Færsluflokkur: Sjónvarp

Kveðjuræða Davíðs

Það er augljóst mál að Davíð er (loks) á förum. Þrátt fyrir öll beinu og óbeinu völdin hans er deginum ljósara að "svona tala (embættis)menn ekki" - nema þá helst að þeir hafi engu að tapa. Ég dreg þá ályktun að hann hafi fyrir ræðuna fengið orð í eyra um að honum væri ekki lengur sætt í embætti. Því burt séð frá innihaldinu að öðru leyti þá er þessi ræða augljóst uppgjör manns sem leyfir sér að setja til hliðar þá staðreynd að hann er annars vegar embættismaður en ekki pólitíkus og hins vegar undirmaður (samkvæmt skipuriti!) þeirra sem hann húðskammar.

Eins og með ýmsa aðra pótintáta sér maðurinn ekki nokkra sök hjá sjálfum sér en ýmsa hjá öðrum. Hann skautar framhjá því að 90% landsmanna hafa misst alla tiltrú á hann og vilja hann burt frá kjötkötlunum. Mjög margir sjá í honum allra stærstu sökina á Hruninu - og það er ekki út af neinni lausafjárstöðu bankanna heldur vegna þess samfélagskerfis sem hann bjó til manna mest og lengst. Að því víkur Davíð ekki í ræðu sinni, en hann hefur svosem lengi varað við sumum viðskipta- og bankamönnum. Og hafi Davíð varað ráðamenn við allt frá því í febrúar þá hlýtur hann að hafa skilað því eitthvað einkennilega frá sér, því ella hefði væntanlega verið á hann hlustað. 

Fjölmiðlalagakafli kveðjuræðunnar er kapítuli út af fyrir sig, óráðstal manns sem lifir í eigin gallalausa heimi. Fjölmiðlafrumvörpin sem Davíð og Halldór stóðu fyrir voru einfaldlega ekki brúkleg. Stjórnvöld gerðu síðan ekkert með þverpólitíska niðurstöðu fjölmiðlanefndar og hættu bara við allt saman (og þar með Davíð). Þess utan er hvað eignarhald fjölmiðla varðar sú gerbreytta staða uppi núna, að 365 er komið upp í bæli með Árvakri.

Það er skelfilegt að þjóðin þurfi að fá þetta í hausinn á þessum verstu tímum. Að þjóðin þurfi að búa við veruleikafirrtan (aðal)Seðlabankastjóra. Og ríkisstjórn sem leynir eða segir í besta falli hálf-sannleik. Hörmulegt.

Ræðan bendir þó til þess að einn af sökudólgunum sé á útleið.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drög að umsókn? Já eða nei!

 Mynd 483567

Í viðtengdri Moggafrétt segir: "Utanríkisráðuneyti Íslands hefur þegar lagt drög að umsókn um aðild að Evrópusambandinu í byrjun næsta árs, eftir því sem fram kemur á fréttavefnum euobserver". Fyrirsögn með fréttinni er með spurningamerki, en fréttin fór inn kl. 9:38. Nú klukkutíma seinna hefur enginn sagt af eða á hvort frétt euobserver sé rétt.

Það eru grafalvarlegir hlutir að gerast. Sameinuð ríki Evrópu, önnur ríki og IMF hafa þvingað okkur með ofbeldi til að semja um Icesave reikningana (jú, meðal annars vegna kennitöluflakks og mismununar af okkar hálfu), stjórnvöld vilja ekki segja okkur frá skilmálum IMF fyrir láni og þessi undarlega frétt í Mogga segir að utanríkisráðherra, ef ekki ríkisstjórnin öll, hefur þegar lagt fram umsóknardrög til ESB (reyndar segir bara "lagt", ekki einu sinni "fram", hvað þá "til").

Það verður að greiða úr þessari flækju og það verða fjölmiðlar að gera strax áðan. Morgunblaðið verður að útskýra þessa frétt sína ekki seinna en áðan. Við þurfum að fá að vita um smáatriði Icesave-samninganna og IMF-skilmálanna ekki seinna en í síðustu viku!

Það er morgunljóst að stjórnvöldum er ekki treystandi til að vinna að málefnum Íslands að tjaldabaki. Mér sýnist að ekki sé einasta þörf á utanþingsstjórn, heldur að hún verði skipuð óháðum erlendum sérfræðingum! Bara ekki frá ESB, auðvitað. Suður-Ameríka kemur fyrr upp í hugann. Hugo Chavez er kannski til í slaginn.


mbl.is Drög lögð að umsókn um ESB-aðild?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segir Inga Jóna hans Geirs?

 Nú er deilt um gjörðir Hannesar Smárasonar hjá FL group. Agnes Bragadóttir blaðamaður Moggans hefur upplýst um að því er virðist borðleggjandi lögbrot Hannesar. Þetta hlýtur að sæta lögreglurannsókn.

Í því sambandi vantar ekki vitnin með vitneskjuna. Fyrst þrír og svo aðrir þrír stjórnarmenn FL sögðu sig úr stjórn FL að sögn vegna misgjörða og lögbrota Hannesar. Svo hrökklaðist forstjórinn, Ragnhildur Geirsdóttir, frá með 120 milljón króna þagnar-plástur fyrir munninum, ef ég skil Agnesi rétt.

 Áréttað: Stjórnarmenn í FL Group gengu úr stjórn, að því er virðist í mótmælaskyni, vitandi af hegningarlagabroti - en gerðu ekkert annað með það. Fóru ekki til löggunnar með vitneskju sína. Meðal þessara stjórnarmanna var eiginkona þáverandi fjármálaráðherra, núverandi forsætisráðherra, Inga Jóna Þórðardóttir. Er þetta boðlegt? Þarf ekki að spyrja þessar manneskjur um hvers vegna þær hylmdu yfir lögbrot? Er ekki rétt að fjalla um þetta örlítið, en láta frekar eiga sig að fjalla um sömu eiginkonu og setu hennar í einhverju uppstríluðu listaapparati sem litlu sem engu skiptir?

Kannski fjölmiðlar sjái ekki ástæðu til að taka þetta fyrir. En rannsóknar- og ákæruvaldið hlýtur að hafa á þessu svakalegan áhuga. Er það ekki Björn?


mbl.is Hannes vísar ásökunum á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skömmustulegir fjölmiðlar

 Mynd 483006

Áfram hriktir í stoðum fjölmiðla landsins og nú hefur Viðskiptablaðið (í eigu Bakkavararbræðra/Exista) ákveðið að draga saman seglin og koma út bara einu sinni í viku (eins og áður fyrr) (sjá hér). Það er kannski við hæfi að einmitt viðskiptablöð landsins og -kálfar dragi saman seglin (!?) um leið og blaða- og fréttamenn einmitt þessara tegundar umfjöllunar horfa stíft í eigin barm.

Mér finnst margt benda til þess, að þótt fjölmiðlar landsins séu að reyna að standa sig í umfjöllun um "kreppuna" þá séu þeir enn ansi vanmáttugir. Ég til dæmis skil ekki hvers vegna ekki er betur gengið í tafirnar á afgreiðslu IMF og hvað býr þar að baki. Og Agnes hefur enn ekki farið í saumana á samsæri/samráði alþjóðlegu stofnananna (seðlabankanna) gegn Íslandi. Hún hefur hins vegar dustað rykið af gamalli vitneskju sinni um meint lögbrot Hannesar Smárasonar hjá FL Group. Í því sambandi er afar athyglisvert að stjórnarmenn í FL Group gengu úr stjórn, að því er virðist í mótmælaskyni, vitandi af hegningarlagabrotinu - en gerðu ekkert annað með það. Fóru ekki til löggunnar með vitneskju sína. Meðal þessara stjórnarmanna var eiginkona þáverandi fjármálaráðherra, núverandi forsætisráðherra. Er þetta boðlegt? Þarf ekki að spyrja þessar manneskjur um hvers vegna þær hylmdu yfir lögbrot? Er ekki rétt að fjalla um þetta örlítið, en láta frekar eiga sig að fjalla um sömu eiginkonu og setu eiginkonunnar í einhverju listaapparati?

Eins og margir aðrir í samfélaginu eru fjölmiðlamenn nú heldur skömmustulegir yfir því að hafa sofið á verðinum í aðdraganda hrunsins mikla. Skömmustulegastir af öllum fjölmiðlamönnum hljóta einmitt að vera mennirnir með mestu sérþekkinguna á viðskiptalífinu; blaða- og fréttamenn viðskiptablaðanna og -kálfanna. Allir voru menn meðvirkir með útrásinni, góðærinu; en Þeir mest. Einhverjir þeirra voru beinlínis jákvæðir þátttakendur í veislunni. Einnig hljóta ritstjórar og fréttastjórnar manna mest að vera að stara í eigin barm.

Sjálfur finn ég fyrir skömm, því ég brást líka. Mest allt árið 2007 og hálft árið 2008 reyndi ég (í hálfri rannsóknarstöðu hjá Kastljósi) að fylgjast með viðskiptalífinu og meta og greina ýmsar ábendingar og fullyrðingar sem bárust um t.d. Baug, Straum-Burðarás, FL Group og fleira. hvað rakst á annars vegg, fullyrðingar voru ósamhljóða, staðfestingar fengust ekki, pappírsslóðin var óljós og dulin og staðfestandi gögn almennt af skornum skammti. Samt hefði ég átt að gera betur og breytir litlu þótt um mjög flókin mál sé að ræða og gífurlega ruglingsleg krosseignatengsl. Ætli megi ekki segja að mönnum hafi fallist hendur og kosið að fjalla um auðunnari mál.

Mogginn hefur viðurkennt annmarkana í umfjöllun sinni, en samt bent á ýmis "varnaðarorð" í aðdraganda hrunsins, sem enginn hafi þó hlustað á. Gallinn við þetta sjónarhorn Moggans er að í raun fjallaði Mogginn ekki sjálfstætt um yfirvofandi krísu. Mogginn greindi frá neikvæðum viðhorfum og spám erlendra banka, greiningardeilda og matsfyrirtækja og fjallaði um þetta í viðhorfagreinum (leiðurum, Reykjavíkurbréfum) en gerði enga sjálfstæða úttekt - sendi engar Agnesur í málið. Því nefni ég þetta, að mér virðist sem fjölmiðlar almennt séu enn við þetta sama heygarðshorn - í besta falli.

 Og ekki lagast staðan við það að sumir fjölmiðlanna eru að hverfa, aðrir að draga saman seglin og segja fólki upp og kannski besta (dýrasta!) fólkið að fjúka fyrst. Kannski er óttinn við eigendurna og atvinnuöryggið aldrei meiri en nú og ekki er það gott vegarnesti í átak til betri frammistöðu!


mbl.is Framtíðarsýn í greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar brugðust - en ekki var hlustað á það sem þó var gert

  Fjölmiðlar 365 eru til húsa í Skaftahlíð

Blaða- og fréttamenn komu saman í gærkvöldi á málþingi um áhrif fjármálakrísunnar á fjölmiðla, um frammistöðu fjölmiðla í aðdraganda hrunsins og um samþjöppunina á eignarhaldi fjölmiðla. Þetta var góður og þarfur fundur. Brugðust fjölmiðlar? Svarið reyndist já og nei. Meira þó já.

Erindi fjögurra frummælenda málþingsins voru öll athyglisverð og upplýsandi. Kristinn Hrafnsson í Kompási sagði fjölmiðlamenn hafa brugðist sem hópur og að í ljós hefði komið alvarleg brotalöm á lýðræðinu og getu fjölmiðlanna til að sinna skyldum sínum í þágu lýðræðisumræðunnar. Hann kallaði eftir því að fjölmiðlar stæðu betri vörð um lýðræðið og auðsýndu betra aðhald að stjórnvöldum og fyrirtækjum og mótmælti um leið sífelldum atvinnurógi þeirra sem tala um "Baugsmiðla". Óðinn Jónsson fréttastjóri RÚV notaði tíma sinn aðallega til að mótmæla því að Blaðamannafélagið hefði ályktað í þá veru að RÚV drægi saman seglin á auglýsingamarkaði. Hann taldi RÚV hafa staðið sig í aðdraganda hrunsins en eflaust getað gert betur. Ólafur Stephensen, ritstjóri Morgunblaðsins, sagði að blaðið hefði með fjölda frétta og greina sent "varnaðarorð" allt frá 2005 og benti á samantekt Björns Vignis Sigurpálssonar í blaðinu 25. október því til stuðnings. Morgunblaðið hefði litlar þakkir fengið fyrir. hann viðurkenndi þó að blaðið hefði átt að keyra enn frekar á þetta, en ritstjórnin hefði trúað því að bankakerfið hefði styrkt sig. Morgunblaðið hefði hvorki verið málpípa né sofnað á verðinum þótt það hefði getað gert betur. Spurninganna hefði þó verið spurt, en illa gengið að fá svör. Valgerður Jóhannesdóttir, verkefnastjóri meistaranáms í blaða- og fréttamennsku við HÍ, sagði fjölmiðla landsins vera óburðuga hvað sérþekkingu, tímaþröng, vinnuálag og fleira varðar. Hún telur áhrif eigenda á ritstjórnarstefnu ekki vera aðalvandamálið, heldur miklu frekar þessir fyrrnefndu þættir. Blaðamenn væru að breytast í afritunarverksmiðjur, framleiðslukröfur væru að aukast og blaðamenn í æ ríkara mæli fastir við tölvu sína og síma (í stað þess að fara á vettvang). Það mætti svo sem velta fyrir sér hvort eigendur fjölmiðla vilji einmitt hafa þá svona óburðuga!

Umræðurnar á eftir erindunum voru ágætar og ljóst að blaða- og fréttamenn vilja og ætla sér að læra sína lexíu. Ég leyfði mér á fundinum að spyrja tveggja spurninga af krítískari sortinni. Ég spurði Ólaf Stephensen hvort "varnaðarorð" Moggans væru í raun aðhald ef enginn hefði hlustað á þau - ef ekkert hefði breyst. Eðlilega er erfitt að svara svona spurningu, en Ólafur sagði vissulega súrt ef alvarleg umfjöllun skilaði engu. Ég spurði líka Kristinn Hrafnsson um hvort ekki mætti segja að Kompás hafi verið með rangar áherslur í verkefnavali; nánast aldrei fjallað um viðskiptalífið, en þeim mun meira um (vissulega mikilsverð mál) barnaníðinga, ofbeldi, fíkn, sjúkdóma. Kristinn minnti á að í nóvember í fyrra hefði Kompás verið með þátt um peningamálastefnu Seðlabankans og lagt í hann mikla vinnu; niðurstaðan hefði verið að peningamálastefnan væri handónýt og væri að leiða okkur til glötunar. Hins vegar hefðu viðbrögðin engin orðið og það hefði sjálfsagt dregið máttinn úr því að fjalla meir um slík mál.

Er niðurstaðan sú að fjölmiðlar hafi að mestu brugðist, en að alls ekki hafi verið hlustað á það sem þó var sagt og gert? Sennilega er það réttmæt lýsing. Við vorum öll meðvirk í góðærinu og útrásinni og tókum höndum saman um að ísland væri best í heimi. "Varnaðarorð" voru send út, en þau voru hjáróma og enginn vildi hlusta á þau. Þess utan eru fjölmiðlar allt of óburðugir, skortir sérþekkingu, skortir tíma til að vinna mál, skortir fjármagn og eru meðvirkir samfélagsandanum og kannski eigendum sínum (óbeint að minnsta kosti, með sjálfsritskoðun og slíku). Fjölmiðlar landsins eru hvað vinnuskilyrði varðar að vinna "kraftaverk á hverjum degi", en það er ekki nóg. Ekki síst þurfa fjölmiðlar landsins á blaða- og fréttamönnum með sérþekkingu á viðskiptum og efnahagsmálum; sem ekki gerast samstundis meðvirkir með forstjórum landsins og dúkka fljótlega upp sem starfsmenn og/eða hluthafar í þeim fyrirtækjum sem þeir fjalla um! Umfram allt þurfa blaða- og fréttamenn að standa stífir á sínum faglegu prinsippum og vinna að því að virkja betur sín faglegu vopn.

Að lokum þetta: Þegar talað er um frammistöðu fjölmiðlamanna, samþjöppun eignarhalds og möguleg bein eða óbein áhrif eigenda, þá er ósköp eðlilegt að smásjáin beinist að ritstjórum fjölmiðlanna. Þeir eru ekki bara yfirmennirnir, heldur yfirleitt einu meðlimir ritstjórnanna sem hafa verið handpikkaðir af eigendunum. Ingimar Karl Helgason fréttamaður kom inn á þetta á málþinginu og spurði sem svo, hvort einhver von væri um bata þegar (hinir sérvöldu) ritstjórar væru "allir af sama sauðahúsi", þ.e. miðaldra hægrisinnaðir karlmenn. Þessu var mótmælt af viðstöddum yfirmönnum, en mér finnst þetta mjög góð pæling.

Og svo að lokalokum: Sýnir sagan ekki að á svona ólgutímum fæðist nýir fjölmiðlar? Umræða um samþjöppun og einsleitni á fjölmiðlamarkaðinum gæti og ætti að skila sér í fjöldahreyfingu fagmanna og almennings fyrir því að stofna nýtt krítískt vikublað (með vefútgáfu). Nú er jarðvegur fyrir slíkt og að ég hygg áhugi meðal almennings. Það skyldi þó aldrei verða?


mbl.is Tilbúinn til að fara niður fyrir 40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlamenn gegn áhrifum Jóns Ásgeirs

 Hlustaði á utandagskrárumræðurnar um stöðuna á fjölmiðlamarkaðinum, sem fram fóru á Alþingi áðan. Allveg merkilegt hve svona þingumræður geta verið innihaldssnauðar og fátækar af lausnum og hugmyndum. Hvað um það: Það kom fram sem máli skiptir, að grípa verður inn í til að stöðva einokunartilburði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi á fjölmiðlamarkaðinum.

Það var reyndar hlálegt að sjá Sigurð Kára Kristjánsson gerast töffari og minna á þegar bananar voru settir á tröppur þinghússins í mótmælum gegn fjölmiðlafrumvarpi fyrir fjórum árum.  Það er enda reginmunur á stöðunni á fjölmiðlamarkaðinum þá og nú og reginmunur á þeim hugmyndum að fjölmiðlalögum sem Davíð og Halldór stóðu fyrir og hinum sem þverpólitísk samstaða náðist um og einnig þeim sem nú er full þörf á að sjái dagsins ljós. Upprunaleg fjölmiðlafrumvörp, sem banana-mótmælin beindust gegn, voru haturs-aðgerðir Davíðs gegn Baugi og ekkert annað.

Ég sagði á þeim tíma að staðan væri þó þolanleg meðan Árvakur og 365 ættu í samkeppni. Nú er sú forsenda gufuð upp og nú er að óbreyttu komin upp sannanleg einokun. Nú veitti ekki af faglegum fjölmiðlalögum. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að staðan hefur gerbreyst til hins verra.

Fjölmiðlamenn landsins koma saman á morgun til skrafs og ráðagerða á málþingi. Þar verður meðal annars rætt hvernig fjölmiðlar landsins gersamlega brugðust í aðdraganda banka- og þjóðfélagshrunsins og þar verður hin nýja einokunarstaða áreiðanlega líka rædd í þaula. Mér finnst mikilvægt að tækifærið verði notað og að íslenskir blaða- og fréttamenn strengi þess heit að halda Jóni Ásgeiri og kónum hans fyrir utan múra ritstjórnanna - með öllum ráðum. Enn mikilvægara er að ritstjórar og fréttastjórar stígi á stokk og strengi þess heit að fagmennska ein muni ráða för en ekki óskir Eigandans. Fjölmiðlamenn verða að rísa upp og sameinast gegn Berlusconi/Murdoch Íslands. Helst af öllu þarf að knýja ódáminn til að selja allar eða stóran hluta af fjölmiðlaeigum sínum í dreift eignarhald.


mbl.is Rosabaugur Jóns Ásgeirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþýðan fær ekkert að vita

Það eru á fjórða tug efnisatriða í "aðgerðaáætluninni" milli Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og við pöpullinn höfum fengið að vita um eitt þeirra; sársaukafulla stýrivaxtahækkun. Eru efnisatriðin þó ekki trúnaðarmál af hálfu IMF, heldur eingöngu ríkisstjórnar Íslands. Engin önnur niðurstaða er rökleg, önnur en að fleiri og kannski verri skilyrði séu þarna á ferðinni, sem talið er betra að þegja sem lengst yfir. Til að mynda til að ýta ekki undir mótmælaöldurnar.

Fjölmiðlar hafa ekki upplýst um þessi þrjátíu og eitthvað atriði og jafnvel ekki leitast við að finna út úr þeim. Í millitíðinni verður pöpullinn að giska í óvissu sinni og vona það besta, en búa sig undir það versta. Þjóðin vill fara til vinstri og hverfa frá (ný)frjálshyggjuofuráherslunni, en viðbúið er að skilyrði IMF lúti einmitt að ýmsum breytingum í "frelsis"átt, meira en verið hefur. Einkavæða Íbúðalánasjóð, einkavæða í velferðarkerfinu, skera niður útgjöld til velferðarmála, frelsisvæða innflutning á landbúnaðarafurðum, "hreinsa"til í atvinnulífinu (leyfa veikum fyrirtækjum að fara á hausinn) og svo framvegis. Þöggunin gefur mér leyfi til að giska og ég á von á hinu versta frá IMF, sem gert hefur heiminum mun meira ógagn en gagn.

Það er mér mikið undrunarefni af hverju fjölmiðlar hafa ekki lagt ofuráherslu á að upplýsa um þessi atriði. helst dettur mér í hug að "leynifundir" með ráðherrum hafi skilað sér í þöggun. Útvaldir ritstjórar vita þá eitthvað sem við hin erum of ófullkomin að meðtaka, að því er virðist.

Ég vona að ég hafi í einu og öllu rangt fyrir mér í þessari færslu.


mbl.is Viljayfirlýsing tekin fyrir í stjórn IMF á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamenn gegn Berlusconi Íslands

Jón Ásgeir Jóhannesson er orðinn eins og fjölmiðlamogúlarnir Murdoch og Berlusconi. Það eru menn sem eiga allt of mikið af fjölmiðlum og hafa allt of mikil áhrif á verkefnaval og áherslur fjölmiðla. Blaða- og fréttamenn hljóta auðvitað að fagna því ef þessar nýjustu hræringar styrkja viðkomandi fjölmiðla, en jafn innilega ber þeim að afneita beinum og óbeinum áhrifum stóreigandans á ritstjórnarstefnu fjölmiðlanna.

Menn eins og Murdoch og Berlusconi hafa afgerandi áhrif á ritstjórnarstefnu fjölmiðla sinna. Það verður með ráðum og dáð að stöðva slíka tilhneigingu hér á landi. Blaða- og fréttamenn verða beinlínis að gera sér far um að passa upp á að eigandinn og fyrirtækjasamsteypa hans fái hið minnsta jafn mikið aðhald og krítíska umfjöllun og önnur fyrirtæki og einstaklingar. Fjölmiðlar 365 og Árvakurs mega ekki detta í þann fúla forarpytt að taka upp stefnu Landsbanka-Bjögganna og Baugs. Á ritstjórnarfundum ber blaða- og fréttamönnum þessara miðla að standa gegn ritstjórum og fréttastjórum sem vilja hlífa þessum stóreigendum. Þeir hafi í huga hvers vegna menn á borð við Bjöggana og Jón Ásgeir leitast við að eiga fjölmiðla - það er ekki vegna þess að þeir skili miklum arði. Það er ekki vegna lýðræðisástar. Það er vegna valda og áhrifa.


mbl.is Félag Jóns Ásgeirs keypti fjölmiðla 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallvalt hjá foringjum og fjölmiðlum

ekki benda á migNú þegar aldrei hefur verið eins mikil þörf á virku upplýsingaflæði og aðhaldi fjölmiðla að stjórnvöldum og stórfyrirtækjum blasir við að eigendur fjölmiðlanna eru að draga saman seglin; fækka í ritstjórnum og allt upp í að leggja fjölmiðla niður. Það er vond staða, ekki síst í ljósi þess að ýmislegt það er að gerast við landsstjórnunina og í orðum og gjörðum valdamanna sem þarfnast nákvæmrar skoðunar við.

Blaðið 24 stundir er hætt, 365 ehf hefur runnið inn í Árvakur, DV er að verða örblað með óvissa framtíð, Skjár einn hefur sagt öllum við (sem snertir svo sem ekki fréttirnar), Árvakur er að segja upp fólki og fleiri eru að rifa seglin. Þegar svo háttar getur óttinn við atvinnuöryggið heltekið blaða- og fréttamenn og þeir auðsýna síður djörfung og frekar sjálfsritskoðun; því atvinnuöryggið er hjá svo mörgum ofar á blaði en eltingaleikurinn við sannleikann og upplýsingarnar. Það er á margan hátt skiljanlegt, en getur lamað upplýsingahlutverk fjölmiðla fram að og fram yfir skaðsemismörk.

Gjörðir Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar nú, vitneskja þessa fólks um yfirvofandi krísu og aðgerðir eða aðgerðarleysi (og þöggun) þarfnast til dæmis ítarlegrar skoðunar. Svipað og Bretar ætla nú að skoða ofan í kjölinn hvað Brown og Darling vissu um Íslensku stöðuna en sögðu ekki frá. Kortlagning aðdragandans að krísunni, síðustu 2-3 árin, en ekki síst síðustu 6-8 mánuðina, ætti að vera forgangsverk hjá fjölmiðlum. Í þetta eiga reyndir fjölmiðlamenn að fara, en hinir reynsluminni geta séð um "stöndum saman" hliðarnar og talað við blessaða prestana og sálfræðingana.

Eigendur fjölmiðlanna verða að hugsa um ábyrgð sína núna þegar þeir rifa seglin. Skilja örugglega beittustu pennana eftir og gefa þeim gott ráðrúm til að greina þjóðfélagsástandið. Því verður ekki trúað að fjölmiðlaeigendur eins og Baugsfólk, Landsbanka-Bjöggar, Bakkavararbræður og fleiri reyni að lama fjölmiðla sína niður í getuleysi og tilkynningaskyldu.

"Hvar voru íslenskir fjölmiðlar í aðdraganda bankahrunsins á Íslandi? Stóðu þeir sig í stykkinu, eða brugðust þeir almenningi? Veittu þeir stjórnvöldum aðhald eða voru þeir málpípur auðmanna? Og hvernig gengur þeim að svara þeim fjölmörgu spurningum sem vakna í kjölfar efnahagshrunsins? Hvaða áhrif hafa sameiningar og samþjöppun á fjölmiðlamarkaði á getu miðlanna til þess að standa undir nafni?" Svo spyr Blaðamannafélagið sem efnir til málþings í Kornhlöðunni miðvikudagskvöldið 5. nóvember næstkomandi kl. 20. Ástæða er til að hvetja fjölmiðlamenn til að mæta og stappa stálinu í hvora aðra.


Fjórir frummælendur verða á þinginu, þau Kristinn Hrafnsson, fréttamaður hjá Kompási, Óðinn Jónsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins, Ólafur Stephensen, ritstjóri Morgunblaðsins og Valgerður Jóhannsdóttir, fyrrv. fréttamaður og verkefnisstjóri meistaranáms í blaðamennsku við Háskóla Íslands. Fundarstjóri verður Elva Björk Sverrisdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu. Málþingið er haldið á alþjóðlegum degi til varnar blaðamennskunni - og veitir ekki af vörnum nú. Miklir óvissutímar eru framundan og veitir almenningi þá ekki af að hafa sæmilega öfluga fjölmiðla, einkum þegar við blasir að breyskir stjórnmálamenn eru gjarnan að þegja yfir málum og jafnvel segja ósatt.


mbl.is Geir aðvaraði Brown í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segið frá skilyrðum IMF ekki seinna en strax!

Það er gjörsamlega með ólíkindum að ekki sé nú þegar og helst í gær eða fyrradag búið að upplýsa þjóðina um skilyrðin (eða tilmælin) í samningi Íslands við IMF (Alþjóðagjaldeyrissjóðinn). IMF hefur upplýst, þvert ofan í orð ráðamanna hér, að skilyrðin séu af hálfu IMF ekki trúnaðarmál. Annað hvort hafa ráðherrarnir okkar misskilið þetta eða sagt ósatt.

Geir, Ingibjörg Sólrún, Árni Matt og kannski fleiri sögðu þegar samningurinn við IMF að ekki væri hægt að greina frá skilyrðunum, að því er virðist af virðingu við stjórn IMF, sem tekur afstöðu til samningsins 5. nóvember.  Haldinn var blaðamannafundur þar sem skilyrðunum var leyft að hanga í lausu lofti og vera dularfull. Í kjölfarið hélt sendinefnd IMF blaðamannafund og talaði ósköp frjálslega um skilyrðin. Svo var stórhækkun stýrivaxta hrint í framkvæmd og Seðlabankinn húðskammaður - og sá þá Davíð Seðlabankastjóri sig knúinn til að upplýsa um einn liða af guðmávita hve mörgum liðum í samningnum. Davíð sagði frá (trúnaðarmálinu?) 19. lið samningsins sem einmitt kvað á um hækkun stýrivaxta í 18%. Davíð var þarna að bjarga sjálfum sér, en gætti þess að upplýsa ekki umliði 1-18 eða liði eftir númer 19.

Ráðamenn hafa undirstrikað að hækkun stýrivaxtanna hafi EKKI verið skilyrði af hálfu IMF. Við hljótum því að hafa ákveðið þetta sjálf og óþvinguð. En hvað með trúnaðinn?  RÚV hefur upplýst:

"Ríkisstjórnin hefur haldið því fram að ekki megi greina frá þeirri efnahagsáætlun sem lögð er til grundvallar aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrr en framkvæmdastjórn hans hefur afgreitt lánsumsóknina. Í tölvupóstinum til RÚV sagði  hinsvegar upplýsingafulltrúi sjóðsins að það væri ákvörðun ríkisstjórnar Íslands hvort áætlunin yrði gerð opinber" (Innlent - miðvikudagur, 29. október, 2008 - 18:23).

Þetta er stórfurðulegt og fjölmiðlar mættu gjarnan upplýsa um þetta. Var aldrei trúnaður á samningnum og skilyrðum hans eða tilmælum? Á þjóðin þá ekki rétt á að vita sem mest um þennan samning og það sem fyrst? Er ekki lýðræðisleg nauðsyn að upplýsa nú þegar um alla liðina í samningnum? Geir hefur sagt að engin beiti okkur fjárkúgun, að engin íþyngjandi skilyrði hafi verið sett og fram hefur komið að IMF heimtaði ekki stórfellda stýrivaxtahækkun. Nú vil ég sjá restina af skilyrðinum ásamt upplýsingum um hver hafi krafist hvers liðar fyrir sig. Langar ekki fleirum til að sjá þetta löngu fyrir fundinn 5. nóvember?


mbl.is Óbarinn seðlabankastjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband