Nú er Davíð orðinn skaðvaldur

 

Það kemur ekki á óvart að "stjórn Seðlabankans" ætli ekki að "tjá sig" um þau ummæli Sigurðar Einarssonar í Kaupþingi að Davíð Oddsson hafi hótað því að "taka bankann niður" ef hann myndi gera upp í evrum.Hitt kann að koma á óvart og vera marktækur fyrirboði að félög innan Sjálfstæðisflokksins - í höfuðvíginu sjálfu - séu farin að ræða Davíð sem skaðvald fyrir a.m.k. flokkinn.

Um "þögn" Seðlabankastjórnarinnar má lesa hér á netútgáfu Morgunblaðsins, en læst er fyrir bloggumræðu stórmerkileg frétt í pappírs-Mogganum í dag frétt af fundi í stjórn Varðar, kjördæmisráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Stjórnarfundurinn var á mánudag og var þar fjallað um stöðu flokksins. Frétt Morgunblaðsins er ekki áberandi en undiralda hennar er áberandi; Sjálfstæðismenn í trúnaðarstörfum fyrir flokkinn eru í alvöru farnir að ræða að Davíð Oddsson (seta hans í bankastjórn Seðlabankans) sé orðinn flokknum skaðvaldur. Sagt og skrifað: Skaðvaldur. "Óvenjulega hreinskiptnar og opnar umræður fóru fram" á fundinum, um stöðu flokksins segir Morgunblaðið. Hreinskiptar og opnar - er í mínum eyrum breytt orðalag um að fundarmenn hafi verið trítilóðir vegna þróunar mála hjá flokknum og fundið höfuðmeinið þar sem blóðið fossast út: Þar sem Davíð stendur. "Nauðsynlegt væri að breyting yrði þar á".

Ég hef sagt hér áður að engin ástæða sé til að einskorða blammeringar vegna hrunsins við Davíð, en skilaboð stjórnar Varðar eru skýr. Sjálfur Flokkurinn telur hann skaðvald og vill hann burt úr Seðlabankanum. Þetta eru í mínum eyrum merkilegri fréttir en að forseti landsins hafi fabúlerað á fundi með erlendum stjórnarerindrekum.

Margir komu að hruninu. Ég vil orða það svo að stór hluti þjóðarinnar hafi verið á allsherjar fylleríi eftir "frelsisvæðinguna". Allir voru fullir, fjölmargir mátulega þéttkenndir en sumir algerlega ölóðir. Davíð bauð brennivínið.


mbl.is Stjórn Seðlabanka ætlar ekki að tjá sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Hún er nú mjög merkileg, þessi langvarandi þögn í Seðlabankanum. Menn sem stöðugt "ætla ekki að tjá sig" hljóta að vera með eitthvað á samviskunni.

Úrsúla Jünemann, 12.11.2008 kl. 12:48

2 identicon

Þú tókst eftir því Lilló að þau hjá Verði sáu ástæðu til að einskorða þetta við „skaða flokkinn“ er það ekki? Ekki skaða þjóðina, heldur flokkinn.

Djísús, þvílíkt sjálfhverfispakk.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 13:36

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Jú, jú Þorsteinn, tók eftir því, en hygg að þetta sé samt dulmál og þýði bæði "flokkinn og þjóðina". Annað meikar ekki sens.

Mergurinn málsins er að nú er meira að segja sjálfstæðisfólk búið að sjá ljósið. Og það orðið opinbert.

Friðrik Þór Guðmundsson, 12.11.2008 kl. 13:43

4 Smámynd: Benedikt V. Warén

Davíð situr í skjóli Sjálfstæðisflokksins með þegjandi samþykki Samfylkingarinnar.

Benedikt V. Warén, 12.11.2008 kl. 16:14

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hef lengi verið aðdáandi Davíðs, en þegar yfirgnævandi meirihluti þjóðarinnar vill hann burt úr Seðlabankanum, þá á að virða það. Þetta er ekki bara eins og einhver ómerkileg skoðanakönnun með hann, þjóðfélagið logar stafna á milli og hann er eldsmatur. Slökkviliðs og björgunarmenn reyna að fjarlægja eldsmat jafnframt slökkvistarfinu, ef það er ekki hættulegt fyrir þá. Það er ekkert hættulegt við það að gefa Davíð frí. Hvað getur versnað?

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.11.2008 kl. 16:59

6 Smámynd: Sverrir Einarsson

Takk Lilló ég afþakka mér alla ábyrgð á þessum stjórnarherrum og undirsátum þeirra í eftirlistsleysinu með fjármálastofnunum landsins. Sl 8 ár hef ég nú bara verið að stunda mína vinnu og reyna að ná endum saman fjárhagslega og gengið mis vel, ekki verið neitt með puttana á alþingismönnum hvað þeir væru að bedrífa þarna á austurvelli, enn síður hef ég verið að skifta mér af seðlabankastjórninni eða hvað hún afhafðist eða aðhafðist ekki og þá ekki síður hef ég verið að skifta mér af fjármálaeftirlitinu.....veit að vísu hvar það er til húsa en meira veit ég ekki um þá stofnun, þannig að ég er takk ekki ábyrgur á neinn hátt en eins og fleirri þá sit ég í súpnni ef svo má að orði komast, búinn að fá uppsagnarbréfið en kemst ekki úr landi vegna gjaldeyrisskorts svo ég held að í bili þá verði ég hér bara áfram  og reyni að verða mér úti um vinnu.

Eru ekki þarna komnar 3 helstu eftirlitsstofnanirnar sem brugðust og þvi fór sem fór, ég veit að önnur lönd eiga í svipaðri klípu og við nema þar fellur gjaldmiðillinn ekki daglega eins og hér. Þá er ég að meina bankar hafa verið að fara þar á hausinn með keðjuverkandi áhrifum og svoleiðis.

En einni spurningu langar mig að velta upp (þó þetta sé kanski ekki rétti vetvangurinn til þess þú afsakar bara og skammar mig þá) en hún er sú, á Íslenska þjóðin að borga einhverjar skuldsetningar og loforð íslenskra einkafyrirtækja á erlendri grund er það ekki alfarið mál þessarra einkafyrirtækja?

Með það þá er ég farinn að gera eins og Gissur Sigurðsson fréttamaður sagði um daginn en þá sagðist hann vera fara að "Hardera" þ.e.a.s. gera ekki neitt.

Hann trúir því (eða vonar) þó hann segi það ekki að þetta lagist einhvernveginn af sjálfu sér með tímanum. Svolítið sér Íslenskt ekki satt

Eigðu svo góðar stundir og haltu áfram að skrifa, bæði ertu mikklu pennafærari en ég og svo taka mikklu fleirri mark á þér en mér.........en það er önnur saga.

Sverrir Einarsson, 12.11.2008 kl. 17:07

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Takk Sverrir (gangi þínum mönnum vel í kvöld en mínum þó betur). Spurning þín "á Íslenska þjóðin að borga einhverjar skuldsetningar og loforð íslenskra einkafyrirtækja á erlendri grund er það ekki alfarið mál þessara einkafyrirtækja?" er fyllilega réttmæt og ekki bara þú og ég sem spyrjum hennar.Hikstalaust eiga fyrrum og núverandi eignir banka- og auðmanna að fara upp í að greiða útlendum áhættutökurum, en ekki krónu umfram það sem ýtrustu alþjóðalög segja til um - og helst minna en það í ljósi neyðarréttar. Gagnvart Bretum vil ég vera sérstaklega gjafmildur og gefa þeim mörg löng nef.

Benedikt; var Samfylkingin ekki að bóka í ríkisstjórn að hún teldi sig ekki bera ábyrgð á Davíð. Það minnir mig.

Gunnar: Sammála. Ef ég set til hliðar pólitíska andstöðu við Davíð þá blasir samt við mjög almenn andstaða og raunar algert vantraust gagnvart manninum. Fólk er ef til vill að persónugera vandann núna um of í Davíð sérstaklega, en hann nýtur einfaldlega ekki trausts. Og þegar Vörður er farinn að ræða það opinskátt að hann sé skaðvaldur þá hygg ég að fokið sé í flest skjól.

Friðrik Þór Guðmundsson, 12.11.2008 kl. 18:31

8 Smámynd: Benedikt V. Warén

Friðrik..þú hefur aldeilis fréttir frá ríkisstjónarfundunum.  Veist hvað Össur var að tala um inni á fundi (eða hvað ekki) og veist hvað bókað er þar.  Samt er stöðugt verið að segja okkur hinum, að það sem fram fer á þessum fundum sé trúnaðarmál. 

Á meðan Samfylkingin er í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og hefur ekki gert opinberlega grein fyrir afstöðu sinni, styður hún Davíð, - svo einfalt er það!

Benedikt V. Warén, 12.11.2008 kl. 20:04

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Benedikt; Ég er að vitna til sjónvarpsviðtals við Össur og til fréttar hvað bókunina varðar.

Auðvitað ber Samfylkingin samt sína ábyrgð. Og auðvitað á Framsókn mikla sök á fjármálakrísunni vegna gjörða Halldórs, Valgerðar og félaga öll þessi allt of mörgu ár á undan. Ábyrgð Framsóknar er gríðarleg og eykst eftir því sem þú leggur meiri ábyrgð á Samfylkinguna fyrir Davíð.

Í "átveislunni miklu" á stjórnarárum helmingaskiptastjórnarinnar bauð Davíð upp á brennivínið og Valgerður var húsfreyjan sem skenkti í glösin.

Friðrik Þór Guðmundsson, 12.11.2008 kl. 20:48

10 Smámynd: Benedikt V. Warén

Friðrik.  Þakka þér það traust sem þú berð til mín, að trúa því að persóna mín geti haft einhver áhrif á að aukna ábyrgð Framsóknarflokksins í þessu máli.

Þú virðist samt vera að fara átta þig á einu mikilvægu í krossferð þinni gegn Framsóknarflokknum.  Hann var að vinna með flokki sem er miklu stærri en hann sjálfur og fór í einu og öllu eftir þeim leikreglum sem voru í gildi, og vel að merkja eftir þeim samþykktum ESB, sem höfðar svo mjög til Samfylkingarinnar.  Sá flokkur hefur lengi verið heltekinn af því að ganga í ESB og taka upp Evru, enda svo sem ekki furða, þar sem Ísland búið að taka upp rúmlega 80% af tilskipunum frá Brussel og fylgir þeim samþykktum betur en ESB löndin sjálf.

Skil þar af leiðandi ekki hvað Samfylkingarfólki er í nöp við Valgerði, nær væri að hylla hana vegna vinnubragða, sem evrópusinnum ætti að vera mjög þóknanleg, - svo ekki sé meira sagt.

Benedikt V. Warén, 12.11.2008 kl. 22:31

11 Smámynd: Rýnir

Sæl öll,

ég fæ kannski að víkja aðeins að þessum orðum Sigurðar Einarssonar (afsakið lengdina).

Kannski er það bara ég sem á erfitt með að taka mikið mark á orðum Sigurðar hvað varðar Davíð.

Sigurður var stjórnarformaður fyrirtækis sem lenti í stærsta gjaldþroti Íslandssögunnar. Á sama tíma og hann lét þessi ummæli falla var m.a. hörð ádeila í þjóðfélaginu um að stjórnendur Kaupþings hefðu fengið felldar niður persónulegar ábyrgðir á lántökum í bankanum. Forstjóri og stjórnarformaður bankans eru sagðir hafa verið stærstu lántakendurnir sem fengu slíka niðurfellingu (og Sigurður jafnframt formaður stjórnarinnar sem samþykkti niðurfellinguna). Óneitanlega hefur verið þægilegt að beina allri þessari óþægilegu athygli eitthvert annað.

Auk þess verður að teljast ansi furðulegt að formaður bankastjórnar Seðlabankans á að hafa sagt þetta samkvæmt Sigurði en Seðlabankinn veitti  Kaupþingi 500 milljóna evra lán með veðum í FIH bankanum í Danmörku til að hjálpa Kaupþing að komast af! Kaupþing var eini bankinn sem fékk slíka fyrirgreiðslu og enginn smá fyrirgreiðsla það, með veðum í hlutabréfum fjármálafyrirtækis sem tæplegast verður talið sem áhugaverðasta veðið nú á dögum. Ég átta mig ekki alveg á hverskonar óvild það er?

Annars virðast óvildarmenn Sigurðar vera ansi margir. Hann hefur verið óspar á yfirlýsingar um illa innrættar erlendar greiningardeildir og fræðimenn sem sögðu eitthvað slæmt um bankann, gott ef ekki, samkvæmt honum, einungis í samkeppnislegum tilgangi og tölum nú ekki um hvort jafnvel eitthvað annarlegt eigi að hafa búið þar að baki greiningum sem komu bankanum illa.

Ef Kaupþing hefur verið í einhverjum sérstökum óvildarhóp Davíðs, hvernig stendur þá á því að bankinn varð stærsta fyrirtæki landsins og hélt höfuðstöðvum sínum á Íslandi? Höfum einnig í huga að lítill hluti efnahagsreiknings Kaupþings tengdist Íslandi.

Semsagt, ef Sigurður hefur tekið þessa meinta hótun alvarlega, hvers vegna var ekki ráðist í það að flytja bankann erlendis fljótlega eftir það... eða fyrr, því eins og hann segir, á þessi óvild að hafa staðið yfir í langan tíma, og tæplegast hefur lítið hlutfall efnahagsreiknings á Íslandi verið mikil fyrirstaða í slíkum flutningum?

Af framansögðu, á ég mjög erfitt með að taka mikið mark á orðum Sigurðar hvað þetta varðar. Kannski einhver annar geti leitt mig í allan sannleikann um þetta?

Góðar kveðjur,

Rýnir, 12.11.2008 kl. 22:32

12 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

"Þögn er sama og samþykki"?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.11.2008 kl. 23:28

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka þér fyrir skemmtilegt spjall, Benedikt, en það er misskilningur hjá þér ef þú heldur að ég tali fyrir Samfylkinguna eða sé Evrópusambandssinni. Ég er óflokksbundinn og tek ESB-aðild aðeins í mál að a. inntökuskilmálar séu boðlegir og/eða b. að við hreinlega getum ekki annað.

Ég er ekki í krossferð gegn Framsóknarflokknum. Hér og í annarri nýlegri færslu er ég einfaldlega að benda á meðábyrgð flokksins og stuðla að því að hún gleymist ekki. Eru Varmahlíðar-drengirnir, sem skrifuðu bréfið (sem Bjarni Harðar vildi leka) í krossferð gegn Framsóknarflokknum? Væntanlega ekki - og þeir eru að segja það sama og ég. Og þeim virðist mun meir í nöp við Valgerði en mér!

Ekkert að afsaka lengdina, Rýnir, nægt er plássið. Ég er sammála þér í mati á trúverðugleika Sigurðar. Aftur á móti finnst mér ekkert ótrúlegt að Davíð hafi viðhaft þessa hótun. Hún er alveg í takt við t.d. bréfasendingar frá honum sem alræmdar hafa orðið. Hún er alveg í takt við tilræðið, þegar hann fór í Kaupþing með fjölmiðla á bakinu að taka peningana sína út úr bankanum. En það er rétt; Sigurður er illa marktækur, jafnvel eiðsvarinn - og ég myndi ekki kaupa bíl af honum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.11.2008 kl. 00:06

14 Smámynd: Beturvitringur

Myndi ekki treysta honum fyrir strætómiða!

Beturvitringur, 13.11.2008 kl. 02:25

15 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

orðinn - er - hefur ávallt verið ...

Kristín Dýrfjörð, 13.11.2008 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband