinn. Enn einn áfellisdómurinn.
![]() |
Stjórnendur Seðlabankans víki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2008 | 12:26
Erum við þjóðernissinnaðir kennitöluflakkarar?
Í sjónvarpsviðtali við norska ráðherrann Stoltenberg mátti í gærkvöldi greina milli línanna af hverju tilteknar erlendar ríkisstjórnir eru svona illar út í okkur - og það er atriði sem við á Íslandi erum ekki að ræða í þaula og þess vegna eigum við svo bágt með að skilja illindin. Bretar, Hollendingar og fleiri telja að við höfum gerst sek um kennitöluflakk og að við mismunum fólki með broti á almennri jafnræðisreglu.
Í viðhengdri frétt mbl.is kemur fram hversu hagfræðilega vafasamt það er að hinar erlendu þjóðir geri á okkur ítarkröfur um greiðslur vegna Icesave. Við hreinlega stöndum ekki undir því og það er of mikil hagfræðileg byrði fyrir okkur, börnin og barnabörnin. Í ljósi þessa hljótum við að grípa til neyðarréttar og þá einnig í ljósi þess að Evrópskar tilskipanir miða við aðgerðir og skuldbindingar þegar einn eða tveir bankar rúlla, en ekki þegar allsherjar hrun verður. Og það er alveg rétt; við getum ekki samþykkt að taka á okkur ýtrustu skuldbindingar; við saklausir almennir borgarar hinnar fámennu þjóðar stöndum ekki undir slíku. Þess utan höfum við rök, sem Eiríkur Bergmann hefur bent á, að með beitingu hryðjuverkalaganna hafi Bretar sjálfir yfirtekið þessar skuldbindingar (hvað breska innistæðueigendur varðar).
En illindin þarna úti eru undarlega mikil að okkur finnst. Ekki bara hjá Bretum, Hollendingum og fleiri, sem leyfðu Icesave, heldur (eins og Agnes Bragadóttir benti á) hjá alþjóðlegum seðlabönkum, ESB og gott ef ekki IMF. Jafnvel er talað um samráð eða samsæri gegn okkur, litla Íslandi.
Við þekkjum þetta með kennitöluflakkið; einhver fer á hausinn er er búinn að koma verðmætustu eignum undan og við lánadrottnum blasir bara við eignalaust bú, með "þrotamaðurinn" er að koma nýju fyrirtæki í gagnið með "gömlu" eignunum. Flest teljum við þetta siðlaust og óverjandi. Þess utan er það beinlínis ólöglegt og riftanlegt að grípa til aðgerða sem mismuna kröfuhöfum. Í þessu eru illindin ytra líklega fólgin; við settum neyðarlög þar sem við mismunum sparifjáreigendum eftir þjóðerni. Við ætlum að reyna að greiða Íslenskum sparifjáreigendum sem allra mest til baka, en láta erlenda sparifjáreigendur mæta algerum afgangi (ekki borga erlendar skuldir óreiðumanna, eins og einhver sagði).
Erlendis er þetta talið siðlaus og löglaus framkoma, en við lítum á þetta sem sjálfsagðan neyðarrétt. Við teljum sem sagt að við getum og eigum að bæta Íslendingum skaðann, en ekki útlendingum. Er það ekki málið? Að litið sé á okkur sem þjóðernissinnaða kennitöluflakkara sem koma eignum undan og mismuna kröfuhöfum?
![]() |
Ísland stendur frammi fyrir gjaldþroti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2008 | 08:24
Rautt sem tákn um hvað?
Hvort á rauði liturinn að tákna kommúnisma, blóð eða hvoru tveggja eða eitthvað allt annað? Eða eigum við hin bara að velja okkur merkingu? Hefði ekki verið betra að skilja eftir smá skilaboð til að hjálpa okkur aðeins - einhver gæti þannig valið að sjá þarna táknrænan lit fyrir kjólinn á flottustu stúlkunni á ballinu hans Geirs.
Líklega bara óskipulögð reiði. Óskipuleg í framkvæmd - en beinist þó í rétta átt.
![]() |
Máluðu Valhöll rauða í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.11.2008 | 12:08
Nú er Davíð orðinn skaðvaldur
Það kemur ekki á óvart að "stjórn Seðlabankans" ætli ekki að "tjá sig" um þau ummæli Sigurðar Einarssonar í Kaupþingi að Davíð Oddsson hafi hótað því að "taka bankann niður" ef hann myndi gera upp í evrum.Hitt kann að koma á óvart og vera marktækur fyrirboði að félög innan Sjálfstæðisflokksins - í höfuðvíginu sjálfu - séu farin að ræða Davíð sem skaðvald fyrir a.m.k. flokkinn.
Um "þögn" Seðlabankastjórnarinnar má lesa hér á netútgáfu Morgunblaðsins, en læst er fyrir bloggumræðu stórmerkileg frétt í pappírs-Mogganum í dag frétt af fundi í stjórn Varðar, kjördæmisráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Stjórnarfundurinn var á mánudag og var þar fjallað um stöðu flokksins. Frétt Morgunblaðsins er ekki áberandi en undiralda hennar er áberandi; Sjálfstæðismenn í trúnaðarstörfum fyrir flokkinn eru í alvöru farnir að ræða að Davíð Oddsson (seta hans í bankastjórn Seðlabankans) sé orðinn flokknum skaðvaldur. Sagt og skrifað: Skaðvaldur. "Óvenjulega hreinskiptnar og opnar umræður fóru fram" á fundinum, um stöðu flokksins segir Morgunblaðið. Hreinskiptar og opnar - er í mínum eyrum breytt orðalag um að fundarmenn hafi verið trítilóðir vegna þróunar mála hjá flokknum og fundið höfuðmeinið þar sem blóðið fossast út: Þar sem Davíð stendur. "Nauðsynlegt væri að breyting yrði þar á".
Ég hef sagt hér áður að engin ástæða sé til að einskorða blammeringar vegna hrunsins við Davíð, en skilaboð stjórnar Varðar eru skýr. Sjálfur Flokkurinn telur hann skaðvald og vill hann burt úr Seðlabankanum. Þetta eru í mínum eyrum merkilegri fréttir en að forseti landsins hafi fabúlerað á fundi með erlendum stjórnarerindrekum.
Margir komu að hruninu. Ég vil orða það svo að stór hluti þjóðarinnar hafi verið á allsherjar fylleríi eftir "frelsisvæðinguna". Allir voru fullir, fjölmargir mátulega þéttkenndir en sumir algerlega ölóðir. Davíð bauð brennivínið.
![]() |
Stjórn Seðlabanka ætlar ekki að tjá sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.11.2008 | 09:21
Mistök Valgerðar - Mistök Bjarna
Þetta er auðvitað með eindæmum bæði klaufalegt og illkvitnislegt hjá Bjarna Harðarsyni að hafa ætlað að koma af stað fréttaflutningi af óánægju Framsóknarmanna með Valgerði Sverrisdóttur fyrrverandi bankamálaráðherra. Aðferðafræði Bjarna er í raun gamalkunn í pólitískri togstreitu manna, flokka á milli og innan flokka. Dreifa einhverju neikvæðu um óvininn!
Hitt er annað mál að bréf Framsóknarmannanna frá Varmahlíð er réttmæt gagnrýni á Valgerði og fjallar um hlut hennar í hruninu mikla. Og þar erum við að tala um MIKLU STÆRRI OG HROÐALEGRI MISTÖK en Bjarni greyið gerði sig sekan um. Valgerður var bankamálaráðherra um árabil í ríkisstjórn hvers mistök í bankamálum hafa nú kostað þjóðarbúið hundruðir milljarða króna.
Í allri umræðunni að undanförnu hefur Valgerður nánast sloppið með nokkra ákúru og er hún þó einhver allra mesti "sökudólgurinn", þar sem það kom í hennar hlut að framkvæma bankastefnu Davíðs, Geirs og nýfrjálshyggjuliðsins. Selja bankana á "slikk"í hendur Bjögganna og annarra auðjöfra sem kunnu ekkert með banka að fara nema til andskotans. Fyrir þetta ætti Valgerður auðvitað að vera búin að segja af sér fyrir lifandis löngu - og þá hefði Bjarni ekki þurft að gera þessi mistök. En Valgerður sér auðvitað ekki sína stóru sök frekar en flestir aðrir sem eiga mestu sökina, bera mestu ábyrgðina á hruninu.
Það er satt að lymska Bjarna og refsskapur er ekki til fyrirmyndar, en skaðar þjóðina mest lítið; aðallega hann sjálfan og Valgerði eitthvað smá, kannski. Bankamálaráðherratíð Valgerðar hefur hins vegar skaðað þjóðina ómælanlega mikið. Hún ekki bara einkavinavæddi bankana, heldur afnam hún bindiskylduna, hjálpaði við að koma Davíð í Seðlabankann og stuðlaði að hörmulegu Fjármálaeftirliti.
Við hlið Valgerðar er Bjarni saklaust fermingarbarn.
![]() |
Bjarni íhugi stöðu sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.11.2008 | 15:14
Hvað segir Inga Jóna hans Geirs?
Nú er deilt um gjörðir Hannesar Smárasonar hjá FL group. Agnes Bragadóttir blaðamaður Moggans hefur upplýst um að því er virðist borðleggjandi lögbrot Hannesar. Þetta hlýtur að sæta lögreglurannsókn.
Í því sambandi vantar ekki vitnin með vitneskjuna. Fyrst þrír og svo aðrir þrír stjórnarmenn FL sögðu sig úr stjórn FL að sögn vegna misgjörða og lögbrota Hannesar. Svo hrökklaðist forstjórinn, Ragnhildur Geirsdóttir, frá með 120 milljón króna þagnar-plástur fyrir munninum, ef ég skil Agnesi rétt.
Áréttað: Stjórnarmenn í FL Group gengu úr stjórn, að því er virðist í mótmælaskyni, vitandi af hegningarlagabroti - en gerðu ekkert annað með það. Fóru ekki til löggunnar með vitneskju sína. Meðal þessara stjórnarmanna var eiginkona þáverandi fjármálaráðherra, núverandi forsætisráðherra, Inga Jóna Þórðardóttir. Er þetta boðlegt? Þarf ekki að spyrja þessar manneskjur um hvers vegna þær hylmdu yfir lögbrot? Er ekki rétt að fjalla um þetta örlítið, en láta frekar eiga sig að fjalla um sömu eiginkonu og setu hennar í einhverju uppstríluðu listaapparati sem litlu sem engu skiptir?
Kannski fjölmiðlar sjái ekki ástæðu til að taka þetta fyrir. En rannsóknar- og ákæruvaldið hlýtur að hafa á þessu svakalegan áhuga. Er það ekki Björn?
![]() |
Hannes vísar ásökunum á bug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.11.2008 | 12:01
Skömmustulegir fjölmiðlar
Áfram hriktir í stoðum fjölmiðla landsins og nú hefur Viðskiptablaðið (í eigu Bakkavararbræðra/Exista) ákveðið að draga saman seglin og koma út bara einu sinni í viku (eins og áður fyrr) (sjá hér). Það er kannski við hæfi að einmitt viðskiptablöð landsins og -kálfar dragi saman seglin (!?) um leið og blaða- og fréttamenn einmitt þessara tegundar umfjöllunar horfa stíft í eigin barm.
Mér finnst margt benda til þess, að þótt fjölmiðlar landsins séu að reyna að standa sig í umfjöllun um "kreppuna" þá séu þeir enn ansi vanmáttugir. Ég til dæmis skil ekki hvers vegna ekki er betur gengið í tafirnar á afgreiðslu IMF og hvað býr þar að baki. Og Agnes hefur enn ekki farið í saumana á samsæri/samráði alþjóðlegu stofnananna (seðlabankanna) gegn Íslandi. Hún hefur hins vegar dustað rykið af gamalli vitneskju sinni um meint lögbrot Hannesar Smárasonar hjá FL Group. Í því sambandi er afar athyglisvert að stjórnarmenn í FL Group gengu úr stjórn, að því er virðist í mótmælaskyni, vitandi af hegningarlagabrotinu - en gerðu ekkert annað með það. Fóru ekki til löggunnar með vitneskju sína. Meðal þessara stjórnarmanna var eiginkona þáverandi fjármálaráðherra, núverandi forsætisráðherra. Er þetta boðlegt? Þarf ekki að spyrja þessar manneskjur um hvers vegna þær hylmdu yfir lögbrot? Er ekki rétt að fjalla um þetta örlítið, en láta frekar eiga sig að fjalla um sömu eiginkonu og setu eiginkonunnar í einhverju listaapparati?
Eins og margir aðrir í samfélaginu eru fjölmiðlamenn nú heldur skömmustulegir yfir því að hafa sofið á verðinum í aðdraganda hrunsins mikla. Skömmustulegastir af öllum fjölmiðlamönnum hljóta einmitt að vera mennirnir með mestu sérþekkinguna á viðskiptalífinu; blaða- og fréttamenn viðskiptablaðanna og -kálfanna. Allir voru menn meðvirkir með útrásinni, góðærinu; en Þeir mest. Einhverjir þeirra voru beinlínis jákvæðir þátttakendur í veislunni. Einnig hljóta ritstjórar og fréttastjórnar manna mest að vera að stara í eigin barm.
Sjálfur finn ég fyrir skömm, því ég brást líka. Mest allt árið 2007 og hálft árið 2008 reyndi ég (í hálfri rannsóknarstöðu hjá Kastljósi) að fylgjast með viðskiptalífinu og meta og greina ýmsar ábendingar og fullyrðingar sem bárust um t.d. Baug, Straum-Burðarás, FL Group og fleira. hvað rakst á annars vegg, fullyrðingar voru ósamhljóða, staðfestingar fengust ekki, pappírsslóðin var óljós og dulin og staðfestandi gögn almennt af skornum skammti. Samt hefði ég átt að gera betur og breytir litlu þótt um mjög flókin mál sé að ræða og gífurlega ruglingsleg krosseignatengsl. Ætli megi ekki segja að mönnum hafi fallist hendur og kosið að fjalla um auðunnari mál.
Mogginn hefur viðurkennt annmarkana í umfjöllun sinni, en samt bent á ýmis "varnaðarorð" í aðdraganda hrunsins, sem enginn hafi þó hlustað á. Gallinn við þetta sjónarhorn Moggans er að í raun fjallaði Mogginn ekki sjálfstætt um yfirvofandi krísu. Mogginn greindi frá neikvæðum viðhorfum og spám erlendra banka, greiningardeilda og matsfyrirtækja og fjallaði um þetta í viðhorfagreinum (leiðurum, Reykjavíkurbréfum) en gerði enga sjálfstæða úttekt - sendi engar Agnesur í málið. Því nefni ég þetta, að mér virðist sem fjölmiðlar almennt séu enn við þetta sama heygarðshorn - í besta falli.
Og ekki lagast staðan við það að sumir fjölmiðlanna eru að hverfa, aðrir að draga saman seglin og segja fólki upp og kannski besta (dýrasta!) fólkið að fjúka fyrst. Kannski er óttinn við eigendurna og atvinnuöryggið aldrei meiri en nú og ekki er það gott vegarnesti í átak til betri frammistöðu!
![]() |
Framtíðarsýn í greiðslustöðvun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.11.2008 | 20:33
Kvöldvökuþraut: Hverjir ljúga meira sannfærandi?
Þetta líkar mér; forvígismenn tveggja útrásarbanka komnir í hár saman og slást um að ljúga meir og betur. Bjöggarnir í gamla Landsbankanum gegn Sigga í Kaupþingi. Nú vantar innlegg í kvöldvökuþrautina frá Jóni Ásgeiri og þá getur dómnefndin tekið til starfa.
Bjöggarnir eru með mjög reynda leikmenn í sínu liði. Einn þeirra var dæmdur fyrir að fegra milliuppgjör og ársreikninga á árum áður og segir núna kokhraustur: "Uppgjör bankans staðfesta að staðan var traust og eignir vel umfram skuldir, enda eigið fé og víkjandi lán bankans um 350 milljarðar skv. síðasta birta uppgjöri bankans þann 30.6.2008". Tvö stig fyrir að vitna í eigin kokkabók.
Og keppnin heldur áfram...
![]() |
Segja að eignir hafi verið umfram skuldir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.11.2008 | 18:34
Felldu illir fjölmiðlar Samson?
Gefur það ekki augaleið að illa innrættir fjölmiðlar (Helgarpóstar) og gjörspilltir embættismenn, ásamt yfirlýsingaglöðum stjórnarandstæðingum, hafi sökkt Samson þeirra Björgólfs-feðga?
Hvað ætli sé langt í ritrýnda bók þar sem þessi niðurstaða verður kokkuð upp? Liggur ekki alveg örugglega ljóst fyrir að Bjöggarnir eru alsaklausir af hvers kyns brotum og mistökum og að utanaðkomandi öfl hafi eyðilagt þeirra góða starf? Er þetta ekki 100% pottþétt?
![]() |
Óskar eftir gjaldþrotaskiptum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.11.2008 | 14:54
Siv Friðleifs og lekinn
Það er fínt framtak hjá Siv Friðleifs, þingmanni Framsóknarflokksins, að bóka kröfu á fundi utanríkismálafundar Alþingis að öll gögn komi upp á yfirborðið varðandi samskipti íslenskra og Breskra ráðherra í aðdraganda hrunsins mikla og hryðjuverkaaðgerða Breta. En henni fatast flugið eftirminnilega þegar kemur að því að álykta um símtalið fræga sem "lak".
Svo er á henni að skilja að "leki" símtalsins sé Íslandi mikið tjón! Upplýsingaleki af þessum toga veldur óbætanlegum álithnekki á íslenskri stjórnsýslu og stórskaðar stöðu Íslands í samskiptum við stjórnvöld annarra landa. Í kjölfar þessa er ólíklegt að ráðherrar annarra landa treysti sér til að eiga trúnaðarviðræður við íslenska stjórnvöld og ráðherra um nokkurt sem máli skipti um langt skeið. Verða slík samtöl væntanlega um léttvæg mál allt þar til tekist hefur að skapa traust á íslenskri stjórnsýslu á nýjan leik. Beðið er um að nefndin verði upplýst um hvernig ofangreint símtal lak til fjölmiðla í ljósi alvarleika málsins, segir í bókun Sivjar.
Nei, Siv; "lekinn" olli Breskum stjórnvöldum álitshnekki, ekki Íslenskum. Símtalið sýndi að þeir lugu að okkur og notuðu lygina til að réttlæta setningu hryðjuverkalaga, sem ollu okkur óbætanlegu tjóni og sökkti Kaupþingi. Ég fagna þessum leka, því stundum brýtur nauðsyn lög. Þeir erlendu samningamenn sem hugsanlega vantreysta Íslandi vegna "lekans" sjá þetta í hendi sér. Að þetta var sjálfsvörn eftir stríðsyfirlýsingu og -aðgerðir Bresku ráðherranna.
Sérstaka athygli vekur að Siv heimtar að utanríkismálanefnd verði upplýst um hver lak! Ég vil hengja orðu á þann sem lak - Siv vill viðkomandi í fangelsi?
![]() |
Öll minnisblöð vegna fundar viðskiptaráðherra og Darlings verði lögð fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |